Djúpivogur
A A

Fréttir

Rútuferð í Mjóafjörð - Ferðafélag Djúpavogs

Rútuferð í Mjóafjörð  21 júlí 2012

Farið frá Við Voginn kl 10:00

Fargjald 2000. kr á mann (ekki færri en 8 manns)

Upplýsingar Haukur Elísson s.844-6831 og Eðvald s. 894-2292

18.07.2012

Eyðing lúpínu - átaksverkefni

Með bréfi þessu eru íbúar hvattir að taka þátt í átaki við upprætingu á lúpínu hér innan þéttbýlisins á Djúpavogi. 

Til að byrja með hefur verið ákveðið að einbeita sér fyrst að eyðingu á lúpínu á svæðinu frá Bóndavörðu að Borgarhól.
Starfsmenn áhaldahúss DPV. munu einnig vinna að eyðingu lúpínu á næstunni en þó mest á nærsvæðinu utan þéttbýlisins.

Nú er tíminn til að herja á þennan skaðvald sem ógnar íslensku flórunni á stórum svæðum hér í og við þéttbýlið. Íbúar sem vilja leggja framtakinu lið eru gefnar frjálsar hendur með að slá lúpínuna niður hvar sem hana er að finna og mega byrja strax.
Skemmtilegast væri ef margir myndu taka sig saman og ganga skipulega til verks. Mikilvægt er að slá lúpínuna alveg niður við jörð. Sömuleiðis er hvatt til að eyðingu á njóla, kerfil og hvönn og öðru illgresi í leiðinni.

                                                       Allir að vera með sem vettlingi geta valdið

                                           Umhverfisnefnd Dpv og áhugahópur um eyðingu lúpínu  

17.07.2012

Stígvélaði kötturinn í Hálsaskógi

Leikhópurinn Lotta sýnir laugardaginn 21. júlí klukkan 17:00 glænýtt íslenskt leikrit um Stígvélaða köttinn í Hálsakógi. Þetta er sjötta sumarið sem Leikhópurinn Lotta setur upp útisýningu en síðastliðin sumur hefur hópurinn tekist á við Mjallhvíti og dvergana sjö, Hans klaufa, Rauðhettu, Galdrakarlinn í Oz og Dýrin í Hálsaskógi. Frumsýningin fór fram í Elliðaárdalnum í Reykjavík en í framhaldinu mun hópurinn ferðast með sýninguna og heimsækja yfir 50 staði víðsvegar um landið.

Leikgerðina um Stígvélaða köttinn gerði Anna Bergljót Thorarensen. Þetta er annað leikritið sem hún skrifar fyrir hópinn en hún hefur verið meðlimur í Leikhópnum Lottu frá stofnun hans árið 2006. Ný tónlist hefur einnig verið samin fyrir verkið og tóku bræðurnir Baldur og Snæbjörn Ragnarssynir að sér það hlutverk.

Stígvélaða köttinn þekkja flestir en auk hans eru ævintýrin um Nýju fötin keisarans og Birnina þrjá fléttuð inn í söguþráðinn. Alls eru sex leikarar í sýningunni sem skipta á milli sín 13 hlutverkum. Þá er flutt lifandi tónlist, söngur og dans og því nóg um að vera. Herlegheitunum er síðan leikstýrt af Ágústu Skúladóttur sem stýrir einnig Dýrunum í Hálsaskógi sem sett verður upp í Þjóðleikhúsinu í haust.

Miðaverð á sýninguna er 1.500 krónur og ekki þarf að panta miða fyrirfram heldur er alveg nóg að mæta bara á staðinn. Gott er að klæða sig eftir veðri þar sem sýnt er utandyra. Þá mælir Lotta með því að foreldrar taki myndavélina með þar sem áhorfendur fá að hitta persónurnar úr leikritinu eftir sýningu. Öllum þykir jú gaman að eiga mynd af sér með uppáhalds vini sínum úr Ævintýraskóginum.

Nánari upplýsingar um sýninguna má finna á www.leikhopurinnlotta.is og í síma 770-0403

 

17.07.2012

Uppræting lúpínu í þéttbýlinu

Hér með eru allir íbúar sem vettlingi geta valdir hvattir til að taka þátt í að uppræta lúpínu hér í þéttbýlinu og á nærsvæði á næstu dögum og vikum.  Samhliða er stefnt að því að sveitarfélagið vinni að því á næstunni að uppræta lúpínuna þar sem hún hefur breitt mest úr sér.

Um þessar mundir er einmitt talið rétti tíminn til að herja á þennan skaðvald sem ógnar m.a. tilveru íslensku flórunnar á stórum svæðum. Íbúum er hér með gefnar frjálsar hendur með að slá þetta illgresi niður, hvort heldur með sláttuorfum eða öðrum brúklegum verkfærum.  Að þessu tilefni er því beint til íbúa í viðkomandi hverfum að einbeita sér fyrst og síðast að þeim svæðum.   

Sveitarstjórn: Fundargerð 12.07.2012

Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.

16.07.2012

Sumarlokun skrifstofu Djúpavogshrepps

Skrifstofa Djúpavogshrepps verður lokuð frá 21. júlí til og með 19. ágúst vegna sumarleyfa.

Skrifstofan opnar aftur mánudaginn 20. ágúst kl. 13:00.

Sveitarstjóri

16.07.2012

Skógræktarfélag Djúpavogs 60 ára

Skógræktarfélag Djúpavogs var stofnað á sumardaginn fyrsta (24. apríl) 1952 og er því 60 ára. Við héldum upp á það 16. júní í blíðskaparveðri.

Séra Jóna Kristín Þorvaldsdóttir var með Skógarmessu og Kristján Ingimarsson spilaði á gítar og söng og spilaði undir fjöldasöng. Síðan gengum við um Hálsaskóg og skoðuðum meðal annars húsið sem við erum nýbúin að klæða. Þór og Björg í Sólhól gerðu fyrir okkur bekki í leikhúsið og Vilmundur í Hvarfi gerði skógar listaverk sem er nýbúið að setja upp, allt er þetta gert úr efnivið úr Hálsaskógi. Í Aðalheiðarlundi var afmælisveislan, þar var boðið upp á kaffi og meðlæti.

Leikskólinn Bjarkatún opnaði sína sumarsýningu á listaverkum í skóginum.

Myndir frá afmælishátíðinni má sjá með því að smella hér.

Myndir og texti: Anna Sigrún Gunnlaugsdóttir

12.07.2012

Ný salernisaðstaða í Faktorshúsi

Nú er búið að koma upp þessari fínu salernisaðstöðu í kjallara Faktorshússins. Egill Egilsson og starsfmenn hafa unnið hörðum höndum síðustu mánuði við verkið og óhætt að segja að vel hafi tekist til.

ÓB

 

 

 

 

 

 

Frágangur á kantsteinum við Hlíð og Brekku

Í dag, fimmtudag og á morgun föstudag verður gengið frá kantsteinum við göturnar Brekku og Hlíð. Eru húseigendur við göturnar og vegfarendur vinsamlegast beðnir um að sýna tillitsemi á meðan á verkinu stendur.

Sveitarstjóri

11.07.2012

Frábær árangur hjá sundkrökkunum okkar

Sundkrakkarnir hjá Neista bættu enn einni rósinni í hnappagatið á Sumarhátíð UÍA sem haldin var um síðustu helgi.  13 krakkar mættu til leiks en 9 af þeim sem eru líka að æfa komust ekki á mótið.  Voru menn því ekki allt of bjartsýnir á að sigur næðist að þessu sinni en þeir keppendur sem mættu voru komnir til að gera sitt allra besta.

Að venju var vaskur hópur foreldra með í för og er frábært að sjá hversu mikil samheldni er hjá Neistafólkinu og umgjörðin um börnin eins og best verður á kosið. 

Eftir fyrri daginn voru menn farnir að gæla við að kannski næðist nú silfrið, þrátt fyrir að keppendurnir væru með fæsta móti og spennan jókst eftir því sem leið á keppnina á laugardagsmorgninum.  Skemmtilegt var að fylgjast með boðsundunum í lokin og þegar verðlaunaafhendingin hófst mátti finna spennuna magnast.  Fyrst voru veitt þátttökuverðlaun fyrir 10 ára og yngri en síðan stigaverðlaun í hverjum aldursflokki fyrir sig.  Neisti átti þar tvo sigurvegara, þau Kamillu Marín Björgvinsdóttur í flokki 11-12 ára stúlkna og Bjarna Tristan Vilbergsson í flokki 13-14 ára drengja.  Frábær árangur hjá þeim.  Síðan voru lesin upp stig félaga og var byrjað á fimmta sætinu.  Þegar ljóst var að helstu keppinautarnir í Hetti og Þrótti hefðu lent í 2. og 3. sæti upphófust mikil fagnaðarlæti hjá Neistafólkinu þegar ljóst var að fyrsta sætið væri okkar, fjórða árið í röð.

Hér má sjá heildarstigin fyrir þrjú efstu sætin:

1. sæti  Neisti með 424 stig
2. sæti  Höttur með 384 stig
3. sæti  Þróttur með 262 stig

Ég held að við getum öll verið sammála um það að þessi árangur er stórkostlegur, sérstaklega í ljósi þess hversu fá börn standa á bak við árangurinn.  Mikilvægt er nú, sem endranær að hlúa að íþróttafélaginu okkar því við vitum öll hversu frábærar forvarnir íþróttir eru. 

Bjart er framundan í sundinu, fjölmennir árgangar eru að koma inn í grunnskólann og er hugur í þeim börnum.  Ljóst er að ef við fullorðna fólkið höldum áfram að standa okkur þá höfum við alla burði til að skara áfram fram úr á þessu sviði. 

Áfram Neisti.

Myndir frá Dröfn Freysdóttur eru hér.  HDH / HR

11.07.2012

Íbúðir fyrir eldri borgara kynntar

Djúpavogshreppur hefur unnið að því um nokkurt skeið að finna varanlega lausn á nýtingu fyrrum Dvalarheimilisins að Helgafelli í þágu eldri borgara í Djúpavogshreppi.

Að þessu tilefni stóð Djúpavogshreppur fyrir sérstökum fundi í húsnæði Helgafells síðastl. mánudag þar sem boðaðir höfðu verið íbúar 60 ára og eldri til að kynna sér tillögur að breytingum á húsnæði Helgafells í þrjár 60 ferm. leiguíbúðir. Fyrir hönd sveitarfélagisins kynntu sveitarstjóri og oddviti verkefnið ásamt hönnuði Guðrúnu Jónsdóttur FAÍ.  Eftir fundinn var svo farin vettvangsferð með gestum um húsið þar sem hönnuður lýsti nánari útfærslu. 

Hér með er áhugasömum aðilum bent á að kynna sér málið nánar á skrifstofu Djúpavogshrepps þar sem teikningar liggja frammi, ásamt því sem hægt er að fá nánari upplýsingar um málið.
Þrátt fyrir að sveitarfélagið sé áhugasamt um að ráðast í framkvæmdir þessar, liggur fyrir að það verður eftirspurnin sem mun ráða för og því er óskað eftir því að þeir sem áhuga hafa á málinu verði búnir að leggja inn bindandi umsókn um leigu á íbúð fyrir 1.sept. næstk.  Gert er ráð fyrir að ef ráðist verður í framkvæmdir að íbúðirnar verði til reiðu næsta vor. 


Hér fylgir svo smá sýnishorn af teikningum að breytingum til kynningar.

 

 

 

 

 

 

 

 

11.07.2012

Gjöf frá Guðmundi Magnússyni

Sveitarfélaginu barst í gær skemmtileg gjöf.

Um er að ræða samsetta mynd af Djúpavogi sem Guðmundur Vilmar Magnússon tók árið 1956 ofan af Bóndavörðu. Guðmundur varð síðar verksmiðjustjóri í Síldarverksmiðju Búlandstinds á Djúpvogi. Myndirnar voru framkallaðar og unnar af honum sjálfum um borð í MT Hamrafelli árið 1958.

Guðmundur sjálfur færði sveitarstjóra myndina í gær en hann var hér á ferð ásamt fjölskyldu sinni.

Djúpavogshreppur þakkar Guðmundi kærlega fyrir þessa fallegu gjöf.

ÓB

 

 


Sveitarstjóri tekur við myndinni frá Guðmundi.


Guðmundur Vilmar Magnússon ásamt konu sinni og dætrum.

11.07.2012

Sveitarstjórn: Fundarboð 12.07.2012

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundarboð 12.07.2012

28. fundur 2010 – 2014

Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 12. júlí 2012 kl. 16:00. Fundarstaður: Geysir.

Dagskrá:

1. Fjárhagsleg málefni

a) Sala eigna.

2. Fundargerðir

a) SBU, dags. 28. júní 2012.
b) FJN, dags. 27. júní 2012.
c) Samband íslenskra sveitarfélaga, dags. 29. júní 2012.
d) Hafnasamband Íslands, dags. 20. júní 2012.

3. Erindi og bréf

a) Umhverfisráðuneytið, ódags.
b) Fjárlaganefnd Alþingis, dags. 18. júní 2012.
c) N4, dags. 2. júlí 2012. Lagt fram til kynningar.

4. Málefni Helgafells

5. Málefni Laxeldis Austfjarða

6. Gatnaframkvæmdir

7. Skýrsla sveitarstjóra

 

Djúpavogi 10. júlí 2012;
Sveitarstjóri

10.07.2012

Djúpavogshreppur auglýsir starf við heimaþjónustu

Djúpavogshreppur auglýsir eftir starfsmanni í hlutastarf við heimaþjónustu (þéttbýli og dreifbýli).

Starfshlutfall ræðst af umfangi hverju sinni en áformað er að ráða í u.þ.b. 20% starf í upphafi.

Starfið er laust nú þegar.

Nánari upplýsingar veita:

Fráf. starfsm., Hrafnhildur Kristjánsd. (s. 861-8806, varðandi fyrirkomul.)
Launafulltrúi Djúpavogshrepps (478-8288, varðandi launamál).

Umsóknir með uppl. um menntun, reynslu, fyrri störf og annað, er að gagni má koma, berist skrifstofu Djúpavogshrepps.

Umsóknareyðublöð má nálgast með því að smella hér og á bæjarskrifstofu, þangað sem umsóknir skulu berast.


Djúpavogi 10. júlí 2012;

Sveitarstjóri

10.07.2012

Arfleifð flytur

Verslun og partur af vinnustofu Arfleifðar hefur nú flutt sig úr Hammersminni 16 í húsnæði Samkaups-Strax í Búlandi.

Opnunartími er sá sami og í verslun Samkaups eða frá 10-18 mán- fös. 10-16 á laugardögum og 12-16 á sunnudögum. Starfsmenn eru Ágústa Margrét Arnardóttir eigandi og hönnuður og Hrafnhildur Kristjánsdóttir sem unnið hefur í Arfleifð síðustu mánuði og sér um flest sem snýr að framleiðslunni, merkingum og sölunni hér á Djúpavogi.

Fram að þessu hefur framleiðsla, markaðssetning og sala farið fram í kjallara heimilis Ágústu og fjölskyldu en var það húsnæði ekki lengur hentugt í alla parta og þá sérstaklega söluna vegna staðsetningar í bænum. Von Arfleifðar stelpnanna er að ná til miklu fleiri nýrra viðskiptavina í nýja húsnæðinu sem og vera aðgengilegri og sjáanlegri fyrir heimamenn. Markaðssetning, tölvuvinna og partur af framleiðslunni mun samt áfram vera á Hammersminni 16.

Við vonumst til að heimamenn og gestir bæjarins gefi sér tíma til að kíkja í nýju verslunina því þar fæðast nýjar vörur daglega, úrvalið hefur aldrei verið fjölbreyttara og hægt að ná sér í töskur, tuðrur, druslur, vafninga, vefjur, braga, skriður, flóð, fjörur og fleira sem hannað og handgert eru úr al íslenskum hráefnum og roð og leður skreytta herra og dömu boli. Einnig er hægt að fylgjast með framleiðslu ferlinu, fá kynningu á hráefnunum og margt, margt fleira.

Allra bestu kveðjur,
Ágústa og Hrafnhildur í Arfleifð

 

10.07.2012

Sumargrill foreldrafélagsins

Foreldrafélag leikskólans ætlar að halda sumargrill fyrir leikskólabörnin og aðstandendur þeirra.  Grillið verður á miðvikudaginn, 11. júlí milli kl. 12:00 - 13:00. Hótel Framtíð gefur pylsur á grillið og Fellabakarí gefur pylsubrauð.    

Foreldrafélag Djúpavogsskóla
 

Gæsluvöllur á leikskólanum

Gæsluvöllur fyrir börn á leikskólaaldri verður opinn á lóð leikskólans frá 16. júlí - 10. ágúst.

Opið verður frá kl. 08:00 - 12:00 virka daga.

Gjald er kr. 250 pr. klst og verður innheimt með greiðsluseðli að tímabili loknu.

Frekari upplýsingar eru veittar á skrifstofu sveitarfélagsins.

Sveitarstjóri

10.07.2012

Malbikun hafin í Hlíð

Eftir áratuga bið geta íbúar við Hlíð glaðst yfir því að vinna er hafin við malbikun á götunni. Ráðgert er að klára malbikun við Hlíð í dag og byrja malbikun við Brekku strax í fyrramálið.

ÓB

 

 

 

 

 

 

06.07.2012

Gjöf til fuglaverkefnisins

Hér með er komið á framfræri leiðréttingu vegna þessarar áður fluttu fréttar frá 29 júní síðastliðinn  - en sá sem smíðaði þennan glæsilega grip heitir Ingólfur Geirdal og er því hér með komið á framfæri. 

Í gær mætti Axel Jónsson (bróðir Öldu á Fossárdal) færandi hendi á skrifstofu sveitarfélagsins með gjöf til fuglaverkefnisins og er gjöfinni ætlaður staður í fuglaskoðunarhúsi hér út við vötnin, en Axel hrósaði einmitt heimamönnum fyrir þá aðstöðu sem þar væri komin upp með byggingu fuglaskoðunarhúsa og fl. 

Gjöfin er sem sagt forláta baukur fyrir frjáls framlög gesta sem koma við á fuglaskoðunarsvæðinu og vilja styðja við fuglaverkefnið.  Baukinn smíðaði Ingólfur Geirdal og er mikil listasmíð, glansandi og úr ryðfríu stáli eins og sjá má á mynd.  
Hér með eru  Axel og smiðnum góða Ingólfi færðar hinar bestu þakkir fyrir þennan glæsilega grip sem á án efa eftir að skila sínu.  

AS

 

 

 

 

 

Andrés Skúlason tekur fagnandi við gjöfinni frá Axel Jónssyni 

Fisfélag Reykjavíkur á Djúpavogsvelli

Fisfélag Reykjavíkur gerði stutt stopp á Djúpavogsvelli í gær, en félagið er á hringferð um landið. 15 vélar lentu hér, hver á eftir annarri í blíðskaparveðri og var mjög gaman að sjá þennan fjölskrúðuga flota raða sér upp við enda flugvallarins.

Í för var dönsk fisþyrla, svört að lit (sjá hér að neðan). Fyrir áhugasama þá er hún til sölu og kostar litlar 10 milljónir.

ÓB

 

 

 

 

06.07.2012

Nýjar Panorama myndir

Við vorum að bæta við nokkrum myndum í Panoramasafnið.

Smellið hér til að skoða Panoramasafnið.

ÓB

05.07.2012

Sumarhátíð UÍA um helgina

Sumarhátíð UÍA verður haldin á Egilsstöðum um helgina. Hátíðin, sem haldin hefur hvert sumar frá árinu 1975, er stærsta einstaka verkefni sambandsins ár hvert.

Að vanda eru frjálsíþróttir fyrirferðamestar en Nettómótið í frjálsum teygir sig yfir alla keppnisdagana þrjá, föstudag, laugardag og sunnudag. Þá er einnig keppt í sundi á föstudagskvöld og laugardagsmorgun.

Nýjasta keppnisgreinin á Sumarhátíðinni er skák en teflt verður á föstudagskvöld. Strandblak er á dagskránni þriðja árið í röð á sunnudag og á laugardag er knattspyrnumót fyrir tíu ára og yngri.

Skemmtidagskrá er seinni part laugardags þegar íþróttahátíð Spretts Sporlanga fer fram á Vilhjálmsvelli. Keppt verður í boccia, starfshlaupi, haldnir verða fáránleikar og taek-won-doe deild Hattar sýnir nokkur brögð. Sprettur ætlar líka að bjóða upp á tertu til að þakka Austfirðingum fyrir frábærar móttökur fyrsta árið sem hann hefur verið lukkudýr UÍA.

Rúsínan í pylsuendanum verður sýning fimleikahópsins GYS87 sem skipaður er dönskum eldri borgum sem héldu áfram að æfa saman eftir þátttöku á fimleikahátíðinni Gymnastrada árið 1987 en þaðan kemur nafn hópsins GYS87.

Í gegnum árin hafa þau ferðast og sýnt  listir sínar vítt og breitt um heiminn í sex heimsálfum. Fimleikasýningin samanstendur af margskonar æfingum: kvenlegum hreyfingum, karlmannlegum kraftaæfingum, paraæfingum og samvinnu svo eitthvað sé nefnt. Sýningin fær mikinn innblástur af vel valinni tónlist sem gefur mikla upplyftingu og innlifun.

Nánari upplýsingar um Sumarhátíðina er að finna á www.uia.is.


04.07.2012

Neisti á Bónusmóti Hattar

Helgina 23.-24. júní kepptu Neistar á Bónusmóti Hattar á Fellavelli. Mjög góð mæting var hjá Neista, bæði af keppnisfólki, foreldrum og öðrum aðstandendum.

Stóðu krakkarnir sig mjög vel og lærðu mikið af þessari reynslu sinni. Þór og Askur kepptu með liðum Fjarðarbyggðar, stúlknaliðið var fámennt frá Djúpavogi en fengu góðan liðsauka af henni Áslaugu, sem ættuð er frá Starmýri. Neistastúlkur, Eydís, Ísabella, Viktoría, Diljá og Elísa áttu marga mjög góða kafla, sýndu frábær tilþrif í marki, vörn og nokkur glæsimörk voru skoruð. Þær geta gert mjög góða hluti þegar aðrar stúlkur mæta með þeim á völlinn eftir góðar æfingar. Þess má geta að Elísa spilaði flokk upp fyrir sig.

7. flokkur Neista samanstóð af Mark Antony í marki, Viktori, Aldísi og Natalíu auk Hilmis, Björgvins, Haralds og Sigurðar Atla sem allir spiluðu flokk upp fyrir sig. Er okkur sem á horfðum ljóst að sterkt fótboltalið Neista er í uppbyggingu. Kepptu þau í flokki B liða og unnu 7 leiki og gerðu eitt jafntefli. Miklar framfarir mátti sjá á krökkunum frá fyrsta leik fram að þeim síðasta.

Skemmtun, samvera og gott veður er það sem stendur uppúr eftir frábæra helgi með skemmtilegu fólki. Þegar kólnaði í veðri á sunnudeginum var gott að grípa til nýju Neistabúninganna.

Takk fyrir okkur.

Myndir má sjá með því að smella hér.

Stjórn Neista

04.07.2012

Frá Ferðafélagi Djúpavogs

Ferðafélag Djúpavogs auglýsir hellaferð á Snæfellsnes 6.-9. júlí nk.

Föstudagurinn 6. júlí
Lagt af stað frá Við Voginn kl.16:00  Farið í Hamragarða (innan við Seljalandsfoss)

7. og 8. júlí
Farið á Snæfellsnes um Þingvelli og Uxahryggi þar sem ýmsir merkir staðir og hellar verða skoðaðir, m.a hinn frægi Vatnshellir.

Mánudagur 9. júlí
Heimferð

Upplýsingar og skráning í ferð hjá Steinunni í síma 860-2916 og Önnu Sigrúnu í síma 849-2343.

Ferðafélag Djúpavogs

Öxi 2012

Öxi 2012, göngu- og hlaupahelgi fjölskyldunnar, fór fram um síðustu helgi. Óhætt er að segja að viðburðir helgarinnar hafi tekist vonum framar en hápunkturinn var þríþrautarkeppnin sem fram fór á laugardeginum.

Helgin hófst með kynnisferð um bæinn á föstudagskvöldinu sem Ferðafélag Djúpavogs stóð fyrir. Góð mæting, um 25 manns og skemmtileg ganga.

Þríþrautarkeppnin fór eins og áður sagði fram á laugardeginum. Alls tóku 9 manns þátt. Tvö þriggja manna lið, annars vegar Demantarnir með Guðjón Viðarsson, Brynjólf Einarsson og Kristján Ingimarsson innanborðs og hins vegar Fatboys, skipað þeim Andrési Skúlasyni, Ólafi Áka Ragnarssyni og Þóri Stefánssyni. Þá tóku þrír einstaklingar þátt; Hafliði Sævarsson, Arnar Páll Gíslason og Sigurbjörn Hjaltason.

Ræst var í fyrstu grein, sjósund (700 m), kl. 10:00 frá Staðareyri (neðan við Hvannabrekku). Að því loknu var hjólað upp Öxi að Merkjahrygg (13 km) þaðan sem hlaupið var niður í Fossárdal (19 km) og síðan hjólað út á Djúpavog (18 km).

Gaman var að sjá hversu margir áhorfendur voru, en þeir hafa sennilega verið í heildina hátt í 50.

Keppnin fór svo þannig að Hafliði Sævarsson kom langfyrstur í mark og vann þar með einstaklingskeppnina en heildartíminn hjá honum var 03:39:01. Næstur á eftir honum var Sigurbjörn Hjaltason á tímanum 04:43:44 og loks Arnar Páll Gíslason á tímanum 04:46:00.

Í liðakeppninni höfðu Demantarnir sigur á tímanum 04:24:04 en Fatboys kláruðu á tímanum 04:55:19.

Allt í allt frábær keppni og einstaklega vel lukkuð. Mótshaldarar vilja þakka öllum sem lögðu hönd á plóg kærlega fyrir sitt framlag og gerðu keppnina mögulega.

Seinni part laugardags var svo gúmmískóaganga um Útlandið. Í hana mættu um 30 manns í blíðskaparveðri.

Þá var svokallað tásutölt á söndunum að morgni sunnudags, sami fjöldi og í gúmmískóagöngunni og sama blíðskaparveðrið.

Myndir frá þríþrautinni má sjá með því að smella hér.

ÓB

02.07.2012