Djúpivogur
A A

Fréttir

Ráðherrar í heimsókn á Djúpavogi

Það hefur verið í nógu að snúast að undanförnu fyrir fulltrúa sveitarstjórnar Djúpavogshrepps svona með öðrum verkum  að undirbúa og taka á móti ráðherrum sem hafa sótt sveitarfélagið heim á síðustu dögum.  

Þann 29. ágúst heimsótti Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra Djúpavog ásamt fríðu föruneyti.  Tekið var á móti ráðherra í menningarhúsinu Löngubúð, þar sem sveitarstjóri og oddviti fóru yfir ýmis þjóðþrifamál er brenna á sveitarfélaginu í málaflokkum sem snerta viðkomandi ráðherra.  Þá var ráðherra menningarmála mjög áfram um að kynna sér Ríkarðssafn og allt í kringum þá starfsemi sem í Löngubúð er.  Í lok heimsóknar óskaði ráðherra eftir að fá að sjá listaverkið í Gleðivík eftir Sigurð Guðmundsson og var hún að sjálfsögðu mjög hrifinn af því eins og aðrir þeir sem hafa litið þetta stórkostlega listaverk augum.  Ráðherra og fylgdarlið keyrðu svo áfram suður á bóginn eftir velheppnaða heimsókn hingað til Djúpavogs. Gaman annars  frá því að segja að ráðherra Katrín hafði sérstaklega orð á því hve það væri mikið líf í bænum á Djúpavogi þegar hún mætti, bara allt iðandi af lífi.   

Þann 5. sept. mættu svo helstu frammámenn samgöngumála  í heimsókn á Djúpavog, en þar fór fremstur í flokki innanríkisráðherra sem fer með samgöngumál og svo vegamálastjóri ásamt fylgdarliði,  samtals 8 aðilar, þá var Valgerður Andrésdóttir eiginkona ráðherra með í för.  Ráðherra kom akandi með föruneyti frá Reyðarfirði stystu leið um Öxi á Djúpavog og lýsti ómældri hrifningu sinni á þessari leið sem hann var að fara í fyrsta skipti á ævinni.  

Tekið var á móti innanríkisráðherra og fylgdarliði í Löngubúð og þegar sveitarstjóri hafði boðið gesti velkomna og farið nokkrum orðum yfir ýmis mál hér í okkar ágæta samfélagi á Djúpavogi birti oddviti glærur á tjaldi þar sem hann fór yfir helstu áherslur Djúpavogshrepps í samgöngumálum og bar Axarvegur með tilheyrandi framkvæmdum í botni Berufjarðar og Skriðdals þar auðvitað höfuð og herðar yfir önnur mál.  

Að fyrirlestri oddvita loknum tóku ráðherra og vegamálastjóri síðan til máls og fóru yfir ýmis mál, m.a. samgönguáætlun og margt fl.   Eftir góðar samræður og spjall um samgöngumál og síðan einnig önnur málefni er snúa að sveitarstjórnarstiginu þá lýsti ráðherra sérstakri ánægju með þann mikla kraft sem væri í forsvarsmönnum sveitarfélagsins við eftirfylgni í samgöngumálunum og hvatti heimamenn til áframhaldandi báráttu fyrir þeim áherslum sem sveitarfélagið hefur. 

Við lok heimsóknar færði sveitarstjóri innanríkisráðherra að gjöf bækur tvær eftir Ingimar Sveinsson, áritaðar af höfundi.  Þá bætti sveitarstjóri við annarri góðri gjöf sem var útskorinn Öxi úr hreindýrshorni unnin af hagleiksmanninum Hauki Elíssyni frá Starmýri. Á öxina hafði svo Jón Friðrik grafið haganlega texta " Öxi fyrir alla". Ferð ráðherra lauk á sama hátt og mennta- og menningaráðherra þ.e. hjá listaverkinu í Gleðivík en innanríkisráðherra hafði sömuleiðis mikinn áhuga á að skoða listaverkið og má segja að aðdáun þessa hóps hafi ekki verið minni en hinna og kvöddu menn því glaðir í sinni eftir góða heimsókn til Djúpavogs.

AS

 

Oddviti og ráðherra mennta- og menningar við listaverkið í Gleðivík 

Innanríkisráðherra, vegamálastjóri og embættismenn ráðuneytis ásamt
hluta sveitarstjórnar og sveitarstjóra Djúpavogshrepps

Sveitarstjóri færir Innanríkisráðherra gjöf

Öxi fyrir alla 

07.09.2012

Frá Karlakórnum Trausta

Karlakórinn Trausti heldur fyrsta fund sinn að loknu sumarfríi á Helgafelli laugardaginn á 8. september kl. 17:00.
Fjallað verður um starfið framundan, lagaval og fleira. Kórfélagar eru hvattir til að mæta og nýjir félagar eru sérstaklega velkomnir.

Léttar veitingar í boði.

Stjórnin

07.09.2012

Skúrinn við Bakkabúð fjarlægður

Í sumar var skúrinn sem staðið hefur við Bakkabúð, frá því að hún hét Essósjoppan, rifinn. Hlutverk hans hefur síðustu ár verið að hýsa ryksugu og loftpressu fyrir þvottaplanið og flestir sammála um að þessi miður fallegi skúr sé óþarflega stór bygging fyrir svo lítið hlutverk. Í stað skúrsins var settur snyrtilegur kassi og um leið settur sjálfvirkur loftmælir, sem svo víða er orðinn staðalbúnaður.

Það voru Kristján Karlsson, Nökkvi Flosason, Sigurjón Stefánsson og Magnús Kristjánsson sem sáu um að koma gamla skúrnum í burtu, sem gekk algerlega snurðulaust eins og meðfylgjandi myndir sýna.

ÓB

 

 

 

 


Kristján Karlsson byrjaður að hífa


Sigurjón Stefánsson, með athygli ígulkersins að leiðarljósi


Nökkvi Flosason, öryggið uppmálaðFrekar tómlegt um að litast


Að sjálfsögðu vakti það athygli vegfarenda að skúrinn væri horfinn


Nýji kassinn. Allt annað að sjá þetta, nema að sá sem notaði ryksuguna síðast er greinilega ekkert sérstaklega laginn við ganga frá henni.

06.09.2012

Malbikun í Hlíð og Brekku

Þá var loksins ráðist í að malbika Hlíð og Brekku í sumar. Meðfylgjandi eru myndir frá framkvæmdunum. Einnig eru myndir frá vinnu við gangstéttar sem Egill Egilsson og félagar sjá um, en nýlega var byrjað að steypa í Brekku og undirbúningsvinna í Hlíð er einnig hafin.

Myndirnar má sjá með því að smella hér.

ÓB

05.09.2012

Quest of Adventure á Djúpavogi

Í lok ágúst kom skemmtiferðaskipið Quest of Adventure til Djúpavogs. Er þetta í fyrsta skipti sem þetta skip kemur hingað, en systurskip þess, Spirit of Adventure kom tvisvar í fyrra. Veður var gott og nýttu margir farþegar skipsins fjölbreytta afþreyingu sem í boði var í landi.

Sveitarstjóra var boðið út í skip og fór þangað ásamt fulltrúa sýslumanns og ljósmyndara á vegum heimasíðunnar. Fengu þeir félagar höfðinglegar móttökur en sveitarstjóri færði skipstjóra skipsins virðingarvott frá Djúpavogshreppi.

ÓB
Myndir: MK, ÓB

 


Magnús Hreinsson og Gauti Jóhannesson


Gauti sveitarstjóri ásamt Wesley Dunlop, skipstjóra

05.09.2012

Gangbraut og "Göngum í skólann"

Eins og flestir íbúar hafa séð er búið að mála þessar fínu gangbrautir og bílastæði við grunnskólann og íþróttamiðstöðina.  Í gegnum tíðina hafa borist ábendingar til skólastjóra varðandi það að börnin séu að hlaupa yfir göturnar - hér og þar og allstaðar - og oft hafi legið við slysi.
Á kennarafundi í síðustu viku var ákveðið að við tækjum okkur góðan tíma í að kenna börnunum að fara yfir gangbrautirnar þegar þau fara í matinn og teljum við að það eigi eftir að ganga vel.

Viljum við því biðja þá foreldrar, sem sækja börnin sín í mat og alla þá sem leið eiga um þetta svæði á skólatíma að sýna tillitssemi, stoppa fyrir börnunum og hjálpa þeim að nýta gangbrautirnar eins og til er ætlast.

Þá viljum við einnig vekja athygli á því að næsta mánuðinn stendur yfir verkefnið "Göngum í skólann" og því margir á ferðinni - gangandi og hjólandi, bæði börn og fullorðnir.

HDH

Neistatímar haust 2012

Kæru foreldrar Neistabarna

Núna fyrstu tvær vikurnar í skóla og Neistatímum verður fínpússun á tímum svo endanleg tafla verði til. Við viljum bjóða alla krakka velkomna í alla tíma hjá þeirra aldurshóp fyrstu tvær vikurnar. Eftir það festa þau sig í ákveðnum tímum. Engir tímar eru felldir niður þar sem aðsókn í tíma er góð. Við erum hins vegar að reyna eftir fremsta megni að þjappa töflunni svo dagurinn verði styttri.

Þjálfarar í ár eru Ester Sigurásta með sund og íþróttir, Óðinn verður fótboltaþjálfari og einnig með frjálsar íþróttir og Hörður verður með honum í þeim tímum. Albert hefur gefið kost á sér í afleysingar.

Þær breytingar á töflu sem við sjáum strax er á þriðjudögum að sund hjá 7. – 10. bekk færist fram um einn tíma, fara þá nemendur beint úr kennslu í sundþjálfun og er þá skóladagurinn búinn kl. 15.

Samkvæmt skráningum í dag er metþátttaka í stelpu fótbolta, frjálsum íþróttum yngri og íþróttum eldri. Hlökkum við til að vinna með þjálfurum, nemendum og foreldrum í vetur. Foreldrar eru ávallt velkomnir í tíma. Það er mjög hvetjandi fyrir nemendur að fá foreldra í heimsókn.

Stjórn Neista

Rjúpur í vari

Í morgun var heldur betur hvasst á Djúpavogi og voru hviðurnar sem komu reglulega ansi öflugar. Þessar fallegu rjúpur urðu að leita skjóls við girðinguna og var gaman að fylgjast með þeim hvernig þær færðu sig til við girðinguna eftir því hvar skjólið var mest.  Þær voru þarna í ca. 4-5 klst. en hvar þær eru núna veit enginn.  

Myndirnar eru teknar í gegnum gluggann í leikskólanum.

ÞS

 

 

 

 

 

 

Getraun dagsins:  Hvað eru rjúpurnar margar?

 

Frá splitt og spíkat hópnum

Splitt og spíkat hópurinn ætlar að byrja að sprikla aftur þriðjudaginn 4. september kl. 18:00 í íþróttahúsinu.

Dagskráin í vetur verður:
Mánudagar, kl. 18:00 -  Zúmba
Þriðjudagar, kl. 18:00 - Þrekhringur
Fimmtudagar, kl 17:00 - Zúmba
Fimmtudagar, kl. 18:00 - Þrekhringur

Einungis þarf að greiða í salinn kr. 500 fyrir tímann. Einnig er hægt að kaupa kort.

Allir velkomnir
Splitt og spíkat

03.09.2012

Göngum í skólann

"Göngum í skólann" átakið hefst miðvikudaginn 5. september.  Eins og undanfarin ár er Djúpavogsskóli þátttakandi í verkefninu.   Í ár verður Göngum í skólann haldið í sjötta sinn hér á landi. Því lýkur formlega með alþjóðlega Göngum í skólann deginum miðvikudaginn 3. október. Sem fyrr verður lögð áhersla á að börn gangi eða hjóli til og frá skóla. Markmið verkefnisins eru að hvetja til aukinnar hreyfingar með því að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og fræða þau um ávinning reglulegrar hreyfingar.

HDH