Djúpivogur
A A

Fréttir

Stjörnuskoðun

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn sendu nemendum í 5. 6. og 7. bekk stjörnukort. Fengu þeir kortin afhent í dag með leiðbeiningum um hvernig á að nota þau. Viljum við hvetja fólk til að horfa til himins og njóta þeirrar fegurðar sem dimmustu mánuðirnir bjóða uppá. Á bókasafninu er hægt að fá lánaðar bækur og mynddiska um stjörnufræði og viljum við einnig benda stjörnufræðivefina www.stjornufraedi.is og www.astro.is. Það eru vefir þeirra sem gáfu stjörnukortin og Galíleósjónaukann í fyrra.

Mjög áhugasömum vil ég einnig benda á forritið Stellarium (www.astro.is/stellarium/)  sem er bráðskemmtilegt, ókeypis og fræðandi stjörnufræðiforrit á íslensku.

Að lokum viljum við þakka kærlega fyrir vel veittar gjafir.  LDB

Úrslit í ljósmyndasamkeppni Daga Myrkurs

Eftir miklar vangaveltur og hugleiðingar komst tveggja manna dómnefnd að sameiginlegri niðurstöðu um hver myndi vera sigurvegari ljósmyndakeppninnar sem stóð yfir á Dögum Myrkurs. Myndin "Kross yfir Krossdal" sem Hugrún Malmquist Jónsdóttir sendi inn,  hefur verið valin sigurvegari ljósmyndakeppninnar. Hugrún náði þarna alveg einstakri mynd sem er vel að sigrinum komin. Hér fyrir neðan er svo vinningsmyndin.

 


"Kross yfir Krossdal" Hugrún Malmquist Jónsdóttir


Við viljum þakka þeim sem tóku þátt í ljósmyndakeppninni og við birtum hér aftur myndirnar sem voru sendar inn ásamt nöfnum ljósmyndaranna.

HRG"Þoka að læðast upp blána" Anna Sigrún Gunnlaugsdóttir
"Hvert leiðir ljósið?" Íris Hákonardóttir
"Hvað leynist á bakvið trén?" Íris Hákonardóttir
"Myrkrafjöruferð" Hugrún Malmquist Jónsdóttir
"Áttavilltar prinsessur á dögum myrkurs" Íris Hákonardóttir 

30.11.2011

Fjáröflun leikskóladeildar foreldrafélagsins

Seinnipartinn í dag, þriðjudag, munu foreldrar ganga í hús til að afla fjár fyrir leikskóladeild foreldrafélagsins. Við biðjum ykkur að taka vel á móti þeim og styrkja gott málefni. Eftirfarandi er söluvara og verð:

 

Servíettur: 800kr.(kosta 425.kr)
-Kúlukertin: 1000kr.(kostar 596.kr)
-Dagatalskertin: 500kr.(kosta 259.kr)
Og við ræddum um pappírinn og Dóru fannst 1.500kr eiginlega of lítið þannig að við töluðum um að hafa það 1.800kr.

Servíettur: 800 kr.
Kúlukerti: 1000 kr.
Dagatalskerti: 500 kr.
Jólapappír: 1.800 kr. (Fjórar rúllur, merkimiðar, skrautband og límband)

HRG

29.11.2011

Dagatal fyrir desember

Dagatal fyrir desember er komið inn á leikskólasíðuna.  Sérstök athygli er vakin á því að leikskólinn verður lokaður frá og með laugardeginum 24. desember, til og með mánudagsins 2. janúar.  Er þetta í fyrsta sinn sem leikskólinn er lokaður á þessum tíma.  Ástæður eru nokkrar:  í fyrsta lagi teljum við mjög mikilvægt að nemendur fái frí eins og aðrir og hafi tækifæri til að njóta jólahátíðarinnar í faðmi fjölskyldunnar, í öðru lagi hefur starfsólkið líka gott af því að hlaða batteríin auk þess sem verið er að samræma opnunartíma leikskólans að hluta við opnunartíma grunn- og tónskóla, þar sem þetta er orðinn ein og sama stofnunin.  Leikskólinn opnar aftur 3. janúar 2012.  HDH

Tendrun jólatrésins 2011

Jólatré Djúpavogsbúa verður tendrað sunnudaginn 27. nóvember kl. 17:00. Að venju verður sungið og gengið í kringum tréð. Einnig er von á jólasveinum í heimsókn. Eins og undanfarin ár er það Skógræktarfélag Djúpavogs sem gefur íbúum sveitarfélagsins jólatréð.

HRG

27.11.2011

Hótel Framtíð auglýsir: Pizzatilboð og tónleikar í kvöld

Sjá hér að neðan auglýsingu frá Hótel Framtíð.

 

 

 

 

 

 

 

25.11.2011

Sveitarstjórn: Fundargerð 24.11.2011

Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér

25.11.2011

Hláturmáfur

Í dag tilkynnti Sigurjón Stefánsson hláturmáf á hafskipabryggjunni á Djúpavogi. Þegar ljósmyndari mætti á svæðið sat máfurinn hinn spakasti á bryggjukantinum og lét sér hvergi bregða þegar ljósmyndari nálgaðist hann og smellti nokkrum af honum. Hláturmáfar eru sjaldgæfir flækingar.   AS       

 

http://ruv.is/frett/hlaturmavur-a-djupavogi

 

 

 

 

 

 

Félagsvist

Spiluð verður félagsvist í Löngubúð föstudagana 25.nóv. 2.des. og 9.des.
kl 20:30.  Sjáumst hress og kát.

Félag eldri borgara 

24.11.2011

Svavar Knútur heldur tónleika á Hótel Framtíð

Svavar Knútur ætlar að halda tónleika á Hótel Framtíð föstudaginn 25. nóvember nk.

Svavar hefur sannarlega tekið ástfóstri við Djúpavog því þetta er í 4. skipti sem hann heimsækir okkur, en hann spilar nú í fyrsta skipti á Hótel Framtíð.

Fólk er hvatt til að koma og hlýða á Svavar en á óhætt er að fullyrða að allir finni eitthvað við sitt hæfi á efnisskránni.

Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og kostar 1.500 krónur inn.

Hér að neðan gefur að líta sýnishorn af því sem kemur til með að hljóma á tónleikunum. Það er gaman að segja frá því að myndbandið við fyrra lagið var tekið upp á Berunesi í Djúpavogshreppi.

 

24.11.2011

Þór Vigfússon opnar sýningu í San Diego

Þann 19. nóv. var Djúpavogsbúinn og listamaðurinn Þór Vigfússon viðstaddur opnun á sýningu á verkum sínum í gallerí Quint Contemporary Art í San Diego. Sýningunni sem stendur yfir 19. nóv - 7. jan. næstk. hefur verið afar vel tekið í alla staði.  Hér meðfylgjandi á heimasíðu sýningarinnar má sjá verk Þórs prýða sali í gallerí Quint Contemporary Art - sjá meðfylgjandi link.  

http://quintgallery.com/category/exhibitions

Heimasíða Djúpavogs óskar Þór Vigfússyni innilega til hamingju með þessa stórglæsilegu sýningu.

Sjá fyrri umfjöllun.http://www.djupivogur.is/adalvefur/?id=25277   AS.

   

24.11.2011

Öðru sinni naumt tap hjá Neista í körfunni

Þá liggja úrslit fyrir í leik Neista og Sérdeildarinnar í Bolholtsbirkarnum en Sérdeildin marði sigur á Neista á lokasprettinum 45 - 39 í hörkuspennandi leik.  Neisti hafði yfirhöndina framan af leik en svo jafnaðist hann og síðan seig lið Egilsstaðabúa fram úr, en undir lok leiksins smurði Jón Einar einni þriggja stiga körfu og hleypti spennu í leikinn,  en leikmaður Sérdeildarinnar svaraði strax í sömu mynt og svo fjaraði leikurinn út.  Engu að síður mjög góð frammistaða hjá Neista sem á Ásinn í næsta leik og þá eru væntingar uppi að ná fyrstu stigunum í mótinu. Dómarar leiksins stóðu sig með prýði og má með sanni segja að yfirdómari leiksins Ríkki hafi eins og síðast haft full tök á leiknum, þrátt fyrir að hitnaði aðeins undir leikmönnum  á köflum.  AS 

 

 

 

 

 

23.11.2011

Körfuboltaleikur í kvöld kl 20;00

Í kvöld kl 20;00 eigast við tvö stórlið í Bolholtsbikarnum í körfubolta karla  í íþróttahúsinu á Djúpavogi en þar munu Neisti og Sérdeildin frá Egilsstöðum eigast við. Hér með eru allir sem vettlingi geta valdir hvattir til að mæta og styðja Neista.  AS 

Áfram Neisti     

 

 

 

 

 

 

 

23.11.2011

Gjöf frá kvenfélaginu

Þær kvenfélagskonur láta aldeilis ekki deigan síga.  Þær hafa verið duglegar að gefa skólanum ýmsar gjafir og nú síðast voru þær svo rausnarlegar að gefa grunnskólanum allan ágóða af síðasta bingói.  Þær höfðu áhuga á að keyptar yrðu vélar í smíðastofuna og var það gert nú á haustdögum.
Keyptar voru fjórar vélar:
Mjög öflug tifsög, með aukahlutum, lítill rennibekkur, ásamt fylgihlutum, lítil slípivél og tæki og tól til að spreyja á litla hluti, svokallað "airspray." 
Formaður og gjaldkeri heimsóttu smíðastofuna í gær þar sem 2. bekkur var á fullu að saga út jólatré.  Gáfu konurnar og börnin sér tíma til að sitja fyrir og má sjá myndir hér

Starfsfólk og nemendur þakka kvenfélagskonum kærlega fyrir allar góðu gjafirnar sem þær hafa gefið okkur síðustu ár.  Hafið bestu þakkir fyrir.  HDH

Bóndavarðan

Desemberblað Bóndavörðunnar kemur út fimmtudaginn 1. desember nk.

Skilafrestur á greinum eða auglýsingum í blaðið er föstudagurinn 25. nóvember nk.

Þeir sem hafa áhuga á að skila inn efni eða kaupa auglýsingu er bent á að hafa samband á netfangið:
bondavardan@djupivogur.is eða í síma 478 8228.

Verðskrá auglýsinga er sem hér segir:

Heil síða 10.000.-
Hálf síða 5.000.-
1/4 síða 2.500.-

Blaðinu er dreift til allra íbúa og fyrirtækja í sveitarfélaginu en auk þess býðst áhugasömum utan sveitarfélagsins að gerast áskrifendur að blaðinu en áskriftin kostar kr. 3000.- Hægt er að kaupa áskrift með því að senda póst á netfangið bondavardan@djupivogur.is

HRG

23.11.2011

Djúpavogsbúar athugið

Vinsamlegast takið vel á móti Neistabörnum sem verða á ferðinni um þorpið á morgun miðvikudaginn 23.nóvember eftir kl.17 að safna vinningum á tombólu.

Krakkarnir eru með þessu að safna sér fyrir skólahreysti-tækjum. Þau verða svo með tombólu, söng og vöfflukaffi í grunnskólanum þann 1. des.

Með fyrirfram þökk,

umf. Neisti

22.11.2011

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundarboð 24. 11. 2011

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps:  Fundarboð  24.11.2011

Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtudaginn. 24. nóvember 2011  kl. 15:00. Fundarstaður: Geysir.

Dagskrá: 

1.  Fjárhagsáætlun 2012, síðari umræða fjárhagsleg málefni.
a)  Gjaldskrár 2012.   
b)  Reglur um afslátt á fasteignagjöldum til elli- og örorkulífeyrisþega árið 2012.
c)  Eignabreytingar og framkvæmdir 2012.
d)  Erindi um styrki o.fl. til afgreiðslu.
e)  Fjárhagsáætlun Djúpavogshrepps 2012. Síðari umræða.

2.  Sala eigna.

3.  Erindi og bréf.
a)  Stígamót. ódags.  
b)  Skólastjórafélag Austurlands 3. nóv. 
c)  Umhverfisráðuneytið 3. nóv. 
d)  Snorraverkefnið 7. nóv. 
e)  Velferðarvaktin 14. nóv. 
f)  Skúli Andrésson 15. nóv. 
g)  Bæjarráð Fjarðabyggðar 16. nóv. 
h)  Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna 17. nóv.

4.  Breytingar á stofnsamningi Héraðsskjalasafns Austfirðinga

5.  Fundargerðir.
a)  Heilbrigðiseftirlit Austurlands 28. okt. 

6.  Skýrsla sveitarstjóra.

Djúpavogi 22. nóvember 2011
Sveitarstjóri

 

22.11.2011

Venjulegur dagur á leikskólanum

Í dag er þriðjudagur, venjulegur dagur á leikskólanum.  Ég sit hér á skrifstofunni minni og hlusta á börnin spjalla og leika sér.
Ég er ekki viss um að hinn almenni borgari geri sér grein fyrir því fjölbreytta starfi sem fram fer í leikskólum landsins, ég vissi það ekki sjálf fyrr en ég fór að vinna hér í húsinu.  Hafði þó að einhverju leyti gert mér grein fyrir því þar sem ég hef átt tvö börn í leikskóla en það er samt öðruvísi að taka þátt í hringiðunni.
Núna er klukkan 9:30.  Einn hópur af börnum er að vinna í listakrók, þau eru að mála plastflöskur og búa til fiska og fugla, einn hópur er í holukubbum.  Þau eru að byggja hús og bíla og nú standa yfir samningaviðræður milli stúlkna og drengja um byggingarefnið og verður forvitnilegt að fylgjast með hvernig það endar.  Þriðji hópurinn er að leira.  Þau eru að búa til listaverk (sögðu þau mér) og sýndist mér það vera alveg rétt.  Fjórði hópurinn er í könnunarleik, eitt barn sefur og tvö börn eru í málörvun.  Matráður er í eldhúsinu að taka til ávaxtaskammtinn sem börnin fá klukkan tíu, einn starfsmaður er að undirbúa skuggaleikhús og hinir sinna börnunum í starfinu, þannig að í nógu er að snúast í leikskólanum Bjarkatúni.

Sl. miðvikudag var Dagur íslenskrar tungu.  Á myndinni sem fylgir þessari frétt má sjá þennan fína karl sem var klæddur í buxur, vexti, brók, skó og bætta sokka.  Hann fékk einnig húfutetur og hálsklút.  Elstu nemendur leikskólans eiga heiðurinn af honum.  Kannski verður eitthvert þeirra fatahönnuður.  Hver veit??

Megið þið eiga góðan dag í dag. 

Kveðja frá nemendum og starfsfólki í Bjarkatúni.  HDH

Neisti bikarmeistari Austurlands í sundi!

Síðastliðna helgi var bikarmót UÍA haldið í sundlauginni hér á Djúpavogi. Það er skemmst frá því að segja að ungmennin okkar komu, sáu og sigruðu. Hér er hægt að lesa umfjöllun UÍA um mótið, þar er einnig hægt að skoða myndir frá mótinu. Við óskum þessum duglegu ungmennum til hamingju með góðan árangur.

HRG

22.11.2011

Menningarráð auglýsir viðveru á Djúpavogi

Vegna úthlutunar á menningarstyrkjum 2012 mun menningarfulltrúi Austurlands, Signý Ormarsdóttir, vera til viðtals hér á Djúpavogi. Hægt er að nálgast hana þann 23. nóvember á hreppssrifstofunni frá kl. 13:00-16:00. Hér má lesa nánar um verkefnastyrkina:

HRG

22.11.2011

Útikennslustofa

Haustið hefur farið í að hanna og skipuleggja útikennslustofu í vali hjá 8. - 10. bekk. Nemendur völdu að hafa eldstæði ofan við sparkvöllinn og hafa síðustu þrjár vikur farið í vinnu við uppbyggingu eldstæðis. Nemendur í 5. - 7. bekk eru einnig í útinámi og hafa þeir einnig hjálpað til við mokstur til að byggja eldstæðið upp. Það þarf nefnilega að fyrirbyggja það  að eldur berist að gróðri eða fari á ötula nemendur.

Uppskeran var svo eftir hádegi í dag (föstudag) þegar við kveiktum upp í kolum og grilluðum okkur sykurpúða. Nemendur í 5. - 7. bekk munu svo elda á miðvikudaginn kemur ef veður verður gott.   Myndir eru hér.  LDB

Aðventugleði á Helgafelli - eldri borgarar

Aðventugleði verður haldin á Helgafelli, ef næg þáttaka fæst, laugardaginn 26.nóvember fyrir 60 ára og eldri. Matur og skemmtiatriði Verð 1,500.kr fyrir manninn. Gleðin hefst kl 18:00. Vinsamlega látið vita um þátttöku fyrir þriðjudaginn 22.nóv í síma 865-0439 eða 848-4282                                                                                 Félagsstarf eldri borgara

 

 

 

 

 

 17.11.2011

Að lokinni Sviðamessu - myndband komið á netið

Síðast liðinn laugardag var haldin hin árlega Sviðamessa á Hótel Framtíð þar sem húsfyllir af fólki snæddi svið og lappir og svo var líka pizza fyrir sviðafælna.  Mikið var lagt í dagskrá þeirra er stóðu að þessari skemmtun, m.a. sýnd nokkur myndskeið á tjaldi, svo var söngur og söngleikir, upplestur, spurningakeppni, framdir galdrar og fl. og svo var ball á eftir þar sem hljómsveitin Zone með Kristján Ingimarsson fremstan í flokki spilaði fyrir dansi fram á nótt. 

Heimasíðan telur viðeigandi að þakka öllum þeim er stóðu að þessari uppákomu sérstaklega fyrir hér á þessum vettvangi. Það er þorpinu litla á Djúpavogi sannarlega dýrmætt að eiga svona mikið af ungum og efnilegum einstaklingum sem vilja láta gott af sér leiða í þessum efnum, en þetta unga og fríska fólk er allt ýmist við vinnu eða nám í höfðuborginni í dag og það leynir sér ekki að það hefur allt mjög sterkar rætur og taugar hingað til Djúpavogs sem við viljum auðvitað að haldist sem allra lengst.  

Þeir einstaklingar sem stóðu að þessari stórskemmtilegu Sviðamessu í ár voru Hallur Kristján Ásgeirsson, Gunnar Sigvaldason, Skúli Andrésson, Íris Birgisdóttir, Ýmir Arnarsson,  Ásgeir Ævar Ásgeirsson og hinn góðkunni Gísli Sigurðsson en Gísli og Ásgeir Ævar komu sterkir inn í hópinn á þessari Sviðamessu. Allur þessi hópur á þvi miklar þakkir skyldar fyrir að koma og skemmta heimamönnum af þeirri gleði og krafti sem þau sýndu á laugardagskvöldinu.

Hér má svo sjá til gamans upphafsatriði Sviðamessunnar í ár sem að Skúli Andrésson gerði og sendi okkur í dag til birtingar hér á heimasíðunni. Í þessu myndskeiði koma nokkrar af helstu persónum og leikendum fyrir sem stóðu að Sviðamessunni.  Sjá auk þess ljósmyndir frá AS frá skemmtuninni meðfylgjandi neðar á síðu.

AS

 

16.11.2011

Skólahreysti

Fyrir nokkru setti ég frétt inn á heimasíðuna þar sem ég óskaði eftir styrktaraðilum til að festa kaup á æfingatækjum fyrir Skólahreysti.  Neisti ætlar að leggja málinu lið og einnig hafa forsvarsmenn Samkaupa-Strax, fyrir tilstuðlan hennar Írisar Daggar, ákveðið að gefa grunnskólanum gjafabréf í verslunum sínum, að andvirði 75.000.-
Ljóst er að tækin munu gagnast öllum nemendum skólans til æfinga og börnum í Neistatímum og auka þrek og styrk barna á Djúpavogi. 

Auglýsi ég hér með til sölu gjafabréf í grunnskólanum.  Hvert gjafabréf hljóðar uppá 5.000.- og er hægt að kaupa eins mörg og hver og einn óskar.  Kortið gildir í Samkaup-úrval, Samkaup-strax, Nettó og Kaskó. 

Kortin eru til sölu hjá skólastjóra í grunnskólanum.  HDH

 

Dagur íslenskrar tungu

Í dag er Dagur íslenskrar tungu.  Krakkarnir í 1. og 2. bekk unnu með ljóð Jónasar í morgun og bjuggu til þetta fína verkefni sem sjá má hér.  HDH

Dagar myrkurs - Myndir

Þá er Dögum myrkurs lokið, svona í rétt áður en dimmasti mánuður ársins hefst. Við vonum að allri hafi fundið sér eitthvað við sitt hæfi og skemmt sér vel. Einnig viljum við óska Pálma til hamingju með sigurinn í sjóræningjapoolmótinu. Ef þið smellið hér þá getið þið skoðað nokkrar myndum af viðburðum sem Andrés og Ólafur Áki tóku. Þar má sjá myndir úr kvöldgöngunni sem heppnaðist vel þrátt fyrir rigningu, en við erum orðin vön henni á þessum slóðum. Einnig má sjá ljós í klettum sem Kvenfélagskonur stóðu fyrir. Nokkrir draugar eru þarna sem tóku þátt í faðirvorahlaupinu. Svo eru nokkrar myndir úr sviðamessu sem tókst með eindæmum vel. Að lokum eru svo myndir af sjóræningjum í pool og af verðlaunaafhendingu fyrir Rökkur Ratleikinn.

HRG

15.11.2011

Nýr leitarvefur

Opnaður hefur verið nýr leitarvefur http://leitir.is sem leitar samtímis í Gegni sem er samskrá velflestra bókasafna í landinu, tengdu stafrænu íslensku efni ásamt erlendum áskriftum að stafrænu vísindaefni í Landsaðgangi. Katrín Jakobsdóttir ráðherra mennta- og menningamála opnaði vefinn og kynnti nafn hans á afmælisráðstefnu Landskerfis bókasafna hf. 11.11.11. Nafn vefgáttarinnar er sótt til þess viðburðar sem á sér stað á haustin í sveitum landsins er bændur halda til fjalla og smala saman búpeningi sínum. Þeir fara í leitir. Á vefnum leitir.is fara menn einnig í leitir og smala saman upplýsingum. Það er margt sem þar kemur í leitirnar. Förum öll í leitir!

Sveinbjörg Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Landskerfa bókasafna.

15.11.2011