Djúpivogur
A A

Samstarf við Leikskólann Bjarkatún

Skipulag heimsókna milli leik- og grunnskóla í Djúpavogshreppi


Elstu nemendur leikskólans og 1. bekkur grunnskólans vinna náið saman í því að byggja brú milli leik- og grunnskóla.

Í byrjun september ár hvert (á bilinu 5.-10. sept.) koma elstu nemendur leikskólans í heimsókn í grunnskólann þar sem nemendur fyrsta bekkjar, ásamt umsjónarkennara taka á móti þeim í fataklefanum og aðstoða þá við að hengja upp fötin sín og koma sér fyrir. Fyrsti bekkur og kennarinn ganga síðan um skólann og sýna leikskólanemendum allar stofur. Byrjað er á því að heimsækja starfsmannaálmu þar sem skólastjóri og aðstoðarskólastjóri taka á móti þeim og bjóða þá sérstaklega velkomna.

Síðan er farið í allar stofur í aðalbyggingu, ásamt smíðastofu. Endað er uppi í bekkjarstofu fyrsta bekkjar. Eftir stutt stopp þar fara nemendur út, skoða saman íþróttahúsið, síðan Helgafell og þar skilja leiðir.

Heimsóknir á haustönn
Fyrsta vikan í september - Leikskólinn heimsækir grunnskólann (fyrsta heimsókn)
Fyrsta vikan í október - Grunnskólinn heimsækir leikskólann
Fyrsta vikan í nóvember - Grunnskólinn heimsækir leikskólann
Síðasta vikan í nóvember - Leikskólinn heimsækir grunnskólann
Fyrsta vikan í desember - Grunnskólinn heimsækir leikskólann

Heimsóknir á vorönn


Janúar
Leikskólabörn koma á generalprufu árshátíðar

Febrúar - apríl
Leikskólabörn heimsækja grunnskólann ca. einu sinni í viku, aðra hvora viku hjá umsjónarkennara (BL og stæ) en hina vikuna aðrar kennslustundir, t.d. ensku, íþróttir o.fl.

Maí
Leikskólabörn dvelja 8-10 kennsludaga í grunnskólanum frá 8:00 – 12:00. Þeir taka þátt í starfi í skólanum eins og hentar hverju sinni.

Í ágúst ár hvert hittast umsjónarmaður Tjaldastarfs (elstu deildar leikskólans), umsjónarkennari 1. bekkjar, sérkennarar og stjórnendur á skilafundi. Farið er yfir niðurstöður úr Hljómi (frá leikskóla til grunnskóla). Auk þess er rætt um þá nemendur sem eru að skipta um skólastig (frá leikskóla til grunnskóla).

Í ágúst ár hvert hittast umsjónarkennari fyrsta bekkjar og umsjónarmaður Tjaldastarfs í leikskólanum og fastsetja dagsetningar og tímasetningar skv. ofangreindu skipulagi. Það verði síðan lagt fyrir stjórnendur og kynnt foreldrum beggja skólastiga í lok ágúst.

Í lok október skilar grunnskóli niðurstöðum úr Leið til læsis til leikskóla.


Guðrún S. Sigurðardóttir Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir,
Leikskólastjóri í Bjarkatúni Skólastjóri Djúpavogsskóla