Djúpivogur
A A

Fréttir

Sjómannadagsblað Austurlands 2014

Sjómannadagsblað Austurlands er komið út í 20. sinn en líkt og undanfarin ár er blaðið um 90 blaðsíður að stærð. Hátt á annað hundrað nýrra og gamalla ljósmynda prýða blaðið og eru efnistökin vítt og breitt af Austurlandi.

Á meðal efnis í blaðinu í ár má nefna viðtal við Tolla Morthens myndlistarmann og fleiri sem voru í áhöfn Mb Rosans, skuttogarans Barða NK, 1976 til 1977 en áhöfn þessi er ein sú skrautlegasta í útgerðarsögu Íslendinga – „Áhöfnin á Rosanum sem aldrei edru sést.“ Stella Steinþórsdóttir, Stella stóra, segir meðal annars frá magnaðri sjóferð síldarsumarið 1961, og rifjaður er upp harmleikur við Hornafjörð árið 1991 er skólaskipið Mímir fórst í innsiglingunni. Guðni Ölversson rekur sögu Eskju í myndum og máli en félagið fagnar í ár 70 ára afmæli og Magni Kristjánsson, skipstjóri frá Norðfirði, segir frá minnisstæðum jólatúr á Vetti SU árið 1957. Fjölmargt annað má finna í blaðinu svo sem umfjallanir um Franska spítalann á Fáskrúðsfirði, hákarl á Vopnafirði, síld á Seyðisfirði, dulmálslykla síldaráranna, sjómannamál og fleira.

Sjómannadagsblað Austurlands er komið í dreifingu um allt Austurland en þeir sem búa utan fjórðungsins geta nálgast blaðið í Grandakaffi í Reykjavík eða pantað á vefnum www.sjoaust.is.

Ritstjóri Sjómannadagsblaðs Austurlands er sem fyrr Kristján J. Kristjánsson, frá Sjónarhóli á Norðfirði.

Fréttatilkynning frá Sjómannadagsblaði Austurlands

 

 

 

30.05.2014

Kjörstaður vegna sveitarstjórnarkosninga

Kjörstaður vegna sveitarstjórnarkosninga þann 31. maí 2014 verður í Tryggvabúð, Markarlandi 2.

Kjörfundur hefst kl. 12:00 og lýkur kl 20:00

Kjörstjórn

30.05.2014

Dagskrá Sjómannadagsins 2014

Hér má sjá dagskrá Sjómannadagsins 2014. Smellið á myndina til að stækka hana.

 

 

 

 

 

 

29.05.2014

Vinnudagur Neista vel heppnaður

Skorað var á bæði framboðin hér á Djúpavogi að mæta á vinnudag Neista niður í Blá og taka til hendinni. Allflestir frambjóðendur mættu ásamt tryggum vinnumönnum Neista á öllum aldri og áttum við góðan dag saman. Völlurinn var rakaður, skipt var um sand í langstökksgryfju, mörkin bætt, hreinsað rusl út úr kofanum, auglýsingaskylti hengd upp, grillað og leikið.

Frábær dagur í alla staði eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Svo munum við að mæta á kjörstað á laugardaginn og kjósa.

LDB

29.05.2014

Sameiginlegur framboðsfundur

Sameiginlegur fundur Óskalistans og Framfaralistans fer fram í Löngubúð fimmtudaginn 29. maí kl. 20:00

Allir velkomnir

Framboðin

28.05.2014

Vegna sumarvinnu 2014

Hreinsunarvika fyrir 4.-7. bekk verður frá og með þriðjudeginum 3. júní til föstudagsins 6. júní. Vinnudagurinn verður frá 08:00 - 12:00 alla dagana. Krakkar komi klædd eftir veðri og mæti við áhaldahúsið (Víkurlandi 6).


Börn í 8.-10. bekk mæta kl. 08:00 mánudaginn 2. júní við áhaldahúsið (Víkurlandi 6). 


Forstöðumaður þjónustumiðstöðvar

28.05.2014

Vefmyndavélin er komin í lag

Þá er vefmyndavélin stigin upp úr hinni árlegu maíflensu.

Hún hefur aldrei verið hressari og biður ykkur að heilsa upp á sig.

ÓB

27.05.2014

Yfirlýsing frá Vísi hf að höfðu samráði við sveitarstjórn

Að loknum viðræðum við Pétur H Pálsson framkvæmdastjóra Vísis hf sem staddur var á Djúpavogi í gær var niðurstaða fyrirtækisins að senda út eftirfarandi tilkynnningu til að skýra stöðu mála nánar varðandi framvindu Vísis hf á Djúpavogi sem var að mati sveitarfélagsins orðið mjög knýjandi. 
Sveitarstjórn fagnar þeim áfangasigri sem náðst hefur í þeirri baráttu sem staðið hefur um nokkurra vikna skeið. Niðurstaða þessi mun gefa okkur öllum, sem að málinu koma hér á Djúpavogi, aukið svigrúm til að vinna að því að treysta áfram grundvöll að öflugri vinnslu hér á Djúpavogi, sem er eftir sem áður okkar meginmarkmið. Þennan tíma sem framundan er munum við m.a. nýta til þess að þrýsta á stjórnvöld að koma að málum með mum markvissari og sterkari hætti en gert hefur verið til þessa.                                                                                                          

AS 

Tilkynning Vísis hf er svohljóðandi. 

Djúpavogi 26. maí 2014.
 

 

Vísir hf. frestar flutningi á fiskvinnslu

frá Djúpavogi til Grindavíkur

 

 

 

Útgerðarfyrirtækið Vísir hf. hefur ákveðið að fresta flutningi á fiskvinnslu félagsins frá Djúpavogi til Grindavíkur um allt að eitt ár. Þó með þeirri undantekningu að ein af þremur vinnslulínum félagsins verður flutt frá Djúpavogi eins og upphaflega stóð til. Vegna ákvörðunarinnar, sem tekin var í upplýstu samráði við sveitarstjórn Djúpavogshrepps, flytja færri starfsmenn Vísis til Grindavíkur ráð var fyrir gert.

 

Söltunarlína, ásamt tilheyrandi tækjabúnaði, verður flutt til Grindavíkur en á Djúpavogi verða eftir tæki og vinnslulínur til ferskfiskvinnslu og frystingar. Í stað söltunarlínunnar verður fjárfest í vinnslulínu til slátrunar og pökkunar á eldisfiski.

 

Vegna frestunarinnar gefst heimamönnum mun rýmri tími til að bregðast við boðuðum breytingum. Ákvörðunin er í fullu samræmi við þann vilja og ásetning stjórnenda Vísis að að finna og byggja upp starfsemi og störf í stað þeirrar sem hverfa og bjóða starfsfólki sínu ný störf á sama stað eða sömu vinnu á nýjum stað.

 

Starfsmönnum Vísis og sveitarstjórnarmönnum á Djúpavogi var gerð frekari grein fyrir framkvæmdinni á  fundi í dag.  Stjórnendur Vísis munu áfram vinna með sveitarstjórn Djúpavogshrepps við að styrkja stoðir fyrir nýja atvinnustarfsemi í fiskvinnsluhúsi Vísis á Djúpavogi fyrir 30 – 35 manns. Samstarf fyrirtækisins og sveitarstjórnarinnar hefur verið til fyrirmyndar þau 15 ár sem Vísir hefur verið með starfsemi á Djúpavogi.

 

 

Fyrir hönd Vísis hf.

 

Pétur Hafsteinn Pálsson framkvæmdastjóri

 

27.05.2014

Sundlaug lokuð miðvikudaginn 28 maí

Gestum er bent á að sundlaug Djúpavogs er lokuð á morgun miðvikudag vegna námskeiðs starfsmanna. 
                                                                                                     Starfsfólk ÍÞMD

 

27.05.2014

Viljayfirlýsing um frumkvöðlasetur á Djúpavogi

Austurbrú ses., Afl starfsgreinafélag og Djúpavogshreppur hafa undirritað viljayfirlýsingu um stofnun frumkvöðlaseturs á Djúpavogi. Tilgangur setursins er að styðja frumkvöðla við að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd og skapa þannig ný atvinnutækifæri á Djúpavogi og víðar í landshlutanum.

Þjónusta við frumkvöðla og aðstoð við stofnun og rekstur fyrirtækja er hluti af grunnþjónustu Austurbrúar ses. en stofnunin veitir samræmda og þverfaglega þjónustu tengda atvinnulífi, menntun og menningu á Austurlandi. Austurbrú mun fyrst um sinn veita vinnu við stofnun frumkvöðlasetursins forstöðu en stefnt er að því að ráðinn verði sérstakur verkefnastjóri til starfa í haust, að því gefnu að til þess fáist fjármagn.

Gert er ráð fyrir að sótt verði um styrk til starfsemi frumkvöðlaseturins til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis sem og annarra stofnana og sjóða sem starfa á þessum vettvangi. Einnig verður leitað eftir samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og aðra fagaðila á sviði nýsköpunar og klasasamstarfs.

Sem fyrr segir er tilgangur setursins að ýta undir sprotastarfsemi og skapa þannig ný atvinnutækifæri á Djúpavogi og víðar í landshlutanum. Sérstök verkefnastjórn mun setja reglur um að aðgang að frumkvöðlasetrinu og verður greitt fast mánaðargjald fyrir hverja vinnustöð. Ennfremur mun einyrkjum standa til boða vinnuaðstaða í setrinu.

Afl starfsgreinafélag leggur setrinu til að byrja með til húsnæði í húsinu Sambúð, Mörkinni 12 á Djúpavogi auk aðgangs að nettengingu. Þá mun Djúpavogshreppur leggja frumkvöðlasetrinu til 250.000 kr. til að standa straum af nauðsynlegum stofnkostnaði.

Nánari upplýsingar veitir Jóna Árný Þórðardóttir (jona@austurbru.is), starfandi framkvæmdastjóri Austurbrúar í síma 470 3801.

 

Fréttatilkynning frá Austurbrú

26.05.2014

Góð mæting á opinn fund með sjávarútvegsráðherra

Það var fín mæting á opinn fund á Hótel Framtíð sem fram fór í hádeginu. Þar voru viðstaddir Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar og Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður kjördæmisins.

ÓB

 

 

 

 

 Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra


Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður kjördæmisins


Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar, Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra og Andrés Skúlason, oddviti

26.05.2014

Opinn fundur með sjávarútvegsráðherra

Opinn fundur um atvinnu- og sjávarútvegsmál verður haldinn á Hótel Framtíð mánudaginn 26. maí kl. 12:00-13:00.

Gestir fundarins verða: Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Aðalsteinn Þorsteinsson forstjóri Byggðastofnunar.

Boðið verður upp á súpu og kaffi.  Allir velkomnir.

Sveitarstjóri

25.05.2014

Öxi 2014

Öxi þríþrautarkeppni fer fram í þriðja sinn í sumar. 

Skráning er í fullum gangi og hér að neðan er auglýsingin fyrir keppnina. Þar má finna allar nánari upplýsingar en einnig á heimasíðu Öxi og Facebook síðu keppninnar.

Smellið á auglýsinguna til að stækka hana.

ÓB

 

 

 

 

 

23.05.2014

Kynningarmyndband um stöðu Djúpavogshrepps

Hér að neðan er myndband sem Djúpavogshreppur hefur látið vinna í samstarfi við og með stuðningi Afls starfsgreinafélags.

Markmiðið með útgáfu þessa myndbands af hálfu Djúpavogshrepps er að vekja almenning í landinu og stjórnvöld til alvarlegrar umhugsunar um stöðu Djúpavogs í ljósi þeirra augljósu veikleika þess fiskveiðistjórnunarkerfis sem að smærri byggðum landsins er ætlað að búa við. Kerfis sem vegur með ómannúðlegum og óvægnum hætti að tilveru fólks í landinu með stuðningi stjórnvalda. Íbúar krefjast aðgerða af hálfu stjórnvalda um að tryggja byggðinni sanngjarna hlutdeild í hinni sameiginlegu auðlind.

Myndbandið og viðfangsefni þess fá umfjöllun í Kastljósi á RÚV í kvöld en þar verður rætt við Gauta Jóhannesson, sveitarstjóra.

Fréttasíðan hvetur alla sem vettlingi geta valdið til þess að deila þessu myndbandi sem víðast.

ÓB

 

 

23.05.2014

Aflamark Byggðastofnunar - boð um samstarf

Með breytingu á lögum nr. 116/2006 þann 25. júní 2013 samþykkti Alþingi að Byggðastofnun skuli hafa til ráðstöfunar aflaheimildir til að styðja byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að auka aflaheimildir Byggðastofnunar um 1100 þorskígildistonn og tekur breytingin gildi á næsta fiskveiðiári (2014/2015). Byggðastofnun hefur mótað eftirfarandi viðmið um úthlutun veiðiheimilda samkvæmt þessari heimild.

Meginmarkmið verkefnisins er að auka byggðafestu í þeim sjávarbyggðum sem:

- standa frammi fyrir alvarlegum og bráðum vanda vegna skorts á aflaheimildum eða óstöðugleika í sjávarútvegi,
- eru háðastar sjávarútvegi og eiga minnsta möguleika á annarri atvinnuuppbyggingu,
- eru fámennar, fjarri stærri byggðakjörnum og utan fjölbreyttra vinnusóknarsvæða.

Í því skyni er stefnt að uppbyggingu í sjávarútvegi sem:

- skapar eða viðheldur sem flestum heilsársstörfum fyrir bæði konur og karla við veiðar, vinnslu og afleidda starfsemi í viðkomandi sjávarbyggðum,
- stuðlar að sem öflugastri starfsemi í sjávarútvegi til lengri tíma og dregur sem mest úr óvissu um framtíð sjávarbyggðanna.

Stjórn Byggðastofnunar hefur á grundvelli greiningar á stöðu einstakra byggðarlaga ákveðið að auglýsa eftir samstarfsaðilum um nýtingu viðbótaraflaheimilda til að stuðla að meginmarkmiðum verkefnisins í eftirtöldum sjávarbyggðum sem falla að ofangreindum viðmiðum;

Breiðdalsvík í Breiðdalshreppi allt að 150 þorskígildistonnum
Djúpivogur í Djúpavogshreppi allt að 400 þorskígildistonnum
Hrísey í Akureyrarbæ allt að 150 þorskígildistonnum
Þingeyri í Ísafjarðarbæ allt að 400 þorskígildistonnum

Endanlegt val á samstarfsaðilum mun byggja á eftirfarandi þáttum:

- trúverðugum áformum um útgerð, vinnslu sjávarafurða eða aðra starfsemi.
- fjölda heilsársstarfa fyrir karla og konur.
- sem bestri nýtingu þeirra veiðiheimilda sem fyrir eru í byggðarlaginu.
- öflugri starfsemi til lengra tíma sem dregur sem mest úr óvissu um framtíðina.
- jákvæðum áhrifum á önnur fyrirtæki og samfélagið.
- traustri rekstrarsögu forsvarsmanna umsækjanda.

Umsóknum sem ekki falla að markmiðum verkefnisins verður hafnað.

Umsóknareyðublað, ásamt nánari upplýsingum er að finna á vef Byggðastofnunar www.byggdastofnun.is. Umsóknir skal senda til Byggðastofnunar, á netfangið postur@byggdastofnun.is fyrir kl. 12:00 miðvikudaginn 11. júní næst komandi. Nánari upplýsingar veitir Sigurður Árnason starfsmaður þróunarsviðs.

frétt af vef Byggðastofnunar

22.05.2014

Útvarpsviðtal við Ölfu

Eins og við greindum frá um daginn þá hefur Ölfu Freysdóttir verið boðið að dvelja í Vesterålen í Noregi.

Alfa var í útvarpsviðtali á Rás 1 á þriðjudaginn þar sem hún sagði Hrafnhildi Halldórsdóttur frá þessari fyrirhuguðu dvöl, auk þess að segja frá fyrirtækinu Grafít, sem hún og Rán systir hennar stofnuðu nýlega.

Hægt er að hlusta á viðtalið með því að smella hér.

ÓB

22.05.2014

Hafliði tekur þátt í meistarakeppni í rúningi

Hafliði Sævarsson frá Fossárdal er í landsliði Íslands í rúningi, en heimsmeistaramótið hefst í dag á Írlandi. Mótið fer fram annað hvert ár og hefur verið haldið víða um heim.

Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt lið er sent til keppni. Liðið mun keppa í vélrúningi en auk hans er einnig keppt í ullarflokkun og rúningi með handklippum á mótinu. Enn fer rúningur í mörgum löndum fram með handklippum eingöngu, þó að sú aðferð sé aflögð hérlendis.

Landsliðið skipa þeir Julio Cesar Gutierrez, frá Hávarsstöðum II í Leirársveit, Hafliði Sævarsson, frá Fossárdal í Berufirði, Trausti Hjálmarsson frá Austurhlíð í Biskupstungum og Reynir Þór Jónsson frá Hurðarbaki í Flóa. Liðsstjórar eru Guðmundur Hallgrímsson og Borgar Páll Bragason.

Við óskum Hafliða alls hins besta í keppninni.

Nánar er fjallað um keppnina á mbl.is

ÓB

 


Hafliði og félagar mættir til Írlands

22.05.2014

Bæjarlífið apríl 2014

Þrátt fyrir miklar hræringar í atvinnumálum í Djúpavogshreppi gengur lífið sitt vanagang hér í sveitarfélaginu. Það gerði það a.m.k. í apríl. Sundlaugin var tekin í gegn og við héldum Hammondhátíð, svo eitthvað sé nefnt - og svo margt fleira eins og sjá má í meðfylgjandi bæjarlífspakka.

ÓB

21.05.2014

Heima er best vekur athygli

Óhætt er að segja að myndbandið Heima er best sem Djúpavogshreppur lét vinna í samstarfi við Afl starfsgreinafélag og var birt í gær, hafi farið eins og eldur í sinu um netheima.

Nú þegar þetta er ritað hefur myndbandið fengið tæp 20.000 áhorf á Youtube á innan við sólarhring. Allir helstu netmiðlar hafa fjallað um og birt myndbandið og gífurlegar umræður skapast á samskiptamiðlum. Þá hafa þó nokkrir landsþekktir bloggarar skrifað um myndbandið.

Til gagns og gamans tókum við hér að neðan saman þá umfjöllun sem myndbandið hefur fengið:

Umfjöllun Kjarnans um myndbandið.
Umfjöllun visis.is um myndbandið
Umfjöllun dv.is um myndbandið
Umfjöllun Pressunar um myndbandið
Umfjöllun Austurfréttar um myndbandið
Umfjöllun mbl.is um myndbandið
Umfjöllun Kvennablaðsins um myndbandið
Umfjöllun Skutulsins um myndbandið

Viðtal við Gauta Jóhannesson sveitarstjóra í Kastljósi.

Bloggarar sem skrifað hafa um myndbandið:

Egill Helgason
Karl Th. Birgisson
Lýður Árnason
Illugi Jökulsson
Jenný Anna Baldursdóttir
Innipúkinn

Ef þið hafið ábendingar um fleiri fréttamiðla eða bloggara sem hafa birt myndbandið þá megið þið endilega senda línu á djupivogur@djupivogur.is og við bætum því við þessa samantekt.

ÓB

21.05.2014

Gauti í Kastljósi í gær

Gauti Jóhannesson sveitarstjóri var gestur Jóhannesar Kr. Kristjánssonar í Kastljósi í gær. Tilefnið var myndband, eða innihald þess öllu heldur, sem Djúpavogshreppur lét vinna og hefur farið eins og eldur í sinu um netheima síðan það var birt upp úr hádegi í gær.

Hægt er að horfa á viðtalið við Gauta með því að smella hér og einnig má sjá umrætt myndband hér að neðan.

ÓB
Mynd: ruv.is

 

 

 

21.05.2014

Kjörskrá fyrir Djúpavogshrepp vegna sveitarstjórnarkosningar

Kjörskrá fyrir Djúpavogshrepp vegna sveitarstjórnarkosningar 31. maí 2014 mun liggja frammi á afgreiðslutíma skrifstofu sveitarfélagsins að Bakka 1 frá fimmtudeginum 22. maí til kjördags.   

Sveitarstjóri

21.05.2014

Bókasafnið lokað í kvöld

Bókasafnið verður lokað í kvöld, þriðjudagskvöldið 20. maí.

Bókasafnsvörður

20.05.2014

Opið hús um fjarnám og fræðslumál

Þriðjudaginn 20. maí verður opið hús á vegum Austurbrúar um fjarnám og fræðslumál á Hótel Framtíð, Djúpavogi.

Dagskrá:

• Kynning á framboði fjarnáms veturinn 2014-2015
• Þjónusta varðandi símenntun, háskólanám og rannsóknir

Boðið er upp á ráðgjöf varðandi val á námi og aðstoð við umsóknir.
Á hádegisfundum er boðið upp á súpu og brauð.


Mánudagur 19. maí.
Kreml, Neskaupstað kl. 12-13.
Fróðleiksmolanum, Reyðarfirði kl. 16-17.
Vonarlandi, Egilsstöðum kl. 16-17.

Þriðjudagur 20. maí.
Hótel Framtíð, Djúpavogi kl. 12-13.
Grunnskólanum, Stöðvarfirði kl. 16-17.

Miðvikudaginn 21. maí.
Kaupvangi, Vopnafirði kl. 12-13.

Fimmtudagur 22. maí.
Álfacafé, Borgarfirði kl. 12-13.
Hafnargötu 28, Seyðisfirði kl. 16-17.


Allir velkomnir

ÓB

19.05.2014

Sveitarstjórn: Fundarboð 20.05.2014

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundarboð 20.05.2014

5. aukafundur 2010 – 2014


Aukafundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps þriðjudaginn 20. maí 2014 kl. 16:00. Fundarstaður: Geysir.

Dagskrá:

1. Kjörskrá

 


Djúpavogi 19. maí 2014
Sveitarstjóri

19.05.2014

Forsætisráðherra færðar undirskriftir Djúpavogsbúa

Kristján Ingimarsson færði Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, undirskriftir 150 Djúpavogsbúa, þar sem stjórn­völd eru hvött til þess að treysta byggð í bæj­ar­fé­lag­inu. 

Sjá nánar í frétt á mbl.is

ÓB
Mynd: mbl.is

16.05.2014

Sveitarstjórn: Fundargerð 15.05.2014

Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.

ÓB

16.05.2014

Alfa til Vesteralen í Noregi

Síðustu ár hefur einum listamanni frá Austurlandi verið boðið að dvelja í Vesterålen í Noregi. Sem fyrr segir varð Alfa Freysdóttir fyrir valinu að þessu sinni. Alfa er fædd og uppalin á Djúpavogi. Hún er með BA í sálfræði frá Háskóla Íslands og MFA gráðu í innanhússarkitektúr frá Academy of Art University. Í dag rekur Alfa hönnunar-og ráðgjafafyrirtækið Grafít á Djúpavogi með systur sinni, Rán Freysdóttur. Alfa mun dvelja í tvær vikur í sveitarfélaginu Andernes í Vesterålen.

Á meðan á dvölinni stendur mun Alfa bjóða upp á námskeið í innanhússhönnun fyrir heimili og vinnustað. Þar fjallar hún um undirstöðuatriði í innanhúshönnun og hvernig má nota hana til að bæta lífsgæði heima fyrir og á vinnustaðnum. Þá stefnir Alfa á að standa fyrir svokölluðu „Repair Café“ en það er staður til að hittast með hluti sem gera þarf við, allt frá húsgögnum til fatnaðar, og gefa þeim nýtt líf eða endurhanna á einhvern hátt. Leitast verður við að fá sérfræðinga, t.d. smiði, rafvirkja og saumakonur, til að aðstoða. Markmiðið með verkefninu er að gera fólk meðvitað um það gífurlega magn af rusli sem vestrænar þjóðir henda. Oft er um að ræða hluti sem eru langt frá því að vera ónýtir.

Umsækjendur um listamannadvöl eru metnir af þriggja manna dómnefnd í Vesterålen sem samanstendur at tveimur listamönnum og starfsmanni menningarmála á svæðinu. Dvölin er liður í því góða samstafi sem verið hefur í ríflega tíu ár á milli menningarráða Austurlands og Vesterålen í Noregi.

Frétt af austurbru.is

Djupivogur.is óskar Ölfu innilega til hamingju með þennan árangur.

ÓB

15.05.2014