Rúllandi snjóbolti/13, Djúpivogur
11. júlí - 15. ágúst 2020
Enn einu sinni var Bræðslunni á Djúpavogi breytt í vettvang stórrar samtímalistasýningar, en Rúllandi snjóbolti/ 13 opnaði þar formlega 11.júlí 2020.
Hátt á þriðja hundrað manns sóttu opnunarhátíðina síðastliðinn laugardag þegar Rúllandi snjóbolti/ 13, Djúpivogur opnaði í Bræðslunni. Sýningin var haldin í sjöunda sinn en hún er samvinnuverkefni Kínversk-evrópsku menningarmiðstöðvarinnar og Djúpavogshrepps. Alls tóku 33 listamenn þátt í sýningunni í ár en 19 af þeim útskrifuðust úr Listaháskóla Íslands vorið 2020. Opnunin var glæsileg og var boðið upp á girnilegar veitingar úr héraði, klassískt söngatriði og ræðuhöld áður en opnað var formlega þegar klippt var á borðann. Öllu var dreift þægilega um víð og dreif í stóru rými Bræðslunnar og fylgt var öllum viðmiðum almannavarna vegna Covid-19 faraldursins og spritt sýnilegt hvarvetna.
Sýningin var í framhaldinu opin alla daga kl. 11:00-16:00 til 15. ágúst og gífurlega mikil aðsókn enda ókeypis inn. Ógrynni ferðamanna og gesta skoða gjarnan egg Sigurðar Guðmundssonar í Gleðivík við smábátabrygguna dag hvern, en sýningarrýmið Bræðslan er þar beint við hliðina og var Sigurður Guðmundsson einmitt einn af þátttakendum sýningarinnar þetta ár.
Opnunarhátíðin
Líkt og ár hvert var haldin vegleg opnunarhátíð Rúllandi snjóbolta og var árið 2020 engin undantekning þrátt fyrir að sýningin þyrfti að sníða sér stakk eftir vexti í miðjum heimsfaraldri. Gauti Jóhannesson sveitarstjóri hélt opnunarræðu og nýtti tækifærið og þakkaði fráfarandi Oddvita Andrési Skúlasyni og eiginkonu hans, Grétu Jónsdóttur, virðingarvott fyrir vel unnin störf. Philip Barkhudarov söngvari flutti dásamleg atriði fyrir gesti og Greta Mjöll Samúelsdóttir atvinnu- og menningarmálafulltrúi bauð gesti velkomna fyrir hönd sveitarfélagsins og CEAC. Systurnar frá Frú Stefaníu í Löngubúð sáu um veitingarnar sem voru með hefðbundnu sniði þar sem staðbundin framleiðsla var í hávegum höfð. Þær útbjuggu dásamlegar snittur með fjölbreyttu sniði og með þessu var heimatilbúin rabarbarasaft með ferskri myntu.
Listamenn:
Alexander Hugo Gunnarsson, Andri Þór Arason, Anika L. Baldursdóttir, Atli Pálsson, Auðunn Kvaran, Birkir Mar Hjaltested, Bjargey Ólafsdóttir, Clare Aimée Gossen, Daníel Ágúst Ágústsson, Einar Lúðvík Ólafsson, Hrafnkell Sigurðsson, Huang Shizun, Jóhanna Margrétardóttir, Kjáni Thorlacius, Lin Jing, Liu Yuanyuan, Lova Y & Tycho Hupperets, Margrét Dúadóttir Landmark, María Lind Baldursdóttir, Marike Schuurman, Rakel Andrésdóttir, Renate Feizaka, Sigurður Guðmundsson, Sólbjört Vera Ómarsdóttir, Sölvi Steinn Þórhallsson, Tara & Silla, Wei Na, Yang Zhiqian, Ye Qianfu og Þór Vigfússon.
Fleiri myndir og nánari upplýsingar má finna á facebook-síðu Rúllandi snjóbolta.