Djúpivogur
A A

Fréttir

Blábjörg á Berufjarðarströnd friðlýst

Síðastliðinn miðvikudag þann 28. nóvember var mikið um dýrðir í Djúpavogshreppi þegar Blábjörg á Berufjarðarströnd voru formlega friðlýst í Löngubúð með staðfestingu umhverfis- og auðlindaráðherra Svandísar Svavarsdóttur. Gauti Jóhannesson sveitarstjóri stýrði athöfninni í Löngubúð eftir að heimamenn og gestir höfðu haft viðkomu á vettvangi hins friðlýsta undir handleiðslu landeigenda.

Auk ráðherra og embættismanna úr ráðuneytinu voru viðstaddir friðlýsingarathöfn þessa fulltrúar frá náttúrufræðistofnun og umhverfisstofnun ásamt landeigendum að Fagrahvammi þeim Auðbergi og Katrínu sem og fulltrúum frá Djúpavogshreppi.  Í ávarpi ráðherra að þessu tilefni kom m.a. fram mikil ánægja með framlag Djúpavogshrepps til umhverfis- og náttúruverndarmála á síðustu árum sem sjá má meðal annars í stefnu sveitarfélagsins í aðalskipulagi 2008 - 2020. Taldi ráðherra að með stefnu þessari hafi Djúpavogshreppur sýnt mikla framsýni og skapað sér jákvæða sérstöðu til framtíðar litið. 

Önnur ávörp fluttu þau Sigrún Ágústdóttir frá umhverfisstofnun, Andrés Skúlason oddviti Djúpavogshrepps, Auðbergur Jónsson landeigandi að Fagrahvammi og síðast en ekki síst lýsti Kristján Jónsson frá náttúrufræðistofnun á skemmtilegan og fræðandi hátt hinum friðlýstu náttúruminjum að Blábjörgum.

Friðlýsingarathöfn þessi tókst í alla staða afskaplega vel og er ljóst að fáir viðburðir í sveitarfélaginu séu einmitt betur til þess fallnir að auglýsa sveitarfélagið með jákvæðum hætti heldur en hér um ræðir.  

Lesendum til upplýsingar bað undirritaður Kristján Jónsson frá NI að senda útdrátt úr erindi því sem hann hélt í Löngubúð á degi friðlýsingar Blábjarga og brást hann góðfúslega við því og er birt hér meðfylgjandi. 

Undirritaður óskar að lokum íbúum Djúpavogshrepps til hamingju með að enn einni perlunni er nú bætt í safn friðlýstra náttúruminja til verndar um framtíð alla. 


Andrés Skúlason
oddviti og form. skipulags- bygginga og umhverfisnefndar


Sjá einnig umfjöllun á heimasíðu umhverfis- og auðlindaráðuneytis.


Úr erindi frá Kristjáni Jónssyni jarðfræðingi hjá Náttúrufræðistofnun:

Blábjörg eru hluti af flikrubergslagi, sem hefur verið kallað Berufjarðartúff. Berufjarðartúffið má rekja upp með fjöllunum til norðausturs frá Blábjörgum og er t.d. áberandi í Berunestindi. Þetta flikruberg myndaðist fyrir 9-10 milljón árum við gjóskuhlaup í miklu sprengigosi. Það er að mestu úr sambræddum líparítvikri, en basaltbergbrot finnast einnig. Vikurinn var það heitur þegar hann lagðist yfir landið að hann bráðnaði saman að hluta og varð að þéttu bergi. Löngu síðar þegar túffið hafði grafist djúpt í jarðlagastaflann ummyndaðist bergið og steindin klórít myndaðist í því, en það er hún sem gefur berginu grænleitan blæ. Enn síðar grófu jöklar ísaldar sig niður í jarðlagastaflann og opnuðu okkur sýn í berggrunninn.

Gjóskuhlaup eins og það sem myndaði Berufjarðartúffið eru hættulegastu fyrirbæri sem myndast geta í eldgosum en í þeim þeytist brennheit gjóska á miklum hraða niður hlíðar eldfjallsins. Í öflugum sprengigosum myndast mikil gjóska sem stígur upp í andrúmsloftið og myndar gosmökk yfir eldstöðinni. Ef gosmökkurinn reynist þyngri en andrúmsloftið fellur hann saman og myndar gjóskuhlaup sem renna eftir yfirborði jarðar. Algengur hraði gjóskuhlaupa er á bilinu 100-150 km/klst og það er því ekki á færi nokkurs manns að koma sér undan slíku. Gjóskuhlaup geta líka myndast við hrun í eldfjöllum og hafa stundum verið nefnd eldský, enda er hitastig þeirra mörg hundruð gráður. Gjóskuhlaup hafa valdið mesta beina manntjóni sem þekkt er samfara eldgosum. Til dæmis varð gjóskuhlaup í eldfjallinu Mt. Pelée á eyjunni Martiník árið 1902 og lagði borgina Saint-Pierre í eyði. Allir íbúar borgarinnar, um 28.000 manns, fórust á tveimur mínútum.

Meiriháttar gjóskuhlaup á Íslandi eru ekki þekkt á nútíma, en í eldri jarðmyndunum er nokkuð um flikruberg. Í Þórsmörk er þykkt flikrubergslag sem myndaðist í meiri háttar gjóskuhlaupi frá Tindfjallajökli fyrir um 54.500 árum. Meiriháttar sprengigos, líkleg til þess að valda miklum gjóskuhlaupum jafnframt því að dreifa miklu magni af gjósku yfir hafið umhverfis Ísland, verða sem betur fer aðeins á tuga eða hundruð þúsunda ára fresti. Rannsóknir á hafsbotnsseti umhverfis landið benda til þess að slíkt hafi gerst 45 sinnum síðustu 6 milljón árin, eða á 130.000 ára fresti að jafnaði.

Í Blábjörgum eru varðveittar merkar upplýsingar um mikilvægt augnablik í jarðsögu Íslands. Þetta er besta heimildin sem við höfum um stórkostlegan atburð. Blábjörg hafa því mikið gildi á svipaðan hátt og handritin sem geyma sögu þjóðarinnar.

Auk þess eru Blábjörg sérlega aðgengilegur staður til að skoða flikruberg og fræðast um gjóskuhlaup.

Kristján Jónasson (eftir ýmsum heimildum)     

 

 

 

 

 Umhverfis- og auðlindaráðherra Svandís Svavarsdóttir staðfestir friðlýsingu Blábjarga

 

Umhverfisráðherra hrósaði aðalskipulagi sveitarfélagsins í hástert og þeirri stefnu sem 
Djúpavogshreppur heldur þar á lofti er varðar umhverfis- og náttúruvernd. 

 

Kristján Jónsson frá Náttúrufræðistofnun með fróðlegt erindi um flikrubergið á Blábjörgum

 

Oddviti með erindi um næstu skref er varðar friðlýsingar í sveitarfélaginu

 

Sigrún Ágústdóttir frá Umhverfisstofnun flytur ávarp og fer lofsamlegum orðum um sveitarfélagið. 


Landeigandinn að Blábjörgum  læknirinn og stórbóndinn í Fagrahvammi Auðbergur Jónsson flytur skemmtilegt ávarp.


 Landeigendur og fulltrúi sveitarfélagsins skrifa undir f.v. Auðbergur, Katrín og Gauti.Sigrún Ágústdóttir frá UST með landeigendum við undirskrift 

 

Kristján Jónsson frá NI og Guðríður Þorvarðardóttir sérfræðingur frá umhverfisráðuneytinu.

 

Sigrún Ágústdóttir færir landeigenda gjöf frá Umhverfisstofnun og sveitarfélaginu einnig.

 

Oddviti færir ráðherra gjöf frá Djúpavogshreppi - mynd af Blábjörgum með Búlandstindinn í bakgrunni. 

30.11.2012

Sveitarstjórn: Fundarboð 03.12.2012

Sveitarstjórn: Fundarboð 03.12.2012


Aukafundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps mánudaginn 3. desember 2012 kl. 12:30.
Fundarstaður: Geysir.


Dagskrá:

1.    Sala eigna - HelgafellDjúpavogi, 30. nóvember 2012;
Sveitarstjóri

30.11.2012

Fjölskylduguðsþjónusta

Fjölskyldumessa í Djúpavogskirkju kl. 14.00 á 1. sunnudegi í aðventu, 2. desember.

Börn kveikja á 1. kertinu á aðventukransinum.  Piparkökur og kaffi eftir messu.
 
Kær kveðja,  Sjöfn.

29.11.2012

Úthlutun hreindýraarðs

Drög að úthlutun hreindýraarðs fyrir árið 2012 á ágangssvæði/jarðir í sveitarfélaginu liggja frammi á skrifstofu sveitarfélagsins til 11. desember. Það er jafnframt sá frestur sem gefinn er til að gera skriflegar athugasemdir sem skulu sendast til:

Skrifstofa Umhverfisstofnunar
Tjarnarbraut 39A
Pósthólf 174
700 Egilsstaðir

Sveitarstjóri

29.11.2012

Breyting á opnunartíma bókasafnsins í dag.

Bókasafnið verður opið frá 19:10 - 20:00 í dag, fimmtudaginn 29. nóvember. 
Jólabækurnar eru byrjaðar að koma í hús. 

Bókasafnsvörður

Hús rís í Hlíð, pt. II

Það er óhætt að segja að mikið hafi gengið á í gær og í dag í Hlíð 4. Þar hefur nefnilega risið eitt stykki hús.

Meira um það í þessu myndasafni.

Sjá einnig: Hús rís í Hlíð, pt. I

ÓB

28.11.2012

Bikarmót ÚÍA í sundi

Bikarmót Austurlands í sundi fór fram hér á Djúpavogi síðastliðinn sunnudag. Ríflega 80 keppendur frá sex sunddeildum á Austurlandi mættu til leiks og kepptust við að safna stigum fyrir sitt félag. En mótið er stigamót þar sem stigahæsta liðið hlýtur tiltilinn Bikarmeistari Austurlands.

Neisti tefldi fram fjölmennu og öflugu liði, staðráðnir í að verja tiltilinn þar sem við unnumi mótið í fyrra. Mikil spenna ríkti þegar úrslit voru tilkynnt og fagnaðarlæti heimamanna létu ekki á sér standa þegar ljóst var að Neisti bar sigur úr bítum bæði sem stigahæsta karla- og kvennalið sem og í heildarstigakeppni mótsins. Lið Leiknis varð í öðru sæti í heildarstigakeppni mótsins og Austri í því þriðja.

Framkvæmd mótsins var í höndum sundráðs UÍA og gekk vel, en fjöldi sjálfboðaliða lagði sitt af mörkum. Einn þeirra var Sprettur Sporlangi sem veitti verðlaun og vakti almenna kátínu keppenda og áhorfenda.

Djúpavogshreppur gaf bikarinn þar sem Neisti vann síðasta bikar til eignar á mótinu í fyrra.

Við Neistafólk þökkum öllum sem komu að skipulagningu, undirbúningi og sjálfboðavinnu á mótinu fyrir gott starf. Viljum benda á þá frábæru vinnu krakkana með þjálfara sínum sem skilar inn góðum árangri á hverju móti. Hvetjum krakkana okkar áfram til þátttöku í íþróttum og við uppskerum öll.

26.11.2012

Myndir ofan af Búlandstindi

Við vorum að setja inn myndasafn sem inniheldur myndir úr ferð Andrésar Skúlasonar á Búlandstind árið 2006. Myndirnar eru flestar teknar ofan af Búlandstindi og eru mjög fjölbreyttar og skemmtilegar.

Myndirnar er hægt að skoða með því að smella hér. Þær eru einnig að finna undir Myndasafn - Ýmsar myndir.

ÓB

26.11.2012

Í gestaviku

Þessi vika sem nú er að líða er svokölluð gestavika en þá gefst fólki kostur á að koma í heimsókn í leikskólann og fylgjast með starfinu.  Afar, ömmur, frænkur, frændur, mömmur og pabbar hafa kíkt til okkar og tekið þátt í starfinu með sínu barni.  Á Kríudeild komu 29 gestir og á Krummadeild komu 24 gestir sem dreifðust nokkuð jafnt og þétt yfir vikuna.  Það er von okkar á leikskólanum að gestirnir hafi fengið smá innsýn inn í starf leikskólabarnsins en það er alltaf gaman að geta kynnt fyrir fólki þá mikilvægu vinnu sem unnin er hér í leikskólanum. 

Móðir og sonur saman í einingakubbum

Faðir og dóttir saman í einingakubbum

Móðir og sonur (sem er hér í horninu og sést lítið í) í holukubbum

 

ÞS

Jónas og Ómar í Löngubúð

Jónas Sigurðsson og Ómar Guðjónsson hafa verið á ferðalagi um landið síðustu daga og flutt lög af nýjum plötum sínum. Jónas gaf nýverið út, ásamt Lúðrasveit Þorlákshafnar, plötuna Þar sem himin ber við haf og Ómar gaf út sólóplötu sem ber nafnið Útí geim. Báðar plötur hafa hlotið einróma lof gagnrýnenda og nokkur lög af þeim eru orðnir tíðir gestir á útvarpsrásum landsins, þar á meðal eitt vinsælasta lag landsins síðustu vikur, Hafið er svart með Jónasi.

Þeir félagar ætla að spila í Löngubúð, sunnudaginn 25. nóvember kl. 13:00. Frítt verður inn á tónleikana.

Þeir verða vopnaðir tveimur trommusettum, gítar, bassa og hljómborði.

Við hvetjum fólk til að fjölmenna á þessa tónleika en þeir tónleikar sem að baki eru í þessari röð hafa verið vel sóttir og vakið mikla lukku.

Hér má sjá dagbókarfærslu frá þeim félögum frá því í gær og brot frá tónleikunum á Vopnafirði og Eskifirði.

ÓB

 

 

23.11.2012

Félagsvist í Löngubúð í kvöld

Við minnum á félagsvist í Löngubúð kl. 20:30 í kvöld.

Golfklúbbur Djúpavogs

23.11.2012

Glaðar og góðar !!

Enn voru kvenfélagskonur að gefa Djúpavogsskóla góðar gjafir.
Fyrir nokkru gáfu þær Íþróttamiðstöðinni / grunnskólanum sundblöðkur að andvirði 100.000.- Koma þær sér mjög vel í sundkennslu grunnskólabarnanna.
Í morgun fengum við síðan pakka í leikskólann, þroskaleikföng með seglum að andvirði 60.000.-  Þeir Fabian, Marjón, Gergö og Sævar Atli tóku við gjöfinni f.h. barnanna og kvenfélagskonurnar Ingibjörg og Bergþóra, sem starfa í leikskólanum afhentu þeim gjöfina formlega.

Enn og aftur vil ég þakka öllum þessum frábæru kvenfélagskonum fyrir velvilja í garð Djúpavogsskóla og barnanna á Djúpavogi.  Þær lengi lifi !!!   HDH

Stafrænu skemmtiatriðin frá Sviðamessu

Eins og flestir vita fór Sviðamessa 2012 fram á Hótel Framtíð um síðustu helgi. Sem fyrr voru það Djúpavogsbúar búsettir á höfuðborgarsvæðinu sem sáu um skemmtiatriðin. Stór hluti þeirra var á stafrænu formi og vakti gríðarlega lukku.

Nú hefur Sviðamessunefndin birt flest þeirra á netinu og við ákváðum að taka þau saman, auk tveggja myndbanda sem birt voru í vikunni fyrir Sviðamessu.

Hæst bara síðasti hluti Lion King en það ætlaði bókstaflega allt að vera vitlaust í salnum af hlátri þegar hann var sýndur.

Myndbönd frá síðustu Sviðamessu, auk allra hluta Lion King má finna á YouTube rás Skúla Andréssonar.

ÓB

 

 

 

17.11.2012

Sveitarstjórn: Fundargerð 15.11.2012

Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.

ÓB

16.11.2012

Félagsvist í Löngubúð í kvöld

Minnum á félagsvistina í Löngubúð föstudaginn 16. nóvember kl. 20:30

Golfklúbbur Djúpavogs

16.11.2012

Nýtt myndasafn frá Árna Ingólfssyni

Við höfum fengið sent annað myndasafn frá Árna Ingólfssyni.

Við kunnum honum bestu þakkir fyrir, þið getið skoðað myndasafn Árna með því að smella hér. Nýja myndasafnið er merkt "Safn II".

ÓB

16.11.2012

Gestavika í Djúpavogsskóla

Næsta vika, 19. - 23. nóvember er GESTAVIKA í Djúpavogsskóla.  Þá eru allir íbúar sérstaklega velkomnir í skólann.  Hægt er að heimsækja grunn- og tónskólann á þeim tímum sem skólarnir eru opnir en heimsóknartími í leikskólann er sem hér segir:
Krummadeild 9:00 - 11:30 og 14:00 - 16:00
Kríudeild 9:00 - 12:00 og 13:00 - 16:00

Ýmis verkefni verða til sýnis í grunn- og leikskólanum sem gaman er að skoða.

Starfsfólk og nemendur Djúpavogsskóla

Afleysingar í Bjarkatúni

Starfsmann vantar í afleysingar í Bjarkatúni, 22., 23., 26. og 27. nóvember.
Vinnutími frá 8:00 - 14:00
Umsóknarfrestur er til 16:00 þann 20. nóvember.  Áhugasamir hafi samband við Halldóru í síma:  478-8832, 899-6913 eða á netfangið:  skolastjori@djupivogur.is

Skólastjóri Djúpavogsskóla

Jólahlaðborð á Hótel Framtíð

Sjá hér að neðan auglýsingu um jólahlaðborð frá Hótel Framtíð.

ÓB

 

 

 

 

 

 

 

 

14.11.2012

Sveitarstjórn: Fundarboð 15.11.2012

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps:  Fundarboð 15.11.2012

31. fundur 2010 – 2014

Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 15. nóvember 2012 kl. 16:00.
Fundarstaður: Langabúð.

Dagskrá:

1.    Fjárhagsleg málefni

a)    Fjárhagsáætlun Djúpavogshrepps 2013.

2.    Fundargerðir

a)    Fræðslu- og jafnréttisnefnd, dags. 17. október 2012
b)    Brunavarnir á Austurlandi, dags. 29. október 2012.
c)    Brunavarnir á Austurlandi, dags. 6. nóvember 2012.
d)    Hafnasamband Íslands, dags. 15. október 2012.
e)    Skólaskrifstofa Austurlands, dags. 25. október 2012.
f)    Atvinnuþróunarsjóður Austurlands, dags. 5. nóvember 2012.
g)    Héraðsskjalasafn Austfirðinga, dags. 12. september 2012.
h)    Héraðsskjalasafn Austfirðinga, dags. 18. október 2012.
i)    Heilbrigðiseftirlit Austurlands, dags. 24. október 2012.
j)    Samband íslenskra sveitarfélaga, dags. 26. október 2012.
k)    Sjávarútvegssveitarfélög, dags. 22. október 2012.
l)    Sjávarútvegssveitarfélög, dags. 7. nóvember 2012.

3.    Erindi og bréf

a)    UMF. Neistidags. 2. nóvember 2012.
b)    Skógræktarfélag Djúpavogs, dags. 9. nóvember 2012.
c)    Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, dags. 1. nóvember 2012.
d)    Landsbyggðin lifi, dags. 2. nóvember 2012.
e)    SÁÁ, dags. 4. október.
f)    Landssamband hestamannafélaga, dags. 3. október 2012.
g)    Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum, dags. 26. október 2012.
h)    Stígamót, styrkbeiðni, ódags.
i)    Nefndasvið Alþingis, dags. 8. nóvember 2012.
j)    Austurbrú, dags. 8. nóvember 2012.
k)    Blátt áfram, dags. 6. nóvember 2011.
l)    Snorrasjóður, dags. 8. nóvember 2012.

4.    Málefni ferða- og menningarmálafulltrúa
5.    Málefni félagsmálanefndar
6.    Byggðakvóti
7.    Félagsstarf eldri borgara
8.    Sala eigna
9.    Skýrsla sveitarstjóra

 

Djúpavogi, 13. nóvember 2012;
sveitarstjóri

13.11.2012

Menningarráð Austurlands auglýsir verkefnastyrki fyrir árið 2013

Hér að neðan eru tvær auglýsingar frá Austurbrú vegna umsókna til verkefnastyrkja árið 2013.

Signý Ormarsdóttir verður með viðveru í Geysi vegna þessa, fimmtudaginn 15. nóvember frá 15:00 - 18:00.

Smellið á auglýsingarnar hér að neðan til að skoða nánar.

ÓB

 

 

 

13.11.2012

Hjálmar og öryggisvesti á leikskóla Djúpavogs

Gréta Jónsdóttir, umboðsmaður Sjóvár á Djúpavogi, færði nýlega leikskólanum Bjarkatúni á Djúpavogi um 30 öryggisvesti og tvo öryggishjálma vegna notkunar á tveimur hlaupahjólum í eigu leikskólans.

Frá vinstri eru þau Brynja og Óðinn komin með nýju hjálmana á höfuðið. Stepanie Tara klæddi sig í öryggisvesti, en þau lýsa vel í myrkri og geta því komið sér afar vel í vetur. Á leikskólanum á Djúpavogi setja börnin öryggið á oddinn!

ÓB

 

 

 

Pennasala um helgina

 

Nemendur í 6. 7. og 8. bekk munu ganga í hús um helgina til að selja penna, til styrktar Félagi heyrnleysingja. Sölulaun nemendanna rennur í ferðasjóð þeirra þar sem farið verður í skólaferðalag í vor.

Vinsamlega takið vel á móti krökkunum.

LDB.

Frá félagi eldri borgara

Fundur verður haldinn í félagi eldri borgara laugardaginn 10. nóvember kl. 13:00 í Löngubúð.

Sveitarstjóri og oddviti mæta á fundinn.

Nýir félagar velkomnir, kaffi verður í boði sveitarstjórnar.

Stjórnin

07.11.2012

Dagskrá Daga myrkurs

Í meðfylgjandi auglýsingu má sjá dagskrá Daga myrkurs á Djúpavogi.

Smellið á hana til að stækka.

ÓB

 

 

 

 

 

 

 

07.11.2012

Kósýkvöld í Samkaup-Strax

Í tilefni Daga myrkurs, verður kósýkvöld í Samkaup-Strax miðvikudagskvöldið 7. nóvember frá 20:00 - 22:00.

Boðið verður upp á fullt af góðum tilboðum, kynningar á vörum og alls konar gleði.

Samkaup-Strax

07.11.2012

Tryggvi Þór með fund á Hótel Framtíð

Tryggvi Þór Herbertsson verður með opinn fund á Hótel Framtíð í kvöld, kl. 20:00.

Fundurinn ber yfirskriftina „Hvernig búum við Austurland sem best undir framtíðina?“

ÓB

05.11.2012