Djúpivogur
A A

21 milljón króna úthlutað til fjarvinnsluverkefna á Djúpavogi

21 milljón króna úthlutað til fjarvinnsluverkefna á Djúpavogi
Cittaslow

21 milljón króna úthlutað til fjarvinnsluverkefna á Djúpavogi

Greta Mjöll Samúelsdóttir skrifaði 11.12.2018 - 13:12

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur staðfest tillögur valnefndar um verkefnastyrki sem veittir eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024. Að þessu sinni var 30 milljónum króna úthlutað vegna fjarvinnslustöðva. Alls bárust 16 umsóknir um styrki að fjárhæð rúmar 180 m.kr. Samningar vegna styrkjanna verða undirritaðir á næstu dögum. Markmiðið með framlögum vegna fjarvinnslustöðva er annars vegar að koma opinberum gögnum á stafrænt form og hins vegar að fjölga atvinnutækifærum á landsbyggðinni. Þriggja manna valnefnd fór yfir umsóknir og gerði tillögur til ráðherra. Byggðastofnun annast umsýslu verkefnastyrkjanna.

Gaman er að segja frá því að hæsti styrkurinn af þessum fjórum verður greiddur til verkefnisins Fjarvinnsla á Djúpavogi. Styrkurinn er veittur til Minjastofnunar Íslands en Djúpavogshreppur og Austurbrú eru samstarfsaðilar. Verkefnið verður styrkt um 9 m.kr. árið 2018 og 12 m.kr. árið 2019, samtals 21 m.kr. Gert er ráð fyrir að 1-2 starfsmenn starfi á Djúpavogi vegna verkefnisins árið 2019. Starf þeirra felst meðal annars í uppsetningu á gagnagrunni og innslætti á upplýsingum um friðuð og friðlýst minningamörk í kirkjugörðum um land allt, eldri skýrslna um fornleifaskráningar og öðrum gögnum sem eingöngu eru til á pappír. Með þessu verkefni eflist starfsstöð Minjavarðar Austurlands á Djúpavogi. Djúpavogshreppur hlakkar til samstarfsins með Minjastofnun og Austurbrú og fagnar því að styrkari stoðum sé með þessari úthlutun rennt undir fjölbreytt atvinnulíf í sveitarfélaginu um leið og varðveisla mikilvægra gagna er tryggð til framtíðar.