Djúpivogur
A A

Fréttir

Rán og Alfa í Landanum

Það var skemmtilegt viðtal við Rán og Ölfu Freysdætur í Landanum sl. sunnudagskvöld.

Gísli Einarsson leit þá í heimsókn hjá þessum flottu systrum og forvitnaðist um verkefni sem þær hafa verið og eru að vinna að. 

Smellið hér til að sjá viðtalið.

ÓB

30.09.2014

Frá íþróttamiðstöðinni

Zumba í íþróttahúsinu verður framvegis á mánudögum kl. 18:00 og fimmtudögum kl. 17:00.

Á þriðjudögum verður badminton kl. 18:00 og fótbolti kl. 19:00.

Við minnum svo á leikjatímana fyrir leikskólabörn á milli 11:00 - 12:00 á laugardögum í allan vetur.

Starfsfólk ÍÞMD

30.09.2014

Frá hollvinasamtökum gömlu kirkjunnar

Allir sem vettlingi geta valdið.

Þarftu að að losna við samviskubit, losna frá áhyggjum dagsins, bæta geðheilsuna, viltu taka á, taka til hendinni?

Erum að safna saman góðu fólki, til verka í gömlu kirkjunni. Verðum á staðnum laugardaginn 4. október frá kl 10:00.

Undir styrkri verkstjórn vonumst við til að geta tekið niður eða rifið neðan úr lofti kirkjuskipsins. Þannig að hamar kúbein og annað sem nota má við niðurrif og naglhreinsun er gott að hafa með sér. Einnig eru allir velkomnir sem vilja bara kynna sér framkvæmdir og hitta gott fólk. Við munum bjóða upp á hressingu til að auka orku og létta andann.

Hollvinasamtök gömlu Djúpavogskirkju.

Frekari upplýsingar hjá Unni í Dölum.
Meiri upplýsingar, Ágúst í Röst.
Minni upplýsingar, Þór í Sólhól.

 

30.09.2014

Hreyfivika í Djúpavogshreppi

Djúpavogshreppur ásamt Ungmennafélaginu Neista tekur þátt í alþjóðlegri Hreyfiviku (e. Move-Week) undir styrkri leiðsögn frá ÚÍA.
Búið er að setja saman glæsilega dagskrá og hvetjum við sem flesta til að taka þátt!

 

 

 

 

 

 

30.09.2014

Í ljósi mikillar gasmengunar

Í ljósi mikillar gasmengunar á Djúpavogi í dag eru íbúar hvattir til að kynna sér leiðbeiningar sem gefnar voru út af Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra sem við birtum á vefnum fyrr í september.

Einnig bendum við á heimasíðu Umhverfisstofnunar, þar sem má finna frekari upplýsingar.

Enn sem komið er, er ekki búið að setja upp mæli á Djúpavogi en samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun þá er einn slíkur á leiðinni og ætti að vera kominn hingað um helgina.

ÓB

 

26.09.2014

Gosmengun

Vegna mikillar mengunar verður ekki farið með leikskólabörnin út í dag.

 

ÞS

26.09.2014

Kvöldstund með Helga Björns í Löngubúð

Hinn landsþekkti söngvari og leikari Helgi Björnsson er að fagna 30 ára söngafmæli um þessar mundir, en það eru 30 ár síðan fyrsta hljómplatan kom út með þessum ástsæla söngvara, en það var Grafík - Get ég tekið sjéns sem innihélt m.a. lögin Mér finnst rigningin góð, 16 og Þúsund sinnum segðu já. Síðan tók við óslitin sigurganga með Síðan Skein Sól, Reiðmönnum Vindanna og undir eigin nafni.

Helgi ætlar að fagna þessum tímamótum með 30 tónleikum víðsvegar um landið undir heitinu Kvöldstund með Helga Björns, þar sem Helgi mun rifja upp ferilinn í tali og tónum, segja frá tilurð laganna, rifja upp einhverjar rokksögur og taka fram gamlar poppflíkur og nokkur góð dansspor. Væntanlega verður ferðin filmuð með það fyrir augum að gera heimildarmynd um ferðina. Einnig verður gefið út safn 60 laga frá ferlinum á 3 geisladiskum með 3 nýjum lögum. 

Tónleikarnir í Löngubúð eru í kvöld, fimmtudagskvöld, kl. 20:30.

Miðasala er á staðnum og kostar kr. 2.900 inn.

Langabúð

25.09.2014

Félagsvist í Löngubúð

Næstu þrjá föstudaga ætlum við að spila vist í Löngubúð.

Föstudaginn 26. september
Föstudaginn 3. október
Föstudaginn 10. október

Byrjað verður að spila 20:30 öll kvöld. Allir velkomnir.

Félag eldri borgara

24.09.2014

Vaxtasamningur Austurlands auglýsir eftir umsóknum

Umsóknarfrestur er til og með 5. október 2014 og umsóknir skilist rafrænt til Vaxtarsamnings Austurlands, vaxa@austurbru.is. Umsóknareyðublað er hægt að nálgast á heimasíðu Vaxtarsamningsins, austurbru.is, og eru umsækjendur einnig hvattir til að kynna sér samninginn og viðauka hans á sömu heimasíðu, en úthlutun fer fram skv. ákvæðum samningsins frá 2010-2013 og viðaukum.

Verkefnastjóri Vaxtarsamnings verður með viðveru á Seyðisfirði og Egilsstöðum fimmtudaginn 25. september og á Breiðdalsvík og í Fjarðabyggð miðvikudaginn 1. október. Tímapantanir í síma 470-3851 fyrir 24. maí (Seyðisfjörður og Egilsstaðir) og 30. september (Breiðdalsvík og Fjarðabyggð).

Nánari upplýsingar og ráðgjöf veitir Hrund Snorradóttir hjá Austurbrú, netfang: vaxa@austurbru.is eða í síma 470-3851.

 

 

 

22.09.2014

Cittaslow sunnudagur í Djúpavogshreppi

Sunnudaginn 28. september verður í annað sinn haldinn Cittaslow sunnudagur í Djúpavogshreppi í samstarfi við Kvenfélagið Vöku.

Cittaslow sunnudagur er haldinn ár hvert síðasta sunnudag í september í öllum aðildarsveitarfélögum Cittaslow.

Markmiðið er að kynna staðbundna framleiðslu, menningu og/eða sögu. Að þessu sinni verður lögð áhersla á sauðkindina og afurðir hennar.

Dagskráin stendur frá kl. 14:00-16:00 í Löngubúð og hefst með því að sveitarstjóri kynnir Cittaslow og svarar spurningum.

Að því loknu verður gestum boðið að bragða á afurðum og kynnast handverki úr ull.

Öllum er velkomið að taka þátt. Áhugasömum er bent á að hafa samband við skrifstofu sveitarfélagsins eða formann kvenfélagsins, Bergþóru Birgisdóttur í síma 849-3439.

Sveitarstjóri

 

22.09.2014

Fjölskylduguðsþjónusta

Fjölskylduguðsþjónusta í Djúpavogskirkju sunnudaginn 21.sept. kl. 11.00.

Kirkjuskólastund fyrir yngri börnin, söngur, saga og Rebbi refur kemur í heimsókn og börnin fá límmiða og falleg bænaspjöld.

Börn sem ætla að vera með í TTT (Tíu Til Tólf ára) starfinu í vetur hvött til að koma. 

Væntanleg fermingarbörn boðin velkomin til fermingarstarfa.


Verum öll hjartanlega velkomin,
sóknarprestur.

19.09.2014

Stöðuskýrsla frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra 18. september

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra gaf út nýja stöðuskýrslu í gær vegna eldsumbrotanna í Holuhrauni.

Smellið hér til að skoða hana.

ÓB

19.09.2014

Zumba í Íþróttamiðstöðinni í vetur

Boðið verður upp á zumba í íþróttamiðstöðinni í vetur á eftirtöldum dögum:

Mánudagar, kl. 17:00
Fimmtudagar, kl. 18:00

Fyrsti tími verður mánudaginn 22. september.

ÍÞMD

18.09.2014

Frá Löngubúð

Athugið að félagsvistin sem auglýst var 19. september fellur niður vegna ónógrar þátttöku.

Félagsvistin byrjar því 26. september kl. 20:30 stundvíslega.

Starfsfólk Löngubúðar

18.09.2014

Spá um gasdreifingu

Á vef Veðurstofu Íslands er nú hægt að nálgast spá um gasdreifingu vegna eldgossins í Holuhrauni.

Þá er einnig búið að útbúa sérstakt skráningarform þar sem hægt er að skrá hvort vart hafi orðið við brennisteinslykt, hvar viðkomandi var staddur og hvort einhver líkamleg einkenni hafi fylgt.

Á vef Verðurstofunnar má líka sjá gagnvirt kort um líklega útbreiðslu gasmengunnar næstu tvo daga.

Við hvetjum fólk til að skoða vef Veðurstofu Íslands.

ÓB

17.09.2014

Stöðuskýrsla frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra

Þó seint sé þá birtum við hér stöðuskýrslu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra sem send var út 15. september. 

Engin stöðuskýrsla hefur verið send út síðan svo að þessi er enn í gildi.

Smellið hér til að skoða skýrsluna.

ÓB

17.09.2014

Allt á fullu í höfninni

Það er búið að vera mikið að gera í Djúpavogshöfn í september, landanir dag eftir dag utan þess að menn halda hvíldardaginn heilagan eins og lög gera ráð fyrir. Undirritaður leit við í dag þegar Sturla og Kristín lágu við bryggju og það er óhætt að segja að það sé "brjálað að gera" eins og einn orðaði það. Samtals var landað upp úr þessum tveimur bátum 450 körum, rétt um 130 tonnum.

Myndir má sjá með því að smella hér.

ÓB

17.09.2014

Landvörður

Halla Ólafsdóttir, landvörður, kom í heimsókn í Djúpavogsskóla í september. Hún hefur starfað sem landvörður við Herðubreiðarlindir en þar sem eldgos hófst í Holuhrauni var hún send þaðan burt. Hún kynnti Vatnajökulsþjóðgarð fyrir nemendum í 4. og 5. bekk. Þar var rætt um spendýr og fugla sem lifa í garðinum, einkenni þeirra og einnig um þjóðgarðinn sjálfann og einmitt um nafnið þjóð-garður, garður sem þjóðin á og við viljum að eigi um ókomna framtíð. Náttúruvernd og eldgos var nemendum ofarlega í huga í þessari heimsókn. Takk Halla fyrir að koma til okkar. Myndir fylgja þessari frétt.

LDB

Frá frumkvöðlasetrinu

Kynningarfundur á frumkvöðlasetrinu, sem opnar á Djúpavogi í október, verður haldinn í Löngubúð fimmtudaginn 18. september kl. 17:00.

Úrslitin úr nafnasamkeppninni verða kynnt sem og starfsemi setursins.

Heitt á könnunni, allir velkomnir.

Frumkvöðlasetrið á Djúpavogi

17.09.2014

Krakkabíó í Löngubúð

Krakkabíó verður í Löngubúð í dag kl. 17:00. 

Sjá nánar hér að neðan.

ÓB

 

 

 

 

 

 

17.09.2014

Velkomin á Teigarhorn á degi íslenskrar náttúru

Í tilefni af degi íslenskrar náttúru, þriðjudaginn 16. september, mun Brynja Davíðsdóttir, umhverfis- og náttúrufræðingur og landvörður að Teigarhorni, taka á móti gestum kl. 16:00 og sýna safn geislasteina á Teigarhorni auk þess að fræða gesti um fjölþætt starf landvarðar á hinu friðlýsta svæði. Í framhaldi verður farið í gönguferð þar sem fyrirhugaður göngustígur verður lagður um nærsvæðið og um leið sagt frá því helsta sem fyrir augu ber er varðar fjölbreyttar náttúru- og menningarminjar á Teigarhorni.

Íbúar og aðrir áhugasamir eru hér með eindregið hvattir til að heimsækja Teigarhorn á þessum degi og upplifa á fræðandi hátt eina af okkar helstu náttúruperlum á svæðinu.

ÓB

 

 

 

15.09.2014

Sólblómaleikskóli

Leikskólinn Bjarkatún er orðinn Sólblómaleikskóli.  Í því felst að við erum orðin fósturforeldrar stúlku sem heitir Carol Mwali.  Hún býr í SOS barnaþorpi í Sambíu og verður þriggja ára í nóvember.  Carol kom í SOS barnaþorpið eftir að hún missti foreldra sína og vann strax hug og hjörtu allra sem þar vinna.  Carol finnst gaman að heimsækja hin börnin í þorpinu en skemmtilegast finnst henni að sulla í vatni og leika sér í því.

Í SOS Barnaþorpunum fá munaðarlaus og yfirgefin börn nýt heimilli, nýja foreldra og systkini.  Á hverju heimili býr ein SOS fjölskylda. Í hverri fjölskyldu eru þrjú til tíu börn með SOS foreldrum sínum, yfirleitt SOS móður en stundum líika SOS föður.  Barnið elst uppmeð SOS systkinum sínum.  Blóðsystkini alast líka alltaf upp saman.

Hér í leikskólanum ætlum við að safna fyrir árgjaldinu hennar með því að biðja nemendur um að búa til fallega hluti sem við ætlum síðan að selja á uppskeruhátíð sem haldin verður seinna í vetur.  Börnin læra líka um SOS barnaþorpin, fá m.a. að kynnast fleiri börnum í gegnum þetta verkefni og siðum og venjum í öðrum löndum.  Einnig fjöllum við um fjölskylduna í víðum skilningi og margt fleira.

HDH

Fundargerð ferða- og menningarmálanefndar

Fundargerð ferða- og menningarmálanefndar frá 10. september er nú aðgengileg.

Hægt er að nálgast hana með því að smella hér.

15.09.2014

Ráðlögð viðbrögð vegna loftmengunar

Tilkynning til íbúa á Austfjörðum frá almannavarnanefnd í umdæmi lögreglustjórans á Eskifirði

Hætta er á SO2 gosmengun um allt Austurland (brennisteinstvíildi, brennisteinsdíoxíð) vegna eldgossins við norðanverðan Vatnajökul.

Þessi mengun er háð styrk gosmengunarinnar hverju sinni, vindátt og vindstyrk og getur verið varasöm, ef hún nær að mynda bláa eða grábláa móðu. SO2 getur valdið m.a. ertingu í öndunarfærum og augum.

Sem stendur eru loftgæðamælar á Reyðarfirði og Egilsstöðum.

Íbúar eru hvattir til að fylgjast með aðstæðum utandyra, fréttum og upplýsingaveitum á netinu. Ráðlögð viðbrögð við SO2 gosmengun:

 Börn og fólk sem er viðkvæmt fyrir, ætti að halda sig innandyra með lokaða glugga og slökkt á loftræstingu þar sem það á við.
 Heilbrigt fólk ætti ekki að vera í líkamlegri áreynslu utandyra.
 Hafa tiltæk lyf sem tekin eru að staðaldri við hjarta- eða lungnasjúkdómum.
 Áhrif SO2 gosmengunar eru svipuð á dýr og á menn.

Helstu upplýsingaveitur:
fjarðabyggd.is – upplýsingaveita fyrir íbúa (einnig á FB)
loftgaedi.is – loftgæðamælingar í rauntíma á tiltækum mælum
vedur.is – viðvaranir ef spár gefa til kynna háan SO2-styrk frá eldgosinu
ust.is – upplýsingasíða og ráðlögð viðbrögð við SO2 gosmengun (einnig á FB)
landlaeknir.is – tilkynningar vegna brennisteinsdíoxíðs (SO2a) á Austurlandi
mast.is – upplýsingar um áhrif gosmengunar á dýr
almannavarnir.is – tilkynningar frá Umhverfisstofnun og/eða heilbrigðisyfirvöldum 12.09.2014

Fylgjast má með mengun frá eldgosinu á vef Umhverfisstofnunar ásamt leiðbeiningum um viðbrögð (www.ust.is).

Smellið á myndina hér að neðan til að stækka hana.

 

12.09.2014

Nýjar fundargerðir

Búið er að gera nýjustu fundargerðir landbúnaðarnefndar, atvinnumálanefndar og hafnarnefndar aðgengilegar hér á vefsíðunni.

Smellið hér til að skoða þær.

12.09.2014

Sveitarstjórn: Fundargerð 11.09.2014

Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.

ÓB

12.09.2014

Zumba í Íþróttamiðstöðinni

Fyrsti Zumbatíminn í vetur verður miðvikudaginn 17. september kl. 18:00.

Allir velkomnir.

11.09.2014