Djúpivogur
A A

Fréttir

Frá Löngubúð

Í tilefni af Öxi 2012, hlaupa- og gönguhelgi fjölskyldunnar, verður ævintýraleg súpa m/ heimabökuðu brauði á boðstólnum.

Vaffla og heitt kakó á tilboði - kr. 800.

Langabúð

29.06.2012

Öxi 2012 er um helgina

Öxi 2012, hlaupa- og gönguhelgi fjölskyldunnar er um helgina.

Það sem hæst ber er þríþrautarkeppni sem er laugardaginn 30. júní. Tvö lið hafa skráð sig til keppni auk þriggja einstaklega. Ræst verður í fyrstu grein, sem er sjósund, frá Staðareyri, norðan megin í Berufirði kl. 10:00.

Ýmislegt fleira er um að vera um helgina, gúmmískóaganga síðdegis á laugardeginum og tásutölt á sunnudeginum.

Allar nánari upplýsingar um helgina er að finna hér.

Okkur barst skemmtileg gjöf í gær í tilefni af þríþrautarkeppninni. Það er öxi úr hreindýrshorni, sem í er skorið slagorðið "Öxi fyrir alla". Haukur á Starmýri smíðaði Öxina og Jón Friðrik Sigurðsson skar í hana. Við þökkum þeim félögum kærlega fyrir þennan fallega grip.

ÓB

 

 

28.06.2012

Ósóttir Neistagallar

Þeim sem pöntuðu sér Neistagalla er bent á að nálgast þá hjá Hafdísi Reynisdóttur eftir kl. 15:00 í dag, fimmtudag og eftir kl. 16:00 á morgun, föstudag. Gallarnir eru afhentir gegn greiðslu.

UMF Neisti.

28.06.2012

Útimessa í Malvíkurrétt í Álftafirði

Næsta sunnudag 1. júlí, verður útimessa í Malvíkurrétt í Álftafirði og hefst athöfnin kl. 14.00. Sóknarpresturinn sr. Sjöfn Jóhannesdóttir messar og kirkjukórsfélagar leiða sönginn.

Malvíkurrétt er sérstakur og fallegur staður sunnan við Djúpavog og minnir um margt á kirkju í náttúrunni. Þar er steinn sem nefndur er Altari og klettar umlykja staðinn og veita þar skjól. Síðast var messað í Malvíkurrétt fyrir þremur árum og var fjölmennt og veðrið lék við messugesti, sem eftir messu nutu góðra velgjörða í boði sóknarnefndar Hofskirkju.

Nálægt Malvíkurhöfða eru margir þekktir staðir sem Íslendingasögur nefna í sambandi við kristnitökuna árið 1000. Í Álftafirðinum á Þangbrandur að hafa dvalið hjá Halli á Þvottá og sungið messu þar og skv. Ara fróða skírði hann Síðu-Hall og hans heimafólk í Þvottánni. Kirkjan og kirkjuleg þjónusta á sér því langa sögu í Álftfirði og reistur var minnisvarði um Síðu-Hall við Þvottá í tilefni 1000 ára kristni á Íslandi. Ýmis örnefni eins og Þangbrandsbryggja og prestasteinn er að finna þarna og svo er Papey ekki langt undan.

Malvíkurhöfði er um 45 km. sunnan við Djúpavog. Ekið er eftir þjóðveginum frá Djúpavogi, þar til komið er að Selá, þá er ekki farið yfir brúna heldur beygt til vinstri og farinn vegarslóði, sem er fær fjórhjóladrifnum bílum, að messustað. Aðeins þarf að ganga 100-200 metra. Nánari leiðsögn verður við þjóðveginn.   

Sóknarnefndin býður upp á kaffiveitingar að lokinni messunni. Allir eru velkomnir og hvattir til að mæta í skjólgóðum fatnaði.

28.06.2012

Kjörfundur vegna forsetakosninga

Kjörfundur vegna forsetakosninga 2012 verður í Grunnskóla Djúpavogs 30. júní nk. frá kl. 10:00 - 20:00.

Formaður kjörstjórnar

27.06.2012

Sjálfboðaliðar óskast við gróðursetningu

Sjálfboðaliðar óskast í gróðursetningu.

Mæting við Búrfell, neðan við kirkjugarðinn miðvikudaginn 27. júní, kl. 20:00.

Settar verðar niður 1.000 plöntur af blágreni sem síðan verða seldar sem jólatré.

Margar hendur vinna létt verk

Stjórn Skógræktarfélagsins

26.06.2012

Bækur fást gefins á bókasafninu

Nokkrar gamlar kiljur fást gefins á bókasafninu á opnunartíma í kvöld frá 17:00 - 19:00. Eins verða nokkrar gamlar bækur til sölu á ca. 100 krónur stykkið.

Endilega komið og athugið hvort þið finnið ekki eitthvað við ykkar hæfi.

Athugið að í dag er síðasti opnunardagur fyrir sumarfrí.

Bókavörður

26.06.2012

Pub Quiz í Löngubúð

Pub Quiz í Löngubúð laugardaginn 23. júní kl. 20:00.

Þar verður stuð. Stuð. Stuð.

Langabúð.

22.06.2012

Sveitarstjórn: Fundargerð 21.06.2012

Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.

ÓB

22.06.2012

Tískusýning á Humarhátíð

Í þessari viku hefur farið fram Tísku Smiðja á Hornafirði undir leiðsögn Ágústu í Arfleifð hér á Djúpavogi og Ragnheiðar í Millibör á Hornafirði (tengdadóttir Ásdísar og Sigga) 

Smiðjan var hugsuð til að gefa ungu fólki smá innsýn í tískuheiminn og öllu sem honum tengist. 4 ungar stúlkur frá Djúpavogi hafa sótt Smiðjuna alla vikuna og verður afraksturinn kynntur á risastórri tískusýningu sem hefst kl. 20:00 í kvöld (föstudag) í stóra sal Kartöfluhússins (við hliðina á vinnustofu Millibara og á móti sláturhúsinu).

Stúlkurnar Anný Mist, Bryndís Þóra, Embla og Þórunn í samvinnu við 14 Hornfirskar stúlkur undir leiðsögn fatahönnuða, hárgreiðslu- og förðunar kvenna, viðburðarstjórnenda, leikmyndahönnuðar, leikara, ljósmyndara og fleiri, munu því eiga þátt í uppsetningu, hár, förðun og fötum sem og sviðinu, lýsingu, tónlist og fleiru. Sýningin er samsýning 7 íslenskra hönnuða;

Arfleifð
Millibör
Gammur
Volcano
Krista
Sign

og handverkskvenna innan handverkssambandsins Handraðinn. 

Einnig verða stúlkur frá Djúpavogi í hópi fyrirsætanna og því vel þess virði fyrir Djúpavogsbúa að bruna yfir á Humarhátíð og sjá þessar dýrðir.

ÓB

 

 

22.06.2012

Nýir Neistabúningar komnir í hús

Langþráður dagur er upp runninn því nýju Neistagallarnir komu flestir í gærkveldi. Þeir eru mjög fallegir með ísaumuðu merki.

Hægt verður að nálgast gallana heima hjá Hafdísi Reynisdóttur frá og með núna til kl. 17 föstudaginn 22. júní. Aftur verður svo hægt að nálgast þá eftir helgi á sama stað. Við viljum biðja fólk að sækja þá sem fyrst og helst fyrir Sumarhátíð ÚÍA.

Gallarnir verða afhentir gegn peningagreiðslu eða kvittun úr heimabanka fyrir fullri greiddri upphæð.

Innleggsreikningur Neista er 1147-26-4040 og kennitalan er 670484-0849.

Verð á barnagöllum (þeim sem voru í grunnskóla – eða yngri – síðasta vetur) er 6000.

Verð á fullorðinsgöllum er 10.000 og 11.000.

Verið velkomin að sækja gallana ykkar.

Við viljum vekja athygli Neistamanna á því að fréttir Neista birtast ekki alltaf á aðalvef Djúpavogshrepps svo verið dugleg að smella á Neistaflipann.

LDB

21.06.2012

Kvennahlaupið á Djúpavogi

Kvennahlaupið fór fram laugardaginn 16. júní sl. og konur á Djúpavogi tóku að sjálfsögðu þátt.

Birgir Th. Ágústsson sendi okkur mynd af hópnum sem tekin var áður en lagt var af stað.

Við þökkum Birgi fyrir myndina af þessum glæsilegu konum

ÓB

 

 

 

 

20.06.2012

Gulir, bleikir og appelsínugulir takið eftir

Sveitarfélagið var glæsilega skreytt í tengslum við 17. júní. Um leið og íbúum er hrósað fyrir skreytingar er hér með mælst til þess að þær verði fjarlægðar með samstilltu átaki allra hverfa sunnudaginn 24. júní, enda hafa þær þá verið uppi í rétta viku.

Sveitarstjóri

19.06.2012

Kjörskrá vegna forsetakosninga

Vakin er athygli á að frá og með 20. júní liggur kjörskrá vegna forsetakosninganna 30. júní 2012 frammi í Geysi.

Sveitarstjóri

19.06.2012

Sveitarstjórn: Fundarboð 21.06.2012

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps:  Fundarboð 21.06.2012

27. fundur 2010 – 2014

Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn 21. júní 2012  kl. 16:00. Fundarstaður: Geysir.

Dagskrá:

1.    Fjárhagsleg málefni

a)    Gatnagerð 2012.

2.    Fundargerðir

a)    HFN, dags. 1. júní 2012.
b)    Stjórn SSA, dags. 4. júní 2012.
c)    Haust, dags. 10. maí 2012.
d)    Haust, dags. 13. júní 2012.
e)    Héraðsskjalasafn Austfirðinga, dags. 9. maí 2012.
f)    Hafnasamband Íslands, dags. 16. maí 2012.
g)    Samband íslenskra sveitarfélaga, dags. 25. maí 2012.
h)    Samgöngunefnd SSA, dags. 31. maí 2012.

3.    Erindi og bréf

a)    Umhverfisráðuneytið, dags. 30. maí 2012.
b)    Aflið, dags. 26. apríl 2012.
c)    Saman-hópurinn, dags. 23. maí 2012.
d)    Siglingastofnun, dags. 25. maí 2012.
e)    Náttúrustofa Austurlands og Umhverfisstofnun, dags. 24. maí 2012.
f)    Umhverfisstofnun, dags. 31. maí 2012.
g)    Pokasjóður, dags. 5. júní 2012.

4.    Friðlýsing Blábjarga á Berufjarðarströnd
5.    Kjör oddvita og varaoddvita
6.    Umsögn vegna rekstrarleyfis Fiskeldis Austfjörðum ehf.
7.    Framkvæmdir við höfnina
8.    Skýrsla sveitarstjóraDjúpavogi 19. júní 2012;
Sveitarstjóri

19.06.2012

Hittingur í tilefni Kvennadagsins

Konur athugið!

Hittingur verður í Löngubúð þriðjudaginn 19. júní kl. 20:00 í tilefni kvennadagsins.

Ef þið lumið á einhverjum sögum eða öðru skemmtilegu efni þá endilega takið það með ykkur.


19. júní nefnd

19.06.2012

Hátíðardagskrá á 17. júní

Hátíðardagskrá á 17. júní hófst við grunnskólann með skrúðgöngu þar sem drottningarnar fóru fyrir sínum hverfum með miklum myndarbrag, en gengið var að íþróttavellinum. Þar flutti fjallkonan, Anný Mist Snjólfsdóttir, ávarp og síðan hófst skemmtidagskrá, þar sem m.a. var reiptog, fótbolti, eiginkvennaburður o.fl.

Að lokinni skemmtidagskrá voru úrslitin í hverfakeppninni kunngjörð en í þetta sinn var það appelsínugula hverfið sem hafði sigur og óskar heimasíðan þeim innilega til hamingju.

Við bendum á frétt um hverfakeppnina, sem birtist fyrr í dag.

Myndir frá hátíðardagskránni má sjá með því að smella hér.

ÓB
Myndir: AS/BTÁ

18.06.2012

Hverfaskreytingar á 17. júní

Eftir vel heppnaða hverfakeppni í tengslum við 17. júní í fyrra var ákveðið að halda henni áfram í ár og er þetta skemmtilega fyrirkomulag því vonandi komið til að vera.

Sú breyting varð frá fyrra ári að rauða og bláa hverfið var sameinað í bleika hverfið og voru því þrjú hverfi, bleikt, gult og appelsínugult. Ein og ein skreyting var farin að týnast upp á miðvikudegi fyrir 17. júní og nokkrar í viðbót sáustu á fimmtudegi. Það má svo segja að föstudaginn 15. júní hafi allt farið á fullt og íbúar sveitarfélagsins stóðu í skreytingum fram eftir föstudagskvöldi, allan laugardaginn og fram að hádegi 17. júní en þá ók dómnefndin um bæinn og tók út hverfin.

Eðlilega voru fleiri skreytingar uppi nú en í fyrra, en hverfin áttu að sjálfsögðu mikið af skreytingunum frá fyrra ári og því hægt að bæta við þær. Margar mjög skemmtilegar skreytingar litu dagsins ljós og var algerlega frábært að fylgjast með bæjarbúum hjálpast að við að gera hverfin sín sem litskrúðugust. Ljóst er að þeir eru ófáir listamennirnir sem leynast á meðal okkar og fengu þeir svo sannarlega að fá útrás fyrir sköpunargáfunni í tengslum við skreytingarnar.

Það var svo appelsínugula hverfið sem bar sigur úr býtum enda var það prýtt afskaplega fjölbreyttum, skemmtilegum og umfram allt stílhreinum skreytingum og íbúar hverfisins eiga hrós skilið fyrir.

Úrval frá hverfaskreytingunum má sjá með því að smella hér.

Myndir frá hátíðardagskrá á íþróttavellinum eru væntanlegar.

ÓB

18.06.2012

Leikur á Neistavelli 17. júní

Neisti/Hrafnkell Freysgoði tekur á móti Spyrni á Djúpavogsvelli þann 17. júní, kl. 18:00.

Mætum og styðjum okkar menn.

ÓB

17.06.2012

Afmæli Skógræktarfélags Djúpavogs

Skógræktarfélag Djúpavogs er 60 ára í ár og verður haldið upp á það laugardaginn 16. júní í Hálsaskógi.

Kl. 14:00 - Útimessa

Opnuð verður listaverkasýning nemenda leikskólans.

Léttar veitingar, allir velkomnir.

Skógræktarfélag Djúpavogs

15.06.2012

Dagskrá 17. júní 2012

Föstudagur 15. júní

Hverfis-PubQuiz í Löngubúðinni. Hefst kl. 21:00 (ath. 18. ára aldurstakmark).

Sunnudagur 17. júní

13:00   Andlitsmálning og fánasala við grunnskólann

14:30   Dagskrá hefst á íþróttavellinum með ávarpi fjallkonu.
   
Hverfakeppnin þar sem keppt verður í ýmsum þrautum þar sem reynir heldur betur á útsjónarsemi, snerpu, úthald og keppnisskap keppenda.
 
 Gefin verða stig fyrir eftirfarandi:
 - Sigur í Pubquizi Löngubúðar að kvöldi 15. júní.
 - Hverfið sem best er skreytt sínum lit.
 - Besta mæting á hátíðarsvæði (íklædd viðeigandi litum að sjálfsögðu)
 - Reiptog
 - Þrautabraut
 - Fótbolti
 - Hæsti meðalaldur keppenda í fótbolta
 - Eiginkvennaburður
 
Í lok dags verða úrslit hverfakeppninnar tilkynnt og afhentur farandbikar.

Ekki er gerð athugasemd ef sveitabæir fara í önnur lið.

Ekki verður sala á veitingum á íþróttavellinum.  Fólk er hvatt  til að koma með sitt eigið nesti að þessu sinni.

Íbúar eru hvattir til þess að flagga íslenska fánanum á þjóðhátíðardegi okkar.

Hjálpumst að við að gera 17. júní að fjölskylduskemmtun fyrir unga jafnt sem aldna !

17. júní nefndin

15.06.2012

Ferðir Ferðafélags Djúpavogs árið 2012

Hér má sjá ferðir og farastjóra Ferðafélags Djúpavogs 2012:

1. ferð - 28. apríl: Hrómundarey
Haukur 893-4605 /Eðvald 894-2292

2. ferð - 9. júní: Stafafellsfjöll/Krossaland
Kristján 892-5887

3. ferð -  23. Júní:    Sauðdalur/Hvítárdalur kvöldganga
Guðný Gréta 894-6137  / Eðvald 894-2292

4.  ferð - 6. - 9. júlí :  Hellaferð á Snæfellsnes 
Steinunn 860-2916 / Norvald 858-1123

5. ferð - 21. Júlí: Mjóifjörður Rútuferð? 
Haukur 893-4605 / Eðvald 894-2292

6. ferð -  10. - 12. ágúst: Syðra Fjallabak  
Haukur 893-4605 / Norvald 858-1123


7. ferð  - 18. ágúst: Nóntindur í Fossárdal
Guðný Gréta 894-6137

8. ferð - 1. sept: Sunnutindur 
Kristján 892-5887

9. ferð - 16. sept: Melrakkanesfjall með Ferðafélagi Hornafjarðar
Steinunn 860-2916

Athugið Fyrirhuguð er Noregsferð seinnipart ágúst 2013

Ferðanefnd 2012
Steinunn Jónsdóttir         860-2916
Kristján Karlsson             892-5887
Eðvald Ragnarsson          894-2292
Guðný Gréta Eyþórsdóttir  894-6137
Norvald Sandö                858-1123
Haukur Elísson                893-4605

Kvennahlaup ÍSÍ

Kvennahlaup ÍSÍ verður haldið á Djúpavogi, laugardaginn 16. júní.  Lagt verður af stað frá Íþróttamiðstöðinni klukkan 11:00 og eru þrjár vegalengdir í boði; 3 km, 5 km og 7 km.  Þátttakendur velja hvort þeir ganga eða hlaupa.  Frítt er í sund á eftir, fyrir þátttakendur.

14.06.2012

ADSL2+ á Djúpavogi

Þann 13. febrúar sl. undirritaði sveitarfélagið samning við Símann um stækkun ADSL símstöðvar á Djúpavogi. Í meginatriðum þýðir sú stækkun eftirfarandi:

Allt að 16Mb/s internet í stað allt að 8Mb/s áður.
Val um 80 sjónvarpsrásir í stað 20 áður.
Möguleiki á háskerpustöðvum
40 útvarpsstöðvar í stað 15 áður.
SkjárBíó.


Áætluð fjárfesting vegna stækkunarinnar er 1,7 milljónir króna og hljóðar samningurinn upp á að Síminn muni bera kostnað kr. 800.000 vegna búnaðar og að Djúpavogshreppur greiði einskiptikostnað vegna uppsetningarvinnu, kr. 900.000.

Nú fjórum mánuðum seinna hefur stöðin verið stækkuð og breytingarnar eru formlega gengnar í gegn. Eflaust hafa einhverjir tekið eftir því að sjónvarpsstöðvum hefur fjölgað og valmöguleikinn um SkjáBíó er orðinn virkur. Í einhverjum tilfellum þarf að endurræsa sjónvarpsmóttakara til að uppfærslan verði virk.

Nú eru allir ADSL notendur á Djúpavogi með allt að 12Mb/s hraða, óháð þeirri internetáskrift sem þeir eru með. Til þess að ná fullum hraða, þ.e. 16Mb/s, þá þarf að sækja sérstaklega um það í síma 800-7000 eða inni á Siminn.is. Þess ber einnig að geta að vilji notendur fá svokallaðar HD stöðvar (háskerpustöðvar) inn, þá þarf að sækja sérstaklega um þær líka.

Þetta er að sjálfsögðu mikið fagnaðarefni fyrir íbúa Djúpavogs og færir þá nær nútímanum hvað varðar nethraða og þá möguleika sem ADSL sjónvarp hefur uppá að bjóða.

ÓB

14.06.2012

Hverfa-Pub Quiz í Löngubúð

Nú er komið að því.

Hverfin takast á í Pub Quiz í Löngubúð föstudaginn 15. júní kl. 21:00.

Komið og hvetjið ykkar lið.

Stjórn Neista.

13.06.2012

Gunnar Stefáns í Afríku

Gunnar Stefánsson, sonur Stebba og Nínu, er nú á ferðalagi um Afríku. Gunnar hefur farið ansi víða síðustu ár og hefur ávallt gert því góð skil á heimasíðunni sinni www.gunnistefans.com og er engin undantekning á því núna. Í þau skipti sem hann kemst í gott netsamband setur hann inn myndir og gerir grein fyrir sér.

Á heimasíðu Gunnar segir: Þessa dagana er ég á ferðalagi um Afríku.  Ferðin hófst í maí 2012 og stendur yfir í meira og minna allt sumar. Löndin sem ég mun að lágmarki heimsækja eru Kenya, Tanzania, Malawi, Mozambique, Zimbabwe, Botswana, Namibia, South Africa. Mun reyna eftir minni bestu getu að halda úti dagbókafærslum hér, hlaða upp myndum og aldrei að vita nema maður hendi inn einu og einu videobloggi líka.

Áhugasamir geta fylgst með Gunnari á www.gunnistefans.com

ÓB

12.06.2012

Skógardagurinn 2012

Skógardagur leikskólans, sem vera átti 23. júní hefur verið færður til föstudagsins 15. júní. 
Við ætlum að hittast við hliðið klukkan 17:00 og ganga saman inn í Aðalheiðarllund.  Á leiðinni munu börnin sjálf, með aðstoð foreldra eða annarra fylgdarmanna hengja upp verkin sín.  Verk þeirra barna, sem ekki komast þennan dag, verða hengd upp fyrir þau.  Þeir sem vilja geta tekið með sér nesti til að snæða í Aðalheiðarlundinum.

Sýningin verður því tilbúin fyrir laugardaginn 16. júní þegar Skógræktarfélag Djúpavogs heldur uppá afmælið sitt.

Allir hjartanlega velkomnir.  HDH