Djúpivogur
A A

Úrslit sveitarstjórnarkosninga í Djúpavogshreppi

Úrslit sveitarstjórnarkosninga í Djúpavogshreppi

Úrslit sveitarstjórnarkosninga í Djúpavogshreppi

skrifaði 05.07.2006 - 00:07

Endanleg úrslit 3 : 2 “eftir framlengingu”.

Kveðinn var upp úrskurður í félagsmálaráðuneytinu 4. júlí 2006  vegna kæru forsvarsmanna N-listans á úrskurði frá 14. júní 2006, sem kjörnefnd, skipuð af Sýslumanninum á Eskifirði, kvað upp. Forsaga málsins er sú að skv. úrskurði kjörstjórnar Djúpavogshrepps að kveldi 27. maí s.l. fékk N-listinn 164 atkvæði og 4 menn kjörna (að undangengnu hlutkesti), en L-listinn 82 atkvæði og 1 mann kjörinn. Glöggir menn munu sjá af þessum tölum að jafn mörg atkvæði voru að baki 4. manns N-lista og 2. manns L-lista og af þeim sökum þurfti að grípa til þess ráðs að varpa hlutkesti.

Forsvarsmenn L-listans kærðu síðar þennan úrskurð og fór málið í ferli, sem lög um kosningar gera ráð fyrir og vísað til sérstakrar kjörnefndar, skipaðri af Sýslumanni. Úrskurður hennar var á þann veg að nokkur atkvæði (5 talsins), sem kjörstjórn hafði úrskurðað ógild, skyldu talin gild og atkvæðatölur listanna yrðu sem hér greinir:

N-listi 165 atkvæði og 3 menn kjörnir.

L-listi 86 atkvæði og 2 menn kjörnir.

Framangreindan úrskurð kjörnefndarinnar kærðu forsvarsmenn N-listans til félagsmálaráðuneytisins.

Í niðurstöðu ráðuneytisins frá 4. júlí s.l. eru svohljóðandi úrskurðarorð:

“Fallist er á niðurstöðu kjörnefndar frá 14. júní 2006 um að fimm atkvæði, sem kjörstjórn í Djúpavogshreppi úrskurðaði ógild, skuli vera gild. Kjörstjórn í Djúpavogshreppi skal koma saman eins fljótt og auðið er og tilkynni sveitarstjórn um úrslit kosninganna í samræmi við úrskurð þennan”.

Vegna kærumeðferða, fyrst í kjörnefnd og síðar í ráðuneytinu, hefur sveitarstjórn ekki enn verið kvödd til fundar, þrátt fyrir ákvæði í sveitarstjórnarlögum um að hún skyldi koma saman eigi síðar en 26. júní (15 15 dögum) eftir kjördag. Hún hefur nú verið boðuð til fundar fimmtudaginn 6. júlí. Á þeim fundi fer m.a. fram kjör oddvita og varaoddvita. Einnig fer fram fyrri umræða um breytingu á samþykktum um stjórn og fundarsköp Djúpavogshrepps.

Í nýkjörinni sveitarstjórn Djúpavogshrepps sitja:

Af N-lista:
Andrés Skúlason, Albert Jensson og Tryggvi Gunnlaugsson. (Fyrsti varamaður er Sigurður Ágúst Jónsson).

Af L-lista:
Guðmundur Valur Gunnarsson og Brynjólfur Einarsson. (Fyrsti varamaður er Særún Björg Jónsdóttir). 

Nýkjörin sveitarstjórn er hér með boðin velkomin til starfa.

BHG.