Djúpivogur
A A

Fréttir

Skautadagur fjölskyldunnar - myndir

Nú þegar þetta er skrifað er skautadagur fjölskyldunnar í fullum gangi, veður gott, færi eins og best verður á kosið og mætingin alveg frábær. Undirritaður brá sér út á sanda til að taka nokkrar myndir og leiðinni til baka mætti hann a.m.k. fimm bílum, svo enn er fólk að streyma úteftir.

Það er ljóst að þessi snilldarhugmynd hefur heppnast fullkomlega og á UMF Neisti hrós skilið fyrir.

Læt þessar myndir fylgja.

ÓB

 

  

 

28.02.2010

Skautadagur fjölskyldunnar

Nú förum við öll og skautum saman á söndunum!

Hittumst á svellinu við flugvöllinn sunnudaginn 28. feb. kl:13:00. Heitt grill verður á svæðinu, þ.a. fólk getur haft með sér eitthvað gott á grillið !!

Hvetjum alla, unga sem aldna til að mæta og skemmta sér með okkur.

Sjáumst vonandi sem flest;

UMF Neisti

 

 


Skyldum við státa af besta skautasvelli á Íslandi?

26.02.2010

Hammondhátíð Djúpavogs 2010

Djúpavogsbúar, brottfluttir og allir aðrir !

Takið helgina 22. - 24. apríl frá fyrir Hammond hátíð 2010.

Nú er búið að uppfæra heimasíðu hátíðarinnar og setja inn þá tónlistarmenn sem hafa staðfest komu sína á hátíðina. Síðan er í stöðugri uppfærslu og við biðjum alla að fylgjast vel með.

Smellið hér til þess að skoða heimasíðu hátíðarinnar

 

BR

25.02.2010

Námskeið í hleðslu riffilskota

Fyrirhugað er að halda námskeið í hleðslu riffilskota.

8 kest.  - Verð: 15.000 kr.

Á námskeiðinu er farið yfir helstu aðferðir við hleðslu riffilskota, grunnatriði og helstu öryggisreglur.  
Samkvæmt skotvopnalögum er þátttaka í slíku námskeiði forsenda þess að fá leyfi til að hlaða riffilskot og til þess að kaupa efni til endurhleðslu.  

Þátttakendur verða að hafa B skotvopnaréttindi til þátttöku á námskeiðinu og framvísa þeim fyrir námskeið.
Þátttakendur taki með sér öryggisgleraugu á námskeiðið.

Staður og tími: Hornafjörður, Nýheimum 21. mars kl. 09:00-15:00.
Með fyrirvara um endanlegar dagsetningar og þátttöku.

Leiðbeinandi: Jóhann Vilhjálmsson, byssusmiður.

Hægt er að skrá sig á www.tna.is og hjá Nínu í síma 470-8043 og 866-5114 eða nina@tna.is


Greiða þarf 2.000 kr. staðfestingagjald sem verður innheimt með greiðsluseðli.

Hámarks fjöldi þátttakenda er 12.

24.02.2010

Félagsvist

Langabúð auglýsir eftir aðilum eða félagasamtökum til þess að halda félagsvist í Löngubúð.

Áhugasamir hafi samband við Guðný Björgu í síma 699-8354

Langabúð

24.02.2010

Körfubolti á fimmtudögum

Sl. fimmtudaga hafa nokkrir framtakssamir, misjafnlega vel á sig komnir, hist og spilað körfubolta í íþróttahúsinu, með þokkalegum árangri að þeirra sögn. Þeim finnst þó vera heldur fámennt og vildu fá að koma því á framfæri á heimasíðunni að öllum stendur til boða að mæta og taka þátt.

Næst er fyrirhugað að hittast á fimmtudagin kl. 18:00 og vonast þeir til að sjá sem flesta.

ÓB

 

 

 

23.02.2010

Félag eldri borgara auglýsir

Félag eldri borgara auglýsir

Opið hús í Helgafelli fimmtudaginn 25. febrúar kl.14:00.  Vilmundur í Hvarfi kynnir handverk til sjávar og sveita og ýmislegt fleira

Hvetjum alla 60 ára og eldri til þess að mæta.

23.02.2010

Við Voginn auglýsir konudagskaffi

Í tilefni konudagsins verður kaffihlaðborð í Við Voginn sunnudaginn 21. febrúar kl.15:00

Hnallþórur og fleira á boðstólnum.

Verð kr. 1200 fyrir fullorðna og kr. 600 fyrir börn.

Við Voginn

 

Share |
19.02.2010

Þraut í Bóndavörðunni

Skólastjóri vill minna á þraut sem birtist í síðasta tölublaði Bóndavörðunnar.  Mjög fáir hafa skilað inn lausnum.  Fólk hvatt til að senda inn.
HDH

112 dagurinn 2010

Viðbragðsaðilar á Djúpavogi buðu til kaffisamsætis í Sambúð á laugardaginn í tilefni af 112 deginum. Fyrr um daginn höfðu þeir farið á bílum sínum um bæinn með tilheyrandi lúðraþyt eins og venjan er. Veður var sérstaklega gott og vel mætt í Sambúð þar sem gestum var boðið upp á að kynna sér tæki og búnað viðbragðsaðila.

Myndir má sjá með því að smella hér.

Auk mynda má hér fyrir neðan sjá myndband sem Andrés Skúlason tók þegar flotinn keyrði upp Markarlandið.

Texti: ÓB
Myndir: AS/ÓB

 

Share |

 

18.02.2010

Pub quiz í Löngubúð laugardaginn 20.febrúar

Laugardagskvöldið 20. febrúar verður fyrsta "pub quiz" ársins haldið í Löngubúð. Langabúð opnar kl. 21:00 og hefst spurningakeppnin kl. 21:30. Þemað að þessu sinni verður "spurningar úr öllum áttum" og því geta keppendur átt von á allskonar spurningum.

Við hvetjum alla til þess að mæta og sýna hverjir vita mest um allt og ekkert

*Leikurinn fer þannig fram að liðin (hámarki 4 manns í hverju) skrifa svör  spurninga sem lesnar eru upp á blað og að því loknu er farið yfir svörin og stigin talin saman. Spurningarnar spanna alla flóruna hvort sem það er landafræði, líkindareikningur, leikskólasöngvar eða eitthvað allt, allt annað, flestar hverjar laufléttar, sumar lúmskar og  aðrar sem valda örlítið meiri hugarbrotum.

BR

18.02.2010

Öskudagur á skrifstofunni

Starfsfólk Djúpavogshrepps fór ekki varhluta af öskudeginum í gær, en við fengum hverja ánægjulega heimsóknina af annarri frá vel uppábúnum börnum Djúpavogs, auk barna frá Breiðdalsvík sem stödd voru hér í gær í tengslum við keppnisdaga í Grunnskólanum. Sungu börnin allt frá Gamla Nóa til evróvisjónlagsins Is it true og fengu gott í pokann að launum.

ÓB

 

 

 

 

18.02.2010

Keppnisdagar 2010

Keppnisdögunum í grunnskólanum lauk í gær með miklu fjör í íþróttahúsinu.  Við skiptum krökkunum í 1.-5. bekk í fjögur lið og krökkunum í 6.-10. bekk í önnur fjögur lið.  Liðin kepptu í sundi, íþróttum, samfélagsfræði, myndmennt, heimilisfræði og hæfileikakeppni.  Fyrirkomulagið er þannig að sigurliðið í hverri grein fær 8 stig, liðið í öðru sæti 6, liðið í þriðja sæti 4 og liðið í síðasta sæti fær 2 stig.  Jöfnum höndum gefum við liðunum stig fyrir háttvísi þannig að liðið sem vinnur best saman og er með bestu liðsheildina fær 8 stig, liðið sem stóð sig næst best, 6 stig og þannig koll af kolli.  Í lokin leggjum við saman annars vegar stigin í keppninni sjálfri og hins vegar stigin fyrir háttvísina.  Þannig fást sigurvegarar í hvorum flokki fyrir sig, á báðum aldurshópum.
Sigurvegarar í yngri hópnum var liðið:  SVARTA STJARNAN en háttvísiverðlaunin hjá yngri félllu í skaut DJ.
Hjá eldri sigruðu KILLERS og hlutu þau einnig háttvísiverðlaunin.

Myndir frá öllum keppnisdögunum má finna hér fyrir neðan:

Keppnisdagur 1

Keppnisdagur 2

Keppnisdagur 3

HDH

Öskudagssprell 2010

Í leikskólanum er öskudagssprell þar sem börnin mega koma í grímubúningum, furðufötum eða á náttfötunum.  Kötturinn er sleginn úr tunnu sem elstu nemendur leikskólans hafa málað og skreytt.  Allir fá að slá í tunnuna og kemur ýmislegt góðgæti úr tunnunni.  Eftir að búið var að slá úr tunnunni var leikið sér og dansað.  Skemmtilegur dagur í dag eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. 

Um morguninn

Að slá köttinn úr tunnunni

Fleiri myndir af öskudeginum eru hér

ÞS

Aðalfundur Ferðafélags Djúpavogs

Aðalfundur Ferðafélags Djúpavogs verður haldinn í Sambúð, sunnudaginn 21. febrúar kl. 17:00

1. Venjuleg aðalfundarstörf

2. Önnur mál

Allir félagsmenn hvattir til að mæta og nýir félagar boðnir velkomnir.

17.02.2010

Í tónlist hjá Andreu

Eitt af því sem börnin læra í skipulögðu starfi í leikskólanum er tónlist sem hún Andrea tónlistarkennari sér um en hún kemur til okkar þrisvar í viku og tekur hvern hóp á Kríudeild í tónlistarstarf.  Hér má sjá brot af því sem hún var að gera með elsta hópnum í síðustu viku. 

Eins og sjá má er margt skemmtilegt gert og rosalega gaman alltaf í tónlistinni hjá Andreu

ÞS

Öskudagur í grunnskólanum

Á morgun, öskudag, verður opið hús í íþróttamiðstöðinni.  Nemendur í Grunnskóla Djúpavogs og Grunnskóla Breiðdalshrepps, keppa í síðustu greininni á keppnisdögunum, hæfileikakeppni.  Allir foreldrar, forráðamenn og íbúar sveitarfélagsins eru velkomnir.  Hæfileikakeppnin hefst klukkan 10:30 í íþróttahúsinu og eftir hana verður dansað og sprellað til 12:20.  ALLIR VELKOMNIR.  Hdh

Nóg um að vera

Það er sko nóg um að vera í leikskólanum okkar þó svo að það fari oft ekkert mjög hátt.  Þann 5. febrúar var sett upp listasýning með ljósmyndum úr starfi leikskólans og listaverkum eftir nemendur leikskólans í Samkaup/strax og átti hún að standa yfir helgina en vegna vinsælda hefur hún enn ekki verið tekin niður en nú fer samt hver að verða síðastur að skoða listaverkin. 

Á fimmtudaginn (11. febrúar) kom Ýmir í heimsókn til okkar vopnaður gítar.  Tekin voru nokkur lög á gítarinn og sungið við mikla ánægju leikskólabarna og vilja þau ólm fá hann aftur í heimsókn og nokkrir nemendur þegar búnir að ákveða að læra að spila á svona gítar eins og hann Ýmir. 

Ýmir að spila á gítarinn

og við sungum með...bahama..eyja...

Síðan bjuggum við til bolluvendi sem við fórum með heim á föstudeginum svo hægt væri að bolla mömmu og pabba á mánudeginum en þá er einmitt bolludagur

Verið að mála komandi bolluvönd

Á föstudaginn (12. febrúar) fengum við svo Séra Sjöfn til okkar og höfðu krakkarnir mjög gaman af því að fá hana.  En því miður var ekki hægt að taka neinar myndir af þeirra heimsókn þar sem myndavélin okkar var í gönguferð með Hugrúnu og hópnum hennar.  En leikskólinn á bara eina myndavél og eru nýjar myndavélar komnar á óskalistann okkar þar sem við gætum haft sitt hvora myndavélina á deildunum. 

Þessa vikuna verður ekki síður mikið um að vera, bolludagur þar sem börnin fá bollu í ávaxtatíma, hádegismat og hressingu.  Sprengidagur með saltkjöti og baunum og öskudagur með öskudagssprelli þar sem börnin slá köttinn úr tunnunni og dansa á eftir.  Þau mega koma í grímubúningum, furðufötum eða á náttfötunum. 

ÞS

Lið Menntaskólans á Egilsstöðum komið áfram í Gettu betur

Menntaskólinn á Egilsstöðum fór með sigur af hólmi í viðureign sinni við Fjölbrautaskólann í Garðabæ í Gettu betur um helgina, sem þýðir að keppnislið skólans er komið í undanúrslit í keppninni. Það er í fyrsta skipti í 12 ár sem Menntaskólanum á Egilsstöðum tekst það.

Djúpavogsbúarnir Jóhann Atli Hafliðason og Arnar Jón Guðmundsson fóru mikinn þó þeir hafi fengið nokkur hjörtu til að slá aukaslög undir lok keppninnar, þar sem FG náði að minnka muninn úr 24-16 í 24-22. ME leiddi hins vegar alla viðureignina og því má segja að sigurinn hafi verið nokkuð öruggur.

Þar sem þetta var fyrsta viðureign í 8-liða úrslita er ekki enn komið í ljós hverjum þeir mæta í undanúrslitum.

Heimasíðan óskar Menntaskólanum á Egilsstöðum til hamingu með frábæran árangur.

ÓB

15.02.2010

Opið í Löngubúð á morgun laugardag

Starfsfólk Löngubúðar vill koma því á framfæri að Langabúð verður opin annaðkvöld, frá kl. 21:00 - 23:30.

ÓB

12.02.2010

Tilkynning frá sundlauginni

Sundlaugin verður lokuð næstkomandi mánudag og þriðjudag frá kl 09:00 - 12:00 vegna keppnisdaga Grunnskólans.

Forstöðum. ÍÞMD

12.02.2010

Enn skoðum við hús

Þórunnborg og Gestur, ásamt 1. - 5. bekk héldu áfram yfirreið sinni um þorpið og skoðuðu fleiri gömul hús.  Í dag skein sólin glatt og logn og heiður himinn gerðu ferðalagið hið besta.
Þau fóru vítt og breitt og skoðuðu eftirfarandi hús:  Miðhús, Hlíðarhús, Dali, Sólhól, Gömlu kirkjuna, Vegamót, Lögberg, Brekku og Hraun.  Myndir eru hér.  HDH

112 dagurinn á Djúpavogi

Laugardaginn 13. febrúar verður haldið upp á 112 daginn á Djúpavogi.  Upp úr kl. 12:00 munu allir viðbragðsbílar byggðarlagsins keyra um götur Djúpavogs. Kl. 13:00 - 15:00 bjóða viðbragðsaðilar Djúpavogs upp á léttar veitingar í Sambúð.

Í Sambúð verða til sýnis bílar og græjur af öllum stærðum og gerðum.

Íbúar sveitarsfélagsins eru hvattir til þess að mæta og kynna sér starfsemina.

112 Dagurinn hefur verið haldinn árlega síðan 2005. Markmið dagsins er að kynna neyðarnúmerið 112 og starfsemi hinna fjölmörgu neyðarþjónustuaðila sem tengjast því, efla vitund almennings um mikilvægi þessarar starfsemi og hvernig þjónustan nýtist almenningi. Að deginum standa Neyðarlínan, Ríkislögreglustjórinn, Brunamálastofnun, slökkviliðin, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Rauði krossinn, Landhelgisgæslan, Barnaverndarstofa, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og Flugstoðir. Að þessu sinni verður sjónum beint sérstaklega að öryggi og velferð barna og ungmenna. Markmiðið er annars vegar að halda á lofti því víðtæka öryggis- og velferðarkerfi sem börn og ungmenni hafa aðgang að í gegnum neyðarnúmerið en hins vegar að benda á leiðir fyrir börn og ungmenni til þess að taka þátt í starfi samtaka á þessu sviði og stuðla að eigin öryggi og annarra, meðal annars með þekkingu í skyndihjálp og eldvörnum.

Allir velkomnir

SVd. Bára, Djúpavogi

09.02.2010

Námskeið í skjalastjórnun

Við fengum ábendingu senda frá Héraðsskjalasafni Austfirðinga um námskeið í skjalastjórnun sem fer fram í mars. Ef áhugi er fyrir slíu námskeiði hér á Austurlandi á að vera hægt að koma því í kring í fjarfundi, en lágmarksfjöldi er þrír þátttakendur.

Námslýsing

Fjallað verður stuttlega um sögu og þróun upplýsinga- og skjalastjórnar á Íslandi og annars staðar svo og félög og samtök á sviði upplýsinga- og skjalastjórnar í Evrópu, Ameríku og Ástralíu. Kynnt verða íslensk lög, reglugerðir og reglur um upplýsingar, skjöl og skjalasöfn og farið í alþjóðlegan staðal um skjalastjórn, ISO 15489. Aðferðir, tilgangur og markmið upplýsinga- og skjala-stjórnar verða tíunduð.

Farið verður í skjalatalningu, geymsluáætlun fyrir skjöl, skjalaflokkun og skjalaflokkunarkerfi, húsnæði og búnað fyrir virk og óvirk skjöl, öryggisáætlanir fyrir skjöl, pökkun og skráningu hálfvirkra og óvirkra skjala, stöðlun á skjalagerð og eyðublaðastjórn. Lögð verður áhersla á skipulag málasafna, bókhaldsgagna, ljósmynda, teikninga og kynningarefnis svo og gagna í mismunandi formi – pappír og rafrænu formi. Sýnt verður fram á hvernig hægt er að nota ýmis konar tölvukerfi við skipulagningu gagna, skráningu, vistun og endurheimt.

Fjallað verður um tengsl upplýsinga- og skjalastjórnar og stjórnun þekkingar og gæða. Kenndar verða aðferðir við að skipuleggja útgefið efni sem keypt er eða berst stofnunum, s.s. bækur, tímarit, fréttabréf, árskýrslur o.þ.h. Lögð er áhersla á að námskeiðið hentar öllum starfsmönnum sem hafa með málaflokkinn að gera innan síns vinnustaðar.

Markmið námskeiðs

Yfirmarkmið:

• Að starfsfólk, sem ber ábyrgð á upplýsinga- og skjalastjórn, skilji mikilvægi þáttarins í rekstrinum.
• Að starfsfólk, sem annast upplýsinga- og skjalastjórn, geti sinnt starfsskyldum sínum á skilvirkan hátt.

Undirmarkmið:
• Að starfsfólk geti lagt þekkingu að mörkum varðandi tölvuvæðingu skjalastjórnar.
• Að starfsfólk þekki gildi upplýsinga- og skjalastjórnar fyrir þekkingarstjórnun og gæðastjórnun.Lengd  
10 kst.

Staður og stund
12. mars, kl. 13:30 - 15:50 og 15. mars, kl. 8:30 - 12:00, hjá Endurmenntun HÍ, Dunhaga 7, Reykjavík.

Umsjón
Jóhanna Gunnlaugsdóttir
Námskeiðið er án endurgjalds fyrir félagsmenn aðildarfélaga Starfsmenntar

Verð fyrir greiðandi þátttakendur: 12.000 ISK.

08.02.2010

Góð gjöf

Hún Bergþóra Birgisdóttir kom færandi hendi í skólann í morgun.  Meðferðis hafði hún spilið "Kollgátuna" sem bróðir hennar, Karl Th. Birgisson gaf út fyrir síðustu jól.
Við kunnum Bergþóru hinar bestu þakkir fyrir og hlökkum mikið til að prófa spilið.  HDH

Dagur leikskólans

Dagur leikskólans er þann 6. febrúar nk. en haldið verður upp á hann í leikskólanum um land allt 5. febrúar.  Við í Bjarkatúni verðum með ljósmynda og listaverka sýningu í Samkaup/strax á morgun og á laugardaginn í tilefni þessa.  Félag íslenskra leikskólakennara stendur fyrir degi leikskólans en félagið er 60 ára um þessar mundir.  Tilgangur dagsins er að vekja athygli á því mikilvæga starfi sem fer inn á leikskólum landsins.  Við hvetjum ykkur til þess að staldra við og skoða myndirnar okkar og fá innsýn inn í starfið sem fer fram í Bjarkatúni. 

ÞS

Húsaskoðun

Krakkarnir í 1.-5. bekk fóru ásamt umsjónarkennurum í leiðangur í gær.  Tilgangurinn var að skoða gömul hús í nágrenni skólans.  Er þetta hluti af grenndarnáminu sem við erum mjög stolt af hér í skólanum.  Heldur kalt var í veðri þannig að gangan var eilítið styttri en til stóð.  Þó náðu börnin að skoða:  Sólvang, Höfða, Tríton, Löngubúð, Geysi og Faktorshús.  Þau hittu einmitt smiðina í Faktorshúsinu og fengu að kíkja inn.  Myndir eru hér.  HDH