Djúpivogur
A A

Fréttir

Blíða við voginn

Meðfylgjandi myndir voru teknar í gær af Andrési Skúlasyni. Það var sannkölluð haustblíða, stillt og gott veður en í dag er hann búinn að vera bæði kaldur og hvass, sannkallaður stálballarsteitingur.

Vonandi ylja þessar myndir ykkur, burtflúnum sem búsettum.

ÓB

 

 

 

 

 

 

30.09.2009

DJÚPAVOGSHREPPUR AUGLÝSIR / BREYTTUR OPNUNARTÍMI

Ákveðið hefur verið að frá og með mánudeginum 5. október 2009 verði opnunartími skrifstofu Djúpavogshrepps sem hér segir:

Mánudaga - föstudaga: 13:00 - 15:00

Símsvörun verður milli 10:00 - 12:00 og 13:00 - 15:00

Tekið verður á móti forstöðumönnum stofnana utan opnunartíma svo sem verið hefur. Hið sama mun gilda um langt að komna, sem hér þurfa að reka erindi.

Þrátt fyrir framangreindan opnunartíma verður hægt að panta viðtöl á öðrum tímum. Engu að síður eru þeir sem reka þurfa erindi á skrifstofu sveitarfélagsins beðnir um að taka tillit til framangreindrar ákvörðunar og virða hana.

Skrifstofa Djúpavoghrepps

29.09.2009

Orðsending frá Svavari Sigurðssyni

Herra Hammond, Svavar Sigurðsson, bað um að fá að birta þessa orðsendingu á heimasíðunni í tilefni þess að Hammondhátíð Djúpavogs hlaut menningarverðlaun SSA um síðustu helgi.

Heil og sæl !

Ég vil hér með þakka þeim hjá SSA sem studdu tilnefningu Hammondhátíðar til verðlauna og einnig þeim Hlíf Herbjörnsdóttur "Sundlaugardrottningu" og Þóri Stefánssyni "Hótelgúrú" fyrir þeirra ómetanlega starf í þágu Hammondhátíðar á Djúpavogi frá upphafi. Undirbúningur fyrir næstu hátið er þegar hafin og má búast við að enn og aftur fái Djúpavogsbúar og þeir sem leggja leið sína á “Hammond” að njóta þess allra besta sem íslensk (og jafnvel erlend) tónlist hefur upp á að bjóða í dag.

Kærar kveðjur

Svavar

Sjá má frétt um að Hammondhátíð hafi hlotið menningarverðlaun SSA með því að smella hér.

ÓB

28.09.2009

Réttarferð

Í dag, klukkan 13:45 ætlum við að hittast við grunnskólann og fara inn í Hamarssel í réttarferð.  Hefð er komin á þessa ferð og vonumst við til þess að sem flestir foreldrar / forráðamenn sjái sér fært að mæta með börnunum sínum.
Gert er ráð fyrir því að börnin hafi með sér nesti og séu klædd í skjólgóð föt.  Heimkoma er óráðin en líklegt er að hún verði milli 16:00 og 17:00. 
Hringt verður í alla foreldra, nú fyrir hádegið og þeir látnir vita formlega.  HDH

Hammondhátíð á Djúpavogi hlaut menningarverðlaun SSA

Það er okkur sönn ánægja að segja frá því að Hammondhátíð á Djúpavogi hlaut menningarverðlaun SSA aðalfundi samtakanna sem haldinn var á Seyðisfirði um síðastliðna helgi.

Það var Svavar Sigurðsson, frumkvöðull Hammondhátíðarinnar sem tók við verðlaununum sem samanstóðu af blómvendi, viðurkenningu og ávísun á fjárupphæð.

Í ræðu formanns SSA kom fram að hátíðin, sem fyrst var haldin 2006, hafi fest sig rækilega í sessi sem ein af stærstu tónlistarhátíðum á Austurlandi. Taldi hann upp þá fjölmörgu tónlistarmenn sem heiðrað höfðu hátíðina með nærveru sinni og eru það engin smá nöfn eins og þeir sem til þekkja vita.

Sagði hann ennfremur að áhorfendafjöldi hafi farið vaxandi frá upphafi og að þátttakan á síðustu hátíð hafi toppað allt, sem þakka mætti góðu orðspori hátíðarinnar og þeim frábæru tónlistarmönnum, sem farnir eru að bíða í röðum eftir að fá að spila á henni.

Við hér á heimasíðunni óskum aðstandendum Hammondhátíðar, sem og Djúpavogsbúum öllum, innilega til hamingju með þennan frábæra heiður.

ÓB

 


Svavar Sigurðsson tekur við verðlaununum frá B. Hafþóri Guðmundssyni, formanni SSA og Þorvaldi Jóhannssyni, framkvæmdarstjóra SSA.


Svavar, í Lennon bol, sagði nokkur vel valin orð


Svavar "herra Hammond" Sigurðsson - sáttur með viðurkenninguna

28.09.2009

Gönguferð hjá 3.-5. bekk

Í vikunni fór Gestur með 3., 4. og 5. bekk í gönguferð í góða veðrinu.  Eins og myndirnar hérna sýna, var veðrið alveg dásamlegt og börnin hin kátustu.  Góða helgi.  HDH

Tapað / fundið

Þetta GPA mælitæki var tekið um kl. 10:00, 25. september, þar sem það stóð við rörahliðið við Háaura á Djúpavogi. Tækið er engum gagnlegt nema eigandanum sem er:

Loftmyndir ehf. Laugavegi 13, 101 Reykjavík
s. 897-8910 eða 540-2500

Þeir sem gætu veitt upplýsingar um hvar tækið er niðurkomið eru vinsamlega beðnir um að hafa samband í númerin hér fyrir ofan.


Svona lítur tækið út

25.09.2009

Föstudagsgátan

Í síðustu viku birtum við gátu eftir Ingimar Sveinsson.
Hún var á þessa leið:

Maður einn heitir hey í röðum
og húsdýrin mörgu borða úr.
Þar gott fann ég kál með grænum blöðum,
góðmeti fékk í hverjum túr.


13 manns sendu inn svar og var það rétt í öllum tilvikum. Þeir sem sendu inn voru:

Aðalsteinn Aðalsteinsson
Svanborg Guðjónsdóttir
Björg Stefa Sigurðardóttir
Elva Sigurðardóttir
Magnhildur Pétursdóttir
Kristrún Gunnarsdóttir
Valur (eitt sinn kenndur við Merki)
Jónína Guðmundsdóttir
Óli Már Eggertsson
Guðný Svavarsdóttir
Unnur Finnsdóttir
Páll Guðmundsson
Ármann Snjólfsson

Rétt svar við vísunni er garðar.

Við þökkum þeim sem tóku þátt og bendum á nýja gátu hér fyrir neðan.

 


 

Gáta þessarar viku er að fróðra sögn "sú þyngsta til þessa". Ráðningin er eftir því "alger snilld". Undirritaður getur tekið undir það. Ingimar Sveinsson færði okkur þessa vísu fyrir margt löngu en hún er eftir Guðmund frá Lundi.

Í vísunni er að finna, í réttri röð; starfsheiti, karlmannsnafn og heimilisfang en Ingimar sagði okkur að vísan hafi verið rituð utan á umslag sem sent var á Kópasker. Sagt er að fólkið á pósthúsinu hafi hvorki skilið upp né niður í áletruninni en ákveðið að ráða í hana og tekist það að lokum. Bréfið komst því á réttan stað.

Vísan er svona:

Skollafjandi, sköglar traf,
skessudrösull, hægt að fer.
Undir hömrum, elfar skraf,
ægis þröm við Kópasker.


Svar sendist á djupivogur@djupivogur.is fyrir föstudaginn 2. október.

ÓB

25.09.2009

Átak til atvinnusköpunar

Átak til atvinnusköpunar  er styrkáætlun iðnaðarráðuneytisins fyrir nýsköpunarverkefni og markaðsaðgerðir starfandi frumkvöðla- og nýsköpunarfyrirtækja.  Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur umsjón með umsóknarferlinu fyrir hönd iðnaðarráðuneytisins. Umsóknafrestur er til 29. september næstkomandi. Sjá nánar inn á www.impra.is

ÓB

24.09.2009

Bókasafnið auglýsir

Vorum að fá mjög skemmtilegar spennusögur á bókasafnið:
Stúlkan sem lék sér að eldinum, eftir Stieg Larsson
Ísprinsessan, eftir Camillu Läckberg
Predikarinn, eftir Camillu Läckberg
Steinsmiðurinn, eftir Camillu Läckberg.  Fyrstur kemur fyrstur fær.   KBG

Neisti sigurvegari á meistaramóti UÍA í sundi

Óhætt er að segja að sunddeild UMF Neista hafi komið, séð og sigrað á meistaramóti UÍA í sundi sem haldið var um helgina. Neisti vann stigakeppnina og þar með mótið með miklum yfirburðum. Bjarni Tristan Vilbergsson varð stigahæstur í sínum flokki.

Við á heimasíðunni óskum Neista innilega til hamingju með frábæran árangur.

Textinn hér að neðan er tekinn af heimasíðu UÍA:

Meistaramót UÍA í sundi var haldið á Eskifirði dagana 19. og 20. september.

Mótið er hið fyrsta sem haldið er samkvæmt nýju mótafyrirkomulagi Sundráðs UÍA þar sem gert er ráð fyrir fjórum sundmótum á vegum UÍA árlega. Framkvæmd mótanna er sameiginleg með sunddeildunum sem mynda ráðið og skrifstofu UÍA.

Meistaramótið er aldursflokkamót og voru keppendur að þessu sinni um 50 talsins á aldrinum 7-14 ára. Veittar voru viðurkenningar fyrir stigahæstu sundmenn í hverjum flokk og urðu það eftirfarandi:

Bjarni Tristan Vilbergsson Neista í flokki sveina 11-12 ára með 60 stig Rebekka Sól Aradóttir Leikni í flokki meyja 11-12 ára með 46 stig Einar Bjarni Hermannsson Hetti í flokki drengja 13-14 ára með 66 stig Þórunn Egilsdóttir Þrótti í flokki telpna 13-14 ára með 44 stig

Í flokki telpna urðu Þórunn og Vala Jónsdóttir úr Austra raunar jafnar að stigum en úrskurðargrein þeirra á milli var 100 metra fjórsundið og þar hafði Þórunn haft betur.

Stigakeppni liða var óútreiknanleg en lið Austra hafði haldið stigabikarnum frá árinu 2006. Þegar upp var staðið máttu þó heimamenn sætta sig við annað sæti og lið Neista stóð uppi sem sigurvegari. Frábær árangur hjá ungu liði Neista. Úrslit stigakeppninnar voru þessi:

1. Neisti 360 stig
2. Austri 258 stig
3. Höttur 172 stig
4. Þróttur 126 stig
5. Leiknir 122 stig

ÓB 

 


Lið Neista á meistaramóti UÍA


Bjarni Tristan Vilbergsson, stigahæstur í flokki sveina 11-12 ára

Djúpavogshöfn - sú besta á landinu?

Maður nokkur heldur úti síðunni Aflafrettir.com. Sá heitir Gísli Reynisson og býr í Reykjanesbæ. Inn á þessa síðu skráir hann aflatölur hvaðanæva af landinu og gerir það á nákvæman og skemmtilegan hátt.

18. september sl. setti hann inn færslu fyrir septembermánuð yfir aflahæstu báta yfir 10 brúttótonnum. Hægt er að skrifa álit um færsluna og þar skrifar Hemmi nokkur eftirfarandi:

Er Daðey ekki að landa á Djúpavogi? Maður heyrir að þar sé besta löndunarþjónusta á landinu.

Þá skrifar maður að nafni Arnór inn eftirfarandi:

Góðan daginn. Nú er Kiddi Lár kominn aftur eftir stóra bilun og já það er besta löndunarþjónusta á dpv, það er allveg satt þeir á markaðinum á dpv eru þeir bestu í brasanum, það skal ég fullyrða og ég vil þakka þeim fyrir alla þessa góðu þjónustu, takk takk.

Undirritaður vildi endilega deila þessu með lesendum og drengirnir á Fiskmarkaðnum eiga sannarlega skilið hrós fyrir sína vinnu. Hvort þeir séu þeir bestu á landinu skal ég ekki dæma um, enda algerlega óhæfur til þess en það er alltaf gaman að sjá svona hrós eins og hér fyrir ofan.

Hægt er að skoða færsluna á Aflafrettir.com með því að smella hér.

ÓB

22.09.2009

Ertu með eitthvað á prjónunum? Prjónakaffi á Djúpavogi

Prjónakaffi verður í versluninni Við Voginn fimmtudaginn 24. september frá 20-22.
Verð 300 kr.
 
Þessi hittingur er haldinn fyrir alla sem hafa áhuga á prjónaskap og vilja prjóna í góðum félagsskap, spjalla, sjá hvað aðrir eru með á prjónunum og skiptast á gagnlegum og skemmtilegum hugmyndum.
Hvetjum byrjendur og lengra komna endilega til að mæta. Þaulvanar prjónakonur verða á staðnum með mikið af spennandi uppskriftum og góðum hugmyndum.

 

 

 

22.09.2009

Aðmíráll var það heillin!!

Hún Irene okkar var nú fljót að bera kennsl á fiðrildið sem var að flögra hér um í morgun.  Það mun heita aðmíráll og þekkist víða í Evrópu og Norður Afríku.  Eftirfarandi upplýsingar fann ég inni á vef Náttúrustofu Norðausturlands. 

Um aðmírálsfiðrildi hefur Gísli Már Gíslason, prófessor við Líffræðiskor Háskóla Íslands, skrifað á vísindavef háskólans (http://visindavefur.hi.is/?id=2131). Þar var spurt: "Geta aðmírálsfiðrildin sem berast hingað með heitum vindi lifað af sumarið á íslenskum blómum eða eru þau of auðveld bráð?" Svar Gísla fer hér á eftir:

"Fullvaxin fiðrildi lifa aðeins á blómasykri og ekki er ósennilegt að aðmírálsfiðrildi (Vanessa atalanta) geti sogið blómasykur úr blómum á Íslandi, sérstaklega stórum blómum í görðum. Náttúrulegt útbreiðslusvæði aðmírálsfiðrilda er í Suður-Evrópu, Norður-Afríku, á Mið-Atlantshafseyjum og í Norður-Ameríku. Aðalútbreiðslusvæði þeirra er í Norður-Afríku og þaðan fara þau í göngum norður til Evrópu. Þau geta tímgast á Bretlandseyjum og myndað sumarkynslóð, en lifa ekki af veturinn. Á Íslandi eru aðmírálsfiðrildi aðeins flækingar, fjölga sér ekki og lifa að sjálfsögðu veturinn ekki af, frekar en annars staðar í N-Evrópu.  HDH

Fyrsta grunnskólaheimsóknin

Elstu nemendur leikskólans fóru í árlegu grunnskólaheimsókn í síðastliðinni viku.  Þetta var fyrsta heimsókn vetrarins en í henni hitta kennara 1. bekkjar og nemendur sem sýna þeim skólann. Nemendur leikskólans hittu skólastjórann sem og aðra nemendur grunnskólans, þau borðuðu nesti og fóru í frímínútur.

 

Við borðuðum nesti og hlustuðum á sögu á meðan

Svo var farið í frímínútur

Við hittum skólastjóra grunnskólans

En þetta fannst okkur rosalega skrítið og spennandi

 

Fleiri myndir er hægt að sjá hér

 

ÞS

Til hamingju Djúpivogur

Steingrímur heitir maður og er Gunnarsson. Hann starfar á sumrin sem leiðsögumaður og á veturna kennir hann tungumál við framhaldsskóla. Hann dvaldi hér á Djúpavogi sl. vor í dágóðan tíma, fylgdist með fuglalífi enda mikill áhugamaður um verkefnið birds.is. Hann kneifaði í hófi öl á Hammondhátíð og var þátttakandi í mannlífinu þann tíma sem hann dvaldi hér. Steingrímur hefur velt upp hugmyndum eins og sjóbaði á Hvítasandi og jurtaskoðun á gönguleið sem mætti gera niður með gamla veginum við Olnboga. Hann er mjög áhugasamur um skútuhöfn á Djúpavogi og eins og ýmsir aðrir hefur hann hrifist af listaverkinu "Eggin í Gleðivík" sbr. bréfið hér að neðan.

ÓB


TIL HAMINGJU DJÚPIVOGUR!

Það þarf skapandi hugsun og áræði til að framkvæma verkefni eins og listaverkið Eggin í Gleðivík.  Framkvæmdin ber sveitarfélaginu ( og ykkur öllum íbúunum ) gott vitni sem framsæknu og menningarsinnuðu.

Gleymum ekki  þeirri staðreynd, að það er góð fjárfesting að fjárfesta í menningu og þá sérstaklega, þegar um er að ræða gæðaverk á borð við útilistaverk Sigurðar Guðmundssonar í Gleðivík. Ég er vissum að þetta verði mörgum smærri  sveitarfélögum hvatning til að fylgja ykkar fordæmi!

Ég hef verið leiðsögumaður til fleiri ára og veit af reynslu að listaverk á borð útilistaverk Sigurðar Guðmundssonar í Gleðivík mun eiga þátt í að auka ferðamannastraum til Djúpavogs, sem þýðir lengri viðdvöl og meiri verslun. Svona er það nú einfalt.

Enn og aftur til hamingju Djúpivogur og haldið áfram að efla sérstöðu ykkar. Þið eruð á góðri leið með að verða aðal ferðamannastaður Austulands.

Mbk.,

Steingrímur Gunnarsson,
leiðsögumaður og framhaldsskólakennari

21.09.2009

Furðu-fiðrildi

Í morgun þegar skólastjóri var úti ásamt nemendum 8.-10. bekkjar sáum við stórt fiðrildi flögra við skólann.  Við eltum það dágóða stund þar til það kom sér makindalega fyrir á einum vegg skólahúsnæðisins.  Skólastjórinn spretti úr spori og dreif sig inn til að sækja myndavél.  Þegar hann kom út aftur, skömmu síðar, var fiðrildið enn á sínum stað.  Þegar hann læddist nær til að ná mynd, þá breiddi fiðrildið út vængina og flögraði af stað aftur.  Við héldum í humátt á eftir því og náðum að fylgja því eftir á skólalóðinni.  Við vorum svo heppin að það kom auga á undurfagran fífil í blóma og settist á það til að gæða sér á gómsætu hunangi blómsins.  Þar náðist þessi fína mynd.  Þeir sem vita hvað þetta fiðrildi heitir, eru vinsamlegast beðnir um að senda okkur línu á dora@djupivogur.is  HDH

Föstudagsgátan

Sl. föstudag birtum við gátu eftir Baldur Gunnlaugsson. Gátan sú vakti mikla athygli og sendu 11 manns inn svar.

Hún hljóðaði svona:

Finnst á gólfi fótum troðin
færir yl í kroppinn þér.
Í góðri veislu gestum boðin,
gefur verk í fingur mér.

BG

Svarið var nafnorð í kvenkyni og var það að finna í öllum línunum. Þeir sem sendu inn svar eru:

Stefán Bragason
Maríus Þór Jónasson
Guðný Svavarsdóttir
Aðalsteinn Aðalsteinsson
Hrafnhildur Kristjánsdóttir
"Gömlu hjónin í Sæbakka" (Hrönn og Guðmundur)
Unnur Finnsdóttir,
Tinna Rún Ragnarsdóttir
Snæbjörn Sigurðarson
Hallgrímur Gíslason
Gunnar Þór Guðmundsson

Öll höfðu þau rétt svar, en það er orðið flís. Sum þeirra vildu þó bæta um betur og svara í gátu, sem er skemmtilegur siður.

"Gömlu hjónin" í Sæbakka ortu svo:

Gjörð úr leir á gólfi og veggjum.
Góð er flík úr efni því.
Skorin oft af læri og leggjum.
Leynist málmi og timbri í.

Snæbjörn Sigurðarson sendi þetta svar:

Á fínum gólfum flísar liggja,
fleece í kroppinn sendir yl.
Býð væna flís af feitum þiggja.
Hér flísatöng ég legði til.

Gólfflís - Flíspeysa - Kjötflís - Tré eða málmflís.

Við þökkum þeim sem tóku þátt og þökkum að sjálfsögðu Baldri fyrir afnotin af vísunni. Vonandi kemur hann til með að lána okkur fleiri í framtíðinni.

Hér að neðan er ný vísnagáta.


Ingimar Sveinsson kom askvaðandi hér á skrifstofuna í vikunni, vopnaður þessari fínu vísnagátu:

Maður einn heitir hey í röðum
og húsdýrin mörgu borða úr.
Þar gott fann ég kál með grænum blöðum,
góðmeti fékk í hverjum túr.
IS

Eins og Ingimar orðaði það þá "þarf lausnarorðið ekkert endilega að vera í hverri línu".

Svar sendist á djupivogur@djupivogur.is fyrir föstudaginn 25. september.

ÓB

18.09.2009

Styrkir til nýsköpunarverkefna

Auglýst hefur verið eftir umsóknum um styrki iðnaðarráðuneytisins undir yfirskriftinni Átak til atvinnusköpunar. Átak til atvinnusköpunar veitir styrki til nýsköpunarverkefna og markaðsaðgerða starfandi frumkvöðla- og nýsköpunarfyrirtækja. Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur umsjón með verkefninu fyrir hönd iðnaðarráðuneytisins.

Styrkir úr Átakinu eru veittir tvisvar á ári og er næsti umsóknarfrestur 29. september næstkomandi.

Umsóknir til Átaksins voru 230 vorið 2009. Þá var tæplega 44 milljónum úthlutað til 56 verkefna og voru styrkupphæðirnar frá 195.000 til 2.000.000 króna.

Nánari upplýsingar á vef Nýsköpunarmiðstöðvar

ÓB

17.09.2009

Jen Fe kynning á Djúpavogi

Á Hótel Framtíð næstkomandi föstudag, 18. september, mun Þorkell sem við Sæbakka er kenndur halda kynningu á Jen Fe Full Life One heilsu- og næringardrykknum.

Drykkur þessi er nýr sinnar tegundar á Íslandi, en hann er unninn úr náttúrulegum jurtum.  Árangurinn af notkun hans er náttúruleg og heilbrigð leið til aukinnar orku, betri einbeitingar og minni streitu án allra aukaverkana.

Kynningin hefst kl. 20:00 og eru allir velkomnir.  Gestum gefst bæði kostur á að kynna sér eiginleika drykkjarins og fá upplýsingar um hvernig hægt er að gerast dreifingaraðilar.

Einnig verður kynning á Hótel Framtíð laugardaginn 19. september kl. 16:00.

16.09.2009

DJÚPAVOGSHREPPUR AUGLÝSIR / STARF VIÐ HEIMAÞJÓNUSTU

Djúpavogshreppur auglýsir eftir starfsmanni í hlutastarf við heimaþjónustu (þéttbýli og dreifbýli).

Starfshlutfall ræðst af umfangi hverju sinni en áformað er að ráða í u.þ.b. 30 % starf í upphafi.

Starfið er laust frá og með 1. des. 2009.

Nánari upplýsingar veita:

Fráfarandi starfsmaður, Kristbjörg Eiríksdóttir, (846-8585 - fyrirkomulag)
Launafulltrúi Djúpavogshrepps, (478-8288 - launamál).

Umsóknir með upplýsingum um menntun, reynslu, fyrri störf og annað, er máli kann að skipta, berist skrifstofu Djúpavogshrepps eigi síðar en 9. okt. 2009.

Djúpavogi 15. sept. 2009;  

Sveitarstjóri

16.09.2009

Frá bókasafninu

Ég vil minna ykkur á að nú er vetraropnun bókasafnsins komin í gildi og verður í vetur opið eins og í fyrra, þ.e. á þriðjudögum frá 17:00 - 19:00 og fimmtudögum frá 19:30 - 21:30.  Töluvert hefur verið keypt af nýjum bókum og eigum við nú allar bækurnar í bókaseríunni eftir Anna B. Ragde (Berlínaraspirnar, Kuðungakrabbarnir og Á grænum grundum).  Fleiri bækur væntanlegar.  KBG

Bryggjulífið 09.09.09

9. september 2009 (09.09.09) var svosem ekkert frábrugðinn öðrum dögum á bryggjunni. Það má þó greina að nýtt fiskveiðiár sé hafið því "Vísisbátarnir" liggja nokkuð þétt við bryggjuna þessa dagana. 9. september voru tveir bátar sem komu inn til löndunar, Kristín og Jóhanna Gísladóttir. Á meðfylgjandi myndum má sjá kunnugleg andlit við löndun á síðarnefnda bátnum í dandalablíðu.

Myndirnar má sjá með því að smella hér.

ÓB

14.09.2009

Ásta Birna fær viðurkenningu á heimavelli

Sá frábæri árangur sem Ásta Birna Magnúsdóttir hefur náð í golfinu hefur að sjálfsögðu vakið umtalsverða athygli hér í heimbæ hennar á Djúpavogi, en síðustu tvö ár hefur Ásta slegið rækilega í gegn á helstu stórmótum hér innanlands. Að þessu tilefni þótti forsvarsmönnum sveitarfélagsins við hæfi þegar Ásta var stödd hér á heimaslóðum að heiðra hana með sérstökum hætti. 

Oddviti sveitarfélagsins Andrés Skúlason færði að þessu tilefni Ástu Birnu blómvönd í dag í ráðhúsinu Geysi með korti sem hafði eftirfarandi texta:

Ásta Birna Magnúsdóttir

Innilega til hamingju með stórglæsilegan árangur í íþrótt þinni.
Þú hefur verið  frábær fyrirmynd innan sem utan vallar og ert góð hvatning fyrir ungt íþróttafólk á Djúpavogi.

Íbúar Djúpavogshrepps eru stoltir af afrekum þínum og óska þér alls velfarnaðar og áframhaldandi frama í golfinu á innlendum- sem erlendum vettvangi  á komandi árum.

Áfram Ásta Birna

Baráttukveðjur
Íbúar Djúpavogshrepps

Þá færði oddviti Ástu Birnu nýjasta Neistagallann að gjöf frá félaginu og sagði oddviti að því tilefni í gríni að með þessu væri auðvitað verið að tryggja að hún gleymdi örugglega ekki gamla góða félaginu sínu og sagði þá Ásta að það væri að sjálfsögðu engin hætta á því.  

En hér skal skautað létt yfir helsta árangur Ástu Birnu síðustu tvö ár.

Á árinu 2008 náði Ásta Birna frábærum árangri en þá varð hún í 2 sæti í stigamótaröðinni og vann þar af eitt stigamótið, þá varð hún íslandsmeistari í holukeppni sama ár og þar að auki varð hún íslandsmeistari í sveitakeppninni með Golfklúbbnum Keili. Þá tók Ásta sömuleiðis þátt með Keili í Evrópumóti félagsliða í fyrra og urðu þær í 8 sæti af 15 liðum.

Í ár 2009 var árangurinn sömuleiðis frábær en þá varð Ásta í þriðja sæti í stigamótaröðinni og í öðru sæti í holukeppninni og vann síðan annað árið í röð sveitakeppnina með Keili.  Þann 20 sept. næstk. fer Ásta svo út og tekur þátt í Evrópumóti félagsliða annað árið í röð. 

Þegar Ásta var innt eftir því í dag hvert hugur hennar stefndi er ljóst að hún er ekkert að fara að slá af í golfinu þar hún er á förum til Þýskalands í vetur, nánar tiltekið til Lippstadt þar sem hún stefnir á að dvelja næstu 3 árin við golfæfingar við fullkomnar aðstæður, auk þess sem hún ætlar þar að leggja stund á nám í sjúkraþjálfun.

Um framtíðarmarkmið stefnir Ásta ekkert minna en að fara á úrtökumót seint á næsta ári fyrir Evrópsku mótaröðina.

Það verður því sannarlega spennandi að fylgjast með Ástu Birnu á næstu mánuðum og misserum og auðvitað óskum við hér að lokum Ástu Birnu alls hins besta á framabrautinni á komandi árum.  AS

 

Golfarinn Ásta Birna Magnúsdóttir og Andrés Skúlason oddviti í ráðhúsinu Geysi í dag

Ásta Birna fær Neistagalla í gjöf frá UMF. Neista

Svo var tekin mynd úti á lóðinni við Geysi með golfsettið

Og að sjálfsögðu tók Ásta Birna flotta sveiflu fyrir ljósmyndarann

Sveiflan flott með Búlandstindinn í baksýn

11.09.2009

Breytingar um gjaldskrá vegna félagslegrar heimaþjónustu

Á fundi sveitarstjórnar Djúpavogshrepp, 3. september sl., var eftirfarandi bókun gerð:

Breytingar á gjaldskrá vegna félagslegrar heimaþjónustu. Fyrir liggur bréf frá Félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs, Fljótsdalshrepps, Vopnafjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Borgarfjarðar-hrepps og Seyðisfjarðarkaupstaðar, dags. 27. ágúst 2009 um nýja gjaldskrá, sem tekur gildi 2. sept. og kemur til framkvæmda 15. okt. 2009. Sveitarstjórn staðfestir gjaldskrána fyrir sitt leyti og samþykkir að birta hana á heimasíðu sveitarfélagsins.

Breytta gjaldskrá má sjá með því að smella hér.

ÓB

11.09.2009

Föstudagsgátan

Þann 12. júní sl. birtum við vísnagátu eftir Ingimar Sveinsson og finnst undirrituðum ekki úr vegi að fara að birta svarið við henni.

Vísnagátan var sannarlega í erfiðari kantinum en þrátt fyrir það bárust inn tvö svör og voru bæði rétt.

Gátan var svona:

Ég ók frá Höfn og austur í Lönd,
er æði skrýtið vopn ég sá.
Það blasti við mér á hægri hönd,
en huldi að nokkru þoka grá.

IS

Ingimar spurði: Hvert var ég að fara og hvað sá ég?
Til að koma lesendum á sporið fannst okkur rétt að upplýsa að Ingimar var að keyra frá Höfn í Hornafirði austur í Lönd í Stöðvarfirði og spyr um örnefni á hægri hönd.

Bj. Hafþór Guðmundsson reyndi einnig að koma fólki á sporið með að semja vísu um svarið og hver veit nema það hafi hjálpað þeim sem sendu inn rétt svar. Vísa sveitarstjórans um svarið var svona:

Eyjar nafnið mun einatt það,
eystra og vestra þess finnur stað.
Spakir nefna það spjót og sverð
spegilpússað af bestu gerð.

BHG

Þeir sem sendu inn rétt svar voru Guðný Svavarsdóttir og Baldur Gunnlaugsson en svarið er Vigur. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.


Hér fyrir neðan er ný vísnagáta, einmitt eftir áðurnefndan Baldur Gunnlaugsson.

Finnst á gólfi fótum troðin
færir yl í kroppinn þér.
Í góðri veizlu gestum boðin,
gefur verk í fingur mér.

BG

Svarið er nafnorð í kvenkyni og er það að finna í öllum línunum.

Svör sendist á djupivogur@djupivogur.is

ÓB

11.09.2009

Djúpavogsbúar athugið

Fyrirhugað er að halda námskeiðið „Fjölvirki“ á Djúpavogi nú í haust. Fjölvirkjanámið er ætlað lykilstarfsmönnum í iðnaðar-, framleiðslu- og þjónustufyrirtækjum, 20 ára eða eldri og hafa stutta skólagöngu að baki. Með náminu er ætlunin að auka bæði persónulega og faglega hæfni starfsmanna.

Helstu námsþættir sem kenndir verða á námskeiðinu eru námstækni, þjónusta og gæðamál, frumkvöðlafræði, skyndihjálp, hagnýt íslenska, enska og gönguleiðsögn. Einnig er hægt að skoða námsvísi Þekkingarnets Austurlands á heimasíðunni  www.fna.is

Námskeiðið stendur frá september til loka nóvember . Kennt verður seinni hluta dags og á kvöldin.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að afla sér enn frekari upplýsinga um námið er hægt að hafa samband við ferða- og menningarmálafulltrúa Djúpavogshrepp, Bryndísi, með því að koma á skrifstofu Djúpavogshrepps föstudaginn 12.september frá kl. 10:00-15:00.
BR

10.09.2009