Jólaljós

Nú eru flestir íbúar sveitarfélagsins vel á veg komnir með að skreyta hús og umhverfi með jólaljósum. Þetta er líklega í fjórða skiptið að heimasíða Djúpavogshrepps hefur bein afskipti af málinu og viljum við hér með hvetja alla húseigendur til að lýsa upp skammdegið sem aldrei fyrr.
Sem betur fer hafa margir metnað til að gera vel og erfitt kann að verða að velja fallegustu / frumlegustu skreytingarnar. Ekki má gleyma því að víða á sveitabæjum getur einnig að líta hin fegurstu verk. Fyrirkomulagið í ár verður þannig að menn geta sent inn mynd af eigin skreytingum á djupivogur@djupivogur.is þegar meistaraverkið er fullkomnað. Einnig mun hirðljósmyndari Djúpavogshrepps verða á faraldsfæti og “bregða linsu á ljós”. Skilafrestur er 28. desember 2006.
Það verður hlutverk sérstakrar dómnefndar á vegum sveitarfélagsins að velja 3 skreytingar eða svo, sem hún telur skara fram úr. Einnig verður hægt að senda inn tilnefningar á ofangreint netfang og munu þær hafa ákveðið vægi á móti mati dómnefndar. Tilkynnt verður um skreytingar þær, sem þykja bera af um áramótin og eigandi verðlaunaskreytingarinnar fær síðan afhenta viðurkenningu (svonefnda Peru) á Þorrablótinu, sem halda á 27. jan. 2007.
Sveitarstjóri.