Djúpivogur
A A

Fréttir

Ágústa, Dröfn og Helga Björk sýna listir sínar

Laugardaginn 30. Janúar frá kl. 14-16 verður vinnustofa og verslun GUSTA DESIGN í Dynheimum opin fyrir alla Djúpavogsbúa og gesti bæjarins. Mikið af nýjum handgerðum töskum og fylgihlutum úr alíslensku hágæða hráefni, svo sem hreindýraleðri og fiskiroði. Tilvalið að ná sér í einstaka tösku til að fullkomna Þorrablótsdressið.

Einnig verður glæsileg sýning á málverkum eftir Helgu Björk Arnardóttir og ljósmyndum sem Dröfn Freysdóttir hefur tekið á og við Djúpavog. Þetta er í fyrsta sinn sem Helga Björk og Dröfn sýna listir sínar og ætti enginn að láta það fram hjá sér fara.

Til að gera enn betur og bæta vöruúrvalið og glæsileikann enn meira, verða einnig til sýnis og sölu æðislegar þæfðar tískuvörur, húfur, kragar og fl eftir Hornfirska hönnuðinn G-ull.

Allir velkomnir í Dynheima- kjallarann, Hammersminni 16, Djúpavogi laugardaginn 30. Janúar 2010.

ÓB

 

29.01.2010

Lið ME komið í sjónvarpið

Lið Menntaskólans á Egilsstöðum vann í gærkvöldi sannfærandi sigur á Fjölbrautaskóla Norðurlands Vestra í spurningakeppninni Gettu Betur. Jóhann Atli Hafliðason og Arnar Jón Guðmundsson eru, eins og kunnugt er, í liði ME.

Þetta þýðir að Menntaskólinn á Egilsstöðum í kominn í 8-liða úrslit sem fram fara í sjónvarpinu á næstu vikum.

Til hamingju ME!

ÓB

28.01.2010

Hreindýr í Hálsaskógi

Undanfarna daga hefur hópur hreindýra haldið sig innan girðngar í Hálsaskógi sem er auðvitað ekki vel séð þar sem að dýrin geta verið hinir mestu skaðvaldar gagnvart ýmsum trjáplöntum.  Ljóst er að hreindýrin sem voru alls 26 að tölu höfðu á þeim dögum sem þau dvöldu innan girðingarinnar valdið töluverðu tjóni a.m.k. á nokkuð stálpuðum birkihríslum svo og hafa dýrin traðkað svæðið töluvert út og tætt upp m.a. mosa og annan fallegan lággróður. 

Í dag fór ljósmyndari á svæðið og skoðaði vegsumerki og kom þá jafnframt styggð að hópnum og eftir að bílflauta hafði verið þeytt um stund, stukku dýrin öll út úr girðingunni fyrir utan þrjú dýr sem eftir urðu, en þau fara nú væntanlega á eftir hópnum fljótlega.  Hér má sjá nokkrar myndir og eitt myndskeið með líka sem tekið var í þessari hreindýraeftirlitsferð í Hálsaskóg í dag. Ekki verður hjá því litið að þessir skaðvaldar eru hinar fallegustu skepnur. AS

Sjá myndskeið:  http://www.youtube.com/watch?v=B-F_M0Vpwx4

 

 

 

Búið að opna Öxi

Nú í annað sinn í vetur hefur Öxi verið opnuð í boði sveitarfélagsins.  Vegfarendur sem vilja nýta sér þessa annars góðu samgönguleið og hina miklu styttingu sem hún býður upp á,  er hér með bent á að vegurinn er nokkuð holóttur á köflum og er því mælt með að vegfarendur stilli hraða sínum í hóf og keyri eftir aðstæðum. 

Vegfarendur eru því beðnir um að sýna aðstæðum sérstakan skiling því vegurinn verður ekki heflaður að sinni. 

Það var hinsvegar mat forsvarsmanna sveitarfélagsins að íbúar svæðisins sem og aðrir vegfarendur vildu fremur keyra holóttan veg en engan á þessari leið.

Vegfarendur munu hinsvegar geta treyst því að vegagerðin mun sinna skyldum sínum gagnvart veginum um Öxi, m.a. með heflun og fl. þegar vetur gengur yfir. 

AS

 

 

27.01.2010

Samkaup Strax - breyttur opnunartími

Breyttur opnunartími hjá Samkaup-Strax Djúpavogi er sem hér segir:

Virkir dagar: 10.00-18.00
Laugardagar: 11.00-16.00
Sunnudagar: Lokað

Samkaup-Strax

26.01.2010

Þorrablót

Þá er þorrinn genginn í garð og að venju er haldið þorrablót í leikskólanum. Byrjað var á því að dansa en þar var farið í hókí pókí, superman og fleiri skemmtilegir dansar dansaðir.  Síðan var borðhaldið sem var í sal leikskólans og fengu börnin að smakka kræsingarnar.   Allt var smakkað þó sumt hafi farið mis vel ofan í börnin.  Hægt er að sjá myndir hér. 

 

Hókí pókí

Verið að læra nýjan dans?

Fjör á balli

Það var sko smakkað á öllu

Þeim þótti þetta allt rosalega gott

ÞS

AUGLÝSING UM MINKAVEIÐAR Í DJÚPAVOGSHREPPI

Auglýst er eftir minkaveiðimönnum til starfa í Djúpavogshreppi frá og með maí 2010:


Varðandi einingarverð verður byggt á viðmiðunarreglum veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar.

Gengið verður frá sérstökum samningum við veiðimenn og byggt á samningsdrögum, sem unnin eru af landbúnaðarnefnd Djúpavogshrepps.   

Drög verða send / afhent þeim, er þess óska.

Æskilegt er að í umsóknum komi fram upplýsingar um; tækjakost, hundakost og eftir atvikum um aðstoðarmenn.


Umsóknarfrestur er til 15. febrúar 2010. Ums. berist skrifstofu Djúpavogshrepps, Bakka 1, 765 Djúpivogur /netfang: sveitarstjori@djupivogur.is


Nánari upplýsingar veitir sveitarstjóri (s. 478-8288).

Djúpavogi 21. janúar 2010;


Bj. Hafþór Guðmundsson, sveitarstjóri

 

BR

22.01.2010

Hamagangur hjá þorrablótsnefndinni 2010

Þorrablótsnefndin vinnur nú hörðum höndum að undirbúningi fyrir Þorrablót Djúpavogs 2010 sem haldið verður á Hótel Framtíð laugardaginn 30.janúar nk.  Hægt er að kaupa miða í forsölu á Hótel Framtíð dagana 27. og 28. janúar.
 
Undirbúningur gengur glimrandi vel og óhætt að lofa gestum góðri skemmtun. Þess vegna má allt eins búast við því að þakið hreinlega rifni af húsakynnum hótelsins.  

Að venju verða Peruverðlaunin afhent og minnt er á að hægt er að skila inn atkvæðum á skrifstofu Djúpavogshrepps eða á netfangið djupivogur@djupivogur.is  fyrir klukkan 13:00 mánudaginn 25.janúar 2010.  Við hvetjum alla til þess að skila inn atkvæði!

Hljómsveitin Parket frá Hornafirði mun halda uppi fjörinu eftir blót en þeir spiluðu einmitt á blótinu í fyrra við góðar undirtektir.  Parket hefur getið sér gott orð fyrir fjölbreytt tónlistarval með þekktum og vinsælum rokk-, popp- og danslögum sem höfða til allra aldurshópa.  Eins og í fyrra verður Haukur Þorvalds sérlegur gestasöngvari hljómsveitarinnar.

Í nefndinni í ár eiga eftirtaldir aðilar sæti:

Bryndís Reynisdóttir
Íris Birgisdóttir
Gestur Sigurjónsson
Steinunn Jónsdóttir
Jón Sigurðsson
Elís Grétarsson
Sóley Dögg Birgisdóttir
Eiður Gísli Guðmundsson
Bergþóra Valgeirsdóttir
Birgir Th. Ágústsson
Helga Björk Arnardóttir
Magnús Kristjánsson
Elva Sigurðardóttir
Jószef Belá Kiss
Stefán Ingólfsson
Sigurður Stefánsson
Ýmir Már Arnarsson Fyrir þá sem hafa hug á að sækja Djúpavog heim um þorrablótshelgina, nú eða nenna ekki heim til sín eftir blót, býður Hótel Framtíð upp á sérstakt þorratilboð á gistinu

1x1 herb. með baði  án morgunverðar kr.6.600.-
1x2 herb. með baði án morgunverðar kr.8.000.-

 

SJÁUMST Á ÞORRABLÓTI

 

Þorrablótsnefndin 2010

 

BR

21.01.2010

Styrkir til atvinnumála kvenna

Nú eru styrkir til atvinnumála kvenna lausir til umsóknar en það er Félags- og tryggingamálaráðherra sem veitir þá ár hvert.

Að þessu sinni eru 30 milljónir til úthlutunar. Vinnumálastofnun hefur umsjón með styrkveitingunum og er umsóknarfrestur til og með 7.febrúar.

Hægt er að sækja um styrki til gerðar viðskiptaáætlunar, til vöruþróunar, markaðsmála, vegna efniskostnaðar og hönnunar svo eitthvað sé nefnt.

Sjá frekari upplýsingar með því að smella hér

BR

20.01.2010

H2O WATN: Frá Berufirði til Ísrael

Nýlega birtist grein um fyrirhugaðan vatnsútflutning frá Berufirði í blaðinu Land & Saga. Í greininni kemur m.a. fram að hugsanlega sé hægt að byrja að hlaða fyrsta skipið í Berufirði í júlí á þessu ári og að verkefnið gæti skapað allt að 10-13 stöðugildi.

Þeir sem hafa fylgst með framgangi þessa máls vita hversu gríðarlega spennandi þetta verkefni er og jafnframt hve mikilvægt það yrði fyrir samfélagið okkar á tímum sem þessum.

Hins vegar leggur heimasíða Djúpavogshrepps að svo komnu máli ekki  mat á það hvort og þá hversu hratt verkefnið verður að veruleika.

Greinina má sjá í heild með því að smella hér

 

BR

20.01.2010

Snyrtistofa Hugrúnar auglýsir

Snyrtistofa Hugrúnar


Kæru Djúpavogsbúar

Ég hef ákveðið að loka snyrtistofunni um óákveðin tíma og  mun einungis taka við gjafabréfum til 15. Febrúar 2010. 

Því hvet ég alla þá sem eiga gjafabréf að nýta þau fyrir þann tíma.  

Kveðja Hugrún

Smellið hér til þess að sjá auglýsinguna stóra

BR

20.01.2010

Ísland-Serbía - Hvernig fer?

Bryndísi Reynisdóttur, sérlegum EM-sérfræðingi Djúpavogshrepps, lék forvitni á að vita hvaða hugmyndir Djúpavogsbúar hefðu fyrir leik Íslands og Serbíu í Evrópumótinu í handknattleik sem fer fram í Linz í Austurríki kl. 19:05 í kvöld. Bryndís byrjaði yfirreiðina á skrifstofu Djúpavogshrepps, rak síðan garnirnar úr kennurum grunnskólans og þeim sem urðu á vegi hennar í versluninni Við Voginn auk þess sem hún þurfti endilega að troða pabba sínum í þessa frétt og spyrja hann að leikslokum.

Athygli skal vakin á því að enginn þeirra 13 sem svaraði spáir sömu úrslitum. Það verður því fróðlegt og jafnframt spennandi að sjá hvort einhver neðangreindra muni reynast getspakur.

ÁFRAM ÍSLAND!

Texti: ÓB
Myndir: BR


Anna Sigrún Gunnlaugsdóttir: 32-30 fyrir Ísland


Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir: 28-26 fyrir Ísland


Erla Ingimundardóttir: 27-25 fyrir Ísland
Guðný Ingimundardóttir: 29-27 fyrir Ísland


Gestur Sigurjónsson: 32-29 fyrir Ísland


Albert Jensson: 32-31 fyrir Ísland


Sigurbjörn Heiðdal: 31-28 fyrir Ísland


Steinunn Jónsdóttir: 32-28 fyrir Ísland


Guðrún Aradóttir: 22-15 fyrir Ísland


Gunnar Sigurðsson: 31-28 fyrir Serbum


Hrönn Ásbjörnsdóttir: 33-32 fyrir Ísland


Hafrún Alexía Ægisdóttir og Reynir Arnórsson: 30-28 fyrir Ísland

19.01.2010

Nú reynum við aftur við Baujunámskeið.

BAUJUNÁMSKEIÐ

Solveig Friðriksdóttir verður með„Baujunámskeið“ fyrir foreldra á Djúpavogi, miðvikudaginn 27. janúar.

Baujunámskeiðið er sjálfsstyrkinganámskeið þar sem þátttakendur fræðast um tilfinningar okkar og hvernig þær hafa áhrif á hegðun og líðan. Kenndar verða einfaldar aðferðir til að takast á við erfiðar tilfinningar í dagsins önn svo og slökunaröndun.

Námskeiðið er í fyrirlestrarformi, engin einstaklings- eða hópverkefni og enginn þarf að óttast að þurfa að standa upp fyrir framan hóp og tala. Námskeiðið tekur um tvo tíma.

Hægt er að fræðast nánar um Baujuna á
www.baujan.is


Solveig er með B.A. próf í sálfræði, jógakennari og hefur unnið við kennslu sl. 11 ár. Hún hefur kennt Baujuna fyrir nemendur í Grunnskólanum á Stöðvarfirði (sex námskeið). Þá hefur hún haldið tvö námskeið fyrir nemendur á Fáskrúðsfirði, eitt námskeið fyrir foreldra Grunnskólans á Stöðvarfirði, tvö námskeið fyrir starfshópa og eitt fyrir kennara á Kennaraþingi ásamt því að hafa haldið eigin fræðslufyrirlestra til persónuuppbyggingar.  (Síðasti fyrirlestur sem hún hélt var fyrir rúmlega 100 manns).

Foreldri greiðir 1.000.- kr. fyrir námskeiðið en ef báðir foreldrar koma saman kostar það 1.500.- kr.-  Grunnskólinn / leikskólinn og foreldrafélögin greiða það sem upp á vantar. 

Áhugasamir hafi samband við Halldóru (dora @djupivogur.is) – 478-8246, í síðasta lagi 25. janúar nk.

Ath!  Þeir foreldrar sem voru búnir að staðfesta þátttöku síðast eru beðnir um að gera það aftur, ælti þeir að vera með!!

 

 

 

 

 

Þorrahlaðborð - Við Voginn auglýsir

Í hádeginu föstudaginn 22. janúar kl. 12:00 verður þorrahlaðborð með öllu tilheyrandi

Verð kr. 2.800 á mann

Við Voginn

BR

18.01.2010

Hótel Framtíð kynnir

Hótel Framtíð auglýsir keppnina Bjórmeistarinn 2010.

Smellið hér til að sjá auglýsinguna

15.01.2010

Ferðafélag Djúpavogs auglýsir næstu gönguferð

Ferðafélag Djúpavogs stendur fyrir gönguferðum á sunnudögum. Við höldum áfram þar sem við hættum í vor.

Sunnudaginn 17. janúar. Blábjörg - Geithellnaá

Mæting í Við Voginn kl. 13:00

Allir velkomnir, félagsmenn og aðrir

Ferðafélag Djúpavogs

15.01.2010

Listamaður í Himnaríki - á Djúpavogi

Í nýjasta tölublaði tímaritsins "Ský", sem meðal annars er dreift í öllum flugvélum Flugfélags Íslands, er grein um listamanninn Sigurð Guðmundsson og nýjasta verk hans, Eggin í Gleðivík.

Undirrituð rakst á greinina fyrir tilviljun nú nýlega en þar talar Sigurður um Djúpavog af mikilli alúð og lýsir fyrstu kynnum sínum af staðnum ásamt því að lýsa tilurð listaverksins í Gleðivík.

Greinina má lesa með því að smella hér

Greinin er eftir Ástu Andrésdóttur en ljósmyndir eftir Pál Stefánsson og Áslaugu Snorradóttur.

BR

15.01.2010

Austfirsk myndskreytt póstkort 2010

Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs efnir til póstkortasamkeppni fyrir árið 2010.

Auglýst er eftir myndskreytingum sem tengjast austfirskri menningu, listum, landslagi eða þjóðsögum. Hægt er að senda inn teikningar, myndverk eða ljósmyndir.

Skilyrði er að listamaðurinn sé Austfirðingur og búsettur á Austurlandi.

Skilafrestur er til 19. febrúar

Sjá nánari upplýsingar með því að smella hér

BR

15.01.2010

Biðlisti í leikskólann Bjarkatúni á hausti komanda

Frá því að nýi leikskólinn (Bjarkatún) tók til starfa hefur aðsóknin verið mjög góð og leikskólinn fyrir löngu sannað gildi sitt. Upphaflega var gert ráð fyrir að pláss yrði fyrir allt að 37 börn. Þegar byggingin hófst var fyrirséð að um 30 börn yrðu að óbreyttu í skólanum. Við vígslu skólans var þörfin komin niður í 25 börn.

Eins og staðan er í dag er yngri deild leikskólans full og ekki hægt að bæta við fleiri börnum á þessu starfsári en því lýkur um miðjan maí. Strax er kominn biðlisti eftir plássi á yngri deildina en hægt að bæta við nokkrum börnum á eldri deildina.

Þessi frétt ætti þó ekki að koma neinum á óvart enda hefur tíðni barneigna verið nokkuð há í sveitarfélaginu síðustu árin og Djúpavogsbúar ákveðnir í að leggja sitt af mörkunum til þess að fjölga íbúum.

BR

14.01.2010

Djúpavogsbúar í Gettu Betur í kvöld

Heimasíðan minnir á viðureign Menntaskólans á Egilsstöðum og Menntaskólans við Sund í spurningakeppninni Gettu Betur. Keppnin hefst kl. 19:30 á RÚV.

Djúpavogsbúarnir Jóhann Atli Hafliðason og Arnar Jón Guðmundsson eru báðir í spurningarliði ME og því sérstaklega gaman fyrir íbúa sveitarfélagsins að fylgjast með

Heimasíðan óskar keppendum góðs gengis í kvöld.

BR

 

 

13.01.2010

Viðtal við Ástu Birnu

Heimasíðan okkar hefur fylgst með afrekum Ástu Birnu Magnúsdóttur Djúpavogsbúa á golfvöllum landsins á undanförnum misserum þar sem hún hefur náð stórglæsilegum árangri.  Á síðasta ári söðlaði Ásta hinsvegar um, hafði félagaskipti og stundar nú æfingar og keppni í Þýskalandi ásamt námi. 
Eftirfarandi viðtal við Ástu má sjá á heimasíðu kylfingur.is.    AS

 

Ásta Birna Magnúsdóttir sem leikið hefur með golfklúbbnum Keili undanfarin ár, hefur sagt skilið við íslenskt golf í bili. Hún stundar nú nám í Sjúkraþjálfun í Westfalen Akademie í bænum Lippstadt í Þýskalandi og æfir hjá Lippstadt golfklúbbnum.

Ég vildi fara út í skóla og Þýskaland varð fyrir valinu. Ég vissi alveg af því áður en ég fór að ég væri ekki að fara að spila hér næsta sumar vegna þess að skólakerfið úti er allt annað en hér heima og ég nota sumarfríið mitt til þess að spila úti,“ sagði Ásta Birna í samtali við Kylfing.is.

Ásta hefur náð fínum árangri á GSÍ-mótaröðinni í golfi á undanförunum tveimur árum og vann sitt fyrsta mót sumarið 2008 í Leirunni. Hún varð einnig Íslandsmeistari í holukeppni sama ár en var í þriðja sæti á Íslandmótinu í höggleik síðasta sumar og svo í öðru sæti á Íslandsmótinu í holukeppni. Henni hlakkar hins vegar til að takast á við ný verkefni.

Mér finnst það spennandi að takast á við nýtt verkefni. Ég vildi fá breytingu og því tilvalið að nota tækifærið meðan það gefst,“ segir Ásta en hvernig gengur námið? „Námið gengur mjög vel en það var mjög erfitt til að byrja með þegar ég var að komast inn í þýskuna. Þetta er ekki auðvelt nám og verður spennandi að vita hvernig það fer saman með golfinu þegar mótin byrja í vor.“

Mynd/Kylfingur.is: Ásta Birna Magnúsdóttir verður í Þýskalandi næsta sumar.

 

11.01.2010

Föstudagsgátan - svar og ný gáta

Föstudaginn 18. desember sl. birtum við nafnagátu sem Ingþór Sigurðarson sendi okkur. Eru lesendur því búnir að hafa góðan tíma til að ráða gátuna, enda var hún stór og mikil.

Fjórir sendu inn svar og auðvitað er það alltaf matsatriði að öll svörin hjá hverjum lesanda hafi verið rétt, enda í sumum tilfellum fleiri en eitt nafn sem á við. Þeir sem svöruðu voru allavega allir ansi nærri því að hafa allt rétt. Helst voru menn að flaska á nafninu Elliði. Þeir sem svöruðu voru:

Stefán Bragason
Hjördís Björg Kristinsdóttir
Skúli Heiðar Benediktsson
Magnhildur Pétursdóttir
Ingibjörg Jónasdóttir (og aðrir á Runná)

Hér að neðan birtum við gátuna og þau svör sem henni fylgdu upphaflega:

Einn í dufti ávallt skríður (Ormur)
annar skort á mörgu líður (Eiríkur)
oft hinn þriðja eykir draga (Vagn)
auga úr kind vill fjórði naga (Hrafn)
 
Er sá fimmti aðkomandi (Gestur)
ætli ég sjötti i veggjum standi (Steinn)
sjöundi gamall alltaf er (Elliði)
áttunda a hverri nál þú sérð (Oddur)
 
Níundi múgur nefnist manns (Lýður)
nafn ber tíundi skaparans (Guðmundur)
ellefti verður aldrei beinn (Bogi)
á þeim tólfta er saur ei neinn (Hreinn)
 
Sá þrettándi byrjar viku hverja (Máni)
dauðinn mun ei a þann fjórtanda herja (Ófeigur)
sá fimmtándi hirðir mest um slátt (Barði - Garðar)
með þeim sextánda næ ég andanum brátt (Loftur)

Við þökkum þeim sem tóku þátt, en vísnagáta er hér fyrir neðan.

 


 

Gáta þessarar viku er eftir Ingimar Sveinsson:

Í fiskvinnslunni fékk sér starf,
fjórtán kassa vaska þarf.
Sá gamli mættur, mín er trú
að mjúka koju bæli nú.
IS 

Eitt þriggja stafa orð er að finna í 2. og 4. línu.

Svör sendist á netfangið djupivogur@djupivogur.is fyrir föstudaginn 15. janúar.

08.01.2010

Frá bókasafninu

Vegna uppkeyrslu á kerfinu verður bókasafnið lokað fimmtudaginn 7. janúar.
Minnt er á jólabækurnar og kiljur sem safnið fékk gefins í desember.  KBG

Þrettándinn 2010

Jólin voru kvödd hér, eins og víða um land, á þrettándagleði sem fram fór í gær. Andrés Skúlason var á vettvangi og sendi okkur meðfylgjandi myndir.

Þær er hægt að sjá með því að smella hér.

ÓB
Myndir: AS

07.01.2010

Þorrablót Djúpavogs 2010

Þorrablót Djúpavogs verður haldið laugardaginn 30.janúar 2010 á Hótel Framtíð.

Þorrablótsnefndin þetta árið er skipuð eðalfólki sem hefur setið sveitt við undirbúning og má því búast við taumlausri gleði fram eftir nóttu, svona eins og okkur Djúpavogsbúum er einum lagið.

Hljómsveitin Parket frá Hornarfirði mun halda uppi fjörinu eftir að skemmtiatriðum lýkur.

Nánar auglýst síðar.

06.01.2010

Þrettándagleði

Þrettándagleði verður haldin miðvikudaginn 6. janúar kl. 17:00.  Gengið verður frá Sparisjóðnum niður í Blá þar sem kveiktur verður varðeldur og sungið, auk þess sem kynjaverur fara á stjá og flugeldar verða tendraðir.  Mætum vel klædd með stjörnuljósin og góða skapið.

Þrettándanefndin

05.01.2010