Djúpivogur
A A

Fréttir

Djúpavogshreppur fær málverk eftir Finn Jónsson að gjöf

Síðastliðinn föstudag fékk Djúpavogshreppur höfðinglega gjöf frá ættingjum Þórhalls Sigtryggsonar en um er að ræða málverk eftir listamanninn Finn Jónsson frá Strýtu. Málverkið er hið glæsilegasta og sýnir Búlandstindinn, Löngubúð, Faktorshúsið og önnur hús við höfnina sem nú eru horfin. Það voru dætur Þórhalls, Hulda og Nanna Þórhallsdætur, sem afhentu sveitarstjóranum málverkið.

Þórhallur Sigtryggsson var ráðinn fyrsti kaupfélagsstjóri Kaupfélags Berufjarðar árið 1920  en þar áður hafði hann verið verslunarstjóri hjá Ørum & Wulff og hafði starfað þar frá árinu 1913. Þórhallur var auk þess oddviti Geithellnahrepps um árabil. Þórhallur var fæddur 4.janúar 1885 á Vestdalseyri við Seyðisfjörð. Foreldar hans voru Sigtryggur Sigtryggsson verkamaður og kona hans Anna Vigfúsdóttir. Kona Þórhalls var Kristbjörg Sveinsdóttir frá Fagradal í Vopnafirði. Þórhallur flutti ásamt fjölskyldu sinni frá Djúpavogi árið 1937 á Húsavík til þess að taka við starfi kaupfélagsstjóra hjá Kaupfélagi Þingeyinga.

Við færum aðstandendum Þórhalls okkar bestu þakkir fyrir þessa dýrmætu gjöf en þetta er fyrsta listaverkið sem Djúpavogshreppur eignast eftir hinn merka listamann Finn Jónsson.


Listaverkið kemur til með að prýða fundarherbergi Geysis og eru íbúar velkomnir þangað til þess að skoða.


Meðfylgjandi eru myndir frá því þegar sveitarstjóri veitti gjöfinni formlega viðtöku.

 

Garðar Garðarsson barnabarn Þórhalls Sigtryggsonar

Gauti sveitarstjóri tekur við málverkinu frá dætrum Þórhalls Sigtryggsonar

Sveitarstjóri ásamt dætrum Þórhalls

 

BR

31.08.2010

Haustganga

Haustganga Grunnskóla Djúpavogs verður miðvikudaginn 1. september kl. 9:40 eða eftir fyrri frímínútur. Kennt verður tvo fyrstu tímana samkvæmt stundatöflu sem og tímann eftir hádegismat.  Nemendur þurfa að taka með sér gott nesti sem snætt verður á leiðinni, klæða sig eftir veðri og vera í góðum skóm eða stígvélum. BE  

Frá Löngubúð

Nú fer að líða á lok sumars og starfsfólk Löngubúðar farið að huga að komandi vetri.

Félagasamtökum og öðrum áhugasömum er bent á að hafa samband við Írisi í síma 868-5109 í sambandi við viðburði (s.s félagsvistir og aðrar uppákomur) fyrir veturinn.
 
Langabúð

30.08.2010

Eftir sumarfrí

Nú eru tvær vikur liðnar síðan leikskólinn opnaði aftur eftir sumarfrí og allt að komast í sinn vanagang.  Grunnskólinn byrjaður og flest öll börnin komin úr sumarfríi.  Verið er að aðlaga inn ný börn á yngri deild leikskólans en það eru fimm börn að hefja sína leikskólagöngu þetta haustið auk þess sem tvö börn byrjuðu á eldri deildinni.  Leikskólinn er fullsetin með 36 börnum en á sama tíma í fyrra voru börnin 29 talsins.  Það hefur því aldeilis fjölgað í leikskólanum en húsnæði hans verður einmitt fimm ára nú í október og óraði engum fyrir því að þessi bygging yrði orðin fullsetin á svona skömmum tíma.   Í september verður nóg um að vera, við höldum áfram að aðlaga ný börn inn í leikskólann, förum í berjamó og leikum okkur. 


Verið í hlutverkaleik þar sem börnin klæða sig upp og leika sér


Þessir tveir eru að byrja í leikskólanum og voru í aðlögun


Í hlutverkaleik


Krakkarnir á Krummadeild í leik


Kríudeild fór í gönguferð upp á Bóndavörðu til að skoða nýja mastrið en þau fylgdust með uppsetningu þess frá leikskólalóðinni


Hvíld hjá börnunum á Krummadeild...hvað er nú fallegra en sofandi börn? 

Kíkið í myndasafn leikskólans en fleiri myndir úr starfi ágústmánaðar má finna í safninu 

ÞS

Gjöf til leikskólans og styrkur til Rabba

Kæru íbúar Djúpavogshrepps og aðrir þeir sem styrktu okkur við fjáröflun til kaupa á hjartaómunartæki.

Fyrr í sumar afhentum við heilsugæslunni á Djúpavogi hjataómunartækið góða. Eins og áður hefur komið fram er það til notkunar fyrir konur í mæðraeftirliti. Það er komið í notkun og virkar mjög vel.

Það varð töluverður afgangur af peningnum sem safnaðist svo við ákváðum að styrkja leikskólann. Í samráði við leikskólastjóra var ákveðið að kaupa nýja myndavél og var hún afhent í dag.

Enn var afgangur af söfnunarfénu og var ákveðið að leggja hann inn á söfnunarreikninginn fyrir Rafn Heiðdal.

Við þökkum kærlega fyrir stuðninginn.

Hafdís, Helga Björk, Heiða og Íris Dögg.

 

 

 


Þórdís leikskólastjóri tekur við myndavélinni frá Írisi, Helgu og Hafdísi

27.08.2010

Neistadagurinn 2010

Neistadagurinn verður haldinn með pompi og prakt föstudaginn 27. ágúst.

Dagskráin hefst kl. 17:00 með keppni í frjálsum íþróttum. Keppt verður í 2 aldursflokkum: 10 ára og yngri og 11 ára og eldri. Foreldrar eru hvattir til að koma með börnum sínum og taka þátt í keppninni.

Þegar frjálsíþróttakeppni er lokið verður grillað og keppni í víkingaspilinu KUBB sett afstað. Í fyrra unnu feðgarnir Egill, Bjartur og Askur  titilinn KUBB-meistari Neista 2009, nú verður spennandi að sjá hvort þeir verja titilinn eða hvort krýndir verið nýir meistarar.

Skráning opin öllum á staðnum í bæði frjálsar og KUBB.

Kaffi í boði Neista

Sælgæti og súkkulaði með kaffinu til sölu.

Grilluð pylsa/pulsa og svali til sölu á 250 kr.
 
Hittumst öll hress 

Stjórn UMF Neista

27.08.2010

Breyttur opnunartími í Samkaup Strax

Nú hefur tekið gildi nýr opnunartími í Samkaup Strax.


Mánudaga - föstudaga kl. 10:00 - 18:00

Laugardaga kl. 11:00 - 16:00

Sunnudaga lokað

ÓB

27.08.2010

Nýtt geymslusvæði í Gleðivík

Nýtt geymslusvæði í Gleðivík hefur nú verið tekið í notkun.  

Þess er hér með farið á leit við þá sem eiga lausamuni, tæki, báta o.þ.h. á víðavangi í þorpinu að þeir flytji eigur sínar á geymslusvæðið sem fyrst. Sveitarfélagið mun aðstoða og greiða kostnað við flutninginn fram til 15. október.

Frekari upplýsingar veitir hafnarvörður í síma 478-8869.

ÓB

27.08.2010

Opið hús

Hið hefðbundna opna hús var í grunnskólanum í gær. Sú nýbreytni var að fyrstu bekkingum var boðið að mæta fyrr þar sem skólastjóri og kennarar bekkjarins tóku á móti þeim, sýndu þeim húsakynni skólans og fóru yfir það helsta sem framundan er. Umsjónarkennarar hinna bekkjanna tóku á móti sínum nemendum og forráðamönnum þeirra frá 10:00 til 14:00. Mæting var mjög góð og ekki annað að sjá en að nemendur og kennarar kæmu vel undan sumri og bíða spenntir eftir að takast á við verkefni vetrarins. BE

Frá ÍÞMD

Sundlaugin verður lokuð næstkomandi sunnudag þann 29 ágúst. Hefðbundinn opnunartími verður hinsvegar á laugardaginn 28 ágúst þ.e. frá 10:00 - 18:00.   

Frá og með sept. tekur svo eins og áður vetraropnunin gildi, þ.e. opið virka daga frá 07:00 - 20:30 (lokað í hádegi) og um helgar verður opið sem áður á laugardögum frá 11:00 - 15:00. Til áréttingar skal tekið fram að ákvörðun um breytingu á opnunartíma ÍÞMD kann að verða tekin á hausti komanda.

Með bestu þökkum fyrir sumarið

Forstöðum. ÍÞMD

25.08.2010

10 ára afmæli skrifstofunnar í Geysi

Í dag eru nákvæmlega 10 ár síðan bæjarskrifstofa Djúpavogshrepps flutti úr slökkvistöðinni og í núverandi húsnæði, hér í Geysi. Húsið, sem byggt var árið 1900, hafði þá gengið í gegnum miklar endurbætur og er í dag ein helsta prýði bæjarins. 

Þáverandi sveitarstjóri var Ólafur Áki Ragnarsson og voru starfsmenn skrifstofunnar Anna Sigrún Gunnlaugsdóttir og Lilja Björk Kristjánsdóttir.

Til gaman fylgja hér með myndir af húsinu í ýmsu ásigkomulagi þar sem glöggt má sjá hversu vel endurbæturnar tókust.

BR

 

Geysir um það leyti sem húsið var fært til yfir á nýjan grunn

Húsið var nú ekkert alltof glæsilegt árið 1998

Ekki þorir nú undirrituð að giska á hvaða ár þetta er en líklegast í kringum 2000

Geysir, eins og húsið lítur út í dag

BR

25.08.2010

Frá bókasafninu

Breyttur opnunartími í vetur:

Þriðjudagar frá kl. 17:00 - 19:00

Fimmtudagar frá kl. 18:00 - 20:00


Bókasafnið opnar þriðjudaginn 31. ágúst

Bókasafnið

BR

25.08.2010

Kálið í Gleðivík - uppskriftasamkeppni

Eins og frægt er orðið er nokkuð sérkennileg uppsprettan í Gleðivík og þar blasir nú við vænn og grænn kálgarður. Af því tilefni hefur verið ákveðið að efna til uppskriftasamkeppni þar sem þátttakendur eru hvattir til þess að nota kálið úr Gleðivík.

Hægt verður að skila inn uppskriftum til og með 31. ágúst og skulu þær sendar á netfangið djupivogur@djupivogur.is. Dómnefnd mun svo velja bestu uppskriftina sem verður birt hér á heimasíðunni.

Allir geta tekið þátt og hvetjum við sem flesta til þess að vera með og nýta það sem Gleðivíkin gefur.

 

Þáttakendur eru hvattir til þess að gera sér ferð í Gleðivík og sækja sér kál en einnig er tilvalið að skoða listaverkið í leiðinni og jafnvel sækja þar innblástur.

BR

24.08.2010

Ljósmyndasýning Bjarna opin til 29. ágúst

Nú fer hver að verða síðustur að skoða glæsilega ljósmyndasýningu sem Bjarni Bragason hefur sett upp á Hótel Framtíð. Sýningin verður tekin niður þann 29. ágúst nk. en þann dag ætlar Bjarni að vera á staðnum og bjóða gestum upp á kaffi milli kl. 15 og 16.

Þetta er önnur einkasýningin sem Bjarni heldur en auk þess hefur hann tekið þátt í einni samsýningu.

 

 

 

 

BR

24.08.2010

Styrktarleikurinn fyrir Rabba

Styrktarleikur fyrir Rafn Heiðdal var haldinn á Vilhjálmsvelli, föstudaginn 20. ágúst sl. að viðstöddu fjölmenni.

Vefurinn fotbolti.net birti myndir og frásögn frá leiknum, þar sem t.a.m. ekki ómerkilegri menn en Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari spilaði ásamt fjölmörgum öðrum. Myndirnar tók Gunnar Gunnarsson, fréttamaður Austurgluggans og umfjöllunina gerði Guðmundur Bj. Hafþórsson.

Umfjöllunina má sjá með því að smella hér.

Meðfylgjandi mynd tók Gunnar Gunnarsson.

ÓB

 

23.08.2010

Umfjöllun Austurgluggans um Axarferðina

Eins við sögðum frá hér hjóluðu Andrés, Bryndís og Obba í Egilsstaði um Öxi um síðustu helgi. Austurglugginn var á vettvangi þegar þremenningarnir lentu á Egilsstöðum og í dag birtist grein um ferðina í blaði Austurgluggans. Á heimasíðu Agl.is má sjá vefútgáfu greinarinnar. Smellið hér til að sjá hana.

ÓB
Mynd: Austurglugginn

20.08.2010

Neisti - Einherji

5. flokkur Neista í knattspyrnu mætir Einherja frá Vopnafirði á Neistavellinum í dag kl. 12:00.  Þetta er síðasti leikur 5. flokks og því mikilvægt að allir komi og hvetji 5. flokkinn til sigurs.  Í gær var leikur gegn Sindra og fór hann 6-0 fyrir Sindra þannig að nú veitir krökkunum ekki af góðum stuðningi.

Allir að mæta.

UMF. Neisti

20.08.2010

Leikur á Neistavelli í dag

5. flokkur Neista í knattspyrnu mætir Sindra á Neistavelli í dag kl. 17:00

Allir að mæta.

UMF. Neisti

19.08.2010

Styrktartónleikar - Þakkir og myndir

Laugardaginn 14. ágúst sl. voru haldnir styrktartónleikar í Löngubúð til styrktar Rafni Heiðdal en hann glímir nú við erfið veikindi. Mætingin á tónleikana fór fram úr björtustu vonum og greinilegt að íbúar á Djúpavogi vilja leggja sitt af mörkum til þess að styðja við bakið á Rafni. Alls söfnuðust kr. 268.080 og voru það einstaklingar jafnt sem fyrirtæki sem gáfu framlag.

Á tónleikunum komu fram: Kristján Ingimarsson, Sóley Dögg Birgisdóttir, Dröfn Freysdóttir, Ýmir Már Arnarson, Anna Margrét Óladóttir, Aron Daði Þórisson og Íris Birgisdóttir.

Meðfylgjandi eru myndir sem Ingi Ragnarsson tók og færum við honum þakkir fyrir að leyfa okkur að nota þær. Við viljum einnig koma á framfæri kærum þökkum til allra þeirra sem mættu á tónleikana og hjálpuðu til við að safna þessari myndarlegu upphæð.

 

Við minnum á að styrktarreikningurinn er enn opinn fyrir framlögum, en hann er:

1147-05-401910, kt. 191087-3729

 

Við sendum Rafni okkar bestu batakveðjur;

Kristján, Sóley, Dröfn, Ýmir, Anna, Aron og Íris


Hópurinn sem kom fram á tónleikunum, en á myndina vantar Ými

Kristján Ingimars spilar á gítarinn af sinni alkunnu snilld

Ýmir, Aron Daði og Anna Margrét heilluðu salinn upp úr skónum

Hluti af gestum kvöldsins í Löngubúð

Aron Daði fór á kostum þetta kvöld

Ýmir Már var flottur eins og fyrri daginn

Hópurinn á hrós skilið fyrir myndarlegt framtak

 

BR

17.08.2010

Hjólað í Egilsstaði til stuðnings Axarvegi

Korter yfir níu laugardagsmorguninn 14. ágúst lögðum við þrjú af stað, undirritaður, Bryndís Reynisdóttir og Þorbjörg Sandholt hjólandi til Egilsstaða um Öxi, samtals 85 km leið. Gréta var bílstjóri með vistirnar og stóð sig vel í því hlutverki ásamt því að taka myndir. Blíðskaparveður var á Djúpavogi þegar við lögðum af stað frá ráðhúsinu og sóttist ferðin vel inn Berufjörðinn með smá andvara í bakið. Viðgerðarhlé var svo á Melhorni þar sem Ólafur Áki gerði m.a. við tannhjól á hjóli Bryndísar en keðjan hafði farið nokkrum sinnum út af hjá henni.

Eftir gott spjall hjá Óla og inntöku á orkudrykkjum, Snickers og flatbrauði var haldið í brattann upp Öxi og gekk bara vel. Stoppuðum þó reglulega og fengum okkur orku. Uppi á Öxi var svo þokuslæðingur en það var bæði milt og hlýtt í þokunni og mjög þægilegt að fá smá svala um sig.  En er stutt hafði verið farið birti til á ný og þá brunuðum við út Öxina á fleygiferð og það var sannast sagna alveg frábært að láta sig renna þarna nánast án fyrirhafnar alla leið út að Skriðuvatni.

Þegar komið var lengra út á hérað kom svo smá vindur í fangið og þá tók aðeins í, smá sinadrættir í lærvöðva en annars allt innan marka. Svo þegar nálgaðist Egilsstaði var Öxin góða sem við höfðum meðferðis dreginn upp og með hana á lofti hjóluðum við að krossgötum að Egilsstaðabýlinu þar sem formaður bæjarráðs á Fljótsdalshéraði, Gunnar bóndi, tók á móti okkar ásamt Stefáni Braga og Óðni Gunnari starfsmönnum hjá Fljótsdalshéraði.  Þarna fengum við aldeilis frábærar móttökur og þar færði Gunnar okkur heilmikla Öxi og svo sitt lítið af hverju frá frábærri framleiðslu sinni frá Egilsstaðabýlinu.  Einnig voru sjónvarpsfréttamenn á svæðinu og fréttamaður frá Austurglugganum.

Það var því ljóst að þessi ferð okkar til stuðnings Axarvegi hafði vakið mikla athygli þótt ég hafi fyrst getið um uppátækið á heimssíðu Djúpavogshrepps í gærmorgun. Auk þessara höfðinglegu móttökuathafnar framan við Egilsstaðabýlið var okkur boðið í sund og var það vel þegið að komast í heitu pottana til að ná úr sér mestu strengjunum.  Þá vorum við sömuleiðis boðin í mat af bæjarstjórninni og eftir sundið fórum við því beint á Gistihúsið á Egilsstöðum (auðvitað hjólandi) og snæddum þar fyrirtaks lambakjöt og svo var kaffi á eftir og samhliða áttum við mikið gott spjall við Gunnar og Stefán Braga.  Við þetta tækifæri kvittaði Gunnar formaður bæjarráðs svo á Öxina okkar og staðfesti þar með að við höfðum náð takmarkinu að hjóla þessa 85 km í Egilsstaði. Síðan eftir gott spjall, fengum við góðan spotta hjá Gunnari bónda og bundum hjólin á pallinn á bílnum mínum og brunuðum svo heim á leið.

Andrés Skúlason

Fleiri myndir frá ferðalaginu má sjá með því að smella hér.

 

 

17.08.2010

Vaxtarsamningur Austurlands

Viljum minna á umsóknarfrest Vaxtasamnings Austurlands sem er til 27. ágúst nk. 

Umsóknareyðublað er hægt að nálgast á heimasíðu Þróunarfélags Austurlands, www.austur.is

BR

16.08.2010

Mynd eftir Óskar Ragnarsson prýðir frímerki Íslandspósts

Í júlí gaf Íslandspóstur út þrjú ný frímerki í tilefni eldsumbrotanna í Eyjafjallajökli. Það er sérstaklega gaman að segja frá því að Djúpivogur getur státað sig af því að eiga þar sinn fulltrúa en Óskar Ragnarsson frá Bragðavöllum á þar ljósmynd sem prýðir eitt frímerkið.

Þetta er sannarlega glæsilegur árangur hjá Óskari og ljóst að þessi glæsilega mynd af eldgosinu kemur til með að dreifast um heim allan, þar sem hægt er að kaupa frímerkið bæði á bréf til Evrópu og Bandaríkjanna, auk Íslands.

Við óskum Óskari til hamingju með þennan frábæra árangur.

Meðfylgjandi er ljósmyndin sem prýðir frímerkið en undirrituð tók sér það bessaleyfi að "stela" henni af heimasíðu Óskars til þess að leyfa lesendum heimasíðunnar að sjá.

BR

16.08.2010

Skemmtiferðaskipið MV Athena á Djúpavogi

Skemmtiferðaskipið MV Athena heimsótti Djúpavog í gær og sigldi inn Berufjörðinn í gærmorgun í svartaþoku. Það létti þó fljótlega til og farþegar gátu farið að sigla með litlum bátum í land um 11 leytið. Skipið var um 350 farþega og rúmlega 200 manns í áhöfn og fóru flestir farþeganna í skipulagðar ferðir í Jökulsárlón.

Papeyjarferjan fór með einn hóp út í Papey og kom hann hæstánægður úr ferðinni enda veðrið alveg dásamlegt og hægt að skoða allt það helsta sem Papey hefur upp á að bjóða.

Um er að ræða eitt sögufrægsta skemmtiferðaskip heims en það var byggt árið 1948 og fékk þá nafnið MS Stockholm og þótti hið allra glæsilegasta. Árið 1956 lenti skipið í árekstri við annað skemmtiferðaskip, Andrea Doria en þetta kvöld umlauk þykk þoka siglingarleið þeirra í Norður - Atlantshafi. Talið er að mistök áhafnarinnar á Andrea Doria hafi valdið árekstrinum en áhöfn Ms Stockholm fékk einnig á sig gagnrýni fyrir að hafa ekki siglt samkvæmt aðstæðum en eins og áður hefur komið fram var mikil þoka á þessum slóða og lítið skyggni. Ms Stockholm rakst á Andrea Doria stjórnborðs megin, sem olli því að sjór flæddi um vélarrúmið með þeim afleiðingum að Andrea Doria hvolfdi og sökk. Þrátt fyrir að vera mikið laskað tók Ms Stockholm þátt í björgunaraðgerðum en 327 farþegum og 245 áhafnarmeðlimum af Andrea Doria var bjargað. Allir farþegar og áhöfn Ms Stockholm voru ómeiddir. 45 manns af Andrea Doria létu lífið, þar af 5 úr áhöfninni.

Til allrar hamingju átti skipið þó ekki í neinum vandræðum í þokunni í Berufirði og meðfylgjandi eru myndir sem Andrés Skúlason tók af skipinu þegar það lá við akkeri í firðinum. Einnig eru hér nokkrar myndir sem Guðmundur Már Karlsson tók af skipinu.

Þrátt fyrir þoku inn á milli er óhætt að segja að veðrið hafi leikið við gesti Athenu, sem og aðra, á Djúpavogi í gær og það er vissulega tignarlegt að sjá slíkt glæsifley í firðinum en skipið fór héðan kl. 22:30.

 

 

Mynd: Guðmundur Már Karlsson

Mynd: Guðmundur Már Karlsson

Mynd: Guðmundur Már Karlsson

Myndina hér fyrir ofan, sem og þær sem sjá má hér fyrir neðan tók Andrés Skúlason

 

Farþegar voru fluttir í bát með léttbátunum frá skipinu

Hér kemur einn báturinn inn að gömlu trébryggjunni

 

Þokan læddist inn Berufjörðinn annað slagið

Það var fallegt að sjá skipið á firðinum eftir því sem leið á kvöldið

 

 

 

Þess ber að geta að ekkert hefur verið unnið með myndirnar, litbrigðin voru ótrúlega fallega í gærkvöldi.

 

 

BR

13.08.2010

Samkaup Strax auglýsir eftir starfskrafti

Starfskraftur óskast!

Samkaup óskar eftir starfskrafti til að vinna á laugardögum frá 11-16.

Þarf að vera 18 ára og með bílbróf.

Vinsamlegast sendið umsókn hingað: http://samkaup.is/Atvinnuumsokn/


Samkaup-Strax
Djúpavogi

BR

13.08.2010

Hjólað til stuðnings nýjum Axarvegi

Á morgun laugardag stefnir undirritaður á að hjóla 85 km leið um Öxi í Egilsstaði bæði til gamans og í alvöru.
Hjólreiðaferðin er því bæði til heilsuræktar og ekki síður til að minna á baráttu fyrir nýjum og fullkomnum heilsársvegi um Öxi.  Þótt undirritaður geri sér grein fyrir að fyrirvarinn sé lítill þá vill hann engu að síður vekja athygli á hjólreiðatúrnum hér á heimasíðunni m.a. ef einhverjir hefðu áhuga á að taka skyndiákvörðun og hjóla með.
Stefnt er á að leggja af stað kl 09:00 í fyrramálið frá ráðhúsinu Geysi.   

Í nafni þessarar 85 km hjólreiðaferðar skorar undirritaður og sveitarstjórn Djúpavogshrepps á samgönguyfirvöld í ljósi loforða að hraða sem kostur er gerð nýs heilsársvegar um Öxi og setja þessa gríðarlega mikilvægu samgöngubót í forgang samgönguframkvæmda á Austurlandi.

Til áréttingar skal minna á að vegleiðin um Öxi styttir vegalengd frá Djúpavogi í kjarna Austurlands á Egilsstöðum um
72 km miðað við fjarðaleið.

                                                                                                                        
Áfram Öxi     
                                                                                                                     
Andrés Skúlason
                                                                                                                         
Oddviti DPV.     

13.08.2010

Óvænt káluppskera í Gleðivík

Eins og Djúpavogsbúar hafa eflaust tekið eftir hefur verið nokkuð sérkennileg uppspretta í Gleðivík. Þar stóð til þess að græða upp land með grasfræjum en fyrir mistök var þar sáð fóðurkáli. Uppsprettan er hin glæsilegasta og þar má nú sjá mörg hundruð metra kálgarð.

Sjónvarsfréttamaður frá Ríkissjónvarpinu mætti á svæðið á mánudag og gerði frétt um þetta spaugilega mál og má  lesa fréttina af heimasíðu RÚV með því að smella hér og sjá frétt úr kvöldfréttum sjónvarpsins hér fyrir neðan.

BR

 

 

 

 

 

 

13.08.2010

Styrktartónleikar

Laugardagskvöldið 14.ágúst næstkomandi mun hópur tónlistarfólks frá Djúpavogi standa að tónleikum í Löngubúð.  Aðgangseyrir mun renna óskiptur í sjóð sem stofnaður hefur verið í nafni Rafns Heiðdal en hann háir nú hetjulega baráttu við erfið veikindi.

Aðgangseyrir er 1500 kr en á staðnum verður auk þess söfnunarbaukur fyrir frjáls framlög.

Húsið opnar 21:00 – Tónleikarnir hefjast 21:30.             

Við minnum einnig á að hægt er að leggja inn á styrktarreikning Rabba í sparisjóðnum: Reikningsnr. 1147-05-401910, kt. 191087-3729.

BR

11.08.2010