Djúpivogur
A A

Fréttir

Skógardagur leikskólans

Skógardagur leikskólans var haldinn í 9. skiptið þann 26. júní sl.  Dagurinn var vel sóttur en einstaklega gott veður var þennan dag og var það alveg sérstaklega gott inn í skógræktinni.   Byrjað var á því að mála steina en síðan var gengið um skógræktina og listaverk barnanna skoðuð.  Sú nýbreytni var gerð í ár að setja upp gestabók á sama stað og óskaboxið er en það er von okkar að þeir sem heimsækja skóginn okkar og skoða listverkin skrifi í gestabókina.  Viljum við hvetja alla sem eiga leið um Djúpavog að kíkja í skógræktina með nesti og eiga þar góða stund. 

 

Verið að mála steina

Margir lögðu leið sína fótgangandi inn í skógræktina

Nestið borðað í Aðalheiðarlundi

Margir lögðu leið sína í skógræktina með vagnanna og er vel vagnfært um skóginn

Hægt er að sjá fleiri myndir frá skógardeginum hér

ÞS

Hjartaómunartækið afhent

Eins og við höfum greint frá hér á heimasíðunni stóðu nokkrar framtakssamar mæður á Djúpavogi fyrir söfnun til kaupa á hjartaómunartæki. Þær héldu kökubasar í tvö skipti í maí og er skemmst frá því að segja að söfnunin gekk vonum framar og náðu þær að safna fyrir tækinu og rúmlega það.

Það var svo við hátíðlega athöfn, miðvikudaginn 23. júní, sem tækið var afhent á Heilsugæslunni á Djúpavogi. Gunnþóra Snæþórsdóttir, ljósmóðir, tók við tækinu en þar var einnig staddur Emil Sigurjónsson, starfsmannastjóri HSA, Þórður Þórarinn Þórðarson, starfandi læknir á Djúpavogi og Guðmunda Brynjólfsdóttir, læknaritari.

Tækið, sem heitir Babysonic Ultrasonic Doppler, er eins og áður sagði hjartaómunartæki og notað fyrir konur í mæðraeftirliti. Þá var einnig keypt tæki til að nota með hjartaómunartækinu en það er til að hlusta á blóðflæði í æðum.

Saman kostaði þetta 82.469 kr. en í heildina söfnuðust 114.912 og afganginn ætla mæðurnar að nota til að styrkja börnin í leikskólanum.

Frábært framtak hjá þessum kraftmiklu konum og ljóst að tækið mun koma að góðum notum í framtíðinni því lítið lát virðist vera á barneignum hér á Djúpavogi sem er að sjálfsögðu vel.

ÓB

 


Hafdís Reynisdóttir færir Gunnþóru Snæbjörnsdóttur tækið góða


Frá vinstri: Gunnþóra Snæbjörnsdóttir, Þórður Þórarinn Þórðarson, Guðmunda Brynjólfsdóttir, Íris Dögg Hákonardóttir, Helga Björk Arnardóttir og Hafdís Reynisdóttir

25.06.2010

Skógardagur leikskólans

Laugardaginn 26. júní kl: 14:00 mun leikskólinn vera með sinn árlega skógardag í Hálsaskógi Málað verður á steina og þeim komið fyrir við göngustíginn, síðan gengið um skógræktina og listaverk nemenda Bjarkatúns skoðuð en listaverkin samanstanda af endurnýtanlegum efnivið og efnivið úr Hálsaskógi.  Svo er um að gera að taka með sér smá nesti og snæða í Aðalheiðarlundi.

Allir hjartanlega velkomnir.

Börn og starfsfólk Bjarkatúns

 

Í skóginum má meðal annars sjá þetta

ÞS

Neisti - Fjarðabyggð / Leiknir á Neistavelli í dag

5. flokkur UMF Neista tekur á móti Fjarðabyggð / Leikni í dag á Neistavelli.

Leikurinn hefst kl. 14:00.

Mætum öll og styðjum krakkana.

UMF Neisti

25.06.2010

Ljósmyndasamkeppni Djúpavogs 2010

Ferða- og menningarmálanefnd Djúpavogs efnir til ljósmyndasamkeppninnar Djúpivogur 2010.

Öllum er heimil þátttaka og hér er kjörið tækifæri fyrir alla þá sem hafa áhuga á ljósmyndun að senda inn myndir.

 

 

Reglur keppninnar eru eftirfarandi:

- Þeir sem skila inn mynd eða myndum skulu taka þær í Djúpavogshreppi á árinu 2010 og senda á netfangið ljosmynd@djupivogur.is ásamt nafni, heimilisfangi og símanúmeri
- Skilafrestur er til miðnættis 31.12.2010.
- Hverjum keppanda er leyfilegt að senda inn þrjár myndir.
- Aðeins er tekið við stafrænum myndum á jpeg sniði (.jpg).
- Skráarstærð verður takmörkuð við 5 MB.
- Keppendur skulu skýra myndir sem skilað er inn einhverju viðeigandi heiti.
- Djúpavogshreppur áskilur sér rétt til að nota þær myndir sem skilað verður inn í eigin þágu, án þess að greiðsla komi fyrir.


  Bestu myndirnar verða sýndar á ljósmyndasýningu árið 2011 og höfundar þriggja bestu myndanna fá verðlaun.

  24.06.2010

  Nýr sveitarstjóri í viðtali

  Gauti Jóhannesson, nýr sveitarstjóri Djúpavogshrepps, var í viðtali hjá Hrafnhildi Halldórsdóttur í þættinum Samfélagið í nærmynd á Rás 1 í morgun.

  Hrafnhildur ræddi m.a. við hann um brasið við lyklaskiptin og Gauti fór yfir þau verkefni sem hér eru í gangi o.fl.

  Viðtalið er hægt að hlusta á með því að smella á spilarann hér fyrir neðan. Bein slóð á viðtalið er hér.

  Fréttina um lyklaskiptin er hægt að skoða með því að smella hér, og myndbandið hér neðst í fréttinni.

  ÓB

   

   

   

   

  Viðtalið:

   

   

  Sveitarstjóraskiptin:

  23.06.2010

  Útskriftarferð-myndband

  Það er til siðs þegar skólaáfanga lýkur hjá einum hóp þá sé haldið í útskriftarferðalags og það gerðu nemendur leikskólans Bjarkatúns í lok maí.  Þau fóru í sína fyrstu útskriftarferð enda voru þau að ljúka sínu fyrsta skólastigi, leikskólanum.  Ferðin var nú ekkert löng en farið var inn í skógrækt og þar var gengið um, skoðað og skemmt sér. 

  Við sáum ýmsa fugla, kíktum inn í gatklettinn og tókum lagið saman.  Eftir skógræktarferðina kíktum við á álfakirkjuna, Rakkaberg, enda var mikil umræða um álfa og huldufólk í skógræktinni og hvernig þeir myndu búa og ferðast um á milli staða  því ekki eiga þeir bíl.  Þau voru öll sammála um það að það væri nú frekar langt fyrir álfanna að fara til kirkju alla leið úr skógræktinni en það væri nú líklegast líka langt fyrir suma á Djúpavogi að fara í kirkjuna þar en við ættum þó alla vega bíl. 

  Eftir þessar umræður og skoðunarferð var farið í Við voginn og borðaður ís.  Skemmtileg útskriftarferð og ætlar hópurinn að stefna á enn fleiri útskriftarferðir þegar fleiri skólastigum verði náð. 

   

  Hér má sjá myndband af útskriftarhópnum að taka lagið

  Gatkletturinn flotti

  Söngsteinn..hér er sko gott að taka lagið

  Síðan þurftu allir að taka lagið

  Setið á svölunum hjá álfum og huldufólki

  Í ísveislunni

  Fleiri myndir hægt að sjá hér

  ÞS

  Skógardagur leikskólans

  Skógardagur leikskólans verður haldinn á laugardaginn, 26. júní kl. 14:00.  Boðið verður upp á að mála steina ef veður leyfir en síðan verður gengið um skógræktina og listaverk barnanna skoðuð. 

  Allir velkomnir

  ÞS

  Sveitarstjórn: Fundargerð 15.06.2010

  Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.

  ÓB

  21.06.2010

  Sumarblíða

  Sumarblíðan sem hefur leikið við Djúpavogsbúa undanfarna daga er sko heldur betur vel nýtt af leikskólabörnunum.  Það er leikið sér á pallinum við leikskólann og síðan þegar sólin færir sig þá er farið út í garð og notið veðurblíðunnar. 

  Í leik á pallinum með allskonar dót

  Verið að leita að köngulóm sem leita skjóls inn í dekkjunum

  Svo er alltaf gaman að fljúga flugdreka

  Sjáið fleiri myndir hér

  ÞS

  17. júní 2010

  17. júní var haldinn hér á Djúpavogi í blíðskaparveðri. Dagskráin byrjaði á dorgveiðikeppni og var gaman að sjá hvað margir voru mættir þar, bæði foreldar sem afar og ömmur með krökkunum og var veiðistöngunum sveiflað fram og aftur á bryggjukantinum á gömlu trébryggunni.

  Eftir dorgveiðina var grillað við félagsmiðstöðina en þaðan var síðan skrúðganga að Neistavellinum þar sem menn skemmtu sér við fjölbreytta dagskrá, t.d. söngkeppni, kassabílarallí, sápufótbolta, vatnsrennibraut og ýmsar smáþrautir.

  Fjallkonan ávarpaði samkomuna, en í þetta sinn var það Ágústa Arnardóttir sem leysti það verkefni af miklum myndarbrag.

  Á heildina litið góður dagur, dagskráin frábær og eiga þeir sem komu að henni, UMF Neisti, slysavarnafélagið og slökkviliðið heiður skilinn fyrir.

  Myndir má sjá með því að smella hér.

   

  ÓB og AS

  18.06.2010

  Lyklaskiptin - Nýr sveitarstjóri tekur við

  Nýr sveitarstjóri Djúpavogshrepps, Gauti Jóhannesson, tók við lyklavöldum í Ráðhúsi Djúpavogs þriðjudaginn 15. júní. Hann tekur við af Birni Hafþór Guðmundssyni sem kveður eftir átta ára farsælt starf.

  Það er reyndar ekki hægt að segja að það hafi gengið átakalaust fyrir sig að fá lykilinn afhentan, því fráfarandi sveitarstjóri virtist ekki vera undir það búinn að láta hann af hendi.

  Sennilega er best að hafa formálann ekki mikið lengri en við vorum svo heppin að festa lyklaskiptin á filmu og fannst sjálfsagt að leyfa öllum að sjá hvernig þetta fór fram.

  Hér fyrir neðan er hægt að sjá myndbandið og þar fyrir neðan ljósmyndir sem einnig náðust.

  Myndband: AS
  Myndir og texti: ÓB

   

   

   

   

   

  17.06.2010

  Opnunartími Samkaup Strax á 17. júní

  Verslun Samkaup-Strax verður opin á morgun, fimmtudaginn 17. júní, frá kl. 11:00 - 14:00.

  ÓB

  16.06.2010

  Bakkabúð auglýsir!

  Bakkabúð, handverks- og gjafavöruverslun opnar á Kallabakkanum (þar sem áður var Klörubúð) laugardaginn 19. júní kl. 14:00. Sjá auglýsingu hér fyrir neðan.

  Léttar veitingar í boði.

  Allir velkomnir.

  ÓB

   

   

   

   

   

   

  16.06.2010

  17. júní dagskrá

  17. júní verður haldinn hátíðlegur á Djúpavogi. Smellið hér til þess að skoða auglýsinguna.

   

  BR

  15.06.2010

  Kvennadagurinn, 19. júní

  Konur!

  Eigum saman notalega stund í Löngubúð næstkomandi laugardag, 19. júní, kl. 20:00 í tilefni Kvennadagsins.

  Tónlist, glens og grín. Veitingasalan verður með súpu og brauð.

  Nefndin

  15.06.2010

  Sveitarstjórn: Fundarboð 15.06.2010

  Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundarboð 15.06.2010

  1. fundur  2010-2014


  Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps þriðjud. 15. júní 2010 kl. 16:00. Fundarstaður: Geysir.

  Dagskrá:

  1.    Verkaskipting sveitarstjórnar.

  a)    Kosning oddvita
  b)    Kosning fyrsta varaoddvita
  c)    Kosning annars varaoddvita

  2.    Breyting á samþykktum um stjórn og fundarsköp Djúpavogshrepps, fyrri umræða.

  3.    Gengið frá umboði til oddvita vegna ráðningar sveitarstjóra.

  4.    Launakjör sveitarstjórnarmanna 2010-2014.

  5.    Sumarfrí sveitarstjórnar 2010.

  6.    Frágangur prókúrumboðs.

  Djúpavogi 13. júní 2010;

  Sveitarstjóri

  14.06.2010

  Fundarboð

  Aðalsafnaðarfundur Djúpavogssóknar verður haldinn í safnaðarheimilinu þriðjudaginn 15. júní kl. 20:00

  Dagskrá

  1. Skýrsla formanns

  2. Reikningar lagðir fram

  3. Önnur mál

  Sóknarnefnd

  BR

  14.06.2010

  Tilkynning frá Klörubúð

  Kæru Djúpavogsbúar og nágrannar.

  Nú hefur Klörubúð hætt störfum og viljum við af því tilefni þakka innilega fyrir góð og skemmtileg viðskipti sl. ár.

  Við óskum nýjum eigendum velfarnaðar á komandi árum.

  Vinakveðjur

  Klara og Ómar

  14.06.2010

  Sveitarstjórn: Fundargerð 10.06.2010

  Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.

  11.06.2010

  Sumaropnunartími Samkaup-Strax

  Samkaup-Strax á Djúpavogi verður opið í sumar sem hér segir:

  MÁNUDAGA-FÖSTUDAGA: 10.00-18.00
  LAUGARDAGA: 10.00-16.00
  SUNNUDAGA: 12.00-16.00

  11.06.2010

  Skóladagatal 2010 - 2011

  Skóladagatal Grunnskóla Djúpavogs vegna komandi skólaárs hefur verið lagt fyrir skólaráð, skólanefnd og sent foreldrafélaginu til kynningar.  Allir þessir aðilar hafa samþykkt skóladagatalið og hefur það nú verið sett inn á heimasíðu skólans.  Dagatalið má finna hér.

  Skólastjóri vill minna foreldra á að tilkynna allar breytingar varðandi skólagöngu næsta árs, hvort sem um er að ræða afskráningu eða skráningu í skólann.  HDH

  Sumaræfingar Neista - Tímatafla

  Sumaræfingar UMF Neista hefjast í dag, miðvikudaginn 9. júní.

  Smellið hér til að skoða tímatöfluna.

  ÓB

  09.06.2010

  Fréttatilkynning frá LungA 2010

  Skráning er nú hafin í listasmiðjur LungA 2010.

  Hafir þú áhuga á að vera með þá sendirðu okkur tölvupóst á póstfangið lunga@lunga.is merkt “Listasmiðjur 2010”. Fram skal koma nafn þátttakanda, aldur, heimilisfang, símanúmer, hvort óskað er eftir gistiplássi eða ekki og síðast en ekki síst hvaða smiðju viðkomandi vill skrá sig í.. LungA sendir svo staðfestingarpóst til baka um leið og skráning hefur verið móttekin.

  Listasmiðjurnar í ár eru eftirfarandi:

  Tón-hryðju-verk-smiðjan - Hemus und Dalli
  Leiklist - Ilmur Kristjánsdóttir
  Tískuteikningar - Hildur Yeoman
  Inn um augað og út um eyrað - Elvar Már Kjartansson , Hanna Christel Sigurkarlsdóttir, Helgi Örn Pétursson , og Þórunn Eymundardóttir .
  Blús stefnumót - Halldór Bragason
  Yes sir, I can boogie - Saga og Friðgeir.

  Nánari umsögn um smiðjurnar má finna undir dagskrárlið heimasíðunnar www.lunga.is . Svör við spurningum er einnig hægt að fá í gegnum tölvupóst á lunga@lunga.is eða í síma 861 7789

  BR

  09.06.2010

  Sveitarstjórn Djúpavogshrepps: Fundarboð 10. 06. 2010

  Sveitarstjórn Djúpavogshrepps:  Fundarboð  10. 06. 2010

  Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtud. 10. júní 2010 kl. 15:00. Fundarstaður: Geysir.

  Dagskrá:

  1.    Fjárhagsleg málefni, stofnanir o.fl.
  a)    Viðhald Grunnskóla, hugmyndir um útlitsbreytingar.

  2.    Skýrsla sveitarstjóra.  Djúpavogi 8. júní 2010;

  Sveitarstjóri

  08.06.2010

  Sjómannadagurinn 2010

  Sjómannadagurinn var haldinn á Djúpavogi í blíðskaparveðri. Forskot var reyndar tekið á sæluna á laugardagskvöldið í Löngubúð þar sem fjöldi manns var saman kominn til að hlusta á sjómenn okkar segja sögur af sjónum. Úr varð prýðisgott kvöld og sögurnar frábærar.

  Sjómannadagskráin var með hefðbundnu sniði; skemmtisigling og kaffi í Sambúð, hvorutveggja vel sótt og höfðu sumir orð á því að þetta hafi verið mesti fjöldi samankominn á Sjómannadegi á Djúpavogi í mörg herrans ár. Það voru einir 8 bátar sem buðu fólki í siglingu og gaman að sjá alla nýju bátana taka þátt.

  Meðfylgjandi myndir eru frá skemmtisiglingunni en undirritaður komst ekki í kaffið í Sambúð, enda drekkur hann sjálfsagt nóg kaffi í vinnunni.

  Við sögðum frá því í gær að nýr björgunarbátur SVD Báru hafi verið vígður og honum gefið nafn á Sjómannadaginn. Hægt er að sjá þá umfjöllun með því að smella hér.

  Myndir frá skemmtisiglingunni má hins vegar sjá með því að smella hér.

  ÓB

  08.06.2010

  Björgunarbáturinn Dröfn vígður

  Eins og greint var frá hér á heimasíðunni fékk Björgunarsveitin Bára nýjan bát á dögunum. Báturinn var vígður og honum gefið nafn á Sjómannadaginn við hátíðlega athöfn.

  Hafdís Reynisdóttir var svo snjöll að festa atburðinn á filmu og færa okkur. Myndbandinu er undirritaður búinn að koma fyrir á vefnum og er hægt að sjá það hér fyrir neðan.

  Við þökkum Hafdísi kærlega fyrir.

  Myndir frá sjómannadeginum koma síðan inn á morgun.

  ÓB

   

   

   

   

   

   

   


  Sigurður Ágúst Jónsson færir Reyni Arnórssyni blómvönd frá Djúpavogshreppi í tilefni dagsins

  07.06.2010