Djúpivogur
A A

Fréttir

Vinnudagur Neista

Jæja, þá er komið að því.

Sunnudaginn 2. maí ætlum við að taka til hendinni í Blánni og eru allir sem vettlingi geta valdið beðnir um að mæta kl. 11:00 og hjálpa okkur að undirbúa svæðið fyrir sumarið.
 
Ýmislegt er á verkefnaskránni okkar og það sem okkur langar að koma i verk á sunnudaginn er að klippa trén, setja skít á þau, klippa niður græðlinga og gróðursetja, standsetja mörkin og taka stökkgryfjuna í gegn.
 
Hvort þetta hefst allt á sunnudaginn er óvíst en margar hendur vinna létt verk.
 
Sjáumst,
Stjórn Umf. Neista

30.04.2010

Borgarafundur 30. apríl - dagskrá

BORGARAFUNDUR 30. APRÍL 2010

Fundurinn hefst kl.18:00

 

DAGSKRÁ:                        


1.    Fundarsetning


2.    Fundarstjóri tekur til starfa    

3.    Yfirlit v/ ýmissa málaflokka (framsögur og umræður)
    
        Ferða- og menningarmál:   
        Albert Jensson form. ferða- og menningarmálanefndar
    
        Starf ferða- og menningarmálafulltrúa:
        Bryndís Reynisdóttir ferða- og menningarmálafulltrúi
        
        Litið yfir farinn veg - verkefni dagsins í máli og myndum:       
        Andrés Skúlason, oddviti og form. SBU


4.    Fjármál    
         a)    Ársreikningur 2009
         b)    Framkvæmdir o.fl. 2010
         c)    Þriggja ára áætlun 2011 - 2013
    
        Bj. Hafþór Guðmundsson, sveitarstjóri
        
5.     Önnur mál
        Fyrirspurnir / umræður

6.     Fundarslit

 

BR

30.04.2010

Að lokinni 5. Hammondhátíð Djúpavogs

Eftifarandi bréf barst okkur frá Stefáni Bragasyni á Egilsstöðum sem er dyggur aðdáandi Hammondhátíðar:

Það verður að teljast frábært framtak hjá ekki fjölmennara samfélagi en er í Djúpavogshreppi, að hafa nú í 5 ár haldið úti öflugri tónlistarhátíð sem staðið hefur í 3 - 4 daga hvert sinn. Frumkvöðlinum Svavari Sigurðssyni, í félagi við Dóra Braga og fleiri,  hefur  tekist að fá til liðs við sig marga helstu blúsara og tónlistarmenn landsins og alltaf er boðið upp á flott atriði.  Einnig er mikilvægt að tónlistarfólk af Austurlandi hefur þarna fengið tækifæri að stíga á stokk og blanda geði og tónum við “sérfræðingana að sunnan”. Heimamenn hafa líka verið duglegir að koma fram og spila og hafa oftar en ekki haldið uppi fjörinu fyrsta kvöldið í Hammond. Þetta er flott tækifæri fyrir áhugasama spilara til að sýna sig og sanna og auka færni og metnað í tónlistarflutningi.

Svona hátíð verður seint haldin nema með samstilltu átaki margra  og mikilli sjálfboðavinnu fleiri eða færri áhugasamra Djúpavogsbúa.  Það þarf ótrúlega útsjónarsemi til að láta enda ná saman fjárhagslega, því ekki kostar svo lítið að flytja tónlistarfólkið á staðinn, greiða því umsamin laun, auk þess að hýsa það og fæða.  Þetta hefur tekist í góðri samvinnu við Þóri vert á Hótel Framtíð og fleira gott fólk.

Hammondhátíðin er líka einn þáttur í öflugu markaðsstarfi í menningar- og ferðamálum, sem vel er unnið að á Djúpavogi og er að skila sér í fjölgun ferðamanna og ýmsu fleiru spennandi.

Aðsóknin hefur farið batnandi og virðist sem nágrannarnir séu farnir að átta sig á hátíðinni og meta hana að verðleikum. Þó mættu þeir vera enn duglegri að mæta og eiga góðar stundir í Framtíðinni.  Ekki ætti verðið að fæla mikið frá, því passinn fyrir þrjú kvöld kostaði 6.500 krónur, sem er svona ígildi einnar flösku af sterku víni.  Áhrifin af tónlistinni þessi þrjú kvöld eru þó mun ánægjulegri, vara lengur og valda litlum sem engum höfuðverk daginn eftir.

Nú þegar er eflaust farið að hugsa um 6. Hammondhátíðina og horfa til skemmtikrafta sem geta þar þanið þetta virta hljóðfæri. Hammond orgelið hefur verið í forgrunni hátíðarinnar og mikill fengur væri fyrir hana að til væri einn slíkur gæðagripur á staðnum. Nú þarf því að safna liði og fjármunum og reyna að finna gott eintak til að bjóða Hammondsjúkum spilurum að taka til kostanna.

Etv. eigum við eftir að sjá þar frægar popphetjur síðustu aldar eins og Jon Lord, Keith Emerson eða Ken Hensley setjast við hljóðfærið og rifja upp gamla takta. Eða þá James Last Orchestra með Hammond A Go Go, eða hvað það nú hét allt saman. Hver veit !
    
Hvort sem af því verður eða ekki, má alla vega hrópa ferfallt húrra fyrir Djúpavogsbúum fyrir þetta ágæta framtak.

Stefán S. Bragason

--

Stefán er hagmæltur með eindæmum og sendi okkur einnig þessa vísu. Í henni baunar hann miskunnarlaust á blókirnar (alla vega tvær þeirra) sem vinna á skrifstofu Djúpavogshrepps.

Hammond er liðinn og Hafþór því ruslar í moðinu.
Hrappurinn Óli, sem ríflega skálaði í boðinu,
byltist nú veikur – bölvandi tónlistargoðinu,
en Bryndís á myndunum aldeilis fín er í roðinu.

SSB

ÓB

29.04.2010

Þjálfari óskast

Umf. Neisti á Djúpavogi auglýsir eftir þjálfurum / leiðbeinendum í sumar til að sjá um sund, frjálsar íþróttir, leikjatíma, knattspyrnu yngri flokka o.fl. fyrir um 40 börn á staðnum.
 
Einnig kemur til greina að ráða einstakling með menntun eða reynslu í íþróttaþjálfun sem  framkvæmdastjóra sem héldi þá utan um allt sumarstarf Neista. Æskilegt væri að ferilskrá fylgdi umsóknum.
 
Umsóknafrestur er til 1. Maí.
 
Áhugasamir hafi samband við Sóleyju í síma 551-1032 / 849-3441 eða á neisti@djupivogur.is

Stjórn Umf. Neista

28.04.2010

Sveitarstjórn: Fundargerð 27.04.2010

Hægt er að nálgast fundargerðina með því að smella hér.

28.04.2010

BORGARAFUNDUR

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps boðar til opins borgara-fundar um ýmis málefni sveitarfélagsins og íbúa þess.

Fundurinn verður haldinn sem hér greinir:
Staður:  Hótel Framtíð.
Dagur:  Föstud. 30. apríl 2010.
Tími:     Hefst kl. 18:00.


Á fundinum verða kynntir ársreikningar 2009, fjárhags- og framkvæmdaáætlun v/ ársins 2010 og 3ja ára áætlun 2011 – 2013.

Auk þess verða kynntar helztu áherzlur sveitarstjórnar í ýmsum málaflokkum sem hún hefur unnið að á kjörtímabilinu, litið yfir farinn veg og verkefni dagsins.

Sveitarstjóri

28.04.2010

Langabúð auglýsir

Starfsfólk óskast til sumarstarfa í Löngubúð.

Umsóknir berist á iris@djupivogur.is  fyrir 1.maí n.k.
 

Upplýsingar fást hjá Írisi í síma 868-5109

 

BR

26.04.2010

Sveitarstjórn - Fundarboð 27.04.10

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps:  Fundarboð  27. 04. 2010

Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps þriðjud. 27. apríl 2010 kl. 15:00. Fundarstaður: Geysir

Dagskrá:

1.    Ársreikningar Djúpavogshrepps 2009, fyrir umræða.

Á fundinn mætir fulltrúi KPMG, Magnús Jónsson og gerir grein fyrir ársreikningnum.

2.    Önnur fjárhagsleg málefni

a)    Mötuneyti leikskóla.
b)    Endurskoðun á samningi um Skólaskrifstofu Austurlands

3.    Erindi og bréf.

a)    Félag Íslenskra Atvinnuflugmanna 25. mars 2010
b)    Héraðsskjalasafn Austfirðinga 14. apríl 2010
c)    Fóðurverkefnið, bréf Þórarins Lárussonar og fylgigögn. Dags. 16. mars 2010.

4.    Kosningar

a)    Fulltrúi á aðalfund Menningarráðs Austurlands 12. maí 2010.
b)    Aðalfundur Þekkingarnets Austurlands 12. maí 2010.

5.    Staðfesting á dagsetningu borgarafundar.

6.    Skipulags- og byggingarmál.

a)    Samband Íslenskra Sveitarfélaga, minnisblað 20.04.2010.
b)    Skipulagsstofnun dags. 16.03.2010.

7.    Fundargerðir.

a)    LBN 8. apríl 2010.
b)    SKN 29. apríl 2010.
c)    Skólaskrifstofa Austurlands 11. mars 2010.
d)    Aðalfundur Kvennasmiðjunnar 16. apríl 2010.

8.    Skýrsla sveitarstjóra.


Djúpavogi 23. apríl 2010;

Sveitarstjóri

26.04.2010

Hammondhátíð 2010 - Þriðji í Hammond

Það hlýtur að vera erfitt að vera ungur og upprennandi tónlistarmaður og þreyta sína stærstu frumraun fyrir framan fullan sal á Hótel Framtíð, þegar stór hluti gesta er eingöngu kominn til að hlusta á hina rómuðu reggí-hljómsveit, Hjálma. Þegar ofan á bætist að græjurnar sem að menn eru vanir ná ekki að tengjast við magnarakerfið sem menn hljóta að ganga út frá að virki, þá er hætta á að eitthvað fari úr böndunum. Piltarnir í Arachnophobia risu þó strax að nokkru leyti undir þeim væntingum sem við þá voru bundnar og héldu haus þrátt fyrir það bras sem við erum að reyna að lýsa hér að framan. Stærsti gallinn í hljóðblöndun var einfaldlega sá að hið talaða og sungna mál heyrðist allt frá því ekki og yfir í mjög illa. Eftir byrjunarskjálfta komust þeir þó ágætilega í gang og greinilegt að stór hluti salarins var með á nótunum og hvatti þá til dáða. Hljómsveitina skipa þrjú afsprengi úr tónlistarskólanum undir stjórn Svavars, þeir Helgi Týr Tumason, Arnar Jón Guðmundsson og Kjartan Ágúst Jónasson (mynd af honum misfórst og vísum við á myndasafnið frá fyrsta kvöldi). Auk þeirra spilaði með þeim, ýmist á gítar eða bassa félagi þeirra Breki Steinn Mánason. Það dylst engum sem á hlýddi að þarna fara mjög efnilegir tónlistarmenn og framtíðin er svo sannarlega þeirra og ekki einungis á hótelinu á Djúpavogi.

Hjálmar birtust í salardyrum.

Átta vaskir sveinar, þar af þrír blásarar, stigu nú á svið. Allt frá fyrsta bíti var ljóst að hinn heiti salur, eins og Svavar lýsti honum, var kominn til að skemmta sér. Mörg kunnugleg lög hljómsveitarinnar runnu í gegn, hvert af öðru og fljótlega fóru söngvissir menn úti í sal að taka undir, hvattir til þess af Steina söngvara og Samma blásara. Vegna umfjöllunarinnar um annan í Hammond minnum við á að við töldum það kvöld vera hið skemmtilegasta frá upphafi. Því miður fyrir það en sem betur fer fyrir hátíðina þá fór titillinn "skemmtilegasta kvöldið" yfir á kvöldið sem Hjálmar komu á Djúpavog í fyrsta sinn. Það er ekki að ástæðulausu, sem þeir félagar eru vinsælasta hljómsveitin á Íslandi í dag og höfðar hún bæði til hinna ungu sem og þeirra sem enn muna gömlu taktana hjá Victor Silvester og hjómsveit.

Svo það sé á hreinu þá var sett aðsóknarmet laugardagskvöldið 24. apríl 2010. Húsnæði Hótel Framtíðar var sneisafullt - það hefur aldrei gerst áður á hátíðinni þessi fimm ár sem hún hefur verið haldin.

Í fyrra vorum við með væmna samantekt um þátt heimamanna, sem þó átti fullan rétt á sér og á ekki síður vel við í dag. Af þeirri ástæðu þökkum við enn og aftur öllum þeim fjölmörgu heimamönnum sem lögðu hönd á plóg og gerðu Hammondhátíð 2010 að þeim atburði sem hún varð.

Hafi verið talin ástæða til þess strax í fyrra að festa kaup á Hammondorgeli fyrir Hammondbæinn Djúpavog, þá er  svo sannarlega komin pressa á okkur öll núna að taka þátt í því að gera þann draum að veruleika.

Ekki er hægt að láta hjá líða að þakka öllum þeim fyrirtækjum og stofnunum sem styrktu hátíðina með beinum fjárframlögum (sjá heimasíðu Hammondhátíðar). Þá má ekki heldur gleyma öllum þeim sem borguðu sig inn og lögðu þannig sitt af mörkum að efla orðspor hátíðarinnar og gera forsvarsmönnum hennar kleift að leggja úr vör með hátíð númer sex af bjartsýni og kjarki.

Að síðustu þökkum við okkur tveimur fyrir að hafa haldið því til haga sem á hátíðinni gerðist, því það þakka okkur ósköp fáir aðrir. Takk samt.

Myndir frá laugardagskvöldinu má sjá með því að smella hér.

Texti: BHG / ÓB
Myndir: BHG

26.04.2010

Arfleifð í Löngubúð - frábær sýning

Í gær kl 17:00 var einstakur viðburður í Löngubúð, en þar var á ferð Ágústa Arnardóttir hönnuður og listakona á Djúpavogi með sýningu á nýrri fatalínu sem vakti sannarlega verðskuldaða athygli hinna fjölmörgu gesta sem sóttu sýninguna. Ágústa kynnti þessa fata- og fylgihluta línu undir nýju nafni, Arfleifð og má segja að nafnið hafi sannarlega átt vel við sýninguna þar sem hún var í byggðasafninu á lofti Löngubúðar þar sem módelin, stúlkur frá Djúpavogi og Hornafirði klæddar fötum unnum úr leðri og roði úr afurðum af svæðinu, féllu einstaklega vel við umhverfið. Það má þvi segja að Langabúð hafi verið eins og klæðskeraaumuð fyrir viðburð þennan, eða öfugt.

Andrúmsloftið var sannarlega einstakt í Löngubúðinni á sýnungu þessari, því ekki aðeins fengu gestir að líta augum frábært handverk og hönnun Ágústu, heldur og magnaði hún upp stemminguna með því að fá til sín flott tónlistarfólk hér á svæðinu og þar voru á borð bornir ljúfir tónar frá þeim Bertu - Írisi Birgis og Ýmir sem gáfu sýningunni skemmtilegan blæ.   Í veitingasal Löngubúðar var Ágústa einnig með skjámyndasýningu þar sem vörur hennar voru kynntar enn frekar.  Á sama stað var boðið ýmiskonar góðgæti í bland frá heimamönnum og góðum nágrönnum okkar frá Hornafirði.

Í alla staði má segja að Ágústa Arnardóttir hafi með sýningu þessari unnið hug og hjörtu þeirra sem kíktu í Löngubúðina í gær og því er full ástæða hér til að óska Ágústu sérstaklega til hamingju með þennan frábæra viðburð sem var í Löngubúðinni í gær.  Sannarlega væntum við að fá að sjá meira af sýningum af þessu tagi frá Arfleifð á næstu misserum.  Þá skal þess hér getið að lokum að Ágústa hefur opnað nýja heimasíðu, sjá hér http://arfleifd.is/

AS  

 


  Ágústa Arnardóttir með frábæra sýningu  í Löngubúð í gær

 


  Stúlkurnar taka sig vel út innan um muni byggðasafnsins

 


 Líflegt á lofti Löngubúðar


 Guðmunda Bára Emilsdóttir tekur sig vel út á lofti Löngubúðar

 


  Bryndís og Ingibjörg í roði og leðri

 

  Íris - Berta og Ýmir á lofti Löngubúðar með ljúfa tóna

Ágústa Arnardóttir (lengst til hægri í mynd) kampakát eftir sýningu ásamt módelum
klæddum fatnaðiundir vörumerkjalínunni Arfleifð, sjá nánar

25.04.2010

Hammondhátíð 2010 - Annar í Hammond

Það var skipt um landsliðsþjálfara á föstudagskvöldið. Landsliðþjálfari síðustu ára, Halldór Bragason, forfallaðist á síðustu stundu vegna geðvonskunnar í Eyjafjallajökli. Dóri ætlaði að leggja land undir fót (vængi undir sitjanda) frá Austin í Texas til Glasgow, þaðan til Akureyrar - frá Akureyri til Reykjavíkur og frá Reykjavík til Egilsstaða. Þaðan átti að redda honum yfir nýopnaða Öxi, þannig að hann kæmist með hatt sinn og staf á hátíðina eins og auglýst hafði verið.

Þetta ferðaplan gekk einfaldlega ekki upp á endanum og því varð Dóri að sætta sig við að komast ekki á 5 ára festivalið á Djúpavogi, Hammondhátíðina, sem hann á svo mikinn þátt í að hafa komið af stað.

Vegna óvissu um flugsamgöngur hafði verið sett ferðabann á fólkið í 56 riff´s (sjá umfjöllun um fyrsta kvöldið) og voru þau öll reiðubúin að standa vaktina, enda hafði þá þegar komið fram hjá Margréti Guðrúnardóttur að hún gæti alveg hugsað sér að dvelja áfram á Djúpavogi. Nóg um það í bili.

Hornfirðingum vex sífellt fiskur um hrygg, enda þaðan stunduð útgerð í stórum stíl. Hulda Rós og Rökkurbandið héldu á lofti merki tónlistarlífs á Hornafirði með miklum ágætum. Bandið spilaði síðast á Hammondhátíð 2007 og vísum við til umfjöllunar heimasíðunnar um þeirra framlag föstudagskvöldið það ár. Til að gera langa sögu stutta voru ýmsum tónlistarstefnum, þ.á.m. léttum djassi gerð góð skil af fagmennsku og án þess að reynt væri að gera einfalda hluti of flókna. Vissulega nutu þau fulltingis Hr. Hammond, Svavars Sigurðssonar og reyndist hann þeim betri enginn. Þeir Siggi lögga með lipra fingur bakvið hnúajárnin, Bjartmar garðyrkjumaður með kontrol á stóra bassanum sínum og Eymundur trymbill af ættstofni þeirra Meysalinga leystu hlutverk sín af stakri prýði. Hulda Rós er sífellt í sókn sem söngkona og auk þess hefur hún fílinginn í lagi. Hornfirðingarnir reyndust svo sannarlega aufúsugestir.

Víkjum nú aftur að landsliðinu. Hinn nýi (allavega tímabundni) landsliðsþjálfari, Björgvin Gíslason, tefldi fram liðinu frá því á fyrsta kvöldi, sbr. formálann hér á undan. Í hópinn höfðu bæst efnilegasti tónlistarmaður okkar Íslendinga, Þorleifur Gaukur Davíðsson og hinn geðþekki bassaleikari, Róbert Þórhallsson, sem reyndar gerði garðinn frægan á Hammondhátíð 2009. Þorleifur reyndist svo sannarlega Gaukur í horni og er ljóst að þessi lítilláti og hæfileikaríki piltur á að geta náð mjög langt, miðað við þá fjölhæfni sem hann greinilega býr yfir og sýndi svo eftirminnilega í gær, ekki síst á munnhörpuna. Ekki er hægt að bæta miklu við umfjöllun frá fyrsta kvöldi, en þó er ástæða til að leggja áherslu á hve glæsilega hópurinn gerði margt af fingrum fram og án þess að allir hefðu æft saman sem heild. Þar var eigi hlutur Svavars Sigurðssonar sístur og greinilegt að hinir félagarnir kunnu vel að meta framlag hans.

Sérstaka athygli vakti tvíbössunarsamningurinn, sem Þorleifur Guðjónsson og fyrrnefndur Róbert gerðu með sér og kynntu helstu ákvæði hans í nokkrum lögum. Við verðum auk þess að nefna glæsilega framgöngu Margrétar söngkonu og hljómborðsleikara, sem undirstrikaði frábæra frammistöðu fyrsta kvöldsins og virkaði mun öruggari og meira töff og lék og spilaði eins og hún væri á heimavelli, enda hefur hún tekið ástfóstri við staðinn.

Of langt mál væri að telja upp marga hápunkta kvöldsins og því viljum við einfaldlega í orðleysi okkar segja: Þetta var örugglega skemmtilegasta kvöld hammondhátíðar frá upphafi og í hópi þeirra kvölda sem hæst standa í tónlistarlegu tilliti.

Myndir frá kvöldinu má sjá með því að smella hér.

Texti: BHG / ÓB
Myndir: BHG

24.04.2010

Hammondhátíð 2010 - Fyrsti í Hammond

Þá er nú Hammondið komið á sinn stað og fimmta hátíðin gengin í garð.

Í upphafi var (fram)orðið, en það átti eftir að verða en meira en orðið var, því tónleikarnir drógust heldur á langinn.

Litlu strákanir í Friðpíku (Peace Pike) eru í raun ekkert litlir lengur, heldur eru þetta nánast fullvaxta karlmenn, en þó mun síður á þverveginn. Piltarnir fluttu frumsamin lög í bland við þekkta slagara og komust nokkuð vel frá því, en þó var ákveðinn losarabragur á allri framgöngu þeirra miðað við það sem menn vita að í þeim býr. Upp úr stendur þó hve ófeimnir þeir eru að vinna með eigið efni og matreiða það á sinn hátt.

Aroni Daða hefur farið mikið fram í söng og brá hann meira að segja fyrir sig ákveðinni tegund af rímnakveðskap sem meðal yngri kynslóðarinnar er kölluð rapp. Arnar Jón plokkaði kassagítarstrengina af mikilli festu og er fingrafimur með afbrigðum, enda með kjúkur langar og mjóar. Kjartan Ágúst hefur sýnt það að hann er fjölhæfur tónlistarmaður og Hammondorganið, sem varð á vegi hans í gærkvöldi, reyndist honum ekki mikil fyrirstaða, heldur strauk hann því blíðlega og tók undir með hljómagangi gítarleikarans.

56 riff's hófu síðan leik sinn og þá varð ekki aftur snúið.

Hljómsveitina skipa þeir Þorleifur Guðjónsson, Garðar Harðarson, Björgvin Gíslason og Ásgeir Óskarsson.

Um snilli þessara "öldunga" þarf ekki að fara mörgum orðum, enda hafa þeir áratuga reynslu að baki og hafa auk þess allir komið áður á Hammondhátíð og flestir oftar en einu sinni. Það er allavega ljóst að þeim hefur ekkert farið aftur síðan síðast.

Með í för var Margrét Guðrúnardóttir (Ásgeirsdóttir Óskarssonar) og kom hún mörgum á óvart, enda ekki þekkt nafn í tónlistarbransanum. Óhætt er að segja að þar fari ein af efnilegri blússöngkonum landsins, auk þess sem hún var ófeimin við Hammondið. Flutti hún lög úr eigin ranni, allt frá fönkskotnum blúslögum til hugljúfustu ballaða, sem sýna að hún er mjög efnilegur lagahöfundur.

Prógrammið í heild var fjölbreytt; blús, rokk og djass og tók Björgvin hvert heimsklassa gítarsólóið á fætur öðru, svo hrikti í stoðum hótelsins. Sólóin hjá Garðari voru öllu lágstemmdari, enda kemst gítarmagnarinn hans ekki í 11 eins og hjá Björgvini, en Garðar hefur svo sannarlega sýnt gestum Hammondhátíðar í gegnum tíðina að hann er einn albesti blúsari landsins. Eitt af því sem gerði efnisval þeirra félaga áhugavert voru instrumental lög. Túlkun Bjögga á Albatross gáfu ekki eftir tilþrifum Peter Green á sínum tíma. Lagið Europa úr smiðju Santana varð einnig stór rós í hnappagat sólóleikarans og þeirra allra.

Þorleifur heldur ennþá haus þrátt fyrir allan hristinginn og fílar sig greinilega alltaf í botn þegar hann kemst í það að vera hluti af góðri hrynsveit. Hann á mikinn heiður skilinn fyrir að koma saman þessu bandi og er ætíð aufúsugestur hér en þó samt ekki gestur hér um slóðir, þar sem hér á hann slotið Hamraborg, sem bæði er há og fögur.

Geiri er sko enginn Goldfinger, eins og nafni hans en læsir engu að síður fingrum sínum utan um kjuðana og breikar af beztu list, ásamt því að vera taktfastur með afbrigðum. Sönghæfileikar hans koma sífellt meira og meira í ljós á Hammondhátíðum og ekki brást hann aðdáendum sínum í þetta sinn.

Tónleikafélag Djúpavogs sló botninn í dagskrá kvöldsins. Því miður gengu þessi átrúnaðargoð okkar heimamanna í gegnum ýmsar hremmingar, svo sem slitinn bassastreng, skvaldur í salnum og þreytu hjá hluta hans, vegna þess hve tónleikarnir drógust á langinn. Í rauninni má líkja því sem gerðist við ákveðinn anga Murphy's lögmálsins sem myndi þá ganga út á það að teknu tilliti til getu hljómsveitarinnar og þekktra staðreynda um framgöngu hennar, þegar bezt lætur, að "það sem ekki á að geta gerst, gerist samt á versta tíma". Minnug frábærrar frammistöðu hópsins í fyrra vitum við að kvöldið í gær var einfaldlega ekki þeirra bezta, en að sama skapi liggur fyrir að þeirra tími mun koma aftur. Svo það sé á hreinu þá gerði hljómsveitin að sjálfsögðu margt gott og prógammið var metnaðarfullt, en það komst því miður ekki nógu vel til skila.

Myndir frá gærkvöldinu má sjá hér.

Texti:BHG
Myndir: BHG / AS

23.04.2010

Búið að opna Öxi!

Það er skemmst frá því að segja (enda er þetta skemmsta leiðin fyrir þá sem vilja ekki fara lengri leiðir) að vegurinn yfir Öxi hefur verið opnaður.

Til hamingju Austfirðingar og verið öll velkomin á Hammondhátíð!

 

ÓB


23.04.2010

Ljósmyndasýning - Við Voginn

Á dögum Hammondhátíðar er ýmislegt á dagskrá eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni, en einn af viðburðunum er ljósmyndasýning sem að Djúpavogsbúinn Dröfn Freysdóttir stendur fyrir í sal verslunarinnar Við Voginn.
Hér er um að ræða fjölmargar fallegar ljósmyndir m.a. fangaðar úr nánasta umhverfi Djúpavogs þar sem Dröfn veitir bæði hinu stóra sem smáa athygli.  Dröfn hefur næmt auga fyrir hinum ýmsu formum og mótífum og á efalaust eftir að gefa meira af sér á þessu sviði á komandi árum.  AS

 

 

 

 

 

 

 

 

 Dröfn Freysdóttir við ljósmyndir sínar í sal verslunarinnar Við Voginn

 Ljósmyndir Drafnar koma einstaklega vel út í sal verslunarinnar Við Voginn

23.04.2010

Handverk - Hnífasýning Við Voginn

Mikið er um að vera á Djúpavogi þessa dagana í tengslum við Hammondhátðina.  Í dag mátti meðal annars sjá sýningu á handverki Við Voginn en þar voru á ferð feðgarnir og Djúpavogsbúarnir Norvald og Andre Sandö þar sem þeir sýndu hnífa sem þeir hafa unnið í frístundum sínum um nokkurt skeið með góðum árangri. Þessi listasmíð þeirra feðga vakti verðskuldaða athygli gesta og gangandi.  Hnífarnir sem þeir sýndu eru bæði fjölbreyttir að lögum og efnivið, auk þessa vinna þeir hnífaslíðrin sjálfir m.a. úr hreindýraleðri, sjá hér nánar á myndum.  AS

 

 

 

 

 Listamennirnir og feðgarnir Andre og Norvald með hnífasýningu Við Voginn í dag.

  Andre með einn flottann og flugbeittann úr sinni eigin smiðju, Emil Karlsson kíkir á hnífaskápinn hjá Norvald

23.04.2010

Gleðilega Hammondhátíð

Það verður mikið um dýrðir í litla þorpinu okkar næstu daga en Hammondhátíð 2010 hefst í kvöld.

Sannkölluð tónlistarveisla verður í boði næstu þrjú kvöld á Hótel Framtíð en þess á milli geta gestir og gangandi m.a. heimsótt ljósmyndasýningar,  horft á fótboltamót  í íþróttahúsinu, skoðað austfirskt handverk og verið viðstaddir frumsýningu á nýrri fata- og fylgihluta línu frá Arfleifð,heritage from Iceland, í Löngubúð. 

Hér má sjá kynningarblað með upplýsingum um þá viðburði sem eru í boði um helgina

Það má því sannarlega segja að Djúpivogur iði af tónlistar - og menningarlífi næstu dagana.

Góða skemmtun

BR

22.04.2010

Opnun sýningar Ólafs Áka fjallagarps

Í dag kl 18:00 opnaði Ólafur Áki Ragnarsson sýningu í Íþróttamiðstöð Djúpavogs þar sem hann sýnir bæði fjallgöngubúnað og myndir frá ferðum hans á nokkra af hæstu tindum heims sem hann hefur klifið á síðustu árum. 
Í tilefni þessa sagði Ólafur gestum frá ýmsu tengdu ferðum sínum, lýsti búnaði sem nauðsynlegur er til háfjallagöngu og svaraði spurningum gesta um ýmislegt tengt ferðum hans. Ólafur bauð svo gestum upp á drykk og kex svipað því sem hann hafði með í fjallgöngurnar.  Skemmtileg sýning og gott start á viðburðadagskrá í tengslum við Hammondhátíð. Sýning Ólafs stendur yfir til laugardags.  Um leið og Ólafi er hér með þakkað fyrir skemmtilega sýningu eru menn að sjálfsögðu hér með hvattir til að kíkja á þennan viðburð í íþróttamiðstöðinni.
Sjá hér myndir frá sýningunni í dag. AS  

 

 

 

 

 

 


Með exi í hendi innan um ýmsan annan útbúnað til hátindagöngu

 


Oli sýnir Öldu á Fossárdal og Stjána þurrmat sem hann hafði í fjallgöngunum
Farið yfir það helsta sem til þarf til klifurs og háfjallagöngu
Fjallgöngugarpurinn, gestir skoða myndir frá ferðum Ólafs á suma af hæstu tindum heims.

 

21.04.2010

UMF Neisti auglýsir fótboltamót litlu skólanna

Fótboltamót litlu skólanna

Umf. Neisti í samstarfi við Grunnskóla Djúpavogs stendur fyrir fótboltamóti litlu skólanna laugardaginn 24. apríl.  Mótið hefst kl.11 í Íþróttamiðstöð Djúpavogs og stendur fram eftir degi.  Gestir og gangandi eru hvattir til að kíkja við og fylgjast með krökkunum.

UMF Neisti

BR

21.04.2010

Hammondhátíð - Síðasti dagur forsölu

Við minnum á að síðustu forvöð til að kaupa miða á Hammondhátíð í forsölu eru kl. 22:00 í dag, miðvikudag. Eftir það verða miðar seldir við innganginn hvert kvöld.

Þess vegna hvetjum við fólk til að ganga frá kaupum í forsölu og tryggja sér miða á þessa frábæru hátíð.

Á www.djupivogur.is/hammond er hægt kynna sér nánar hvernig kaupa má miða í forsölu.

ÓB

21.04.2010

Flott og frumleg sýning í Löngubúð

Laugardaginn 24.apríl nk. milli kl. 17:00-18:00 mun Ágústa Margrét Arnardóttir frumsýna fatnað og fylgihluti undir nafninu Arfleifð- Heritage from Iceland í Löngubúð.  

Ágústa hannaði áður fylgihluti undir nafninu GUSTA DESIGN en hefur nú aukið vöruúrvalið með fatnaði og nýjum fylgihlutum úr nýjum alíslenskum hráefnum t.d. tagl af hrossi, ull, sem Águsta ýmist þæfir eða prjónar og hreindýrshorn sem Ágústa fær frá JFS-Handverk á Djúpavogi.

Auk þess notar Ágústa fjórar tegundir af skinnum og fjórar tegundir af fiskiroðum, allt unnið eftir hennar séróskum á Íslandi.

Sýningin í Löngubúð verður sett upp sem tískusýning á efri hæð hæð hússins, þar sem glæsilegar fyrirsætur sýna fatnað, fylgihluti og töskur.

Þar munu einnig Ýmir Már Grönvold, Berta Dröfn Ómarsdóttir og Íris Birgisdóttir spila lifandi tónlist.

Á neðri hæð Löngubúðar verður glæsileg sýning á skjávarpa, á öllu kyninngarefni, videokynning og fleira sem grafíski hönnuðurinn Daníel Imsland- www.dimms.is  hefur verið að vinna fyrir Arfleifð.

Einnig verður girnileg kynning og sala á spennandi matvælum sem unnar eru úr svæðistengdum hráefnum, meðal annars frá veiðimönnum, auk fullvinnslu á matvælum, skaffar Ágústu skinnin sem hún notar við framleiðsluna.

Þennan sama dag opnar heimasíðan www.arfleifd.is.

Videokynning http://dimms.tumblr.com/post/506291200/arfleifd

Myndir og fleiri upplýsingar http://www.facebook.com/pages/Arfleifd/109087672458697?v=photos&ref=ts

Ágústa býður að alla hjartanlega velkomna á þessa flottu og frumlegu sýningu.

Myndir má sjá hér fyrir neðan:

Myndina má sjá stóra með því að smella hér

Myndina má sjá stóra með því að smella hér

Myndina má sjá stóra með því að smella hér

Myndina má sjá stóra með því að smella hér

BR

21.04.2010

Opið síðasta dag vetrarins í Löngubúð

Opið verður í Löngubúð í kvöld frá kl. 21:00-23:30.

Tilvalið að sækja Löngubúð heim og kveðja veturinn í góðra vina hópi. 

Langabúð

BR

21.04.2010

Ferðafélag Djúpavogs auglýsir ferð á sumardaginn fyrsta

Á Sumardaginn fyrsta 22. apríl ætlar Ferðafélag Djúpavogs að fara í Melrakkaneshellana.                                       

Helgi Þór Jónsson, sem var mikið á Melrakkanesi þegar hann var ungur, verður leiðsögumaður.            

Mæting Við Voginn kl. 14:00

Takið með ykkur vasaljós.

Allir velkomnir,

Ferðafélag Djúpavogs

BR

21.04.2010

Leikjatími kl 10:00 næsta laugardag / lokað á sumardaginn fyrsta.

Foreldrar athugið, á laugardaginn þann 24 apríl verður leikjatíminn vinsæli sem hefur verið kl 11:00 færður fram til kl 10:00  vegna fótboltamóts á vegum Neista.  Þá skal tekið fram að Íþróttamiðstöðin verður lokuð á fimmtudaginn, sumardaginn fyrsta. AS 

21.04.2010

Ólafur Áki Ragnarsson opnar ljósmyndasýningu

Ólafur Áki Ragnarsson opnar formlega ljósmyndasýningu sína í Íþróttamiðstöð Djúpavogs kl. 18:00 miðvikudaginn 21. apríl. Sýningin verður síðan opin föstudaginn 23. og laugardaginn 24. apríl.

Boðið verður upp á veitingar að hætti háfjallamanna.

ÓB

20.04.2010

Berunes hlýtur verðlaunin Kletturinn 2010

Á aðalfundi Markaðsstofu Austurlands sem haldinn var á Gistiheimilinu á Egilsstöðum þann 17. apríl sl. veitti Markaðsstofa Austurlands þeim aðilum verðlaun sem skarað hafa fram úr á liðnu ári. Við erum stolt að segja frá því að Farfuglaheimilið Berunes hlaut í ár verðlaunin KLETTURINN 2010.

Kletturinn er viðurkenning sem  veitt þeim aðilum sem um árabil hafa staðið sem klettur í framlínu ferðaþjónustu á Austurlandi og með ósérhlífni og eljusemi stuðlað að framgangi og vexti atvinnugreinarinnar.

Ferðaþjónusta er til þess að gera ung atvinnugrein á Íslandi. Hjónin í Berunesi hófu sinn rekstur  árið 1973, árið áður en hringvegurinn opnaði. Uppbyggingin einkenndist af þolinmæði og þrautseigju. Árin liðu og alltaf fjölgaði þeim sem báðust gistingar enda barst orðspor Beruness um víða veröld. Sá orðstír sem fer af staðnum er besta auglýsing sem hugast getur en gestrisni og vingjarnlegt viðmót hjónanna í Berunesi hefur ratað víða.  Árið 2008 fékk Berunes silfursætið á heimslista sem mælir ánægjugesta. Og á síðasta ári var staðurinn í öðru sæti á Evrópulistanum samkvæmt ánægjuvog á internetinu.  Þetta er árangur sem fáir ef nokkrir íslenskir gististaðir geta státað af en grundvallast á eljusemi og gestrisni hjónanna á Berunesi.

Þau hjónin Anna Antoníusdóttir og Ólafur Eggertsson hljóta Klettinn árið 2010 fyrir að reka eitt albesta farfuglaheimili í heimi og fyrir hafa staðið í framlínu ferðaþjónustu í hátt í 40 ár öðrum til fyrirmyndar.

Hér má sjá umfjöllun Markaðsstofu Austurlands og lista yfir fyrri verðlaunahafa og einnig umfjöllun um þann aðila sem hlaut verðlaunin FRUMKVÖÐULINN en í ár féllu verðlaunin í skaut Ferðaþjónustunnar á Skálanesi.

Gaman er að segja frá því að þetta er í annað árið í röð sem ferðaþjónustuaðilar á Djúpavogi hljóta verðlaun á Aðalfundi Markaðsstofu Austurlands en í fyrra fékk verkefnið Birds.is frumkvöðlaverðlaunin.

Við óskum þeim hjónum Ólafi Eggertssyni og Önnu Antoníusdóttur innilega til hamingju með verðlaunin og óskum þeim velfarnaðar á komandi sumri.

BR

19.04.2010

LOKAÐ VERÐUR FYRIR VATNIÐ

Vegna framkvæmda verður lokað fyrir vatnið á miðnætti í kvöld í þeim götum sem eru neðan við (utan við) Geysi (Hótelshæðina). Búast má við að lokunin vari í 2-3 tíma.

Vatnsveita Djúpavogshrepps

19.04.2010

Leikskólinn Bjarkatún auglýsir

LEIKSKÓLINN / Leikskólakennari

 

Leikskólinn Bjarkatún, Djúpavogi auglýsir eftir leikskólakennurum til starfa. Einnig er auglýst er eftir afleysingu í 50% stöðu tímabundið vegna fæðingarorlofs frá 1. september 2010

 

Samkvæmt lögum nr. 87/2008;2 kafli, 3 gr.

Rétt til að nota starfsheitið leikskólakennari og starfa við leikskóla á vegum opinberra aðila eða aðra hliðstæða skóla hefur sá einn sem til þess hefur leyfi menntamálaráðherra.
    Leyfi til þess að nota starfsheitið leikskólakennari má aðeins veita þeim sem lokið hefur:
    1.    meistaraprófi frá háskóla sem hlotið hefur viðurkenningu ráðherra á grundvelli laga um háskóla, nr. 63/2006, á fræðasviði sem ráðherra viðurkennir til kennslu á leikskólastigi; eða
    2.    öðru námi sem jafngildir meistaraprófi skv. 1. tölul. og ráðherra viðurkennir til kennslu á leikskólastigi.

 

 

Upplýsingar er hægt að nálgast hjá leikskólastjóra, Þórdís í síma 478-8832 eða í tölvupósti, bjarkatun@djupivogur.is

 

Umsóknarfrestir er t.o.m. 15. maí 2010.  Umsóknum má skila í tölvupósti á bjarkatun@djupivogur.is eða í lokuðu umslagi merktu Leikskólinn á skrifstofu Djúpavogshrepps.    Farið verður með allar umsóknir sem trúnaðarmál.