Djúpivogur
A A

Fréttir

Við Voginn auglýsir kínverskt hlaðborð

Þriðjudaginn 1. maí, á frídegi verkamanna, ætlar verslunin Við Voginn að vera með kínverskt hlaðborð. Í boði verða alls kyns kínverskar kræsingar af bestu gerð.

Hefst kl. 18:00.

Verð fyrir fullorðna: 3.500.- pr. mann
Börn 6-12 ára: 2.000.- pr. mann

Frítt fyrir börn yngri en 6 ára.

Gestakokkur: Regína Fanný Guðmundsdóttir

Við Voginn

30.04.2012

Troll design - Tröllkonur í Djúpavogshreppi

Okkur barst skemmtilegt bréf frá Djúpavogsbúanum Regínu Fanný Guðmundsdóttur:

Mig langar til að vakin verði athygli á heimasíðu Djúpavogshrepps á facebook síðu sem ég hef sett á laggirnar um tröllkonur í Djúpavogshreppi.  Ég hef fengið mjög góð viðbrögð bæði frá núverandi íbúum og áður búandi fólki í hreppnum. Síðan er “like” síða sem ber nafnið "Troll design – Regína Fanný" (smellið á nafnið til að fara á síðuna).

Á síðunni eru gerð skil á 6 nafngreindum tröllkonum í hreppnum samkvæmt heimildum. Kort er af hreppnum þar sem merkt er inn búseta hverrar konu.  Síðan eru myndaalbúm sem eru tileinkaðara hverri og einni ásamt glósum um hverja og eina konu þar sem tekið er saman í stuttum texta það sem ég fann í heimildasöfnun um þær.  Álfum og álfabústöðum í hreppnum verður svo vonandi gerð skil seinna í framhaldi af þessu.
 
Kveðja, Regína Fanný Guðmundsdóttir

ÓB

Fundarboð Skógræktarfélags Djúpavogs

Aðalfundur Skógræktarfélags Djúpavogs verður haldinn miðvikudaginn 2. maí kl. 20:00 í grunnskólanum.

Dagskrá: Venjuleg aðalfundarstörf

Allir velkomnir
Stjórnin 

30.04.2012

Sundmót Neista

Sundmót Neista var 21. apríl. Mjög góð þátttaka var frá öðrum félögum. Við Neistamenn vorum með keppendur frá 2. bekk grunnskóla sem voru yngstu sundmenn þessa móts og stóðu þau sig mjög vel. Gestir voru ánægðir með mótið og enn aftur er talað um hvað við erum heppin með að hafa svona frábæra aðstöðu. Stjórn og sundráð vill koma á framfæri þakklæti fyrir frábært samstarf við Íþróttamiðstöð Djúpavogs og Djúpavogsskóla vegna framkvæmda við mótið. Stjórn og sundráð vill einnig þakka þeim sem tóku þátt í sjálfboðastarfi vegna sundmóts við ýmis störf.

Þetta mót var ekki stigamót og þess vegna gátu þjálfarar skoðað betur hvern keppanda og séð hvað betur má gera fyrir hvern og einn. Strax eftir mótið var afrekshópur UÍA með æfingar. 

Undirbúningur er hafinn fyrir sumarstarf Neista og auglýsum við hér eftir aðila til að taka að sér framkvæmdarstjórastöðu. Áhugasamir hafi samband við Ester S. Sigurðardóttur í síma 899 7600.

Stjórnin

Myndir frá sundmótinu:

27.04.2012

Hádegisverðarfundur um bætta orkunýtingu í dreifbýli

Sjá auglýsingu um orkunýtingu í dreifbýli:

27.04.2012

Kórtónleikar

Þann 1. maí ætla kórarnir á Djúpavogi að hafa tónleika í Djúpavogskirkju kl. 17:00. Kórarnir eru: Barnakór Djúpavogsskóla undir stjórn Andreu Kissné, Karlakórinn Trausti og Kirkjukór Djúpavogs undir stjórn József Kiss. Nemendur úr Tónskóla Djúpavogs sjá um undirleik ásamt József og Andreu. Aðgangseyrir 1.500 kr.

27.04.2012

Aðalfundur Ferðafélags Djúpavogs

Aðalfundur Ferðafélags Djúpavogs verður haldinn í Sambúð sunnudaginn 29. apríl kl. 17:00.

Dagskrá:
1.  Venjuleg aðalfundarstörf
2.  Önnur mál.

Allir félagsmenn hvattir til að mæta og nýjir félagar boðnir velkomnir.

Stjórnin

24.04.2012

Frá Neista

Spurningakeppni Neista sem auglýst var í þessari viku er frestað. Nánar auglýst innan skamms.

24.04.2012

Kvikmyndasýning í gömlu kirkjunni

Eins og greint var frá hér á heimasíðunni fyrir helgina var ákveðið með skömmum fyrirvara að efna til kvikmyndasýningar í tengslum við Hammondhátíð í gömlu kirkjunni hér á Djúpavogi, en þar var Djúpavogsbúinn Skúli Andrésson á ferð með lokaverkefni sín úr Kvikmyndaskóla Íslands í farteskinu. Er skemmst frá því að segja að viðburður þessi mæltist afar vel fyrir hjá gestum og gangandi og til vitnis um það mættu liðlega 100 manns í litlu kirkjuna á þær tvær sýningar sem voru í boði hjá Skúla á laugardaginn.  Á fyrri sýningunni var troðið út úr dyrum og var líka góð mæting á seinni sýninguna.  

Það má sannarlega segja að það hafi verið skemmtileg stemming í kirkjunni í upphafi viðburðarins þar sem Kristján Ingimarsson og Ýmir Már Arnarsson hófu dagskrá á því að flytja nokkur þekkt tónlistarbrot úr kvikmyndasögunni áður Skúli sté í predikunarstólinn og kynnti myndirnar sínar.  Aukaleikararnir í stuttmyndinni "Einn á báti" þau Gauti J, Halldóra Dröfn og Hrönn J fengu að sjálfsögðu að verma fremsta bekkinn í kirkjunni á þessari frumsýningu svo og einnig Kristján Karlsson frá Steinsstöðum sem lagði til aðalupptökustaðinn í myndinni þ.e. Steinsstaði.   

Innkoman af sýningunni var aldeilis fín eða 75.500 kr. og óskaði Skúli eftir að öll upphæðin myndi renna óskert til Hollvinasamtaka gömlu kirkjunnar sem vinnur að enduruppbyggingu á gömlu kirkjunni í samstarfi við Djúpavogshrepp.
Með framlagi þessu segist Skúli vilja sýna þakklæti til heimabyggðar sinnar og til allra þeirra sem studdu við bakið á honum við gerð stuttmyndarinnar "Einn á báti" sem var tekin upp hér á Djúpavogi fyrir síðustu jól. 

Vegna þessa viðburðar í gömlu kirkjunni vildi Skúli einnig koma á framfæri sérstökum þökkum til pápa síns og Þórs Vigfússonar þúsundþjalasmiðs og listamanns fyrir að breyta gömlu kirkjunni í fullkominn bíósal.  
Þá bjargaði Guðlaugur Birgisson málum á tæknisviði með því að lána sýningargræjur og öflugt heimabíó, þá var Pálmi F Smárason, Unnur Jónsdóttir, Jón Einar Ágústsson og Magnús Kristjánson sömuleiðis dugleg og hjálpuðu til að gera þessa sýningar að veruleika.   

Þá er gaman að segja frá því að Pálmi Fannar, Jón Einar og fleiri framsýnir aðilar ákváðu að hafa barnabíó á sunnudeginum kl 15:00 og nýta sýningargræjurnar meðan þær voru uppi og mæltist það sannarlega vel fyrir hjá krökkunum og þar kom inn 15.200.kr. sem sömuleiðis rann til kirkjunnar.

Hér má sjá myndir af sýningu Skúla í kirkjunni og frá barnabíói deginum eftir.

 

 

 

 

 

 

 

23.04.2012

Fjórði í Hammond 2012

Og þá er nú Hammondhátíð Djúpavogs árið 2012 lokið í þetta sinn.

Fjórði starfsdagur hátíðarinnar fór fram í Djúpavogskirkju og var athöfnin þar vissulega heilög í samræmi við boðskap kristinna fræða um að menn skuli halda hvíldardaginn heilagan. Annálsritari er verulega efins um að fólk hafi gengið glaðara og þakklátara í hjarta úr kirkju sinni þennan dag, en þeir, sem komu á tónleika Egils Ólafssonar og Jónasar Þóris, sem þarna fóru fram. Og víst er um það að betri predikun hefur tæpast verið haldin í nokkru guðshúsi þennan daginn en sú, sem Egill flutti smám saman með föðurlegum tón og í miklum innileik, eftir fyrstu verkin á efnisskránni höfðu litið dagsins ljós. Þar kom Jónas í byrjun við sögu með verkum úr smiðju Bach og Grieg. Að því búnu tók við „Oh what a morning“ (söngur úr guðspjöllunum) og því næst slagari úr Stuðmanna katalóknum, „Energí og trú“.

Og það átti svo sannarlega vel við að hljóðfærið, Hammond orgelið, sem nýtt hefur verið við trúarsamkomur af ýmsu tagi úti um allan heim, einkum hinn vestræna frá okkur séð, væri í aðalhlutverki hjá hinum fingrafima og ljúfa undirleikara, Jónasi Þóri, sem reyndar tók flygilinn til kostanna í alla vega 2 lögum. Það var ekki amalegt að hlusta á Egil flytja við hugljúfan undirleik sálm, eigið lag og texta, sem hann kallaði veraldlegan, af því að hvergi í honum væri minnst á guð, en samt fjallað um hið góða í manninum. Hann er númer 9; „Þó himnarnir hrynji...“  úr 18 laga safni veraldlegra sálma eftir listamanninn.

Egill tileinkaði mörg verk á efnisskránni konum, sem hann kvað, án mótmæla úr kirkjubekkjum, vera fallegri hluta mannkyns. Flutti hann síðan „Summertime“ eftir þá Gerswin bræður og í framhaldi af því „Night & Day“ eftir Cole Porter. Samhliða því upplýsti hann annálsritara og líklega flesta kirkjugesti um að hin íslenzka myndlistarkona, Nína Sæmundsson, hafi verið einn helzti tónlistargagnrýnandi Porter og jafnvel haft líf verka hans í höndum sér. Hann mun hafa leitað álits hennar á ýmsum verkum sínum og annað hvort gaf hún þeim gæðastimpil og þar með líf, eða ráðlagði tónskáldinu að leggja þau snarlega til hliðar. Þetta var sannarlega áhugavert og kemur þarna í ljóst, eins og Egill ályktaði, að rætur Íslendingsins liggja víða.

Í predikunum sínum (kynningum á milli verka) lagði söngvarinn m.a. út frá því að ekkert væri sjálfgefið í lífinu, eins og mönnum hætti til að halda. Hann minntist á stórhug og framsýni Svavars Sigurðssonar, upphafsmanns hátíðarinnar og þeirra, sem sterkast hafa staðið við bakið á honum við að halda úti menningu með þeim stimpli, sem hátíðin hefði fengið á sig. Vissulega væri það alþekkt að menn ynnu að því að halda uppi menningu, m.a. úti um hinar dreifðu byggðir, þar sem að maður væri manns gaman. Hins vegar væri flóknara að búa til nýja menningu af því tagi sem hér hefði verið gert. Hann vék orðum sínum að hinni eðlu íþrótt, borðtennis (Ping Pong) og útskýrði, að ef bara pingið væri til staðar, vantaði öll samskipti í tjáningu manna í milli. Þeir félagar sýndu síðan á táknrænan hátt mikilvægi undirleikarans og söngvarans fyrir hvorn annan og hvernig Ping Pongið virkar í tónlistarflutningi.

Á einum stað í efnisskránni lék Jónas Þórir af fingrum fram „Vorið er komið og grundirnar gróa“ í djassaðri útsetningu. Á meðan var Egill að byrja að hita upp forláta trommu (sjá mynd), sem hann kvað eiga árþúsunda gamlan uppruna og hefði í raun og veru verið GSM sími þeirra tíma og langt fram á vorar aldir. Reyndar fullkomnara tæki en öll slík í nútímanum, því að með þessum GSM síma hefðu menn náð að vera í sambandi við framliðna. Reyndi hann síðan „að ná í“ við Jón Arason, sem dó um miðja 16. öld og var eitt helzta skáld þeirra tíma. Við eigin undirleik á trommuna flutti hann því næst veraldlegan sálm Jóns, sem byrjar á þessum orðum; „Hnigna tekr heimsins magn“.

Að því búnu fengu viðstaddir að heyra útgáfu Egils á trúarjátningunni og var sú bæði virðuleg og vel flutt, reyndar í töluðu máli en ekki sungnu. Svo kom sungið atriði „It ain´t necessarily so“, og í framhaldi af því upplýsingar um að Egill hefði dvalið sumarlangt á Djúpavogi fyrir 42 árum við mælingar á stæðum fyrir raflínur. Dvölina taldi hann hugsanlega hafa verið tímasóun, þar sem að hann virtist hafa vissar efasemdir um að sjónmengunin frá raflínunum, sem hann óbeint er ábyrgur fyrir, væri réttlætanleg. Að öðru leyti hugsaði hann greinilega hlýtt til staðarins.

Lokalagið fyrir uppklapp var eigin texti Egils á þekktum slagara Ninu Simon, „My Baby Just Cares For me“.

Að lokum tóku þeir félagar, þó með Egil í verulegu aðalhlutverki, lagið, en þó ekki síður textann „Ofboðslega frægur“ og var hrein unun að hlýða á flutninginn og sjá hina líflegu notkun Egils á því sem kallað er líkamstjáning. Þar fara fáir í fötin hans, og reyndar er útgeislun hans gífurleg á öllum sviðum við tækifæri sem þetta. Stóðu viðstaddir tónleikagestir upp fyrir þeim félögum og klöppuðu þeim lof í lófa svo sem vera bar.

Lokaorð.

Að loknum framangreindum tónleikum flutti Hlíf B. Herbjörnsdóttir, einn af máttarstólpum hátíðarinnar öll árin, sem hún hefur verið haldin (2006 – 2012), listamönnunum þakkarorð og lagði út frá orðum Egils Ólafssonar um að ekki væri allt sjálfgefið í lífinu. Hún tilkynnti um handverkssýningu, sem eldri borgarar á Djúpavogi stæðu fyrir síðar í dag. Bað hún síðan höfuðpaur Hammondhátíðar Djúpavogs frá upphafi, Svavar Sigurðsson að koma upp og þiggja verðskuldað klapp frá viðstöddum. Þriðji helzti máttarstólpi hátíðarinnar frá upphafi hefur verið Þórir Stefánsson á Hótel Framtíð. Framlag þeirra þriggja verður seint fullþakkað. Aðrir með þeim í stjórn, ýmist allan tímann eða stóran hluta hans hafa verið Hrönn Jónsdóttir og Kristján Ingimarsson og gildir hið sama um þau. Annálsritari hefur verið viðloðandi stjórnunarstörf, en aðallega séð um myndatökur og verið nokkuð virkur í misgáfulegum skrifum um hátíðina, sem – sé alla vega hinu torskilda efni sleppt – hafa sögulegt gildi, ekki sízt myndirnar, sem hann og aðrir, einkum Andrés Skúlason hafa tekið.

Ljóst er að breytingar eru framundan hvað varðar stjórn og undirbúning Hammond hátíðar Djúpavogs. Öll framangreind hafa ákveðið að draga sig í hlé úr framvarðarsveitinni og eru fyrir því ýmsar ástæður, m.a. brottflutningur Svavars frá landinu. Hlíf og hennar maki eru að flytja á Stöðvarfjörð í haust og þeim og öðrum finnst rétt að hleypa nýju blóði í æðar þessa mikilvæga slagverks, en allir eru tilbúnir að aðstoða við atriði, sem kunna þarf skil á og þurfa að geta gengið upp svo vel sé til framtíðar litið. Megi þeim, er við taka, m.a. öðlast að tryggja viðvarandi trú þeirra sem úthluta styrkum til menningarmála til hátíðar af þessu tagi, að ekki sé talað um þá fjölmörgu, sem styrkt hafa hana undanfarin ár. Það er ekki sjálfgefið að reka svona hátíð í lengd og bráð „réttu megin við núllið og vel það“, en það hefur aldrei verið tap á henni þessi ár, þótt fyrsta árið þyrfti reyndar til að koma fjármagn í formi styrkjar frá nokkrum velunnurum hennar svo endar næðu saman. Þessi árangur hefur náðst m.a. á grundvelli eftirtalinna staðreynda:

a)      Svavar Sigurðsson þekkir marga afburða tónlistarmenn eða hefur haft aðgang að þeim með vinskap í gegnum Halldór Bragason (verið einn af Vinum Dóra). Ljóst er að menn hafa náð stórgóðum tónlistarmönnum hingað í gegnum þessi sambönd og nánast alltaf gegn mjög sanngjörnum greiðslum. Svo er komið að það er mörgum háklassa tónlistarmönnum keppikefli að „fá“ að spila á Hammondhátíð Djúpavogs. Svavar á því mikinn heiður af því að hrinda úr vör og laða að sér góða samstarfsmenn.

b)      Eigendur Hótels Framtíðar hafa alla tíð styrkt hátíðina með gistingu og fæði fyrir alla listamennina, án nokkurrar greiðslu. Í því sambandi er vert að þakka þeim Þóri og Guðrúnu Önnu fyrir mikinn metnað og var annálsritari mjög stoltur af því að sjá hve vel var staðið að framreiðslu og öllum aðbúnaði nú, ekki síður en undanfarin ár.

c)       Hátíðin var svo heppin að fá strax að fjármálunum Hlíf B. Herbjörnsdóttur, sem að öðrum ólöstuðum hefur haldið afburða vel á þeim þætti og nýtur mikillar virðingar hjá flytjendum og öðrum, sem að verkefninu hafa komið. Hefur allt staðið sem stafur á bók í þeim efnum og hátíðin þar með fengið það orðspor að ekki þurfi að bíða eftir greiðslum í óvissu. Þessi árangur hefur náðst á þann hátt að nánast öll vinna við undirbúning og framkvæmd hátíðarinnar hefur verið í sjálfboðavinnu. Fórnfýsi og sjálfboðavinna hefur því raun verið „master lykillinn“ að velgengninni.

d)      Jón Ægir Ingimundarson, sem féll frá s.l. haust, og félagar hans í hljómsveitinni hér á staðnum hafa stutt hátíðina tryggilega, m.a. með því að lána hljóðfæri og spara þar með heil mikinn flutningskostnað. Auk þess annaðist Jón Ægir tæknistjórn fyrstu árin. Hans þáttar í verkefninu voru gerð ágæt skil í minningarorðum, sem flutt voru í upphafi hátíðarinnar nú.

e)      Eftir því sem hátíðinni hefur vaxið fiskur um hrygg fjárhagslega hefur verið leitað dýrari og þar með flottari lausna til að tryggja sem beztan hljómflutning og lýsingu. Bæði nú og fyrr hafa verið þar sannir fagmenn á ferð og er þeirra bæði getið við umfjöllun um 1. kvöldið nú og eins í umfjöllun vegna einstakra ára á sérstakri heimasíðu hátíðarinnar.

f)       Djúpavogshreppur studdi strax í upphafi vel við hátíðina og gerir enn. Þáttur Bryndísar Reynisdóttur og Ólafs Björnssonar er þó sýnu mestur í því sambandi.

g)      Fyrirtæki á staðnum og reyndar víðar, hafa stutt hátíðina á ýmsan hátt, ýmist með því að veita umtalsverða afslætti eða með beinum fjárframlögum.

h)      Og síðast, en ekki sízt hafið þið, sem þetta kunnið að lesa, alla vega mörg ykkar, að sjálfsögðu lagt ykkar af mörkum með því að mæta og veita þannig hátíðinni sjálfri og flytjendum hverju sinni byr undir báða vængi.

En fyrir alla, sem þetta kunna að lesa og hafa metnað fyrir hönd hátíðarinnar, set ég hér í lokin brýningu frá vini mínum, Stefáni Bragasyni á Egilsstöðum, sem ég bað um að meitla í 4 línur það sem að ég held að við getum öll verið sammála um að sé samasemmerkið á milli byggðarlagsins og tónlistarhátíðarinnar. Djúpivogur hefur vissulega fóstrað hana og nafn byggðarlagsins kemur að sama skapi oftar upp í huga fjölmargra góðra gesta okkar sem áhugaverður menningarstaður í tilverunni. Stefán, eins og margir aðrir, hefur tekið ástfóstri við staðinn og verið tíður gestur á undanförnum hátíðum og mætti að sjálfsögðu einnig á þá sjöundu. Hann orðar þetta svona:

Enn í hlustum ómurinn
er frá brimsins sogi.
Hammond orgelhljómurinn
hæfir Djúpavogi.

Megi orðspor Hammondhátíðar Djúpavogs halda áfram að aukast.

Myndir má sjá með því að smella hér.

Texti: BHG
Myndir: AS

23.04.2012

Þriðji í Hammond 2012

Og svo rann 3ja kvöldið upp eftir afslappaða bið í hinn bráðum hefðbundna hálftíma m/v auglýsta dagskrá. Í boði voru Megas og Senuþjófarnir og var greinilegt að margir vildu berja augum Megas, átrúnaðargoð sitt frá fornu fari og jafnvel til dagsins í dag, þegar sumir fíla hann enn betur eftir að Senuþjófarnir komu til leiks. Etv. voru þarna einhverjir af nágrönnum hans til forna, meðan hann bjó í skamman tíma hér á Djúpavogi. Alla vega var þetta bezta kvöldið mætingarlega séð.

Megas tók flugið seint austur og einhvern veginn fannst annálsritara hann taka flugið seint, en Megas er jú Megas og þarf ekki að þenja sig á fullu (me-)gasi til að koma sínu til skila. Senuþjófarnir eru fínir spilarar, en samt fannst manni bera á ákveðnu óöryggi á köflum og jafnvel æfingaleysi. Afleiðingar slíks voru þó í lágmarki vegna röggsemi Guðmundar Péturssonar, sem er „Victor Silvester“ þessarar grúppu, svona út í frá, þótt líklega hafi hann ekki komið henni á laggirnar. Hjómsveitin er öllu fremur hluti bæjarútgerðar þeirrar, sem kennd er við annars konar aflabrögð en hinna „grand(a)vöru samherjamanna, hverrar systurskip eru Hjálmar og „Laggabútur“. Annálsritari hafði velt því fyrir sér fyrir tónleikana, hvaða skipi útgerðarinnar; Senuþjófunum, Hjálmum, eða Baggalútunum yrði lagt, kæmi hið nýja kvótafrumvarp of illa við þessa útgerð. Niðurstaðan hafði fyrirfram orðið sú að mest líkindi væru til þess að hið fyrst nefnda „prósjektið“ yrði hengt á bryggjupollana og sú skoðun mín breyttist ekki framan af tónleikunum í gær. En þegar menn settu í botn undir lokin og hristu m.a. fram skemmtilegar útsetningar eins og á „Spáðu í mig“ varð ég ekki eins sannfærður.

Já, vel á minnst; Ég samt ekki  viss um að áhrif framangreindrar kvótaskerðingar myndi hafa slæm áhrif á Megas, því hann gæti í kjölfar slíkra breytinga orðið sinn eigin skipherra á nýjan leik og farið yfir í smábátakerfi, líklega þó með snjallan akkústikk gítarleikara með sér og þannig horfið til fortíðar eins og við mörg hver þekkjum hann bezt.
Megas var sjálfum sér líkur og passlega mikið út á þekju, enda vantar bara einn metra í að hátt sé til lofts í salnum. Hann kom sínu til skila og allir vita að hann hefur samið og er að semja góð lög. Textar hans eru hafnir yfir alla gagnrýni, en menn þurfa að hafa þá á hreinu, þegar mætt er á slíka tónleika þar sem „telepromterinn“ (textavélin) snýr alla jafna öfugt frá áheyrendum séð.

Gaman var að fylgjast með tónleikagestum, sem voru ríflega 150, þegar allt var talið. Ekki síst reyndi á hálsliði margra allt frá banakringlunni niður til liðar nr. 7, þegar menn sveifluðu höfðinu fram og aftur í viðurkenningarskyni og slógu þannig taktinn á sinn hátt. Einstaka maður hellti jafnvel úr eyrunum af ánægju. Salurinn var sem sagt vel með á nótunum og brást vel við því sem fram var reitt og ljóst að stuðið þarna var meira en á hinum kvöldunum og það því hið bezta hingað til í slíku tilliti. Það segir þó ekkert til um aðra þætti og er bent á umfjöllun um kvöld nr. eitt og tvö til frekari samanburðar.

Megasi og Senuþjófunum tókst alla vega að halda senunni til loka, þótt atlaga væri að þeim gerð um hríð.

Hafi þeir hina beztu þökk fyrir, sem og tæknifólkið, er sá um að koma afurðum þeirra til skila og magna þær upp m.a. með brellum ljósabúnaðarins á staðnum.

Myndir má sjá með því að smella hér.

Texti: BHG
Myndir: AS

22.04.2012

Annar í Hammond 2012

Hið hefðbundna korter tvöfaldaðist, meðan menn voru að gíra sig upp og efna til veizlufanga, en  svo byrjaði kvöld nr. 2. Á sviðið steig úrvalslið hins sextuga Björgvins Gíslasonar. Já, það var svo sannarlega úrvalslið, sem keppti saman og innbyrðis á toppnum, þótt það væri í tveim deildum, aldurslega séð, eins Bjöggi Gísla orðaði það; trommarinn Geiri Óskars, bassaleikarinn Halli Þorsteins og gítarleikarinn Bjöggi (og gott ef ekki einn fermingarbróðir enn). Í yngri  deildinni voru Johnny B Good = Jón óvenjugóði á Hammondorgelinu og sjálfur Gummi Pé með hinn gítarinn. Sönginn annaðist úr þeirri deild en fyrir hópinn í heild Björgvin Ploder, sem sniglaðist upp á sviðið eftir tvö verk, hvar af það fyrra reis úr mikilli dulúð, án þess að flestir í salnum tæku eftir að þar væri verið að ýta úr vör, yfir í það verða undir, yfir og allt um kring, jafnvel með örlitlum Pink Floyd fílingi í stutta stund, svona ljóð án orða, í bragarhætti sonnettu.  Annálsritara minnir að Bjöggi hafi kynnt næsta verk sem „Ambrosia“, og þá var fönkið orðið jazz skotnara. Þá strax og ekki síður þegar Ploderinn var búinn að kyrja sitt fyrsta lag, fengu viðstaddir vel á tilfinninguna að þeir væru viðstaddir atburð, sem svo sannarlega væri þess virði að taka þátt í, burtséð frá því hvort einhverjir þeirra kæmust til tunglsins síðar meir.

Já, það voru svo sannarlega merkilegir tónleikar á Hótel Framtíð þetta kvöld, sem hófust í þann mund, sem Fljótsdalshérað var að leggja Garðabæ í Útsvarinu. Ekki endilega mesta stuðið, þegar saga Hammond hátíðarinnar er skoðuð í heild, en þó var salurinn glettilega vel með á nótunum. Þarna var margt vissulega „öðru vísi“, en oft áður. Þótt „fönk“ sé líklega ekki tónlistin til að drekka sig til með fyrir Geirmundarballið á Skjöldólfsstöðum (séu menn að fara þangað), er ferlega flott að sjá svona afburða spilara fremja það á sviði, einkum þegar frábær ljósabúnaður er nýttur af kunnáttu. En það var ekki bara systirin Fönk, sem mætt var þarna geislandi af gleði, heldur kom bróðir hennar Fúsi Jón einnig mjög við sögu, og jafnvel Reggí frænka þeirra. Vissulega væri vert að gera betur skil einstökum verkum, en þeir félagar hristu þetta allt fram úr ermum eins og að skeina sig með vinstri. Geiri lét hendur standa fram úr á stuttermabolnum, en hvíldi  þó kjuðana í einu verkinu, meðan trommusettið hans Óla okkar trommara var að kólna niður. Oftar hélt hann þeim samt  í sterkum greipum sínum og kom sínu af alkunnri festu og öryggi til skila, enda ekki amalegur meðreiðarsveinn í þeim hluta bandsins, sem gjarnan er kallaður „hrynsveitin“. Þá er átt við bassaleikarann Halla Þorsteins, sem satt að segja var afburðaþéttur og er þá vægt til orða tekið. Og hvað er hægt að segja um þátt tveggja stórklassa gítarleikara, þegar Gummi Pé er á stundum bara „co pilot“ á sinn afslappaða og agaða hátt. Um færni Jóns óvenjugóða á Hammondið þarf ekki að hafa mörg orð og hann þarf vissulega ekki að sanna sig, en gerir það samt. Hin sérstaka og kraftmikla rödd Plodersins varð svo sannarlega heldur ekki til að skemma samkunduna.  Og ekki má gleyma því að hljómsveitarstjórinn hefur vissulega samið mörg afburða tónverk, sem reyndar kalla á meiri kunnáttu en grunnþekkingu í vinnukonugripum í flutningi. Þeim voru svo sannarlega gerð góð skil þarna og er ástæða til að gefa tónskáldinu „þömbs öpp“, því titilinn tónskáld ber það (hann) með sóma.

Kynningar þeirra félaga voru yfirleitt stuttar og með yfirbragð léttleika eftir örlítið hik í byrjun, en síðan varð þetta „kammó“ og skemmtilegt, þvert ofan í það sem Bjöggi sagði í byrjun að prógrammið væri yfirleitt leiðinlegt, en tæki fljótt af. Allir hljóðfæraleikararnir nutu sín vel og komu sínum og annarra manna vikivökum til skila. Þeir fóru fyrst af alvöru yfir í rokkið eftir hlé, en aldrei var langt í „glettur og gigg“ af beztu sort. Og svo var þetta allt í einu búið og uppklappslagið tekið áður en uppklappið kom af því að salurinn á Hótel Framtíð er svo langur í annan endann að Bjöggi nennti ekki að ganga fram og til baka, enda á leiðinni í Hveragerði að eigin sögn.

Bandið hans Bjögga komst samt ekki upp með að skila ekki uppklappslagi og var það úr smiðju The Band. Lagið var The Weight (Take a load off Annie / Fanny), sem leggja mætti út  „Fargið“ (Léttu byrð‘ af Láru / Báru). Þá settist Sniglabandstrommarinn við settið og söng þetta ágæta lag til minningar um trommuleikara The Band, Levon Helm, sem nú er allur. Og etv. segir það allt sem segja þarf, að þeir félagar skyldu velja að kveðja með verki The Band, þó að það hafi nú líklega verið ómeðvitað hjá þeim, en öllu fremur gefið annálsritara tækifæri til að koma með „pönslænið“, sem er þetta: Sé litið til sögu Hammondhátíðar Djúpavogs frá upphafi skynjaði hann það strax á sjálfum tónleikunum og í kjölfar stuttra hrifningarstuna vina sinna, sem meira skynbragð hafa á tónlist en hann, að með framgöngu sinni urðu þeir „Ðe Band“, þegar afrakstur hátíðarinnar öll árin sex og hálfu meir er skoðaður í samhengi.

Myndir má sjá hér

Myndir: AS
Texti: bhg

21.04.2012

Sjöunda Hammondhátíð Djúpavogs

Í fornum sögum má finna lýsingar á langvarandi samkundum í tengslum við brúðkaup, einkum ef annað hvort brúðguminn eða brúðurin (ellegar bæði) „áttu nokkuð undir sér“. Brúðhjónin, sem giftu sig í gær, Lilja Dögg Björgvinsdóttir og Sigurjón (bóndi) Stefánsson eru í hópi óðalsbænda í Álftafirði og það er lágmark að þau fái eins og aðrir fjegurra daga hátíð, sem tengist beint brúðkaupi þeirra. Eru þeim hér með færðar innilegar árnaðaróskir vegna hinnar síðbúnu staðfestingar á þeirra nokkuð langvinna sambandi. Einnig er, svo sem vert er, þakkað fyrir fallega athöfn í Djúpavogskirkju í gær og góðgerðir á Helgafelli í kjölfarið.  Þeim og að sjálfsögðu öðrum tíðum hljómleikagestum og tónlistarunnendum er að sjálfsögðu óskað til hamingju með hátíðina okkar allra, Hammondhátíð Djúpavogs, sem ýtti úr vör í gærkvöldi á Hótel Framtíð.

Salurinn var aðlaðandi og fyrst menn þurfa að sitja uppi með reykinn, sem orðinn er aðalsmerki tónlistarflutnings af því tagi sem í vændum var, má segja að hann, sem hluti af ljósaumgjörðinni allri hafi verið eins og bezt verður á kosið. Hið sama gildir að sjálfsögðu um hljóðstjórnina, sem var á „fullu blasti“, en gott sánd verður aldrei ofmetið við tækifæri sem þessi. Sá þáttur var í höndum pilta frá Hljóðkerfaleigu Austurlands (Guðjóns Birgis Jóhannssonar og Þorvaldar Einarssonar) eins og í fyrra, auk þess sem heimamaðurinn Magnús Kristjánsson lagði hönd á plóg. Sannarlega fagmenn þar á ferð.

Hr. Hammond, Svavar Sigurðsson, steig á svið rétt fyrir kl. 21, ásamt þeim væna pilti, Tómasi Jónssyni. Tómas kom hér einnig í fyrra og má um hann segja að hann eldist eins og eðalvín. Saman fluttu þeir „gjörning“ úr smiðju J.S. Bach, sem er alveg hættur að snúa sér við í gröfinni, þótt frjálslega sé farið með ópusa sem hann er réttilega skrifaður fyrir. Svavar var glerfínn allt kvöldið í Armani frakka  og hans var ríkið mátturinn og dýrðin að efna í liðið, sem mætti til að flytja prógramm sitt á fyrsta kvöld í Hammond 2012 í samræmi við auglýsingar þar um. Um Armani flík Svavars gildir hið fornkveðna, að ekki er jakki frakki, nema síður sé.

Að loknum framangreindum inngangi voru flutt minningarorð um Jón Ægi Ingimundarson, sem var í hópi ötulustu stuðningsmanna hátíðarinnar frá upphafi, en hann féll frá í hörmulegu vinnuslysi s.l. haust. Stóðu allir viðstaddir upp, þegar minningarorðin höfðu verið flutt og sýndu hug sinn til þessa ljúflings og ötula tónlistarmanns í þögn og þökk fyrir framlag hans til tónlistarmála á Djúpavogi.

Síðan steig Svavar aftur á svið, en taka ber fram að sú hefð hefur skapast að kalla upphafskvöld Hammondhátíðanna „kvöld heimamanna“. Má segja að það hafi einnig verið í gær, þótt í sumum tilfellum tengist heimamennskustimpillinn fyrri heimsóknum nokkurra flytjendanna  hingað, svo tíðum, að ósanngjarnt væri að kalla þá aðkomumenn. Alla vega var hreinræktaður heimamaður á ferð í fyrsta atriðinu, en það var Djúpavogsmærin Íris Birgisdóttir, sem flutti nokkur lög við undirleik Tómasar þess, sem áður er nefndur. Í rödd Írisar er einhver silfurtær hljómur, sem ætíð hefur verkað vel á annálsritara frá því að hann naut söngs hennar fyrst. Nú strax að loknu einu ári í söngnámi í Tónlistarskóla F.Í.H. heldur hljómurinn sér prýðilega, en auk þess er greinilega ljóst að námið er að skila sér vel og verður áhugavert að fylgjast með þessari söngdívu í framtíðinni. Íris er svo sem ekki óvön að koma fram, en með meiri dirfsku og öflugri líkamstjáningu yrði enn áhugaverðara að berja hana augum á sviði og hlýða á ómfagran sönginn, sem vissulega skemmir ekki að sé leiddur af jafn færum undirleikara og Tómas Jónsson er. Hann stundar einnig nám í Tónlistarskóla F.Í.H. og fékk verðlaun s.l. vetur sem afburðanemandi. Það kemur okkur Hammondhátíðarfólki ekki á óvart, eftir að hafa heyrt og séð piltinn hér með „Landsliðinu“ vorið 2011.

Þá birtust á sviði hálfgerðir „laumufarþegar“ kvöldsins, en þeirra hafði hvergi verið getið í upphaflegum auglýsingum. Var það norðfirzka hljómsveitin Coney Island Babies (tilvísun í tónlist Lou Reed). Hljómsveitina skipa;  Guðmundur Höskuldsson, gítar, Geir Sigurpáll Hlöðversson, gítar og söngur, Hafsteinn Már Þórðarson, bassi og Jón Knútur Ásmundsson, trommur. Er skemmst frá að segja að þetta aukanúmer kvöldsins átti fullan rétt á sér og „vel það“ (eins og maðurinn sagði). Bandið er hið „þéttasta“  og verður virkilega áhugavert að kynna sér nýjan geisladisk, Morning to Kill, sem er að koma út og verða útgáfutónleikar á næstunni.  M.a. fluttu þeir lagið Polly (eftir þá félaga) og virtist þar eyrnakonfekt á ferð, sem hefur alla burði til að ná miklum vinsældum. Það verður gaman að fylgjast með framhaldinu hjá þessum piltum, sem eru kúl og miklu fremur „Men“ heldur en „Monsters“.

Að þessu búnu fór „aðalnúmer kvöldsins“ að setja sig í gírinn. Var það Fjórðungslandslið Austurlands undir stjórn hins geðþekka bassaleikara, Þorleifs Guðjónssonar, sem flutti sig um set úr borgarglaumnum  fyrir ríflega áratug og settist að í Hamraborg í Berufirði. Þótt fluttur sé aftur í dýrðina syðra, má fyllilega flokka hann sem heimamann og það mætti reyndar gera með fleiri af meðreiðarsveinunum, m.a. hinn fingrafima gítarista Jón Hilmar Kárason, sem söng tvö lög, en það var ný upplifun (og ánægjuleg fyrir marga viðstadda). Ekki  síður fellur undir flokk „heimamanna“   Garðar Harðarson, hinn lipri gítarleikari og afburða blússöngvari, sem oft hefur verið mærður við umfjöllun fyrri ára, þegar hann hefur stigið á svið  hér. Svavar tók Hammondið til kostanna í upphafi, en varð að lúta í lægra haldi fyrir Tómasi  í nokkurs konar orrustu um Gasa svæðið í kringum þetta virðulega hljóðfæri. Síðast en ekki sízt skal nefna Jón Knút Ásmundsson, trommuleikara, sem svo sannarlega stóð fyrir sínu. Þrátt fyrir að hann hafi ekki oft spilað með þessum hópi í heild gaf hann framangreindum snillingum ekkert eftir og var pottþéttur í bítinu. Lét hann einnig vel að stjórn í þeim tilfellum, þegar hljómsveitarstjórinn gaf honum meldingar um atriði í útsetningum, sem bandið í heild hafði líklega ekki átt þess kost að æfa í þaula. Tekið skal þó skýrt fram að alls ekki var að sjá að æfingaleysi væri mönnum fjötur um fót, heldur þvert á móti. Það er nú kosturinn við afburða tónlistarmenn að einn slíkur, sem kemur nýr inn tímabundið í þétt band, virðist geta fallið eins og flís við rass inn í hópinn í heild. Það var svo sannarlega reyndin þetta kvöldið. Annálsritari minnist þess ekki að Þorleifur hafi staðið fyrir jafn „fönk skotnu“ prógrammi eins og þarna var boðið upp á en hann er og hefur reyndar ekki verið við eina fjölina felldur í tónlistinni, drengurinn sá. Dæmi um það var þegar hann kallaði Silviu Hromadko upp á sviðið til að láta hana taka einn reggí slagara, til að rifja upp gamla takta, þegar þau tvö, ásamt Svavari komu fram undir nafninu SVASIL (Svavar og Silvia).

Ánægjulegu kvöldi lauk skömmu fyrir miðnætti og fóru gestir, sem voru nokkuð innan við 100 mjög sáttir til síns heima og hlakka til kvöldsins í kvöld og næstu kvölda. Vísum við til auglýsingar þar um í því sambandi.

Myndir frá kvöldinu má sjá með því að smella hér.

Myndir: Andrés Skúlason / Texti: bhg

20.04.2012

Kvikmyndasýning á Hammondhátíð í gömlu kirkjunni

Laugardaginn 21. apríl mun undirritaður standa fyrir kvikmyndasýningu í gömlu kirkjunni hér í þorpinu. Um er að ræða sýningu á tveimur myndum sem tengjast Djúpavogi.

Fyrst verður heimdildarmyndin „Lífsviljinn“ (um Rafn Heiðdal) sýnd og svo í beinu framhaldi verður stuttmyndin „Einn á báti“ frumsýnd en meðal leikara þar eru m.a. Magnús Ólafsson og nokkur þekkt andlit hér á Djúpavogi.

Viðburður þessi hefst kl. 17:30 og ef kemur í ljós að húsrúm verður ekki nóg fyrir alla gesti verður önnur sýning kl. 18:30.

Aðgangseyrir er 1.000 kr. og eru gestir beðnir um að setja peninginn í söfnunarkassa sem settur hefur verið upp við innganginn í kirkjunni.

Allur ágóði af sýningunni rennur í sjóð Hollvinasamtaka gömlu kirkjunnar sem ásamt Djúpavogshreppi vinnur nú að endurbyggingu kirkjunnar.

Hvet alla Djúpavogsbúa til að mæta og taka þátt í einstakri upplifun í einstakri umgjörð og styðja um leið gott málefni.

Skúli Andrésson

 

20.04.2012

Kökubasar

Kökubasar í dag kl. 16:00 í Samkaup - Strax.

Foreldrafélag Djúpavogsskóla

20.04.2012

Handverkssýning eldri borgara á Helgafelli

Félag eldri borgara verður með sýningu á handunnum munum á Helgafelli, sunnudaginn 22. apríl frá kl. 14:00 - 18:00 og mánudaginn 23. apríl frá 13:00 - 18:00

Kaffisala verður 22. apríl.

Félag eldri borgara

20.04.2012

Tímamót hjá Bátasmiðjunni Rán

Það eru tímamót hjá Bátasmiðjunni Rán þessa dagana, en fyrir stuttu kláruðu þeir smíði á flotbryggju sem þeir sjósettu á þriðjudaginn, til prufu. Þar gerði hún stuttan stans því í gær (miðvikudag) sótti kaupandinn, Einar Björn Einarsson á Jökulsárlóni, gripinn. Einar Björn gerir út ferðir á Jökulsárlóni og ljóst að flotbryggjan á eftir að sóma sér vel þar. Bryggjan er 5 metra löng og 2,40 á breidd. Neðri hluti hennar er úr pípulagningaefni og efri hlutinn er gegnfúavarin fura. Hún vegur um 700 kg. Hins vegar getur Bátasmiðjan smíðað svona flotbryggju í ýmsum útfærslum, allt eftir þörfum kaupandans. Efra borðið er einnig hægt að fá úr plasti og harðvið.

Eins og fjallað var um í fréttum RÚV um daginn er í smíðum hjá Bátasmiðjunni sjóbátur úr pípulagningaefni. Smíði þessa rúmlega 7 metra langa báts er langt komin en þó vantar þá fjármagn til að geta klárað hann, þ.e. að setja í hann vél og græjur. Það er hins vegar ekkert því til fyrirstöðu að hefjast handa við byggingu á lengri bátunum, sem verður um níu metra langur, en efnið í skrokkinn og vélin í hann er til.

Það er því ljóst að það er nóg að gera hjá starfsmönnum Bátasmiðjunnar Ránar, sem er svo sannarlega orðin kærkomin viðbót í atvinnuflóruna hér á Djúpavogi.

ÓB

 


Flottbryggjan góða


Bræðurnir Skúli og Vilhjálmur Benediktssynir, Gautir Jóhannesson sveitarstjóri og Óskar Ragnarsson

19.04.2012

Poolmóti Við Voginn frestað

Af óviðráðanlegum orsökum hefur fyrirhuguðu poolmóti Við Voginn, sem fara átti fram laugardaginn 21. apríl, verið frestað um óákveðinn tíma.

ÓB

19.04.2012

Aron Daði keppir fyrir hönd MK í Söngkeppni framhaldsskólanna

Nú er orðið ljóst hvaða skólar keppa í söngkeppni framhaldsskólanna árið 2012, en í fór fram forval þar sem almenningur fékk að velja skóla, m.a. með sms-kosningu.

Einn þeirra skóla sem komst áfram er Menntaskólinn í Kópavogi, en fyrir hans hönd keppir Aron Daði Þórisson, Djúpavogsbúi (sonur Þóris og Guðrúnar Önnu) ásamt Jennu Katrínu Kristjánsdóttur. Þau munu syngja lagið Colours með Grouplove.

Keppnin fer fram 21. apríl í Vodafonehöllinni í Reykjavík og verður sýnt beint frá keppninni á RÚV.

Hægt er að skoða framlag Arons og Jennu með því að smella hér.

Meðfylgjandi mynd er af Aroni þegar hann var að stíga sín fyrstu skref á Hammondhátíð árið 2007.

ÓB

18.04.2012

Nóg um að vera um komandi Hammondhelgi

Það verður ýmislegt skemmtilegt í boði um Hammondhelgina, því fyrir utan frábæra tónlistardagskrá ætla fyrirtæki og handverksfólk á Djúpavogi að bjóða upp á spennandi dagskrá alla dagana.

Dagskrána má sjá hér að neðan, með því að smella á myndina.

Dagskrá Hammondhátíðar sjálfrar má sjá á heimasíðu Hammondhátíðar.

 

ÓB

 

 

 

18.04.2012

Rödd þjóðarinnar á Djúpavogi

Í morgun mætti galvaskur í Grunnskóla Djúpavogs Halldór Gunnar Pálsson, Önfirðingur og kórstjóri Fjallabræðra. Hann vinnur að mjög skemmtilegu verkefni sem snýr að því að fá sem flesta Íslendinga til að syngja inn á lagið hans, sem ber nafnið Ísland.

Það var því fyrsta verk nemenda skólans þegar þeir mættu í morgun að syngja inn á þetta fallega lag, en takmark Halldórs er að fá 10% þjóðarinnar, 30.000 manns, til að syngja inn á lagið. Eftir heimsóknina á Djúpavog var talan komin upp í 926.

Lagið er stórt og mikið og eru margir sem koma að flutningi þess, þ.á.m. Fjallabræður, hljómsveit Fjallabræðra, Unnur Birna Björnsdóttir og Lúðrasveit Vestmannaeyja. Einsöng í laginu syngur Unnur Birna sem einnig kom að því að semja lagið.

Sjálfur segir Halldór um verkefnið:

"Eftir að lagið fór að taka á sig mynd kviknaði sú brjálaða hugmynd að leggja af stað í það verkefni að ná að fanga „Rödd Þjóðarinnar“ inn á lokakafla lagsins. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef eru 10% þjóðarinnar skilgreiningin á rödd þjóðarinnar og hana ætla ég að fanga."

Á heimasíðu verkefnisins, www.thjodlag.is, segir að markmiðið með þessu öllu saman sé að reyna að sameina þjóðina í söng. Það sé alveg klikkað ef að heil þjóð tekur sig saman í söng, það hlýtur bara að vera einsdæmi. Að verkefninu loknu verður lagið og myndbandið gert aðgengilegt öllum að kostnaðarlausu á vefsíðu verkefnisins sem verið er að vinna að.

Við þökkum Halldóri Gunnari fyrir skemmtilega heimsókn og óskum honum velfarnaðar í þessu stóra og skemmtilega verkefni.

ÓB

 

Myndasafn Elísar Þórarinssonar

Við vorum að ljúka við að setja inn veglegt myndasafn sem var í eigu Elísar Þórarinssonar á Starmýri, en Haukur sonur hans kom því til okkar.

Annars vegar er um að ræða myndirnar úr Álftafirði og komu þær að miklu leyti merktar, þó eru nokkrar ómerktar myndir sem reynt verður að merkja eftir fremsta megni. Allar ábendingar eru vel þegnar og má senda á djupivogur@djupivogur.is.

Hins vegar er myndasyrpa frá því þegar fyrst var farið ofan í Þjófaholuna í Álftafirði, árið 1961. Haukur segist ekki vera viss um alla sem fóru í ferðina, en veit þó að farið varið á bíl Elísar Þórarinssonar, U-100. Þeir sem hann þekkir á myndunum eru Karl bróðir hans Elísson, bræðurnir Guðmundur og Þorsteinn frá Skálpastöðum í Borgarfirði, Friðjón nokkur og Pétur Ragnarsson frá Rannveigarstöðum.

Haukur fær þakkir fyrir að koma safninu til okkar en það er hægt að skoða með því að smella hér.

17.04.2012

Sundlaugin lokuð næsta laugardag v/ sundmóts

Laugardaginn 21. apríl verður haldið sundmót í Sundlaug Djúpavogs og hefst mótið kl 11:00.

Um leið og við hvetjum heimamenn til að mæta og hvetja Neistakrakkana, þá tilkynnist hér með að laugin verður eðli málins samkvæmt lokuð á laugardaginn fyrir almenning, en opið verður fyrir aðra þjónustu í ÍÞMD, þ.e. þrek, ljós, gufu og í íþróttasal.

Ávallt velkomin
Forst.ÍÞMD

17.04.2012

Myndasafnið frá Árna Ingólfssyni merkt

Vorum að klára að merkja myndirnar í myndasafninu frá Árna Ingólfssyni.

Við þökkum Árna kærlega fyrir myndirnar og hvetjum alla enn og aftur að koma til okkar gömlum myndum, lumi þeir á nokkrum slíkum.

Smellið hér til að skoða myndirnar frá Árna.

ÓB

16.04.2012

Sveitarstjórinn í kvöldfréttum RÚV

Fjallað var um háhraðatengingar í kvöldfréttum ríkisútvarpsins í gær og þá mismunum sem minni sveitarfélögum er sýnd þegar kemur að stækkun ADSL símstöðva. Djúpavogshreppur er eitt þeirra sveitarfélaga sem þurft hafa að greiða Símanum fyrir stækkun, en fyrirhugað er stækkun á símstöðinni á Djúpavogi í sumar úr 8mb/s í 16mb/s.

Rætt var við Gauta Jóhannesson, sveitarstjóra og hægt er að hlusta á viðtalið með því að smella hér.

16.04.2012

Tiltekt í myndasafni Ingimars Sveinssonar

Þá hefur undirritaður lokið verki sem hann átti að vera búinn með fyrir löngu síðan. Betra er þó seint en aldrei, eins og þar stendur. Verk þetta snýr að myndasafni Ingimar Sveinssonar á heimasíðunni og er það nú loksins að verða tilbúið, ef svo mætti orða.

Fyrir það fyrsta er búið að taka elstu myndirnar í safninu (Safni 1) og snyrta þær allar til. Þá er búið að bæta nokkrum nýjum gömlum myndum við Safn 2 og búið að bæta inn tveimur nýjum myndasöfnum; einu sem heitir "Frá Hálsi" og geymir allar þær myndir sem Ingimar hefur látið okkur hafa frá þeim árum sem búið var á Hálsi - og öðru sem heitir "Ferð í Víðidal 1981".

Síðast en ekki síst er búið að merkja allar myndir í öllum þessum myndasöfnum Ingimars. Sem er frábært.

Hvetjum við því alla til að gefa sér góðan tíma að skoða myndasafn Ingimars Sveinssonar.

ÓB

13.04.2012

Frá bókasafninu

Bókasafnsdagurinn verður 17. apríl.   Markmið dagsins er tvíþætt: 1) að vekja athygli á mikilvægi bókasafna í samfélaginu 2) vera dagur starfsmanna safnanna. Bókasafnsdagurinn beinir augum þjóðfélagsins að mikilvægi bókasafna í samfélagi í þeim tilgangi að fá jákvæða umfjöllun í fjölmiðlum.
Eins og aðra þriðjudaga er safnið opið frá klukkan 17:00 - 19:00.  Bókasafnsvörður

13.04.2012