Djúpivogur
A A

Kvenskörungur og klarinettutríó í Djúpavogskirkju

Kvenskörungur og klarinettutríó í Djúpavogskirkju

Kvenskörungur og klarinettutríó í Djúpavogskirkju

skrifaði 22.08.2016 - 12:08

 

Tónleikar í Djúpavogskirkju

miðvikudagskvöldið 24. ágúst, kl. 20:00

 

Tónleikar með Hönnu Dóru Sturludóttur söngkonu og Chalmeaux-klarinettutríóinu. Tríóið skipa Ármann Helgason, Kjartan Óskarsson og Sigurður I. Snorrason.

 

Almennt miðaverð er kr. 1.000,-

Ókeypis fyrir nemendur.

 

 Tónleikarnir eru í boði Djúpavogshrepps og Hótel Framtíðar.

 

Um tónlistarfólkið

 

Chalumeaux-tríóið

Chalumeaux-tríóið var stofnað árið 1990 af klarínettuleikurunum Kjartani Óskarssyni, Óskari Ingólfssyni og Sigurði Ingva Snorrasyni. Á verkefnaskrá tríósins eru verk sem spanna alla sögu klarínettuhljóðfæranna eða frá um 1730. Auk þess að leika upphafleg verk eftir tónskáld á borð við Mozart hafa þeir Kjartan og Sigurður umritað fjölda verka fyrir tríóið. Meðal þessara verka eru fjölmargar aríur úr óperum eftir Mozart og Salieri sem tríóið hefur flutt ásamt þremur söngvurum. Þá hafa mörg íslensk tónskáld skrifað verk fyrir tríóið. Ármann Helgason tók sæti Óskars Ingólfssonar sem lést 2009.

Hanna Dóra Sturludóttir

Hanna Dóra Sturludóttir stundaði söngnám við Söngskólann í Reykjavík áður en hún hélt til framhaldsnáms í Listaháskólanum í Berlín. Kennarar hennar þar voru m.a. Dietrich Fischer-Dieskau og Aribert Reimann og útskrifaðist hún þaðan með viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur. Hanna Dóra hefur sungið við mörg helstu óperuhús Þýskalands, m.a. Komische Oper og Ríkisóperuna í Berlín. Hanna Dóra hefur komið fram á tónleikum víða um Evrópu og tónleikahald hefur m.a. borið hana til Qatar og Egyptalands. Undanfarin ár hefur hún tekið þátt í fjölmörgum uppfærslum óperusmiðjunnar Novoflot í Berlín, sem sérhæfir sig í óvenjulegum uppsetningum og frumflutningi á nýrri óperutónlist. Á Íslandi hefur hún, auk þess að taka þátt í uppfærslum Íslensku óperunnar, haldið fjölda ljóðatónleika og sungið Vínartónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Salon Islandus. Hanna Dóra hefur þrisvar fengið tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna; fyrir flutning sinn á Wesendonck-ljóðaflokknum eftir Richard Wagner með Sinfóníuhljómsveit Íslands, fyrir titilhlutverkið í Carmen hjá Íslensku óperunni haustið 2013 og nú síðast fyrir hlutverk Eboli í Don Carlo en fyrir það hlaut hún Íslensku tónlistarverðlaunin sem söngkona ársins 2014.