Djúpivogur
A A

Hjartaómunartækið afhent

Hjartaómunartækið afhent

Hjartaómunartækið afhent

skrifaði 25.06.2010 - 15:06

Eins og við höfum greint frá hér á heimasíðunni stóðu nokkrar framtakssamar mæður á Djúpavogi fyrir söfnun til kaupa á hjartaómunartæki. Þær héldu kökubasar í tvö skipti í maí og er skemmst frá því að segja að söfnunin gekk vonum framar og náðu þær að safna fyrir tækinu og rúmlega það.

Það var svo við hátíðlega athöfn, miðvikudaginn 23. júní, sem tækið var afhent á Heilsugæslunni á Djúpavogi. Gunnþóra Snæþórsdóttir, ljósmóðir, tók við tækinu en þar var einnig staddur Emil Sigurjónsson, starfsmannastjóri HSA, Þórður Þórarinn Þórðarson, starfandi læknir á Djúpavogi og Guðmunda Brynjólfsdóttir, læknaritari.

Tækið, sem heitir Babysonic Ultrasonic Doppler, er eins og áður sagði hjartaómunartæki og notað fyrir konur í mæðraeftirliti. Þá var einnig keypt tæki til að nota með hjartaómunartækinu en það er til að hlusta á blóðflæði í æðum.

Saman kostaði þetta 82.469 kr. en í heildina söfnuðust 114.912 og afganginn ætla mæðurnar að nota til að styrkja börnin í leikskólanum.

Frábært framtak hjá þessum kraftmiklu konum og ljóst að tækið mun koma að góðum notum í framtíðinni því lítið lát virðist vera á barneignum hér á Djúpavogi sem er að sjálfsögðu vel.

ÓB

 


Hafdís Reynisdóttir færir Gunnþóru Snæbjörnsdóttur tækið góða


Frá vinstri: Gunnþóra Snæbjörnsdóttir, Þórður Þórarinn Þórðarson, Guðmunda Brynjólfsdóttir, Íris Dögg Hákonardóttir, Helga Björk Arnardóttir og Hafdís Reynisdóttir