Djúpivogur
A A

Fréttir

Leikskóli í heimsókn

Elstu nemendur leikskólans heimsóttu 1. bekk grunnskólann í gær á Degi íslenskrar tungu. Í íslensku lærðu þau eitt og annað um Jónas Hallgrímsson og eftir frímínútur fóru þau í íþróttir. Var ekki annað að sjá en að allir skemmtu sér vel og áhuginn skein úr hverju andliti. Myndir má sjá með því að smella hér.

Greinar fræðimanna í Múlaþing

Ritið Múlaþing hefur nú í hartnær fjörtíu ár safnað yfirgripsmiklum fróðleik sem snertir Austurland. Ritið sinnir mikilvægri varðveislu heimilda um fjórðunginn og þar má finna ríkulegan fjársjóð um sögu Austurlands og Austfirðinga á öllum tímum.

Undirritaðir ritstjórar vinna nú að efnissöfnun vegna útgáfu 37. heftis Múlaþings - með fróðleik af öllum stöðum á Austfjörðum. Fólk á öllum aldri er hvatt til að senda inn efni.

Austfirðingar eru bæði hvattir til að kynna sér ritið og gerast áskrifendur. Áskriftabeiðnir og efni má senda á netföngin sagnabrunnur@simnet.is, joigutt@ust.is eða heimilisfangið; Múlaþing, pósthólf 174, 700 Egilsstaðir.


Rannveig Þórhallsdóttir,
Jóhann Guttormur Gunnarsson
ritstjórar Múlaþings

BR

17.11.2010

Sparisjóðurinn úthlutar úr styrktar- og menningarsjóði

Þann 13. nóvember 2010 úthlutaði Sparisjóðurinn á Höfn, Djúpavogi og Breiðdalsvík í þriðja  skipti, úr Styrktar- og menningarsjóði Sparisjóðs Vestmannaeyja, sem stofnaður var til minningar um Þorstein Þ. Víglundsson fyrrverandi sparisjóðsstjóra. 

Athöfnin fór fram á Hótel Framtíð á Djúpavogi og léku nemendur úr Tónlistarskóla Djúpavogs nokkur lög. Að lokinni afhendingu voru kaffiveitingar fyrir gesti.

Áætlað er að úthlutun þessi fari fram árlega, í byrjun vetrar, en þess má geta að þetta er tuttugasta og þriðja árið sem úthlutað er úr sjóðnum.

Þessir aðilar hlutu viðurkenningar og styrki árið 2010:

Slysavarnardeildin Bára á Djúpavogi,
Sveinbjörg Zophoníasdóttir, frjálsíþróttakona á Höfn,
Kvenfélagið Hlíf á Breiðdalsvík.


Slysavarnardeildin Bára á Djúpavogi    
    
Slysavarnardeildin Bára á Djúpavogi hélt upp á 70 ára afmæli á árinu og hefur því um langt árabil tekið þátt í að tryggja öryggi  Austfirðinga til sjávar og sveita. Á þessum 70 árum hefur björgunarsveitin, eins og aðrar björgunarsveitir  þessa lands, byggt upp mikla þekkingu og reynslu og unnið farsælt og óeigingjarnt starf. Til þess að svo megi verða áfram þarf m.a. öflugan tækjakost.

Á þessu ári var keyptur nýr björgunarbátur, sem staðsettur er á  Djúpavogi.  Hann var vígður á sjómannadaginn og hlaut nafnið Dröfn. Báturinn er mikilvægur hlekkur í öryggismálum sjófarenda við Austfirði. Með nýjum vel útbúnum björgunarbát og góðri áhöfn er Björgunarsveitin Bára vel í stakk búin til að takast á við þau verkefni sem upp kunna að koma í framtíðinni. Heill fylgi Dröfn og áhöfn hennar um ókomna tíð.


Sveinbjörg Zophoníasdóttir frjálsíþróttakona á Höfn    


Árið 2010 hefur verið viðburðaríkt í sögu íþróttamála á Hornafirði. Íþróttaiðkendur hafa verið á ferð og flugi um landið og fullyrða má  að aðstaða fyrir þá sé með miklum ágætum á svæðinu og fjölbreytnin í fyrirrúmi. Áhersla hefur verið lögð á að allir geti tekið þátt og fundið  eitthvað við sitt hæfi.  Þetta er frábært enda er flestum ljóst að íþróttir eru mikilvægar.

Sveinbjörg  Zophoníasdóttir, frjálsíþróttakona, hefur náð  frábærum  árangri  á sínu sviði. Hún hefur keppt á mörgum mótum svo sem á  Meistaramóti Íslands og á Norðurlandameistaramóti unglinga á Akureyri.  Auk þess hefur hún tekið þátt í fjölda keppna á erlendri grundu  m.a. í Danmörku, Ísrael og nú síðast í Kanada með  góðum árangri. Sveinbjörg hefur gífurlegan metnað og leggur sig alla fram eins og góðum íþróttamanni sæmir. Viðurkenningu þessari fylgja góðar óskir um áframhaldandi velgengni og bjarta framtíð.


Kvenfélagið Hlíf á Breiðdalsvík    
        
Kvenfélagið Hlíf fyllir fimmta tuginn á næsta ári og hefur á þessum tæpu 50 árum lagt mikið af mörkum til samfélagsins á Breiðdalsvík og í nágrenni.  Félagið kom upp, á sínum tíma,  barnaleikvelli í þorpinu, þær hafa staðið fyrir ýmsum uppákomum  svo sem bingóum, námskeiðahaldi og félagið hefur verið með útimarkað til margra ára í þorpinu. Í  fyrrasumar stóð félagið fyrir sýningu í Gamla kaupfélaginu á heimasaumuðum fatnaði frá miðri síðustu öld með minningarbrotum og sögum sem tengdust hverri flík. Í apríl s.l. færði félagið heilsugæslunni á Breiðdalsvík hjartalínurita að gjöf og má segja að Heilsugæslan hafi verið þeirra gæluverkefni í gegnum árin. Af þessari upptalningu er ljóst hversu mikilvægur hlekkur Kvenfélagið Hlíf er fyrir samfélagið. Óskum við félaginu allra heilla á komandi árum.

 


Slysavarnadeildin Bára ásamt Önnu Halldórsdóttur, forstöðumanni Sparisjóðsins á Höfn, Djúpavogi og Breiðdalsvík


Kvenfélagið Hlíf á Breiðdalsvík ásamt Önnu Halldórsdóttur


Anna Halldórsdóttir ásamt þeim sem viðurkenningar og styrki hlutu. Á myndina vantar Sveinbjörgu Zophoníasdóttur en hún var á landsliðsæfingu. Inga Kristín tók við styrknum fyrir hennar hönd.

16.11.2010

Neisti bikarmeistari ÚÍA í sundi 2010

Bikarmót UÍA í sundi fór fram í sundlaug Djúpavogs síðastliðinn laugardag. Tæplega 90 keppendur frá 5 íþróttafélögum voru skráðir til leiks. Neista-börnin stóðu sig að vanda glimrandi vel og unnu allt sem hægt var að vinna á þessu móti.

Neista-stelpurnar unnu bikarinn fyrir stigahæsta kvennalið mótsins með 285 stig. Í öðru sæti var kvennalið Sindra með 123 stig. Neista-strákarnir unnu svo bikar fyrir stigahæsta karlaliðið með 177 stig og næstir á eftir þeim voru Sindra-strákar með 64 stig.

Samanlagt vann Neisti mótið með miklum yfirburðum og 504 stigum, annað sætið hreppti Sindri með 205 stig og Höttur varð í þriðja með 170 stig.

Stjórn Neista óskar krökkunum og þjálfara innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur og vert er að taka það fram að Neisti hefur nú unnið öll sundmót sem haldin hafa verið á vegum UÍA síðastliðin 2 ár.
 
Stjórn Neista

BR

 

16.11.2010

Þrekhringur í íþróttahúsinu

Við ætlum að hittast í íþróttahúsinu á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 17:00 í þrekhring.

Allir velkomnir

Djúpavogs - Búinn 2010

BR

16.11.2010

Stella í Hvammi vinnur smákökusamkeppni

Stella Sigurbjörg Björgvinsdóttir, eða Stella í Hvammi eins og við þekkjum hana hlaut nú á dögunum 1. verðlaun í smákökusamkeppni Gestagjafans. Af þeim 55 uppskriftum sem bárust í keppnina þóttu hafrakökurnar hennar Stellu skara fram úr.

Þema keppninnar í ár var súkkulaði og var dæmt eftir bragði, áferð, lögun og lit. Dómnefndina skipuðu þau Margrét D. Sigfúsdóttir skólastjóri Hússtjórnarskólans, Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir frétta- og dagskrárgerðarmaður, Sigríður Björk Bragadóttir blaðamaður á Gestgjafanum, Sigrún Guðjónsdóttir frá Kornax og Gissur Sigurðsson fréttamaður á Bylgjunni.

Verðlaunin voru ekki af verri endanum; Kitchen-Aid hrærivél, úttekt í Nóatúni, gjafakörfur frá Nóa Síríusi og Kornax og ársáskrift að Gestgjafanum.

Við á heimasíðunni óskum Stellu til hamingju með sigurinn og bendum á ítarlega umfjöllun um keppnina í nýjasta blaði Gestgjafans.

Hér að neðan gefur að líta uppskriftina góðu:


Hafrakökur með rúsínum og súkkulaði

300 g Kornax hveiti
375 g sykur
150 g haframjöl
1 tsk. Matarsódi
240 g smjörlíki
2 dl rúsínur
125 g suðusúkkulaði frá Nóa Siríus, saxað
2 egg
100 g brætt suðusúkkulaði, til skrauts

Hitið ofninn í 200°C. Blandið öllum þurrefnum saman og myljið smjörlíki út í. Hnoðið vel saman. Bætið því næst rúsínum, súkkulaði og eggjum út í og blandið vel saman. Búið til litlar kúlur úr deiginu og þrýstið á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Bakið kökurnar þar til þær eru orðnar ljósbrúnar á lit. Kælið kökurnar og skreytið síðan með bræddu súkkulaði.

ÓB

 

Fyrir miðju; Sigurborg Ósk Karlsdóttir (barnabarn Stellu) ásamt Helgu Björgu dóttur sinni. Sigurborg tók á móti verðlaununum fyrir hönd ömmu sinnar.

15.11.2010

Frá Bakkabúð

Bakkabúð verður opin í dag (föstudag) frá kl. 14:00 - 18:00

Á morgun, laugardag, frá kl. 12:00 - 17:00

Full búð af nýjum og skemmtilegum vörum t.d. kerti, servíettur, gjafavara og gott í skóinn.

Verið velkomin

Bakkabúð

BR

12.11.2010

Jól á Austurlandi 2010

Nú er hafinn árviss undirbúningur að „Jólum á Austurlandi“.

Markmiðið er sem fyrr að gera aðventuna sem ánægjulegasta fyrir gesti og gangandi með því að hvetja alla til þátttöku í viðburðum á aðventunni, en ekki síður að efla viðskipti í heimabyggð með því að vekja athygli á þeirri fjölbreytni sem er í verslun og þjónustu.

Þá viljum leitast við að kynna hversu gott og gaman er að heimsækja Austurlandið til að versla og njóta aðventunnar.  

Verkefninu verður hagað á sama hátt og áður. Verslunar- og þjónustuaðilar greiða þátttökugjald, kr. 10.000,  sem stendur undir kostaði við að halda utan um verkefnið og kynna það.   Jafnframt leggja fyrirtækin, sem taka þátt í jólaleiknum, fram vinninga í jólahappdrætti.

Kynning verður með nokkuð hefðbundnum hætti: Númerað veggspjald verður gefið út með viðburðaskrá aðventunnar ásamt rifmiðum sem fólk getur klippt út og tekið þátt í jólahappdrættinu.  Aftan á plakatinu verður vinningaskrá fyrirtækja kynnt. Veggspjaldið er því einnig happdrættismiði og því vert að geyma það vel.  Dregið verður úr miðum í beinni útsendingu í jólaútvarpi Austurlands.

Veggspjaldinu verður dreift á öll heimili og fyrirtæki á Austurlandi  með Dagskránni 24. nóvember nk.

Jól á Austurlandi verður sem fyrr auglýst á landsvísu,  í útvarpi, sjónvarpi og dagblöðum, Dagskránni, Austurglugganum og á ferðaþjónustuvefnum, www.east.is.



Umsjón með Jólum á Austurlandi í ár hefur Hafdís Bogadóttir hafdisboga@hotmail.com og má senda fyrirspurnir varðandi þátttöku fyrirtækja til hennar. Skilafrestur á upplýsingum er til 16.nóvember

 

BR

12.11.2010

Frá ÍÞMD - Sundlaugin lokuð vegna sundmóts

Laugardaginn 13. nóvember verður sundlaug Djúpavogs lokuð vegna sundmóts sem þar fer fram, en hefðbundin opnun verður á þrek- og íþróttasal.

Forstöðum. ÍÞMD

12.11.2010

Drungalegir dagar á Djúpavogi

Smellið hér til þess að sjá auglýsinguna um drungalega helgi á Djúpavogi

Það er algjör óþarfi að vera hrædd(ur)...

Ferða - og menningarmálafulltrúi

BR

12.11.2010

Faðirvorahlaup í Hálsaskógi

Faðirvorahlaup 2010 verður haldið í Hálsaskógi föstudaginn 12. nóvember kl. 17:30. Eftir hlaupið fara fram Reimleikar Djúpavogs 2010 í Aðalheiðarlundi þar sem keppt verður í afturgöngu, útburði og beinagrindarhlaupi.

Minnum fólk á að koma með vasaljós til þess að lýsa upp rökkrið

Smellið hér til þess að sjá auglýsinguna stóra

Ferða - og menningarmálafulltrúi

BR

11.11.2010

Markaður í Við Voginn

Kæru Djúpavogsbúar.

Ég verð með markað (vörur úr Klörubúð) í versluninni Við Voginn 12-14 nóv.

Jólavörur,fatnaður, leikföng, gjafavara og fleira. Gott verð í gangi.

Föstudagur : 14:00-18:00
Laugardagur : 14:00-18:00
Sunnudagur: 13:00-17:00

Hlakka til að sjá ykkur
Klara ( 897-0509)

11.11.2010

Draugapubquiz í Löngubúð

Draugapubquiz í Löngubúð föstudagskvöldið 12.nóv. Draugapubquiz og drungaleg stemmning í Löngubúð

Húsið opnar 21:00 og leikar hefjast 21:30

Enginn aðgangseyrir

Tilboð á barnum

Sjáumst í Löngubúð !

BR

11.11.2010

Myndir frá árshátíðinni

Eins og allir vita fór árshátíð Grunnskóla Djúpavogs fram sl. föstudag fyrir þéttsetnum hátíðarsal Hótels Framtíðar.

Nú er búið að setja inn myndir frá árshátíðinni, í tveimur albúmum sem má skoða með því að smella hér.

ÓB

Hrekkjavaka í Hagleikssmiðjunni

Laugardaginn 13. nóv frá kl. 16:00 - 17:30 verður hrekkjavaka í Hagleikssmiðjunni, Hammersminni 16.

Margar glænýjar og glæsilegar töskur, armbönd, hárskraut, fatnaður og fleira

Geggjaðar handgerðar grímur á góður verði, flottar á Sviðamessu.

Allir velkomnir

Arfleifð hönnunnar- og hagleikssmiðja
Hammersminni 16, Djúpavogi
Sími 863-1475

 

 

 

11.11.2010

Kíktu í heimsókn

Leikskólabörnin bjóða gestum og gangandi, öfum og ömmum, frændum og frænkum og öllum hinum líka að koma og kíkja í heimsókn í leikskólann á morgun milli kl. 9:30-10:30 og 14:00-15:00 og skoða verk barnanna á dögum myrkurs.  Þema leikskólans í ár var friður, vinátta og kærleikur. Í fyrra vöktu verk barnanna mikla lukku og þau eru ekki síðri í ár.  Við hlökkum til að sjá ykkur. 

 

P.S. Meðfylgjandi mynd er af köngulóarvefnum okkar sem var unnin á dögum myrkurs í fyrra

ÞS

Gjöf frá kvenfélaginu

Kvenfélagið Vaka færði heimilisfræðikennara grunnskólans veglega peningajöf til að endurnýja eldhúsáhöld og heimilistæki í skólaeldhúsinu.

Meðal þess sem keypt var voru nokkrir handþeytarar, hnífar, bollasett, sleikjur og fl.  Nemendur í 2. og 3. bekk fengu fyrstir að handleika herlegheitin í morgun.

Skólinn þakkar kvenfélaginu kærlega fyrir.

BE

Fótbolti á Neistavelli næsta sumar?

Stjórn Neista skorar á fótbolta-áhugamenn, unga sem aldna, karla og konur að taka fram takkaskóna!!!

Stjórn Neista vonast til að Umf. Neisti verði með lið í Launaflsbikarnum sumarið 2011. Launaflsbikarinn er fótboltamót þar sem reglur eru sniðnar að litlum félögum sem ekki hafa mannskap til að taka þátt í íslandsmóti. Þar mega karlar og konur spila saman, ekkert aldurstakmark og innáskiptingar eru ótakmarkaðar. Þessar reglur ættu að henta okkar litla félagi ágætlega og mikið væri nú gaman að fá aftur leiki á Neista-völlinn!!!

Þetta gerist að sjálfsögðu ekki af sjálfu sér og því langar okkur að boða alla áhugamenn um "fótbolta á Neistavellinum" (ekki nauðsynlegt að spila fótbolta til að vera með þvi ýmislegt þarf að gera á bak við tjöldin og bera vatn og sjúkratösku og veita andlegan stuðning) til fundar í íþróttahúsinu fimmtudaginn 11.nóvember kl. 20:00 (strax eftir fótboltaæfingu). Þeir sem ekki komast á fundinn en hafa áhuga á að vera með geta sent tölvupóst á neisti@djupivogur.is og látið vita af sér.

Sjáumst vonandi sem flest !!!

Stjórn UMF Neista

09.11.2010

Verurnar okkar

Vegna Daga myrkurs sem nú standa yfir er sýning Við Voginn eftir nemendur í 4. 5. og 6. bekk grunnskólans.  Verkefnið var unnið í kennslustundum undir heitinu ,,Grenndarnám“  sem er námsgrein þar sem nemendur læra um byggðarlagið sitt. Verkefnið fjallar um þjóðsögur Djúpavogshrepps og hafa nemendurnir föndrað 19 kynjaverur sem allar eiga sér sögu sem tengist Djúpavogshrepp. Myndir af verunum má sjá hér. Unnur

 

Tilkynning frá Hótel Framtíð vegna jólahlaðborðs

Af óviðráðanlegum orsökum verðum við að aflýsa fyrirhuguðu jólahlaðborði á Hótel Framtíð þann 4. desember 2010.

Starfsfólk Hótels Framtíðar

08.11.2010

Sviðamessa 2010 - Forsala miða

Hér að neðan má sjá auglýsingu frá Hótel Framtíð vegna Sviðamessu 2010. Þar má m.a. sjá upplýsingar um forsölu aðgöngumiða o.fl.

ÓB

 

 

 

 

 

 

08.11.2010

Djúpavogsþrautin þyngri

Á meðan á Dögum myrkurs stendur er morðgátuleikurinn Djúpavogsþrautin þyngri í gangi á Djúpavogi. Leikurinn gengur út á það að svara spurningum og láta meðfylgjandi vísbendinguna leiða þáttakendur yfir á næsta stað.

Skemmtilegur leikur fyrir alla fjölskylduna sem reynir á kunnáttu þátttakenda um heimabæinn sinn.

Fyrsta vísbending verður afhent á Hótel Framtíð föstudaginn 5. nóv kl 18:00

Hér má sjá nánari auglýsingu um leikinn

Djúpavogsbúar eru hvattir til þess að taka þátt í Djúpavogsþrautin þyngri

Ferða - og menningarmálafulltrúi

BR

05.11.2010

Ógnvekjandi námskeið...

Grímu- hatta– og skikkjugerðarnámskeið verður haldið fimmtudaginn 11. nóvember nk. kl. 17:00 og kl. 20:00 ef næg þáttaka fæst.

Verð 4.900 kr - allt efni, kaffi og sódavatn innifalið.

ATH: Fjölskylduafsláttur – einn borgar 4.900 kr. hinir 2.900.-

Nánari upplýsingar og skráning fyrir kl 21:00 sunnudaginn 7. nóvember hjá Ágústu í síma 863-1475 og á netfanginu agusta@arfleifd.is

ÓB

 

 

 

 

05.11.2010

Tannlæknastofan á Djúpavogi auglýsir

Tannlæknastofan verður opin eftirfarandi föstudaga:

3. desember

14. janúar

18. febrúar

18. mars

8. apríl

Tímapantanir í síma 471-1430.

Tannlæknastofan Djúpavogi

05.11.2010

Líf í höfninni

Eftir frekar dauft löndunarhaust, þ.e. í september og október, hefur umferð um Djúpavogshöfn tekið rækilegan kipp nú í byrjun nóvember. Eftir því sem undirrituðum skilst lítur þokkalega út með framhaldið, t.a.m. hafa þrír bátar boðað komu sína á sunnudag og eins lítur fyrir landanir flesta daga í næstu viku.

Í morgun blasti fögur sjón við íbúum bæjarins, þar sem heilir fjórir bátar lágu við bryggju. Þorbjarnarbáturinn Sturla GK var reyndar að leysa landfestar þegar meðfylgjandi mynd var tekin.

ÓB

 

 

 

 


Við stóru bryggju: Vísisbáturinn Fjölnir GK, Reddingarbáturinn Kristbjörg ÁR og Stakkvíkurbáturinn Gulltoppur GK. Sturla að læðast frá bryggju. Við gömlu trébryggju heimabátarnir Sænes SU og Öðlingur SU. Hópsnes GK (yfirbyggður) frá Stakkavík næst.

04.11.2010

Árshátiðin er á morgun - æfingar í fullum gangi

Æfingar fyrir árshátíð grunnskólans, sem fram fer á morgun, eru nú í fullum gangi.

Þemað þetta árið er "Ævintýri Djúpavogshrepps", þar sem stiklað er á stóru í sögu sveitarfélagsins, allt frá Kristnitökunni til Tyrkjaránsins. Dagskráin er einstaklega metnaðarfull og skemmtileg og ætti enginn að verða svikinn af henni.

Eins og áður sagði fer árshátíðin fram á morgun, föstudag. Hefst hún kl. 18:00, aðgangseyrir er 500 krónur og vonast nemendur og kennarar að sjálfsögðu eftir að sjá sem flesta.

ÓB

 

 

 

 

 

Pizzahlaðborð á Hótel Framtíð

Föstudaginn, 5. nóvember verður boðið upp á Pizzahlaðborð á Hótel Framtíð frá kl. 19:00 - 21:00.


Fullorðnir kr. 1.650.-
Börn yngri en 12 ára kr .1.250.-

ÓB

04.11.2010