Djúpivogur
A A

Fréttir

Kalli Jóns og Smástál í umfjöllun á Kvótanum

Rætt var við Kalla Jóns í viðtali á Kvótanum í dag. Kalli er staddur á Sjávarútvegssýningunni með fyrirtæki sitt, Smástál. Sjá má viðtalið og myndir hér að neðan og upprunalegu fréttina á Kvótanum með því að smella hér.

ÓB

 

Fyrirtækið Smástál ehf. á Djúpavogi kynnir á sýningunni Sjávarútvegi 2016 vél sem sker skötubörð en vélina hannaði og smíðaði Karl Jónsson, vélsmiður á Djúpavogi og eigandi fyrirtækisins. „Upphafið að þessu má rekja til þess þegar Vísir hf. var á sínum tíma með starfsemi á Djúpavogi. Þá voru þeir að vinna skötubörð, lausfrysta og selja til útflutnings. Skatan var skorin handvirkt og það er bæði seinlegt og erfið vinna. Þetta varð til þess að ég fór að þróa vél til að leysa handskurðinn af hólmi og hún er nú fullhönnuð og komin með CE vottun,” segir Karl.

Þegar skata er nefnd kemur Þorláksmessa upp í huga Íslendinga og þá söltuð og kæst skata. Karl segist fullviss um að kæst skata þekkist hvergi annars staðar í heiminum en við Íslendingar þekkjum hins vegar ekki að borða skötuna ferska. Stærsti markaður fyrir skötu er í Frakklandi og þar er hún matreidd líkt og nautasteik.

Herramannsmatur í Frakklandi
„Frakkar elda skötubörðin einfaldlega þannig að þau eru steikt 1-2 mínútur á hvorri hlið og kryddað með salti og pipar. Og þykir alveg herramannsmatur þar í landi. Sjálfur hef ég reyndar ekki prófað að elda skötuna á þann hátt en ég er ekki í vafa um að þetta er fyrirtaksmatur,” segir hann.

Eins og áður segir hefur Vísir hf. verkað skötubörð og flutt út lausfryst og keypti fyrirtækið á sínum tvær vélar frá Smástáli ehf. Þriðja vélin sem hann hefur smíðað er í sýningarbásnum í Laugardalshöll. Vélin vinnur þannig að skötunni er rennt undir hnífa sem skera bæði börðin af í einu. Karl segir skötuna get verið allt upp í rúmlega 2 kg að stærð og hvort barð getur þannig verið hátt í 500 grömm að þyngd.

Vannýtt hráefni úr sjónum
„Hér á landi eru aðilar að verka skötu fyrir innanlandsmarkað en ég er þess fullviss að hægt er að vinna skötu til útflutnings í meira mæli. Þetta er meðafli á línubátunum og stærstur hluti skötunnar sem kemur á línuna er ekki nýttur. Eins og í allri annarri fiskvinnslu skiptir máli að meðhöndla hráefnið strax úti á sjó, kæla fiskinn og tryggja þannig sem mestan ferskleika á hráefninu þegar það kemur til vinnslu. Markaðirnir eru fyrir hendi, enda veiðist skata víða í heiminum. Ég hef hitt mann sem víða hefur farið og þekkir vel til vinnslu og sölu á skötu og hann sagðist hvergi hafa séð áður vélbúnað sem sker skötuna. Hver veit nema vélin geti orðið útflutningsvara. En fyrst og fremst ætla ég núna að fara að auka kynningu á henni hér heima því að mínu mati eru möguleikar á að gera með henni verðmæti úr hráefni sem er hvergi nærri fullnýtt í dag,” segir Karl.

Frétt af Kvótinn.is

 


Mynd: Kvótinn.is


Mynd: Kvótinn.is

29.09.2016

Spilavist í Löngubúð

Félag eldri borgara mun sjá um spilavistina í Löngubúð næstu þrjú spilakvöld. 

Spilað verður eftirfarandi kvöld:

Föstudaginn 30. september, kl. 20:30
Föstudaginn 7. október, kl. 20:30
Föstudaginn 14. október, kl. 20:30.

Félag eldri borgara

27.09.2016

Laust starf í Tryggvabúð

Djúpavogshreppur auglýsir 50 % starf í Tryggvabúð frá 1. október. Um er að ræða framtíðarstarf í félagsmiðstöð eldri borgara. 
Félagsmiðstöð eldri borgara í Tryggvabúð er staðsett að Markarlandi 2, Djúpavogi og er opin öllum þeim sem þangað vilja koma. 
Þar fer fram fjölbreytt félags- og tómstundastarf auk dagþjónustu fyrir eldri borgara

Helstu verkefni og ábyrgðarsvið starfsmanns 
• Umsjón með félagsstarfi í samvinnu við stjórn Félags eldri borgara í Djúpavogshreppi, félags- og tómstundanefnd og sveitarstjóra
• Matseld í hádegi, morgun- og síðdegiskaffi, þrif
• Viðkomandi veitir einstaklingum persónulega og einstaklingsmiðaða þjónustu

Við leitum að einstaklingi með
• þekkingu og reynslu af því að starfa með fólki
• skipulagshæfileika
• lipurð í mannlegum samskiptum
• hæfni til að sýna frumkvæði í starfi
• íslenskukunnáttu

Launakjör eru skv. kjarasamningi sveitarfélaga við viðkomandi félög.

Umsóknir skulu berast á skrifstofu sveitarfélagsins Bakka 1, 765 Djúpavogi, fyrir 29. september n.k. 

Umsóknareyðublöð má nálgast með því að smella hér.

Nánari upplýsingar veitir undirritaður í s. 843-9889 og á netfanginu sveitarstjori@djupivogur.is

Sveitarstjóri

Djúpavogshreppur auglýsir laust starf í Tryggvabúð

Djúpavogshreppur auglýsir 50 % starf í Tryggvabúð frá 1. október. Um er að ræða framtíðarstarf í félagsmiðstöð eldri borgara.
Félagsmiðstöð eldri borgara í Tryggvabúð er staðsett að Markarlandi 2, Djúpavogi og er opin öllum þeim sem þangað vilja koma.
Þar fer fram fjölbreytt félags- og tómstundastarf auk dagþjónustu fyrir eldri borgara

Helstu verkefni og ábyrgðarsvið starfsmanns
• Umsjón með félagsstarfi í samvinnu við stjórn Félags eldri borgara í Djúpavogshreppi, félags- og tómstundanefnd og sveitarstjóra
• Matseld í hádegi, morgun- og síðdegiskaffi, þrif
• Viðkomandi veitir einstaklingum persónulega og einstaklingsmiðaða þjónustu

Við leitum að einstaklingi með
• þekkingu og reynslu af því að starfa með fólki
• skipulagshæfileika
• lipurð í mannlegum samskiptum
• hæfni til að sýna frumkvæði í starfi
• íslenskukunnáttu

Launakjör eru skv. kjarasamningi sveitarfélaga við viðkomandi félög.

Umsóknir skulu berast á skrifstofu sveitarfélagsins Bakka 1, 765 Djúpavogi, fyrir 29. september n.k. 

Umsóknareyðublöð má nálgast með því að smella hér.

Nánari upplýsingar veitir undirritaður í s. 843-9889 og á netfanginu sveitarstjori@djupivogur.is

Sveitarstjóri

21.09.2016

Sveitarstjórn: Fundargerð 20.09.2016

Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.

ÓB

21.09.2016

Bæjarlífið ágúst 2016

Ágústmánuður í Djúpavogshreppi er jafnan afskaplega mildur og veðursæll og það var engin undantekning á í ár. Svo tóku menn nú upp á ýmsu, t.d. berserksgang í Hamarsfirði, eitthvað var dorgað og Skúli ákvað að fara úr kraftgallanum.

Smellið hér til að skoða bæjarlífssyrpu ágústmánaðar.

Enginn slasaðist við gerð þessarar myndasyrpu.

ÓB

21.09.2016

Cittaslow sunnudagurinn 2016

Cittaslow sunnudagurinn 2016 verður haldinn hátíðlegur í Tryggvabúð 25. september, kl. 14:00-16:00.

Í ár snýst Cittaslow sunnudagurinn um fjöll í Djúpavogshreppi. Skúli Júlíusson fjallaleiðsögumaður mun kynna bók sína „101 Austurland“, þar sem er að finna nákvæmar lýsingar á gönguleiðum á 101 tind á Austurlandi og leggja sérstaka áherslu á fjöll í Djúpavogshreppi.

Cittaslow sunnudagur er haldinn ár hvert síðasta sunnudag í september í öllum aðildarsveitarfélögum Cittaslow með það fyrir augum að kynna staðbundna framleiðslu, náttúru, menningu og/eða sögu.

Boðið verður upp á kaffi og vöfflur auk þess sem bókin verður til sölu. Áhugasamir eru hvattir til að mæta og eiga saman notalega og fræðandi stund í Tryggvabúð

Allir velkomnir.

Sveitarstjóri

 


Frá Cittaslow sunnudeginum 2014

21.09.2016

Kynningardagur félagasamtaka, fyrirtækja og frumkvöðla í Djúpavogshrep...

Hvað er um að vera í vetur?

Kynningardagur félagasamtaka, fyrirtækja og frumkvöðla í Djúpavogshreppi verður haldinn Laugardaginn 8. október 2016 milli kl. 15:00-17:00 í Íþróttamiðstöð Djúpavogshrepps, ef næg þátttaka fæst

Í Djúpavogshreppi er fjölbreytt flóra félagasamtaka, fyrirtækja og frumkvöðla með mjög mismunandi starfssemi og virkni.

Sum hafa mögulega þörf á samstarfsaðilum, sjálfboðaliðum og/ eða fleiri þátttakendum til að efla megi félagsskapinn og starfsemina, önnur eru rótgróin með góða virkni sem gaman er að kynna fyrir öðrum.

Nú gefst öllum í Djúpavogshreppi tækifæri á að kynna sig, sitt og/ eða sinn rekstur á lifandi og skemmtilegan hátt líkt og gert var í janúar sl. og sést á þessu myndskeiði:

Umf. Neisti sér um skipulag og uppstillingu í sal, býður upp á barnagæslu í barnalandinu, verður með veitingasölu og fleira fjölbreytt og fjörugt sér til fjáröflunar.

Þátttakendur geta valið um stærð og gerð á kynningarbása:

með 1-2 borðum, stólum eða auðan bás á verðbili 1.000-3.000 kr.- sem rennur í félagsstarf Neista.

Öllum þátttakendum er velkomið að nýta tækifærið sér til fjáröflunar, skráningar á nýjum félagsmönnum, sölu á varningi, happadrætti, með söng, leik eða einhverju allt öðru til kynna sína starfsemi á sinn hátt svo dagurinn verði sem allra flottastur og gestir kynnist starfseminni sem best.

Básunum verður raðað upp þannig að þátttakendur geta verið með fleiri en einn bás/ starfsemi.

Þátttakendur geta skráð sig rafrænt hér fyrir föstudaginn 30. september og fengið frekari upplýsingar eða skráð sig beint hjá Ágústu Margréti á vefpóstinn agusta@arfleifd.is eða í sími 863-1475.

Með því að smella hér getið þið skoðað myndir frá síðasta kynningardegi sem haldinn var í janúar síðastliðnum.

Með von um góð viðbrögð og dúndurdag á Djúpavogi

Fh. umf. Neista
Ágústa Margrét Arnardóttir

 

 

21.09.2016

Stuðningur og aðstoð við háskólanemendur á haustönn 2016

Hjá Austurbrú stendur háskólanemum á Austurlandi til boða ýmis konar stuðningur við nám sitt. Að vera í fjarnámi getur verið krefjandi vegna fjarlægðar við ýmsa þjónustu sem er í boði eða auðvelt að nálgast þegar staðnám er stundað. Eftirfarandi aðstoð og ráðgjöf stendur nemendum til boða.

Sjá nánar í auglýsingu hér að neðan. Smellið á hana til að stækka hana.

ÓB

 

 

 

 

 

 

21.09.2016

Viltu kanna möguleika þína? Langar þig að ljúka námi í þínu fagi?

Sjá hér að neðan auglýsingu frá Austurbrú um náms- og starfsráðgjöf og raunfærnimat. Smellið á auglýsinguna til að stækka hana.

ÓB

 

 

 

 

 

 

 

21.09.2016

Bæjarlífið júlí 2016

Júlímánuður einkenndist af veðursæld og gífurlegum fjölda ferðamanna. Það fer því mikið fyrir hvoru tveggja í bæjarlífssyrpu þessa ágæta mánaðar.

Smellið hér til að skoða myndasafn júlíusar.

ÓB

16.09.2016

Bæjarlífið júní 2016

Sumarið lagðist yfir okkur í rólegheitum í júní. Í þessari syrpu fylgjumst við með átökum lögreglu við bæjarbúa, sprell kemur við sögu og eitthvað er af glensi.

Smellið hér til að skoða syrpuna.

ÓB

16.09.2016

Sveitarstjórn: Fundarboð 20.06.2016

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundarboð 20.09.2016
26. fundur 2010-2014

Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps þriðjudaginn 20. september 2016 kl. 15:00.
Fundarstaður: Geysir.

Dagskrá:

1. Fjárhagsleg málefni
2. Fundargerðir

a) Skipulags-, framkvæmda og umhverfisnefnd, dags. 27. júlí 2016
b) Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, 4. ágúst 2016.
c) Landbúnaðarnefnd, dags. 15. ágúst 2016.
d) Stjórn Hafnasambands Íslands, dags. 16. ágúst 2016.
e) Stjórn SSA, dags. 18.-19. ágúst 2016.
f) Félagsmálanefnd, dags. 23. ágúst 2016.
g) Stjórn Kvennasmiðjunnar, dags. 26. ágúst 2016.
h) Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 2. september 2016.
i) Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, dags. 5. september.
j) Atvinnumálanefnd, dags. 12. september.
k) Skipulags-, framkvæmda og umhverfisnefnd, dags. 12. september 2016.
l) Starfshópur um fjárhagsleg málefni, dags. 19. september 2016.

3. Erindi og bréf

a) Samband íslenskra sveitarfélaga, samantekt um svör frá sveitarfélögum um löggæslukostnað vegna bæjarhátíða, minnisblað dags. 12. ágúst 2016.
b) Samband íslenskra sveitarfélaga, Samningur um notkun á höfundarréttarvörðu efni í skólastarfi – hlutdeild sveitarfélaga, dags. 16. ágúst 2016.
c) Samband íslenskra sveitarfélaga, Áhrif nýrrar húsnæðislöggjafar gagnvart sveitarfélögum, dags. 23. ágúst 2016.
d) Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, Ársreikningur 2015, dags. 2. september 2016.
e) Atvinnu og nýsköpunarráðuneytið, umsókn um byggðakvóta fiskveiðiárið 2016/2017.
f) Samband íslenskra sveitarfélaga, Alþingiskosningar 2016 – utankjörfundaratkvæðagreiðsla, dags. 9. september 2016.
g) Míla, ljósleiðaravæðing sveitarfélaga, dags. 10. september 2016
h) Minjastofnun Íslands, Úthlutun styrks úr húsafriðunarsjóði 2016. Verndarsvæði í byggð – Miðbæjarsvæði Djúpavogs.
i) Vegagerðin, Hringvegur um Berufjörð, umsókn um framkæmdaleyfi, dags. 15. september 2016.

4. Húsnæðismál í Djúpavogsskóla
5. Skýrsla sveitarstjóra

 

Djúpavogi 15. september 2016;
Sveitarstjóri

16.09.2016

Vöfflukaffi í Tryggvabúð

Nú er vetrarstarfið komið á fullt í Tryggvabúð, félagsaðstöðu eldri borgara á Djúpavogi. Vöfflukaffið er ómissandi þáttur í því starfi og alltaf jafn vinsælt að skella sér í nýbakaðar vöfflur með öllu tilheyrandi. 

Vöfflukaffið er á sama tíma og venjulega milli 15:00 og 16:00 á miðvikudögum.

Verðið eru litlar 500 krónur. 

Allir hjartanlega velkomnir.

Forstöðukonur í Tryggvabúð

14.09.2016

Evrópsku menningarminjadagarnir - Fræðsluganga á Teigarhorni

 

Í tilefni Evrópsku menningarminjadaganna býður landvörður á náttúruvættinu og fólkvanginum að Teigarhorni gestum í fræðslugöngu laugardaginn 17. september kl. 10:00.

Teigarhornsjörðin var fornleifaskráð árið 2015 og þá voru skráðar 66 fornleifar. Gengið verður hring á svæðinu þar sem fjallað verður um nokkrar fornleifar og nýtingu þeirra minja. Fornleifaskráningin verður með í för og myndir og uppdrættir sýndir af minjunum. Í lok göngu verður stoppað hjá Weywadtshúsi sem er í eigu Húsasafns Þjóðminjasafns Íslands og sagt verður frá ábúendum og sögum tengdum þeim.

Gangan hefst kl 10:00 og tekur um það bil tvo tíma. Áhugasamir geta svo fengið að skoða geislasteinasafnið að Teigarhorni eftir göngu.

Viðburðurinn er ókeypis og eru allir velkomnir, göngustígurinn er nokkuð góður og slegin tún í kringum hann.Evrópsku menningarminjadagarnir (European Heritage Days) eru haldnir ár hvert í þeim 50 löndum sem hlut eiga að Menningarsáttmála Evrópu allt frá Aserbæsjan til Portúlgals. Markmið þessara daga er að vekja athygli og áhuga á ríkri og fjölbreyttri menningu þeirra samfélaga sem byggja álfuna. Menningarminjadagarnir voru fyrst haldnir í Frakklandi árið 1985 og tóku fleiri lönd þátt strax ári seinna. Sjá http://www.europeanheritagedays.com  

Laugardaginn 17. september n.k. verður blásið til menningarminjadags hér á landi og boðið verður upp á fjölbreytta viðburði víðs vegar um land, sem tengjast á einn eða annan hátt mannífi og sögu fyrri tíma. Allir viðburðirnir eiga það sameiginlegt að vera í höndum fyrirmyndaraðila sem starfa með menningarminjar. Minjastofnun Íslands heldur utan um Evrópsku menningarminjadagana hérlendis.

 

Í fyrra tók Ísland þátt í fyrsta sinn fyrir alvöru og voru þá 17 viðburðir hringinn í kringum landið.

 

 

13.09.2016

Söguspjall á Teigarhorni í tilefni dags íslenskrar náttúru

Dagur íslenskrar náttúru verður að venju þann 16. september.

Íslensk náttúra hefur í gegn um tíðina verið alltumlykjandi í lífi íslensks almennings, haft bein áhrif á líf og störf fólksins í landinu og veitt innblástur fyrir hvers kyns listsköpun og afþreyingu.

Sögur af vættum sem búa í og vaka yfir íslenskri náttúru hafa ætíð verið ríkur þáttur í íslenskri menningu. Við þekkjum frásagnir af huldufólki og tröllum, fossbúum, nykrum, vatnavættum, sjávarverum og öðrum fyrirbærum sem sagt er að búi í íslenskri náttúru. Allt til okkar tíma hefur fólk séð móta fyrir andlitum og furðuverum í stokkum og steinum úfinnar íslenskrar náttúru og sögur af þeim hafa endurómað allt frá baðstofuloftum fyrri tíma til ferðamannahópa nútímans. Fyrir utan skemmtigildi þessara sagna hafa þær gegnt margþættu hlutverki, s.s. að koma í veg fyrir náttúruspjöll og að koma í veg fyrir að börn og fullorðnir færu sér að voða á hættulegum stöðum í íslenskri náttúru.

Þema Dags íslenskrar náttúru 2016 eru einmitt vættir sem búa í og vaka yfir náttúrunni okkar. Hugmyndin er að þeir fái okkur til að skoða náttúruna út frá nýju sjónarhorni um leið og þeir eru okkur hvatning til að vaka yfir landinu og vernda það. Þannig getum við lagt okkar lóð á vogarskálanar svo að landinu og náttúrunni verði skilað til næstu kynslóða í jafn góðu eða betra ástandi en það var þegar við tókum við því.

Í tilefni af degi íslenskrar náttúru 16. september 2016 verður Söguspjall á Teigarhorni.

Geislasteinasafnið verður opið frá 10-12:00 og er fólk velkomið á staðinn til að segja sögur, lesa sögur og hlusta á sögur um vætti og íslenska náttúru. T.d. sögur um Goðsteina og goðin í Goðaborg, um Tröllkonuna Kápu í Kápugili, um svefngöngu Kristjáns bónda og fleira. Engar athyglisverðar sögur eiga að vera ósagðar.
Kaffi á könnunni.

 

Sævar Þór Halldórsson

12.09.2016

Stýring umferðar á skólatorfunni

Til að auka öryggi barna og annarra gangandi vegfarenda á "Skólatorfunni" höfum við gripið til þess ráðs að stýra umferðinni þannig að flæði bifreiða verði sem best.  Meðfylgjandi er skýringarmynd sem þið eruð beðin að kynna ykkur vel og fara eftir.

Hjálpumst að við að auka öryggi barnanna okkar.

Skýringarmyndin er hér.

Skólastjóri

Neistafréttir fyrir september - vetrarstarf Neista

Kæru iðkendur, forráðamenn, félagar og aðrir áhugasamir um umf. Neista.

Undanfarið hefur stjórn Neista unnið hörðum höndum að skipulagningu vetrarins með þeim fjölmörgu verkum sem sinna þarf.

ÆFINGAR hefjast mánudaginn 12. septmeber og er skráning rafræn HÉR:

Fyrsta FJÁRÖFLUN vetrarins verður laugardaginn 17. september og óskum við hér með eftir 20 sjálfboðaliðum frá 13 ára og upp úr í vörutalningu í versluninni Samkaup.

Neisti fær fyrir þetta greiddan góðan pening sem er glæsilegt fjárframlag inn í félagið sem nýtt verður til að niðurgreiða æfingar, námskeið og mót.

Vinsamlegast skráið ykkur og unglingana ykkar hjá Helgu Björk verslunarstjóra Samkaups sem fyrst.

VIÐBURÐADAGATAL verður sent út um miðjan september með öllum þeim mótum, námskeiðum, viðburðum og verkum sem fyrirhuguð eru á æfingaárinu (september 2016- júlí 2017).

Dæmi um MÓT sem haldin eru fyrir mismunandi aldursflokka frá 5 ára og upp úr:

Sumarhátíð ÚÍA, ÞS mótið, Fjarðarálsmótið, Pæjumótið, Símamótið, Sundmót Neista, Hennýjarmótið, Sundmót ÚÍA, Unglingalandsmót og fleira og fleira....

Dæmi um VIÐBURÐI sem Neisti tekur þátt í í fjáröflunarskyni og samfélgaslega:

Yfirseta á félagsvist, bingó, spurningakeppni fyrirtækjanna, skipulag 17. júní, jólagleði, hreyfivikan, ævintýranámskeið, kynningardagur félagasamtaka, fyrirtækja og frumkvöðla á Djúpavogi, Edrú lífið forvarnarstarf og fleira og fleira.....

Dæmi um fyrirhugaðar FJÁRAFLANIR OG VERK sem tengjast þeim:

Vörutalning í Samkaup, kökusala, barnagæsla og tiltekt á kynningardegi félagasamtaka, fyrirtækja og frumkvöðla, söfnun bingóvinninga og umsjón með bingó, sala á varningi á jólamarkaði kvenfélagsins (allar hugmyndir vel þegnar), sala á rófum, páskaeggjum og varningi merktum Neista: sundhettur, heilgallar, ponsjó og/ eða annað (allar hugmyndir vel þegnar), jóla- og áramtótaverk (brenna og fleira)....

Auk þess er stefnt á að halda og taka þátt í einhverjum NÁMSKEIÐUM.

Tveir stjórnarmeðlimir þurftu því miður að hætta í stjórninni í sumar en nú þegar hefur verið fyllt í þeirra starf og bjóðum við Katrínu Jónsdóttur og Sævar Þór Rafnsson hjartanlega velkomin til starfaog þökkum fráfarandi stjórnarmeðlimum fyrir gott starf.

Aðrir stjórnarmeðlimir eru Pálmi Fannar, Guðjón Viðars, Ágústa Margrét, Júlía Hrönn, Helga Björk, Inga Bára, Óðinn Sævar og framkvæmdarstjórinn er Óðinn Lefever.

Umf. Neisti er félag allra bæjarbúa og því fylgir fjölbreytt félagsstarf og félagslíf sem auðgar andann og bæjarlífið.

Þátttaka í félagsstarfinu er ávinningur fyrir alla og hlakkar okkur mikið til að starfa með iðkendum, forráðamönnum og öðrum áhugasömum í vetur.

Áfram Neisti!

Fh. Neista Ágústa Margrét Arnardóttir, ritari og upplýsingafulltrúi.

09.09.2016

Frá félagi eldri borgara

Fundur verður í félagi eldri borgara föstudaginn 9. september kl. 14:00 í Tryggvabúð, félagsaðstöðu eldri borgara, Markarlandi 2.

Nýir félagar velkomnir.

Stjórnin

08.09.2016

Félagsvist að nýju

Fyrsta félagsvist haustsins verður spiluð í Löngubúð 30. september næstkomandi.

Félagsvistin er haldin af félagasamtökum sem eru í fjáröflun.

 

Ég hvet félagasamtök til að hafa samband sem fyrst og skrá sig.

kveðja úr Löngubúð,

Rán

s. 863-4303

06.09.2016

Frá áhaldahúsinu - frídagar í september

Forstöðumaður áhaldahússins verður í sumarleyfi frá 5. september - 19. september.

Á meðan er íbúum bent á að hafa samband við Axel Kristjánsson í síma 867-1332 varðandi fyrirspurnir tengdar starfsemi áhaldahússins.

Sveitarstjóri

05.09.2016

Fundur um Norræna menningarstyrki

Við hvetjum fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga í Djúpavogshreppi til að sækja fund á vegum Austurbrúar um Norræna menningarstyrki miðvikudaginn 7. september.

 

Norrænir menningarstyrkir – upplýsingafundur með  Norræna menningarsjóðnum 
Miðvikudaginn 7. september kl. 16:00, Vonarlandi á Egilsstöðum 

Næsti stóri umsóknarfrestur er 3. október og því tilvalið að sækja sér upplýsingar núna.

Ása Richardsdóttir, fyrrum forseti Leiklistarsamband Íslands og sendiherra Norræna menningarsjóðsins fer yfir norræna sjóðakerfið og möguleika á samstarfi og tengingum.

 

Ráðgjöf beint frá Ásu

Samtök, fyrirtæki og einstaklingar sem eru að vinna að norrænum umsóknum eða eru með skýra hugmynd að verkefni, geta óskað eftir einstaklingsráðgjöf hjá Ásu. 

Hún verður á  Egilsstöðum 7. september milli 13:00 – 16:00. Þeir sem óska eftir slíkri ráðgjöf hafi beint samband við Ásu í gegnum netfangið asa@stage.is

 

05.09.2016

Leiðsögunámskeið hjá Austurbrú

Spennandi námskeið fyrir fólk sem vill starfa við ferðaþjónustu og leiðsögn.

Tvö leiðsögunámskeið verða í boði hjá Austurbrú nú í lok ágúst og byrjun september, annars vegar í svæðisleiðsögn og hins vegar staðarleiðsögn. Stuttar lýsingar má lesa hér að neðan. Nánari upplýsingar um námskeiðin má finna hér á vef Austurbrúar, eða hjá hulda@austurbru.is.

 

Svæðisleiðsögn

Námið er ætlað þeim sem vilja starfa við almenna leiðsögn ferðamanna á Austurlandi og er metið til eininga. Nemendur þurfa að vera eldri en 21 árs og hafa stúdentspróf eða hliðstætt próf og hafa góð tök á erlendu tungumáli. Námið byggir á námskrá fyrir leiðsögunám sem gefin var út af Menntamálaráðuneytinu árið 2004. Lágmarksþátttaka er 15 manns.Ferðaþjónustuaðilum býðst að taka staka áfanga án þess að vera skráð í allt námið. Ath. Ekki gleyma að kanna möguleikana á styrkjum hjá stéttarfélögum ykkar og fræðslusjóðum!

 

Staðarleiðsögn

Staðarleiðsögunám er blanda af verk- og bóknámi og hentar öllum sem eru 20 ára og eldri, einkum þeim sem hafa stutta formlega menntun. Kennarar: ÝmsirAth. Ekki gleyma að kanna möguleikana á styrkjum hjá stéttarfélögum ykkar og fræðslusjóðum!

 

 

02.09.2016

Vetrarstarf Neista að hefjast

 

Kæru iðkendur, forráðamenn, félagar og aðrir áhugasamir um umf. Neista

Nú vinnur stjórn Neista hörðum höndum að skipulagningu vetrarins með þeim fjölmörgu verkum sem sinna þarf.

ÆFINGAR hefjast Mánudaginn 12. septmeber og verður rafræn skráning frá Þriðjudeginum 6. september til Föstudagsins 9. september.

Fyrsta FJÁRÖFLUN vetrarins verður Laugardaginn 10. september og óskum við hér með eftir 20 sjálboðaliðum frá 13 ára og upp úr í vörutalningu í versluninni Samkaup. Neisti fær fyrir þetta greiddar 1500 kr. á mann/per klst. sem er glæsilegt fjárframlag inn í félagið sem nýtt verður til að niðurgreiða æfingar og mót.

Vinsamlegast skráið ykkur og unglingana ykkar hjá Helgu Björk verslunarstjóra Samkaups sem fyrst.

VIÐBURÐAR DAGATAL verður sent út um miðjan september með öllum þeim mótum, námskeiðum, viðburðum og verkum sem fyrirhuguð eru á æfingaárinu (september 2016- júlí 2017).

Dæmi um MÓT sem haldin eru fyrir mismunandi aldursflokka frá 5 ára og upp úr:

Sumarhátíð ÚÍA, ÞS mótið, Fjarðarálsmótið, Pæjumótið, Símamótið, Sundmót Neista, Hennýjarmótið, Sundmót ÚÍA, Unglingalandsmót og fleira og fleira....

Dæmi um VIÐBURÐI sem Neisti tekur þátt í í fjáröflunarskyni og samfélgaslega:

Yfirseta á félagsvist, bingó, spurningakeppni fyrirtækjanna, skipulag 17. júní, jólagleði, hreyfivikan, ævintýranámskeið, kynningardagur félagasamtaka, fyrirtækja og frumkvöðla á Djúpavogi, Edrú lífið forvarnarstarf og fleira og fleira.....

Dæmi um fyrihugaðar FJÁRAFLANIR OG VERK sem tengjast þeim:

Vörutalning í Samkaup, kökusala, barnagæsla og tiltekt á kynningardegi félagasamtaka, fyrirtækja og frumkvöðla, söfnun bingóvinninga og umsjón með bingó, sala á varningi á jólamarkaði kvenfélagsins (allar hugmyndir vel þegnar), sala á rófum, páskaeggjum og varningi merktum Neista: sundhettur, heilgallar, ponsjó og/ eða annað (allar hugmyndir vel þegnar), jóla- og áramtótaverk (brenna og fleira)....

Auk þess er stefnt á að halda og taka þátt í einhverjum NÁMSKEIÐUM.

Tveir stjórnarmeðlimir þurftu því miður að hætta í stjórninni í sumar en nú þegar hefur verið fyllt í þeirra starf og bjóðum við Katrínu Jónsdóttur og Sævar Þór Rafnsson hjartanlega velkomin til starfa.

Aðrir stjórnarmeðlimir eru Pálmi Fannar, Guðjón Viðars, Ágústa Margrét, Júlía Hrönn, Helga Björk, Inga Bára, Óðinn Sævar og framkvæmdarstjórinn er Óðinn Lefever.

Umf. Neisti er félag allra bæjarbúa og því fylgir fjölbreytt félagsstarf og félagslíf sem auðgar andann og bæjarlífið.

Þátttaka í félagsstarfinu er ávinningur fyrir alla og hlakkar okkur mikið til að starfa með iðkendum, forráðamönnum og öðrum áhugasömum í vetur.

Áfram Neisti!

 

Fh. Neista Ágústa Margrét Arnardóttir- ritari og upplýsingafulltrúi

 

 

 

02.09.2016