Djúpivogur
A A

Gengið á Búlandstind

Gengið á Búlandstind

Gengið á Búlandstind

skrifaði 31.07.2006 - 00:07

Laugardaginn 22.júlí gekk undirritaður á Búlandstind (1069.m) í blíðskaparveðri. 
 Ferðin var farin í þeim tilgangi að ná góðum ljósmyndum á fjallinu mikla.  Upphaf göngunnar á tindinn var frá mynni Búlandsdals, nánar tiltekið við sumarbústaðinn, en það er frekar óhefðbundin leið. Síðan lá leiðin upp eggjar að  Goðaborg þar sem göngugarpurinn hvíldi lúinn bein.  Veðrið batnaði sífellt, vindinn lægði og þokuslæðingurinn sem til þessa hafði leikið við  hlíðar fjallsins var nú allur á bak og burt.   Áfram var haldið eftir hæfilega hvíld og varð útsýnið stórfenglegra eftir því sem ofar dró og takmarkið nálgaðist.  Þegar á tindinn var loks komið voru liðnar 5 kl  frá því lagt var af stað frá rótum fjallsins. Á leiðinni voru teknar margar ágætar myndir og komst undirritaður að því að það er fyllilega þess virði að ganga þessa leið á tindinn. Goðaborgin er t.d. mjög  sérstök,  þar sem að m.a. litlir stuðlar mynda þar reglulega munstraðar flatir, rétt eins og steinunum hafi verið raðað  þar af fagmönnum í hellulögn.  Þegar á tindinn var komið gleymdist þreyta og skrælnaðar kverkar og undirritaður naut þess að renna augunum yfir sjóndeildarhringinn með myndavélina að vopni.
Þarna mátti m.a. sjá allt Snæfellið bera sig,  þá mátti einnig sjá Hofsjökul og Þrándarjökul svo og fjallgarðana hvern af öðrum langt í austur og síðast en ekki síst þá var útsýnið út yfir Búlandsnesið, eyjarnar og suður með sandrifum Álftafjarðar stórkostlegt.  Á Búlandstindinum sjálfum er varða og í henni miðri er mikill stálfleygur sem hefur verið rekinn í bergið, greinilega til vitnis um að þar skuli hinn eiginlegi tindur vera.
Undirritaður stoppaði um 3 kl á toppinum og varð m.a. vitni að því að tilkomumikinn skugga lagði frá Búlandstindi út á Berufjörðinn sem að stækkaði meir eftir því sem að sólinn lækkaði á lofti.
Eftir stórkostlega göngferð á Búlandstind var gengið  með Stórskriðugilinu niður í Búlandsdal og var göngugarpurinn þeirri stund fegnastur þegar hann gekk fram á  ískalda lind þar sem allt vökvatapið var bætt upp.  Á leiðinni niður voru teknar nokkrar myndir og var þeirri síðustu smellt af við litla fossinn við brúna sem liggur yfir vatnsveitustífluna.  Þar með lauk þessari ánægjulegu göngferð á Búlandstindinn.  Sjón er sögu ríkari.  AS