Djúpivogur
A A

Skólaakstur


Sveitarfélag / skóli

  • Skólaakstur er skipulagður miðað við þarfir grunnskóladeildar Djúpavogsskóla. Heimilt er þó að flytja leikskólabörn með skólabílum ef pláss er í bílnum enda lengist dagleg akstursleið skólabíls ekki. Leikskólabörn skulu hafa náð þriggja ára aldri til að geta nýtt akstur með skólabíl. Elsti árgangur leikskólabarna hefur ávallt forgang ef framboð sæta í skólabílnum er takmarkað. Að öðru leyti gildir aldursröð barnanna, þau eldri hafa forgang fram yfir þau yngri.
  • Daglegur skólaakstur er samkvæmt skólaakstursáætlun sem skólastjóri vinnur fyrir hvert skólaár í samræmi við kennsluskipan. Fjöldi barna getur verið breytilegur á milli ára. Skipulagi skólaasksturs verður að öllu jöfnu ekki breytt innan skólaárs nema til komi fjölgun/fækkun grunnskólabarna sem nýta skólaakstur.
  • Starfsfólk leikskóla sér um að klæða leikskólabörnin og gera þau tilbúin fyrir heimferð. Fara með þau út í skólabíl og festa í stólana sína. Að morgni er það starfsmaður leikskólans sem tekur á móti börnunum við skólabílinn, fylgir þeim inn, hjálpar þeim úr og inn á sínar deildir.
  • Skólastjóri metur hvort þörf sé á gæslumanni í skólabifreið með hliðsjón af öryggi, fjölda, aldri nemenda og samsetningu nemendahópsins sem ferðast með bifreiðinni, vegalengd og öðrum aðstæðum.

Farþegar / foreldrar

  • Skólareglur, skv. 30. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla, eiga við um framkomu og háttsemi nemenda í skólaakstri. Fara skal með brot á skólareglum skv. 14. gr. sömu laga.
  • Nemendur skuli vera tilbúnir til að fara upp í skólabílinn þegar hann kemur í hlað á morgnana og þegar að heimferð er komið.
  • Foreldrar leikskólabarna þurfa að sækja um pláss í skólabíl með góðum fyrirvara, t.d. að vori, fyrir næsta skólaár.
  • Foreldrar leikskólabarna (þar sem ekki eru einnig grunnskólabörn) skulu koma börnum sínum að akstursleið skólabíls. Hafa skal samráð við bílstjóra um stoppistöð bíls.
  • Foreldrar barna bera ábyrgð á að útvega viðurkennda barnabílstóla fyrir sitt barn, sem einungis verður notaður af því.
  • Forðast skal að trufla bílstjórann á meðan á akstri stendur, nema nauðsyn beri til.
  • Ganga skal vel um bílinn og allt sem í honum er. Farþegar eiga að taka allar eigur sínar út úr bílnum eftir hverja ferð og henda rusli sem til fellur
  • Neysla sælgætis, gosdrykkja, tóbaks og áfengis er óheimil í skólabílnum.
  • Sýna ber samferðarfólki kurteisi og tillitssemi í skólabílnum.
  • Ef foreldrar hafa áhuga á að senda barn sitt sem "gest" með skólabíl skal ræða þá fyrirætlan við skólabílstjóra og fá samþykki hans fyrir aukafarþega með góðum fyrirvara.
  • Starfsmenn Djúpavogsskóla geta nýtt sér ferðir skólabíls að fengnu samþykki skólabílstjóra.
  • Bílstjórar eru ekki skyldugir til að taka aukafarangur svo sem hjól nemenda með í skólabílinn.
  • Þegar skólabíll er notaður til að keyra nemendur á viðburði á vegum skólans (s.s. fjarðarball) skulu nemendur sitja með beltin spennt meðan bifreiðin er á akstri og gæslumenn skulu vera sérstaklega vakandi yfir þvi að framfylgja því.

Bílstjórar / verktakar

  • Bílstjórar / verktakar skulu sýna trúnað um öll mál er þeir kunna að fá vitneskju um í starfi sínu og snerta einstaka nemendur, foreldra þeirra eða aðstandendur..
  • Bílstjóri heldur uppi aga í skólabíl og gætir þess að skólareglum Djúpavogsskóla sé fylgt í bílnum.
  • Stríðni og einelti er aldrei liðið í skólabílnum. Komi upp vandamál í skólabíl svo sem vanlíðan, einelti eða stríðni, eða verði skólabílstjóri var við að eitthvert barnanna eigi í erfiðleikum ber honum að ræða það við skólastjóra.
  • Skólabílstjóri sér um að stólar séu rétt festir og börn setji á sig öryggisbelti. Ekki skal leggja af stað fyrr en öll öryggisatriði hafa verið uppfyllt.
  • Bifreiðastjóra ber að sýna sérstaka aðgát áður en nemendum er hleypt út úr skólabifreið.
  • Ekki er heimilt að skipta um bílstjóra skólabíls nema skólastóri sé upplýstur um það með hæfilegum fyrirvara. Gert er ráð fyrir að verktaki sé að öllu jöfnu bílstjóri en þó er heimilt að semja um annað.
  • Verktaki skal sjá til þess að bifreið sú sem notuð er til skólaakstursins uppfylli öll ákvæði laga, reglugerða og settra reglna um gerð, búnað og merkingu sem í gildi eru á hverjum tíma. Kostnað við breytingar sem upp kunna að koma vegna breyttra laga, reglugerða og settra reglna um gerð og búnað hennar, skal eigandi bera sjálfur. Allar bifreiðar sem notaðar eru til að aka nemendum á vegum skólans verða að hafa öryggisbelti í öllum sætum. Bifreiðar sem notaðar eru til aksturs á skólabörnum skulu vera snyrtilegar, loftgóðar og reyklausar.
  • Bifreiðastjóri leggur mat á hvort aðstæður séu með þeim hætti, t.d. vegna veðráttu eða ófærðar, að breyta þurfi út frá fyrirliggjandi áætlun um daglegan skólaakstur. Tilkynna ber skólastjóra um slíkar breytingar án tafar. Skólastjóri getur eftir atvikum óskað eftir að skólaakstri sé flýtt eða seinkað vegna veðuraðstæðna. Ef veðurútlit er slæmt er bílstjóra heimilt að neita leikskólabörnum um far.
  • Komu- og brottferðartímar eiga að vera ákveðnir og stundvísi mikilvæg. Bílstjóri skal haga akstri þannig að nemendur komi á tilsettum tíma í skólann, ekki of seint og ekki heldur of snemma til að forðast aukinn biðtíma. Bílstjórar skulu að jafnaði ekki sinna einkaerindum meðan börnin eru í bílnum né láta slík erindi seinka ferðum.
  • Skólabílar eiga fasta biðstöð á skólalóð og þar er bannað að bakka. Bílstjórar skila leikskólabörnum í umsjá starfsmanns leikskóla eftir að hafa skilað grunnskólabörnum og nær í leikskólabörn í leikskólann áður en grunnskólabörn eru sótt.
  • Verði slys skal skólabílstjóri strax hafa samband við lækni, lögreglu og skólastjóra. Í vondu veðri má bílstjóri ekki sleppa nemendum úr augsýn.
  • Bílstjóri gætir þess eftir mætti að hafa opin farsíma yfir daginn ef breyta þarf áætlun.
  • Í skólabíl skal vera tafla yfir ferðir skólabíls og hvaða börn nýta hvaða ferðir.
  • Í skólabíl skal vera símaskrá með símanúmerum foreldra/forráðamanna allra barna sem nýta sér ferðir með skólabílnum.