Djúpivogur
A A

Fréttir

PubQuiz í Löngubúð

Laugardaginn 18. desember er komið að síðasta PubQuizi ársins. Það verður í höndum engra annarra en frændsystkinanna Drafnar Freysdóttur og Ævar Orra Eðvaldssonar að spyrja gesti spjörunum úr.

Húsið opnar 20:30, leikar hefjast 21:00

Tilboð á barnum

Sjáumst!

Langabúð

Smellið hér til þess að sjá auglýsinguna stóra

BR

18.12.2010

Jólaball leikskólans

Í dag héldu leikskólabörnin upp á sitt jólaball þar sem dansað var í kringum jólatréð og síðan kom Jólasveinn í heimsókn til okkar færandi hendi með gjafir handa öllum leikskólabörnunum. Það var nú ekki auðvelt fyrir jólasveinin að komast í leikskólann enda mjög hvasst á Djúpavogi en á leið sinni í leikskólann missti hann húfuna sína sem fauk út í veður og vind.  Börnin höfðu nú töluverðar áhyggjur af því og vildu endilega fara út að leita að húfunni en með hjálp starfsfólks leikskólans fannst húfan og varð mikil gleði bæði hjá sveininum sem börnunum við það.  Jólasveinninn Gluggagæir tók svo nokkra hringi í kringum jólatréð með börnunum og sungu allir hátt og snjallt hin ýmsu jólalög.  Áður en Gluggagæir fór gaf hann öllum jólapakka sem foreldrafélag leikskólans sá um að útvega.  Börnin þökkuðu fyrir sig og kvöddu jólasveinin með þeim ráðleggingum að hann skyldi nú passa húfuna sína vel í rokinu. Eftir jólaballið var farið inn á deildirnar og leikið sér fram að hádegismatnum en alltaf þennan dag fá börnin jólamáltíð með hangikjöti og uppstúf auk þess sem þau fá jólaís í eftirmat. 


Dansað í kringum jólatréð


Hver er þarna úti í myrkrinu?


Jólasveinninn og hann missti húfuna sína út í rokið þegar hann kom inn...


Hann varð því að fara aftur út að leita að húfunni sinni....


..og eftir mikla leit fann jólasveinninn ekki húfuna sína...


Jólasveinninn kom þá bara inn og heilsaði upp á börnin húfulaus


en síðan fannst húfan og þá var sko hægt að dansa í kringum jólatréð


Eftir nokkra hringi í kringum tréð settist jólasveinninn niður og gaf krökkunum öllum jólapakka


Síðan kvaddi jólasveinninn og lofaði að passa húfuna sína vel


Börnin horfðu á eftir jólasveininum, smellið á myndina til að sjá fleiri myndir af jólaballinu

Kvenfélagið Vaka auglýsir

Dagatöl Kvenfélagsins Vöku eru til sölu í verslunni Við Voginn og kostar kr. 950 .-

Kvenfélagið Vaka

BR

17.12.2010

Sveitarstjórn: Fundargerð 15.12.2010

Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.

ÓB

16.12.2010

Bókasafnið á aðventunni

Í vetur hafa börnin á Kríudeild farið á bókasafnið einu sinni í mánuði en heimsóknin í desember var þó aðeins frábrugðin venjulegri bókasafnsferð þar sem jólabækurnar voru skoðaðar.  Einnig fengu eldri börnin á Krummadeild að kíkja á bókasafnið.  Á bókasafninu skoðuð börnin nýjar og gamlar bækur, kíktu í jólabækur og síðan var lesið upp úr jólabók, Kristrún bókavörður gaf okkur piparkökur sem voru mjög vinsælar enda fátt betra en að gleyma sér með góða bók og piparköku við höndina.  Við þökkum kærlega fyrir okkur.

 


Að hlusta á sögu


Með piparköku


Að skoða bækurnar


Sáum þessa jólagæs á leiðinni til baka í leikskólann.  Hún kom svo og heimsótti okkur í leikskólann og hefur nú fengið nafnið Salka.  Þannig að ef þið sjáið hana Sölku þá er hún vinur okkar !!


Smellið á myndina og þið sjáið fleiri myndir frá bókasafnsferðinni

ÞS

Arfleifð á flakk með fylgihluti og fatnað

Verslun Arfleifðar á Djúpavogi verður opin fimmtudaginn 16. desember og  síðasta opnun fyrir jól er föstudaginn 17. desember fram á kvöld.

Allir Djúpavogsbúar og aðrir hjartanlega velkomnir að kíkja á glæsilega fylgihluti og fatnað, hannað og handgert á Djúpavogi úr hráefnum sem koma mörg hver úr nánasta umhverfi okkar.  Úrvalið hefur aldrei verið fjölbreyttara og flottara.

Laugardaginn 18. desember verður Ágústa Margrét með smá kynningar á vörum sínum á nokkrum stöðum í Hafnarfirði.

Sunnudaginn 19. og mánudaginn 20. desember  verða allar vörur Arfleifðar til sölu á sýningunni „Eitthvað íslenskt“  Skólavörðustíg 14 í Reykjavík. Þetta er glæsileg samsýning nokkurra listamanna og hönnuða og verður opin milli kl 10:00-22:00 þessa daga.

Á meðfylgjandi hlekk er grein sem birtist í  blaðhlutanum „Jólagjöfin hennar“ í  Fréttablaðinu þriðjudaginn 14. desember.  Þar segir að Ágústa veiti persónulegar og góðar ráðleggingar um gjafaval  "Ég er orðin ansi nösk á að hjálpa herrunum að finna hina fullkomnu gjöf, þeir lýsa dömunni og ég ramba á það rétta."


Samdægurs fékk Ágústa mikið af hringingum frá karlmönnum sem lýstu útliti og háttarlagi kvenna sinna, hvaða hluti þær ganga með dags daglega, uppáhaldsliturinn, verðhugmyndir og fleira sem auðveldar Ágústu að aðstoða karlmenn við að  finna það sem slær algjörlega í gegn hjá konunni á aðfangadagskvöld.

Ágústa býður alla hjartanlega velkomna á þessa viðburði og sýningar.

Blaðagrein: http://vefblod.visir.is/index.php?s=4652&p=104662

Nýjar vörur í dálknum “for sale” á: www.arfleifd.is

Og látlaust nýjar myndir og upplýsingar á facebook síðu Arfleifðar http://www.facebook.com/#!/pages/Arfleifd/109087672458697 og hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir úr verslununinni.

Arfleifð

 

BR

16.12.2010

Sveitarstjórn: Fundarboð 15.12.2010

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps:  Fundarboð  15.12. 2010

6.    fundur  2010-2014

Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps miðvikudaginn 15. desember 2010 kl. 15:00.  Fundarstaður: Geysir.

Dagskrá:

1.    Fjárhagsáætlun 2011, síðari umræða, fjárhagsleg málefni.

a)    Gjaldskrár 2011.
b)    Reglur um afslátt á fasteignagjöldum.
c)    Eignabreytingar og framkvæmdir 2011.
d)    Viðhaldsáætlun eignasjóðs og stofnana.
e)    Erindi um styrki o.fl.
f)    Fjárhagsáætlunn Djúpavogshrepps 2011, síðari umræða.

2.    Skólaskrifstofa Austurlands og málefni fatlaðra.

3.    Fundargerðir

a)    Stjórn Skólaskrifstofu Austurlands, 10. nóvember 2010.
b)    Stjórn Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum, 1. desember 2010.

4.    Erindi og bréf

a)    Markaðsstofa Austurlands, dags. 30. nóvember 2010.  

5.    Skýrsla sveitarstjóra

 

Djúpavogi 13. desember 2010;
Sveitarstjóri

14.12.2010

Frá Grunnskóla Djúpavogs

 

 

Starfsmaður óskast til liðveislu við fatlaðan nemanda í u.þ.b. 50% starf frá 3. janúar. Umsóknarfrestur er til 27. desember. Nánari upplýsingar veitir skólastjóri í síma 478-8246 og 863-8380.

 

Ævintýri Djúpavogshrepps

Leikritið Ævintýri Djúpavogshrepps í uppfærslu Grunnskóla Djúpavogs er nú komið á mynddisk. Hægt er að kaupa diskinn í skólanum eða í Bakkabúð og kostar hann kr. 1500. Allur ágóði rennur til nemenda skólans. BE

Þráðlaust net í Djúpavogshöfn

Nú í dag var settur upp þráðlaus beinir fyrir Djúpavogshöfn. Tilgangurinn með því er að bjóða upp á þráðlausan aðgang að neti fyrir þá báta sem liggja við bryggju.

Netið er læst, en hægt er að fá aðgangslykil hjá hafnarverði. Aðgangur er endurgjaldslaus.

Við vonumst til að þessi þjónusta mælist vel fyrir hjá þeim sem koma til með að notfæra sér hana.

ÓB

13.12.2010

Gjöf til leikskólans

Í morgun komu þeir Guðlaugur Birgisson og Óðinn Sævar Gunnlaugsson frá Eyfreyjunesi færandi  hendi í leikskólann Bjarkatún en þeir voru með tvær myndir sem þeir gáfu leikskólanum.  Önnur myndin var af fiskum og örðum dýrum við Íslandsmið og hin af hvölum við Íslandsstrendur.  Börnin tóku á móti gjöfinni og voru mjög áhugasöm um hvað fiskarnir heita og sáu líka mynd af Háfi en hann Pálmi kom með einn slíkan í vikunni og sýndi börnunum á leikskólanum.  Við þökkum kærlega fyrir þessa gjöf og hún á sko sannarlega eftir að vekja mikla lukku og auka þekkingu barnanna á fiskum og hvölum. 


Börnin sýndu myndunum strax mikinn áhuga

 

Fleiri myndir má sjá hér

ÞS

Jólabingó Neista á Hótel Framtíð

Hið árlega Jólabingó Neista verður haldið sunnudaginn 12. des á Hótel Framtíð og að venju  verða glæsilegir vinningar í boði.

Barnabingóið hefst kl:16 og fullorðins-bingóið (miðað við fermingu) hefst kl:20:30.

Stjórn umf. Neista

10.12.2010

Upplestur úr jólabókum í Löngubúð

Föstudagskvöldið 10. desember ætlum við að eiga saman notalega stund í Löngubúðinni þar sem lesið verður úr nýútkomnum bókum.  Lesinn verður stuttur kafli úr hverri bók og má sjá listann hér fyrir neðan.

Egill Egilsson les brot úr ævisögu handboltakappans fræga Loga Geirssonar
Erla Ingimundardóttir les úr spennusögunni „Ég man þig“ eftir Yrsu Sigurðardóttur.
Reynir Arnórsson les úr ævisögu Austfirðingsins Ella Pé – „U 206 – ævintýri Ella Pé“
Ásdís Þórðardóttir les úr bókinni „Svar við bréfi Helgu“ eftir Bergsvein Birgisson.
Þórlaug Másdóttir les upp úr nýútkominni bók föður síns, „Fólkið í þorpinu“.

Lesturinn hefst kl. 21:00

Tilvalið tækifæri til þess að setjast niður í amstri jólanna, hlusta á skemmtilegar sögur og njóta góðra veitinga íLöngubúðinni.

Smellið hér til þess að sjá auglýsinguna stóra

Verið velkomin

Langabúð

BR

09.12.2010

Jólatréssala

Laugardaginn 11. desember 2010, frá kl. 13:00 - 15:00, verða seld jólatré úr skógræktinni. Farið er upp afleggjarann við kirkjugarðinn og fólk getur valið sér tré. Félagar skógræktarfélagsins verða á staðnum og saga fyrir fólk.

Verð kr. 2.000.-

Stjórn Skógræktarfélags Djúpavogs

Athugið - aðeins þessa tvo tíma

09.12.2010

Bæjarlífið nóvember 2010

Það var margt um að vera í nóvember eins og meðfylgjandi bæjarlífspakki ber glöggt vitni um.

ÓB

08.12.2010

Opnunartími Bakkabúðar í desember

Bakkabúð verður opin í desember sem hér segir:

mánudaga - laugardaga 13:00 - 18:00.

Sunnudaginn  19. des. verður opið frá 13:00 - 18:00

fimmtudaginn 23. des. - Þorláksmessa opið frá 13:00 - 22:00

Verið velkomin, heitt glögg og piparkökur

Bakkabúð

08.12.2010

Enn eykst hróður Sigurðar Guðmundssonar, fjöllistamanns

Það er gaman að segja frá því að listamaðurinn okkar hann Sigurður Guðmundsson hefur verið tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir nýjustu bók sína "Dýrin í Saigon".  Þetta er þriðja skáldsaga Sigurðar en hún er byggð á tíu mánaða dvöl hans í Víetnam árið 2008 og segir bæði frá listrænum þönkum hans og kynnum hans af fólkinu þar í borg.

Hér má sjá frétt um um þær bækur sem tilnefndar eru til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2010

 

Við óskum Sigurði til hamingju og vonum að sjálfsögðu að hann hljóti verðlaunin.

BR

08.12.2010

Opinn íbúafundur um Axarveg á Hótel Framtíð

Eins og flestir vita liggur nú fyrir frá Vegagerðinni vegleg frummatsskýrsla um Axarveg, hringveg í Skriðdal og hringveg um Berufjarðarbotn. Við viljum benda áhugasömum á að skýrsluna er hægt að skoða á skrifstofu Djúpavogshrepps.

Gögnin má jafnframt skoða á heimasíðu Vegagerðarinnar með því að smella hér.

Vegagerðin mun standa fyrir opnum íbúafundi á Hótel Framtíð, þriðjudaginn 7. desember frá 17:00 - 19:00, þar sem framkvæmdin og mat á umhverfisáhrifum hennar verða kynnt á veggspjöldum og tekið verður við ábendingum og athugasemdum.

 

ÓB

07.12.2010

Upplestur úr jólabókum á bókasafninu

Í kvöld verður lesið úr jólabókum fyrir yngri kynslóðina á Bókasafni Djúpavogs og hefst lesturinn kl. 17:30. Foreldrar eru hvattir til þess að mæta með börnum sínum.

BR

07.12.2010

Tillaga að friðlýsingu búsvæðis tjarnarklukku

Umhverfisstofnun vinnur að undirbúningi friðlýsingar á búsvæði tjarnaklukku (Agabus uliginosus) á Hálsum í Djúpavogshreppi í samræmi við náttúruverndaráætlun og aðalskipulag Djúpavogshrepps 2008-2020. Drög að tillögu til umhverfisráðherra um friðlýsingu svæðisins, alls um 146 ha (1,46 km2) liggja nú fyrir.

Í samvinnu við landeigendur og sveitarstjórn Djúpavogshrepps eru drög að friðlýsingu svæðis á Hálsum hér með auglýst til kynningar. Frestur til að skila inn athugasemdum og / eða ábendingum er til 20 desember 2010. Skila skal athugasemdum til Umhverfisstofnunar og skulu þær vera skriflegar og undirritaðar.   

                                                                                                                             AS

07.12.2010

Sveitarstjórn: Fundargerð 02.12.2010

Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.

ÓB

03.12.2010

Kveikt á jólatrénu

Sl. sunnudag var kveikt á jólatré Djúpavogsbúa að viðstöddu fjölmenni. Athöfnin var hefðbundin, sungið og dansað í kringum jólatréð og jólasveinar kíktu við. André Sandö, nemandi tónskólans og Sveinn Kristján Ingimarsson spiluðu undir og stóðu sig með stakri prýði.

Veður var afskaplega gott, stillt og snjóföl yfir öllu.

Andrés Skúlason tók upp smá myndskeið þegar kveikt var á jólatrénu og má sjá það hér fyrir neðan. Hann tók einnig meðfylgjandi mynd.

ÓB

 

 

 

02.12.2010

Háhyrningar í Berufirði

Síðastliðinn mánudag mátti sjá þegar fjórir háhyrningar syntu um Berufjörð og var atgangur mikill þar sem þeir réðust að hverjum fuglahópnum á fætur öðrum alveg uppi í landsteinum. Svo aðgangsharðir voru háhyrningar þessir að sjá mátti t.d. einn þeirra elta æðarblika fast upp að hafskipabryggjunni í Gleðivík þar sem hann náði blikanum með miklum buslugangi.

Þessum atgangi náði Þórir Stefánsson á myndavélina sína og meðfylgjandi myndasyrpa er sannarlega glæsileg.

Við þökkum Þórir kærlega fyrir þessar myndir.

Texti: AS
Myndir: ÞS

01.12.2010

Úthlutun hreindýraarðs

Drög að úthlutun hreindýraarðs fyrir árið 2010 á ágangssvæði/jarðir í sveitarfélaginu liggja frammi á skrifstofu sveitarfélagsins til 14. desember.

Það er jafnframst sá frestur sem gefinn er til að gera skriflegar athugasemdir sem skulu sendast til:

Skrifstofa Umhverfisstofnunar
Tjarnarbraut 39A
Pósthólf 174
700 Egilsstaðir

01.12.2010