Djúpivogur
A A

Fréttir

Námskeið um viðhald og verðmæti fasteigna

Nýsköpunarmiðstöð Íslands býður húseigendum og iðnaðarmönnum á námskeið um viðhald og verðmæti fasteigna sem haldið verður á nokkrum stöðum um landið í vetur.

Viðhald og verðmæti er samstarfsverkefni Nýsköpunarmiðstöðvar og Íbúðalánasjóðs við sérfræðinga frá verkfræðistofum, Orkusetrinu, Rafiðnaðarskólanum, Húsi og heilsu, Iðunni - fræðslusetri og heimamenn í hverjum landshluta fyrir sig

Í þessum viðburði fara saman námskeið um viðhald og verðmæti fasteigna sem og áhugavert tækifæri fyrir aðila í byggingageiranum til markaðssetningar á starfsemi sinni.

NMÍ mun standa fyrir námskeiði á Hótel Héraði á Egilsstöðum miðvikudaginn 3. nóvember frá 15:00 - 18:30.

Hér má sjá nánar um verkefnið

ÓB

 

 

 

29.10.2010

"Verið hress, ekkert stress, bless!"

Páll J. Líndal, doktorsnemi í umhverfissálfræði, flytur erindi sitt um samspil umhverfis og náttúru og áhrif þess á andlega líðan okkar.  Fyrirlesturinn ber yfirskriftina „"Verið hress, ekkert stress, bless!"

Sérstaklega verður tekið fyrir umhverfið í kringum Djúpavog og farið yfir niðurstöður úr spurningakönnun sem lá frammi á helstu ferðamannastöðum í þorpinu sumarið 2010.


Fyrirlesturinn verður haldinn í Löngubúð, laugardaginn 30. október og hefst kl. 14:00

Djúpavogsbúar eru hvattir til þess að mæta og hlusta á þennan fróðlega fyrirlestur sem svo sannarlega á erindi við alla.

Ferða – og menningarmálafulltrúi Djúpavogshrepps

29.10.2010

Félagsvist í Löngubúð

Nú höldum við áfram að spila í Löngubúð:

Föstudaginn 29. október kl. 20.30

Föstudaginn 5. nóvember kl. 20.30

Fimmtudaginn 11. nóvember kl. 20.30

Kvenfélagskonur

28.10.2010

Fundur um ferðaþjónustu á Djúpavogi

Af óviðráðanlegum orsökum, er fundi sem halda átti um ferðaþjónustu á Djúpavogi laugardaginn 30. okt. frestað. Nánari dagsetning verður auglýst síðar.

 

BR

28.10.2010

Sveitarstjórn: Fundargerð 21.10.2010

Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.

ÓB

27.10.2010

Ný smáskífa frá Umma

Smáskífan Svefnleysi sem kom út þann 23.10.2010 er þriðja smáskífan af plötunni Ummi sem kom út fyrr á þessu ári.

Í tilefni af útgáfu smáskífunnar og einnig vegna þess að þetta er lag sem listamanninum þykir mjög vænt um, þá fékk hann dætur sínar sem eru 6 og 9 ára með sér og saman föndruðum þau þetta "stopmotion" myndband við lagið.

Myndbandið má finna í HD gæðum í gegnum heimasíðuna www.ummi.is og einnig á YouTube (sjá fyrir neðan).

Lagið verður ókeypis og aðgengilegt til niðurhlaðs sem .mp3 á www.ummi.is frá og með útgáfudeginum.

ÓB

 

 

 

 

 

26.10.2010

Fundur um ferðaþjónustu á Djúpavogi

Laugardaginn 30. október nk. verður haldinn fundur um ferðaþjónustu á Djúpavogi.

Fundurinn verður haldinn í Löngubúð og hefst kl. 14:00

Dagskrá fundarins verður auglýst síðar.

Ferða - og menningarmálafulltrúi Djúpavogshrepps

BR

26.10.2010

Bóndavarðan - nóvemberblaðið

Bóndavarðan er fréttablað sveitarfélagsins og kemur út fyrsta fimmtudag í hverjum mánuði. Þar má fylgjast með því sem er að gerast í stofnunum sveitarfélagsins, ungmennafélaginu, félagasamtökum ásamt fréttum úr bæjarlífinu.

Blaðinu er dreift til allra íbúa og fyrirtækja í sveitarfélaginu en auk þess býðst áhugasömum utan sveitarfélagsins að gerast áskrifendur að blaðinu.

Ársáskrift er kr. 3.000.- Hægt er að kaupa áskrift með því að senda póst á netfangið bondavardan@djupivogur.is

Innsent efni skal sendast á netfangið bondavardan@djupivogur.is eigi síðar en síðasta föstudag fyrir útgáfu blaðsins.

Nóvemberblaðið kemur út fimmtudaginn 4. nóvember nk. og því er frestur til þess að skila inn efni eigi síðar en á miðnætti fimmtudaginn 28. október nk.

Áhugasamir eru hvattir til að senda inn pistla, vísur eða hvað annað sem menn telja að eigi heima í blaðinu.

Einnig býðst fyrirtækjum og félagasamtökum að kaupa auglýsingu í blaðinu.

Verðskráin er sem hér segir:

Heil síða 10.000.-
Hálf síða 5.000.-
1/4 síða 2.500.-

26.10.2010

Fyrsti snjórinn

Fyrsti snjórinn á þessu hausti heiðraði okkur með nærveru sinni rétt eftir kl. 08:00 í morgun. Að vísu hafði gránað í fjöll fyrir nokkrum dögum en þessi á myndinni fyrir neðan er sá fyrsti sem rataði á láglendi.

ÓB

 

 

 

 

 

 

25.10.2010

Kökubasar í dag

Í dag 22. október verður kökubasar í Samkaup Strax klukkan 15:00 til styrktar námsferðar 7.-10. bekkjar.

Hvetjum alla til að koma og kíkja við :)

Nemendur 7.-10. bekkjar

Félagsvist í Löngubúð

Félagsvist verður haldin í Löngubúð föstudaginn 22. október.

Leikar hefjast kl. 20:30. Allir hjartanlega velkomnir.

Golfklúbbur Djúpavogs

22.10.2010

Dagar myrkurs á Djúpavogi

Dagar myrkurs verða haldnir dagana 4. - 14. nóvember um allt Austurland. Hér með er óskað eftir hugmyndum að viðburðum fyrir Daga myrkurs á Djúpavogi þannig að hægt sé að gera þessa daga sem skemmtilegasta fyrir alla.

Einnig eru fyrirtæki og félagasamtök á staðnum hvött til þess að taka þátt.

 

Hugmyndir að viðburðum óskast sendar á netfangið bryndis@djupivogur.is. Fyrirtæki og félagasamtök sem hafa nú þegar skipulagt viðburði í tengslum við Daga myrkurs og vilja vera með í sameiginlegri auglýsingu skulu einnig senda tölvupóst á sama netfang.

Ferða - og menningarfulltrúi Djúpavogshrepps

BR

22.10.2010

Langabúð auglýsir

PubQuiz Laugardagskvöldið 23. október  Húsið opnar 21:00 - Leikar hefjast 21:30

Sjáumst!   

Langabúð

BR

21.10.2010

Íþróttamiðstöðin auglýsir: Tímabundin lokun

Vegna viðhaldsverkefna verður lokað fyrir alla þjónustu í Íþróttamiðstöðinni dagana 25. – 26. október.

Þá verður stóra laugin lokuð alla næstu viku, þ.e. frá 25. – 31. október. vegna vatnsskipta og annarra viðhaldsverkefna.

Pottarnir verða hinsvegar einungis lokaðir dagna 25. – 26. okt.

Forstöðm. ÍÞMD

20.10.2010

Æskulýðsdagatal Grunnskólans 2010 - 2011

Vakin er athygli á því að inn á vef Grunnskóla Djúpavogs hefur verið sett inn æskulýðsdagatal þar sem finna má helstu viðburði á vegum skólans og einnig viðburði sem Nemendafélag Grunnskólans og UMF Neisti standa fyrir. Auk þess eru þar upplýsingar um þá foreldra eða félagasamtök sem koma að viðburðunum auk annarra upplýsinga.

Dagatalið má finna með því að smella hér 

Framvegis mun æskulýðsdagatal hvers mánaðar fylgja Bóndavörðunni og er það von okkar að sem flestir nýti sér það  hvort heldur er til þess að koma á framfæri upplýsingum um viðburði fyrir börn á grunnskólaaldri eða foreldrar / forráðamenn barna.

Þar sem Bóndavarðan var þegar komin út í október þegar dagatalið var tilbúið verða hér settir inn þeir viðburðir sem eiga við októbermánuð.

22. okt.  - Starfsdaggur / Fimleikanámskeið í íþróttahúsinu.

23. okt. - Fimleikanámskeið í íþróttahúsinu.

24. okt. - Fimleikanámskeið í íþróttahúsinu.

27. okt. - Skemmtilegt í íþróttahúsinu - eldri krakkar. Umsjón: Klara, Kristborg Ásta og Guðrún.

30. okt. - Svd. Bára með fræðslu - og skemmtidag  - eldri krakkar.

BR

Sveitarstjórn: Fundarboð 21.10.2010

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps:  Fundarboð  21.10.2010

4. fundur  2010-2014

 Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtud. 21. október  2010 kl. 15:00. Fundarstaður: Geysir.

Dagskrá:

1.    Fjárhagsleg málefni, stofnanir og fleira.
a)    Fjármálaráðstefna 2010.
b)    Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
c)    Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á köldum svæðum.
d)    Undirbúningur endurskoðunar fjárhagsáætlunar 2010.
e)    Lækkun á rekstrarkostnaði og almenn hagræðing.

2.    Fundargerðir
a)    SBU. 4. 10. 2010.

3.    Erindi og bréf

a)    Árskýrsla leikskólans Bjarkatúns.
b)    SSA – viðtöl þingmanna í NA kjördæmi 25.10.2010.
c)    SÍS dags. 1. 9 . 2010.
d)    Málefli dags. 1 9. 2010.
e)    Velferðarvaktin dags. 1.9.2010.  
f)    Vinnueftirlit dags. 2.9.2010.  
g)    Fiskistofa dags. 2.9.2010.  
h)    Guðmundur Kristinsson dags. 7.9.2010.
i)    Samgöngu – og sveitarstjórnarráðuneytið dags. 24.09.2010.  
j)    Brunamálastofnun dags. 29.9.2010.
k)    SÍS dags. 8. 10.2010.  
l)    Umhverfisstofnun dags. 11.10.2010.  
m)    SÍS dags. 13.10.2010.
n)    Anna Guðrún Björnsdóttir, ódags.

4.    Skýrsla sveitarstjóra.

 

Djúpavogi 19. október 2010;
Sveitarstjóri

19.10.2010

Fimleikar á Djúpavogi helgina 22.-24. október

Um næstu helgi verður loksins aftur fimleikanámskeið eins og var hér í maí sl. og margir hafa beðið spenntir eftir.

Námskeiðið verður sett upp svipað og síðast, frábæru fimleikakennararnir Anna Gréta og Bára koma og kenna, skemmtilegur búnaður eins og loftdýnan kemur frá Hornafirði, skipt í 4 aldurshópa, frá leiksskóla börnum upp í fullorðið fólk. Í fullorðins tímanum verður farið vel í upphitunaræfingar og teygjur. Kennst föstudag, laugardag og sunnudag. Þetta verður æði.

Skráning og nánari upplýsingar hjá Báru þjálfara í síma 849-5453 eftir kl 18:00 og á bso1@hi.is fyrir kl 21:00 á miðvikudaginn.

 

 

Vonumst til að sjá sem flesta í fimleikastuði

Kveðja, Anna Gréta & Bára Óla fimleikaþjálfarar

19.10.2010

Söfnun vegna mengunarslyss í Ungverjalandi

Eins og komið hefur fram í fréttum að undanförnu hefur ríkt neyðarástand vegna gríðarlegs mengunarslyss í súrálsverksmiðju í Ungverjalandi sem er ekki séð fyrir endan á. Mengunarflóðið fór meðal annars yfir sjö þorp og bæi og hafa 9 manns látist af völdum þess og mörg hundruð eru slasaðir og eiga um sárt að binda. Þá hafa þúsundir misst heimili sín og má búsast við að stór landsvæði verði óbyggileg vegna mengunar til langs tíma með ófyrirséðum afleiðingum.
 
Um 200 Ungverjar sem nú eru búsettir á Íslandi og koma sumir hverjir af þessu hamfarasvæði, hafa í ljósi þessa hörmulega ástands í fyrrum heimalandi sínu stofnað söfnunarreikning hérlendis til að sýna löndum sínum stuðning.
 
Eins og flestir vita er tónlistarkennarinn okkar, József Béla Kiss, ungverskur.

Hann hefur veg og vanda að söfnuninni og vill benda þeim, sem vilja leggja söfnunarátakinu lið, á að hægt er leggja framlag inn á söfnunarreikninginn hér að neðan:

Reikningur: 1147-05-000700

Kennitala: 0310704069

ÓB
Mynd: Reuters

15.10.2010

Frá skrifstofu Djúpavogshrepps - Ný eyðublöð

Eyðublöð og umsóknir Djúpavogshrepps hafa nú verið teknar til gagngerrar endurskoðunar með nýju samhæfðu útliti og í sumum tilfellum einföldun á forminu.

13.10.2010

Vegna geymslusvæðisins í Gleðivík

Tíminn sem menn hafa til flytja inn á geymslusvæðið, þar sem hreppurinn mun aðstoða og greiða kostnað við flutning, hefur verið framlengdur til 1. nóvember.

Minnt er á að búið er að leggja rafmagn á svæðinu.

Frekari upplýsingar veitir hafnarvörður í síma 478-8869.

Sveitarstjóri

13.10.2010

Milli himinhárra fjalla

Nýlega kom út diskurinn "Milli himinhárra fjalla". Hann inniheldur 2 útgáfur af laginu "Stöðvarfjörður".

Önnur er sungin af Ellert Borgari Þorvaldssyni og Bjarna Frey Ágústssyni, en hin af Álftagerðisbræðrum. Með fylgir bók með myndum frá Stöðvarfirði, auk upplýsinga er varða útgáfuna.

Söluverð er kr. 1.000.- pr. stk.
 
 

 

 

 

 

 

Söluaðilar eru:
Brekkan 755 - Stöðvarfirði (Ásta eða Rósmarý). Sími 475-8939
Hárhöllin / Rósa Guðný Steinarsd. 700 - Egilsstaðir. Sími 471-1331
Bj. Hafþór Guðmundsson, 765 - Djúpivogur. Sími 895-9951
Eiríkur Már Hansson, Vesturbraut 9, 780 - Höfn Sími 863-2242
Rúnar V. Arnarson, Hátúni 33, 230 - Reykjanesbær. Sími 865-1400
Kaffihúsið ENERGIA, Smáralind (Jonni eða Guðný). Sími 897-6541
Anna Björnsdóttir, Bakkabraut 14, 870 - Vík. Sími 865-0307
Ásta María Herbjörnsdóttir, St. Breiðuv.hjál. 735 - Eskifjörður 867-0340
Ingigerður Jónsdóttir, Bæjarstíg 1, 750 - Fáskrúðsfjörður 846-6193

Útgefandi er Björn Hafþór Guðmundsson

 

12.10.2010

Pennasala

Nemendur 7. – 10. bekkjar munu ganga í hús þessa vikuna og selja penna til styrktar Félagi heyrnarlausra. Penninn kostar 1.500 kr. Af þeim fara 450 kr í ferðasjóð bekkjanna en áætlað er að fara í skólaferð 8. – 9. nóvember. Farið verður suður að Hoffellsjökli og unnin líffræði og jarðfræðiverkefni á leiðinni. Þau munu gista í Lóni því þetta verður tveggja daga vinnuferð. Áhugasömum sem ekki hafa fengið tilboð um pennakaup er bent á að hafa samband við nemendurna eða Lilju í síma 8679182. Vinsamlega takið vel á móti krökkunum.LDB

 

 

September Búinn 2010

Nú hefur heilsuátakið Búinn staðið yfir í 4 vikur og þátttakan verið mjög góð. Um 30 manns á öllum aldri taka þátt og skrá allar sínar íþróttaiðkanir á þar til gert blað í íþróttamiðstöðinni, hvort sem það er fótbolti, blak, brennó, badminton, þrek, sund, lyftingar, ganga, hjól eða hlaup.

Mánudaginn 4. október sl. hittist hópurinn og farið var yfir stöðu átaksins og framhaldið, sem er heldur betur spennandi. Verðlaun voru veitt fyrir bestu ástundunina í september og er það hún Gréta íþróttafrík sem ber nú titilinn „September Búinn- búin að vera lang duglegust að mæta“ Hún fékk í verðlaun dýrindis fisk og fallega tösku frá fyrirtækjum hér í byggðarlaginu.

Einnig kom íþróttafræðingurinn Dagný Erla Ómarsdóttir og setti upp frábærann þrekhring í íþróttasal, kenndi skemmtilegan upphitunarleik og góðar æfingar sem fyrirhugað er að halda áfram með alla föstudaga frá kl 17:30-19:00. Von er á Dagný aftur í heimsókn í byrjun nóvember og í þriðja skiptið í byrjun desember.

Allir tímar á vetrardagskrá ÍMD eru opnir öllum hvort sem þeir eru í Búanum eða ekki. Einnig er fjölmargt hægt að gera í íþróttamiðstöðinni utan skipulagðra tíma. Ennþá geta áhugasamir skráð sig í Búann en nú eru 2 mánuðir eftir til að koma sér í gott form, styrkjast og/eða grennast fyrir jólin.

Heilbrigði og hreyfing er góður lífstíll fyrir alla og býður íþróttamiðstöðin upp á fjölbreytta tíma fyrir karla, konur og krakka, auk þess sem yngstu börnin fá frábæra hreyfingu og skemmtun í barnagæslunni alla þriðjudaga og fimmtudaga.

Búinn 2010 er á Facebook, sjá meðfylgjandi hlekk með því að smella hér

ÁMA

BR

11.10.2010

Samkaup strax auglýsir opnunartíma á laugardögum

Í auglýsingu frá Samkaup Strax í nýjustu Bóndavörðunni er vitlaus opnunartími á laugardögum. Hið rétta er að Samkaup Strax er opið á laugardögum frá kl. 11:00 - 16:00.

Beðist er velvirðingar á þessu.

Verið velkomin

Samkaup Strax

BR

11.10.2010

Góðar gjafir

Rétt áður en nemendur grunnskólans voru ræstir af stað í Norræna skólahlaupið á fimmtudaginn kom Guðný Helga og færði skólanum endurskinsvesti á alla nemendur og starfsmenn að gjöf frá Vátryggingafélagi Íslands og Sparisjóðnum. Þessi vesti koma sér einstaklega vel og er mikið öryggisatriði að hafa nemendur vel sýnilega þegar þeir fara út fyrir skólalóðina. Við þökkum VÍS og Sparisjóðnum kærlega fyrir þessa nytsömu gjöf.

BE

 

 

 

 


Guðný Helga Baldursdóttir afhendir Berglind Einarsdóttur skólastjóra vestin


Börnin komin í vestin, skólahlaupið að byrja

Norræna skólahlaupið 2010

Veðurguðirnir sýndu örlitla miskunn og drógu ský frá himni á fimmtudaginn þegar nemendur skólans hlupu um bæinn og nágrenni en þennan dag fór fram Norræna skólahlaupið.

Þeir sem lengst hlupu voru keyrðir inn að Urðateigi en þaðan eru 10 km. Þeir sem hlupu 5 km. skokkuðu að skógræktinni og til baka og yngstu nemendurnir sprettu til og frá flugbrautinni, eða 2, 5 km.

Það liðu ekki nema 20 mín. þegar fyrstu nemendur komu í íþróttahúsið en þar var boðið upp á ávexti og djús. Eftir hressinguna skelltu börnin sér í sund.

Myndir frá þessum skemmtilega degi má sjá hér

 

 

BE

Fréttatilkynning frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi

Samband sveitarfélaga á Austurlandi boðar til opins borgarafundar um málefni Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Fundurinn verður haldinn í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum sunnudaginn 10. október kl. 15:00.

Í fjárlagafrumvarpi sem lagt hefur verið fram er boðaður gríðarlegur niðurskurður á fjárframlögum til HSA. Ef af þessum niðurskurði verður er ljóst að verið er að færa þjónustu í heilbrigðismálum á Austurlandi marga áratugi aftur í tímann og vega með alvarlegum hætti að búsetuskilyrðum á Austurlandi.

Stjórn SSA hefur áður samþykkt harðorð mótmæli gegn boðuðum niðurskurði og hvetur nú alla Austfirðinga til að fjölmenna á fundinn, sýna samstöðu og mótmæla þessum áformum ríkisvaldsins.

Ef þá, sem áhuga hafa á að mæta á fundinn, vantar far í Egilsstaði á morgun má hafa samband við undirritaðan, í síma 895-9951.

Björn Hafþór Guðmundsson

09.10.2010