Djúpivogur
A A

Atvinnu- og menningarmálanefnd - 01.11.2018

Atvinnu- og menningarmálanefnd - 01.11.2018

Atvinnu- og menningarmálanefnd - 01.11.2018

Ólafur Björnsson skrifaði 01.12.2018 - 08:12

2. fundur atvinnu- og menningarmálanefndar Djúpavogshrepps kjörtímabilið 2018-2022

Fundur var haldinn í atvinnu- og menningarmálanefnd Djúpavogshrepps að Bakka 1, Djúpavogi, fimmtudaginn 1. nóvember 2018 kl. 08:00. Fundinn sátu Þorbjörg Sandholt formaður, Berglind Häsler, Hafliði Sævarsson, Sigurjón Stefánsson og Bergþóra Birgisdóttir. Einnig sat fundinn Greta Mjöll Samúelsdóttir atvinnu- og menningarmálafulltrúi sem ritaði fundargerð, Þorbjörg stjórnaði fundi.

Dagskrá var eftirfarandi:

1. Fjallskil 2018
2. Fundur með stjórnendum Búlandstinds
3. Fundur með stjórn Ríkarðshúss
4. Styrkjamál
5. Opinn fundur um atvinnumál
6. Önnur mál

1. Fjallskil

Hafliði Sævarsson gerir grein fyrir fjallskilum þetta haustið en síðasti dagur til að skila fé til slátrunar var í gær 31.október. Fjallskil hafa að mestu gengið vel og nefndin leggur áherslu á að eigi bændur enn fé á fjalli sé mikilvægt að sækja það sem fyrst.

2. Fundur með stjórnendum Búlandstinds

Formaður og atvinnu- og menningarmálafulltrúi segja frá fundi sem þær áttu með stjórnendum Búlandstinds 19.október s.l. Fundurinn var upplýsandi og ánægjulegt að sjá að vinnsla er að aukast og starfsmönnum að fjölga. Stjórnendur Búlandstinds lýstu áhyggjum sínum yfir óvissu með leyfismál í laxeldi og að mikilvægt sé að finna lausn á því máli sem fyrst, nefndin tekur undir þær áhyggjur.

3. Fundur með stjórn Ríkarðshúss

Formaður og atvinnu- og menningarmálafulltrúi gerðu grein fyrir fundi sem þær sátu með stjórn Ríkarðshúss í Reykjavík 12.október s.l. Á fundinum var m.a. rætt um verkefnið, Gammur, griðungur, dreki og bergrisi sem hlaut styrk úr uppbyggingasjóði. Hugmyndir voru um að fresta verkefninu en nú hefur verið tekin ákvörðun um að halda sýningu þann 1.desember í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands þar sem skjaldarmerki Ríkarðs Jónssonar verður haldið á lofti. Atvinnu- og menningarmálafulltrúa falið að vinna málið áfram í samvinnu við stjórn Ríkarðshúss.

4. Styrkjamál

Formaður og atvinnu- og menningarmálafulltrúi gerðu grein fyrir fundi sem þær sátu með Signýju Ormarsdóttur, yfirverkefnastjóra menningarmála á Austurlandi, 23.október s.l. Nefndin þakkar Signýju fyrir upplýsandi fund. Djúpavogshreppur fær styrk vegna fjarlægðar frá SSA. Nefndin leggur til að hluta af styrknum verið varið til að efla menningu eldri borgara í Djúpavogshreppi. Nefndin lýsir yfir ánægu með dagskrá Daga myrkurs og leggur til að hluti af styrknum fari í að efla Daga myrkurs í Djúpavogshreppi. Einnig leggur nefndin til að hluti af styrknum verður nýttur í sjóð atvinnu-og menningarmálanefndar til eflingu menningarmála í Djúpavogshreppi. Atvinnu- og menningarmálafulltrúa er falið að vinna málið áfram. Rætt var um vinnulag nefndarinnar þegar kemur að því að taka á móti styrkbeiðnum. Umræðu frestað til næsta fundar.

5. Opinn fundur um atvinnumál

Formaður gerir grein fyrir fyrirhuguðum opnum fundi um atvinnumál í Djúpavogshreppi. Rætt um mögulega tímasetningu og lagt er til að hafa fundinn fljótlega eftir áramót.

6. Önnur mál

Atvinnu- og menningarmálafulltrúi gerir grein fyrir verkefni sem unnið er að í samstarfi við Kjörbúðina um staðbundna framleiðslu og að hún sé meira áberandi í sveitarfélaginu. Formaður gerði grein fyrir að hafin sé vinna við gerð menningarstefnu Djúpavogshrepps og leggur til að unnið verði að áfram með þá vinnu. Atvinnu- og menningarfulltrúa falið að kynna stöðuna á því máli á næsta fundi sem fyrirhugaður er 6.desember.

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 09:43

Greta Mjöll Samúelsdóttir, fundarritari