Djúpivogur
A A

Fréttir

Málbeinaleit með Lubba

Rauði þráðurinn í öllum skipulögðum málörvunartímum í leikskólanum Bjarkatúni er hann Lubbi okkar. Þess vegna köllum við þetta starf Lubbastarf.  Lubbi er bangsi sem börnin kynnast strax í hópastarfi þegar þau eru 2ja ára gömul og hann fylgir þeim alveg út leikskólagönguna. Við vinnum með bókina Lubbi finnur málbein en sú bók er hugsuð til málörvunar og hljóðanáms fyrir börn á aldrinum tveggja til sjö ára. Höfundar bókarinnar, Þóra Másdóttir og Eyrún Ísfold Gísladóttir, eru talmeinafræðingar og hafa þær áralanga reynslu af talþjálfun barna. Efnið í bókinni stuðlar að auðugri orðaforða og ýtir undir skýrari framburð barna. Í bókinni er lögð rík áhersla á það að hverjum bókstaf fylgi málhljóð. Hvert málhljóð er tekið fyrir á síðu eða opnu. Hverju málhljóði fylgir ákveðin vísa og einnig stutt saga eftir Þórarin Eldjárn þar sem lögð er sérstök áhersla á hvert hljóð fyrir sig. Hvert málhljóð á sér ákveðið tákn en með því að tengja hljóðið við táknræna hreyfingu er auðveldara fyrir börnin að læra það og muna. Börnin í leikskólanum eru mjög hrifin af Lubba og það er einstaklega gaman og mikil forréttindi að fá að kenna þeim allt um heillandi heim íslenskunnar í gegnum þetta námsefni.

Við höfum alltaf gert eitthvað sérstakt með Lubba okkar í lok hvers skólaárs þegar hópastarfinu líkur. Núna í maí héldum við kveðjuviku fyrir Lubba þar sem allir Lubbahóparnir fóru með Lubba í gönguferð að leita af földum málbeinum uppá Bóndavörðu. Þessi leikur var unnin í samstarfi Lubbasmiðjuna sem bauð öllum leikskólanum á landinu að taka þátt. Við fórum uppá Bóndavörðu þar sem við sjáum yfir allan Djúpavog. Lubbi kom með okkur og við fórum í málhljóða sönggöngu á leiðinni að felustaðnum. Uppá Bóndavörðu voru falin beinin B fyrir Búlandstind og Bjarkatún og D fyrir Djúpavog sem börnin leituðu af og þar var mikil spenna. Einn hópurinn fékk ægilega þoku en það var einstaklega spennandi ganga þar sem hreindýrin vorum mjög nálægt okkur að fela sig í þokunni...og kannski að leita af málbeinum til að gæða sér? Þegar málbeinin voru síðan fundin sungum við lögin um stafina B og D og blésum sápukúlur yfir Djúpavoginn okkar. Málhljóða söngganga var síðan farin aftur niður í leikskóla og þar var leitað af fleiri málbeinum um alla leikskólalóðina og þá fékk hugmyndaflug barnanna að ráða ferðinni og þar var virkilega  gaman að sjá hvernig leikirnir þróuðust út frá aldri barnanna.

 
Hópur 2011 í málbeinaleit


Hópur 2012 á leið í málbeinaleit með Lubba


Hópur 2013 búinn að finna bein handa Lubba

 

Fleiri myndir eru hér

Bestu kveðjur úr leikskólanum

Hugrún og Lubbi

 

Síðasti dagur útikennsluviku

Í síðustu viku voru útikennsludagar í grunnskólanum.  Elstu nemendur leikskólans eru í heimsókn hjá okkur nú í tvær vikur og tóku þátt að miklu leyti.  Síðasta daginn fórum við öll saman í gönguferð út á sanda.  Alls um 65 nemendur grunnskólans, 9 nemendur leikskólans ásamt starfsfólki.

Við gengum sem leið lá eftir gamla veginum og þaðan út á sanda.  Þar fórum við í "Að hlaupa í skarðið" og í boðhlaup.  Eftir það gekk hópurinn út í Sandey og á leiðinni fundum við skeljar og margan fjársjóðinn, spiluðum fótbolta, létum öldurnar elta okkur o.m.fl.  Þegar við komum út í Sandey voru allir orðnir banhungraðir þannig að við fengum okkur nesti.  Síðan fórum við í feluleik, bjuggum til sandkastala, skoðuðum hellinn í Sandey og lékum okkur í frjálsum leik.  Þegar fór að líða að hádegi röltum við til baka og komum beint í hádegismat.

Veðrið hefði getað verið betra, það var pínu kalt en það kom ekki að sök.  Allir voru glaðir og sáttir og nutu þess að vera úti í náttúrunni í sátt og samlyndi við menn og dýr.

Myndir úr ferðalaginu má finna hér.

Skólastjóri

Hreinsunarvika fyrir 4.-7. bekk

Hreinsunarvika fyrir 4.-7. bekk verður frá og með mánudeginum 6. júní til fimmtudagsins 9. júní.

Vinnudagurinn verður frá 08:00 - 12:00 alla dagana.

Krakkar komi klædd eftir veðri og mæti við rauða skúrinn við Hátún þar sem Rafstöð Djúpavogs var til húsa.
 
Börn í 8.-10. bekk mæta sömuleiðis kl. 08:00 mánudaginn 6. júní á sama stað.

Sveitarstjóri

31.05.2016

Guðsþjónusta í Beruneskirkju

Guðsþjónusta verður í Beruneskirkju, sunnudaginn 29. maí kl. 14.00.

Njótum saman dýrðar sumars og sköpunar Guðs.

Verum öll hjartanlega velkomin,
sóknarprestur

27.05.2016

Frá Íþróttamiðstöðinni

Íþróttamiðstöðin verður lokuð frá 07:00 - 17:00, föstudaginn 27. maí vegna námskeiðs starfsfólks. Við opnum því kl. 17:00 og það verður opið til 20:30. Eins verður sundlaugin lokuð laugardaginn 28. maí vegna vormóts Neista í sundi. Opið verður í þrek og sal.

Lokanir framundan er eftirfarandi:

Sjómannadagurinn, 5. júní.
Þjóðhátíðardagurinn, 17. júní.

Starfsfólk ÍÞMD

25.05.2016

Frá Neista: Hreyfivika í Djúpavogshreppi

Hreyfivika UMFÍ fer fram dagana 23. – 29. maí. Markmið og tilgangur vikunnar er að hvetja fólk til þess að finna sína uppáhalds hreyfingu og stuðla að því að fólk hreyfi sig meira til heilsubótar og vellíðunar. Neisti ætlar að taka virkan þátt í Hreyfivikunni og bjóða upp á fjöldan allan af skemmtilegum viðburðum tengdum hreyfingu og heilsubót fyrir alla Djúpavogsbúa. Eina sem þið þurfið að gera er að mæta og hafa gaman!

Gleðilega Hreyfiviku!

 

Hér má einnig finna hreyfivikuna okkar inn á hreyfiviku síðu UMFÍ.

http://iceland.moveweek.eu/events/2016/Dj%C3%BApivogur

 

24.05.2016

Ársfundur Norðurlandanets Cittaslow í Djúpavogshreppi

Þá er komið að því að nágrannar okkar í Cittaslow sveitarfélögum af Norðurlöndunum sæki okkur í Djúpavogshreppi heim, en ársfundur Norðurlandanets Cittaslowsamtakanna verður haldinn hér í Djúpavogshreppi á miðvikudag og fimmtudag, 25.-26. maí.

 

Ársfundur Cittaslow, sem haldinn verður í Djúpavogskirkju, er opinn fyrir íbúa Djúpavogshrepps og fréttamenn kl. 9:00-11:00 fimmtudagsmorguninn 26. maí. Þarna munu sveitarfélögin halda kynningu á Cittaslow hjá sér eða sérstökum verkefnum sem eru í deiglunni undir merkjum Cittaslow. Við hvetjum alla sem komast á þessum tíma til að mæta.

 

Alls munu 12 manns frá Cittaslow sveitarfélögum í Danmörku, Noregi, Svíðþjóð og Finnlandi koma til Djúpavogshrepps. Farið verður með gestina um sveitarfélagið og þau kynnt fyrir hinum ýmsu verkefnum sem hér eru í gangi sem tengjast hugmyndafræði Cittaslow s.s. innleiðingu Cittaslow í Djúpavogsskóla og Stuðningsaðilum Cittaslow í Djúpavogshreppi.

Stuðningsaðilar Cittaslow í Djúpavogshreppi hvattir til að nota fundinn sem ástæðu til að gera þátttöku sína og tenginguna við Cittaslow meira áberandi.

 

Ferða- og menningarmálafulltrúi

24.05.2016

Frá Neista: Vormót Neista í sundi

Nk. Laugardag verður vormót Neista í sundi haldið hér á Djúpavogi.

Skráning frá öðrum stöðum er góð og stefnir í skemmtilegt og gott mót.

Sem fyrr vantar sundkrökkunum og stjórn Neista aðstoð almennings og áhugasamra til að halda þetta mót, sem er eina Austfjarða mótið sem Neisti heldur og bíður heim á. Viljum við að sjálfsögðu gera sem allra best.

Á Djúpavogi er svo mörg systkyni (fá einbirni) að oft eru færri forráðamenn barna sem keppa en keppenda, sem þýðir að til að halda mótið þurfa bæjarbúar auk forráðamanna keppenda og stjórnar Neista að leggja hönd á plóg á þann hátt sem þeir geta.

Sem dæmi um verk eru: veitingasala, tímaverðir, dómarar, ræsar og þeir sem stilla upp og ganga frá.

Áhugasamir geta skráð sig og fengið frekari upplýsingar inn á opnu Neista síðunni á facebook eða hjá Ágústu Margréti Arnardóttur

Auk þess vekjum við athygli á hreyfivikunni sem fer fram frá deginum í dag til sunnudags.

Dagskráin er fjölbreytt og flott OG FYRIR ALLA :) (sjá neðst í þessari frétt).

Með ósk um frábær viðbrögð og með fyrirfram þökkum

Fyrir hönd sunddeildar og stjórnar Neista
Ágústa Margrét Arnardóttir

 

 

23.05.2016

Vortónleikar 1.-4. bekkjar

Vortónleikar 1.-4. bekkjar verða í Djúpavogskirkju þriðjudaginn 24. maí klukkan 18:00.

Hvetjum alla til að mæta, aðgangur ókeypis.

Skólastjóri.

Flest er níræðum fært

Í Tryggvabúð er félagsaðstaða eldri borgara í Djúpavogshreppi. Á meðal þess sem þar er stundað er vefnaður, undir leiðsögn listakonunnar Bjargar Helgadóttur. Það er ýmislegt sem rennur undan vefstólunum en í vetur hafa það þó sér í lagi verið mottur af ýmsum stærðum og gerðum. Samkvæmt bókhaldi Bjargar eru þær 13 talsins sem framleiddar hafa verið í vetur. Ein slík var kláruð í gær og það þótti tilefni til að kalla undirritaðan á staðinn til að taka mynd. Og tilefnið var jú ærið.

Guðrún Guðjónsdóttir, sem verður 90 ára þann 24. júlí, var að klára við eina gólfmottuna. Ekki þá fyrstu í vetur, heldur þá þriðju. Þar að auki er hún búin að vefa nokkrar töskur, svona í hjáverkum. Geri aðrir betur. Hún var nú ekki alltof hrifin af því blessunin, að teknar væru myndir, en féllst þó á það og jájáaði, jæjaði og blístraði svolítið á meðan.

Að þessu loknu settist Rúna með spjaldtölvuna og athugaði stöðuna á Facebook, þakkaði svo fyrir sig, settist upp í Súbarúinn sinn og ók sem leið lá heim í Grænuhlíð.

Flest er níræðum fært.

ÓB

 

20.05.2016

Skipulagning 17. júní

17. júní nalgast :)

Nú líður að þjóðhátíðardeginum sem ber upp á föstudegi í ár.

Umf. Neisti, ferða- og menningarmálanefnd og ALLIR aðrir áhugasamir eru velkomnir að taka þátt i hugmynda- og skipulagsvinnu svo hátíðin verði sem allra skemmtilegust.

Sú vinna fer að miklu leyti fram á facebook grubbunni 17. júní 2016 og á 1-2 fundum.

 

FYRSTI FUNDUR verður mánudaginn 23. maí kl. 18:00 á Við Voginn.

ATH! Við biðlum hér með til hverfanna: gulra, appelsínugulra og bleikra að velja sér 2 drottningar fyrir fyrsta fundinn.
Þeirra verk er sem áður að sjá um að virkja sín hverfi, skipuleggja og halda utan um sitt fólk sem og fara fremstar í flokki í skrúðgöngunni.

Drottningarnar verða líka að vera í hugmynda- og skipulagsvinnunni og bera ábyrgð á að koma öllum upplýsingum til sinna hverfa og verða að mæta sjálfar eða senda staðgengil á fyrsta fundinn.

Mögulega verða einhverjar breytingar og viðbætur frá því sem aður hefur verið gert en að sjálfsögðu höldum við áfram uppteknum hætti að skreyta okkar svæði og/ eða tökum höndum saman og skreytum svæðið í kringum íþróttavellina (túnið millu slökkvistöðvar og fótboltavallar) saman með litríku skrauti í bland við náttúrulegri skreytingar, einfaldar þrautabrautir og samverusvæði sem mögulega nýtist út sumarið.

Allar hugmyndir og hjalparhendur vel þegnar enda er þetta dagur allra bæjarbúa.

Áhugasamir geta farið á grubbuna "17. júní 2016" á Facebook eða haft samband við Ágústu í Arfleifð OG að sjálfsögðu hvetjum við alla: börn og fullorðna til að mæta á fundinn.

 

Fyrir hönd Neista og 17. júní 2016
Ágústa Margrét Arnardóttir

20.05.2016

Íbúafundur um skipulagsmál

Hvernig vilt þú að Djúpivogur þróist til framtíðar?
Íbúafundur um skipulagsmál

Haldinn í Djúpinu / Sambúð fimmtudaginn 19. maí kl. 18:00.

Þessi misserin er unnið að mótun skipulags á Djúpavogi, en slík vinna felur í sér að greina styrkleika svæðisins, veikleika þess og tækifæri, og á þeim grunni skapa öfluga framtíðarsýn fyrir þorpið. Þessi fundur er þriðji íbúafundurinn sem haldinn er í tengslum við þessa skipulagsgerð, en á fyrri fundum hafa íbúar komið sjónarmiðum sínum á framfæri og líflegar umræður hafa skapast.

Á þessum fundi mun fulltrúi TGJ Teiknistofu Guðrúnar Jónsdóttur kynna heildarniðurstöður fyrri funda og fyrstu hugmyndir að mótun skipulags lagðar fram.

Meginefni fundar: Miðbæjarsvæði Djúpavogs - deiliskipulag

Dagskrá
1. Miðbæjarsvæði Djúpavogs – deiliskipulag (íbúafundur nr. 3)
2. Önnur deiliskipulagsvinna
(íbúðabyggð og nýir og fjölbreyttir valkostir í deiliskipulagi m.a. frístunda- og „smáheimilabyggð“ á afmörkuðum svæðum)

Fyrirspurnir og umræður að lokinni kynningu.

Íbúar eru eindregið hvattir til að mæta.

F.h. Skipulags- framkvæmda- og umhverfisnefndar Djúpavogs
Andrés Skúlason formaður

19.05.2016

Garðlönd - Settu niður kartöflur

Nú er búið að tæta upp kartöflugarðana neðan við Grænahraun.

Öllum er velkomið að nýta sér svæðið.

Sveitarstjóri

19.05.2016

Laust starf á gæsluvelli

Djúpavogshreppur auglýsir hér með laust starf við gæsluvöll sem verður starfræktur í Bjarkatúni fyrir börn fædd 2009-2014 frá 18. júlí -12. ágúst í sumar, ef næg þátttaka fæst.

Miðað er við að ekki færri en 8 börn verði skráð í hverri viku en opið verður frá kl. 10:00-14:00. Börnin þurfa að koma nestuð fyrir daginn en aðstaða verður í leikskólanum til að borða inni ef veður er vont.

Áhugasamir vinsamlegast hafi samband við sveitarstjóra á skrifstofu sveitarfélagsins Bakka 1 eða sendi tölvupóst sveitarstjori@djupivogur.is. Umsóknarfrestur er til 1. júní.

Sveitarstjóri

19.05.2016

List án landamæra í maí í Djúpavogshreppi

List án landamæra

Alþjóðleg hátíð sem snýst um að allir samfélagshópar séu jafnir fyrir listinni og til að skapa (börn, unglingar, fullorðnir, eldri borgarar, innflytjendur, fatlaðir, þroskaheftir....).

  • Þetta er hátíð sem fagnar fjölbreytileika mannlífsins.
  • Hátíðin var fyrst haldin á Evrópuári fatlaðra árið 2003. Fjöldi þátttakenda og gesta hefur aukist með hverju ári síðan þá. 
  • List án landamæra byrjaði sem hátíð til að ýta undir listsköpun fatlaðra og er ennþá nátengd starfi fatlaðra en engu að síður vinnur hátíðin ötult og markvisst starf við að brjóta niður múra á milli allra ólíkra samfélagshópa með listina að vopni.

Í ár verður hátíðin ekki bundin við fastan tíma að vori heldur er hægt að standa fyrir viðburðum og samstarfi undir merki hátíðarinnar allt árið. Þannig er talið að muni skapast tækifæri á auknu og fjölbreyttara samstarfi milli hátíðarinnar og menningarstofnana/annarra listahátíða. Í maí munu neðangreindir tveir viðburðir eiga sér stað: 21. maí verður haldin opnunarhátíð í Hótel Framtíð og 27. maí mun Rúna Ösp Unnsteinsdóttir sýna verk sín í verslun Arfleifðar í samstarfi við Ágústu Arnardóttu.

Þemað í ár nefnist “List fyrir skynfærin”. Hugmyndin er að leggja áherslu á skynfærin (sjón, heyrn, snertingu, bragð og lykt) og nota þau sem útgangspunkt til listsköpunar.

 

 

OPNUNARHÁTÍÐ LISTAR ÁN LANDAMÆRA

Opnunarhátíð Listar án landamæra í Djúpavogshreppi verður haldin á Hótel Framtíð, laugardaginn 21. maí kl. 14:00 - 16:00.

Nemendur leik- og grunnskóla sýna verk sín. Þema hátíðarinnar í ár er skynfærin.

 Þorbjörg Sandholt

 

SÝNING RÚNU ASPAR UNNSTEINSDÓTTUR

Sýning Rúnu Aspar Unnsteinsdóttir, fjöllistakonu, í samstarfi við Ágústu Arnardóttur verður haldin í og við verslun Arfleifðar í húsnæði Samkaupa að Búlandi 1 Djúpavogi föstudaginn 27. maí nk.

Rúna Ösp bjó á Djúpavogi áður en hún fluttist á Egilsstaði og lágu leiðir hennar og Ágústu í Arfleifð fyrst saman þegar Rúna Ösp fór í starfskynningu í hönnunar- og framleiðslufyrirtækið Arfleifðar þegar hún var í 10. bekk. Áhugi Rúnu Aspar á öllu sem viðkemur listum, hönnun, handverki mismunandi hráefnum og fleiru leyndi sér ekki og eftir 10. bekkinn fór hún beint í Hússtjórnarskólann á Hallormsstað þar sem hún nam margskonar handverk: prjón, hekl, vefnað, krosssaum og auk þess saumar hún mikið á sjálfa sig út frá sínum eigin hugmyndum, hún syngur og margt fleira listrænt og skapandi.

Eftir 2 ár á Hallormsstað lá leið Rúnu Aspar í Menntaskólan á Egilsstöðum, þar sem hún hefur nú verið í námi undanfarin 2 ár og útskrifast sem stúdent  (21. maí)

Rúna Ösp hafði sterka skoðun á útskriftarkjól sínum og lagðist ekki á garðinn lægstan í þeim efnum, kjóllinn er meðal annars með vængjum og foss. Skartið vildi hún búa til sjálf og þar koma Arfleifð inn í með aðstoð og ráðgjöf og undir leiðsögn Ágústu fullkláraði Rúna Ösp útskriftarkjólinn og töluvert af skarti og fylgihlutum.

Útskriftarkjóllinn, skartið, fylgihlutirnir og brot af því besta sem Rúna hefur skapað, hannað og handgert undanfarin 4 ár í náminu verður til sýnis á sýningu hennar "Doktor Dáns" í og við verslun Arfleifðar í húsnæði Samkaupa að Búlandi 1 Djúpavogi föstudaginn 27. maí nk.

Allir bæjarbúar og aðrir eru hjartanlega velkomnir á þessa glæsilegu, fjölbreyttu og flottu sýningu.

Ágústa Arnardóttir

 

 

19.05.2016

LAUFBLAÐIÐ

Ágætu íbúar.

Laufblaðið 2016 mun að öllum líkindum líta dagsins ljós um helgina. Nemendur í 6. og 7. bekk hafa unnið hörðum höndum að því að safna efni, skrifa og hanna - auk þess að selja auglýsingar. Í kvöld munu drengirnir í þessum bekkjum ganga í hús og bjóða styrktarlínur. Þá fá þeir sem kaupa slíka línu nafn sitt birt í blaðinu og leturstærðin fer eftir upphæð sem greidd er. Tökum vel á móti krökkunum og einnig þegar þau ganga í hús um helgina til að selja LAUFBLAÐIÐ. Allur ágóði af blaðinu fer í að greiða kostnað við jarðfræðiferð sem farin er eftir helgi.

Kveðja Lilja Dögg

Gæsluvöllur sumarið 2016

Gæsluvöllur verður starfræktur í Bjarkatúni fyrir börn fædd 2009-2014 frá 18. júlí -12 . ágúst í sumar, ef næg þátttaka fæst og starfsfólk finnst. Miðað er við að ekki færri en 8 börn verði skráð í hverri viku. 

Opið verður frá kl. 10:00-14:00. Börnin þurfa að koma nestuð fyrir daginn en aðstaða verður í leikskólanum til að borða inni ef veður er vont.  Skrá verður börnin 1-4 ákveðnar vikur og er skráningin bindandi.  

Vikan kostar kr. 10.500, systkinaafsláttur er 50%.

Foreldrar eru vinsamlegast beðnir að ganga frá skráningu á skrifstofu sveitarfélagsins fyrir 1. júní þar sem fram kemur nafn barns/barna og hvaða vikur viðkomandi hyggst nýta sér.

Sveitarstjóri

Reglur um eingreiðslu til húsbyggjenda í Djúpavogshreppi

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps veitir húsbyggjendum í Djúpavogshreppi styrk til byggingar á íbúðarhúsnæði skv. sérstökum reglum þar um.

Reglurnar eru sem hér greinir:

1. Greiddur verður styrkur (eingreiðsla) til húsbyggjenda í Djúpavogshreppi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Eingöngu lóðarhafi getur sótt um styrkinn. Ekki verður gengið frá sérstöku umsóknareyðublaði, en sveitarstjóri / form. SFU mun aðstoða við gerð umsókna.
2. Húsbyggjandi verður að eiga lögheimili í sveitarfélaginu, þegar umsókn er lögð inn.
3. Styrkur er eingöngu veittur til byggingar íbúðarhúsa og lágmarksstærð þeirra þarf að vera 60 m² að grunnflatarmáli. Sumarhús eða svonefnd frístundahús falla ekki undir reglurnar, þar sem markmiðið með reglunum er m.a. að stuðla að fjölgun íbúa í byggðarlaginu.
4. Byggingaryfirvöld í Djúpavogshreppi þurfa að hafa veitt öll tilskilin leyfi til
húsbyggingarinnar áður en styrkumsókn er lögð inn.
5. Eingöngu verður veittur styrkur til nýbygginga á byggingarsvæðum innan
skipulagðrar íbúðabyggðar í Djúpavogshreppi.
6. Fjárhæð byggingarstyrks er kr. 1.500.000.-. Frá greiðslum dragast öll gjöld sem innheimt eru skv. gjaldskrá 506 / 2013 eða síðari gjaldskrá(m) um sama efni.
7. Greiðslan skal því aðeins innt af hendi að hús sé eigi síðar en í árslok 2017 fokhelt skv. vottorði frá byggingarfulltrúa. Reglurnar gilda til loka árs 2017.


Sjá .pdf útgáfu af reglunum
Reglurnar má líka finna hér til vinstri undir Stjórnsýsla - Reglur og samþykktir

 

Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri

18.05.2016

Panorama-safn númer 3

Það er töluvert síðan við settum síðast inn svokallaðar panorama myndir, eða víðmyndir eins og þær kallast á íslensku. Fyrir vikið er nýjasta safnið ansi veglegt, með yfir 100 myndum héðan og þaðan úr sveitarfélaginu.

Við setjum myndirnar inn í góðri upplausn þannig að þið getið notið þeirra betur.

Smellið hér til að skoða nýjasta safnið.

ÓB

17.05.2016

Ársreikningur 2015

Ársreikningur Djúpavogshrepps fyrir árið 2015 er nú aðgengilegur hér á vefnum.

Smellið hér til að skoða hann.

ÓB

13.05.2016

Sveitarstjórn: Fundargerð 12.05.2016

Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.

ÓB

13.05.2016

Kökubasar í dag !!!!!!!!

Nemendur 8.-10. bekkjar halda kökubasar í dag í Samkaup-Strax.  Frá klukkan 16:00.
Margar girnilegar Eurovision bombur í boði.  Fyrstur kemur, fyrstur fær.

8.-10. bekkur

Auglýst eftir starfskröftum í Við Voginn

Vilt þú vinna á lifandi og skemmtilegum vinnustað?

 

Við Voginn leitar að starfsmönnum í almenn þjónustustörf og í eldhús.  Um er að ræða sumarvinnu og framtíðarstörf.  Umsækjendur verða að búa yfir mikilli þjónustulun, jákvæðni og lipurð í samskiptum. Mikilvægt er að umsækjendur séu brosmildir og hafi metnað fyrir starfinu.

Umsækjendur sendi tölvupóst á ran@ran.is eða í síma 863-4303.

13.05.2016

Hátíðarmessa og ferming á Hvítasunnu

Djúpavogskirkja

Hvítasunnudagur 15. maí.

Hátíðamessa og ferming kl. 14.00.

 

Fermd verður: 

Rósa Elísabet Jónsdóttir,

Hæðargerði 5, Reyðarfirði.

 

Verum öll hjartanlega velkomin,

 

                              sóknarprestur

11.05.2016

Listamannadvöl í Vesterålen í Noregi

Eins og síðustu ár býður Menningarráð Vesterålen í Noregi í samstarfi við Austurbrú sjónlistamanni á Austurlandi upp á listamannadvöl á tveim stöðum í Vesterålen. Bö eða Bleik eru dvalarstaðirnir.

Umsóknarfrestur til að sækja um listamannadvöl í Vesterålen er til 15. maí.

Davalartíminn er frá 1. sept – 1. des 2016.

Umsóknareyðublað

Auglýsing og upplýsingar um listamannadvölina og staðina sem í boði eru á ensku.

11.05.2016

Bæjarlífið mars 2016

Bæjarlífssyrpa marsmánaðar er bæði fjölbreytt og fáránlega skemmtileg.

Smellið hér til að skoða hana.

ÓB 

11.05.2016

Maðurinn sem stal sjálfum sér - í enskri þýðingu

Gísli Pálsson prófessor og rithöfundur er okkur íbúum á Djúpavogi að góðu kunnur en skemmst er að minnast magnaðri bók hans "Maðurinn sem stal sjálfum sér" sem fjallar um Hans Jónatan hinn þeldökka þræl sem gerði víðreist og settist að hér á Djúpavogi. Gísla rithöfundi þótti því við hæfi þegar að útgáfu bókarinnar kom að halda eftirminnilegt og skemmtilegt útgáfuteiti í Löngubúð á Djúpavogi. Gísli hefur aldeilis ekki látið þar sitja með hinni íslensku útgáfu heldur hefur hann landað samningi við stórt amerísk útgáfufyrirtæki og hefur bókin nú þegar verið gefin út á enskri tungu.

Hans Jónatan og saga hans hefur því einnig notið athygli utan landsteinana nú þegar. "THE MAN WHO STOLE HIMSELF" Auk þessa alls vinnur nú Gísli með aðstoð kvikmyndagerðarmannsins Valdimars Leifssonar að gerð heimildarmyndar um Hans Jónatan og er verkefnið komið langt á veg, en Gísli lagði m.a. í víking með fríðu föruneyti á slóðir Hans Jónatan í Saint Croix við tökur á myndinni. Segja má því með sanni að Gísli Pálsson hafi sannarlega komið Djúpavogi á kortið í þessum efnum enda saga Hans Jónatan samofin sögu Djúpavogs, en Hans á víða afkomendur á íslandi m.a. á Djúpavogi.

Það er sérstök ástæða að óska Gísla Pálssyni innilega til hamingju með hina nýju útgáfu og fyrir hafa í raun unnið það þrekvirki sem hann hefur innt af hendi við að gera persónu Hans Jónatans og sögu hans svo rækilega skil sem þegar sýnt er orðið.


http://press.uchicago.edu/ucp/books/book/chicago/M/bo21936305.html.

AS

 

10.05.2016