Ríkarður Jónsson fæddist í Tungu í Fáskrúðsfirði þann 20. september 1888. Foreldrar hans voru Ólöf Finnsdóttir frá Tungu og Jón Þórarinsson, sem alinn var upp á Núpi á Berufjarðarströnd. Frá unga aldri ólst Ríkarður upp á Strýtu við Hamarsfjörð í sex systkina hópi. Einn bræðranna á Strýtu var Finnur, seinna listmálari. Jón Þórarinsson var hagur bæði á tré og járn. Reyndar átti Ríkarður til hagleiksmanna að telja í báðar ættir, enda komu þeir hæfileikar hans fljótlega í ljós.
Til náms
Með góðra manna hjálp tókst Ríkarði að komast í nám hjá Stefáni Eiríkssyni tréskurðameistara í Reykjavík. Árin 1905 - 1908 nam hann tréskurð og sótti jafnframt teiknikennslu hjá Þórarni B. Þorlákssyni listmálara um skeið. Meðal þess sem Ríkarður fékkst við á vinnustofu Stefáns var að skera út skrautverk á hús sem enn má sjá í Reykjavík.
Ríkarður varð fyrstur til að ljúka námi í myndskurðarlist hér á landi. Sveinsstykki hans var spegilumgjörð úr mahóní og ber útskurðurinn keim af nýbarokkstíl 19. aldar. Spegillinn er meðal þekktustu verka Ríkarðs Jónssonar og er nú eign Þjóðminjasafns Íslands.
Árin 1911 – 1914 stundaði Ríkarður nám við höggmyndadeild Listaháskólans í Kaupmannahöfn. Þar í landi kynntist hann einnig Einari Jónssyni myndhöggvara sem hafði djúp áhrif á listviðhorf hans, að því er Ríkarður sjálfur hefur sagt.
Teikniskólinn
Að lokinni dvöl í Kaupmannahöfn settist Ríkarður að í Reykjavík og átti þar lengst af heimili síðan, á Grundarstíg 15. Hann kvæntist Maríu Ólafsdóttur sem upprunnin var í Húsavík eystri, og eignuðust þau fjögur börn. Fljótlega eftir heimkomuna var Ríkarður orðinn virkur þátttakandi í menningarlífi Reykjavíkur og gerði sér far um að upplýsa almenning um gildi lista. Meðal annars stofnaði hann teikniskóla sem starfaði á kvöldin og hélt námskeið í tréskurði. Sex nemendur luku hjá honum prófi sem myndskerar eftir nokkurra ára nám á vinnustofu hans. Ríkarður var einn aðalhvatamaður þess að stofnað var Listvinafélag Íslands árið 1916, en félagið stóð fyrir sýningum og fræðslu um myndlist.
Brjóstmyndir og lágmyndir
Ríkarður Jónsson lagði gjörva hönd á margt, en er þekktastur fyrir brjóstmyndir sínar og lágmyndir af samtíðarmönnum, og útskurðarmuni, en meðal þeirra eru skírnarfontar og predikunarstólar í mörgum kirkjum landsins. Ýmsir munir frá hans hendi eru í eigu stjórnvalda hér á landi og erlendis, af þeim má nefna hurð fyrir dyrum Arnarhvols í Reykjavík og fundahamar Sameinuðu þjóðanna. Fjöldann allan af útskornum gripum til tækifærisgjafa gerði Ríkarður eftir pöntunum enda voru verk hans eftirsótt þegar vanda átti til gjafa og munu þeir gripir vera vel varðveittir hjá almenningi víða um land.
Natúralismi
Ríkarður Jónsson hélt tryggð við natúralisma, sem hann kynntist á námsárum sínum, en expressíonísk myndtúlkun var honum framandi. Hann fyllti þann flokk manna sem vildu skapa íslenskan stíl í listum og hýbýla mennt, að nokkru leyti byggða á gamalli arfleið. Hafa jafnvel sumir talið að í verkum hans mætti finna eftirsjá eftir gömlum tíma og horfnum lífsgildum. Skoðunum sinni samkvæmt lagði Ríkarður áherslu á sem eðlilegast útlit fyrirmynda sinna hvort sem um var að ræða mannamyndir eða tréskurðarmótíf, og þótti hann leikinn í að ná fram svipmóti manna. Mikið og vandað handverk er á flestum munum sem frá honum eru komnir. Ríkarður gerði athuganir á fornum íslenskum tréskurði og endurvakti í verkum sínum gömul mynstur, en skapaði einnig ný.
Vinnustofan til Djúpavogs
Ríkarður Jónsson lést árið 1977. Vinnustofa hans á Grundarstíg 15 fékk að standa óhreyfð, og árið 1994 ákváðu erfingjar hans að ánafna Djúpavogshreppi öll listaverk og áhöld sem þar voru.
Ríkarðshátíð fór fram á Djúpavogi dagana 12. - 15. júlí.
Hægt er að sjá myndir og umfjöllun frá öllum dögunum með því að smella hér fyrir neðan
Fimmtudagurinn 12. júlí
Föstudagurinn 13. júlí
Laugardagurinn 14. júlí
Sunnudagurinn 15. júlí