Djúpivogur
A A

Dögum myrkurs lokið

Dögum myrkurs lokið
Cittaslow

Dögum myrkurs lokið

Greta Mjöll Samúelsdóttir skrifaði 02.11.2020 - 10:11

Dögum myrkurs er nú lokið og það í tuttugasta og fyrsta skiptið. Þeir voru með afar óhefðbundnu sniði í ár í ljósi aðstæðna en þátttakan og móttökurnar framar björtustu vonum.

Sóttvarnarlögum og tilmælum var fylgt og reynt var að hugsa í lausnum til að gera fólki góðan dagamun. Íbúar voru gríðarlega duglegir að skreyta gluggana sína og umhverfi, nutu útivistar og hlustuðu á hlaðvarp sem tekið var saman í tilefni daganna.

Faðirvorahlaupið fór fram af gömlum vana og var frábær þátttaka. 19 manns tóku þátt og fóru mishratt yfir. Öll með bros á vör, móð og másandi. Hlaupið er frá Teigarhorni inn að Rjóðri að fyrirmynd Stefáns Jónssonar í bókinni Að breyta fjalli. Sigurvegararnir í karla og kvennaflokki, Óðinn Pálmason og Brynja Kristjánsdóttir, voru verðlaunuð með veglegri pítsuveislu frá Hótel Framtíð. Allir þátttakendur voru sýnilegir í endurskinsvestum frá Sjóvá og í öruggri fylgd Björgunarsveitarinnar Báru. Svöluðu svo þorstanum eftir erfiðið með veigum frá Ölgerðinni.

Búningardagurinn fór ekki á milli mála á föstudeginum en þá fór fólk í þorpinu í fullan skrúða og alls kyns kynjaverur mátti víða finna.Skuggaverk í íþróttahúsinu vakti mikla lukku þar sem saga um Nykur var varpað á vegg með ljósi og skuggamyndum umkringt draumkenndu umhverfi sem teiknað var fyrir verkið.

Ferðafélagið bauð upp á létta göngu í Helguskúta og sagan um Helgu sem flúði upp í skútann í Tyrkjaráninu var sögð ásamt fleiri sögum úr nágrenni. Mætingin var gríðarlega góð og fólk naut útivistar og menningu í ekta íslenskri haustsúld.

Laugardagskvöldið var með skemmtilegra móti þar sem frábærir tveir góðir Djúpavogsbúar settu saman spurningakeppni með tilheyrandi fjöri. Fjöldi fólks hvaðanæva að tók þátt, öll í öryggi síns heima og með tæknina að vopni.

Allra heilagra messunni í ár var streymt á netinu og fólk hvatt til að tendra kerti við kirkjuna. Ljósin loguðu í myrkrinu enda veðrið stillt og gott. Dögum myrkurs var svo lokað með fyrsta bílabíói Djúpavogs þar sem heimildarmyndin „Hamingjan býr í hæglætinu“ var frumsýnd. Myndin hefur verið í vinnslu í 4 ár um innleiðingu Cittaslow hugmyndafræðinnar í grunn- og leikskólann á Djúpavogi. Allan sunnudaginn stóð gestum til boða að grípa sér örbylgjupopp fyrir bílabíóið í boði Múlaþings.

Yfir Daga myrkurs var frábær dagar myrkurs matseðill á Hótelinu, stórkostlega hræðilegar kökur í boði í Við Voginn og Geislar í Gautavík með sérstök tilboð. Ljósmyndasamkeppnin stóð yfir alla dagana ásamt hlaðvarpinu „Dagar myrkurs á Djúpavogi“ sem var einnig útvarpað í línulegri dagskrá á sunnudeginum. Töfratréð í Hálsaskógi vakti gríðarlega lukku og verðskuldaða athygli. Skógræktarfélagið skreytti eitt tré með enduskinsmerkjum og fólk var hvatt til að taka með sér ljósfæri og leita að Töfratrénu.

Við viljum þakka ykkur öllum fyrir samveruna, hvort sem hún var í öruggri fjarlægð, í bíl, á netinu eða í útvarpi. Vonandi getum við notið Daga myrkurs með hefðbundnara sniði næst en tökum eflaust með okkur heilmikinn lærdóm frá þessum.

Til að formlega ljúka Dögum myrkurs 2020 birtum við ljóð um veturnætur, fornu íslensku hátíðina sem haldin var á þessum tíma og fólkið í Bandaríkjahreppi kallar gjarnan Halloween. Ljóðið er eftir okkar góðkunnu Kristínu Sigfinnsdóttur, ljóðskáld með meiru.

Takk fyrir samveruna í myrkrinu!