Djúpivogur
A A

Fréttir

Jólamarkaður kvenfélagsins Vöku

Jólamarkaður kvenfélagsins Vöku verður haldinn í Löngubúð föstudaginn 1. desember kl. 18:00-20:00.

Pantanir á söluborðum eru hjá:
Önnu Sigrúnu, sími 893-8399
Þórunnborgu, sími 868-9925

Athugið að panta þarf borð í síðasta lagi 28. nóvember

Vökukonur

30.11.2017

Jólamatseðill á Hótel Framtíð

Við munum bjóða upp á þennan girnilega jólamatseðil öll kvöld dagana 29. nóvember - 9. desember 2017 milli kl. 18:00-21:00.

FORRÉTTIR:

SKELFISKSÚPA
Steiktur humar, kræklingur, hörpuskel, möndlur
Kr. 2.090

HREINDÝRA TARTAR
Bökuð rauðrófa, jarðskokkar, perlulaukur, sinneps majó
Kr. 2.210

SALTFISK CEVICHE
Reykt papriku krisp, maukaðir tómatar, basil majó
Kr. 1.980

AÐALRÉTTIR:

FRÖNSK ANDABRINGA
Gulrótarmauk, Pommes Anna (kartöflur), ostrusveppir, rósakál, kirsuberja sósa
Kr. 4.920

AUSTFÍRSKT HREINDÝRASTEIK
Gulrótarmauk, Pommes Anna (kartöflur), ostrusveppir, rósakál, kirsuberja sósa
Kr. 5.480

HUMAR
Hótel Framtíð klassík: Ristaðir í hvítlauksmjöri, ristað brauð, fennel salat
Kr. 5.900

EFTIRRÉTTIR:

SÚKKULAÐI TVENNA
Brennt smjör brownie&hvítt sukkulaði mousse
Kr. 2.090

ÞRJÁR TEGUNDIR ÍS
Dökk súkkulaði, Pekan-Karamellu og lakrís ís
piparköku crumble, rjómi & sósa
Kr. 1.690

RIS A LA MANDLE
Karamella, bakað hvítt súkkulaði, hindber, möndlur
Kr. 1.690


 

TILBOÐS JÓLAMATSEÐILL HÓTEL FRAMTÍÐ

– – – – –
FORRÉTTIR:

SKELFISKSÚPA
Steiktur humar, kræklingur, hörpuskel, möndlur
HREINDÝRA TARTAR
Bökuð rauðrófa, jarðskokkar, perlulaukur, sinneps majó
SALTFISK CEVICHE
Reykt papriku krisp, maukaðir tómatar, basil majó

– – – – –
AÐALRÉTTUR:

FRÖNSK ANDABRINGA
Gulrótarmauk, Pommes Anna (kartöflur), ostrusveppir, rósakál, kirsuberja sósa

– – – – –
EFTIRRÉTTUR:

SÚKKULAÐI TVENNA
Brennt smjör brownie & hvítt sukkulaði mousse
eða:
ÞRJÁR TEGUNDIR ÍS
Dökk súkkulaði, Pekan-Karamellu og lakrís ís piparköku crumble, rjómi & sósa
eða:
RIS A LA MANDLE
Karamella, bakað hvítt súkkulaði, hindber, möndlur

Þessi matseðill er eingöngu framreiddur fyrir alla við borðið.

Verð 5.900 per mann.

– – – – –
Kryddadur jólaglögg 1.400 kr. (u.þ.b. 2 glös)
Tuborg jólabjór 500 kr.

– – – – –
Borðapantanir í s. 478 88 87 milli 17:00-22:00.

30.11.2017

Frá Djúpavogskirkju

Djúpavogskirkja

Messa

1.sunnudag í aðventu

3.des.kl. 14.00

Organisti Guðlaug Hestnes

Börnin kveikja á fyrsta kertinu á aðventukransinum.  

Piparkökur, kaffi og djús eftir messu.

                               

                                                                                                                      sóknarprestur

30.11.2017

Tendrun jólatrésins 2017

Ljósin á jólatré Djúpavogshrepps verða tendruð fyrsta sunnudag aðventu, þann 3. desember kl. 17:00, á Bjargstúni.

Heppinn grunnskólanemi er dreginn út til að kveikja jólaljósin. Svo verður sungið og dansað kringum jólatréð.

Mögulegt er að jólasveinar kíki í snemmbúna heimsókn niður í mannabyggð og hafi jafnvel eitthvað með sér í pokahorninu.

Jólatréð er gjöf frá Skógræktarfélagi Djúpavogs.

Ungmennafélagið Neisti og Björgunarsveitin Bára leggja einnig sitt að mörkum til skemmtunarinnar.

Á meðfylgjandi mynd sjást sveitarstjóri og skrifstofustjóri Djúpavogshrepps í skógræktinni þegar verið var að velja og saga niður jólatréð í ár.

Sveitarstjóri


Gauti Jóhannesson og Anna Sigrún Gunnlaugsdóttir

 

28.11.2017

Uppbyggingarsjóður Austurlands - viðvera verkefnastjóra á Djúpavogi í ...

Minnum á viðveru verkefnastjóra Uppbyggingarsjóðs í dag í Djúpinu (Sambúð) frá kl. 15:00-18:00. Þeir sem hafa áhuga á að sækja um í sjóðnum eru hvattir til þess að mæta. 

Tilgangur sjóðsins er að styrkja menningar-, atvinnu- og nýsköpunarverkefni sem falla að Sóknaráætlun Austurlands. Styrkir eru veittir annars vegar til menningar-, atvinnu- og nýsköpunarverkefna og hins vegar stofn- og rekstrarstyrkir til menningarmála.

Styrkveitingar miðast við árið 2018, og verður það eina úthlutun ársins. Umsóknarfrestur er til kl. 16:00 þann 11. desember 2017. Opnað verður fyrir umsóknir úr Uppbyggingarsjóði Austurlands á rafrænni upplýsingagátt á heimasíðu Austurbrúar fimmtudaginn 9. nóvember, www.austurbru.is, og þaðan fara umsækjendur í gegnum innskráningu hjá Hagstofu Íslands með Íslykli eða rafrænum skilríkjum.

Frekari upplýsingar um umsóknarferlið, úthlutunarreglur 2018, Sóknaráætlun Austurlands og fleira er að finna á þessari heimasíðu en auk þess er hægt að hafa samband við starfsstöðvar Austurbrúar í síma 470 3800 eða verkefnastjóra Uppbyggingarsjóðs,  Signýju Ormarsdóttur

Úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs Austurlands hefur ákveðið að horfa til verkefna sem tengjast aldarafmæli fullveldis Íslands 2018 og munu þau fá aukastig við mat og samanburð á umsóknum. Boðið verður upp á vinnustofur og viðveru á vegum Austurbrúar þar sem veitt verður ráðgjöf við gerð umsókna.

Viðvera verkefnastjóra Uppbyggingarsjóðs, Signýjar Ormarsdóttur verður á eftirfarandi stöðum:

Vopnafjörður 16. nóvember kl. 14:00 – 18:00 í Kaupvangi
Stöðvarfirði 17. nóvember kl. 15:00 – 17:00 í Sköpunarmiðstöðinni
Breiðdalsvík 22. nóvember kl. 15:00 – 18:00 á skrifstofu Breiðdalshrepps
Borgarfjörður eystri 24. nóvember kl. 10:00 – 13:00 á sveitarstjórnarskrifstofunni

Vinnustofur á starfsstöðvum Austurbrúar þar sem hægt verður að fá aðstoð við gerð umsókna:

Djúpivogur 27. nóvember kl. 15:00 – 18:00 í Djúpinu (Sambúð)
Neskaupstað 28. nóvember kl. 15:00 – 18:00 í Kreml
Seyðisfjörður 29. nóvember kl. 15:00 – 18:00 í Silfurhöllinni
Egilsstaðir 1. desember kl. 15:00 – 18:00 á Vonarlandi

ATH. Kynning á umsóknarferlinu verður frá kl. 15:00 – 16:00 í Djúpinu og aðstoðað verður með umsóknir eftir það.

Athugið að nauðsynlegt er að skrá sig á vinnustofurnar og viðveru fyrirfram með því að senda póst á signy@austurbru.is a.m.k. tveim dögum fyrir skráða dagsetningu.

27.11.2017

Sykursýkismæling á vegum Lionsklúbbsins

Lionsklúbburinn stendur fyrir ókeypis sykursýkismæling á morgun á milli 14:00 og 18:00 í Kjörbúðinni.

Allir velkomnir

Lionsklúbbur Djúpavogs

24.11.2017

Djúpavogshreppur hlaut minjaverndarviðurkenningu Minjastofnunar 2017

Minjastofnun Íslands veitti Djúpavogshreppi sérstaka viðurkenningu fyrir mikilvægt brautryðjendastarf í þágu minjaverndar á ársfundi stofnunarinnar í gær, 23. nóvember 2017. Viðurkenningin er veitt fyrir sérstaka áherslu á verndun menningararfs í stefnumörkun sveitarfélagsins á sviði skipulagsmála og atvinnuþróunar. Þetta er í annað sinn sem slík viðurkenning er veitt í tengslum við ársfund stofnunarinnar. Árið 2015 hlaut Vegagerðin viðurkenninguna fyrir frumkvæði að varðveislu og endurbyggingu sögulegra brúarmannvirkja á undanförnum árum.IMG_3116---Copy

Djúpavogshreppur er byggðarlag með 452 íbúa. Samfélagið þar hefur á undanförnum árum átt í vök að verjast í atvinnumálum og hafa stjórnendur sveitarfélagsins þurft að bregðast við ýmsum afleiðingum þess. Engu að síður hafa þeir lagt metnað sinn í því að marka byggðarlaginu sérstöðu í skipulags- og atvinnumálum með því að leggja áherslu á sögulega arfleifð staðarins í allri stefnumótun sveitarfélagsins, en Djúpivogur er meðal elstu verslunarstaða landsins. Þýskir kaupmenn hófu þar kaupskap og byggðu þar verslunarhús við voginn árið 1589. Frá þeim tíma hefur kauptúnið verið miðstöð verslunar, útgerðar og annars athafnalífs á sunnanverðum Austfjörðum. Af sýnilegum minjum vega þyngst hin friðuðu og endurbyggðu verslunarhús 18. og 19. aldar, Langabúð og Faktorshúsið.

Í aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008-2020 var sett fram metnaðarfull húsverndarstefna og á grundvelli hennar lét sveitarfélagið vinna viðamikla húsakönnun sem lokið var við árið 2014. Könnunin var unnin af Teiknistofu Guðrúnar Jónsdóttur og er hún vandaðri og efnismeiri en flestar slíkar kannanir sem gerðar hafa verið hér á landi. Nær hún bæði til þéttbýlisins við voginn og dreifðari byggða við Álftafjörð, Hamarsfjörð og Berufjörð, auk Papeyjar, þar sem er að finna dæmi um sérstakt staðbundið byggingarlag sveitabæja frá fyrri tíð. Auk stefnumótunar hefur sveitarfélagið beitt sér fyrir og að hluta til kostað endurbyggingu þriggja gamalla húsa og er eitt þeirra, Geysir, nú ráðhús byggðarlagsins. Frumkvæði forráðamanna sveitarfélagsins á sviði húsverndar hefur orðið eigendum eldri húsa á staðnum hvatning til að gera upp hús sín og á þann hátt styrkja hina sögulegu ásýnd byggðarinnar.

Einnig var framkvæmd fornleifaskráning á svæðinu árið 2016 af Fornleifastofnun Íslands ses. og leiddi hún í ljós mikinn fjölda fornleifa á svæðinu, eða 51 fornleifar innan þess svæðis sem nú hefur verið skilgreint sem verndarsvæði í byggð. Saman felur þessi menningarsögulegi arfur í sér mikil tækifæri til verndar og uppbyggingar.

Þann 15. október sl. staðfesti mennta- og menningarmálaráðherra tillögu Djúpavogshrepps um verndarsvæði í byggð : „Verndarsvæði við Voginn“ í samræmi í lög um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015. Verndarsvæði við Voginn er fyrsta tillaga að verndarsvæði í byggð sem staðfest er á Íslandi.

Frétt af minjavernd.is

 


Andrés Skúlason, oddviti, veitir viðurkenningunni móttöku úr höndum Kristínar Huldar, forstöðumanns Minjastofnunar, fyrir hönd sveitarfélagsins.

24.11.2017

Viðvera byggingarfulltrúa

Sveinn Jónsson, byggingarfulltrúi Djúpavogshrepps, verður með viðveru á bæjarskrifstofunni mánudaginn 27. nóvember milli 13:00 og 16:00.

ÓB

24.11.2017

Jóladagskráin í Djúpavogshreppi

Nú stendur til að safna saman upplýsingum um viðburði og opnunartíma verslana og þjónustu í eina auglýsingu sem yrði aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins og samfélagsmiðlum.

Upplýsingar um viðburð eða opnunartíma óskast sendar eigi síðar en 1.desember.

Nánari upplýsingar veitir ferða- og menningarmálafulltrúi, á netfanginu bryndis@djupivogur.is eða í síma 868-4682.

Ferða- og menningarmálafulltrúi.

BR

24.11.2017

Sveitarstjórn: Fundargerð 16.11.2017

Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.

ÓB

20.11.2017

Djúpavogshreppur auglýsir

Djúpavogshreppur óskar eftir tilboðum í veitingarekstur Löngubúðar frá 1. janúar 2018.

Tilboðum skal skila á skrifstofu sveitarfélagsins fyrir kl. 15:00 föstudaginn 8. desember. Tilboð verða opnuð á sama stað kl. 14:00 mánudaginn 11. desember að viðstöddum þeim bjóðendum sem óska. Tilboð skulu gilda í tvær vikur frá opnun þeirra.

Djúpavogshreppur áskilur sér rétt til að taka hvaða tilboði sem er eða hafna öllum. Vakin er athygli á að ýmsar kvaðir fylgja rekstrinum sem áhugasömum er bent á að kynna sér.

Frekari upplýsingar veitir undirritaður í síma 470-8700 og á sveitarstjori@djupivogur.is og núverandi rekstaraðili Rán Freysdóttir ran@ran.is

Sveitarstjóri

20.11.2017

Jólahlaðborð Tryggvabúðar

Jólahlaðborð Í Tryggvabúð verður haldið 2. desember kl. 18:00.

Allir 60 ára og eldri velkomnir meðan húsrum leyfir.

Aðgangseyrir 3.500 kr.

Skráning í síma 470-8745 fyrir 21. nóvember næstkomandi.

Skvísurnar í Tryggvabúð.

17.11.2017

Frá Skrifstofuþjónustu Austurlands

Kynnum starfsemi okkar í Sambúð mánudaginn 20. nóvember kl. 16.00

Fjölbreytt bókhalds- og skattaþjónusta.
Heitt á könnunni.

Skrifstofuþjónusta Austurlands

14.11.2017

Myndasýning í Tryggvabúð

Nú ætla þeir félagar, Andrés Skúlason og Ólafur Björnsson, að endurvekja myndasýningarnar vinsælu í Tryggvabúð. 

Næsta myndasýning verður miðvikudaginn 15. nóvember kl. 17:00.

Allir hjartanlega velkomnir.

ÓB

 

 

 

 

 

14.11.2017

Sveitarstjórn: Fundarboð 16.11.2017

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundarboð 16.11.2017

39. fundur 2014-2018

Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 16. nóvember 2017 kl. 16:00. Fundarstaður: Geysir.

Dagskrá:

1. Fjárhagsleg málefni
a) Ákvörðun um útsvarsprósentu 2018.
b) Gjaldskrár 2018 til fyrri umræðu.
c) Eignabreytingar og framkvæmdir 2018.
d) Styrkbeiðnir, samningsbundnar greiðslur o.fl. v. ársins 2018.
e) Drög að rekstrarútkomu Djúpavogshrepps 2017.
f) Fjárhagsáætlun Djúpavogshrepps 2018. Fyrri umræða.

2. Fundargerðir
a) Félagsmálanefnd, dags. 17. október 2017.
b) Fræðslunefnd, skólastjórar og sveitarstjórn, dags. 18. október 2017.
c) Stjórn Hafnasambands íslands, dags. 25. október 2017.
d) Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, dags. 27. október 2017.
e) Hafnarnefnd, dags. 31. október 2017.
f) Aðalfundur Heilbrigðiseftirlits Austurlands, dags. 1. nóvember 2017.
g) Starfshópur um fjárhagsleg málefni, dags. 2. nóvember 2017.
h) Stjórn Brunavarna Austurlands, dags. 10. nóvember 2017.
i) Starfshópur um fjárhagsleg málefni, dags. 13. nóvember 2017.
j) Fræðslu- og tómstundanefnd, dags. 15. nóvember 2017.

3. Erindi og bréf
a) Stígamót, styrkbeiðni, dags. 15. október 2017.
b) Skipulagsstofnun, vegna Borgargarður, dags. 20. október 2017.
c) Ungt Austurland, styrkbeiðni, dags. 25. október 2017.
d) Ríkiseignir, vegna Hamarssels, dags. 31. október 2017.
e) Skógræktarfélag Djúpavogs, styrkbeiðni, dags. 1. nóvember 2017.
f) Hólmfríður Haukdal og Eðvald Smári Ragnarsson, kaup eða leiga á Hammersminni 2b, dags. 1. nóvember 2017.
g) Skipulagsstofnun, vegna Hamarssels, dags. 9. nóvember 2017.
h) Fiskeldi Austfjarða, vegna athugasemda, dags. 14. nóvember 2017

4. Hitaveita Djúpavogshrepps
5. Starfsmannamál
6. Ályktanir aðalfundar SSA 2017
7. Bygginga- og skipulagsmál
8. Samantekt samstarfsnefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara vegna bókunar 1 í kjarasamningi aðila
9. Ljósleiðaravæðing í dreifbýli Djúpavogshrepps
10. Málefni Djúpavogsskóla
11. Skýrsla sveitarstjóra

Djúpavogi 13. nóvember 2017
Sveitarstjóri

13.11.2017

Allt að 21.000 tonna framleiðsla á laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði

Mat á umhverfisáhrifum - frummatsskýrsla í kynningu.

Kynningartími stendur til 17. nóvember 2017.

Fiskeldi Austfjarða hefur lagt fram frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum ofangreindrar framkvæmdar í Djúpavogshreppi og Fjarðabyggð.

Frummatsskýrslan liggur frammi til kynningar á eftirtöldum stöðum: Bókasafni Djúpavogs, Bókasafni Fjarðabyggðar á Fáskrúðsfirði, bæjarskrifstofu Djúpavogshrepps, bæjarskrifstofu Fjarðabyggðar, Skipulagsstofnun og í Þjóðarbókhlöðunni. 

Frummatsskýrslan er einnig aðgengileg hér.

Allir geta kynnt sér frummatsskýrsluna og lagt fram athugasemdir. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 17. nóvember 2017 til Skipulagsstofnunar eða með tölvupósti á skipulag@skipulag.is.

Frétt af skipulagsstofnun.is

10.11.2017

Laus vistunarpláss í janúar 2018

Laus eru 2 vistunarpláss í leikskólanum Bjarkatúni í janúar 2018. Vinsamlegast sækið um fyrir 1. desember 2017. Umsóknir sem þegar eru komnar eru í gildi.

Inntökureglur eru á heimasíðu leikskólans undir Um Bjarkatún, skráningar og innritunarreglur.

Nánari upplýsingar veitir leikskólastjóri í s: 470-8720 eða á bjarkatun@djupivogur.is Umsóknareyðublöð eru á heimasíðu leikskólans einnig er hægt að sækja um hjá leikskólastjóra að Hammersminni 15 en öllum umsóknum skal skila þangað.

Guðrún S. Sigurðardóttir
Leikskólastjóri

Gjöf frá kvenfélaginu Vöku til ÍÞMD

Enn og aftur hefur kvenfélagið Vaka á Djúpavogi sýnt velvilja í verki hér í samfélaginu. Í dag kom Ingibjörg Stefánsdóttir, formaður félagsins, færandi hendi með gjöf til handa Íþróttamiðstöð Djúpavogs, annars vegar, hástökksdýna og hinsvegar hjartastuðtæki. En geta skal þess að þetta er í annað sinn sem að kvenfélagið gefur hjartastuðtæki í Íþróttamiðstöðina og áður hefur kvenfélagið gefið íþróttahúsinu veglegar gjafir á liðnum árum.

Meðfylgjandi mynd er tekin við afhendingu á miðri æfingu hjá Neistakrökkunum sem voru auðvitað himinglöð. Við færum hér með kvenfélaginu Vöku á Djúpavogi okkar innilegustu þakkir fyrir þessar dýrmætu gjafir.

                                                       Djúpavogshreppur / starfsfólk ÍÞMD

 

 

 

 

 

 

08.11.2017

Nýr starfsmaður

Nýr starfsmaður, Rúnar Matthíasson, hefur tekið til starfa hjá Djúpavogshreppi.

Starfið felst í eftirfarandi: Landvarsla Teigarhorn / úttektaraðili byggingarfulltrúa / eftirlitsaðili með viðhaldi fasteigna Djúpavogshrepps, samanlagt 100% starf.

Stöðugildi landvarðar á Teigarhorni verður 70% starf frá og með næsta ári í stað 100% starfshlutfalls áður, mótframlag hefur fylgt landvörslustarfinu. Auk landvörslu mun landvörður /staðarhaldari m.a. einnig sinna viðhaldi fasteigna á Teigarhorni og annast úrkomumælingar í samstarfi við Veðurstofu Íslands og sinna öðrum þeim verkum sem til falla.  

Byggingarfulltrúi og úttekaraðili byggingarfulltrúa.
Til að mæta eftirspurn eftir þjónustu byggingarfulltrúa hefur verið gerður samningar við Verkfræðistofuna Mannvit á Reyðarfirði um stöðu byggingarfulltrúa fyrir Djúpavogshrepp.  Byggingarfulltrúi Mannvits mun mæta a.m.k. eina ferð í mánuði á Djúpavog. Svo ná megi sem mestri hagkvæmni í þessum málaflokki sem hefur farið vaxandi hefur Rúnar Matthíasson byggingariðnfræðingur og húsasmíðameistari verið ráðin í 30% stöðugildi sem úttektaraðili byggingarfulltrúa til að sinna þeim verkum sem byggingarfulltrúi felur honum hér í Djúpavogshreppi. 

Með þessu fyrirkomulagi er horft sérstaklega til þess að ná fram hagkvæmni með því að úttektaraðili Rúnar Matthíasson sinni flestum verkum á heimaslóð í nánu samráði og í umboði byggingarfulltrúa og með því felst m.a. mikill sparnaður í akstri.  (Rúnar hefur þegar tekið til starfa sem úttekaraðili byggingarfulltrúa og verður viðvera og viðtalstímar úttektaraðila auglýst innan skamms og nánara fyrirkomulag útlistað til upplýsingar fyrir íbúa.)

Jafnframt mun Rúnar sjá um aðra þætti fyrir sveitarfélagið í starfi sínu sem felst í að halda utan um og skrá helstu viðhaldsverkefni á fasteignum sveitarfélagsins og gera tillögur til sveitarstjórnar í þeim efnum. 

Rúnar er giftur Þuríði Elísu Harðardóttir Minjaverði Austurlands og eiga þau tvö börn. Það á sérstaklega vel við að minjavörður svæðisins hafi búsetu á einu af okkar helstu og þekktustu minjasvæðum á Austurlandi sem Teigarhorn er. Ljóst er að menntun og þekking Þuríðar mun því einnig styrkja Teigarhorn og þau miklu menningarverðmæti sem svæðið hefur að geyma.

                               Djúpavogshreppur býður Rúnar Matthíasson velkomin til starfa 

08.11.2017

Félagsvist í Löngubúð - breyttur tími

ATHUGIÐ BREYTTUR TÍMI Á FÉLAGSVISTINNI

Félagsvistin verður á sínum stað í kvöld 3. nóvember.
Við viljum þó vekja athygli á breyttum tíma.

Nú hefst vistin kl. 20:00, húsið opnar 19:30.

Allir velkomnir.

Starfsfólk Löngubúðar

03.11.2017

Allra heilagra messa í Djúpavogskirkju

Guðsþjónusta sunnudaginn 5. nóvember kl. 14.00 - Allra heilagra messa.

Við minnumst látinna ástvina og kveikjum á kertum við altarið í minningu þeirra.

Hrafnhildur Eyþórsdóttir djákni prédikar

Organisti: Guðlaug Hestnes

Njótum saman góðrar stundar í kirkjunni og helgum minningar um látna ástvini,

sóknarprestur

02.11.2017