Djúpivogur
A A

Fréttir

Kjörfundur vegna alþingiskosninga 2016

Laugardaginn 29. október næstkomandi fara fram kosningar til Alþingis. Í Djúpavogshreppi fer atkvæðagreiðslan fram í Tryggvabúð og hefst kjörfundur kl. 10:00 og stendur a.m.k. til kl. 18:00 sbr. lög nr. 5/1998.

„66. gr. Atkvæðagreiðslu má ekki slíta fyrr en átta klukkustundir eru liðnar frá því að kjörfundur hófst og ekki fyrr en hálf klukkustund er liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram.“

Á kjörstað geri kjósandi grein fyrir sér með framvísun skilríkja eða á annan fullnægjandi hátt.

Formaður kjörstjórnar

24.10.2016

Kvennafrí í dag kl. 14:38 - tilkynning frá UMF Neista

Vegna kjarabaráttu kvenna mun þjálfari Neista leggja niður störf frá 14:38 í dag, mánudaginn 24. október eins og konur um allt land!

Það mun því ein æfing falla niður í lok dags hjá Neista vegna þessa. 

UMF Neisti.

24.10.2016

Kvennafrí í dag kl. 14:38 - tilkynning frá Djúpavogsskóla

Vegna kjarabaráttu kvenna munu konur í Djúpavogsskóla leggja niður störf kl. 14:38 í dag, mánudaginn 24. október.

Af því tilefni biðjum við forráðamenn að gera ráðstafanir og sjá til þess að búið verði að sækja börnin í grunn- og leikskóla fyrir þann tíma.

Sjá nánar um kvennafrídaginn hér.

Skólastjórar Djúpavogsskóla.

 

 

Dagar myrkurs á Djúpavogi - hugmyndir að viðburðum

Dagar myrkurs verða haldnir dagana 2.- 6. nóvember um allt Austurland. Hér með er óskað eftir hugmyndum að viðburðum fyrir Daga myrkurs á Djúpavogi.

Fyrirtæki og félagasamtök sem hafa nú þegar skipulagt viðburði í tengslum við Daga myrkurs og vilja vera með í sameiginlegri auglýsingu skulu einnig senda póst á ferða- og menningarmálafulltrúa.

Efni skal senda inn á netfangið bryndis@djupivogur.is

Ferða - og menningarmálafulltrúi Djúpavogshrepps,

BR

20.10.2016

Að heiman og heim & Hausthittingur SAM félagsins 2016

Á fyrsta vetrardag býður SAM félagið grasrótarsamtök skapandi fólks á Austurlandi uppá árlegan Hausthitting félagsins og til opnunar á Að heiman og heim laugardaginn 22. október milli 16 -19.
Undanfarin ár hafa verið sýnd lokaverkefni austfirskra listaháskólanema og er alls búið að sýna um 25 verkefni sl. 6 ár. Að þessu sinni verður þessum tveim viðburðum slegið saman og fjallar Að heiman og heim um ungt fólk af Austurlandi sem hefur snúið heim og  er nú að fást við að skapa sér atvinnu út frá fjölbreyttri menntun. Í aðdraganda kostninga býður SAM félagið frambjóðendum allra flokka til samtals um hvaða innviði þarf að efla svo að skapandi fólk geti snúið heim og skapað sér atvinnu á fjölbreyttan hátt og í takt við tíðarandann.
 Viðburðurinn byggir ekki á ræðuhöldum heldur á kynningum, samtali, möppun góðra hugmynda sem tilvonandi alþingismenn fá með sér í nesti inn á Alþingi. SAM félagið kynnir einnig félagið og nýja heimasíðu.
 Viðburðurinn er opinn öllum sem hafa áhuga á eflingu skapandi samfélags á Austurlandi.
Viðburðinn má sá á Facebook með því að smella hér: https://www.facebook.com/events/816234125146459/
 
SAM
 
BR
19.10.2016

RIFF í Löngubúð

RIFF í Löngubúð, miðvikudagskvöldið 19. október og fimmtudagskvöldið 20. október.
Ókeypis inn!

Miðvikudaginn 19. október kl. 20:00 sýnum við BOBBY SANDS 66 DAYS, írsk heimildarmynd. Ótextuð

Fimmtudaginn 20. október kl. 20:00 sýnum við safn af íslenskum stuttmyndum sem telur m.a.:

Samræmi
Heiti potturinn 
Þúsund haust
Heimakær
Bróðir
Ísland í brennidepli


Langabúð

 

18.10.2016

Kjörskrá vegna alþingiskosninga

Kjörskrá vegna alþingiskosninga 29. október 2016 mun liggja frammi á skrifstofu sveitarfélagsins á skrifstofutíma frá og með miðvikudeginum 19. október 2016 til kjördags.

Sveitarstjóri

17.10.2016

Sveitarstjórn: Fundargerð 13.10.2016

Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.

ÓB

14.10.2016

Frá Djúpavogskirkju

Sunnudagaskólinn kl. 11.00 sunnudaginn 16. okt. í Djúpavogskirkju.

Biblíusaga, söngur og ný brúða og Rebbi refur koma í heimsókn. Börnin fá falleg spjöld og límmiða til að safna,

sóknarprestur

14.10.2016

Opinn fundur um fiskeldismál

Opinn fundur um fiskeldismál 18. október kl. 13:00 - 15:00 á Hótel Framtíð, Djúpavogi.

Sjá nánari auglýsingu hér að neðan.

ÓB

 

 

 

 

 

 

 

12.10.2016

Sveitarstjórn: Fundarboð 13.10.2016

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundarboð 13.10.2016

27. fundur 2010-2014

Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 13. október 2016 kl. 16:00. Fundarstaður: Geysir.

Dagskrá:

1. Fjárhagsleg málefni

a) Fjárhagsáætlun 2017
b) Viðauki II við fjárhagsáætlun 2016

2. Fundargerðir

a) Stjórn Hafnasambands Íslands, dags. 19. september 2016.
b) Félagsmálanefnd, dags. 21. september 2016.
c) Heilbrigðisnefnd, dags. 21. september 2016.
d) Fræðslu- og tómstundanefnd, dags. 5. október 2016.
e) Aðalfundur SSA, dags. 7.-8. október 2016.
f) Starfshópur um fjárhagsleg málefni, dags. 11. október 2016.

3. Erindi og bréf

a) Austurbrú, uppbygging á innviðum fyrir rafmagnsbíla, dags. 21. september 2016.
b) Þjóðskrá, meðferð kjörskrárstofna, dags. 29. október 2016.
c) Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, form og efni viðauka við fjárhagsáætlun, dags. 3. október 2016.
d) Snorraverkefnið 2017, styrkbeiðni, dags. 6. október 2016.
e) Dagur Bjarnason, kynningarbréf v. þjónustu sálfræðinga og geðlækna, ódagsett.

4. Kjörskrá
5. Djúpavogsskóli
6. Skýrsla sveitarstjóra

Djúpavogi 10. október 2016
Sveitarstjóri

10.10.2016

Vel heppnaður kynningardagur félagasamtaka, fyrirtækja og frumkvöðla

kynningardagur félagasamtaka, fyrirtækja og frumkvöðla í Djúpavogshreppi var haldinn í annað sinn um síðastliðna helgi og tókst gríðarlega vel. Um 20 aðilar kynntu starfsemi sína og UMF Neisti sá um kaffisölu, barnahorn og fleira. 

Frábært frumkvæði og vonandi verður kynningardagurinn haldinn með reglulegu millibili á komandi árum.

Smellið hér til að skoða myndir.

ÓB

10.10.2016

Litið við í íþróttaskóla Djúpavogs

Íþróttaskóli Djúpavogs tók til starfa 1. október síðastliðinn. Það er Greta Mjöll Samúelsdóttir íþróttaþjálfari sem stendur að þessum skemmtilegu námskeiðum sem standa til boða börnum á leikskólaaldri.

Þátttakan hefur verið alveg frábær og gríðarlegt fjör hjá börnunum. Við litum við á æfingu sl. laugardag.

Smellið hér til að skoða myndir.

ÓB

10.10.2016

Auglýst eftir umsóknum um styrki í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða auglýsir eftir umsóknum um styrki fyrir árið 2017.

Framkvæmdasjóðurinn styrkir verkefni sem uppfylla a.m.k. eitt af eftirfarandi skilyrðum:

 1. Verkefnið er til uppbyggingar, viðhalds og verndunar mannvirkja og náttúru á ferðamannastöðum í eigu opinberra aðila eða á náttúruverndarsvæðum.
 2. Verkefnið er til framkvæmda sem varða öryggi ferðamanna og verndun náttúru á ferðamannastöðum í eigu opinberra aðila jafnt sem einkaaðila.
 3. Verkefnið er til undirbúnings- og hönnunarvinnu sem er nauðsynleg vegna framkvæmda á ferðamannastöðum eða á náttúruverndarsvæðum.

Á upplýsingasíðu um umsóknir er að finna allar nánari upplýsingar, m.a.:

  • Hvaða verkefni sjóðurinn styrkir ekki
  • Kröfur um mótframlag
  • Hvaða gögnum þarf að skila með umsókn
  • Áherslur og ábendingar til umsækjenda

o.fl.

Smellið hér til þess að fara á upplýsingasíðuna:

Smellið hér til þess að sjá auglýsingu frá Ferðamálastofu:

Umsóknarfrestur:

Umsóknarfrestur er til miðnættis 25. október 2016. Umsóknir sem berast eftir það eru ekki teknar gildar.

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 535-5500 eða með vefpósti framkvaemdasjodur@ferdamalastofa.is

BR

Nýjar fundargerðir nefnda komnar á heimasíðuna

Nú er búið að setja inn nýjar fundargerðir ferða- og menningarmálanefndar, fræðslu- og tómstundanefndar, landbúnaðarnefndar og skipulags-, framkvæmda- og umhverfisnefndar á heimasíðuna.

Smellið hér til að skoða fundargerðir nefnda.

ÓB

06.10.2016

Könnun á áformum markaðsaðila varðandi uppbyggingu fjarskiptainnviða

Fyrirhuguð er lagning ljósleiðara í Djúpavogshreppi, sem veita á öruggt þráðbundið netsamband í dreifbýli sveitarfélagsins. Gert er ráð fyrir að tengja öll lögheimili í sveitarfélaginu. Einnig standi eigendum frístundahúsa og fyrirtækja, sem staðsett eru í dreifbýli Djúpavogshrepps, til boða að tengjast ljósleiðaranum. Gert er ráð fyrir að öllum þjónustuveitum verði heimilað að bjóða þjónustu sína á ljósleiðarakerfinu gegn gjaldi.

Auglýst er eftir:

A. Aðila, eða aðilum, sem sannanlega ætla að koma á ljósleiðaratengingu eða annarri a.m.k. 100Mb/s þráðbundinni netþjónustu í Djúpavogshreppi (utan þéttbýlis) á næstu þremur árum á markaðslegum forsendum.
B. Hæfum aðila, eða aðilum, til að taka að sér að byggja upp ljósleiðarakerfi með stuðningi frá opinberum aðilum og e.t.v. reka til framtíðar, komi til þess að enginn aðili svari lið A. hér að ofan. Aðilar sem óska eftir stuðningi skulu uppfylla tilteknar kröfur um fjarskiptaleyfi, fjárhagslegan styrk, reynslu af uppbyggingu og rekstri sambærilegra kerfa, raunhæfa verkáætlun o. fl.
C. Eiganda mögulegra fyrirliggjandi fjarskiptainnviða í Djúpavogshreppi sem er tilbúinn að leggja þá til við uppbygginguna gegn endurgjaldi sem bjóðist öllum sem lýsa yfir áhuga á uppbyggingu samkvæmt B. hér að ofan á jafnræðisgrundvelli.

Áhugasamir skulu senda tilkynningu til Djúpavogshrepps á netfangið sveitarstjori@djupivogur.is fyrir kl. 12:00 þann 20. október. Í tilkynningunni skal koma fram nafn og kennitala aðila, auk upplýsinga um ofangreint eftir því sem við á.

Hægt er að óska eftir nánari upplýsingum og skýringum og skulu slíkar fyrirspurnir sendar á netfangið sveitarstjori@djupivogur.is.

Áhugakönnun þessi er ekki skuldbindandi, hvorki fyrir Djúpavogshrepp né þá sem sýna verkefninu áhuga.

Sveitarstjóri

06.10.2016

Rósin Tískuvöruverslun - Fatamarkaður í Við Voginn

Í dag, fimmtudaginn 6. október frá kl. 14:00-18:00, verður Rósin tískuvöruverslun með fatamarkað í Við Voginn.

Haust og vetrarvörur í stærðum frá 36-56.

Mikið úrval af buxum, bolum, blússum, kjólum og tuniku.

Undirfatnaður, sokkabuxur og skart og margt fleira.

Danskar vörur á flottu verð.

Rósin Tískuvöruverslun

BR

06.10.2016

Frá Djúpavogskirkju

Fjölskylduguðsþjónusta sunnudaginn 9. okt. kl. 14.00.

Væntanleg fermingarbörn boðin velkomin til fermingarstarfa og fundur með foreldrum eftir guðsþjónustu.

Organisti og kórstjóri Torvald Gjerde og kirkjukórinn leiðir sönginn.

Verum öll hjartanlega velkomin í kirkjuna okkar,

sóknarprestur

05.10.2016

Valdimar, Snorri og Teitur í Havarí

Valdimar Guðmundsson, Snorri Helgason og Teitur Magnússon þreyta frumraun á samstarfi sín á milli í HAVARÍ á Karlsstöðum laugardagskvöldið 8. október.

Þessa miklu meistara þarf vart að kynna en þeir hafa yljað landsmönnum um eyrun um árabil með sínum frábæru lögum.

Matur verður framborinn á tónleikadag frá kl 18.00 - 20.30: Bulsur, súpa, nýbakað brauð, nýupptekið grænkál og rófur og eitthvað fleira gúmmulaði og auðvitað kaffi og kökur.

Tónleikarnir hefjast klukkan 21.00. Miðaverð er 3.000 krónur.

Hótel Bláfell og Hótel Framtíð eru með frábær tilboð á gistingu fyrir þá sem koma lengri veg að.

Sjáumst hress á laugardaginn!

Svavar & Berglind

05.10.2016

Kynningardagur félagasamtaka, fyrirtækja og frumkvöðla 2016

Kynningardagur félagasamtaka, fyrirtækja og frumkvöðla í Djúpavogshreppi verður haldinn laugardaginn 8. október milli kl. 15:00-17:00.

Fjölbreytt, fræðandi og fjörug stund fyrir alla fjölskylduna

Þátttakendur eru:
Arfleifð
Austurbrú
Baggi
Bátasmiðjan Rán
Björgunarsveitin Bára
Djúpi spilaklúbburinn
Ferðafélag Djúpavogs
Hótel Framtíð
Hvannabrekka
JFS Handverk
Umf. Neisti
Nýsköpunarmiðstöð Íslands
Minjastofnun Íslands
Mogli
Rauði krossinn
Rúnar Matthíasson húsasmíðameistari
Teigarhorn
Viðgerðarverkstæði Jóhanns

Enn er hægt að skrá sig hjá Ágústu á agusta@arfleifd.is eða í síma 8631475

Ungmennafélagið Neisti sér um viðburðinn, verður með barnagæslu í skemmtilegu barnalandi, veitingasölu, happadrætti og fleira.

Allir hjartanlega velkomnir

05.10.2016

Frá félagi eldri borgara

Fundur verður í félagi eldri borgara föstudaginn 7. október kl. 14:00 í Tryggvabúð, félagsaðstöðu eldri borgara, Markarlandi 2.

Nýir félagar velkomnir.

Stjórnin

05.10.2016

Íþróttaskóli Djúpavogs

Íþróttaskóli Djúpavogs hófst laugardaginn 1. október. Hann verður í boði milli kl.11-12 á laugardögum fram að jólum. Skólinn hefur aðsetur í íþróttahúsi Djúpavogs.

Greta Mjöll Samúelsdóttir íþrótta- og sundkennari Djúpavogsskóla og þjálfari Neista hefur aðalumsjón með Íþróttaskóla Djúpavogs. Henni til aðstoðar verður Hera Líf ef þörf er á staðgengli.

Í íþróttaskóla Djúpavogs gefst leikskólabörnum á aldrinum 18 mánaða og uppúr kostur á að hreyfa sig í skemmtilegu umhverfi undir leiðsögn reyndra þjálfara og foreldra. Markmið skólans er að bjóða upp á fjölbreytt og markvisst hreyfinám sem tekur mið að þroskaþáttum barna. Skólinn er unnin í stöðvaþjálfun, þrautabrautum og í ýmsum leikjum með fjölbreyttu hreyfiálagi þar sem börnin hafa kost á að svala hreyfiþörf sinni í jákvæðu og öruggu umhverfi.

Aðal markmið skólans eru að:

o Börnunum líði vel
o Efla hreyfinám og hreyfifærni barnsins sem stuðlar að auknum; hreyfiþroska, líkamsþroska, mál- og vitsmunaþroska og félagsþroska.
o Foreldrar taki þátt með börnunum sínum.
o Þjálfunin sé leikræn – leikurinn sé í fyrirrúmi.

Hreyfiþroski er undanfari alls annars þroska. Við verðum að byrja á grunninum og byggja ofan á hann. Íþróttaskólinn mun vinna með grunnhreyfingarnar 18 sem eru okkur öllum eðlislægar en þurfum þó að þjálfa og þroska. Með því er unnið með skynstöðvar líkamans; jafnvægisskyn, snertiskyn, sjónskyn, heyrnarskyn og samspil skynfæra.

Munum að þetta á að vera eintóm skemmtun ekki keppni eða afreksþjálfun! Það eru allir sigurvegarar!
Hvetja, hvetja, hvetja, hvetja, hvetja!!

Verð:
Önnin (12 skipti) = 11.000 kr
Stakur tími 1.200 kr.
ATH! að í boði er að prufa einn tíma og greiða fyrir hann stakt gjald. Ef það er svo áhugi að vera allt námskeiðið getur gjaldið á staka prufutímanum gengið upp í heildarverð annarinnar.

Skráning fer fram á Facebooksíðu skólans. Farið er inn í Files / skrár og valið að breyta skjali / edit doc. Bætið svo nafni barnsins við.

05.10.2016

Samfélagsstyrkir - Landsbankinn

Landsbankinn veitir fimmtán milljónir króna í samfélagsstyrki í ár. Samfélagsstyrkjunum er ætlað að styðja við verkefni á ýmsum sviðum, þar á meðal á sviði mannúðarmála, menningar og lista, menntunar, rannsókna og vísinda, forvarnar- og æskulýðsstarfs og sértækrar útgáfustarfsemi.

Sérstök dómnefnd fer yfir umsóknirnar og er umsóknarferlið gagnsætt og faglegt. Meirihluti dómnefndar er skipaður fagfólki utan bankans.

Umsóknarfrestur samfélagsstyrkja er til og með miðvikudeginum 5. október 2016.

Sjá allar nánari upplýsingar á vef Landsbankans eða með því að smella hér:

Ferða- og menningarmálafulltrúi,

BR

03.10.2016