Djúpivogur
A A

Strandið við Óseyjar - frásögn eftir Andrés Skúlason

Strandið við Óseyjar - frásögn eftir Andrés Skúlason

Strandið við Óseyjar - frásögn eftir Andrés Skúlason

Ólafur Björnsson skrifaði 28.05.2020 - 15:05

Í Sjómannadagsblaði Austurlands árið 2015 birtist frásögn eftir Andrés Skúlason sem fjallaði m.a. um þegar Mánatindur SU-95 strandaði við Óseyjar útaf Álftafirði árið 1983 ásamt öðrum atburðum sem hann upplifði þá vertíð. Greinina birtum við nú hér með leyfi höfundar.

--

Strandið við Óseyjar

Áhöfnin á Mánatindi SU-95 frá Djúpavogi lenti í ýmsum ævintýrum haustið 1983 en þá var báturinn á síldveiðum í reknet. Skipstjórinn þótti kaldur og á köflum full-kaldur. Andrés Skúlason var háseti um borð og segir hér frá nokkrum atburðum sem hann upplifði á þessari vertíð – meðal annars þegar áhöfnin lenti í bráðum lífsháska á skerjum út af Álftafirði og kraftaverk eitt kom í veg fyrir að báturinn endaði á hafsbotni.

Reknetavertíð haustið 1983

Mánatindur SU-95 var 109 tonna stálbátur, smíðaður á Akranesi árið 1967, en áður en honum var gefið nafnið Mánatindur bar hann eftirtalin nöfn í tímaröð: Drífa RE, Sturlaugur ÁR og Hvalsnes KE. Eftir að Búlandstindur hf. á Djúpavogi eignaðist bátinn var honum gefið nafnið Mánatindur og gerður út bæði með línu og þorskanet. Haustið 1983 var hinsvegar afráðið að útbúa bátinn til síldveiða með reknet og var þetta síðasta árið sem bátar voru gerðir út til slíkra veiða við Íslandsstrendur. Reknetaveiðar þóttu þá úrelt veiðiaðferð og ekki samkeppnisfær við nótaveiðar stærri báta en það voru Norðmenn sem kynntu þessa veiðiaðferð fyrir Íslendingum í upphafi 20. aldar. Veiddi þá stór floti norskra skipa í reknet úti á opnu hafi við Norðurland og um svipað leyti hófu Norðmenn tilraunir með snurpinótaveiðar við Íslandsstrendur og gafst sú veiðiaðferð afar vel.

Engu að síður var Mánatindur gerður klár til reknetaveiða þarna um haustið og meðal annars settur svokallaður hristari á dekkið bakborðsmegin, við hlið lestarlúgunnar. Stjórnborðsmegin var svo glussaknúin blökk sem notuð var til að draga netin úr sjó. Yfir lestarlúgunni var all-verkleg rist úr tré þar sem síldin féll niður um þegar netið var dregið og hrist þvert yfir dekkið á milli blakkar og hristara. Hinum megin hristarans á bakborðssíðunni voru svo netin lögð niður, þegar þau höfðu farið í gegnum hristarann, og þaðan lögð í sjó aftur.

Margir sjómenn litu reknetaveiðar illu auga í samanburði við aðrar veiðiaðferðir. Fyrir því voru nokkuð margar ástæður en meðal annars þótti þetta erfiðisvinna, ekki hættulaus og síðast en ekki síst gerði marglyttan mörgum skráveifu því hristararnir slettu marglyttunum í andlit þeirra sem þurftu

að standa við hristarana og leggja niður teinana. Margt var reynt til að forðast bruna í andliti eftir marglyttur og meðal annars prófuðum við að maka þykku lagi af júgursmyrsli framan í okkur. Lítinn árangur bar það og þá reyndum við að notast við höfuðfat með glerhlíf fyrir andlitinu en gáfumst fljótt

upp á því þar sem illa hafðist undan að hreinsa glerið. Menn voru því stundum illa rauðir og brenndir í andliti eftir daginn og sviðinn gat verið sár.

Engin öryggistæki á dekki þekktust í þá daga um borð í svona bátum, hvorki hjálmar né líflínur.

Vandræði á Steinaborgarvogi

Á þessari reknetavertíð á Mánatindi gekk á ýmsu en skipstjórinn, Hermann Haraldsson, þótti stundum nokkuð kræfur og átti meðal annars til að leggja reknetin innan um boða og sker eða þar sem straumar gátu verið miklir. Slíkt var auðvitað ekki hættulaust en kallinn var af sumum í flotanum nefndur „Fjörulalli“ vegna þess hve nálægt landi hann fór oft með reknetin. Þessu kynntumst við áhöfnin fljótlega eftir að reknetavertíðin hófst en þá ákvað skipstjórinn að leggja reknetin inn á svokallaðan Steinaborgarvog við Berufjarðarströnd. Þegar netin runnu út, og siglt var inn á Steinaborgarvoginn, kom fljótlega í ljós að svigrúmið á voginum var afar lítið fyrir Mánatind og taka þurfti mjög krappa beygju á stjórnborða í miðri lögn – ella hefði báturinn lent upp í fjöru því mjög grunnt var farið. Ekki vildi betur til þegar bátnum var beygt að sértinn (reipi frá belg að efri tein á neti) fór í skrúfuna og við það stöðvaðist skrúfa bátsins. Nú voru góð ráð dýr því bátinn rak stjórnlaust að landi, og örstutt í fjöruborðið, en lán í óláni að veður var gott. Um borð voru líka vanir menn, og ráðagóðir, en um leið og skrúfa bátsins stöðvaðist var gripið til ráðstafanna til að forða strandi. Hlaupið var með gilsinn (bómuvírinn) aftur á og honum krækt í spottann sem lá niður í skrúfuna en netið hafði sömuleiðis dregist í skrúfuna. Að því loknu var híft í gilsinn af fullu afli en það reyndist árangurslaust í fyrstu tilraun. Þegar þarna var komið var báturinn kominn upp í kletta við Steinaborgarvoginn og stefni bátsins byrjað að nuddast við klett í fjöruborðinu. Og enn sat skrúfan föst!. Neyðarkall var þó ekki sent út og mat skipstjórinn það svo að áhöfn væri ekki í hættu enda gott í sjóinn. Allt gerðist þetta líka mjög hratt og áfram var hamast á gilsinum til að freista þess að losa reipi og net úr skrúfunni en á meðan hélt stefni bátsins áfram að kyssa klettinn. Að endingu tókst að losa úr skrúfunni með bómuvírnum og hægt að bakka út úr þessari ólánsstöðu sem Mánatindur var kominn í. Netin voru síðan dregin inn með hraði.

Út af Steinaborgarvoginum er óhreint svæði, og nokkrir hættulegir boðar, og sló nokkrum sinnum saman á dýptarmælinum þegar við sigldum frá strandstaðnum við voginn. Skipstjórinn taldi reyndar að dýptarmælirinn væri bilaður og því lítið að marka þótt slá myndi saman annað veifið, en ekki voru þó allir um borð sammála því. Hermann skipstjóri var hinn besti karl en var af gamla skólanum; þótti kaldur og býsna áhættusækinn þegar kom að sjósókn. Sjálfur hafði Hermann þó kynnst miklum sjóhrakningum ungur að árum og velktist þá um í björgunarbáti þar til hann komast af við illan leik.

Flakkað með fjörðum og siglt upp í fjöru Á þessari reknetavertíð, haustið ´83, var víða leitað síldar en veiði almennt fremur dræm hjá reknetabátum. Við leituðum austur frá Berufirði, með fjörðunum, og lögðum nokkrum sinnum, meðal annars við Seley. Í þeirri ferð var einnig siglt inn á Norðfjarðarflóa og inn í Hellisfjörð þar sem við upplifðum eftirminnilegt atvik en þá hafði umræða um gæði og nákvæmni dýptarmælisins aftur komist á kreik um borð. Kafteinn Hermann taldi sig hafa einfalda lausn á þessu þrætuepli; hann skyldi bara keyra bátinn upp í fjöruna í Hellisfirði og þá kæmi hið sanna í ljós. Þrátt fyrir að um tiltölulega steinalausa sandfjöru væri að ræða þá töldu menn í fyrstu að kallinn væri að grínast því óþekkt var í okkar hópi að liðlega 100 tonna stálbáti væri rennt svona upp í fjöru líkt og smáskektu. En svo var nú aldeilis ekki – ekkert spaug í huga Hermanns - og gerði hann sér lítið fyrir og keyrði bátinn upp í fjöru í Hellisfirði og lét stefnið dingla við sandfjöruna á meðan mannskapurinn lá límdur við mælinn. Ekki var annað að sjá en mælirinn væri í fínasta lagi og var áreiðanleiki dýptarmælisins ekki ræddur frekar það sem eftir lifði vertíðar. Úr Hellisfirði var síðan dólað suður í Berufjörðinn aftur.

Reknetin lögð í Sandeyjarálnum

Hermann skipstjóri fór sem sagt ekki alltaf hefðbundnar leiðir og virtist hafa dálítið gaman af því að afsanna það sem aðrir töldu hið mesta óráð. Flestir töldu það til að mynda óráð að leggja reknet í álana á milli Papeyjar og lands en þar eru miklir og hraðir straumar og því myndi mjög erfitt að eiga þar við að draga nokkuð þéttriðin reknet sem taka mikið í. Engu að síður taldi hinn ágæti skipstjóri okkar að gaman væri að láta á þetta reyna og ákveðið var að demba allri reknetatrossunni af Mánatindi út í Sandeyjarálinn. Við skyldum svo bara kippa dræsunni inn á fallaskiptunum.

Síldarnetin voru því öll látin flakka í þennan straummikla ál, með skerjagarða á báða bóga, og svo var beðið yfir. Ljóst var að ekki mátti bíða lengi, því fallaskiptin standa stutt, enda kom í ljós þegar farið var að draga að áhöfnin átti fullt í fangi með að ná netunum um borð sökum þess hversu hratt straumurinn óx. Að auki voru netin full af marglyttu, og því leiðinleg viðureignar, en fremur lítið af síld. Það eina sem gladdi áhöfnina, þarna í miðjum Sandeyjarálnum, var háhyrningavaða sem var svo ásækin að þessir úlfar hafsins bókstaflega átu úr netinu, alveg upp að lunningu.

Eftir mikil átök á blökkinni, þar sem netin lágu pinnstrekkt niður, tókst okkur loks að ná þeim um borð og voru menn þá bærilega þreyttir eftir baráttuna. Skipperinn okkar var hins vegar býsna sæll í sinni og taldi sig hafa sýnt og sannað að vel væri hægt að leggja í álana og ná trossunni upp aftur áfallalaust. Það hvort eitthvað hefðist upp úr krafsinu væri ekki aðal atriðið.

Síldarleit

Að barningnum loknum í Sandeyjarálnum var stefnan tekin vestur með ströndinni og síldarlóðninga leitað. Þriðja degi nóvember var tekið að halla enda dagsbirtan skammlíf á þessum árstíma. Á Mánatindi voru vistarverur flestra skipverja í einu sameiginlegu rými fram í lúkar en þar voru allir saman í klefa í þröngum kojum - utan skipstjóra, vélstjóra og stýrimanns sem voru í klefum aftur í bátnum. Sólóeldavél var fram í lúkar og þetta kvöld var þar snætt kjöt og kjötsúpa og fékk potturinn að standa á hellunni eftir að menn höfðu matast. Mannskapnum var því frjálst að fá sér aukabita á meðan Mánatindur stímdi um svæðið fram eftir kvöldi og leitaði lóðninga. Lögðust þeir til hvílu sem ekki voru á stímvakt en þeir sem stóðu vaktina voru skipstjórinn, Hermann Haraldsson, Kristján Guðmundsson stýrimaður og Birgir Guðmundsson vélstjóri sem vaktaði vélina. Þeir voru þrír bræður þarna um borð í þessari veiðiferð þ.e. Birgir, Hjálmar og Kristján Guðmundssynir.

Sjálfur átti ég erfitt með að festa svefn í kojunni þetta kvöld þar sem ég fann fyrir einhverskonar undirliggjandi ókyrrð innra með mér sem gerði það að verkum að ekki var svefni við komandi. Kunni ég enga skýringu á þessu því venjulega svaf ég afskaplega vel til sjós. Aðrir sofnuðu fljótlega í lúkarnum og létt spjall manna í millum dó hægt og rólega út þar til aðeins heyrðist vélarhljóðið, öldugjálfrið og notalegt marrið í innviðum bátsins; nætursinfónía sjómannsins sem ljúft er að festa blund við – alla jafnan. Kjötsúpuangan og vægur olíufnykur blönduðust saman og þessi vel þekkta sjómannslykt þess tíma lá í loftinu í lúkarnum hvar ég bylti mér andvaka í næturrökkrinu.

Ég veit ekki hversu lengi ég lá andvaka en allt í einu fannst mér eins og hreyfingar bátsins, sem valt annars rólega á undiröldunni, hefðu eitthvað breyst - eins og það væri kominn þyngri sjór og báturinn tæki meiri dýfur. Örskömmu síðar fann ég fyrir hreyfingu sem mér fannst ekki eðlileg og áður en ég vissi af var ég stokkin út úr efri kojunni, niður á gólf og upp lúkarsstigann, nánast í einu stökki. Í sama mund og ég greip í lúkarskarminn þá kom mikið högg á bátinn, og skruðningar í kjölfarið, og ég fann og sá hvernig báturinn reis upp að framan.

Strandið við Óseyjar – lífsháski á ferð

Það var ekki um að villast, við höfðum siglt í strand á skeri og þar sem ég horfði aftur eftir bátnum sá ég að afturendi hans og lunningin fóru beinlínis á kaf í sjóinn og samtímis hallaðist báturinn mjög á stjórnborða. Þegar þarna var komið þá komu hinir skipverjarnir á eftir mér upp úr lúkarnum, hver af öðrum, og öllum var ljóst hvað gerst hafði.

Undiraldan var nokkuð þung og báturinn lamdist ofan á skerið aftur og aftur og jafnframt braut nokkuð á skerinu. Við vissum hins vegar ekki hvar nákvæmlega við vorum strand og það var sannast sagna verulega óþægileg tilfinning að vita ekki þarna í svarta myrkri hvort við vorum upp við fjöru eða langt frá ströndinni. Við vissum hins vegar allir að það var nóg af hættulegum skerjum og blindboðum þarna víðsvegar um svæðið. En nú var enginn tími til að velta sér upp úr því og við hlupum því aftur eftir dekkinu og yfir reknetatrossuna á bakborða og að stýrishúsinu.

Björgunarbátarnir voru báðir upp á stýrishúsinu og satt að segja var ég þess fullviss að við þyrftum að fara í þá miðað við stöðu mála. Í mínum huga var enginn vafi á að báturinn færi niður; svo gott sem á hlið- inni og sjórinn vætlaði ríflega fetið undir lestarlúgunni sem var galopin með reknetaristina ofan á. Kæmist sjór í lestina var ljóst að skipið færi niður á örskotsstundu. Við máttum því engan tíma missa.

Birgir Guðmundsson vélstjóri, sem var staddur niður í vél þegar við strönduðum, snaraðist upp í brú um leið og hann fann höggið og spurði skipstjóra á hvaða sker við hefðum siglt. Við þeirri spurningu fékk hann engin skýr svör en svæðið þarna var mjög óhreint og frekar illa merkt á sjókortum. Birgir beið ekki boðanna eftir að hann hafði litið út um brúargluggann, og fram á dekkið, og sá að sjórinn var að nálgast lestarlúguna. Hann fór strax út úr brúnni stjórnborðsmegin og byrjaði að klifra upp á stýrishúsið til að komast að björgunarbátunum á brúarþakinu. Vildi þá ekki betur til en Mánatindur tók mikla dýfu á stjórnborðshlið þannig að Birgir fór á bólakaf í sjóinn en náði þó að halda sér við stigann enda mikið hraustmenni eins og bræður hans allir. Báturinn tók svo dýfu aftur til baka, eftir dálitla stund, og skaust þá Birgir hreinlega upp á brúarþakið. Þá gerðust yfirnáttúrulegir hlutir sem Birgir sagði skipsfélaga sínum, og skrásetjara þessarar sögu, löngu síðar. Þannig var að þegar Birgir kom þrekaður úr kafinu, undan stýrishúsinu, þá varð hann fyrir gríðarlega sérkennilegri lífsreynslu sem hann hefur hvorki fyrr né síðar upplifað. Tekið skal hér fram að samferðamenn Birgis geta um það vitnað að Birgir er talinn bæði jarðbundinn og áreiðanlegur og síst af öllu til þess líklegur að ýkja sögur, hvað þá skálda þær frá rótum. En þegar Birgir kom þarna úr kafinu þá segist hann hreinlega hafa farið út úr líkamanum, hátt í loft upp, og vissi ekki fyrr en hann horfði skyndilega niður á bátinn á strandstað og sá sjálfan sig meira að segja ofan á brúarþakinu. Hann sá jafnframt bæði bæina Þvottá og Hnauka þarna í sveitinni í Álftafirði og vissi þá um leið hvar við höfðum strandað enda var hann og er öllum hnútum kunnugur á þessu svæði. Áttaði hann sig á að Mánatindur hafði strandað á boðum rétt utan við svokallaðar Óseyjar sem eru út af miðju sandrifinu í Álftafirði, út af svo kölluðum Starmýrarfjörum. Það sem er kannski allra merkilegast við þessa sýn Birgis er að hann sá bátinn, og umhverfið þar sem við strönduðum skýrt, þrátt fyrir að það væri biksvartamyrkur í byrjun nóvember. Vissulega voru ljós á bátnum en þau dugðu ekki til að lýsa upp bæi og boða all langt í burtu.

Þessi sýn Birgis, og yfirnáttúruleg upplifun, hvarf svo jafn skyndilega og hún hafði birst honum og þegar hann man næst eftir sér var hann að hamast við að losa um björgunarbátinn á brúarþakinu. Svo illa vildi til að áður en hann kom björgunarbátnum í sjóinn þá blés hann út uppi á brúarþakinu og skorðaðist undir festingum við mastrið. Jafnframt virtist björgunarbáturinn ónothæfur því loftið lak nær strax úr honum. Á þessum tímapunkti var áhöfnin öll auðvitað í bráðri lífshættu en þrátt fyrir það var ekki enn búið að senda út neyðarkall.

Þegar þarna var komið sögu, stóðum við flestir bakborðsmegin við stýrishúsið - skipstjórinn með olíugjöfina í botni og skrúfan á fullu afturábak. Sjór flæddi á veltunni inn í stýrishúsið, inn um dyrnar stjórnborðsmegin. Þegar ég leit eitt sinn inn í stýrishúsið, á meðan á þessu gekk, sá ég að ekki vantaði nema svona rúmt fet upp á að sjórinn næði upp í sessuna á skipstjórastólnum. Þá var hinum björgunarbátnum hent út en ekki vildi þá betur til en svo, þótt ótrúlegt sé, að hann míglak einnig og reyndist því sömuleiðis ónothæfur. Birgir vélstjóri var kominn niður af brúarþakinu og nú stóðum við flestir með annan fótinn á vegg stýrishússins bakborðsmegin og með hinn fótinn á dekkinu, svo mikið hallaði báturinn. Reknetabelgirnir, sem voru aftan við stýrishúsið í netbúri, voru flestir farnir fyrir borð enda allt meira og minna þar á kafi. Þá gerðist það að báturinn tók enn eina stóra dýfu á stjórnborða og við það kastaðist reknetatrossan úr bakborðssíðunni, yfir hristarann eða í gegnum hann, og lagðist þéttur netabunkinn yfir ristina á lestarlúgunni og hreinlega lokaði henni. Á sama tíma rann sjórinn upp á lúgukarminn, og að netinu, og enn þann dag í dag erum við þess fullvissir að reknetin hafi þarna forðað því að sjóinn flæddi óhindrað niður í lestina og með því sett bátinn samstundis niður á hafsbotn – og okkur með. Þessi reknetatrossa kann því að hafa bjargað lífi okkar allra.

Losnað af strandstað – vélarvana – björgun berst

Erfitt er við aðstæður sem þessar að gera sér grein fyrir hvað tímanum líður en það sem gerðist næst var að þung undiralda lyfti bátnum nægilega mikið til að hann náði að renna niður af skerinu, enda skrúfan enn á fullum snúningi afturábak, og skyndilega rétti báturinn sig við. Var þá þungu fargi létt af mannskapnum en ég man ekki eftir því að menn hefðu mælt orð af munni -bara litið þegjandi hver á annan og kannski hrist dálítið hausinn. Einhver okkar kíkti niður í lestina til að kanna leka en svo virtist ekki vera.

En þar með er ekki sagan öll sögð! Í sama mund og við þóttumst heppnustu menn í heimi, ný komnir af strandstað og enginn sýnilegur leki kominn að bátnum, þá skyndilega steindrapst á aðalvélinni og allt varð myrkvað. Síðar kom í ljós að stór göt höfðu komið á botn bátsins, þar sem olíutankarnir voru, þegar hann lenti á skerinu og eldsneytið því blandast sjó. Það mátti því ekki tæpara standa því vélin hafði þarna á síðustu hreinu olíudropunum náð okkur af skerinu. Mínútu síðar hefði allt verið um seinan.

Enn á ný vorum við komnir í bráða hættu; nú á stjórnlausu reki um skerjasvæðið og rákumst meðal annars á annað sker en festumst ekki á því. Þá fyrst sá skipstjórinn ástæðu til að senda út beiðni til nærstaddra báta um aðstoð og var það Ingþór skipstjóri á Þórsnesi SU sem þræddi sig inn á milli skerja og kom okkur til hjálpar. Tókst honum að koma taug á milli bátanna og þar með bjarga Mánatindi með allri áhöfn.

Eftirleikurinn var auðveldur og greiðlega gekk að draga Mánatind í land til Djúpavogs. Þrátt fyrir að mönnum væri ekki hlátur í huga, undir þessum kringumstæðum, göntuðust skipverjar með það á landleið- inni að mesta eftirsjáin hefði eiginlega verið í kjötsúpunni en þegar við komum niður í lúkarinn, eftir allan atganginn, þá sáum við að potturinn lá á hliðinni inni í skáp – ofan við eldavélina.

Því er ekki að neita að það voru fegnir sjómenn sem stigu ósofnir og örþreyttir á land í Djúpavogshöfn þarna í morgunsárið. Er ég ekki frá því að flestir okkar, ef ekki allir, hafi verið nokkurn tíma að jafna sig eftir þessa óskemmtilegu upplifun enda ekkert minna en kraftaverk sem kom í veg fyrir að við höfnuðum allir á hafsbotni.

Þegar atburðir sem þessir gerðust fyrr á tímum þá voru þeir yfirleitt lítið ræddir. Lífið hélt bara áfram sinn vanagang. Við skipverjarnir höfum til dæmis lítið sem ekkert rætt þetta atvik fyrr en nú, 32 árum eftir strandið. Útgerðin vildi heldur ekki gera mikið úr málinu á sínum tíma og það var ekkert rætt við okkur skipverja af þeirra hálfu eftir að í land var komið. Sjóslys af svipuðum toga væri meðhöndlað með allt öðrum hætti í dag og sjópróf líklega framkvæmd með öðru sniði. Báturinn var þegar til kom mjög illa búinn björgunartækjum, eins og hér hefur komi fram, og hefði í raun við venjulega skoðun alls ekki átt að vera með haffærisskírteini.

Í þessari svaðilför voru átta í áhöfn Mánatinds, meirihlutinn ungir menn frá Djúpavogi. Tveir eru nú látnir: Hermann Haraldsson skipstjóri, síðast til heimilis á Akureyri, og Freyr Steingrímsson, til heimilis á Djúpavogi, en hann lést langt fyrir aldur fram – blessuð sé minning beggja.

Við sem eftir erum til frásagnar og búum enn á Djúpavogi í dag, höfum nú hist og rifjað upp í sameiningu það sem gerðist. Þegar við lítum til baka þá er það samdóma álit okkar allra – engin efi í okkar huga – að það var hreint kraftaverk að þarna varð ekki stórslys. Guðslukkan var með okkur! Skrásetjari er þess líka fullviss að ámóta atburðir myndu ekki gerast í dag því sem betur fer hefur öryggi íslenskra sjómanna verið stórbætt á öllum sviðum á undanliðnum þremur áratugum.

Þar sem ég gekk frá borði á Mánatindi SU 95, og upp á bryggju á Djúpavogi, þessa köldu og hráslagalegu nóvembernótt árið 1983 þá lauk minni fyrstu og jafnframt síðustu reknetavertíð. Mun hún aldrei líða mér úr minni.

Áhöfn Mánatinds

Hermann Haraldsson skipstjóri.
Kristján Guðmundsson stýrimaður.
Birgir Guðmundsson vélstjóri.
Dódó (Theodór) annar vélstjóri.
Freyr Steingrímsson kokkur.
Hjálmar Guðmundsson háseti (kom sem afleysingamaður í einn túr).
Andrés Skúlason háseti.
Kenneth (Suður Afríku) háseti.


Mánatindur SU-95. Mynd: Þór Jónsson