Djúpivogur
A A

Fréttir

Mikið vatnsveður í Djúpavogshreppi

Það hefur rignt linnulaust í allan dag hér í Djúpavogshreppi eins og svosem víðar á landinu. Magnús Kristjánsson vatnsveitustjóri var á vaktinni í dag að venju og sendi okkur þessar myndir sem flestar eru teknar í Berufirði. Á þeim má sjá hversu mikil úrkoma hefur verið hér en því miður höfum við ekki nákvæmar tölur yfir hversu mikil úrkoman var þegar mest lét. Nú væri gott að eiga úrkomumæli.

Myndirnar má sjá með því að smella hér.

ÓB
Myndir: MK

31.08.2014

Tímatafla Neista

Ný tímatafla Neista leit dagsins ljós fyrir helgi og er hægt að skoða hana hér.

Öll börn frá elstu deild í leikskóla til 10.bekkjar eiga að vera komin með eintak af töflunni ásamt skráningarblaði sem skila þarf í grunnskólann mánudaginn 1.september milli kl 10:00 og 14:00. Jóhanna Reykjalín verður á staðnum ef þið hafið einhverjar spurningar.

Ef þið hafið ekki fengið skráningarblöð endilega sendið póst á neisti@djupivogur.is og við kippum því í liðinn.


30.08.2014

Nýr framkvæmdarstjóri og þjálfari

Nú á haustdögum tók við nýr framkvæmdarstjóri hjá Neista sem og þjálfari. Þjálfarinn ætti að vera öllum góðkunnugur en það er hann Rabbi (Rafn Heiðdal) djúpavogsbúi. Hann þjálfaði krakkana í sumar og hlökkum við til að starfa með honum áfram. 
Þjálfari heldur utan um íþróttastarf Neista og er í beinu samskiptum við foreldra. Hann sér einnig um opnunartíma félagsmiðstöðvarinnar Zion og skipuleggur starfsemi Neista í samstarfi við framkvæmdarstjóra og stjórn Neista.

Jóhanna Reykjalín er nýr framkvæmdarstjóri en hún starfar í góðu samstarfi við þjálfara og stjórn Neista sem og foreldra. 
Jóhanna sér um að halda utan um alla starfsemi Neista, sjá um skráningar á námskeið, er tengiliður við ÚÍA, KSÍ og Sundsamband Íslands. Fylgjast með starfsemi nefnda hjá Neista og sjá til þess að hver nefnd sinni sínu. Jóhanna sér einnig um að sækja um styrki ásamt því að skipuleggja starfsemi félagsmiðstöðvarinnar Zion.

Við bjóðum þessa kraftmiklu einstaklinga velkomna til starfa og reiknum við með skemmtilegum vetri undir þeirra leiðsögn.

30.08.2014

Teigarhorn - verndar- og stjórnunaráætlun í vinnslu

Fréttabréf um framvindu mála á Teigarhorni.

Íbúum Djúpavogshrepps og öðrum áhugasömum til kynningar og upprifjunar er meðfylgjandi efni komið hér á framfæri er varðar jörðina Teigarhorn.

Ljóst er að þær náttúru-og menningarminjar sem Teigarhorn hefur að geyma geta skapað svæðinu umtalsverð sóknarfæri til framtíðar á grunni þeirra verndarstefnu sem mörkuð hefur verið með friðlýsingu jarðarinnar sem fólkvangi. 

Markmið friðlýsingarinnar  í 2.gr. auglýsingar um fólkvanginn er svohljóðandi.
"Markmið með friðlýsingu jarðarinnar er að tryggja útivistarsvæði í förgru umhverfi þar sem gestum gefst tækifæri á að kynnast sérstakri náttúru svæðisins og sögu jarðarinnar Teigarhorns". 

Rétt er að geta þess að staða og framvinda mála á Teigarhorni hefur verið kynnt á íbúafundi og með fréttaefni á heimasíðunni okkar í kjölfar kaupa ríkisins á jörðinni. Til upprifjunar má sjá hér nánar um málið og aðdragenda þess http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/2326,  en í stuttu máli festi ríkissjóður Íslands kaup á Teigarhorni í byrjun síðasta árs að frumkvæði fulltrúa Djúpavogshrepps og fól  í framhaldi sveitarfélaginu umsjón og rekstur með jörðinni í samráði og með stuðningi viðkomandi stofnana, sjá nánar http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/2376 

Forsenda kaupa ríkisins á Teigarhorni var að jörðin yrði friðlýst sem fólkvangur svo verndargildi svæðisins og stjórnun innan þess yrði tryggð með markvissum hætti til framtíðar. Ljóst var frá upphafi að gefa þyrfti verkefninu bæði svigrúm og tíma meðan unnið væri að nánar áætlunargerð og skipulagi á svæðinu. 

Innan fólkvangsins er sem áður skilgreint friðlýst náttúruvætti þar sem viðkvæmar og verðmætar steindir er að finna.  Innan náttúruvættisins er því mikilvægt að skerpa á verndarstefnunni í þeirri vinnu sem framundan er ekki síst með tilliti til aukinnar umferðar ferðamanna. Komið hefur þegar í ljós að full ástæða er til að skerpa á verndarstefnu og ábyrgri umferðarstýringu á svæðinu til að sporna við frekari hættu á náttúruspjöllum sbr. atvik fyrir skemmstu þar sem óprúttnir aðilar voru staðnir að verki á verndarsvæðinu, sjá frétt um málið. http://www.visir.is/fjolskylda-stadin-ad-verki-vid-spellvirki/article/2014140629917. Þá hefur annað brot verið kært á síðustu dögum gagnvart skemmdarverkum á náttúruvættinu sem reynt var að vinna varðandi töku steinda af svæðinu. Það er því fyllsta ástæða til að vakta verndarsvæðið vel og bregðast við með viðeigandi hætti.

Um þessar mundir er unnið að gerð verndar- og stjórnunaráætlunar fyrir hinn friðlýsta fólkvang á Teigarhorni sem Umhverfisstofnun stendur að  sjá nánar http://www.ust.is/einstaklingar/nattura/verndaraaetlanir-i-vinnslu/ Þá er einnig unnið að breytingu á aðalskipulagi á svæðinu og deiliskipulagsvinna er hafinn. Í gær var haldinn stór vinnufundur hér á Djúpavogi með stjórn fólkvangsins, auk þess sem aðrir ráðgefandi aðilar voru kallaðir að borði til skrafs og ráðgerða. Sjá að öðru leyti meðfylgjandi myndir með frétt þessari. 

Í kjölfar kaupa ríkisins á jörðinni var skipuð stjórn til ráðgjafar um fólkvanginn á Teigarhorni og er sú stjórn skipuð einum fulltrúa Djúpavogshrepps, Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar og Þjóðminjasafnsins og vinnur nú stjórn að gerð verndar - og stjórnunaráætlunar fyrir Teigarhorn með starfsmanni Umhverfisstofnunar.  Jafnhliða gerð verndar og stjórnunaráætlunar fyrir fólkvanginn á Teigarhorni er undirbúningur hafinn af hálfu Djúpavogshrepps við gerð deiliskipulags á svæðinu en í þeim efnum hefur fengist styrkur frá framkvæmdasjóði ferðamannastaða gegn mótframlagi. Deiliskipulagsvinnan verður kynnt á lögboðin hátt eins og aðrar áætlanagerðir sem eru í vinnslu varðandi Teigarhorn, en ekki liggur fyrir hvenær þeirri vinnu við deiliskipulag verður lokið.  

Sú mikla aukning sem hefur orðið á ferðamannastraumi til Íslands á síðustu misserum og vegna mikils álags sem skapast hefur í kjölfarið á vinsælum ferðamannastöðum þá hefur aldrei verið mikilvægara en einmitt nú að vanda allan undirbúning, stefnumótun og skipulag um friðlýst svæði eins og á Teigarhorni sem hefur að geyma dýrmætar náttúru- og menningarminjar.  Langstærstur hluti erlendra ferðamanna vilja fyrst og síðast upplifa ósnortna íslenska náttúru en nokkuð mörg viðkvæm svæði liggja nú undir skemmdum hér á landi þar sem að ekki hefur verið unnið markvisst að undirbúningi og skipulagi til að taka á móti auknum fjölda ferðamanna.  Meðvitað verður Teigarhorn því ekki markaðsett af krafti fyrir ferðamenn fyrr en stefnumótun og skipulag hefur verið unnið fyrir svæðið og skilvirkri umferðarstýringu verður komið á t.d. með merktum gangstígum og gönguleiðum. Þegar áætlanagerð verður lokið á Teigarhorni verða sett upp í kjölfarið viðeigandi skilti til upplýsingar um fólkvanginn og verndargildi svæðisins ásamt því markverðasta sem jörðin hefur að geyma er varðar náttúru- og menningarminjar.  

Í verndar- og stjórnunaráætlunum friðlýstra svæða á vef Umhverfisstofnunar er fjallað um nauðsynlegar verndaraðgerðir, landvörslu og landnýtingu, s.s. aðgengi ferðamanna að svæðinu, stígagerð og uppbyggingu þjónustumannvirkja. 

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd skal Umhverfisstofnun hafa umsjón með gerð verndaráætlana fyrir náttúruverndarsvæði. Árið 2012 var gefin út skýrslan Stjórnun friðlýstra náttúruminja í umsjón Umhverfisstofnunar . Tilgangur skýrslunnar er að vera stjórntæki Umhverfisstofnunar varðandi verndun og nýtingu friðlýstra náttúruminja í umsjón stofnunarinnar og vera rammi fyrir gerð verndar- og stjórnunaráætlana og skilgreina verkfæri sem nota má við áætlanagerðina. 

Umhverfisstofnun vinnur nú að verndaráætlun fyrir nokkur svæði og gefst almenningi kostur á að fylgjast með vinnunni og koma á framfæri ábendingum og athugasemdum.

http://ust.is/einstaklingar/nattura/verndaraaetlanir-i-vinnslu/teigarhorn/

http://ust.is/einstaklingar/nattura/fridlyst-svaedi/austurland/teigarhorn/

 

Sjá að öðru leyti nokkrar myndir af vettvangi fundar í gær og af ferð um nærsvæðið þar sem spáð var og spekulerað í aðgengi við fjörur og göngustígum um svæðið. Læt fleiri myndir fylgja með teknar á öðrum tíma.

                                                                                          Andrés Skúlason
                                                                                                                 

 

 

 

 Stjórn fólkvangsins og aðrir þáttakendur í fundinum á Djúpavogi í gær

 

 

 

 

 

 

30.08.2014

Starfsmann vantar í leikskólann

Leikskólakennara vantar í leikskólann frá 1. september 2014 - 31. maí 2015.  Um er að ræða 87,5% eða 75% starfshlutfall, vinnutími frá 8:00 - 15:00 eða 9:00 - 15:00, á KRÍUDEILD

Æskilegt er að umsækjendur hafi ekki bein tengsl við barn á deildinni.

Áhugasamir hafi samband við skólastjóra á netfangið skolastjori@djupivogur.is eða í síma 899-6913.

Laun skv. kjarasamningum. Sambands íslenskra sveitarfélaga og KÍ / Afls stéttarfélags.

Viðkomandi þarf helst að geta hafið störf 1. september.

Skólastjóri

Prins Póló á toppnum

Svavar Pétur Eysteinsson, bóndi á Karlsstöðum í Berufirði, bulsusali og tónlistarmaður með meiru - betur þekktur sem Prins Póló - situr á toppi vinsældarlista Rásar 2 með lagið París norðursins úr samnefndri kvikmynd.

Lagið hefur notið gríðarlegra vinsælda síðustu vikur, enda gríðarlega grípandi og skemmtilegt.

París norðursins, kvikmynd eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson, verður frumsýnd þann 5. september hér á landi og sér Prins Póló um alla tónlist í myndinni.

Við óskum Svavari til hamingju með topplagið.

Þeir sem vilja geta að sjálfsögðu farið inn á www.ruv.is/topp30 og gefið laginu atkvæði. Nýr topplisti verður birtur næstkomandi laugardag og verður fróðlegt að sjá hvort Prins Póló haldi toppsætinu.

Tittillagið má heyra hér að neðan.

Facebooksíða Prins póló
Facebooksíða París norðursins

ÓB

 

28.08.2014

Skólabyrjun

Kæru nemendur og forráðamenn

 

Nú líður að því að skóli hefjist að nýju að afloknu sumarfríi.  Vil ég bjóða ykkur öll hjartanlega velkomin til starfa.

 

Djúpavogsskóli hefst föstudaginn 29. ágúst og mánudaginn 1. september með opnu húsi:

 

  • Nemendur 1. bekkjar koma föstudaginn 29. ágúst  klukkan 10:00.  Foreldrar og nemendur hitta umsjónarkennara sem gengur með þeim um skólann og sýnir þeim húsakynni.  Að því loknu verður fundur í bekkjarstofu þar sem farið verður yfir stundaskrá, bækur og ýmis hagnýt atriði.
  • Nemendur 2.-10. bekkjar koma mánudaginn 1. september milli 10:00 og 14:00, þegar þeim hentar.  Nemendur og forráðamenn hitta umsjónarkennara, ásamt öðru starfsfólki skólans, fá afhentar stundatöflur, bækur o.fl. 
  • Boðið verður upp á kaffi og djús.

 

Kennsla hefst skv. stundaskrá, þriðjudaginn 2. september, kl. 8:05.

Athugið, haustþing kennara á austurlandi verður 5. september og því eru nemendur í fríi þann dag.

Vakin er athygli á því að innkaupalistar hafa verið uppfærðir og þá má finna á heimasíðu skólans.  Einnig er vakin athygli á því að beiðni um leyfi þarf að sækja um til umsjónarkennara og má finna eyðublað á heimasíðu skólans.  Einnig er hægt að fá þau í skólanum.

Ýmis eyðublöð hafa verið send heim sem þið eruð beðin um að fylla út og skila í síðasta lagi 1. september, þegar þið mætið á „opna húsið“.  Um er að ræða ýmis nauðsynleg atriði, s.s. skráningu í mötuneyti, viðveru, upplýsingar frá tónskólanum, reglur tónskólans o.fl.

 

Mötuneyti hefst þriðjudaginn 2. september.

 

Umsjónarkennarar í vetur verða sem hér segir:

Jóhanna Reykjalín verður með 1. bekk

Ingibjörg Bára Gunnlaugsdóttir með 2. og 3. bekk

Þorbjörg Sandholt með 4. og 5. bekk

Sigríður Ósk Atladóttir með 6. og 7. bekk

Lilja Dögg Björgvinsdóttir með 8., 9. og 10. bekk

 

Við hér í grunnskólanum hlökkum til að starfa með ykkur í vetur og vonumst til að samstarfið verði ánægjulegt og árangursríkt eins og það hefur verið fram að þessu.

 

Bestu kveðjur,

f.h. starfsfólks grunnskólans,

Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir,

skólastjóri

Frá Ferðafélagi Djúpavogs: Kerlingarfjallaferð aflýst

Vegna óhagstæðs veðurútlits hefur verið ákveðið að hætta við ferð á vegum Ferðafélags Djúpavogs í Kerlingafjöll um næstu helgi. 30. - 31. ágúst.

Við reynum aftur að ári ef áhugi verður þá fyrir ferðinni.

Ferðafélag Djúpavogs

28.08.2014

Glæsilegur nýr bátur í flotann

Nú á dögunum bættist við nýr bátur í smábataflotann í Djúpavogshöfn. Báturinn heitir Amanda SU-47, eigandi er Þráinn Sigurðsson. Báturinn er af gerðinni Cleopatra 31, 8.44 brúttótonn og 9.57 metrar. Fyrir á Þráinn bátana Emilý og Birnu.

Þessi glæsilegi bátur er flott viðbót við flotann og ljóst að enginn uppgjafartónn er í smábátasjómönnum á Djúpavogi þrátt fyrir hræringar í sjávarútvegsmálum síðustu mánuði.

Við óskum Þráni innilega til hamingju með nýja bátinn.

ÓB

 

 

 

27.08.2014

Skrifstofa Djúpavogshrepps lokuð

Skrifstofa Djúpavogshrepps verður lokuð fimmtudaginn 28. ágúst og föstudaginn 29. ágúst.

Sveitarstjóri

27.08.2014

Starf ferða- og menningarmálafulltrúa

Djúpavogshreppur auglýsir starf ferða- og menningarmálafulltrúa laust til umsóknar.

Starfssvið: 
Að veita ráðgjöf og upplýsingar varðandi ferða- og menningarmál í sveitarfélaginu.
Að stuðla að öflugu menningarlífi í samvinnu við einkaaðila, félagasamtök og opinberar stofnanir.

Menntunar og hæfniskröfur: 
Háskólamenntun sem nýtist í starfi. Færni í mannlegum samskiptum og upplýsingagjöf til fjölmiðla. 
Áhersla er lögð á frumkvæði, öguð og sjálfstæð vinnubrögð auk góðrar íslensku-, ensku- og tölvukunnátta.

Launakjör: 
Um laun og kjör fer eftir samningum viðkomandi stéttarfélags og Samninganefndar sveitarfélaga.

Gert er ráð fyrir að nýr ferða- og menningarmálafulltrúi taki til starfa 1. október. 
Umsóknarfrestur er til 15. september.

Frekari upplýsingar veitir sveitarstjóri 478-8288 / sveitarstjori@djupivogur.is

27.08.2014

Djúpavogshreppur auglýsir: Starf ferða- og menningarmálafulltrúa laust...

Djúpavogshreppur auglýsir starf ferða- og menningarmálafulltrúa laust til umsóknar.

Starfssvið:
Að veita ráðgjöf og upplýsingar varðandi ferða- og menningarmál í sveitarfélaginu.
Að stuðla að öflugu menningarlífi í samvinnu við einkaaðila, félagasamtök og opinberar stofnanir.

Menntunar og hæfniskröfur:
Háskólamenntun sem nýtist í starfi. Færni í mannlegum samskiptum og upplýsingagjöf til fjölmiðla.
Áhersla er lögð á frumkvæði, öguð og sjálfstæð vinnubrögð auk góðrar íslensku-, ensku- og tölvukunnátta.

Launakjör:
Um laun og kjör fer eftir samningum viðkomandi stéttarfélags og Samninganefndar sveitarfélaga.

Gert er ráð fyrir að nýr ferða- og menningarmálafulltrúi taki til starfa 1. október.
Umsóknarfrestur er til 15. september.

Frekari upplýsingar veitir sveitarstjóri 478-8288 / sveitarstjori@djupivogur.is

 

27.08.2014

Ferðafélag Djúpavogs - Jeppaferð um Kerlingarfjallahringinn stóra

Jeppaferð - 30.- 31. ágúst 2014
Kerlingarfjallahringurinn stóri.

Mæting: Við Hjálparfoss Þjórsárdal 30.08.2014

Fararstjóri: Jón Halldór Gunnarsson.
Ferðagjald: 500 kr. sem rennur í Skálasjóð Ferðafélags Djúpavogs.
Næstu eldsneytisstöðvar við upphaf ferðar er Árnes, Hrauneyjar og Hvolsvöllur.
Hægt er að fá gistingu í Kerlingarfjöllum að kvöldi 30. ágúst í svefnpokaplássi í stóra skála. Verð 5.200 kr.
Nýpa, A-hús fyrir tvo með sturtu, uppábúið með morgunmat verð 30.400 kr.
Tjaldstæði, verð 1700 kr. á manninn í bíl eða tjaldi.
Samkvæmt Hervöru sem tekur við pöntunum er nóg af plássi en þeir sem vilja panta geta hringt í hana í síma 892-9592 eða tölvupósti: info@kerlingafjoll.is
http://www.nat.is/travelguide/kerlingarfjoll_halendismidst.htm
Það er aðstaða í Kerlingarfjöllum fyrir allt að tuttugu manns að borða samann. Hver sér um mat fyrir sig, en reyndar er hægt að fá keyptan mat í Kerlingafjöllum.


Dagur 1. Hjálparfoss – Kerlingarfjöll, 115 km.
Þátttakendur safnast saman á eigin bílum við Hjálparfoss laugardaginn 30. ágúst ekki seinna en kl 10:00.
Þaðan er haldið inn Þjórsárdal framhjá Stöng, Gjánni og að Háafossi. Því næst er haldið eftir línuvegi um Hrunamannaafrétt frá Háafossi í austri að Gullfossi í vestri, með möguleika á gönguferðum að Fögrutorfu í Stóru-Laxá og Gullfossi að austan.
Síðan er haldið sem leið liggur í Svínárnes, Miklumýrar, Hænsnaver og Leppistungur. Þar er Kerlingará með sínu djúpa gljúfri og hægt að ganga að Kerlingarfossi. Þaðan er haldið sem leið liggur norður fyrir Kerlingarfjöll að Ásgarði þar sem gist verður. Vonast eftir að hitta þar fyrrum Djúpavogsbúa sem er tilbúin að fara með hópinn í gönguferð um Hveragilið frá bílastæði.

Dagur 2: Kerlingarfjöll – Hjálparfoss, 116 km.

Kl: 10:00: Haldið af stað frá Ásgarði í Kerlingarfjöllum áleiðis í Setur skála 4X4 klúbbsins milli Kerlingarfjalla og Hofsjökuls – Fjórðungssands – Norðurleiti – Bjarnarlækjarbotna – Gljúfurleit – Sultartangi – Hjálparfoss.
Ýmsir skoðunarverðir fossar eru á leiðinni Kjálkaversfoss – Dynkur – slæðufoss í Hölkná og Gljúfurleitarfoss. Tími og veður ásamt áhuga ræður gönguferðum til skoðunar á þessum fallegu fossum.

Fyrir hönd Ferðafélags Djúpavogs
Jón Halldór Gunnarsson farsími: 892 7266 – tölvupóstur: jhg66@simnet.is

25.08.2014

Markaðsdagur á Djúpavogi

Laugardaginn 23.ágúst verður settur upp markaður í nágrenni Bakkabúðar og Upplýsingamiðstöðvarinnar. Markaðurinn hefst klukkan 11:00 og stendur fram eftir degi. Við vonumst til að sjá sem flesta! Komið og gerið góð kaup! Fyrstur kemur - fyrstur fær!

Athugið:
Öllum er velkomið að vera með bás en hver og einn sér um sig sjálfur. Þeir sem hafa áhuga á að vera með skulu mæta í Bakkabúð uppúr kl 10:00 að morgni laugardagsins.

Íris Birgisdóttir

22.08.2014

Tæplega 3000 manns á Rúllandi Snjóbolta/5 á Djúpavogi

Hátt í þrjú þúsund manns sóttu alþjóðlegu myndlistarsýninguna „Rúllandi Snjóbolti/5, Djúpivogur “ en henni lauk föstudaginn 15. ágúst síðastliðinn. Aðsóknin fór fram úr öllum vonum skipuleggjenda.

Sýningin, sem opnuð var 12. júlí sl. af forseta Íslands að viðstöddu fjölmenni, var skipulögð af Chinese European Art Center (CEAC) og Djúpavogshrepp og samanstóð af verkum 33 listamanna frá Kína, Evrópu og Íslandi. Eitt af markmiðum CEAC er að stuðla að samskiptum á milli Kína og Vesturlanda. Var þetta í fyrsta skipti sem CEAC skipulagði sýningu utan Kína.

CEAC og Djúpavogshreppur buðu einnig tveimur listamönnum að dvelja á Djúpavogi sem gestalistamenn. Fyrir valinu urðu hollensku listakonurnar Marjan Laaper og Scarlett Hooft Graafland sem dvöldu á Djúpavogi í tvo mánuði og unnu að listsköpun sinni.

Aðstandendur „Rúllandi Snjóbolta/5, Djúpivogur “ vilja þakka þeim sem komu að sýningunni, þeim listamönnum sem tóku þátt og einnig þeim er sóttu sýninguna heim. Þegar er farið að leggja drög að næsta rúllandi snjóbolta.

Nánari upplýsingar veitir Alfa Freysdóttir (ceac@djupivogur.is) verkefnastjóri í síma 894 8228.
www.facebook.com/rullandisnjobolti5
www.ceac99.org

Fréttatilkynning frá Rúllandi snjóbolta

21.08.2014

Tvo starfsmenn vantar við leikskólann

Tvo leikskólakennara vantar í leikskólann frá 1. september 2014 - 31. maí 2015.  Um er að ræða 87,5% starfshlutfall, vinnutími frá 8:00 - 15:00.  Áhugasamir hafi samband við skólastjóra á netfangiðskolastjori@djupivogur.is eða í síma 899-6913.

Laun skv. kjarasamningum. Sambands íslenskra sveitarfélaga og KÍ / Afls stéttarfélags.

Umsóknarfrestur er t.o.m. 22. ágúst.

Skólastjóri

21.08.2014

Bókavörður við Héraðsbókasafn Djúpavogs

Djúpavogshreppur auglýsir eftir bókaverði við Héraðsbókasafn Djúpavogs. Um er að ræða 20% stöðu.

Starfið er laust frá og með 1. september 2014.

Um laun og kjör fer eftir samningum viðkomandi stéttarfélags og Samninganefndar sveitarfélaga.

Umsóknir með uppl. um menntun, reynslu, fyrri störf og annað, er að gagni má koma, berist til skrifstofu Djúpavogshrepps eigi síðar en á hádegi föstudaginn 29. ágúst 2014.

Eyðublöð er hægt að nálgast á skrifstofu Djúpavogshrepps og á heimasíðu sveitarfélagsins.

Nánari upplýsingar veitir sveitarstjóri í síma 478-8288.

Djúpavogi 21. ágúst 2014;
Sveitarstjóri

 

21.08.2014

Djúpavogshreppur auglýsir: Staða bókavarðar laus til umsóknar

Djúpavogshreppur auglýsir eftir bókaverði við Héraðsbókasafn Djúpavogs. Um er að ræða 20% stöðu.

Starfið er laust frá og með 1. september 2014.

Um laun og kjör fer eftir samningum viðkomandi stéttarfélags og Samninganefndar sveitarfélaga.

Umsóknir með uppl. um menntun, reynslu, fyrri störf og annað, er að gagni má koma, berist til skrifstofu Djúpavogshrepps eigi síðar en á hádegi föstudaginn 29. ágúst 2014.

Eyðublöð er hægt að nálgast á skrifstofu Djúpavogshrepps og á heimasíðu sveitarfélagsins.

Nánari upplýsingar veitir sveitarstjóri í síma 478-8288.

Djúpavogi 21. ágúst 2014;
Sveitarstjóri

21.08.2014

Nafnasamkeppni - Frumkvöðlasetur Djúpavogi

Efnt er til nafnasamkeppni á nýja frumkvöðlasetrinu sem opnar  á Djúpavogi í byrjun október næstkomandi. Setrið verður  í húsakynnum Afls í Sambúð, Mörk 12.

Frumkvöðlasetrið er samstarfsverkefni Austurbrúar, Afls starfsgreinafélags og Djúpavogshrepps. Tilgangur setursins er að ýta undir sprotastarfsemi og standa við bakið á einyrkjum, og skapa þannig ný atvinnutækifæri á Djúpavogi og víðar í landshlutanum.

Nafnatillögur má senda í tölvupósti á frumkvodlasetur@djupivogur.is eða skila á skrifstofu Djúpavogshrepps, Bakka 1.

                     Nánari upplýsingar gefur Alfa Freysdóttir verkefnisstjóri sími 8948228

 

 

 

 

 

 

 

14.08.2014

Fótboltaæfing með Sindra

Í dag, 14. ágúst, kl. 16 - 17:30 verður fótboltaæfing á Neistavellinum. Allir krakkar sem hafa áhuga á að æfa og keppa í fótbolta eru hvattir til að mæta. Rabbi og Sævar, þjálfari hjá Sindra, sjá um æfinguna og drengir í 6. og 7. flokk Sindra æfa með okkar fólki. Við hvetjum stelpur og stráka í 8. - 4. flokk að mæta á skemmtilega æfingu. 

Stjórn Neista.

14.08.2014

Rúllandi Snjóbolti/5 Djúpivogur og Langabúð kynna

Hin hollenska Scarlett Hooft Graafland sem er þátttakandi í Rúllandi Snjóbolti/5 Djúpivogur mun halda erindi og kynna listsköpun sína fyrir áhugasama í Löngubúð miðvikudaginn 13. ágúst kl 20. Scarlett hefur dvalið á Djúpavogi í sumar sem gestalistamaður CEAC.

                                                                                                                                           Allir velkomnir !

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

11.08.2014

Kennara vantar við grunnskólann

Kennara vantar við grunnskólann skólaárið 2014-2015. Um 80-90% starf er að ræða, kennslu í ensku og dönsku á mið- og unglingastigi auk samfélagsfræðikennslu á unglingastigi.

Umsóknareyðublað má finna á heimasíðu grunnskólans, http://djupivogur.is/grunnskoli/

Umsóknum skal skila í tölvupósti á netfangið skolastjori@djupivogur.is.  Umsóknarfrestur er til 18. ágúst.   Frekari upplýsingar veitir skólastjóri í síma 899-6913.  Laun eru skv. kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands.

Halldóra Dröfn, skólastjóri Djúpavogsskóla

Myndir frá Bulsudiskói á Karlsstöðum

Heimilisfólkið á Karlsstöðum í Berufirði boðaði til svokallaðs Bulsudiskós með stuttum fyrirvara rétt fyrir verslunarmannahelgina. Þar skyldu grillaðar hinar landsfrægu bulsur og spiluð lifandi músík. Þrátt fyrir stuttan fyrirvara lögðu hátt í 100 manns leið sína á Karlsstaði í blíðskaparveðri laugardaginn 2. ágúst. Eftir að bulsurnur höfðu runnið ljúflega ofan í gestina tóku við tónleikar í gömlu hlöðunni. Þar steig sjálfur Prins Póló á svið og á eftir honum kom Hljómsveitin Eva sem dvalið hafði um hríð á Karlsstöðum við upptökur á fyrstu plötu þessa skemmtilega dúetts.

Stórskemmtileg hugmynd hjá þeim Berglindi og Svavari og hver veit nema þetta sé upphafið að árlegri Verslunarmannahelgarhátíð í Djúpavogshreppi?

Myndir frá Bulsudiskói má sjá með því að smella hér.

ÓB

08.08.2014

Bæjarlífið júlí 2014

Það er víst óhætt að segja að bæjarlífspakki júlímánaðar sé stútfullur.

Smellið hér til að skoða hann.

ÓB

07.08.2014

Laust starf í Tryggvabúð

Djúpavogshreppur auglýsir 100 % starf í Tryggvabúð frá 1. september. Einnig er möguleiki á tveimur 50 % störfum. Um er að ræða framtíðarstarf/störf í félagsmiðstöð eldri borgara. 

Félagsmiðstöð eldri borgara í Tryggvabúð er staðsett að Markarlandi 2, Djúpavogi og er opin öllum þeim sem þangað vilja koma. Þar fer fram fjölbreytt félags- og tómstundastarf auk dagþjónustu fyrir eldri borgara

Helstu verkefni og ábyrgðarsvið starfsmanns
 
• Umsjón með félagsstarfi í samvinnu við stjórn Félags eldri borgara í Djúpavogshreppi, félags- og tómstundanefnd og sveitarstjóra
• Matseld í hádegi, morgun- og síðdegiskaffi, þrif
• Viðkomandi veitir einstaklingum persónulega og einstaklingsmiðaða þjónustu

Við leitum að einstaklingi með
• þekkingu og reynslu af því að starfa með fólki
• skipulagshæfileika
• lipurð í mannlegum samskiptum
• hæfni til að sýna frumkvæði í starfi
• íslenskukunnáttu

Launakjör eru skv. kjarasamningi sveitarfélaga við viðkomandi félög. 
Umsóknir skulu berast á skrifstofu sveitarfélagsins Bakka 1, 765 Djúpavogi, fyrir 16. ágúst n.k. 
Nánari upplýsingar veitir sveitarstjóri s. 478 8288 sveitarstjori@djupivogur.is

01.08.2014

Djúpavogshreppur auglýsir: Laust starf í Tryggvabúð

Djúpavogshreppur auglýsir 100 % starf í Tryggvabúð frá 1. september. Einnig er möguleiki á tveimur 50 % störfum. Um er að ræða framtíðarstarf/störf í félagsmiðstöð eldri borgara. 

Félagsmiðstöð eldri borgara í Tryggvabúð er staðsett að Markarlandi 2, Djúpavogi og er opin öllum þeim sem þangað vilja koma. Þar fer fram fjölbreytt félags- og tómstundastarf auk dagþjónustu fyrir eldri borgara

Helstu verkefni og ábyrgðarsvið starfsmanns

• Umsjón með félagsstarfi í samvinnu við stjórn Félags eldri borgara í Djúpavogshreppi, félags- og tómstundanefnd og sveitarstjóra
• Matseld í hádegi, morgun- og síðdegiskaffi, þrif
• Viðkomandi veitir einstaklingum persónulega og einstaklingsmiðaða þjónustu

Við leitum að einstaklingi með
• þekkingu og reynslu af því að starfa með fólki
• skipulagshæfileika
• lipurð í mannlegum samskiptum
• hæfni til að sýna frumkvæði í starfi
• íslenskukunnáttu

Launakjör eru skv. kjarasamningi sveitarfélaga við viðkomandi félög.
Umsóknir skulu berast á skrifstofu sveitarfélagsins Bakka 1, 765 Djúpavogi, fyrir 16. ágúst n.k.
Nánari upplýsingar veitir sveitarstjóri s. 843-9889 sveitarstjori@djupivogur.is

01.08.2014