Djúpivogur
A A

Fréttir

Tilkynning frá AFLi starfsgreinafélagi

Vegna fréttaflutnings af málefnum tengdum bryggjuframkvæmdum á Djúpavogi gefur hér að líta  tilkynningu á heimasíðu AFLs starfsgreinafélags fyrr í dag sem vert er að koma á framfæri:

Laust fyrir hádegi í dag sagði verktakinn við byggingu bryggjunnar á Djúpavogi, sig frá verkinu.  AFL Starfsgreinafélag átti í gær fund með verkamönnum við bygginguna eins og fram hefur komið í fréttum.  Mennirnir lögðu niður vinnu í dag og bíða eftir launagreiðslum og lá því vinna við smíðina að mestu niðri í dag.

Vegna fréttaflutnings af málinu í dag er rétt að fram komi að sveitarstjóri Djúpavogshrepps átti frumkvæði að því að kaup og kjör starfsmanna við höfnina voru skoðuð og kallaði einnig til heilbrigðiseftirlit til að skoða aðbúnað mannanna.

AFL Starfsgreinafélag hefur ítrekað hvatt til þess að útboðsskilyrði opinberra framkvæmda verði endurskoðuð til að fyrirbyggja að kennitöluflakkarar bjóði í opinber verk og skilji síðan oftar en ekki eftir sig blóðuga slóð skulda við undirverktaka og byrgja. Djúpavogshreppi var ekki gefinn kostur á að semja við aðra tilboðsgjafa en þann sem lægst bauð - þrátt fyrir að viðkomandi fyrirtæki hafi ekki haft neina starfssemi með höndum síðustu sex ár - en fyrra fyrirtæki forráðamanns verktakans var úrskurðað gjaldþrota í maí.  

AFL Starfsgreinafélag hefur átt góða samvinnu við forráðamenn Djúpavogshrepps í þessu máli.

 

25.07.2013

Auðunn og steinsafnið á N4

Djúpivogur hefur sannarlega verið áberandi á sjónvarpsstöðinni N4 að undanförnu en heill þáttur var einmitt tileiknaður Djúpavogi á þeirri stöð fyrir skemmstu. Í síðasta þætti var svo enn einni rósinni bætt í hnappagatið þar sem
Gísli Sigurgeirsson tók sérlega flott viðtal við Auðunnn Baldursson þar sem hann sýndi hið stórglæsilega steinasafn sitt sem staðsett er hér í bænum.  Aldeilis frábær þáttur, sjá hér Auðunn og steinasafnið í seinni hluta þáttarins http://www.n4.is/tube/file/view/3556/.    AS

  

24.07.2013

Tilkynning - v/gæsluvallar

Gæsluvellinum, sem starfrækja átti í sumarleyfi leikskólans, hefur verið lokað vegna engrar notkunar.

Sveitarstjóri

19.07.2013

Leikhópurinn Lotta í Hálsaskógi

Leikhópurinn Lotta verður í Hálsaskógi laugardaginn 20 júlí  kl 18:00

Aðgangseyrir 1.500. kr

18.07.2013

Ferðafélag Djúpavogs auglýsir jeppaferð

Ferðafélag Djúpavogs - Jeppaferð - 27. - 28. júlí 2013

Öldufellsleið – Fjallabak syðri – Hungurfit – Fljótshlíð

Fararstjóri: Jón Halldór Gunnarsson

Mæting: Við Laufskálavörðu á Mýrdalssandi, vestan við Kúðafljót.

 

Dagur 1. Laufskálavarða – Álftavatn, 72 km.

Þátttakendur safnast saman á eigin bílum við Laufskálavörðu á Mýrdalssandi laugardaginn 27. júlí ekki seinna en kl 10:00

Þaðan er haldið inn á Öldufellsleið, þegar komið er að Fjallabaksleið syðri er haldið til vinstri með stefnu á Mælifell þar til komið er að Skófluklifi. Þar er hægt að fara að skála Útivista þar sem gönguleiðin að Strútslaug hefst.

Ekið verður með fram Veðurhálsi og yfir Brennivínskvísl á vaði og komið að Slysöldu. Þaðan er haldið áfram í Hvanngil og ekið yfir Kaldaklofskvísl á vaði. Haldið verður áfram að Álftavatni og gist þar í tjöldum eða í skála ferðafélagsins. Ef vilji er til að gista í skálanum þarf að panta gistingu tímanlega. Eftir kvöldmat verður farið að Torfahlaupi og það skoðað

Dagur 2: Álftavatn – Fljótshlíð, 71 km.

Lagt verður af stað kl 10:00. Ekið er í gegnum Álftavatnsskarð sem er norðan Torfatinda,  og að vaðinu á Markarfljótinu sem er að jafnaði 60 til 70 cm djúpt með grófum malarbotni. Á ásunum er mjög gott útsýni inn að Jökulruðningum og Torfajökli og niður með Markarfljótinu.

Ekið er eftir botni Laufalækjar, um 500 metra, og haldið eftir Fjallabak-syðri þar til komið er að slóð til vinstri sem liggur um Hungurfit, Krók og Þverárbotna.

Komið er að Markarfljóti við gangnamannaskálann Mosa og síðan er haldið áfram og komið niður í Fljótshlíð.

Dagur 2                                                                                Dagur 1

 

 

Fyrir hönd Ferðafélags Djúpavogs

Jón Halldór Gunnarsson gsm 892 7266 – email: jhg66@talnet.is

18.07.2013

Útimessa í Malvíkurrétt í Álftafirði

Næsta sunnudag 21. júlí verður útimessa í Malvíkurrétt í Álftafirði og hefst kl. 15 (ath. messutíma).

Sóknarpresturinn sr. Sjöfn Jóhannesdóttir þjónar og kirkjukórsfélagar leiða sönginn og Björn Hafþór Guðmundsson fyrrum sveitarstjóri Djúpavogs spilar undir á gítar. 

Malvíkurrétt er sérstakur og fallegur staður og minnir um margt á náttúrukirkju.  Þar er steinn sem nefndur er Altari og klettar umlykja staðinn og veita skjól.  Heimamenn kalla þennan stað stundum Litla-Ásbyrgi.  Í fyrra var fjölmennt við messu og veðrið gott og messugestir nutu góðra velgjörða í boði sóknarnefndar Hofskirkju eftir helgistundina. 

Í nágrenni Malvíkurréttar eru margir þekktir sögustaðir sem Íslendingasögur nefna í sambandi við kristnitökuna árið 1000.  Þangbrandur hinn saxlenski biskup sem fyrstur reyndi að boða kristni hér á landi dvaldi hjá Halli á Þvottá og sagt er að hann hafi sungið messu þar og skírt Síðu-Hall og hans heimafólk í Þvottánni.  Kirkjan og kirkjuleg þjónusta á sér því langa sögu í Álftafirði og í tilefni af 1000 ára sögu kristni á Íslandi var  reistur minnisvarði við Þvottá um Síðu-Hall.  Ýmis örnefni eins og Þangbrandsbryggja og Prestasteinn er að finna þarna sem minna á þessar frásagnir og svo er Papey ekki langt frá, þar sem sagnir herma að hinir kristnu írsku munkar hafi verið áður en norrænir menn námu hér land. 

Malvíkurrétt er um 45 km. Sunnan við Djúpavog.  Ekið er eftir þjóðveginum frá Djúpavogi, þar til komið er að Selá, þá er ekki farið yfir brúna heldur beygt til vinstri og farinn vegarslóði sem er fær fjórhjóladrifnum bílum að messustað.  Aðeins þarf að ganga um 100-200 metra.  Nánari leiðsögn verður við þjóðveginn. 

Kaffiveitingar í boði sóknarnefndar að messu lokinni.  Allir eru velkomir og fólk hvatt til að mæta í skjólgóðum fatnaði og gott að hafa með sér teppi og jafnvel stól. 

Sóknarprestur og sóknarnefnd.  

17.07.2013

Gæsluvöllur

Gæsluvöllur fyrir börn á leikskólaaldri verður opinn á lóð leikskólans frá 15. júlí - 9. ágúst.

Börn fædd 2005 og 2006 eru einnig velkomin.

Opið verður frá kl. 08:00 - 12:00 virka daga.

Gjald er kr. 250  pr. klst og verður innheimt með greiðsluseðli að tímabili loknu.

Frekari upplýsingar eru veittar á skrifstofu sveitarfélagsins.

Sveitarstjóri

17.07.2013

Djúpivogur - þáttur á N4

Í síðustu viku var sjónvarpsmaðurinn Gísli Sigurgeirsson á ferðinni hér á Djúpavogi í blíðskaparveðri þar sem hann fór nokkuð vítt og breitt yfir svæðið og tók stöðuna á samfélaginu sem er í fullum blóma um þessar mundir eins og sjá má í meðfylgjandi upptöku af þættinum.  http://www.n4.is/tube/file/view/3537/

                                                                                                                                                AS 

15.07.2013

Karlakvintettinn Olga heldur tónleika í Djúpavogskirkju

Olga er nýr og ferskur sönghópur sem var stofnaður árið 2012 en meðlimir hópsins stunda tónlistarnám í Hollandi. Efnisskráin spannar fimm aldir, frá þjóðlögum til sönglaga, ásamt því að syngja barbershop og fleira sem mun koma áheyrendum skemmtilega á óvart. Í gegnum tónlistina munu þeir ferðast frá Tíbet til Íslands með viðkomu í nokkrum löndum. Meðlimir Olgu skipa Bjarni Guðmundsson, Haraldur Sveinn Eyjólfsson, Gulian van Nierop, Pétur Oddbergur Heimisson og Philip Barkhudarov og þeir stunda allir hjá Jóni Þorsteinssyni í tónlistarháskólanum í Utrecht.

Olga munu koma fram í Djúpavogskirkju fimmtudaginn 8. ágúst, kl. 20:00. Almennt miðaverð er 1.500 kr. en aðgangur er ókeypis fyrir börn yngri en 6 ára. 1000 kr. fyrir nema og ellilífeyrisþega.

Við viljum einnig bjóða allar Olgur velkomnar á tónleikana þeim að kostnaðarlausu!

Við hlökkum til að sjá ykkur,
Karlakvintettinn Olga

www.facebook.com/olgavocalensemble

 

 

 

11.07.2013

Sumarlokun skrifstofu Djúpavogshrepps

Skrifstofa Djúpavogshrepps verður lokuð frá 20. júlí til og með 18. ágúst vegna sumarleyfa.

Skrifstofan opnar aftur mánudaginn 19. ágúst kl. 13:00.

Sveitarstjóri

09.07.2013

Frá Bókasafninu

Bókasafnið er nú komið í sumarfrí. Fyrsti opnunardagur eftir frí verður auglýstur síðar.

Bókasafnsvörður

03.07.2013

Öxi 2013 - úrslit og myndir

Þríþrautarkeppnin Öxi 2013 fór fram laugardaginn 29. júní sl.

Hafliði Sævarsson, bóndi á Eyjólfsstöðum í Fossárdal, varði titil sinn í einstaklingskeppni og lið Sóknarinnar vann í liðakeppni.

Það var lið Sóknarinnar, sem þeir Hilmar Gunnlaugsson og Jón Jónsson skipuðu, sem kom fyrst í mark á Djúpavogi í dag á tímanum 3:35,48 klst. Í öðru sæti í liðakeppninni urðu Fossárdalsbræður, Jóhann Atli og Bjartmar Þorri Hafliðasyni, á tímanum 4:14,21.

Hafliði, sem einnig vann einstaklingskeppnina í fyrra, varð fremstur einstaklinga á tímanum 3:43,06. Segja má að Hafliði hafi komist í mark við illan leik því annað dekkið sprakk á reiðhjóli hans skömmu áður en hann kom út á Djúpavog. Hann hélt áfram þar til hjólið var komið á felguna en hann varð að teyma það síðustu metrana.

Svanhvít Antonsdóttir varð fremst í kvennaflokki á tímanum 5:30,33. Engin kona keppti í fyrra svo Svanhvít telst fyrst kvenna til að klára þrautina. Í öðru sæti kvennaflokks varð aldursforseti keppninnar, Kristjana Bergsdóttir 61 árs, 24 mínútum á eftir.

Keppnin hófst með 750 sjósundi suður yfir Berufjörð. Þegar í land var komið settust keppendur á bak reiðhjólum og hóluðu 13 km á möl upp hinn snarbratta fjallveg Öxi, sem keppnin er kennd við. Efst á Öxinni voru hjólin skilin eftir og hlaupnir 19 km niður í Fossárdal. Þaðan var hjóluð 18 km leið út á Djúpavog.

 

Myndir frá keppninni má skoða með því að smella hér.

 

Hér að neðan má svo sjá tíma keppenda í ár, smellið á myndina til að stækka hana.

Texti: UÍA

 01.07.2013