Djúpivogur
A A

Fréttir

Dagskrá Daga myrkurs

Meðfylgjandi er dagskrá Daga myrkurs á Djúpavogi.

Smellið á myndina til að stækka hana.

ÓB

 

 

 

 

 

 

07.11.2013

Cittaslow á ráðstefnunni Auðlindin Austurland

Gauti Jóhannesson sveitarstjóri flutti erindi um Cittaslow á ráðstefnunni Auðlindin Austurland sem fram fór á Hallormsstað í gær og í dag. Erindið vakti mikla athygli enda verkefnið gríðarlega spennandi.

Jón Knútur Ásmundsson tók stutt viðtal við Gauta að erindi loknu sem hlusta má á með því að smella hér.

Hægt er að kynna sér Cittaslow betur með því að smella hér.

ÓB

Spilavist í Löngubúð

Næstu þrjá föstudaga ætlum við að spila vist í Löngubúð.

Föstudaginn 8. nóvember
Föstudaginn 15. nóvember
Föstudaginn 22. nóvember

Byrjað verður að spila 20:30 öll kvöld. Allir velkomnir.

Félag eldri borgara

06.11.2013

Jógatíminn fellur niður

Jógatíminn sem á að vera á miðvikudaginn 6. nóvember fellur niður.

Pála 

ÞS

05.11.2013

RIFF á Djúpavogi

RIFF - Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík - er einhver stærsti og fjölbreyttasti menningarviðburðurinn á Íslandi. Í ellefu daga á hverju hausti flykkjast Íslendingar í bíó til að sjá það besta og ferskasta í alþjóðlegri kvikmyndagerð. Enn fremur býðst gestum að spjalla við leikstjóra um verk sín, sækja málþing og fyrirlestra, tónleika og ljósmyndasýningar, og að sjá kvikmyndir við óhefðbundin skilyrði - t.d. í sundi eða í stofunni hjá Frikka Þór!

Hinni eiginlegu RIFF hátíð lauk fyrir tæpum mánuði síðan en Austfirðingar fá tækifæri til að sjá hluta af þeim myndum sem sýndar voru. Sýnt var á Egilsstöðum í október og nú í nóvember verða sýningar á Seyðisfirði og hér á Djúpavogi.

Sýningarnar fara fram á Hótel Framtíð helgina 9.-10. nóvember. Sýndar verða fjórar myndir (sjá nánar í meðfylgjandi auglýsingu).

Nánar má lesa um Reykjavík International Film Festival á heimasíðu hátíðarinnar, www.riff.is

Smellið á auglýsinguna hér að neðan til að stækka hana.

ÓB

 

 

05.11.2013

Nönnusafn hlaut viðurkenningu úr Styrktar- og menningarsjóði Sparisjóð...

Sparisjóðurinn á Höfn úthlutaði úr Styrktar- og menningarsjóði Sparisjóðs Vestmannaeyja, í sjötta skipti, laugardaginn 2. nóvember 2013.

Ásamt Nönnusafni hlutu Skógræktarfélag Austur-Skaftfellinga og Lúðrasveit tónskóla Austur-Skaftafellssýslu viðurkenningu.

Tónskóli A-Skafafellssýslu bauð upp á tónlistaratriði og boðið var upp á veitingar, snittur og nýlagað kaffi.

Hér að neðan má sjá mynd frá afhendingunni og þar fyrir neðan umfjöllun um þá sem hlutu viðurkenningu.

Heimasíða Djúpavogshrepps óskar aðstandendum Nönnusafns innilega til hamingju með viðurkenninguna.

ÓB

 

'

Ferðafélag Austur-Skaftfellinga

Ferðafélag Austur-Skaftfellinga var stofnað í mars 1980 og félagsmenn telja nú á annað hundrað. Félagið er áhugamannafélag og sjálfstætt starfandi deild innan F.Í.
Markmið félagsins er að stuðla að fjölskylduvænum og heilsusamlegun samverustundum ásamt því að bera virðingu fyrir náttúru og dýralífi. Félagið er öllum opið og er starfsemin mjög blómleg, með fjölbreytta dagskrá. Síðastliðin ár hafa strandgöngur borið hvað hæst í vetrarstarfi en í vetur á að ganga í kauppstað á Djúpavogi eftir þjóðveginum.
Sumardagskráin hefur einnig verið mjög fjölbreytt og metnaðarfull og er m.a stefnt á utanlandsferð næsta sumar. Félagið rekur fjallaskála inn á Lónsöræfum og hafa gistinætur þar verið á bilinu 6 - 8 hundruð á sumri. Þar eru starfandi skálaverðir frá 20 júní til 20 ágúst á vegum félagsins ásamt landverði.
Í sumar réðst félagið ásamt Vatnajökulsþjóðgarði í mjög aðkallandi verkefni að koma á símasambandi í Kollumúla. Einnig hefur félagið staðið fyrir skiltagerð á gönguleiðinni Horn-Papós en á báðum endum leiðarinnar hefur verið komið fyrir upplýsingaskilti ásamt gestabók og gönguleiðakortum. Einnig er verið að leggja lokahönd á upplýsinga- og heilsufarsskilti á Almannaskarði.
Að framansögðu er ljóst að félagið er ríkt af mannauði og hefur innan sinna raða mannskap sem fórnar frítíma sínum í alls konar sjálfboðastarf.
Það er mikilsvert fyrir samfélagið okkar að hafa aðgang að svo kröftugu félagi.
Óskum við því alls hins besta í framtíðinni.

Lúðrasveit Tónskóla A-Skaft.

Hvert bæjarfélag sem hefur á að skipa öflugu tónlistarlífi er vel í sveit sett.
Þar skipa lúðrasveitir stórt hlutverk og hafa lengi gert. Við Tónskóla A-Skaft starfar nú lúðrasveit sem skipuð er krökkum á aldrinum 9-15 ára og nýtur hún stuðnings eldri og reyndari lúðrasveitarmanna. Hópurinn hefur staðið fyrir ýmsum uppákomum, á liðnum mánuðum, til fjáröflunar fyrir sveitina. Í vor fór svo lúðrasveitin í tónleikaferð til Svíþjóðar. Þetta hefur því verið viðburðarríkt ár. Lúðrasveitin, sem telur núna 30 manns, stefnir á landsmót í vor sem haldið verður í Stykkishólmi.
Sparisjóðurinn vill aðstoða ungt fólk til að koma hugmyndum sínum og áhugamálum í framkvæmd svo það geti tekið þátt í uppbyggilegu og heilbrigðu starfi. Lúðrasveitin starfar undir öruggri stjórn Jóhanns Morávek og allir sem til þekkja vita að hann vinnur af heilindum hvert það verkefni sem hann tekur sér fyrir hendur.
Megi lúðrasveitin stækka og eflast á ókomnum árum og verða okkur áframhaldandi gleðigjafi.

Bóka- og minjasafn Nönnu Guðmundsdóttur

Í Berufirði í Suður-Múlasýslu stendur gamall bær með sama nafni, sem lætur ekki mikið yfir sér, frá þjóðveginum séð, en á sér sögulegar rætur, þar sem Bóka og minjasafn er í húsi sem áður var fjós. Nýlega var þar endurreist smiðjuhús sem er hluti af Nönnusafni og skemma sem tilheyrir gamla bænum.
Þar stendur einnig kirkja sem var endurbyggð seint á fjórða tug síðustu aldar og þar eru margir merkir gripir, 200 ára messuklæði, altarisklæði og predikunarstóll frá 17. öld.
Nanna Guðmundsdóttir fæddist árið 1906 á bænum Berufirði og var frumkvöðull á mörgum sviðum. Hún lést árið 1988 og verður sögu hennar minnst hér í fáum orðum.
Nanna tók gagnfræðapróf frá Akureyri og fór til Svíþjóðar á lýðháskóla og sótti einnig nám í sænskum garðyrkjuskóla. Kennaraprófi lauk hún hér á landi og annaðist kennslu í marga áratugi, lengst af í Berufirði. Auk þess stundaði Nanna garðyrkju og skógrækt og bera brekkurnar ofan Berufjarðar þess vott. Þegar æfistarfinu lauk fór Nanna að safna saman gömlum munum sem flestir höfðu verið í notkun á Berufjarðartorfunni, en mannmargt var þar á árum áður. Þessir munir voru að miklu leyti heimagerð verkfæri úr tré og málmum, þar má nefna spunavél sem er ein fárra á landinu sem er í fullkomnu lagi.
Safnadagur var haldinn í september síðastliðnum og þá voru sýnd gömul vinnubrögð, m.a. spunnið band úr lopa og einnig sýnt vélprjón á 100 ára gamla prjónavél. Einnig var sýnd eldsmiðja og voru meðal annars smíðaðar hurðalamir, krókar og skeifur. Á safninu er einnig gott safn fræðibóka og sumar þeirra eru fáséðar enda var Nanna mikil fræðakona.
Það eru aðstandendur Nönnu Guðmundsdóttur sem eiga veg og vanda að uppbyggingu safnsins.
Sparisjóðurinn óskar Nönnusafni og öllum þeim sem að því standa til hamingju með áhugavert safn og velgengni með áframhaldandi uppbyggingu.

04.11.2013

Rán bátasmiðja afhendir nýjan bát

Rán bátasmiðja ehf. á Djúpavogi afhenti í dag Fiskeldi Austfjarða nýjan bát sem notaður verður við fiskeldi fyrirtækisins í Berufirði.

Um er að ræða tæplega 6 metra langan bát smíðaðan úr svokölluðu HDPE plasti (high density polyethylene) sem hefur mikla seiglu og gríðarlegt slagþol, er t.d. fimm sinnum höggþolnara en trefjaplast. Efnið er endurvinnanlegt, ekki þarf að hafa áhyggjur af tæringu, málningu eða annari yfirborðs-meðhöndlun efnisins, þörungar og hrúðurkarlar festast ekki auðveldlega við plastið og líftími þess er yfir 50 ár.

Vegna þessara eiginleika HDPE plasts hentar það einstaklega vel sem byggingarefni í hluti eins og vinnubáta sem þurfa að þola mikla áníðslu. Það er eðlisléttara en vatn og flýtur því í sjó eitt og sér en auk þess eru bátarnir úr flotrörum sem skipt er niður í loftþétt hólf og þetta tvennt gerir bátinn nánast ósökkvandi.


Þegar er búið að selja annan samskonar bát og er smíði hans hafin. Bátasmiðjan hefur áður smíðað rúmlega 7 metra bát auk þess sem einn 9 metra er í byggingu. 
Allir bátarnir eru með 23° V-laga botni og framhlutinn er hannaður þannig að báturinn ryður auðveldlega frá sér sjó svo hann heggur síður í báruna og það fer vel um farþega, jafnvel í verstu veðrum. Hægt er að velja um alls kyns aukabúnað eins og farþegasæti, krana, glussakoppa, búkka til að taka smátæki um borð í fjörum, aðstöðu til að taka upp dauðfisk í fiskeldiskvíum o.fl.

Hjá Rán bátasmiðju starfa nú fjórir starfsmenn. Auk bátsmíðinnar er fyrirtækið í sambandi við erlenda aðila varðandi smíði á fiskeldiskvíum og hefur m.a. sinnt verkefnum reglulega í Noregi.

GJ

 


Vilhjálmur Benediktsson afhendir Sveini Kristjáni Ingimarssyni og Brynjólfi Einarssyni hjá Fiskeldi Austfjarða lykilinn að bátnum. Mynd: Gauti Jóhannesson


Nýi báturinn á siglingu. Mynd: Rán Bátasmiðja ehf.


Fyrsti bátur Bátasmiðjunnar, Gná, á siglingu. Mynd: Rán Bátasmiðja ehf.

 

Tengdar fréttir:
Litið við hjá Bátasmiðjunni Rán
Tímamót hjá Bátasmiðjunni Rán

01.11.2013

Frá Djúpavogskirkju

Guðsþjónusta n.k. sunnudag 3. nóv. kl. 11.00.

Allra heilagra messa

Látinna minnst og kveikt á minningarljósum við altarið. Andrea Kissné Révalvi spilar á fiðlu „Largo“ eftir Handel.

Fermingarbörn lesa bænir og nemendur tónskólans koma fram. Ísabella Nótt Ómarsdóttir spilar forspil og Katla Rún Magnúsdóttir syngur lag.

Verum öll velkomin,
sóknarprestur

01.11.2013