Djúpivogur
A A

Lög um grunnskóla

Hér gefur að líta 5. kafla laga um grunnskóla, kafla þann er snýr að foreldrum.

V. KAFLI
Foreldrar

18. gr.
Foreldrar og meðferð upplýsinga.

    Foreldrar skulu gæta hagsmuna barna sinna á skólaskyldualdri. Foreldrar eiga rétt á að velja grunnskóla innan sveitarfélags fyrir börn sín samkvæmt reglum sveitarfélagsins. Jafnframt skulu þeir eiga rétt á upplýsingum um skólastarfið og skólagöngu barna sinna.
    Foreldrum er skylt að veita grunnskóla upplýsingar um barn sitt sem nauðsynlegar eru fyrir skólastarfið og velferð barnsins. Um persónuupplýsingar sem þannig er aflað eða fylgt hafa barni úr leikskóla er krafist fullrar þagnarskyldu og málsmeðferðar í samræmi við gildandi lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Foreldrum skal gerð grein fyrir þessum upplýsingum. Meðferð upplýsinga skal vera á hendi skólastjóra eða annarra sérfræðinga á vegum sveitarfélagsins samkvæmt nánari ákvörðun þess. Ráðherra setur reglugerð um meðferð, eyðingu og miðlun upplýsinga og um rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín.
    Foreldrar skulu hafa samráð við skólann um skólagöngu barna sinna, fylgjast með og styðja við skólagöngu þeirra og námsframvindu og stuðla að því að börnin mæti úthvíld í skólann og fylgi skólareglum. Þeir skulu fá tækifæri til að taka þátt í námi barnsins, svo og í skólastarfinu almennt.
    Eigi í hlut foreldrar sem ekki tala íslensku eða nota táknmál skal skóli leitast við að tryggja túlkun á upplýsingum sem nauðsynlegar eru vegna samskipta foreldra og skóla samkvæmt þessari grein.

19. gr.
Ábyrgð foreldra.

    Foreldrar bera ábyrgð á námi barna sinna og ber þeim að fylgjast með námsframvindu þeirra í samvinnu við þau og kennara þeirra. Foreldrar skólaskylds barns bera ábyrgð á að það innritist í skóla þegar það kemst á skólaskyldualdur og sæki skóla. Verði misbrestur á skólasókn skólaskylds barns, án þess að veikindi eða aðrar gildar ástæður hamli, skal skólastjóri leita lausna og taka ákvörðun um úrbætur. Jafnframt skal hann tilkynna barnaverndaryfirvöldum um málið. Skólastjóri skal fara að ákvæðum stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Ákvörðun er kæranleg eftir fyrirmælum 47. gr.
    Í úrskurði getur menntamálaráðuneyti lagt fyrir sveitarfélag að tryggja nemanda tiltekin kennsluúrræði, þ.m.t. að veita honum aðgang að tilteknum skóla innan sveitarfélagsins.


Lög um grunnskóla í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

Var efnið hjálplegt?