Djúpivogur
A A

Fréttir

Bæklingur um ferðaþjónustu í Djúpavogshreppi - endurprentun

Nú er hafin vinna við endurútgáfu á bæklingi um ferðaþjónustu í sveitarfélaginu og gert er ráð fyrir því að halda sama útliti á bæklingnum og verið hefur síðustu tvö ár. 

Þeir aðilar sem óska eftir að koma sinni þjónustu á framfæri eða vilja breyta sínum upplýsingum er bent á að hafa samband við ferða- og menningarmálafulltrúa, eigi síðar en 12. febrúar nk. Hafi fyrirtæki ekki samband og óski eftir breytingum né að upplýsingar verði teknar út, er gert ráð fyrir áframhaldandi þáttöku án breytinga. 

Auglýsingin kostar kr. 20.000 pr. fyrirtæki

Stefnt er að því að nýtt upplag af bæklingnum komi út í mars nk. 

Hægt er að hafa samband á netfangið bryndis@djupivogur.is eða í síma 470-8703.

Ferða- og menningarmálafulltrúi

BR

29.01.2018

Lestun á baggaplasti

Ágætu bændur í Djúpavogshreppi

Nú stendur fyrir dyrum að fara á sveitabæi í Djúpavogshreppi og taka baggaplast til endurvinnslu. Það verður gert þriðjudaginn 6. febrúar og er áætlað að byrja að taka baggaplast á syðsta sveitabæ um hádegisbil og enda svo á Núpi. Ef ekki næst að taka allt baggaplastið í einni ferð verður önnur ferð skipulögð hið fyrsta og bændur þá upplýstir um það. Bændur eru hér með vinsamlega beðnir um að tryggja öruggt aðgengi að rúlluplastinu svo lestun gangi vandræðalaust fyrir sig.

Þeir bændur sem ætla að nýta sér þessa ferð eru vinsamlegast beðnir um að láta vita á skrifstofu Djúpavogshrepps í síma 470-8700 eigi síðar en föstudaginn 2. febrúar.

Með góðum samstarfskveðjum
Djúpavogshreppur – Sjónarás.

29.01.2018

Nýársbingó UMF Neista

Nýársbingó UMF Neista verður haldið í Löngubúð sunnudaginn 28. janúar.

Barnabingóið verður frá 14:00 - 16:00.

Verð er 500 kr. á spjald. Ef 3 eru keypt fær maður 1 að auki endurgjaldslaust!

Miðað er við að fermingaraldur (2003) skilji að börn og fullorðna.

Fullorðins bingó verður frá 20:00 - 22:00.
Verð er 1000kr. á spjald. Ef 3 eru keypt fær maður 1 að auki endurgjaldslaust!

Neisti er í óða önn að safna frábærum vinningum og þegar er búið að landa nokkrum risavinningum. Þið ættuð því ekki að missa af þessu!

Sjáumst í Bingóstuði sunnudaginn 28. janúar.

Kv. Neisti.

27.01.2018

Sameiningarmál

Samstarfsnefnd vegna sameiningar Djúpavogshrepps, Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Skaftárhrepps hefur lokið störfum. Nefndin er sammála um að viðræður sem staðið hafa yfir frá því um mitt ár 2016 hafi verið lærdómsríkar og aukið skilning milli sveitarfélaganna varðandi stjórnsýslu, stöðu og fyrirkomulag hinna ýmsu málaflokka innan þeirra.

Sú staða sem kom upp í landsmálum á tímabilinu með alþingiskosningum, stjórnarmyndun í kjölfarið, og þeirri óvissu sem þeim fylgdi varð til þess að ekki náðist að ljúka viðræðunum í tíma fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Á það sérstaklega við um ýmis áhersluverkefni sem sveitarfélögin vildu koma á laggirnar með stuðningi stjórnvalda og nýtt fyrirkomulag um stjórnskipulag sameinaðs sveitarfélags. Af þessum sökum varð það samhljóða ákvörðun nefndarinnar að ljúka störfum án þess að skila formlegu áliti um mögulega sameiningu sveitarfélaganna.

Bókun nefndarinnar á fundi 24. janúar er eftirfarandi:

Nefndin hefur aflað gagna og rætt um ýmsa þætti er tengjast mögulegri sameiningu sveitarfélaganna þriggja. Í ljósi þessara gagna og umræðna innan nefndarinnar samþykkir nefndin hér með að ljúka störfum án þessa að skila formlegu áliti um mögulega sameiningu sveitarfélaganna.

ÓB

26.01.2018

Viðvera byggingarfulltrúa

Sveinn Jónsson, byggingarfulltrúi Djúpavogshrepps, verður með viðveru á skrifstofu Djúpavogshrepps miðvikudaginn 31. janúar næstkomandi.

Þeir sem vilja setja sig í samband við Svein áður en hann kemur er bent á netfangið byggingarfulltrui@djupivogur.is.

ÓB

25.01.2018

Litið við á Hvannabrekku

Sjónvarpsstöðin N4 leit við hjá Auju og Steinþóri á Hvannabrekku síðastliðið haust.

Eins og flestir vita reka þau þar myndarlegt kúabú og eru margverðlaunuð fyrir mjólkina sem þau framleiða, eins og við höfum oft fjallað um hér á heimasíðunni.

Barnalánið eltir þau einnig og eins og segir í yfirskrift heimsóknarinnar þá er oft nóg að gera á stóru heimili.

Smellið á myndbandið hér að neðan til þess að skoða.

ÓB

 

 

 


Hvannabrekka í Berufirði

24.01.2018

Laxavinnsla hafin í Búlandstindi

Nú á dögunum hófst slátrun og vinnsla á laxi frá Fiskeldi Austurlands í Búlandstindi. Breytingar og endurbætur hafa verið gerðar á húsnæðinu og öll aðstaða er að verða til fyrirmyndar. Það hefur þurft ófá handtök til að koma þessu öllu í kring og ljóst að fyrirtækið býr að öflugu og samhentu starfsfólki.

Fjallað var um vinnsluna í kvöldfréttum RÚV sl. föstudag, hægt er að sjá innslagið með því að smella hér.

Í síðustu viku fór svo sveitarstjórinn í það sem hann kallaði "óformlega gæðakönnun á fyrstu framleiðslunni undir handleiðslu framkvæmdastjórans". Myndir frá henni má sjá hér að neðan.

ÓB

 

 

 


Elís Hlynur Grétarsson, framkvæmdarstjóri Búlandstinds og Gauti Jóhannesson sveitarstjóri bregða á leik


Elís Hlynur Grétarsson, framkvæmdarstjóri Búlandstinds og Gauti Jóhannesson sveitarstjóri 

22.01.2018

Auglýsing vegna úthlutunar byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2017/2018

Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum um byggðakvóta til fiskiskipa fyrir eftirtalin byggðarlög skv. Ákvæðum reglugerðar nr. 604/2017 um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2017/2018

Bolungarvík
Akureyrarkaupstað (Grímsey og Hrísey)
Borgarfjörð eystri
Djúpavog

Auk reglugerðarinnar er vísað til sérstakra úthlutunarreglna í neðanskráðum byggðalögum sbr. auglýsingu nr. 17/2018 í Stjórnartíðindum

• Vesturbyggð (Brjánslækur Patreksfjörður og Bíldudalur)
• Ísafjarðarbær (Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Hnífsdalur og Ísafjörður)
• Fjallabyggð (Siglufjörður og Ólafsfjörður) 

Umsóknum skal skilað til Fiskistofu á eyðublaði sem er að finna hér. Umsóknum þarf að fylgja samningur við vinnslu á eyðublaði sem er að finna hér.  

Vakin skal athygli á því að umsóknin telst ekki gild nema samningur um vinnslu fylgi.

Umsóknarfrestur er til og með 2. febrúar 2018.

Fiskistofa 17. janúar 2018

19.01.2018

Havarí tekur þátt í Startup Tourism

Havarí á Berufjarðarströnd er eitt 10 fyrirtækja sem tekur þátt í Startup Tourism í ár. 

Startup Tourism er tíu vikna viðskiptahraðall sem er sérsniðinn að þörfum nýrra fyrirtækja í ferðaþjónustu, en verkefninu er ætlað að veita þátttakendum faglega undirstöðu og hraða ferlinu frá því að hugmynd fæðist þar til viðskipti taka að blómstra. 

Tíu teymi hafa verið valin til þátttöku í hraðalinn sem hófst þann 15. janúar næstkomandi en hann verður til húsa í nýju húsnæði Íslenska ferðaklasans að Fiskislóð 10 að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Óskað var eftir eftir lausnum sem gætu fjölgað afþreyingarmöguleikum í ferðaþjónustu á Íslandi, styrkt innviði greinarinnar og stuðlað að dreifingu ferðamanna um allt land, allan ársins hring. 

Alls bárust 113 umsóknir í Startup Tourism að þessu sinni sem er 20% aukning á milli ára, en umsóknarfrestur rann út þann 11. desember. Af þeim hópi voru 25 umsækjendur teknir í viðtöl og hafa tíu nú verið valdir til þátttöku. Samkvæmt fulltrúa dómnefndar einkenndu mikil gæði og sterkur bakgrunnur umsóknirnar í ár og var valið því ekki auðvelt. 

Hópurinn sem kemur vítt og breitt af landinu vinnur bæði að tæknilausnum á sviði ferðaþjónustu og nýjum eða betri afþreyingarmöguleikum. Í tíu vikur fá forsvarsmenn fyrirtækjanna tækifæri til að þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar undir leiðsögn reyndra frumkvöðla, fjárfesta, lykilaðila innan ferðaþjónustunnar og annarra sérfræðinga þeim að kostnaðarlausu. 

Bakhjarlar Startup Tourism eru Isavia, Íslandsbanki, Bláa Lónið og Vodafone, en Icelandic Startups og Íslenski ferðaklasinn sjá um framkvæmd verkefnisins.


Eftirtaldin tíu fyrirtæki taka þátt í Startup Tourism árið 2018:

1. Arctic Surfers - Sérhæfð ferðaþjónusta fyrir brim-, róðra- og snjóbrettaiðkendur í ævintýraleit

2. Havarí - Gisting og viðburðir á lífrænu býli í Berufirði

3. Igloo Camp - Einstök tjaldhótel í stórbrotinni náttúru

4. Kaffi Kú og The Secret Circle - Ferðaþjónusta og upplifun í Eyjafjarðarsveit

5. Propose Iceland - Viðburðaþjónusta fyrir ferðamenn á biðilsbuxum

6. Pure Magic - Leikhúsupplifun byggð á íslenskum sagnaarfi

7. basicRM - Sjálfvirkni í verðlagningu fyrir ferðaþjónustu

8. Stórsaga - Víkingaheimur í Mosfellsdal 

9. Under the Turf - Þjóðleg upplifun í gömlum torfbæ í Borgarnesi

10. When in Iceland - Veflausn sem tengir erlenda ferðamenn við einstaklinga sem vilja bjóða uppá afþreyingatengda ferðaþjónustu

Heimasíðan óskar Berglindi og Svavari innilega til hamingju með þennan heiður og óskar þeim alls hins besta í þessu verkefni.

ÓB

17.01.2018

Myndband frá undirbúningi fyrir árshátíð grunnskólans

Föstudaginn 19. janúar fer árshátíð Djúpavogsskóla fram á Hótel Framtíð. Í þetta skiptið setur skólinn upp söngleikinn Mamma Mia.

Allir dagar eftir jólafrí hafa meira og minna vera helgaðir undirbúningi og starfsfólk og nemendur hafa á hverjum degi unnið allra handa þrekvirki.

Í meðfylgjandi myndbandi má sjá svipmyndir frá þessum undirbúningi.

Spennan er svo sannarlega að verða óbærileg en eins og áður sagði fer sýningin fram á Hótel Framtíð og hefst klukkan 18:00. Allir hjartanlega velkomnir.

ÓB

Sveitarstjórn: Fundargerð 11.01.2018

Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.

ÓB

12.01.2018

Kristófer Dan í liði ME í Gettu betur

Djúpavogsbúinn Kristófer Dan Stefánsson (Stebba og Kristborgar Ástu) situr í liði Menntaskólans á Egilsstöðum í Gettu betur. Liðið fór á kostum í fyrstu umferð spurninakeppninnar þegar það vann Menntaskólann á Laugarvatni með 39 stigum gegn 15. Hinir tveir keppendur ME eru þau Ása Þorsteinsdóttir og Björgvin Ægir Elísson.

Í viðtali við Austurfrétt sagði Ása möguleika liðsins í ár vera góða, að þau ætli sér í úrslitin.

Við höfum a.m.k. fulla trú á liðinu en dregið verður í aðra umferð á morgun.

Við óskum Kristófer Dan og félögum alls hins besta í komandi keppni.

ÓB
Mynd: Austurfrett.is

 

  

Lið Menntaskólans á Egilsstöðum: Kristófer Dan Stefánsson, Ása Þorsteinsdóttir og Björgvin Ægir Elísson

11.01.2018

Sveitarstjórn: Fundarboð 11.01.2018

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundarboð 11.01.2018
41. fundur 2014-2018

Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 11. janúar 2017 kl. 16:00.
Fundarstaður: Geysir.

Dagskrá:

1. Fjárhagsleg málefni
2. Fundargerðir

a) Stjórn Ríkarðssafns ehf., dags.18. ágúst 2017.
b) Stjórn SSA, dags. 11. desember 2017.
c) Félagsmálanefnd, dags. 12. desember 2017.
d) Heilbrigðiseftirlit Austurlands, dags. 13. desember 2017.
e) Ferða- og menningarmálanefnd, dags. 15. desember 2017.
f) Hafnarnefnd, dags. 15. desember 2016.
g) Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, dags. 15. desember 2017.
h) Starfshópur um fjárhagsleg málefni, dags. 11. janúar 2018.

3. Erindi og bréf

a) Landgræðslan, endurheimt votlendis, dags. 12. desember 2017.
b) Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, breyting á Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008-2020, dags. 13. desember 2017.
c) Skipulagsstofnun, Borgargarður, hverfisvernd, dags. 20. desember 2017.
d) Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir, Albert Jensson, tillaga að deiliskipulagi við Teigarhorn, dags. 7. janúar 2018.
e) Mannvirkjastofnun, vegna brunavarnaáætlunar, dags. 4. janúar 2018.

4. Byggingar- og skipulagstengd málefni
5. Skýrsla sveitarstjóra


Djúpavogi 8. janúar 2018
Sveitarstjóri

08.01.2018

Tryggvabúð - breyttur opnunartími

Vakin er athygli á breyttum opnunartíma í Tryggvabúð en frá og með áramótum opnar klukkan 10:30.

Opnunartími er að öðru leyti óbreyttur.

Sveitarstjóri

05.01.2018

Þrettándinn í Djúpavogshreppi 2018

Sjá meðfylgjandi auglýsingu frá þrettándabrennunefnd.

Smellið á myndina til að stækka hana.

ÓB

 

 

 

 

 

 

 

05.01.2018

Nýr rekstraraðili á Löngubúð

Þann 1. janúar tók Ester Sigurásta Sigurðardóttir við sem nýr rekstraraðili Löngubúðar.

Ester er í síma 899-7600 og langar að biðja alla þá sem eru með fasta viðburði í Löngubúð að setja sig í samand við hana, t.d. þá sem sjá um félagsvistina næstu föstudaga.

Heimasíðan óskar Ester velfarnaðar í þessu nýja verkefni.

ÓB

04.01.2018