Djúpivogur
A A

Alfa Freysdóttir með flotta sýningu í Löngubúð

Alfa Freysdóttir með flotta sýningu í Löngubúð

Alfa Freysdóttir með flotta sýningu í Löngubúð

skrifaði 30.12.2012 - 12:12

Í gær var Alfa Freysdóttir með mjög áhugaverða sýningu á hönnunarverkefni sínu í Löngubúð, en Alfa hefur nýverið lokið meistaranámi í innanhúsarkitektúr frá háskóla (Academy of Art University) í San Francisco. Hönnunarverkefnið hennar Ölfu sem ber nafnið  Ægisdjúp er í senn glæsilegt og stórbrotið þar sem Alfa tók bræðslumannvirkin hér við Gleðivíkina og hannaði þau frá grunni að utan sem innan og breytti þeim í eina stóra og sannkallaða Menningarmiðstöð. Byggingin skiptist í fjölbreytt og margbrotinn rými og í tilfellum með stórkostlegu útsýni yfir fjörðinn.  Verkefnið ber með sér ferska vinda og jákvæða strauma frá arkitekinum unga hingað inn í samfélagið en Alfa hefur greinilega næma tilfinningu fyrir svæðinu enda fædd og uppalinn hér á Djúpavogi. Þá er það vissulega gaman að sjá hvernig Alfa nýtir á einstaklega smekklegan og skapandi hátt bæði efni og liti úr umhverfi og náttúru Djúpavogshrepps svo byggingin falli sem best að utan sem innan.

Það er ávallt mikið ánægjuefni þegar ungt og efnilegt fólk í skapandi greinum ræðst í að vinna verkefni í tengslum við æskustöðvar sínar og þá ekki síst í tilfellum þar sem lítil þorp á landsbyggðinni eiga í hlut. Djúpavogsbúar geta því verið og eiga að vera stoltir af því að eiga að efnilegt og skapandi fólk eins og Ölfu Freysdóttur sem hefur með þessu verkefni sínu gefið okkur Djúpavogsbúum tækifæri til að líta upp úr amstri dagsins, kíkja aðeins út fyrir kassann og sjá hlutina í nýju og fersku ljósi. 

Þeir sem eiga eftir að sjá þessa flottu sýningu eru hér með hvattir til að mæta í Löngubúð á morgun þ.e. þann 31. des. en þá stendur sýningin yfir frá kl 13:00 -15:00.  Kaffi og piparkökur í boði. 

Við óskum Ölfu Freysdóttur og fjölskyldu hennar innilega til hamingju með sýninguna og þennan glæsilega áfanga í lífi sínu.

Andrés Skúlason