Djúpivogur
A A

Afhjúpun minnisvarða um Hans Jónatan - dagskrá

Afhjúpun minnisvarða um Hans Jónatan - dagskrá

Afhjúpun minnisvarða um Hans Jónatan - dagskrá

skrifaði 17.08.2016 - 20:08

Föstudaginn 19.ágúst kl 14:00 verður athöfn í Hálskirkjugarði í gamla Hálsþorpinu, en þá verður afhjúpaður minnisvarði / bautasteinn í minningu Hans Jónatan og eiginkonu hans Katrínar Antoníusdóttur, en bæði hvíla þau í Hálskirkjugarði.  Í framhaldi kl 16:00 lýkur svo formlegri dagskrá í Löngubúð með afhendingu afmkomenda á minnismerki um Hans Jónatan.  Þá mun Gísli Pálsson mannfræðingur og rithöfundur einnig mæla nokkur orð sem og sveitarstjóri Gauti Jóhannesson.  Að lokum mun Valdimar Leifsson og Bryndís Kristjánsdóttir fjalla um heimildarmynd sína um Hans Jónatan og afkomendur og sýna í Löngubúð stiklu úr myndinni sem verður sannarlega spennandi að sjá. 

Aðrir dagskrárliðir í Löngubúð hafa ekki verið ákveðnir að svo stöddu.  


Veg og vanda að þessari athöfn hefur "Styrktarsjóður Hans Jónatan" sem stofnaður er af afkomendum Hans Jónatan. Samskipti öll við Djúpavogshrepp vegna þessa viðburðar hefur Sigurður Tómasson einn af afkomendum leitt og ber að þakka honum sérstaklega fyrir samstarfið auk þess ber að þakka öðrum þeim afkomendum sem stutt hafa verkefnið sem er sveitarfélaginu mikils virði.    

Hinn þeldökki þræll og stríðshetja, Hans Jónatan frá Jómfrúareyjum, danskri nýlendu í Karíbahafi, settist að á Djúpavogi árið 1802 og starfaði m.a. sem  verslunarstjóri á Djúpavogi um árabil.  Saga Hans Jónatan er einstæð og skemmst er í þeim efnum að minnast útgáfu bókar Gísla Pálssonar um Hans Jónatan undir heitinu "Maðurinn sem stal sjálfum sér." sem einnig hefur verið gefin út í enskri þýðingu.

Auk hins góða  framlags Gísla Pálssonar með útgáfu á bók sinni og heimildarmyndar sem er nú í lokavinnslu,  má segja að með reisingu sérstaks minnisvarða í Hálskirkjugarði marki "Styrktarsjóður Hans Jónatan" með gjöf þessari ákveðin endapunkt og tímamót sem munu halda minningu og sögu Hans Jónatan á lofti um alla framtíð fyrir komandi kynslóðir.  Minnisvarðinn um Hans Jónatan mun því hafa mikið menningarsögulegt gildi fyrir Djúpavog og verður sannarlega kærkomin viðbót við þá merku sögu sem svæðið hefur að geyma.

 

Hér með eru afkomendur, íbúar og aðrir gestir boðnir hjartanlega velkomnir að vera viðstaddir athöfnina í Hálskirkjugarði og í Löngubúð.

 

Til áréttingar fyrir gesti.

Til að komast að Hálskirkjugarði er beygt af þjóðvegi upp á einbreiðan malarslóða neðan við fjárrétt sem er steinsnar ofan þjóðvegar. Þar sem ekki er hægt að sjá fyrir hve margir verða viðstaddir athöfnina, eru gestir vinsamlegast beðnir um að virða að pláss er takmarkað fyrir bíla við kirkjugarðinn sjálfan þar sem athöfnin fer fram.  Því er mælst til þess að þeir sem eiga gott með gang að þeir leggi ökutækjum í hæfilegri fjarlægð frá garðinum t.d. við útskot við þjóðveg við gatnamótin, en þaðan eru c.a. 500 m gangur í Hálskirkjugarð eftir vegslóðanum.

 

                                                                                                                           AS

 

  Til leiðbeiningar fyrir gesti - tillaga að bílastæði og bílslóði fyrir þá sem þurfa   

f