Djúpivogur
A A

Fréttir

Tónskólinn með uppskerutónleika í Djúpavogskirkju

Síðastliðinn miðvikudag þ.e. 12 maí voru uppskerutónleikar Tónskóla Djúpavogs í Djúpavogskirkju. Það var Tónskólastjórinn Jósef Kiss, ásamt konu sinni Andreu sem höfðu veg og vanda að tónleikum þessum en auk þess nutu þau aðstoðar Berglindar Einarsdóttur.  Viðburð þennan má sjá hér meðfylgjandi þar sem undirritaður klippti af handahófi tveggja tíma tónleika niður í þrjú stutt myndskeið.

Engin vafi er á að hér á Djúpavogi er mikið af ungu efnilegu tónlistarfólki á ferðinni eins og Jósef kom inn á í ávarpi við upphaf tónleikanna. Njótið annars vel og takið viljann fyrir verkið með myndvinnslu þessa.  AS

Byrjið að klikka á efsta myndbandið og svo næsta fyrir neðan svo þið sjáið myndbandið í réttri röð.

 

 

 

15.05.2010

Einkaþjálfun- Leið að léttara lífi

Eins og fram hefur komið dvelja tveir íþróttaheilsufræðingar á Djúpavogi helgina 14-16. maí. Þetta eru tvær ungar konur, nýútskrifaðar úr Háskóla Íslands með mikinn áhuga á heilsu og heilbrigðum lífstíl.

Nú um helgina bjóða þær upp á einkatíma í tækjasal, sérhannað æfinga æfingaplan og leiðbeiningar af bættu og betra matarræði. Frábært fyrir þá sem hafa áhuga á að koma sér í betra form með heilbrigðum lífstíl og hollri fæðu.

Um er að ræða æfingaplan sem hentar hverjum og einum með fjölbreytni og fagmennsku í fyrirrúmi. Æfingaplanið er ekki eingöngu með æfingum í tækjasalnum, einnig sund, ganga og fleira sem hentar hverjum og einum best.

Upplýsingar um einkatíma gefur Bára á bso1@hi.is og í síma 8495453.

BR

14.05.2010

Fimleikar í ÍÞMD

Mikið líf og fjör var í ÍÞMD í dag en næstu fjóra daga stendur Neisti og foreldrafélög leik- og grunnskólans fyrir fimleikanámskeiði hér í íþróttamiðstöðinni á Djúpavogi.  Fimleikarnir byrjuðu í dag og var þáttaka í stuttu máli frábær og má segja að öll börn bæði á leik- og grunnskólaalri hafi tekið þátt.  Þá var sömuleiðis tími fyrir eldri.  Hér má sjá myndir frá deginum. Það eru tvær stúlkur - leiðbeinendur frá Hornafirði sem verða hér fram á sunnudag með fimleikana. Heimasíðan fagnar þessu frábæra framtaki viðkomandi aðila hér á Djúpavogi sem ber að þakka sérstaklega. AS

 

 

 13.05.2010

Djúpavogshreppur auglýsir / Bann við upprekstri

Eftirtaldir jarðeigendur / ábúendur jarða í Djúpavogshreppi hafa undirritað yfirlýsingu um bann við upprekstri fjár, sé hann á vegum annarra en til þess hafa formlegt leyfi. Gildir bannið bæði um heimalönd og /eða afréttarlönd eftirtalinna jarða:

Melrakkanes
Blábjörg
Múli 1
Múli 2
Múli 3
Hærukollsnes
Rannveigastaðir
Hof
Tunguhlíð
Markúsarsel
Starmýri 1
Starmýri 2
Starmýri 3

 

Yfirlýsingarnar eru varðveittar á skrifstofu Djúpavogshrepps.

13.05.2010

Fimleikar og fjör í fjóra daga á Djúpavogi - Dagskrá

Fimleikanámskeið í Íþróttamiðstöð Djúpavogs sem skiptist í 4 hópa, hver hópur fær u.þ.b 1 klst. á dag í 4 daga.

Í hverjum tíma eru upphitun, skemmtilegar og fjölbreyttar fimleikaæfingar sem henta hverjum aldurshóp og góðar teygjuæfingar.

Ýmis fimleikastökk, gólfæfingar og fimleikadans kynntur fyrir hópunum.

Skemmtilegur og fjölbreyttur fimleikabúnaður, loftdýna, trampólín og fl.

Tveir lærðir íþróttaheilsufræðingar með séráherslu á fimleika koma og kenna.

Einnig bjóða þjálfararnir upp á einkatíma í tækjasal og sérhannað æfinga- og matar program fyrir þá sem hafa áhuga á að koma sér í betra form með heilbrigðum lífstíl og hollri fæðu. Um er að ræða progröm sem henta hverjum og einum með fjölbreytni og fagmennsku í fyrirrúmi.

Upplýsingar um einkatíma gefur Bára á bso1@hi.is og í síma 849-5453.

Nánari upplýsingar um fimleika námskeið á agusta@gustadesign.is eða í síma 8631475.

Allir velkomnir, hvort sem þeir eru búnir að skrá sig eða ekki

 

Dagskrá:

Hópur 1: Börn á leiksskólaaldri (frítt)-
Fimmtudagur 13. og föstudagur 14. Maí kl. 15-15:50
Laugardagur 15. og sunnudagur 16. Maí  kl. 11-11:50
 

Hópur 2:  1-5. Bekkur (frítt)-
Fimmtudagur 13. og föstudagur 14. Maí kl. 16-17:00
Laugardagur 15. og sunnudagur 16. Maí  kl. 12-13:00
 

Hópur 3:  6-10. Bekkur (frítt)-
Fimmtudagur 13. og föstudagur 14. Maí kl. 17-18:00
Laugardagur 15. og sunnudagur 16. Maí  kl. 13-14:00

 
Hópur 4: Fullorðnir (2000 kr.)

Fimmtudagur 13. og föstudagur 14. Maí kl. 18:15-19:30
Laugardagur 15. og sunnudagur 16. Maí  kl. 14:15-15:30

 

Bestu kveðjur og vonumst til að sjá sem flesta

Foreldrafélög leikskólans og grunnskólans og Umf. Neisti

12.05.2010

Frá Samkaup-strax

Gellurnar í Samkaup-strax vildu koma því áleiðis að það er opið hjá þeim á morgun (Uppstigningardag) frá 11:00 - 14:00.

ÓB

12.05.2010

Ratleikur 2010

Sælir foreldrar / forráðamenn

Þrátt fyrir að það líti út fyrir einhverja rigningu á föstudaginn höfum við ákveðið að hafa ratleikinn eins og auglýst hefur verið, klukkan 8:30 í Hálsaskógi.
Nemendur hafa nú allir fengið áheitaumslög með sér heim og þætti okkur vænt um ef þið aðstoðuð þau við að safna áheitum hjá sínum nánustu.  Ekki þarf að heita háum upphæðum, hver króna skiptir máli.
Aðeins eitt foreldri hefur haft samband og boðið fram aðstoð sína á föstudaginn.  Mjög gott væri ef 2-3 í viðbót sæju sér fært að koma og taka þátt í þessu með okkur.  Ekki er um flókin verkefni að ræða, aðeins yfirseta á einni stöð.  
Mikilvægt er að börnin séu í regnfötum og gúmmískóm / stigvélum og með gott nesti.
Boðið verður upp á eitthvað lítilræði í lok ratleiks á föstudaginn.  HDH

Ferðin langa - Ferðasaga frá Ingþóri Sigurðarsyni

Forsaga málsins er sú að í janúar á þessu ári ákvað ég að skella mér á Hammondhátíð á Djúpavogi. Ég átti inni nokkra frídaga frá fyrra ári og ákvað að nota þá í þessa heimsókn. Ég var tímanlega í því og pantaði flug og skráði mig í frí, Ólafía konan mín ákvað að koma með þar sem það hentaði vel út af hennar námi. Flugmiðinn var klár og fríið skrásett.

Eftir því sem tíminn leið bættust fleiri fjölskyldumeðlimir í hópinn sem ætluðu á Hammond og var svo komið að við öll systkinin, foreldrar og góð gusa af ættmennum og vinum ætluðu að koma á hátíðina. Við Olla vorum búin að fá far með Gísla bróður og Tobbu til Djúpavogs, við vildum vera snemma í því og keyra á miðvikudeginum svo að við gætum slappað af og hitt vini og ættingja.

Það er búið að vera mikið að gera í vinnunni hjá mér upp á síðkastið, það kemur fyrir að verklok og verkefni breytast án fyrirvara og það gerðist einmitt núna rétt fyrir Hammondhátíðina. Ég þurfti að fara á olíuborpall og vinna í nokkra daga. Þessi framkvæmd átti ekki að taka langan tíma og ef allt stæðist kæmi ég heim tveimur dögum fyrir brottför til Íslands. Ef að verkið myndi dragast á langinn yrði ég leystur af og nýr maður sendur út.

Daginn eftir að ég kem út á pallinn les ég það í fréttum að það sé byrjað að gjósa í Eyjafjallajökli, og að öllum líkindum yrði flug í Evrópu fyrir einhverri röskun. Það var ekki fyrr en sólahring seinna sem það kom í ljós hversu slæmt ástandið var, það var lokað fyrir allt þyrluflug í Norðursjóinn auk þess sem það var lokað fyrir stóran part af millilandaflugi í Evrópu. Ég hugsaði með mér að þetta myndi nú reddast og ég kæmist heim áður en Hammond myndi byrja.
Dagarnir líða og fréttir um opnun og lokun koma á víxl en þó aðallega lokanir. Ég sit fastur úti í Norðursjó og fæ að heyra það regulega um frá Norðmönnunum að þetta sé mér að kenna og nú komast þeir ekki heim (þó svo að innst inni hafi hlakkað í þeim því að fyrir einn auka dag fá þeir allt að 200.000 kr).

Við áttum pantað flug til Íslands 18. apríl, ég komst af borpallinum 19. apríl og þurfti að mæta í vinnu daginn eftir til að skila af mér verkinu. Um kvöldið var allt flug eðlilegt og við höfðum engar áhyggjur. Við mættum á flugvöllinn eldsnemma morguninn 21. apríl. Við þurftum ekki að bíða lengi áður en við fengum að vita það að fluginu okkar var aflýst, það þýddi að við myndum ekki ná Íslandsfluginu. Við spurðum að því um leið og við bókuðum nýtt flug hvort að við ættum að koma okkur til Oslóar þennan sama dag til að vera örugg. Nei,þess ætti ekki að þurfa, var svarið. Flugsamgöngur eru að verða nokkuð eðlilegar aftur og tókum við því sem góðu og gildu svari.

22. apríl kl. 06:00 vorum við 500 metra frá flugvellinum þegar að við heyrðum í fréttunum að það væri búið að loka flugvellinum í Bergen, við fórum af sjálfsögðu inn í flugstöðina til að athuga málið og það var rétt sem kom fram í útvarpinu, búið að aflýsa fluginu til Osló og þar með var það úr sögunni að komast til Íslands þann daginn. Við brunum heim og sé ég það á Facebook að einn Djúpavogsbúi er strandaglópur á flugvellinum í Bergen. Ég býðst til að sækja hann svo að hann þurfi ekki að hanga úti á flugvelli allan daginn og það þáði hann með þökkum. Þar með var Óskar litli á Bragðavöllum kominn í hópinn.

Til að gera langa sögu stutta fórum við þrisvar út á flugvöll þennan dag til að reyna að koma okkur til Oslóar, skárra að vera þar en hér. Síðasta flugið átti að fara kl 19:15 og vorum við öll bókuð í það, en því var frestað eins og öllu öðru flugi sem við áttum að fara í þennan sama dag. Á meðan við horfðum á skiltin um að SAS væri búið að fresta fór hver flugvélin á eftir annarri frá Norwegian í loftið, greinilega ekki unnið eftir sömu starfsreglum hjá þessum félögum, spurning hvort er réttara.

Við vorum búin að ákveða að koma okkur til Oslóar hvað sem það kostaði, nú var flugið úr sögunni og þá voru tveir möguleikar eftir, lest eða keyra, en um það leyti sem við vorum að skoða þessa möguleika kom tilkynning um að Keflavík yrði mjög trúlega lokað á morgun. Því var ekkert vit í að vera fastur í Osló og ákváðum við að vera heima.
Aðfaranótt 23. apríl, milli kl 2 og 3, fékk ég svo sms frá SAS þar sem þeir sögðu að það væri búið að fresta fluginu til Íslands frá Osló, það var ósköp gott að við fórum ekki af stað til Oslóar því að þá  værum við strandaglópar þar.
Þess má einnig geta að þjónustan hjá SAS hefur verið mjög góð.

Föstudagsmorguninn 23. apríl vaknaði ég svo upp við þrumur og eldingar, kom mér fram úr bælinu og sá þá að allt var orðið hvítt. Það var því ekkert annað í stöðunni en að kveikja upp í arninum og leggjast upp í sófa, þar sem ég settist niður og hripaði þessa ferðasögu.

Hver veit nema að maður komi á næstu Hammondhátíð.

Bestur kveðjur;
Ingþór

Þess ber að geta að Ingþór Sigurðarson komst loks til Íslands föstudaginn 30. apríl, 12 dögum eftir upphaflegan brottfarardag. Síðast þegar undirritaður vissi af honum (þriðjudagskvöldið 11. maí) þá var Ingþór nýlentur í Bergen, sæll og glaður en nokkuð törnaður. Þessi ferð hans Ingþórs stendur því sannarlega undir nafninu „ferðin langa“.

ÓB

12.05.2010

Skráning nemenda á nýju skólaári

Til foreldra / forráðamanna
Nú erum við í grunnskólanum farin að huga að stundatöflugerð fyrir næsta skólaár.  Til þess að það gangi sem best fyrir sig er nauðsynlegt fyrir okkur að fá upplýsingar um allar breytingar á nemendaskráningu fyrir næsta ár.  Því er hér með farið á leit við foreldra / forráðamenn að þeir hafi samband við skólastjóra eigi síðar en 18. maí óski þeir eftir því að skrá barn / börn í, eða úr skólanu.  HDH

Leikskólakennara vantar í Bjarkatúni

Leikskólinn Bjarkatún, Djúpavogi auglýsir eftir leikskólakennurum til starfa. Vegna aukins fjölda þarf einnig að bæta við 75% starfi við það sem nú er. og þarf starfsmaður að geta byrjað 16. ágúst 2010. Þá vantar í afleysingu í 50% stöðu tímabundið vegna fæðingarorlofs frá 1. september 2010 og í 75% stöðu inn á deild frá 16. ágúst 2010.

Samkvæmt lögum nr. 87/2008;2 kafli, 3 gr.

Rétt til að nota starfsheitið leikskólakennari og starfa við leikskóla á vegum opinberra aðila eða aðra hliðstæða skóla hefur sá einn sem til þess hefur leyfi menntamálaráðherra.
    Leyfi til þess að nota starfsheitið leikskólakennari má aðeins veita þeim sem lokið hefur:
    1.    meistaraprófi frá háskóla sem hlotið hefur viðurkenningu ráðherra á grundvelli laga um háskóla, nr. 63/2006, á fræðasviði sem ráðherra viðurkennir til kennslu á leikskólastigi; eða
    2.    öðru námi sem jafngildir meistaraprófi skv. 1. tölul. og ráðherra viðurkennir til kennslu á leikskólastigi.


Upplýsingar er hægt að nálgast hjá leikskólastjóra, Þórdísi í síma 478-8832 eða í tölvupósti, bjarkatun@djupivogur.is

Umsóknum má skila í tölvupósti á bjarkatun@djupivogur.is eða í lokuðu umslagi merktu Leikskólinn á skrifstofu Djúpavogshrepps.    Farið verður með allar umsóknir sem trúnaðarmál.  Umsóknarfrestur er til 31. maí 2010.  Umsóknareyðublöð má finna hér eða á skrifstofu Djúpavogshrepps.

11.05.2010

Síminn enn bilaður á leikskólanum

Síminn á leikskólanum er bilaður en svo virðist vera að símstöð inn í leikskólanum hafi gefið sig og mun það taka einhvern tíma að gera við hana þangað til verður hægt að ná í leikskólann í síma 860-7277.  Einnig er hægt að senda í tölvupósti á bjarkatun@djupivogur.is   

ÞS

DJÚPAVOGSHREPPUR AUGLÝSIR / SUMARVINNA 2010

Djúpavogshreppur auglýsir vinnu fyrir sumarið 2010:


1.    UNGLINGAR

Nemendum í 8., 9. og 10. bekk í Grunnskóla Djúpavogs stendur til boða vinna á vegum sveitarfélagsins sumarið 2010 sem hér greinir:

  8. bekkur: Frá 7. júní til og með 30. júlí:  4 klst. á dag.    Laun skv. kjs. AFLs.
  9. bekkur: Frá 7. júní til og með 30. júlí:  4 klst. á dag.    Laun skv. kjs. AFLs.
10. bekkur: Frá 7. júní til og með 13. ág.:  8 klst. á dag.    Laun skv. kjs. AFLs.

Umsóknarfrestur til 25. maí (umsóknir berist á skrifstofu sveitarfél.)

Einnig verður í boði vinna í hefðbundinni hreinsunarviku fyrir 4. – 7. bekk og mun hún verða auglýst í skólanum.


2.    “STÁLPAÐIR OG STÆÐILEGIR”:            

Djúpavogshreppur auglýsir eftirt. tímabundin sumarstörf til umsóknar:
Auglýst eru allt að 4 störf fyrir 17 ára og eldri við slátt lóða og opinna svæða, hreinsun, snyrtingu o.m.fl. Hluti af störfunum verður við “flokks-stjórn” og skulu áhugasamir taka slíkt fram í umsókn. (Fjöldi flokksstjóra verður ákveðinn, þegar fyrir liggur fjöldi umsækjenda úr Grunnskólanum og úr hópi “stálpaðra og stæðilegra”).  Launakjör skv. kjarasamn. AFLs.

Næstu yfirmenn eru “blómadrottning” og verkstjóri í Þjónustumiðstöð.   

Umsóknarfrestur til 25. maí (umsóknir berist á skrifstofu sveitarfél.)

Æskilegt er að umsækjendur geti hafið störf eigi síðar en í byrjun júní.

Nánari upplýsingar, m. a. um launakjör í síma 478-8288.

 

Sveitarstjóri

10.05.2010

TILKYNNING FRÁ YFIRKJÖRSTJÓRN DJÚPAVOGSHREPPS

Það tilkynnist hér með að þegar framboðsfrestur til sveitarstjórnarkostninga í 29. maí, 2010 rann út á hádegi laugardaginn 8. maí sl. hafði einn framboðslisti, Nýlistinn, borist í hendur kjörstjórar.  Samkvæmt 29. Gr. Laga um kosningar til sveitarstjórna framlengdist því framboðstíminn til hádegis í dag, 10. maí.  Þegar fresturinn rann út í dag hafði enginn annar framboðslisti borist því var ljóst að einungis einn listi væri því í framboði.  Þegar lögboðinn framboðsfrestur rann út kom kjörstjórn í Djúpavogshreppi saman og fór yfir framkominn framboðslista.   Engar athugasemdir voru gerðar varðandi framboðslista Nýlistans og var hann því samþykktur.

Að þessu sögðu og samkvæmt 29. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna: „Nú kemur aðeins einn framboðslisti og skal þá yfirkjörstjórn framlengja framboðsfrest um tvo sólarhringa.  Komi ekki fram nýr framboðslisti áður en þeim fresti lýkur verður framkominn framboðslisti sjálfkjörinn“.

Samkvæmt ofanrituðu er framboðslisti Nýlistans á Djúpavogi því sjálfkjörinn til sveitarstjórnar og verða engar kosningar þann 29. maí nk. í Djúpavogshreppi.

Hér að neðan gefur að líta framboðslista Nýlistans til sveitastjórnar í Djúpavogshreppi 2010.

Magnús Hreinsson
formaður yfirkjörstjórnar í Djúpavogshreppi.

 

Nr. á lista Nafn frambjóðanda Heimilisfang Starfsheiti
1 Andrés Skúlason Borgarlandi 15 Forstöðumaður
2 Bryndís Reynisdóttir Hlíð 13 Ferða-og menningafulltr.
3 Albert Jensson Kápugili Kennari
4 Sóley Dögg Birgisdóttir Hömrum 12 Bókari
5 Sigurður Ágúst Jónsson Borgarlandi 22a Sjómaður
6 Þórdís Sigurðardóttir Borgarlandi 26 Leikskólastjóri
7 Ingibjörg B. Gunnlaugsdóttir Borgarlandi 34 Kennari
8 Jóhann Atli Hafliðason Eiríksstaðir Nemi
9 Irene Meslo Hammersminni 6 Starfsm. Íþróttahúss
10 Elísabet Guðmundsdóttir  Steinum 15 Bókari
Númer á lista Nafn frambjóðanda Heimilisfang Starfsheiti Kennitala (1)Karl (2)Kona
1 Andrés Skúlason Borgarlandi 15 Forstöðumaður 030363-5829 (1)
2 Bryndís Reynisdóttir Hlíð 13 Ferða-og menningafulltr. 060283-4279 (2)
3 Albert Jensson Kápugili Kennari 260767-4379 (1)
4 Sóley Dögg Birgisdóttir Hömrum 12 Bókari 231277-5799 (2)
5 Sigurður Ágúst Jónsson Borgarlandi 22a Sjómaður 130674-3729 (1)
6 Þórdís Sigurðardóttir Borgarlandi 26 Leikskólastjóri 171177-4369 (2)
7 Ingibjörg B. Gunnlaugsdóttir Borgarlandi 34 Kennari 210280-5969 (2)
8 Jóhann Atli Hafliðason Eiríksstaðir Nemi 310392-3919 (1)
9 Irene Melso Hammersminni 6 Starfsm. Íþróttahúss 130163-2119 (2)
10 Elísabet Guðmundsdóttir  Steinum 15 Bókari 051167-3849 (2)
10.05.2010

TILKYNNING TIL ÍBÚA Í DJÚPAVOGSHREPPI

TILKYNNING TIL ÍBÚA Í DJÚPAVOGSHREPPI

ÞEGAR FRAMBOÐSFRESTUR TIL SVEITARSTJÓRNARKOSNINGA RANN ÚT Í DAG, LAUGARDAGINN 8. MAÍ, KL.12:00 HAFÐI BORIST EINN FRAMBOÐSLISTI TIL KJÖRSTJÓRNAR. ÞAR AF LEIÐANDI SAMKV. 29. GREIN LAGA UM KOSNINGAR TIL SVEITARSTJÓRNA FRAMLENGIST FRAMBOÐSFRESTUR Í TVO SÓLARHRINGA.  KOMI EKKI FRAM NÝR FRAMBOÐSLISTI ÁÐUR EN FRESTI LÝKUR VERÐUR FRAMKOMINN FRAMBOÐSLISTI SJÁLFKJÖRINN.

FRESTUR TIL AÐ SKILA INN FRAMBOÐSLISTA RENNUR ÚT KL. 12:00 MÁNUDAGINN 10. MAÍ 2010.

TEKIÐ VERÐUR Á MÓTI FRAMBOÐUM FRÁ KL. 11:00 TIL KL. 12:00 ÞANN 10. MAÍ AÐ MARKARLANDI 2 (LÖGREGLUVARÐSTOFA). 

ÓSKI MENN AÐ SKILA AF SÉR FYRR ER HÆGT AÐ HAFA SAMBAND VIÐ FORMANN KJÖRSTJÓRNAR Í SÍMA 867 7160 EÐA Í HEIMASÍMA 478 8849

08.05.2010

Kökubasar

Undanfarin ár hafa verðandi foreldrar á Djúpavogi þurft að búa við það að geta ekki treyst á þann mikilvæga þátt í mæðraverndinni að fylgjast með hjartslætti fóstursins.

Ástæðan er sú að hjartaómunartækið sem nú er á heilsugæslunni er orðið gamalt og úr sér gengið. Því höfum við ungu mæðurnar hér á staðnum brugðið á það ráð að byrja að safna fyrir nýju tæki svo hægt sé að athuga með hjartslátt ófæddra Djúpavogsbúa.

Að fá nýtt svona tæki er okkur öllum í hag, ekki bara verðandi foreldrum heldur eiga öll þessi ófæddu litlu kríli alla sína aðstandendur hér á staðnum. Viljum við því biðja ykkur um að hjálpa okkur að safna upp í nýtt tæki með því að mæta á kökubasar í Samkaup strax föstudaginn 7. maí milli 16 og 18 þar sem að nokkrar ungar mæður ætla að selja kökur og byrja þannig söfnun fyrir þessu mikilvæga tæki.

Hlökkum til að sjá ykkur

06.05.2010

Bæjarlífið apríl 2010

Í bæjarlífssyrpu aprílmánaðar kennir ýmissa grasa. Þar kennir einnig gangstétta og harmsögu um eina slíka, en eins og með margar sögur, hvort sem það eru harmsögur eða hvað annað, þá enda þær vel eins og sú sem sagt er frá í þessari syrpu.

Það verður þó að fylgja þessari sögu að hún á sér litla stoð í raunveruleikanum og gerðist í raun aldrei, nema að litlu leyti, en góð saga á aldrei að gjalda sannleikans eins og þið vitið.

Því mæli ég með að þið smellið á fyrstu myndina í syrpunni (þar byrjar harmsagan) og lesið síðan mynd fyrir mynd (eins og þið eigið nú reyndar að hafa vit á að gera alltaf).

Syrpuna má skoða með því að smella hér.

Texti: ÓB
Myndir: ÓB / AS / BR

06.05.2010

Heimsókn til Jóns Friðriks

Nemendur 3. - 5. bekkjar fóru, ásamt Gesti, umsjónarkennara, í heimsókn til Jóns Friðriks í morgun.  Tilgangurinn var að skoða steinasafn Jóns og verkstæði en þar er hann að vinna að ótrúlegustu hlutum.  Kynningin var hluti af grenndarnámi bekkjarins og má með sanni segja að Jón búi yfir ótrúlega mörgum fallegum hlutum sem hann hefur safnað að sér og er að vinna ýmsar gersemar úr.  Grunnskólinn vill þakka Jóni kærlega fyrir að taka svona vel á móti nemendunum.  Myndir eru hér.  HDH

Námshestar í maí

Námshestaverðlaun fyrir aprílmánuð voru afhent í gær.  Tveir kennarar fóru inn í Hálsaskóg, ásamt vöskum hópi nemenda.  Þar var hópnum skipt upp í þrjú lið; gula liðið, bláa liðið og bleika liðið.  Síðan gengu liðin í fylkingu inn í Aðalheiðarlund þar sem beðið var frekari fyrirmæla.  Annar kennarinn beið átekta og þegar allir voru komnir í hvarf faldi hann dýrindis fjársjóð milli trjánna.  Þegar því var lokið kepptust liðin við að finna fjársjóðinn og koma honum á ákveðinn stað í Aðalheiðarlundinum. 
Okkur tókst að fara í þrjá leiki og var ferðin á allan hátt mjög skemmtileg.  Nemendur skemmtu sér hið besta og má sjá á myndunum hér að mikil keppni var stundum um að komast heilu og höldnu með fjársjóðinn á áfangastað.  Að keppni lokinni fengum við okkur kex og safa og nutum veðurblíðunnar og þessa yndislega svæðis sem Hálsaskógur er.  HDH

Listasmíði

Nemendur í 8.-10. bekk vinna að ýmsum verkefnum í smíðatímum.  Í gær kom smíðakennarinn með þessa fallegu bréfahnífa sem þrír drengir eiga heiðurinn af.  HDH

Skapandi framtíð - málþing

Spennandi málþing um mikilvægi menningar og menntunar sem haldið verður á Egilsstöðum 12. maí nk.

Smellið hér til þess að sjá dagskrá málþingsins

BR

05.05.2010

Fimleikanámskeið á Djúpavogi

Fyrirhugað er að halda fjögurra daga fimleikanámskeið á Djúpavogi fimmtudaginn 13. maí -  sunnudagsins  16. maí, ef næg þátttaka fæst.

Námskeiðin eru aldursskipt: Börn á leiksskóla aldri, börn í grunnskóla ( skiptist í eldri og yngri) og fullorðnir.

Hver hópur fær að minnsta kosti 1 klst. á dag í 4 daga.

Tveir lærðir fimleikaþjálfarar koma og kenna, skemmtilegur og fjölbreyttur fimleikabúnaður fenginn að láni frá Hornafirði.

Ókeypis fyrir börnin en 2000 kr fyrir fullorðna

Skráning fyrir föstudaginn 7. maí kl 19:00

Skráningar skulu sendar á agusta@gustadesign.is eða í síma 863 1475.

Bestu kveðjur,

Foreldrafélög leikskólans, foreldrafélag grunnskólans og Umf. Neisti

04.05.2010

Fjöruferð 3. - 5. bekkur

3. - 5. bekkur nýttu góða veðrið sl. föstudag til að fara í fjöruferð.  Við gengum sem leið lá út á Hvítasand og grömsuðum í fjörunum á leiðinni.  Horfðum eftir fuglum og sáum margt áhugavert.
Úti á Hvítasandi fundum við margt skemmtiegt og þar borðuðum við einnig nestið (í Selhaus).  Eins og alltaf í svona ferðum var tíminn of naumur og þurftum við því að drífa okkur heim.  Allar skeljarnar sem við fundum bíða frekari greiningar en við stefnum að því að fara aftur í fjöruferð næsta föstudag.  Myndir eru hér.  HDh

Heimsókn frá Skaftfelli

Sl. þriðjudag fengum við góða heimsókn frá Skaftfelli, menningarmiðstöð á Seyðisfirði.  Um var að ræða kennsluferkefni þar sem ennaranir fóru með nemendunum í einfaldar æfingar þar sem ferli hugmyndavinnu var rannsakað og nemendum voru kynntar mismunandir aðferðir til skapandi nálgunar við hversdagsleg viðfangsefni. Námskeiðinu var ætlað að víkka sjóndeildarhring nemendanna og auka á fagurfræðilegt læsi þeirra auk þess að gera þau færari um frumlega nálgun og úrlausnir.

Tveir kennarar komu í skólann og unnu með nemendum 8. - 10. bekkjar í fjórar kennslustundir.  Unnið var með mjólkurfernur og sköpuðu nemendur mörg skemmtileg listaverk á ótrúlega stuttum tíma. 

Námskeiðið er hluti af fræðsluverkefnaröð Skaftfells – miðstöðvar myndlistar á Austurlandi og stendur öllum grunnskólunum á Austurlandi til boða þeim að kostnaðarlausu.

Við viljum þakka þeim Seyðfirðingum kærlega fyrir frábært framtak og hlökkum til að hitta þau á næsta ári.  Myndir eru hér.  HDH

 

Heimsókn í Vísi

Nemendur 1. og 2. bekkjar, fóru ásamt umsjónarkennara í heimsókn í Vísi í síðustu viku.  Eins og alltaf var mjög vel tekið á móti börnunum og fengu þau góðan rúnt um húsin í leiðsögn Reynis Arnórssonar.  Myndir eru hér.  HDH

Ásta Birna á góðu skriði í Þýskalandi

Við höfum hér áður flutt fréttir af afrekum Ástu Birnu Magnúsdóttur Djúpavogsbúa í golfinu en nú stundar hún nám í Þýskalandi ásamt því að æfa íþróttina.  Ásta er auðvitað þegar farin að láta að sér kveða eins og hennar var von og vísa og má sjá umfjöllun um hana á www.igolf.is

Við sendum Ástu Birnu að sjálfsögðu baráttukveðjur yfir hafið. Greinina um hana má sjá með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan.

www.igolf.is/?p=frettir&frett=1363&bls=3   

AS

03.05.2010