Djúpivogur
A A

Fréttir

Tendrun jólatrésins frestað vegna veðurs

Vegna slæmrar veðurspár hefur verið ákveðið að fresta tendrun jólatrésins sem fara átti fram kl. 17:00 í dag.

Ný tímasetning verður auglýst síðar.

Sveitarstjóri

30.11.2014

Frá Djúpavogskirkju

Fjölskylduguðsþjónusta 1. sunnudag í aðventu 30. nóv. kl. 11.00.

Kveikt á 1. kertinu á aðventukransinum.
Börnin fá límmiða á bænaspjöldin og brúður koma í heimsókn.

Frá sóknarnefnd:
Hægt verður að kveikja ljós á leiðum í kirkjugarðinum frá og með 1. sunnudegi í aðventu.
Vinsamlega leggið kr. 1.000 á reikning 1147-05-401066 kt. 690408-0230 Djúpavogskirkjugarður.

28.11.2014

Frá Löngubúð - félagsvist í umsjón áhafnarinnar á Gulltoppi

Félagsvist verður í kvöld, föstudaginn 28. nóvember kl. 20:30.

Áhöfnin á Gulltoppi ætlar ad sjá um vistina. Veglegir vinningar í boði.

500 krónur inn sem renna beint til Björgunarsveitarinnar Báru a Djúpavogi.

Allir velkomnir

Langabúð

28.11.2014

Opinn fundur vegna reglna um úthlutun byggðakvóta

Ágætu útgerðarmenn

Boðað er til opins fundar í Löngubúð, þriðjudaginn 2. desember kl:17:00.

Fundarefni:
1. Reglur um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2014-2015

Vonandi að sem flestir sjái sér fært að mæta.

Atvinnumálanefnd Djúpavogs

27.11.2014

Jólabingó UMF Neista

Hið árlega jólabingó UMF. Neista verður haldið sunnudaginn 30. nóvember á Hótel Framtíð.

Barnabingóið (13 ára og yngri) hefst kl 14:00, spjaldið á 400 kr.
Fullorðinsbingó (14 ára og eldri) hefst kl 20:00, spjaldið á 800 kr.

Glæsilegir vinningar í boði og hvetjum við alla til að koma og gera sér glaðan dag.

Stjórn Neista

 

 

 

 

27.11.2014

Afmæli Carol

Hún Carol okkar á afmæli í dag og er þriggja ára gömul.  Af því tilefni komum við saman í salnum og sungum afmælissönginn fyrir hana og fengum ávexti í glösum.  Nemendurnir á Tjaldadeild voru búnir að útbúa plakat sem á stóð "Happy birthday" og nemendurnir á Kríudeild skrifuðu "Carol Til hamingju með afmælið" og síðan voru þessi plaköt skreytt með Glimmeri.  Söfnunarbaukur er búinn að vera í leikskólanum í viku og ætlum við að fara með hann í bankann á morgun og leggja inn á reikning sem Carol á og er framtíðarsjóðurinn hennar. 

Fleiri myndir eru hér

ÞS

Jólabingó UMF Neista

Hið árlega jólabingó UMF.Neista verður haldið sunnudaginn 30. nóvember á Hótel Framtíð.

Barnabingóið (13 ára og yngri) hefst kl 14:00, spjaldið á 400 kr.
Fullorðinsbingó (14 ára og eldri) hefst kl 20:00, spjaldið á 800 kr.

Glæsilegir vinningar í boði og hvetjum við alla til að koma og gera sér glaðan dag.

Stjórn Neista

 

 

 

26.11.2014

Designs from Nowhere hlýtur fyrstu Hönnunarverðlaun Íslands

Hönnunarverkefnið „Austurland: Designs from Nowhere“ fékk Hönnunarverðlaun Íslands sem voru afhent í fyrsta sinn í gær við hátíðlega athöfn í Kristalsal Þjóðleikhússins. Dómnefnd bárust ríflega 100 tilnefning og tilnefndi fjögur verkefni sem þóttu sigurstranglegust.

Stofnun Hönnunarverðlauna Íslands er mikið fagnaðarefni fyrir íslenskt hönnunarsamfélag, en vægi hönnunar í menningu okkar, samfélagi og viðskiptalífi er óðum að aukast og því mikilvægt vekja athygli á og auka skilning á gildi góðrar hönnunar. Austurland: Designs from Nowhere, er verkefni sem snýst um að kanna möguleika til framleiðslu og atvinnuuppbyggingar á Austurlandi, þar sem notast er við staðbundin hráefni og þekkingu. Karna Sigurðardóttir vöruhönnuður og kvikmyndaleikstjóri og Pete Collard, listrænn stjórnandi hjá Design Museum í London áttu frumkvæði að verkefninu og fengu til liðs við sig hönnuðina Þórunni Árnadóttur, Max Lamb, Juliu Lohmann og Gero Grundmann til að þróa sjálfstæð verkefni í nánu samstarfi við handverksfólk og fyrirtæki á Austfjörðum.

Í tilkynningu frá dómnefnd segir: „Verkefnið þykir sýna á afar sannfærandi hátt að hlutverk hönnuða í dag felst í æ ríkari mæli í því að efla sýn og auka metnað til sköpunar og framleiðslu. Landsbyggðin hefur víða notið góðs af aðkomu hönnuða og hafa mörg sveitarfélög á Íslandi, fyrirtæki og bændur tekið þátt í fjölbreyttum verkefnum á síðustu árum, þar sem leitast er við að finna nýjar leiðir í hráefnisnotkun og atvinnusköpun með mjög góðum árangri. Verkefnið, sem var bundið við Austurland, sýnir að samstillt sýn og virðing fyrir menningu á hverjum stað, þar sem handverk, þekking og staðbundinn efniviður er kannaður til hlítar, felur í sér aukin tækifæri til að skapa framúrskarandi verk og hlýtur að vera hvatning öllum til handa.“

Meðal verkefna í Designs from nowhere er heimildamyndin The more you know. The more you know unnin af Kristínu Örnu Sigurðardóttur og Sebastian Ziegler. Myndin fjallar um upplifun hönnuðanna, sem tóku þátt í verkefninu, á Austurlandi.

Sá hluti af kvikmyndinni sem snýr að Djúpavogshreppi eru hugleiðingar Max Lamb um aðlögun hans sem utanaðkomandi listamanns að umhverfi hreppsins og samskiptum við heima- og listamanninn Villa í Hvarfi.

Það er mikil hvatning fyrir uppbyggingu skapandi greina á Austurlandi að verkefnið skuli hljóta þann heiður að fá  fyrstu hönnunarverðlaun Íslandssögunnar.  Design From Nowhere byggir á hugmyndafræði MAKE by Þorpið sem fjallar um að hámarka nýtingu á staðbundum hráefnum, leiða saman ólíka þekkingu og færni og samnýta fjármuni og mannauð svæðisins.  Design From Nowhere er eitt af þeim verkefnum sem urðu til á lokaráðstefnu MAKE it happen sem var haldin í lok September 2012.  Þar varð til tengslanet sem leiddi til alþjóðlegrar samvinnu og samstarfs þvert á mismunandi bakgrunn, þekkingu  og færni fólks innan og utan Austurlands. Design From Nowhere vinnur með netagerðinni Egersund á Eskifirði, Markúsi Nolte og Þórhalli Árnasyni hjá Þorpssmiðjunni á Egilsstöðum, Hjörleifi Gunnlaugssyni á Neskaupsstað, Vilmundi Þorgrímssyni á Djúpavogi ásamt hönnuðunum sem áður eru taldir upp.

Verkefnið var sýnt sem framlag Austurlands á Hönnunarmars 2014 í Spark design Space Reykjavík, síðan á Sumarsýningu Sláturhússins á Egilsstöðum í sumar og einnig á London design festival í September 2014. Austurbrú hefur komið að verkefninu með styrkveitingum frá Menningarráði Austurlands og Vaxtarsamningi en einnig hefur verkefnisstjóri skapandi greina hjá Austurbrú o.fl. ásamt SAM félaginu grasrótarsamtökum skapandi fólks á Austurlandi lagt verkefninu lið á verkefnistímanum. 

Verkefnið sem slíkt hefur nú þegar vakið mikla athygli  á því kraftmikla starfi sem er í gangi á Austurlandi á sviði skapandi greina. Hönnunarverðlaunin gefa byr í báða vængi og staðfesta að samstarf ólíkra aðila getur leitt til atvinnusköpunar sem byggir á sjálfbærni og möguleikum til að kynna Austurland fyrir heimsbyggðinni í gegnum einstaka vöru sem segir söguna um það hver við erum.

Meira um verkefnið má finna á vef Hönnunarsmiðstöðvar Íslands:
http://www.honnunarmidstod.is/Forsida/

Heimasíða verkefnisins:
http://designsfromnowhere.is/

ÓB


Þórunn Árnadóttir og Karna Sigurðardóttir vöruhönnuðir við verðlaunaafhendinguna. 
Mynd: Hönnunarveðlaun Íslands. 

 

25.11.2014

Dagskrá Tryggvabúðar í nóvember og desember

Mánudagar - Miðvikudagar – Fimmtudagar

Handavinna, opið fyrir alla.
Björg í Sólhól leiðbeinir við vefstólana frá kl.14:00
Lestur framhaldssögu.

Alla mánudaga:
Berta hjúkrunarfræðingur er hjá okkur frá kl. 13:00 til 15:00 með allskonar heilsueflingu.

24. nóvember:
Elstu börn úr grunnskólanum steikja laufabrauð með aðstoð eldriborgara.

5. desember:
Kl. 14:00 fundur í félagi eldriborgara

8. desember:
Upplestur úr nýjum bókum.
KL.16:00 lestur úr barna og unglingabókum.
Kl. 20:30 lestur fyrir fullorna.

12. desember:
Jólahlaðborð fyrir eldri borgara, nánar auglýst síðar.

23. desember:
Skötuveisla

Öll fimmtudagskvöld eru prjónakvöld.


Starfsfólk Tryggvabúðar

 

 

 

 

 

25.11.2014

Jóla-Bóndavarðan

Jóla-Bóndavarðan er að koma út og við erum að safna efni.

Ert þú með skemmtilegt efni sem þú vilt koma á framfæri, smásögu, ljóð, ferðasögu, jólasögu, frásögn eða eitthvað annað?

Sendu þá inn efni á netfangið ran@djupivogur.is. Við tökum við efni til föstudagsins 28. nóvember.

Djúpavogshreppur

21.11.2014

Frá Djúpavogskirkju

Fjölskyldusamvera og kirkjuskóli í Djúpavogskirkju n.k. sunnudag 23. nóv. kl. 11.00.

Rebbi refur og Mýsla koma í heimsókn og Biblíusaga verður sýnd á skjávarpa.

Söngur og gaman og allir fá nýja límmiða á bænaspjöldin og þau sem eiga ekki bænaspjald fá það.


Allir krakkar velkomnir, einnig foreldrar, systkini, vinir og vinkonur,

sóknarprestur

 

21.11.2014

Jólapappírssala Foreldrafélags Djúpavogsskóla

Ein af aðal fjáröflunum Foreldrafélags Djúpavogsskóla er sala á Jólapappír. Líkt og undanfarin ár verður gengið í hús og pappírinn seldur. Fjórar rúllur saman í pakka ásamt skrauti á 2000kr. 
Gengið verður í hús frá og með morgundeginum og til mánudags. Glöggir sölumenn/foreldrar og börn sjá til þess að enginn missir af möguleikanum á því að kaupa jólapappír og styrkja þar með Foreldrafélagið. 

Með gleði í hjarta

Stjórn Foreldrafélagsins

19.11.2014

Útboð og samkeppnishæfi fyrirtækja á Austurlandi

Föstudaginn 28. nóvember frá kl 10.00 - 12.00 á Hótel Bláfelli á Breiðdalsvík stendur Austurbrú fyrir málþingi um útboð og samkeppnishæfi fyrirtækja á Austurlandi.

Fjallað verður um kröfur um fjárhagslegt hæfi, kröfur í alþjóðlegu umhverfi s.s. öryggiskröfur/vottanir og notun alþjóðlegra útboðsvefja.

Dagskrá:

Kröfur um fjárhagslegt hæfi
- Sigurður B. Halldórsson, Samtök iðnaðarins
Kröfur í alþjóðlegu umhverfi
- Ólafur Atli Sigurðsson, Alcoa Fjarðaál
- Sigurður Björnsson, Landsvirkjun
- Sigurður Arnalds, Mannvit
- Magnús Helgason/Ásgeir Ásgeirsson, Launafl

Fundarstjóri: Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri, Fjarðabyggð.

Skráning á málþingið er til 24. nóvember nk. Hægt er að skrá sig með því að senda tölvupóst á austurbru@austurbru.is eða með því að hringja í síma 470 3800

Allir velkomnir;

Austurbrú

19.11.2014

Frá Bakkabúð

Bakkabúð verður opin frá kl. 16:00 - 18:00 í dag, miðvikudag.

Nýjar vörur m.a. Frozen leggings, náttkjólar og fl. Einnig Monster high náttföt.

Verið velkomin í Bakkabúð!

19.11.2014

Sveitarstjórn: Fundargerð 13.11.2014

Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.

ÓB

19.11.2014

Dagar myrkurs

Nú eru dagar myrkurs að ljúka hér í leikskólanum en við höfum brallað ýmislegt í tilefni daga myrkurs.  Í ár var ákveðið að þemað yrði Greppikló og Greppibarnið.

Greppikló og Greppibarnið eru bækur eftir Axel Scheffler og Julia Donaldson og hafa notið mikilla vinsælda um allan heim undanfarin ár en Þórarinn Eldjárn sá um þýðingu á bókunum

Greppikló? Hvað er greppikló?
Hva, greppikló? Það veistu þó! 
Þetta segir litla músin við refinn, ugluna og slönguna sem hún mætir á göngu sinni um skóginn. Þau verða hrædd og þjóta burt þótt músin viti vel að það er ekki til nein greppikló. Og þó … 

"Engin greppikló má," sagði Greppikló, "gera sér ferð inn í Dimmaskóg..."
Greppiklóin er ekki búin að gleyma músinni ógurlegu sem gabbaði hana eitt sinn og því harðbannar hún Greppibarninu að fara inn í skóginn.
En Greppibarnið óttast ekki neitt og eina dimma vetrarnótt læðist það frá mömmu sinni.

 

Við ákváðum því að nýta þessar sögur á dögum myrkurs og unnum með þær þannig að sögurnar lifnuðu við á veggjum og gólfi leikskólans.

Hér er verið að teikna upp og hanna Greppikló, krakkarnir á Tjaldadeild sáu um það

Fótspor Greppiklóarinnar, Greppibarnsins og músarinar

Enduðum svo á því í morgun að horfa á myndirnar um Greppikló og Greppibarnið

Fleiri myndir eru hér

ÞS

 

 

 

Minnum á jólakortin.

Hugmyndum verður að skila fyrir 20. nóv. Svo að það náist að prenta í tæka tíð.

Hollvinasamtökin um gömlu kirkjuna ætla að prenta jólakort sem seld verða til styrktar uppbyggingu á kirkjunni.

Nú viljum við leita til allra velunnara til að senda inn hugmynd að jólakorti sem dómnefnd mun svo velja úr til prentunar. Ekki verður boðin nein þóknun fyrir nema þá í formi prentaðra jólakorta.

Hvetjum við alla til að senda inn tillögur, þetta geta verið ljósmyndir, teikningar, ljóð, myndir í hvaða formi sem er og texti til að hafa inni í korti. Jafnvel hugmynd að korti sem einhver annar en höfundur getur útfært. Athugið, hægt er að skila tillögum í hvaða formi sem er.

 

f.h. Hollvinasamtaka um gömlu kirkjuna á Djúpavogi.

 

Unnur Malmquist Jónsdóttir

unnurkennari@gmail.com

s. 4788252

 

Þór Vigfússon

thorvigfusson@gmail.com

s. 4788115

8634498

14.11.2014

Sviðamessa 2014

Sviðamessan fer fram 15. nóvember næstkomandi á Hótel Framtíð. Sviðamessan er löngu búin að festa sig í sessi sem ein áhugaverðasta skemmtun landsins, en síðastliðin tvö ár hafa færri komist að en vildu. Það borgar sig því að tryggja sér miða í tíma því fyrir utan hin hefðbundnu svið verður boðið upp á frábæra Queen-sýningu frá Norðfirði.

Sjá nánar í auglýsingu hér að neðan.

ÓB

 

 

 

 

 

13.11.2014

Kökubasar á föstudaginn

Nemendur 9. og 10. bekkjar verða með kökubasar á Dögum myrkurs, föstudaginn 14. nóvember klukkan 16:00 í Samkaup-Strax.  Girnilegar hnallþórur í boði - fyrstur kemur - fyrstur fær.

9. og 10. bekkur

 

Bati er lífstíll

Hugaraflsmenn koma til Egilsstaða og verða með opinn fræðsludag og vinnusmiðjur um valdeflingu og bata. Árangursrík leið til að ná tökum á eigin lífi eftir áföll og veikindi s.s. þunglyndi og kvíða.

Haldnir verða fyrirlestrar um valdeflingu, bata og batahvetjandi leiðir, reynslu einstaklinga með greinda geðröskun og aðstandendur.

Í vinnusmiðjum verður farið dýpra í allar hliðar á málefninu og hvatt verður til skapandi umræðna frá þátttakendum.

Í Ásheimum Miðvangi 22, Egilsstaðir, fimmtudaginn 20. nóv. kl. 9:15-17:00

Allir velkomnir 

Aloca - StarfA - HSA - Geðhjálp

12.11.2014

Frá Tannlæknastofu Austurlands

Helgi tannlæknir verður á Djúpavogi eftirfarandi föstudaga:

5. desember 2014
9. janúar 2015
6. febrúar 2015
6. mars 2015
27. mars 2015

Tímapantanir eru í síma 471-1430.

Tannlæknastofa Austurlands

12.11.2014

Útgáfufagnaður í Tryggvabúð - myndir

Það var sannarlega skemmtileg stund í Tryggvabúð síðast liðinn laugardag þar sem Hrönn Jónsdóttir stóð fyrir útgáfuteiti og las upp úr nýrri bók sinni "Árdagsblik" sem við hvetjum hér með auðvitað alla til að tryggja sér eintak af. Sveitarstjórinn stýrði dagskrá þar sem ávörp voru m.a. flutt til heiðurs skáldkonunni.

Þá voru einnig tvö glæsileg tónlistaratriði á dagskrá í umsjá heimamanna, flutt af Helgu Björk Arnardóttur og Kristjáni Ingimarssyni, frábær flutningur hjá þeim báðum. Þá voru á boðstólnum veitingar framreiddar af starfsfólki Tryggvabúðar, sem sagt allt eins og best var á kosið. Heimamenn fjölmenntu á þennan ánægjulega menningarviðburð og voru viðtökur allar hinar bestu.

Við óskum Hrönn Jónsdóttur að sjálfsögðu innilega til hamingju með bókina. 

                                                                                                                              Samantekt. AS 

 

 

 

 

 

 

12.11.2014

Sveitarstjórn: Fundarboð 13.11.2014

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundarboð 13.11.2014

6. fundur 2014 – 2018

Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 13. nóvember 2014 kl. 16:30.
Fundarstaður: Geysir.

Dagskrá:

1. Fjárhagsleg málefni

a) Ákvörðun um útsvarsprósentu 2015.
b) Gjaldskrár 2015 til fyrri umræðu.
c) Eignabreytingar og framkvæmdir 2015.
d) Styrkbeiðnir o.fl. v. ársins 2015.
e) Drög að rekstrarútkomu Djúpavogshrepps 2014.
f) Fjárhagsáætlun Djúpavogshrepps 2015-2018. Fyrri umræða.
g) Samgönguáætlun 2015-2018.

2. Fundargerðir

a) Héraðsskjalasafn Austfirðinga, dags. 9. september 2014.
b) Samtök sjávarútvegssveitarfélaga, dags. 12. september 2014.
c) Ferða- og menningarmálanefnd, dags. 24. september 2014.
d) Héraðsskjalasafn Austfirðinga, dags. 6. október 2014.
e) Samtök sjávarútvegssveitarfélaga, dags. 7. október 2014.
f) Samtök sjávarútvegssveitarfélaga, dags. 8. október 2014.
g) Aðalfundur samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, dags. 8. október 2014.
h) Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum, dags. 10. október 2014.
i) Atvinnuþróunarsjóður Austurlands, dags. 21. október 2014.
j) Atvinnumálanefnd, dags. 21. október 2014.
k) Samband sveitarfélaga á Austurlandi, dags. 22. október 2014.
l) Brunavarnir á Austurlandi, dags. 24. október 2014.
m) Hafnasamband Íslands, dags. 31. október 2014.
n) Samband íslenskra sveitarfélaga, dags. 31. október 2014.
o) Samtök sjávarútvegssveitarfélaga, dags. 3. nóvember 2014.
p) Starfshópur um fjárhagsleg málefni, dags. 4. nóvember 2014.
q) Landbúnaðarnefnd, dags. 6. nóvember 2014.
r) Aðalfundur Héraðsskjalasafns Austfirðinga, dags. 6. nóvember 2014.

3. Erindi og bréf

a) Byggðastofnun, atvinnumál á Djúpavogi, dags. 15. október 2014.
b) Skipulagsstofnun, tillaga að matsáætlun vegna 13.000 tonna aukningar í eldi á laxi og regnbogasilungi í Berufirði og Fáskrúðsfirði, dags. 6. nóvember 2014.

4. Skýrsla sveitarstjóra

 

Djúpavogi 10. nóvember 2014;
sveitarstjóri

10.11.2014

Dagar myrkurs á Djúpavogi

Hér gefur að líta dagskrá á Dögum myrkurs á Djúpavogi.


Bókasafnið: 
Vofur og vandræði, sektarlausir dagar. Bókasafnið er opið á þriðjudögum kl 16:00 – 19:00.

Djúpavogsskóli:
Fimmtudaginn 13. nóvember verður drungalegur dagur í Djúpavogsskóla. Þann dag mæta allir í dökkum fötum og drungalegir til fara. Í gestavikunni 18.-21. nóvember, bjóðum við svo áhugasömum að kíkja í heimsókn og kynnast starfi grunn-, leik- og tónskólans.

Grunnskóli:
Drungalegur samsöngur við kertaljós, þriðjudaginn 11. nóvember og fimmtudaginn 13. nóvember. Allir velkomnir.
Á matseðlinum á Hótelinu verður m.a. boðið uppá Drakúla steik og nornagraut.

Hótel Framtíð:
Föstudagur 7. nóv: Árshátíð grunnskóla Djúpavogs á Hótel Framtíð kl 18:00. Aðgangseyrir 800 kr fyrir fullorðna og 500 kr fyrir eldri borgara. Að þessu sinni verður sýnd uppfærsla á Með allt á hreinu. Pizzahlaðborð að lokinni árshátíð.
Laugardagur 15. nóv: Sviðamessa á Hótel Framtíð. Sviða og lappaveisla, BRJÁN flytur bestu lög Queen og dansleikur. Forsala á Hótel Framtíð 9. – 13. nóv.

Langabúð:
Föstudagur 14. nóv: Krakkabíó í Löngubúð klukkan 17:00 - Hryllingsleg teiknimynd. Köngulóarmúffur, múmíusvalar og allskonar draugalegt góðgæti.

Leikskóli:
Morgunmatur borðaður í myrkri við kertaljós og kósýheit á meðan dagar myrkurs eru. Við höfum verið að lesa bækurnar um Greppikló og Greppibarnið. Við ætlum að vinna verkefni út frá þeim bókum og er matseðill leikskólans í anda bókanna. M.a. verður boðið uppá Greppiklóarmauk og uglugott. Við skyggnumst inn í heim Greppiklóa og annarra furðuvera. Í andyri leikskólans hittum við fyrir Greppikló, Greppibarn og mús. Í fataklefanum er svarta myrkur og má sjá glóandi augu og klær Greppiklóarinnar. Við laumumst inn á deildirnar og fylgjum fótsporum músarinnar, Greppibarnsins eða Greppiklóarinnar. Inn á deildum eru Greppibörn út um allt að fylgjast með okkur... Ekki vera hrædd ..... Bókin um Greppibarnið er til á Bókasafni Djúpavogs og við hvetjum ykkur til að fá hana lánaða og lesa.

Tryggvabúð:
Laugardagur 8. nóv: Útgáfuboð í Tryggvabúð kl 14:00 – 16:00 vegna bókarinnar Árdagsblik eftir Hrönn Jónsdóttur.
Þriðjudagur 11. nóv: Sögukvöld í Tryggvabúð á vegum eldri borgara kl 20:30.

07.11.2014

Útgáfufagnaður í Tryggvabúð

Útgáfu bókarinnar "Árdagsblik" eftir Hrönn Jónsdóttur verður fagnað í Tryggvabúð laugardaginn 8. nóvember milli klukkan
14:00 og 16:00.

Boðið verður upp á kaffiveitingar og tónlistaratriði auk þess sem höfundur mun lesa upp úr bókinni.

Bókin verður til sölu á staðnum á kynningarverði og kostar kr. 3.500.

Allir velkomnir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Hrönn Jónsdóttir 

 

 

06.11.2014

Frá félagi eldri borgara

Fundur verður í félagi eldri borgara föstudaginn 7. nóvember kl. 14:00 í Tryggvabúð, félagsaðstöðu eldri borgara, Markarlandi 2.

Nýir félagar velkomnir.

Stjórnin

05.11.2014

Sólblómaleikskólinn Bjarkatún

Eins og fram hefur komið ákváðu nemendur og starfsfólk Bjarkatúns að taka að sér SOS-Sólblómabarn.  Það er hún Carol sem býr í SOS þorpi í Zambíu. 

Nemendur hafa sl. vikur verið að undirbúa afmælisgjöf handa henni en hún verður þriggja ára núna 27. nóvember.  Pakkinn frá krökkunum fór í póst í gær og í honum voru límmiðar, hárskraut, litabók og litir.  Börnin á Tjaldadeild bjuggu til afskaplega fallegt afmæliskort sem fór líka með.

Leikskólinn borgar fast árgjald til Carol sem fer í að sjá henni fyrir helstu nauðsynjum.  Okkur stendur einnig til boða að greiða valfrjálsan gíróseðil að eigin upphæð.  Sá peningur fer í að búa til sjóð sem hún fær afhentan þegar hún yfirgefur barnaþorpið og þarf að standa á eigin fótum og mennta sig.

Í forstofunni í leikskólanum er baukur.  Það er öllum frjálst að koma í heimsókn og kannski setja nokkrar krónur í baukinn sem renna allar óskiptar til Carol.  Við ætlum síðan að leggja þennan pening inn á afmælisdeginu hennar og hvetjum alla til að vera með.

 

HDH