Djúpivogur
A A

Fréttir

Síðustu dagar sýningar um austfirska kvenljósmyndara í Tryggvabúð

Sýning um austfirska kvenljósmyndara 1871-1944 var opnuð í Tryggvabúð miðvikudaginn 27. janúar. Dagurinn í dag, 29. febrúar, og morgundagurinn, 1. mars, eru síðustu dagarnir sem sýningin hangir uppi.

Þeim sem ekki hafa séð sýninguna er því bent á að drífa sig á hana í dag eða á morgun.

 

Höfundur sýningarinnar, Magnea Bára Stefánsdóttir, opnaði sýninguna og hélt stutta kynningu á henni. Sýninguna vann hún sem hluta af lokaverkefni sínu í hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands.

 

Sýningin fjallar um þær konur sem menntuðu sig í greininni, tóku myndir á Austurlandi eða störfuðu á ljósmyndastofu á sama svæði. Tímabilið sem rannsókn Magneu Báru nær yfir er frá árinu 1871 þegar fyrsta konan hóf ljósmyndanám allt til ársins 1944 þegar ljósmyndastofa Eyjólfs Jónssonar á Seyðisfirði hætti starfsemi, en við þá stofu unnu margar þeirra kvenna sem eru til umfjöllunar
Leitað var heimilda um ævi, störf og verk þessara kvenljósmyndara. Ennfremur voru dregin fram helstu atriði í sögu ljósmyndunar, þær aðferðir sem notaðar voru og hvaða þátt konur áttu í þeirri þróun. Þessu tengist umræða um stöðu og hlutverk þeirra í samfélaginu. Auk þess er sagt frá varðveislu ljósmynda á Austurlandi og ljósmyndasöfnum þar.

Nicoline Weywadt á Teigarhorni var fyrsta íslenska konan sem lærði ljósmyndun og stundaði sjálfstæðan atvinnurekstur í greininni. Þrettán aðrar konur eru til umfjöllunar: Anna Klausen Eskifirði, Anna Ólafsdóttir Mjóafirði, Emelía Blöndal Seyðisfirði, Hansína Björnsdóttir Teigarhorni, Kristbjörg Stefánsdóttir Seyðisfirði, Lára Ólafsdóttir Reyðarfirði, Margrét Möller Eskifirði, Margrét Ólafsdóttir Seyðisfirði, Salvör Kristjánsdóttir Seyðisfirði, Sigríður Jensdóttir Seyðisfirði, Solveig Einarsdóttir Seyðisfirði, Svanborg Sigurðardóttir Seyðisfirði og Svava Eyjólfsdóttir Seyðisfirði.

(Úr lýsingu á verkefninu)

Hægt er að nálgast ritgerð Báru hér

 

29.02.2016

Gestafundur kvenfélagsins Vöku

Kvenfélagið Vaka verður með gestafund 1. mars kl. 20:30 á Hótel Framtíð.

Allar konur 18 ára og eldri velkomnar!

 

Kvenfélagið Vaka

25.02.2016

Fyrirtækjaskrá Djúpavogshrepps

Við höfum nú loksins uppfært fyrirtækjaskrána hér á síðunni sem var orðin allverulega úreld, enda hefur verið mikill vöxtur í fyrirtækjastarfsemi hér á Djúpavogi. Þess vegna er möguleiki á að einhver fyrirtæki vanti á listann.

Þeir sem telja að eitthvað vanti, eða að upplýsingar séu rangar, eru beðnir um að hafa samband á netfangið oli@djupivogur.is.

Fyrirtækjaskrána er hægt að skoða með því að smella hér.

ÓB

24.02.2016

Öskudagur 2016

Börnin á Djúpavogi létu ekki smá norðanátt og snjókomu koma í veg fyrir að ganga á milli fyrirtækja og syngja.

Þau kíktu m.a. við hér á skrifstofu sveitarfélagsins og sungu fyrir Önnu Sigrúna, sem tók einmitt hluta þessara mynda, en undirritaður hélt uppteknum hætti og tók sínar myndir út um gluggann.

ÓB

22.02.2016

Öskudagssprell í grunnskólanum

Í ár breyttum við svolítið til en í stað þess að halda hefðbundna keppnisdaga, sem reyndar breyttust í þemadaga í fyrra, ákváðum við að hafa einn ofur-sprell-keppnisdag. Við skiptum nemendum í 10 lið og þeirra biðu svo fjöldinn allur af fjölbreyttum þrautum, allt frá því að kasta boltum í hring til tónlistarflutnings á hinu dásamlega "Að ferðalokum". Að keppni lokinni var svo dansað í íþróttahúsinu og skemmtuninni slitið með hátt í 100 manna kór þar sem allir sungu saman "Að ferðalokum" með miklum tilþrifum.

Skemmtilegur dagur og allir yfir sig ánægðir með útkomuna.

Myndir má sjá með því að smella hér.

ÓB

Hótel Framtíð um Hammondhelgina

Meðfylgjandi er auglýsing frá Hótel Framtíð vegna Hammondhátíðar 2016.

Hún inniheldur tilboð í gistingu auk Hammondmatseðilsins.

Smellið á myndina til að stækka.

ÓB

 

 

 

 

22.02.2016

Fjölskylduguðsþjónusta á sunnudaginn

Fjölskylduguðsþjónustu verður n.k. sunnudag 21. febr. kl. 11:00 í Djúpavogskirkju.

 

Börn sem verða 5 ára á þessu ári sérstakir heiðursgestir og fá bók að gjöf frá kirkjunni.

Í tilefni konudagsins eru konur sérstaklega velkomnar. 

 

Nemendur tónskólans, allt stúlkur, spila og syngja í guðsþjónustunni.

 

 

 

 

19.02.2016

Félagsvist í Löngubúð

Næstu þrjá föstudaga ætlum við að spila vist í Löngubúð.

Föstudaginn 19. febrúar 
Föstudaginn 26. febrúar 
Föstudaginn 4. febrúar

Byrjað verður að spila 20:30 öll kvöld. Allir velkomnir.

Ungmennafélagið Neisti

18.02.2016

Konudagurinn

Langabúð er opin á konudaginn, sunnudaginn 21. febrúar, kl. 15:00 - 17:00 í tilefni dagsins.

Allir velkomnir í kökur, kaffi og kræsingar!

 

Rán

18.02.2016

Fundaröð í Djúpinu

 

 

Frá hugmynd til aðgerða
Fundaröð í Djúpinu Frumkvöðlasetri

 

 

 

 

Frumkvöðlar segja frá og kynna sitt ferli frá hugmynd til aðgerða.
Berglind Häsler og Svavar Pétur Eysteinsson hefja fundarröðina næstkomandi laugardag
20. febrúar kl. 12:00-13:00 og verða með kynningu á sinni framleiðslu um leið;
Sveitasnakki og Bulsum.

 

Kaffi og léttar veitingar á staðnum. Enginn aðgangseyrir.
Allir velkomnir!

 

 

17.02.2016

Dagskrá Hammondhátíðar 2016

Nú er búið að gefa út hverjir munu spila á Hammondhátíð 2016.

Hátíðin í ár fer fram 21.-24. apríl og dagskráin er ekkert slor, á fimmtudeginum spilar eitt vinsælasta band landsins, Agent Fresco, en þeir eru tilnefndir til 6 verðlauna á Íslensku tónlistarverðlaununum sem fram fara í byrjun mars. Hljómsveitin Valdimar mun sjá um föstudagskvöldið en þar fer fremstur söngvarinn geysivinsæli Valdimar Guðmundsson. Á laugardeginum verður öllu tjaldað til þegar hljómsveit allra landsmanna, Stuðmenn, mætir og ef að líkum lætur mun þakið losna af Hótel Framtíð. Það mun ekki koma að sök því lokatónleikar Hammondhátíðar fara fram í Djúpavogskirkju sunnudaginn 24. apríl en þar koma fram Sigríður Thorlacius, Guðmundur Óskar Guðmundsson og Hammondleikarinn Tómas Jónsson.

Semsagt, fjölbreytt og spennandi dagskrá þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Miðasala hefst á midi.is miðvikudaginn 17. febrúar næstkomandi.

EDV

 

15.02.2016

Sveitarstjórn: Fundargerð 11.02.2016

Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.

ÓB

12.02.2016

Starfsmaður á upplýsingamiðstöð

 

Starfið felst í meginatriðum í afgreiðslu á upplýsingamiðstöð, þ.e. að leiðbeina og svara spurningum ferðamanna sem sækja Djúpavogshrepp heim. Þrif upplýsingamiðstöðvar kæmu einnig í hluta starfsmanna sem og önnur tilfallandi verkefni.

Ráðningartími er 15. maí – 15. september.

Upplýsingamiðstöðin kemur til með að vera opin kl. 9:00-17:00 alla virka daga og 10:00-16:00 um helgar.

Gert er ráð fyrir að tveir starfsmenn deili með sér starfinu.

Umsækjandi þarf að vera 18 ára eða eldri, geta talað og lesið ensku og þekkja Djúpavogshrepp, eða vera tilbúinn til að kynna sér staðhætti og annað til að geta leiðbeint ferðamönnum.

 

Umsóknarfrestur er til 15. mars.

Umsóknir berist á skrifstofu sveitarfélagsins eða á netfangið erla@djupivogur.is

 

Nánari upplýsingar í síma 470-8703.

Erla Dóra Vogler

Ferða- og menningarmálafulltrúi Djúpavogshrepps

12.02.2016

Sveitarstjórn: Fundarboð 11.02.2016

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundarboð 11.02.2016

20. fundur 2010-2014

Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 11. febrúar 2016
kl. 15:00. Fundarstaður: Geysir.

Dagskrá:

1. Fundargerðir

a) Stjórn SSA, dags. 15. desember 2015.
b) Stjórn SSA, dags. 12. janúar 2016.
c) Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, dags. 15. janúar 2016.
d) Stjórn Hafnasambands Íslands, dags. 18. janúar 2016.
e) Starfshópur um húsnæðismál Djúpavogssskóla, dags. 19. janúar 2016.
f) Skipulags-, framkvæmda- og umhverfisnefnd, dags. 22. janúar 2016.
g) Ferða- og menningarmálanefnd, dags. 25. janúar 2016.
h) Félagsmálanefnd, dags. 27. janúar 2016.
i) Fundur bæjar- og sveitarstjóra á Austurlandi, dags. 2. febrúar 2016.
j) Ferða- og menningarmálanefnd, dags. 8. febrúar 2016.

2. Erindi og bréf

a) Leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum, styrkumsókn, ódagsett.
b) Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, samþykkt dags. 11. janúar 2016.
c) Guðmundur Valur Gunnarsson, upprekstur í Búlandsdal, dags. 3. febrúar 2015.
d) Félagsþjónusta Fljótsdalshéraðs, gjaldskrá heimaþjónustu og grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, dags. 4. febrúar 2016.
e) Umboðsmaður barna, hagsmunir barna og niðurskurður hjá sveitarfélögum,
dags. 4. febrúar 2016.

3. Málefni dagforeldra
4. Úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Austurlands 2016
5. Sjálfsmat Djúpavogssskóla skólaárið 2015-2016.
6. Húsnæðismál Djúpavogsskóla
7. Ljósleiðaravæðing Djúpavogshrepps
8. Skýrsla sveitarstjóra

Djúpavogi 8. febrúar 2016
Sveitarstjóri

08.02.2016

Djúpavogshreppur auglýsir: Lestun á baggaplasti

Ágætu bændur í Djúpavogshreppi

Nú stendur fyrir dyrum að fara á sveitabæi í Djúpavogshreppi og taka baggaplast til endurvinnslu. Það verður gert miðvikudaginn 17. febrúar, ef veður og færð leyfa og er áætlað að byrja að taka baggaplast á syðsta sveitabæ um hádegisbil og enda svo á Núpi. Bændur eru hér með vinsamlega beðnir um að tryggja öruggt aðgengi að rúlluplastinu svo lestun gangi vandræðalaust fyrir sig.

Þeir bændur sem ætla að nýta sér þessa ferð eru vinsamlegast beðnir um að láta vita á skrifstofu Djúpavogshrepps í síma 470-8700 eigi síðar en föstudaginn 12. febrúar.

Með góðum samstarfskveðjum
Djúpavogshreppur – Gámaþjónusta Austurlands.

08.02.2016

Frá Sundlaug Djúpavogs

Vegna bilunar í hitara fyrir sundlaug er laugin orðin frekar köld eða 4 gráðum undir normal hita. Samt allt í lagi fyrir þá sem eru duglegir að synda að skella sér út í. 

Vonum að viðgerðum verði lokið innan tveggja daga og fullum hita náð í lok vikunnar, eða jafnvel fyrir þann tíma. 

Pottarnir heitir sem áður 

                                                                                   Með upplýstum kveðjum

                                                                                     Forstöðum. ÍÞMD

                                                                                                         

08.02.2016

Auglýst eftir strandveiðibát

Óska eftir að vera með strandveiðibát í sumar og gera út frá Djúpavogi.

Upplýsingar í síma 777-0005

Sævar Þór Rafnsson

05.02.2016

Styrkir úr Uppbyggingarsjóði til Djúpavogshrepps

Miðvikudaginn 3. febrúar var úthlutað styrkjum úr Uppbyggingarsjóði Austurlands. 

Um 150 verkefni sóttu um og 90 verkefnum var úthlutaður styrkur.

 

Formleg úthlutun fór fram í Myndlistarmiðstöð Austurlands í Skaftfelli á Seyðisfirði. Þorbjörg Sandholt og Erla Dóra Vogler voru viðstaddar athöfnina ásamt Katrínu Jónsdóttur frá Nýsköpunarmiðstöð og Sævari Þór Halldórssyni.

Djúpavogshreppi voru úthlutaðar alls kr. 1.700.000,- í þrjú verkefni:

  • 900.000 kr - Rúllandi snjóbolti/7, Djúpivogur
  • 300.000 kr - Efling og kynning Cittaslow í Djúpavogshreppi
  • 500.000 kr - Tankurinn, sýningarrými

 

Auk þess fóru styrkir til einstaklinga innan sveitarfélagsins og til samstarfsverkefnis Valdimars Leifssonar, kvikmyndagerðarmanns, og Djúpavogshrepps, en Valdimar er að vinna heimildarmynd um Hans Jónatan.

 

Frábært er að fá þetta fjármagn inn í verkefni sem gerast innan sveitarfélagsins og því verður vel varið.

Við þökkum kærlega fyrir styrkina og óskum um leið íbúum Djúpavogshrepps kærlega til hamingju!

05.02.2016

Frá félagi eldri borgara

Aðalfundur verður haldinn í félagi eldri borgara föstudaginn 5. febrúar kl. 14:00.

Nýir félagar velkomnir.

Stjórnin

03.02.2016

Starfsmaður Nýsköpunarmiðstöðvar á Djúpavogi

Lumar þú á góðri viðskiptahugmynd eða þarft aðstoð með fyrirtækið þitt?

Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur ráðið Katrínu Jónsdóttur sem verkefnastjóra á Austurlandi. Hún mun búa á Djúpavogi ásamt hundinum Tinnu.   

Katrín mun reyna sitt besta að kynnast sem flestum fyrirtækjum og einstaklingum, stofna til tengsla við þau og vera þeim stuðningur ef á þarf að halda.

Sem dæmi um verkefni hennar má nefna aðstoð við gerð viðskiptaáætlana, þróun viðskiptahugmyndar yfir í viðskiptaáætlun, aðstoð við stefnubreytingar ef um stöðnun er að ræða í fyrirtæki, markaðssetning bæði almenn og á netinu, fræðsla af hinu ýmsu tagi hvað nýsköpun og frumkvöðla varðar og námskeið um ýmis mál ef óskað er eftir þeim.

Í stuttu máli mun Katrín hafa opnar dyr fyrir öllum hugmyndum, fyrirtækjum og einstaklingum og mun hún glöð spjalla við ykkur og aðstoða ykkur eftir bestu getu.

Hennar skrifstofa er á bæjarskrifstofunum og er hún opnar dyr alla virka daga frá 9-17. Ávallt hægt að senda henni tölvupóst á katrin.jons@nmi.is eða hringja hvenær sem er í s.522 - 9451 eða í gsm 852 – 8852

 

Hvaðan kemur Katrín?

Katrín Jónsdóttir, fædd og uppalin í Reykjavík árið 1979.  Faðir hennar Jón Erlendsson er fæddur og uppalin á Seyðisfirði. Allt til 14 ára aldurs eyddi Katrín sumarfríi með fjölskyldunni og spruttu þar sterk og góð tengsl.  Einnig vann hún á hótelinu á Mjóafirði í 2 sumur.  Það er því eins og að koma heim að flytja hingað austur.

Hún kláraði BA í þýsku við Háskóla Íslands 2004 og kláraði síðan master í Alþjóðaviðskiptum árið 2009. Frá þeim tíma hefur hún unnið með frumkvöðlum.  Frá 2010 – 2012 í sölu og markaðsteymi fyrirtækis sem seldi kínverskar rútur í Skandinavíu.

Frá 2012 – 2015 hjá vefsíðunni bland.is þar sem hún sá um rekstur, markaðssetningu og þróun síðunnar. Þar var hver dagur nýsköpun og hugmyndaflæði.

Hennar áhugasvið innan frumkvöðlastarfseminnar er internet markaðssetning einyrkja, lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem hafa ekki mikla peninga til að spila úr í markaðssetningu en framúrskarandi fyrirtæki og vörur.

Önnur áhugamál utan vinnu er útivist, hundar, fjallgöngur, fótbolti, sjósund og kaffispjall í góðra vina hópi.

 

 

03.02.2016

42 próf tekin í Djúpinu í desember

Skv. frétt Austurbrúar um prófahald á starfsstöðvum stofnunarinnar tóku 15 nemendur samtals 42 próf í Djúpinu, starfsstöð Austurbrúar á Djúpavogi, í desember.

Mikið hefur færst í vöxt að íbúar Djúpavogshrepps stundi fjarnám frá hinum ýmsu skólum. Öll umsýsla þessara fjarprófa færðist í desember á síðasta ári úr grunnskólanum í Djúpið, enda umfangið orðið slíkt að starfsfólk grunnskólans var hætt að sjá fram úr að geta sinnt öllum þessum fjölda, svo vel væri. Því þótti það í lófa lagið að færa þessa umsýslu í Djúpið, enda endurmenntun stór hluti af stefnumörkun og starfssviði Austurbrúar.

Ekki er annað að heyra en að nemendur hafi verið mjög ánægðir með aðstöðuna í Djúpinu en Katrín Reynisdóttir, starfsmaður Austurbrúar á Djúpavogi, segir að fjöldi prófa hafi verið töluvert meiri en hún hafði búist við og þetta hafi því verið töluvert mikill pakki að taka við, en þeim mun skemmtilegri fyrir vikið.

Nánari útlistun á prófum á starfsstöðvum Austurbrúar má lesa hér.

ÓB

02.02.2016

Myndasýning í Tryggvabúð í dag

Nú ætlum við að halda myndasýningu í Tryggvabúð í dag. 

Sem fyrr byrjum við kl. 17:00 og eru allir hjartanlega velkomnir.

AS