Djúpivogur
A A

Skólanámskrá

Grunnskóli Djúpavogs er einstakur skóli.

Samheldni starfsfólks, nemenda og forráðamanna er mjög mikil og er það sameiginlegt markmið okkar allra að hér líði öllum vel og að allir fái menntun við hæfi. Þarfir einstaklingsins eru hafðar í fyrirrúmi, en að sama skapi er lögð mikil áhersla á samvinnu og samkennd. Maður er manns gaman og það á svo sannarlega við hér hjá okkur.

Í skólanum fer fram fjölbreytt starf og við erum í sífellu að auka gæði náms og kennslu og erum við í alltaf að bæta við nýjum kennsluháttum. Við leggjum sérstaka áherslu á umhverfis- og grenndarnám. Stefnt er að því að tengja starf skólans sem mest við umhverfi hans og fyrri reynslu nemenda, svo þeir hafi forsendur til að meta uppruna sinn og umhverfi að verðleikum. Auk þess á allt starf skólans að miða að því að nýta kosti, sérstöðu og séreinkenni byggðarlagsins sem mest.

Þá skal stefnt að því að nemendur og starfsfólk skólans verði sér meðvitað um samspil manns og náttúru og temji sér að umgangast allt umhverfi sitt af virðingu og alúð. Því er lögð áhersla á öfluga umhverfisfræðslu semeinkennist af umfjöllun um Djúpavogshrepp, vistfræði sveitarfélagins og umhverfisvernd. Lögð er áhersla á að nemendur geri sér ljósa grein fyrir mikilvægi verndunar lífræns og lífvana umhverfis og stuðli að því með hegðun sinni að viðhalda þeim möguleikum sem ómenguð og óspillt náttúra býr okkur.

Starfsfólk og nemendur skulu einnig verða meðvitaðir um sögu og menningu sveitarfélagsins síns, atvinnuhætti og sitt nánasta umhverfi.

Nemendur og starfsfólk læri að koma fram hverjir við aðra af virðingu, umburðarlyndi og víðsýni, læri að meta séreinkenni hverrar manneskju og hjálpist að við að styrkja hvert annað þar sem það á við.

Skipulag einstakra námsgreina má finna inni á Mentor.is. Þar skal velja "Námsáætlanir." Þá birtast allar námsgreinar sem tilheyra viðkomandi bekk.

Var efnið hjálplegt?