Djúpivogur
A A

17. júní 2011 á Djúpavogi

17. júní 2011 á Djúpavogi

17. júní 2011 á Djúpavogi

skrifaði 22.06.2011 - 13:06

Óhætt er að segja að gamla góða 17. júní stemmningin hafi verið endurvakin þegar sá ágæti dagur var haldinn hátíðlegur hér á Djúpavogi í ár. Farið var þá leið að efna til hverfakeppni, eins og þekkist víða á landinu, og var Djúpavogshreppi skipt í 4 hverfi. Það er skemmst frá því að segja að þessi tilhögun tókst einstaklega vel og var þátttaka hreppsbúa algerlega til fyrirmyndar. Strax í vikunni fyrir 17. júní var byrjuð að myndast stemmning og hverfin farin að leggja drög að skreytingum, en formlegur skreytingardagur var 16. júní.

Hverfunum var þannig skipt að í rauða hverfinu voru Hammersminni, Eyjaland, Varða, Vogaland, Mörk og dreifbýli í Hamarsfirði og Áltafirði. Bláa hverfið var skipað Markarlandi, Kambi, Brekku, Víkurlandi og dreifbýli í Berufirði. Appelsínugula hverfið skipuðu Búland, Steinar, Hraun og Hamrar. Gula hverfið var síðan skipað Borgargarði, Borgarlandi og Hlíð.

Það var mikið fjör í bænum seinni part 16. júní og fyrri part þess 17. þegar hverfin kepptust um að hrúga upp skreytingum, en á hádegi 17. júní fór dómnefnd um bæinn og valdi það hverfi sem henni þótti best skreytt.

Skrúðganga var farin kl. 14:00 frá Grunnskólanum. Það eru sennilega nokkuð mörg ár síðan að skrúðganga á Djúpavogi hefur verið svo fjölmenn, því um 150 manns þrömmuðu sem leið lá á íþróttavöllinn þar sem hátíðardagskrá skyldi fara fram. Sem varð sannarlega raunin.

Dagskráin var fjölbreytt og skemmtileg. Margrét Vilborg Steinsdóttir, fjallkona, flutti ávarp og fulltrúar hverfanna tóku þátt í hinum ýmsu þrautum, allt frá kappáti til fótboltasparks.

Að lokinni dagskrá var komið að því að telja saman stigin til að sjá hvaða hverfi myndi hljóta farandbikarinn þetta árið. Gefin voru stig fyrir bestu skreytingu, fyrir sigur í Pub-Quiz að kvöldi 16. júní, bestu mætingu á keppnissvæði og fyrir þær þrautir sem keppt var í á íþróttavellinum.

Það varð úr að Gula liðið stóð uppi sem sigurvegari en það fékk bæði stig fyrir bestu skreytingu og bestu mætingu. Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út meðal þeirra gulklæddu, enda keppnin búin að vera einstaklega hörð og tvísýn. Stefán Kjartansson og Egill Egilsson, kóngar Gula hverfisins lyftu því, fyrstir konunga, farandbikarnum sem smíðaður var af Vilmundi í Hvarfi.

Ljóst er að þessi hverfakeppni er komin til að vera og íbúar sumir hverjir strax farnir að huga að skreytingum fyrir næsta ár.

17. júní nefndin vill koma á framfæri þökkum til Vilmundar í Hvarfi fyrir farandbikarinn og svo fær Við Voginn þakkir fyrir kjötsúpuna dásamlegu.

Myndir má sjá með því að smella hér.

Texti: ÓB
Myndir: ÓB/AS/PFS/UMJ