Djúpivogur
A A

Fréttir

Musical Juggling í Löngubúð

Félagarnir Kyle Driggs og Jay Gilligan munu sínar juggling listir sínar í Löngubúð á morgun, fimmtudaginn 26. júní.

Eftir því sem undirritaður veit best þá eigum við ekkert íslenskt orð yfir þessa merku list, en hún gengur út á að halda hlutum á lofti, boltum, hringjum, keilum o.s.frv.

Þessa sýningu kalla þeir Music Juggling og hvetjum við alla, unga sem aldna, til að sjá þessa snillinga leika listir sínar í Löngubúð, en aðgangur er ókeypis.

Hér að neðan má sjá auglýsinguna og einnig Youtube myndbönd af þeim félögum.

ÓB

 

 

 

 

25.06.2014

Nýr Djúpavogsbæklingur kominn út

Nýlega gaf Djúpavogshreppur út nýjan þjónustubækling. Bæklingurinn er á sex tungumálum og er sérstaklega veglegur.

Umbrot og hönnun var í höndum Hildar Bjarkar Þorsteinsdóttur, sem búsett er á Djúpavogi.

Bæklingurinn liggur frammi á helstu þjónustustöðum sveitarfélagsins en stafrænt eintak af honum má nálgast með því að smella hér.

ÓB

24.06.2014

Rúllandi snjóbolti-5, Djúpivogur

Alþjóðlega myndlistarsýningin „Rúllandi snjóbolti-5, Djúpivogur“ verður opnuð laugardaginn 12. júlí nk. kl. 15:00 í Bræðslunni á Djúpavogi. Alls taka 33 listamenn frá Kína, Evrópu og Íslandi þátt í sýningunni sem er skipulögð af Chinese European Art Center (CEAC).

Sýningin er samvinnuverkefni Djúpavogshrepps og CEAC. Þessi kínversk-evrópska menningarmiðstöð er löngu orðin þekkt í kínverska og evrópska listaheiminum og hefur staðið fyrir mörgum, stórum sýningum í Kína. Ísland er fyrsta landið utan Kína þar sem stofnunin stendur fyrir sýningu.

Flestir listamannana sem þátt taka í sýningunni eru alþjóðlegir. Nú í sumar 2014 munu Hollensku gestalistamennirnir Marjan Laaper og Scarlett Hooft Graafland dvelja á staðnum og vinna að list sinni fyrir sýninguna ,,Rúllandi Snjóbolti-5“ með þrjátíu og þremur listamönnum frá Kína og Evrópu. Þátttakendur fyrir Íslands hönd eru Erró, Ragnar Kjartansson Ragna Róbertsdóttir, Rúrí, Hrafnkell Sigurðsson, Þór Vigfússon, Sara Riel, Árni Guðmundsson, Kristján Guðmundsson og Sigurður Guðmundsson. 

Við hvetjum ykkur til að fylgjast með á Facebooksíðu sýningarinnar. Þar má m.a. sjá myndir af undirbúningi sýningarrýmisins í bræðslunni.

ÓB

24.06.2014

Frá bókasafninu

Þriðjudaginn 24. júní er síðasti opnunardagur bókasafnsins fyrir sumarfrí.  Opið frá 18:00 - 20:00.  Vil hvejta fólk endilega til að koma og skila bókum fyrir sumarfrí.  Minni á að útlánstími bóka er 30 dagar, eftir það reiknast dagsektir.

Bókasafnsvörður

Kvennahlaupið

Kvennahlaupið fór fram á Djúpavogi þann 14. júní sl. og var þátttakan mjög góð.  Í lok hlaupsins fengu allir sem tóku þátt verðlaunapening og drykk til að svala þorstanum.  ÞS

 

19.06.2014

Vegna hverfaskreytinga

Sveitarfélagið var glæsilega skreytt í tengslum við 17. júní. Um leið og íbúum er hrósað fyrir skreytingar er hér með mælst til þess að þær verði fjarlægðar með samstilltu átaki allra hverfa sunnudaginn 22. júní.

Sveitarstjóri

19.06.2014

Skógardagurinn 21. júní

Skógardagur leikskólans verður haldinn laugardaginn 21. júní.

Sjá auglýsingu hér.

Skólastjóri

Þríþrautarkeppninni Öxi 2014 aflýst

Undirbúningshópur um þríþrautarkeppnina Öxi 2014 hefur ákveðið að hætta við keppnina í ár. Ástæðan er meðal annars sú að á  keppnissvæðinu á  fjallveginum milli Öxi og Fossárdals er enn töluverður snjór og jarðvegur mjög blautur. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður í ár er það markmið þeirra sem staðið hafa að þríþrautarkeppninni Öxi að halda keppnina á næsta ári ef aðstæður leyfa.  Við þökkum öllum þeim sem sýnt hafa keppninni áhuga og vonandi sjáum við ykkur sem flest að ári.

ÓB

18.06.2014

17. júní 2014 - góð stemming og þátttaka

Þjóðhátíðardagurinn fór vel fram á Djúpavogi og var bærinn fallega skreyttur að venju og hverfin virk í þátttöku í þeim efnum. Þátttaka í sjálfum hátíðarhöldunum var sömuleiðis með allra besta móti og var margt til gamans gert að venju.

Safnast var saman við grunnskólann, þar var boðið upp á andlitsmálun og fleira. Þá var flott skrúðganga frá skólanum inn á íþróttavöll þar sem fjallkonan sem var Elísabet Ósk Einarsdóttir sem flutti ljóð með stakri prýði.

Á íþróttavellinum var farið í ýmsa leiki milli hverfa og tekist á í reipitogi og fleira. Þá var vísir að húsdýragarði þar líka sem að kryddaði mjög upplifun barnanna, en kálfur og kanínur voru meðal dýra sem komu frá þeim Hvannabrekkubændum og þá var tófuyrðlingur einnig þarna til sýnis í boði Didda og Lilju. Vatnsrennibraut var mjög vinsæl og tóku margir ungir sem eldri bunu niður Neistabrekkuna, á flughálum plastdúk sem komið hafði verið fyrir í brekkunni.

Þegar kom að afhendingu verðlauna hlutu einstök hús í hverfunum sérstök verðlaun, í gula hverfinu fengu þau Stebbi og Kristborg Ásta sérstök verðlaun, Stebbi og Nína fengu verðlaun fyrir sinar skreytingar fyrir appelsínugula hverfið og svo fékk Ingibjörg Stefánsdóttir verðlaun fyrir best skreytta húsið í bleika hverfinu.  

Í heildarstigakeppninni vann svo bleika hverfið sem best skreytta hverfið. Hátíðarhöldin fóru fram í blíðskaparveðri og frábært hve góð þátttaka var í öllu og greinilega góð samstaða með allt.  Að þessu sögðu er rétt að þakka stjórn Neista og öðrum þeim sem komu að því að gera þennan dag svo skemmtilegan kærlega fyrir skemmtilegt skipulag og dagskrá.

Myndir má sjá með því að smella hér.

 

AS 

17.06.2014

17. júní dagskrá 2014

Frá kl. 13 – 14 er hægt að fá andlitsmálun fyrir börnin við íþróttahúsið.

14:00 Skrúðganga frá íþróttahúsi að Blá.

Dagskrá í Blánni
• Fjallkonuávarp
• Hjólböruakstur – hver litur mætir með sína hjólböru
• Boðhlaup
o pokahlaup
o eggjahlaup
o makahlaup
• Skyrmötun
• Reiptog á milli hverfa
o 4 – 13 ára
o 14 – 93 ára
• Hjólaþraut
• Kubbur
• Fótbolti – Foreldrar á móti börnum
• Barnasöngur – fyrir börn sem vilja syngja fyrir okkur lag.
• Verðlaunaafhendingar
• Brekkusöngur
Á staðnum verður…
o Lítill húsdýragarður
o Fötur og skóflur
o Sápurennibraut
o Sjoppa sem sundráð sér um

Vonumst til að sjá sem flesta;
Stjórn Neista og aðrir áhugamenn

17.06.2014

Tombóla til styrktar gömlu kirkjunni

Þessar ungu dömur héldu tombólu í síðustu viku til styrktar gömlu kirkjunni. Þær komu síðan við hjá okkur í Geysi til að láta okkur vita hvernig til hefði tekist. Að þeirra sögn seldu þær fyrir fimm þúsund og eitthvað. Geri aðrir betur.

Þær sögðust hafa sett peninginn í söfnunarbaukinn í gömlu kirkjunni.

Glæsilega gert hjá þessum flott stelpum.

ÓB

 

 

 

 

 


Camilla Rósey og Stephanie Tara Gunnarsdætur og Luciana Fernandez Gomes

16.06.2014

Djúpavogshreppur auglýsir: Hreinsunarvika 2014

Almenn hreinsunarvika á Djúpavogi hefst mánudaginn 16. júní 2014. Eru bæði íbúar og forsvarsmenn fyrirtækja hér með hvattir til að hreinsa lóðir sínar og lendur og koma hefðbundnum garða- og lóðaúrgangi að vegkanti, þar sem hann verður sóttur af starfsmönnum sveitarfélagsins og fjarlægður.

Fyrsta ferð hreinsunartækis verður mánudaginn 16. júní, önnur ferð miðvikudaginn 18. júní og sú síðasta föstudaginn 20. júní.

Forstöðumaður þjónustumiðstöðvar

13.06.2014

Bæjarlífið maí 2014

Í maísafni bæjarlífsins má sjá myndir frá 1. maí, vinnudegi Neista, kjördegi á Djúpavogi og mörgu fleiru.

Smellið hér til að skoða myndirnar.

ÓB

12.06.2014

Heimildamynd um Vilmund í Hvarfi

Heimildamynd um Designs from Nowhere verður sýnd á heimildarmyndahátíðinni Skjaldborg um helgina. Myndin heitir The more you know. The more you know og fjallar hún um samskipti hönnuðarins Max Lamb og Vilmundar Þorgrímssonar (Villa í Hvarfi) við Djúpavog haustið 2013.

Max dvaldi á Austurlandi í rúma viku hjá Vilmundi sem þátttakandi í hönnunarverkefninu Designs from Nowhere en meginmarkmið verkefnisins er að rannsaka og sýna fram á möguleika í sérhæfðri smáframleiðslu á hönnunarvöru á Austurlandi. Verkefnið hefur verið styrkt af Vaxtarsamningi og Menningarráði Austurlands og notið ráðgjafar og stuðnings frá starfsfólki Austurbrúar.

Myndinni lýsir Karna sem stuttri heimildamynd með „hægu tempói og afslappaðri frásögn Max Lambs“ þar sem upplifun hönnuðarins á Austurlandi er í aðalhlutverki. „Okkur langaði að heyra og sýna raunverulega upplifun hönnuðarins á svæðinu,“ segir Karna Sigurðardóttir sem býr til myndina ásamt sambýlismanni sínum Viktor Sebastian - hann sá um myndatöku og hún um framleiðslu og leikstjórn.

„Samskipti Max og Villa voru frá upphafi mjög falleg og þróuðust yfir í sérstaka vináttu. Samveran virðist hafa haft þau áhrif að þeir fóru báðir í vissa sjálfskoðun. Óneitanlega er boðskapur í myndinni um að við sýnum mismunandi lifnaðarháttum virðingu þó við hræðumst oft það sem virðist framandi. En í framandleikanum finnast oft gimsteinar,“ segir hún.

Myndin er núna að ferðast um kvikmyndahátíðir og svo verður hún sýnd á DFN sýningunni í London í haust á London Design Festival). Sjá má stutt sýnishorn úr myndinni með því að smella hér.

Hægt er að kynna sér Designs from Nowhere betur á heimasíðu verkefnisins.

Fréttatilkynning af Austurbru.is

 


Karna Sigurðardóttir

11.06.2014

Hreindýrin

Lengst af vetri og allt fram á þennan dag hefur stór hreindýrahjörð haldið sig hér við bæjardyrnar hjá okkur á Djúpavogi og einhver dýr eru hér enn eftir í nágrenninu.  Dýrin virðast þó vera að færa sig inn til dala í ríkara mæli og nú í dag mátti sjá nokkuð stóra hjörð við rætur Búlandstinds og má glögglega sjá að nokkur þeirra eru komin með býsna stór horn.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sveitarstjórn: Fundargerð 06.06.2014

Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.

ÓB

10.06.2014

Ryðönd

Síðustu tvo daga hefur mjög sjaldgæfur flækingur haldið sig hér við leirurnar við Djúpavogsflugvöll, en þar er á ferð svokölluð ryðönd sem er skyld brandönd, enda hefur ryðöndin haldið sig annað veifið þarna á svæðinu í nálægð við brandendur sem þar eru. Sjón er sögu ríkari og hér fylgja með nokkrar myndir.  Teknar í morgun. AS

 

 

 

 

 

 

Frá Ferðafélagi Djúpavogs

Ferðafélag Djúpavogs stendur fyrir ferð í Lón mánudaginn 9. júní 2014, annan í Hvítasunnu.

Farið verður frá Við Voginn kl 10:00

Upplýsingar Kristján Karlsson 892-5887

Takið með nesti, góða skapið og 500kr á mann.

Ferðafélag Djúpavogs

06.06.2014

Hátíðarguðsþjónusta á hvítasunnu í Beruneskirkju

Hátíðarguðsþjónusta í Beruneskirkju á hvítasunnudag kl. 14.00.

Einsöng ásamt kór syngja Ólafur Eggertsson og einnig nemandi tónskólans, Guðrún Lilja Eðvarðsdóttir.

Njótum saman sumardýrðar og þökkum góðar gjafir náttúru og Guðs.

Verum öll velkomin,

sóknarprestur

06.06.2014

Sveitarstjórn: Fundarboð 06.06.2014

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundarboð 06.06.2014

48. fundur 2010 – 2014

 

Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps föstudaginn 6. júní 2014 kl. 16:00. 

Fundarstaður: Geysir.

Dagskrá:

1. Fjárhagsleg málefni

a) Fjárhagsleg endurskipulagning.
b) Viðaukar við fjárhagsáætlun 2014.

2. Fundargerðir

a) FMA, dags. 28. maí 2014.
b) FJN, dags. 4. júní 2014.
c) HAUST, dags. 15. maí 2014.
d) Hafnasamband Íslands, dags. 15. maí 2014.
e) SÍS, dags. 16. maí 2014.

3. Erindi og bréf

a) Austurbrú, styrkveiting Austurbrúar 2014, dags. 26. maí 2014.
b) SÍS, ódags.
c) Héraðsskjalasafn Austfirðinga, dags. 26. maí 2014.
d) UMF. Neisti, dags. 19. maí 2014.
e) Austurfrétt, dags. 15. maí 2014.
f) Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, dags. 2. júní 2014.
g) Kristrún Björg Gunnarsdóttir og Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir, dags. 2. júní 2014.

4. Listviðburður í samvinnu við CEAC
5. Samstarfsverkefni Djúpavogshrepps og Háskóla Íslands
6. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða
7. Kjör sveitarstjórnarmanna
8. Skýrsla sveitarstjóra
9. Við lok kjörtímabils

 


Djúpavogi 4. júní 2014;
sveitarstjóri

04.06.2014

Eyðibýli á Íslandi - í Djúpavogshreppi

Eyðibýli á Íslandi – sumarið 2014

Í sveitum landsins er fjöldi eyðibýla og yfirgefinna íbúðarhúsa sem mörg hver eru vel byggð og geyma merka sögu. Markmið verkefnisins Eyðibýli á Íslandi er að rannsaka og skrá umfang og menningarlegt vægi eyðibýla og annarra yfirgefinna íbúðarhúsa í sveitum landsins. Jafnframt að stuðla að björgun áhugaverðra og byggingarsögulega mikilvægra húsa, m.a. með endurgerð og nýtingu í ferðaþjónustu. Þegar verkefninu lýkur liggur fyrir verðmætur þekkingargrunnur um búsetu og líf Íslendinga fyrr á tímum.

Fyrstu skref verkefnisins voru tekin sumarið 2011 þegar rannsókn fór fram á eyðibýlum og yfirgefnum húsum á Suðurlandi. Afraksturinn var heildstætt yfirlit um 103 yfirgefin hús sem kom út í veglegu riti, Eyðibýli á Íslandi, bindi eitt. Sumarið 2012 náði rannsóknin yfir tvo landshluta, Norðurland eystra og Vesturland. Þá voru skráð 236 hús og gefin út tvö bindi af ritinu. Sumarið 2013 náði rannsóknin yfir Vestfirði og Norðurland vestra og voru þá skráð 216 hús og einnig gefin út tvö bindi. Hefur rannsóknin því alls náð til 555 húsa og gefin hafa verið út fimm bindi. Sumarið 2014 mun rannsóknin ná yfir Austurland annars vegar og Suðvesturlands hins vegar. Þá munu níu háskólanemar úr arkitektúr, þjóðfræði, ferðamálafræði og fornleifafræði vinna við rannsóknina með stuðningi Nýsköpunarsjóðs námsmanna, Húsafriðunarsjóðs og fleiri aðila.

Fyrstu vettvangsferðir sumarsins hefjast í sveitarfélögunum Vopnafjarðarhreppi og Djúpavogshreppi 10. júní n.k. Vettvangsferðir á suðvesturlandi munu hefjast 7. júlí n.k.

Hugtakið eyðibýli er hér notað í nokkuð þröngum skilningi. Rannsókn nær til yfirgefinna íbúðarhúsa í sveitum landsins sem ekki hafa verið tekin til annarra nota. Þau skilyrði eru gefin að húsið hafi a.m.k. fjóra uppistandandi útveggi. Húsin þurfa ekki endilega að standa á eyðijörð heldur geta þau staðið á jörð í búnytjum. Eyðibýli geta haft mikla þýðingu af ýmsum ástæðum. Þau geta verið merkar menningarminjar og mikilvægrar heimildir um byggðasögu. Aldur húsanna, húsagerð eða byggingarlag þeirra getur verið sérstakt en einnig er sérstaða húsanna í búsetulandslagi sveitanna oft mikil.

Markmið verkefnisins er að meta menningarlegt vægi einstakra húsa og varðveita þannig valin yfirgefin hús á Íslandi. Í framhaldinu að kanna hvort grundvöllur sé fyrir því að eyðibýli og yfirgefin hús í sveitum landsins verði gerð upp af eigendum þeirra og/eða stofnað félag um rekstur og útleigu þeirra í ferðaþjónustu. Verkefnið var, veturinn 2012, tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands, Menningarverðlauna DV og Hvatningarverðlauna iðnaðarráðherra árið.

Rannsóknum sumarsins lýkur með kynningu á verkefninu og bókaútgáfu á haustmánuðum. Með tíð og tíma mun ritröðin Eyðibýli á Íslandi ná yfir öll yfirgefin íbúðarhús í sveitum landsins.

Rannsóknarhópur sumarsins er fullur tilhlökkunar fyrir komandi könnunarleiðöngrum og sendir landsmönnum fyrirfram sínar bestu kveðjur. Hægt er að fylgjast með framgangi verkefnisins á facebook: www.facebook.com/Eydibyli
Einnig má hafa samband við rannsakendur í gegnum netfangið eydibyli@eydibyli.is

Fréttatilkynning frá Eyðibýli áhugamannafélagi

 


Heiði 1 og 2 á Langanesi


Steintún í Langanesbyggð


Dagverðará á Snæfellsnesi

 

 

D
Stapadalur við Arnarfjörð á Vestfjörðum

03.06.2014

Skólaslit

Síðastliðinn laugardag voru skólaslit í Djúpavogsskóla. Þá var elsti árgangur leikskólans útskrifaður sem og 10. bekkur grunnskólans. Skólastjóri hélt stutta ræðu um skólastarf, Hörður lofaði og kvaddi 10. bekk og Ragnar Sigurður hélt eftirminnilega ræðu frá þeim bekkjarfélögum. Því næst fengu nemendur einkunnamöppur sínar afhentar og sungnir voru skemmtilegir söngvar undir stjórn Andreu. 

Opið hús var bæði í grunn- og leikskóla og fóru nemendur og aðrir gestir á þá staði til að skoða afrakstur vetrarins. Hér má sjá myndir sem teknar voru í kirkjunni.

LDB