Djúpivogur
A A

Fréttir

Frá opnu húsi leikskólans Bjarkatúns

Þann 19. maí sl. var leikskólinn Bjarkatún með opið hús þar sem verk barnanna úr vetrarstarfinu voru til sýnis auk þess voru sýndar myndbandsupptökur úr leikskólastarfi og tónlistarstarfi barnanna hjá Andreu.  Verkefni barnanna voru fjölbreytt að vanda en þar mátti sjá gluggalistaverk, vaxmyndir, batikmyndir, fiðrildi, teikningar og klippimyndir úr Fittý.  Ljósmyndir úr starfi vetrarins voru til sýnis auk ljósmyndasyrpa úr sérstökum ferðum eins og 0. bekkjarstarfinu og fuglskoðunarferð Kríudeildar en börnin höfðu farið í fuglaskoðunarferð og bjuggu svo til hreiður með eggjum í eftir ferðina.  Ánægjulegt var hvað opna húsið okkar er alltaf vel sótt en hátt í 70 manns komu.  Sjá má myndir af opnu húsi hér og í myndasafni leikskólans hér til hliðar. 

ÞS

Björgunarsveitin Bára fær nýjan bát

Nýr og vel út búinn björgunarbátur bættist við í safn Björgunarsveitarinnar Báru á Djúpavogi í dag. Báturinn kom frá Neskaupstað þar sem hann hafði verið áður í notkun og er í góðu standi.  Við óskum Björgunarsveitinni okkar að sjálfsögðu til hamingju með þennan kraftmikla og flotta bát.  AS

Sjá myndskeið sem unnið var að þessu tilefni í dag við komu bátsins.

 

 

 

 

 

 

 

30.05.2010

Evróvision - Djúpavogsbúar spá í úrslitin

Það hefur varla farið framhjá neinum að Söngvakeppni Evrópskra Sjónvarpsstöða fer fram á laugardaginn. Hér á Djúpavogi fylgjast íbúar spenntir með og við báðum nokkra þeirra um að spá fyrir um það í hvaða sæti íslenska lagið lendir.

BR

 

 

 

 

 

 

Sveitarstjórinn er bjartsýnn á spáir okkur 4. sæti

Ólafur vill spá okkur 7. sætinu.

Hafliði H. Hafliðason framkvæmdarstjóri Þróunarfélags Austurlands spáir okkur 4. sæti en Andrés er ekki alveg jafn bjartsýnn og giskar á 8. sætið.

Guðjón þurfti að hugsa sig aðeins um áður en hann ákvað að giska á 7. sætið

Hlíf ætlar að vera bjartsýn fyrir Íslands hönd og giskar á 3. sætið

Sigurður Ágúst ætlar okkur 16. sætið, en það sæti þekkja Íslendingar vel

Berglind spáir í 9. sætið

Kristrún er sammála sveitarstjóranum með 4. sætið

Á 16. sætið stefnir Stjáni. Kokhraustur.

Jónína segir að við lendum í neðsta sæti. Við vitum náttúrulega öll að það gerist ekki. Eða hvað?

29.05.2010

Gjöf frá foreldrafélaginu

Á dögunum barst skólanum góð gjöf frá foreldrafélagi skólans.  Um var að ræða glerslípivél sem kemur til með að nýtast mjög vel í glervinnslu á næstu árum.  Foreldrafélaginu eru hér með færðar bestu þakkir fyrir.  Á myndinni má sjá nokkra nemendur með vélina fyrir framan sig.  HDH

Nýlistinn auglýsir

Hér má lesa um helstu áherslur listans á komandi kjörtímabili en Nýlistinn er eini listinn í framboði að þessu sinni og því sjálfkjörinn.

Smellið hér til þess að sjá áherslur Nýlistans

Nýlistinn vill vekja athygli á því að íbúum er boðið í kosningakaffi í Zion - gamla leikskólanum en þar verður opið síðasta daginn á morgun frá kl. 16:00-20:00 þ.e. laugardaginn 29. maí.

Allir velkomnir, heitt á könnunni og meðlæti.      

Nýlistinn

 

Frá v. Irene Meslo - Bryndís Reynisdóttir - Jóhann Atli Hafliðason - Albert Jensson - Sigurður Ágúst Jónsson Andrés Skúlason - Sóley Dögg Birgisdóttir - Ingibjörg Bára Gunnlaugsdóttir - Elísabet Guðmundsdóttir og Þórdís Sigurðardóttir.

 

28.05.2010

Ágústa Arnardóttir fær hvatningarverðlaun TAK

Á aðalfundi TAK (Tengslanet Austfirskra Kvenna) voru hvatningarverðlaun félagsins afhent í fjórða sinn. Verðlaunin eru veitt konu á Austurlandi sem talin er hafa sýnt frumkvæði og áræðni í atvinnulífi, menningu og samfélagi. Að þessu sinni var það Ágústa okkar Arnardóttir sem fékk verðlaunin fyrir hönnunarfyrirtæki sitt Arfleifð. 

Heimasíðan vill óska Ágústu sérstaklega til hamingju með þessa frábæru viðurkenningu.

Af þessu tilefni skellti undirrituð sér í heimsókn til Ágústu á vinnustofu hennar og smellti af nokkrum myndum sem sjá má hér fyrir neðan.

 

Ágústa "smellti" sér í eitt dress í tilefni myndatökunnar.

 

Hluti af því sem Ágústa er að framleiða þessa dagana.

BR

28.05.2010

Djúpavogshreppur auglýsir / Félagsleg íbúð, laus til umsóknar

Djúpavogshreppur auglýsir íbúðina í Borgarlandi 38 til umsóknar.

Staðsetning: Borgarland 38

Byggð: 1990

Herbergi: 3

Stærð: 109,6m2

Laus (u.þ.b.): Í byrjun júlí 2010

   
Umsóknarfrestur er til kl. 12:00, þriðjudaginn 15. júní 2010.

Upplýsingar og eyðublöð fást á skrifstofu Djúpavogshrepps.
Eyðublöð fást einnig á heimasíðu Djúpavogshrepps, www.djupivogur.is

 

Sveitarstjóri

28.05.2010

Sveitarstjórn: Fundargerð 27.05.2010

Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.

28.05.2010

Kosningavaka í Löngubúð

Laugardaginn 29. maí verður mikið um að vera í Löngubúð.

Smellið hér til þess að sjá auglýsinguna stóra.

27.05.2010

Skólaslit

Skólaslit Grunnskóla Djúpavogs, ásamt útskrift elstu nemenda úr leikskólanum Bjarkatúni fara fram í Djúpavogskirkju, laugardaginn 29. mai klukkan 11:00. 
Að athöfn lokinni verður kaffi í boði foreldrafélags grunnskólans og Djúpavogshrepps, í safnaðarheimilinu.  HDH

Björgunarsveitin Bára auglýsir

Kæru konur og þeir strákar sem kunna að baka !

Ný styttist í sjómannadaginn. Til þess að viðhalda hinni árlegu hefð okkar Bj.sv.Báru að halda sjómannadagskaffi, leitum við eftir sjálfboðaliðum til þess að baka.

Þeir sem vilja styrkja okkur í þessu verkefni hafi samband við Kristborg Ástu í síma 862-1667 eða 478 8160 fyrir mánudaginn 31. maí.

Björgunarsveitin Bára

BR

27.05.2010

Kökubasar

Kæru íbúar Djúpavogshrepps og aðrir þeir sem styrktu okkur við fjáröflun til kaupa á hjartaómunartæki, sem til notkunar er fyrir konur í mæðraeftirliti.

Innilegar þakkir fyrir þátttöku í síðasta kökubasar. Þar safnaðist fyrir helming þess upphæðar sem tækið kostar.

Ætlum við því að hafa annan kökubasar föstudaginn 28. maí frá kl. 16:00 - 18:00 í Samkaup strax Djúpavogi.

Gaman væri ef þátttaka yrði söm og síðast því þá væri takmarki okkar náð.

Hlökkum til að sjá ykkur.

27.05.2010

Sveitarstjórn - Fundarboð 27.05.2010

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps:  Fundarboð  27.05.2010

Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps fimmtud. 27. maí 2010 kl. 17:00. Fundarstaður: Geysir.

Dagskrá:


1.    Ársreikningur Djúpavogshrepps 2009, síðari umræða.

a)    Skýrsla skoðunarmanna Djúpavogshrepps dags. 28. apríl 2010.

2.    Önnur fjárhagsleg málefni

a)    Hluthafafundur í Kvennasmiðjunni ehf. 6. maí 2010.
b)    Stjórnarfundur í Kvennasmiðjunni ehf mánudaginn 10. maí.
c)    Upplýsingar varðandi gatnaframkvæmdir.
d)    Ársreikningur Nordic Factory 2009.
e)    H2OWATN ehf, staða „vatnsverkefnisins“.

3.    Erindi og bréf.

a)    Orkustofnun dags. 17. maí 2010.
b)    SSA dags. 4. maí 2010. Ýmis gögn vegna aukaaðalfundar SSA.

4.    Fundargerðir.

a)    SKN 17. maí 2010.

5.    Skýrsla sveitarstjóra.


Djúpavogi 25. maí 2010;

Sveitarstjóri

26.05.2010

Þróunarfélag Austurlands með viðveru á Djúpavogi

Þróunarfélag Austurlands veitir einstaklingu og fyrirtækjum aðstoð við þróun á viðskiptahugmynd.

Félagið er með viðtalstíma á Djúpavogi fimmtudaginn 27.maí n.k. Hægt er að bóka viðtalstíma í síma 471-2545 og með því að senda tölvupóst á netfangið haflidi@austur.is

BR

26.05.2010

Hammondhátíð Djúpavogs í máli og myndum

Eins og flestir vita hefur heimasíða Djúpavogshrepps gert Hammondhátíð Djúpavogs góð skil í gegnum tíðina með umfjöllunum og myndum. Einhverra hluta vegna hefur þessum skemmtilegu heimildum aldrei verið fundinn almennilegur staður innan heimasíðunnar. Nú hefur verið ráðin bót á því og allt heila klabbið er aðgengilegt á sama stað, sundurliðað eftir árum.

Þar má m.a. finna myndir frá fyrstu Hammondhátíðinni, sem aldrei hafa birst áður á heimasíðunni.

Lesendur eru því hvattir til að skoða efnið í heild og kynna sér eða rifja upp sögu þessarar frábæru hátíðar.

Samantektina má finna hér til hliðar, undir Menning - Hammondhátíð.

ÓB

25.05.2010

Heimsókn í Bragðavelli

Í gær bauð Þórunnborg nemendum 1. og 2. bekkjar heim í Bragðavelli.  Með þeim í för var Guðný, sérlegur aðstoðarmaður hópsins!!! 
Nemendur og kennarar gerðu margt skemmtilegt í ferðinni.  Þau skoðuðu hlaðna grjótgarðinn, heimsóttu fjárhúsin, fóru í fjársjóðsleit í garðinum, busluðu í tjörninni, fóru í leiki og fengu svo pönnukökur, ávexti og grænmeti að borða.
Myndir af þessari skemmtilegu heimsókn má finna hér.  HDH

Fótboltaleikur

5. flokkur Neista tekur á móti Hetti, föstudaginn 21. maí kl. 17:00 á Djúpavogsvelli.

Komum og styðjum strákana.


ÁFRAM NEISTI

20.05.2010

Listasmiðir í skólanum

Þrjár ungar stúlkur í 8. og 9. hafa nú nýlokið við gerð afar fallegra glerlampa í smíðatímum í vetur.  Þær unnu lampana alveg frá grunni og enduðu á því að setja rafmagnið á nú í vikunni.  Ljóst er að þarna eru framtíðar listamenn á ferð. 

HDH

 

 

 

 

 

 

 

Djúpavogshreppur auglýsir / Garðlönd

Nú er búið að tæta upp kartöflugarðana neðan við Grænuhraun.

Gert er ráð fyrir að þeir sem voru með svæði í fyrra, haldi þeim í sumar. Vilji þeir það hins vegar ekki eru þeir beðnir um að tilkynna það á skrifstofu Djúpavogshrepps, í síma 478-8288 eða á netfangið djupivogur@djupivogur.is

Aðrir áhugasamir hafa frest til mánudagsins 31. maí til að sækja um svæði. Þeir geta gert það á sama hátt og að ofan er greint og eru beðnir um að gefa upp þá fermetrastærð sem þeir óska.

Sveitarstjóri

19.05.2010

Opið hús

Við bjóðum ykkur að koma á opna húsið okkar miðvikudaginn 19. maí milli kl. 17:00-19:00.  Þar verður til sýnis verk úr vetrarstarfinu okkar og því tilvalið að kíkja við og sjá hvað börnin á leikskólanum hafa verið að gera í vetur. 

 

Allir velkomnir

 

Börn og starfsfólk Bjarkatúns

Ratleikur fyrir UNICEF

Ratleikur grunnskólans fór fram sl. föstudag.  Hann var hefðbundinn að mörgu leyti en þó brugðum við út af vananum á fleiri en einn hátt.
Ratleikurinn fór fram í Hálsaskógi og er það í fyrsta sinn sem hann er haldinn þar.  Það vakti almenna lukku og er nokkuð ljóst að við eigum eftir að fá að fara aftur þangað.  Það sem var einnig óvenjulegt að þessu sinni var að við fengum nokkra foreldra og eina ömmu í lið með okkur til að aðstoða og mæltist það mjög vel fyrir.  Þeim eru hér með færðar hinar bestu þakkir fyrir.
Síðast en ekki síst þá brugðum við út af vananum með því að vera með áheitasöfnun fyrir UNICEF á Íslandi.  Nemendur fengu kynningu á starfsemi UNICEF um allan heim, áður en þeir fóru í ratleikinn, horfðu m.a. á myndbönd frá Afríku og Asíu þar sem þeir voru kynntir fyrir börnum sem hafa sömu þrár og væntingar til lífsins og þau sjálf.  Nemendur fóru síðan heim með áheitaumslög og fengu foreldra og nánustu ættingja til að heita á sig.

Ratleikurinn fór fram í logni og rigningu í Hálsaskógi, eins og áður kom fram, en við létum það nú ekki á okkur fá.  Nemendum var skipt upp í 6 lið og þurfti hvert lið að fara á 10 mismunandi stöðvar og leysa margvíslegar þrautir.  Sem dæmi má nefna:  Steinalyftur, brúarhlaup, örnefnaspurningar, pokahlaup með kurl, tröppuhlaup, gestaþraut, fuglaspurningar, trjáspurningar o.m.fl.  Auk þess þurftu þeir að safna munum úr skógræktinni til að undirbúa sig fyrir síðustu þrautina, sem var gerð listaverks úr efniviði skógarins. 

Þegar allir hóparnir höfðu lokið við þrautirnar söfnuðumst við saman í Aðalheiðarlundi.  Þar fengu alllir hressingu, kókómjólk og kex og síðan tóku nemendur til við að útbúa listaverkið sitt.  Keppnin var jöfn og spennandi og voru það FURURNAR sem stóðu uppi sem sigurvegarar.  Þær fá að lauum ísveislu í Við Voginn.

Ekki er enn komið í ljós hversu miklu við náðum að safna þar sem um helmingur nemenda á eftir að skila inn umslögunum, en vonandi verður það dágóð upphæð.  Upplýsingar þess efnis verða settar inn á heimasíðuna þegar öll umslögin eru komin í hús.

Myndir af ratleiknum má finna hér.  HDH

Fuglalífið í algleymingi

Eitt af því athygliverðasta hér í nánasta umhverfi okkar á Djúpavogi er hið fjölskrúðuga fuglalíf sem hér þrífst og dafnar að öllu jöfnu við bæjardyrnar hjá okkur.  Við vötnin á Búlandsnesi er fuglalífið nú um stundir í algleymingi, allir hinir árvissu gestir okkar eru mættir og eru ýmist byrjaðir í varpi eða eru að vinna við hreiðurgerð. 

Í meðfylgjandi myndskeiði sem tekið var í gær við Fýluvoginn má sjá flórgoða á hreiðri en flórgoðinn gerir sér gjarnan fljótandi hreiður í sefi.  Oftast velur hann sér írautt sef til að dyljast betur og sannarlega tekst honum vel til í þessu tilviki í þeim efnum.  Sjá annars hér myndskeið í bland við hefðbundnar ljósmyndir sem undirritaður hefur tekið við Fýluvoginn á undanförnum árum.  Að lokum eru íbúar sem og gestir eindregið hvattir til að upplifa og njóta fuglalífsins hér við vötnin í nágrenni bæjarins.

Andrés Skúlason

17.05.2010

Síminn kominn í lag á leikskólanum

Nú er síminn kominn í lag á leikskólanum

ÞS

Neisti auglýsir

Neisti hefur til sölu stuttbuxur, hettupeysur, og regn/vindbuxur.

Tekið er við pöntunum í íþróttamiðstöðinni í dag milli kl. 18-19 og einnig næsta mánudag 17. maí á sama tíma.
 
Stuttbuxur 2.500kr.
Allar stærðir
 
Barna hettupeysa 8.000kr.
Stærðir.116-128-140-152-164

Fullorðins hettupeysa 10.000kr.
Stærðir S-XXL

Vind / regnbuxur 5.000kr.
Stærðir 116-XXL

BR

17.05.2010

Klörubúð auglýsir

Kæru Djúpavogsbúar

Þar sem Klörubúð er að hætta þá verða afsláttardagar út alla vikuna.

Síðasti opnunardagurinn verður föstudaginn 21. maí 2010

Opið verður sem hér segir:

Mán: 14:00-17:00
Þri: 14-18, Miðv: 14:00-18:00, Fim: 14:00-18:00, Fös:14:00-18:00

Klörubúð

478-8100/897-0509

BR

17.05.2010

Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins

Von er á fyrsta skemmtiferðaskipi sumarsins til Djúpavogs þriðjudaginn 18. maí næstkomandi. Skipið heitir National Geographic Explorer og er lítið rannsóknarskip með um 150 farþega.

Reiknað er með því að skipið komi til Djúpavogs kl.07:00 og fari héðan kl.18:00

Ferða -og menningarmálafulltrúi Djúpavogshrepps

17.05.2010

Fimleikadögum lauk í dag

Í dag lauk fimleikadögum í Íþróttamiðstöðinni og eins og sjá má hér á myndskeiði er búið að vera mikið fjör síðustu fjóra daga.

Hér ber að þakka öllum sem stóðu að þessum viðburði í Íþróttamiðstöðinni og sömuleiðis fimleikadrottningunum frá Hornafirði sem stóðu sig frábærlega í að halda uppi stuðinu. AS 

 

 

 

 

 

16.05.2010