Djúpivogur
A A

Fréttir

Ferðasýning 2009

 

 

Smellið hér til að sjá myndir

29.05.2009

Fundarboð 02.06.2009

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps:  Fundarboð  02. 06. 2009

Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Djúpavogshrepps þriðjud. 2. júní 2009 kl. 16:00. Fundarstaður: Hótel Framtíð.

Dagskrá:

1.    Fjárhagsleg málefni, stofnanir o. fl.:

a)    Ársreikningar Djúpavogshrepps 2008.
b)    Fjárhagsáætlun Djúpavogshrepps fyrir 2009. Endurskoðun, fyrri umræða.
c)    Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun 2009 til endurskoðunar.
d)    Gatnagerðagjöld v/ Varða 18, staða mála (uppl. lagðar fram á fundinum).
e)    Niðurfellingar 31. 12. 2008 skv. lista (lagður fram á fundinum).
f)    KPMG, 18. maí 2009; bréf vegna stjórnsýsluendurskoðunar.
g)    Endurb. Faktorshúss, staða mála eftir heimsókn ráðgjafa 27. maí.

2.    Fundargerðir / afgreiðslumál frá nefndum:

a)    Samstarfshópur o.fl. v/ áforma um sameiningu D & F 19 maí 2009.
b)    Minnispunktar v/ fundar starfshóps SSA með sveitarstjórn Djúpavogshrepps, 15. maí.

3.    Málefni Helgafells
4.    Kosningar

a)    Oddviti til eins árs.
b)    1. varaoddviti til eins árs.
c)    2. varaoddviti til eins árs.

5.    Erindi og bréf:

a)    Austurfjarðatröllið 2009, styrkbeiðni.
b)    SÁÁ, styrkbeiðni, maí 2009.
c)    Samgönguráðuneytið varðandi árseikninga sveitarfélaga, 12. maí.
d)    Landhelgisgæslan, 15. maí 2009.
e)    Félags- og tryggingamálaráðuneytið, 15. maí.
f)    Menntamálaráðuneytið, dags. 12. maí.
g)    Skipulagsstofnun, 17. apríl 2009.
h)    Íþróttaþing ÍSÍ, ályktanir 18. apríl 2009.
i)    Samgönguráðuneytið, efling sveitarfélaga, dags. 8. maí 2009.

6.    Skýrsla sveitarstjóra


Djúpavogi 28. maí 2009;

Sveitarstjóri

29.05.2009

Býr listamaður í þér ? - Samkeppni um merki SVD Báru

Býr listamaður í þér ?

Ef svo er þá vekjum við sérstaka athygli á neðangreindu:

Björgunarsveitin Bára efnir til samkeppni um nýtt merki félagsins. Merkið verður meðal annars notað á fatnað björgunarsveitarmanna, búnað félagsins og auglýsingar frá félaginu. Merkinu er ætlað að lýsa starfsemi félagsins á einn eða annan hátt.

Verðlaunahafi fær 20 þúsund króna gjafabréf á flugeldamarkað Slysavarnadeildarinnar Báru.

Tekið skal fram að félagið áskilur sér rétt til þess að hafna öllum tillögum eða gera breytingar á vinningstillögu í samráði við höfund þess. Stjórn félagsins mun velja vinningsmerkið en þó án þess að vita fyrirfram hver höfundur þess er. Farið verður með allar hugmyndir sem trúnaðarmál.

Tillögum skal skilað á netfangið djupivogur@djupivogur.is eða á skrifstofu Djúpavogshrepps fyrir 5. júní nk.

Stjórn SVD Báru

 

 

29.05.2009

Frá Íþróttamiðstöðinni

Íþróttamiðstöðin / sundlaugin verður lokuð föstudaginn 29.maí vegna skyndihjálparnámskeiðs starfsfólks.
Mánudaginn 1.júní (annar í hvítasunnu) verður opið frá 10:00 - 16:00.

Frá og með júní hefst sumaropnun og þá lengist opnunartíminn þ.e. opið í hádeginu og frá 10:00 - 18:00 laugardaga og sunnudaga allt til loka ágúst.

Útilaugin / setlaugin verður opnuð í lok næstu viku.

                                   Sjáumst hress og kát í sundi í sumar    
                                            Starfsfólk ÍÞMD      

 

 

 

 

 

 

                                                                

28.05.2009

Bæjarlífið maí 2009

Hann er gríðarlega fjölbreyttur bæjarlífspakkinn þennan mánuðinn.

Smellið hér til að skoða hann.

ÓB

27.05.2009

Uppbygging fuglaferðaþjónustu á Suðausturlandi

Uppbygging fuglaferðaþjónustu á Suðausturlandi

Í vetur hefur hópur aðila frá Djúpavogshreppi og úr Sveitarfélaginu Hornafirði hist og markað stefnu í
uppbyggingu fuglaferðaþjónustu. Markmið hópsins er að Suðausturland verði í auknum mæli markaðssett sem áhugavert svæði til fuglaskoðunar. Vinna hópsins hefur leitt til þess að formlega verður stofnaður klasi til að stuðla að framgangi verkefnisins.

Tækifæri Suðausturlands eru mikil á þessu sviði, fuglalíf á svæðinu er áhugavert og náttúrufegurð skapar sérstakt umhverfi til fuglaskoðunar. Stór hluti svæðisins fellur undir skilgreind IBA svæði. Margvíslegur ávinningur felst í fuglaferðaþjónustu. Má þar einkum nefna viðskiptatækifæri í skipulagningu og sölu fugla og náttúruskoðunarferða, auk þess sem slík starfsemi myndi auka  tekjur ferðaþjónustunnar með betri nýtingu á jaðartíma, en fuglalíf á Suðausturlandi er áhugaverðast að vori og hausti. Fugla og náttúruskoðun myndi auka  þekkingu á umhverfinu og efla umhverfisvitund og svarar þannig ört vaxandi þörf fyrir fræðslutengda og sjálfbæra ferðaþjónustu.

Opinn stofnfundur félagsins fer fram fimmtudaginn 28. maí í Nýheimum á Höfn og hefst fundurinn klukkan 13:00. Á fundinum verður verkefnið kynnt og kosið í stjórn.

 

Allir áhugasamir eru hvattir til að kynna sér verkefnið og taka þátt í samstarfinu.
 


 

 

 

Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins

Þann 1. júní næstkomandi er von á fyrsta skemmtiferðaskipi sumarsins en það heitir Spirit of Adventure og er með 350 farþega.  Ákveðið hefur verið að hafa opinn markað þennan dag með ýmiss konar vörur til sölu t.d. minjagripi og  íslenskt handverk en einnig svæðisbundnar matvörur s.s. hákarl, sultu og fleira þess háttar.

Því vil ég biðja alla þá, sem áhuga hafa á því að selja vörur sínar, að tilkynna þátttöku á netfangið bryndis@djupivogur.is eða í síma 478-8228 sem fyrst, í síðasta lagi fyrir kl.12:00 fimmtudaginn 28. maí.

Ferða-og menningarmálafulltrúi Djúpavogshrepps

26.05.2009

Móttaka fyrir Hröfnu Hönnu

Hrafna Hanna Elísa Herbertsdóttir, nýjasta Idol-stjarna Íslands sneri heim á Djúpavog í síðustu viku og af því tilefni var ákveðið að taka á móti henni í Djúpavogskirkju. Fór móttakan fram kl. 20:30 miðvikudaginn 20. maí að viðtsöddu fjölmenni, því hátt í hundrað manns mættu, sem má teljast gott þar sem fyrirvarinn á móttökunni var ekki nema nokkrir klukkutímar.

Bj. Hafþór Guðmundsson, sveitarstjóri ávarpaði samkomuna og lýsti yfir ánægju sinni með þennan árangur Hröfnu og óskaði henni innilega til hamingju fyrir hönd allra íbúa hreppsins. Þá sagði Bryndís Reynisdóttir, ferða- og menningarmálafulltrúi nokkur orð og leysti Hröfnu út með gjöfum og blómi (tek fram að það var í eintölu, þar sem blómvöndurinn sem átti að gefa henni var á leiðinni frá Egilsstöðum).

Hrafna endaði síðan dagskrána með því að þakka fyrir sig og taka lagið Alla leið við mikinn fögnuð viðstaddra.

ÓB

 


G
Guðný og Binni bíða spennt eftir Idolstjörnunni


Fólk að týnast í salinn


Bj. Hafþór ávarpar viðstadda


Hrafna tekur við gjöfum frá Hafþór og Bryndísi


Lagið tekið


Hrafna ásamt Sjöfn Jóhannesdóttur, sóknarpresti sem sagði nokkur vel valin orð í lok móttökunnar

25.05.2009

Pub-Quiz í Löngubúð

Pub-Quiz verður haldið í Löngubúð laugardaginn 23. maí.

Húsið opnar kl. 21:00

Langabúð

23.05.2009

Föstudagsgátan

Við birtum nú nýja vísnagátu eftir Hrönn Jónsdóttur úr Sæbakka, en eftir því sem sveitarstjórinn segir þá er lausnin "hrein snilld".

Þessi er ekki síður djúpt hugsuð en ýmsar þær fyrri, sem við höfum birt. Lausnaroðin eru 4, eitt fyrir hverja línu og snúast um að menn kunni að telja og ríma.

Rím kemur sem sagt við sögu, einkum framan af, en er reyndar "afsleppt" í lokin.

Það gerist ekki betra.

Með fimm þú hittir mey og fuglinn fleyga,
með fjórum annað konunafn og bein.
Með þremur er hún búin barn að eiga,
blítt með tveim þá raular stundum ein.

HJ

Lausnarorð berist á djupivogur@djupivogur.is fyrir föstudaginn 29. maí.

ÓB

22.05.2009

Ferðafélag Djúpavogs auglýsir

Ferðafélag Djúpavogs stendur fyrir ferð út í Brimilsnes, fimmtudaginn 21. maí.

Farastjóri verður Bj. Hafþór Guðmundsson.

Mæting Við Voginn kl. 18:00.

Allir velkomnir.

Ferðafélag Djúpavogs

20.05.2009

Ratleikur 2009

Hinn árlegi ratleikur í skólanum fór fram fyrir viku.  Nú loksins er skólastjórinn búinn að koma því í verk að fara í gegnum myndirnar og koma þeim á heimasíðuna. 
Mjög gaman var í leiknum að þessu sinni, eins og reyndar alltaf.  Nemendum skólans var skipt í sex lið, þvert á bekki.  Þemað að þessu sinni var grenndarnám.  Nemendur þurftu að fara á 11 mismunandi stöðvar í þorpinu og fengu vísbendingar á hverri stöð um það hvert skyldi halda næst.  Á hverri stöð fyrir sig þurftu krakkarnir að leysa ákveðin verkefni, t.d. greina fiska á Fiskmarkaðnum, tré í trjálundinum hjá Erlu og Ingimar, steina í Steinagötunni, skordýr við Fýluvog, fjöll uppi á Bóndavörðu, fuglahljóð inni í skóla, egg við fuglasafnið o.s.frv. 
Þegar allir hóparnir voru komnir upp í skóla tók síðasta þrautin við uppi á sparkvelli.  Þar þurftu liðin að leika eitt örnefni hvert.  Örnefnin sem hóparnir drógu um voru:  Fýluvogur, Hvíldarklettur, Kýrklettur, Hlauphólar, Hamarsá og Gleðivík.  Útfærslur hópanna á örnefnunum voru alveg frábærar og greinilegt að hugmyndaflugi þeirra eru engin takmörk sett.  Sigurvegarnir fengu að launum ísveislu í Við Voginn.  Myndir eru hér.  HDH

Hrafna kemur heim

Í kvöld kl.20:30 verður tekið á móti nýjustu Idol stjörnu Íslands, Hröfnu Hönnu Elísu Herbertsdóttur í Djúpavogskirkju.

Hvetjum alla Djúpavogsbúa til þess að mæta og fagna þessum frábæra árangri hjá Hröfnu.

20.05.2009

90 ára afmæli Neista

Ungmennafélagið Neisti fagnaði um síðustu helgi 90 ára afmæli. Af því tilefni var slegið upp heljarinnar veislu á Hótel Framtíð, þar sem um 150 manns mættu til að taka þátt í frábærri dagskrá. 

Krakkar úr grunnskólanum lásu upp ágrip af sögu Neista, skólakór Grunnskólans söng nokkur lög, sveitarstjóri Djúpavogshrepps flutti ávarp sem og formaður UÍA og viðurkenningar voru veittar því íþróttafólki sem þótti hafa staðið upp úr á árinu 2008.

Auk þess var 7. og 8. bekkur grunnskólans með tombólu, en óhætt er að segja að þeir vinningar sem í boði voru hafi runnið út á mettíma.

Að sjálfsögðu var dýrindis bakkelsi og meððí og fóru allir saddir og sælir heim eftir skemmtilega dag.

Myndir má sjá með því að smella hér.

Texti: ÓB
Myndir: AS/ÓB

20.05.2009

Tónlist fyrir alla - Hundur í óskilum

Í gær heimsótti grunnskólann dúettinn Hundur í óskilum. Heimsóknin er liður í verkefninu Tónlist fyrir alla og er óhætt að segja að þeir félagar hafi vakið mikla lukku meðal nemenda og kennara með stórkostlegum flutningi á klassískum tónlistarperlum, sem þeir voru aðeins búnir að lagfæra eftir sinni uppskrift.

Við þökkum þeim Eiríki og Hjörleifi kærlega fyrir tónleikana og vonumst til að fá þá aftur sem fyrst í heimsókn.

Myndir má sjá hér.

ÓB

 

Idol stemmning á Hótel Framtíð

Meðfylgjandi myndband sendi Norvald Sandö okkur. Hann var svo snjall að vera með vídeóvél á samkomu Djúpavogsbúa á Hótel Framtíð þegar úrslitakvöld Idol stjörnuleitar fór fram. Myndbandið sýnir semsagt viðbrögðin í salnum á hótelinu þegar úrslitin voru tilkynnt. Óhætt er að segja að stemmningin hafi verið gríðarleg.

Þið smellið bara á "play" takann á spilaranum fyrir neðan.

Við þökkum Norvald kærlega fyrir að senda okkur þetta myndband.

ÓB

18.05.2009

HRAFNA HANNA IDOL STJARNA ÍSLANDS 2009

Hrafna Hanna Elísa Herbertsdóttir frá Djúpavogi var í kvöld krýnd Idolstjarna Íslands 2009 eftir harða keppni við Önnu Hlín Sekulic.

Keppnin var sannarlega hnífjöfn og báðar stóðu þær sig frábærlega en Hrafna hefur greinilega náð að hrífa þjóðina með sér með einlægum, öruggum og kraftmiklum flutningi. Hún söng þrjú lög; Ticket to the moon, Alla leið og Ég elska þig enn og stóð sig frábærlega í öllum lögunum.

Djúpavogsbúar fjölmenntu á Hótel Framtíð, en það lætur nærri að þar hafi verið um 120 manns, stemmingin gríðarleg og þakið ætlaði bókstaflega af húsinu þegar úrslitin voru tilkynnt.

Við hér á fréttasíðunni, fyrir hönd allra íbúa í Djúpavogshreppi, óskum Hröfnu Hönnu innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur. Hún er sannarlega búin að vera okkur til mikils sóma.

Meðfylgjandi myndir voru teknar í kvöld á Hótel Framtíð. Undirritaður biðst afsökunar á því hversu dökkar myndirnar eru sem teknar voru yfir salinn en þær segja vonandi sitt. Hægt er að smella á hverja mynd til að sjá hana í stærri upplausn.

ÓB

15.05.2009

Hrafna Hanna í úrslitum Idol stjörnleitar í kvöld

Jæja, þá er komið að því.

Hrafna Hanna Elísa Herbertsdóttir tekur þátt í úrslitum Idol stjörnuleitar í kvöld kl. 20:00. Hún komst eftirminnilega í gegnum undanúrslitin fyrir síðustu viku og etur kappi við Önnu Hlín Sekulic um nafnbótina Idol stjarna Íslands.

Hvor keppandi mun syngja þrjú lög í kvöld; eitt að eigin vali, eitt sem dómnefndin velur og síðan eitt sem samið var sérstaklega fyrir þetta kvöld.

Hrafna mun syngja að eigin vali ELO lagið Ticket to the moon og dómnefndin vill heyra hana syngja Ég elska þig enn eftir Magnús Eiríksson. Lagið sem samið var fyrir keppendur heitir Alla leið eftir Örlyg Smára en textinn er eftir Páll Óskar.

Stelpurnar tvær voru beðnar um að velja sína uppáhaldsflutninga í keppninni hingað til og valdi Hrafna eftirtalin lög (smellið á þau til að hlusta)

Heartache tonight
Sound of silence

Bæjarbúar eru hvattir til að fjölmenna á Hótel Framtíð í kvöld og styðja Hröfnu. Á hótelinu verða pizzatilboð o.fl.

Kosninganúmer Hröfnu í kvöld er 900-9002.

Áfram Hrafna!

ÓB
Myndir: visir.is

15.05.2009

Heldra líf á Bifröst

Háskólinn á Bifröst stendur fyrir áhugaverðri nýjung í sumar fyrir aldurshópinn 60+.

Um er að ræða 5 daga dagskrá á Bifröst þar sem boðið verður upp á ýmis fræðsluerindi, skemmtun og útivist. Í boði verður gisting í háskólaþorpinu, fullt fæði og fjölbreytt dagskrá frá 8.-12. júní.

Áhersla verður lögð á fræðslu og ráðgjöf um málefni líðandi stundar, útivist í einstöku umhverfi skólans og skemmtilegar samverustundir á kvöldvökum þar sem m.a. Gunnar Þórðarson, tónskáld kemur fram.

Meðal fræðsluerinda verða:

•    Ágúst Einarsson, rektor Háskólans á Bifröst fjallar um framtíðarhorfur í íslensku efnahagslífi
•    Bryndís Hlöðversdóttir, forseti lagadeildar fjallar um stjórnlagaþing
•    Jón Ólafsson, forseti félagsvísindadeildar fjallar um hvernig byggja megi réttlátara samfélag
•    Eiríkur Bergmann Einarsson, dósent og forstöðumaður Evrópufræðaseturs fjallar um kosti og galla inngöngu Íslands í Evrópusambandið
•    Lára V. Júlíusdóttir, hrl. og stundakennari við Háskólann á Bifröst fjallar um almannatryggingar og réttindi eldri borgara
•    Sr. Elínborg Sturludóttir, sóknarprestur í Stafholti, fjallar um lífsgleði og lífsgæði á óvissutímum

Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðu skólans www.bifrost.is.
Hikið ekki við að hafa samband ef þið hafið einhverjar spurningar eða ábendingar.

Bækling um dagskrána er hægt að sjá með því að smella hér.

14.05.2009

Idolkvöld á Hótel Framtíð

Auglýsing frá Hótel Framtíð. Smellið á myndina fyrir neðan til að stækka.

 

 

 

 

 

 

 

13.05.2009

Skólastjórinn fertugur

Skólastjórinn okkar, Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir, fagnaði þann 3. maí síðastliðinn merkisafmæli. Hún fékk heldur betur óvænta afmælisgjöf frá samstarfsfélögum sínum er hún var á leið í vinnu því þá var búið að setja upp fána með hamingjuóskum á og einnig var búið að setja stóra mynd af Dóru yfir bæjarskiltið, sem stendur við vegamótin.  Uppátækið vakti heilmikla kátínu meðal bæjarbúa, enda ekki á hverjum degi sem samstarfsfélagar gefa slíkar óvæntar afmælisgjafir.

Við vildum endilega birta mynd af þessu uppátæki og um leið óska Halldóru Dröfn innilega til hamingju með árin 40.

BR

 

13.05.2009

Entrepreneurship course for immigrants in East Iceland, 16th to 30th May...

Frumkvöðlanámskeið fyrir innflytjendur - 16. - 30. maí 2009
Félagsmálaráðuneytið

Námið er skipulagt þrjá laugardaga í maí þar sem þátttakendur fá þjálfun í þróun viðskiptahugmynda, gerð viðskiptaáætlunar,
fjármögnun og samningatækni. Gert er ráð fyrir að nemendur vinni drög að viðskiptaáætlun með aðstoð leiðbeinanda.
Námskeiðið er 24 klst. á laugardögum frá kl. 10-16, eftirfarandi laugardaga:
16. maí: Viðskiptahugmyndin: Hugmyndir og viðskiptahugmyndir, hugmyndaleit, stefnumótun, markmiðasetning  og vöruþróun.    Kynning á forsniði viðskiptaáætlunar og öðrum hjálpargögnum s.s. excelskjölum. Vinnusmiðja og leiðsögn.  
23. maí
:  Viðskiptaáætlun hvað er það? Markaðsgreining, markaðsrannsóknir og markaðsáætlun. Fjármögnun, samskipti við fjármálastofnanir og kynningatækni. Vinnusmiðja með leiðsögn. Gestafyrirlesari frá Þróunarfélagi Austurlands. 
30. maí:  Kynning á viðskiptahugmyndum þátttakenda: Upprifjun á efni fyrri tíma og farið í sölu- og samningatækni. Vinnusmiðja. Kynning á viðskiptahugmyndum fyrir mögulegum fjármögnunaraðilum - útskrift.

Leiðbeinandi á námskeiðinu er G. Ágúst Pétursson.

Eftir námskeiðið gefst þátttakendum kostur á að nýta sér aðstoð atvinnuráðgjafa hjá Þróunarfélagi
Austurlands. Námskeiðið er styrkt af félagsmálaráðuneytinu en þátttökugjald er 9.000 krónur.
Skráning er á www.tna.is, í netfang tna@tna.is og í síma 471-2838 en skráningar þurfa að
berast eigi síðar en 14. maí.

Hægt er að fá styrki úr starfsmenntasjóðum stéttarfélaganna og hjá Vinnumálastofnun fyrir atvinnuleitendur.

Entrepreneurship course for immigrants in East Iceland, 16th to 30th May 2009

The course is 24 teaching hours held three Saturdays in May from 10 to 16. Participants are assisted in developing their own business ideas and get training in drafting and introducing their own business plan.

16th May: Searching for opportunities. Choose the best project. Entrepreneurs, strategic planning and situation analyze. The business concept and R&D. Work shop. 
23th May: The business plan: Marketing and practical work. Financial analyzes and financial plans. What is the key to a good presentation and public speaking? Sales technique and negotiation skills. Guest lecturer from the Development Centre of East-Iceland. Work shop.
30th May: Introduction of business ideas: Work shop on finalizing introduction and presentation from each participant before possible investors and financial institutions. And finally the celebration.

The Development Centre of East Iceland offers participants free consultation on developing their business ideas after the course. The course is supported by the ministry of social welfare. Registration fees are Iskr. 9.000. Registration is available on www.tna.is, by e-mail at tna@tna.is and phone 471-2838, deadline for registration is 14th of May

Participants can apply for a support to pay the registration to their labor unions and the Unemployment Office.

12.05.2009

Til áréttingar / Opnun Safnstöðvar Djúpavogshrepps á næstu grösum

Kæru íbúar Djúpavogshrepps

Sem kunnugt er hefur Djúpavogshreppur um nokkurt skeið unnið með fyrirtækinu Sagaplast ehf. á Akureyri að undirbúningi þess að koma upp aðstöðu á Djúpavogi til flokkunar á efnum sem falla til frá heimilum og fyrirtækjum í sveitarfélaginu og nú styttist óðum í að þetta mikla framfaramál komist á laggirnar. Þann 1. júní næstk. mun Djúpavogshreppur opna móttökustöð í Gleðivík innri, en móttökustöð þessi mun framvegis bera nafnið
Safnstöð Djúpavogs.
  Í Safnstöð Djúpavogs munu íbúar geta á öllum tíma dags farið með flokkuð skilgreind efni.

Flokkað verður í 5 lúgur með eftirfarandi efnum:

Bylgjupappi - Sléttur pappi - Dagblöð - Plast - Málmur.

Varðandi ofangreind flokkunarefni skal hér bent á tengla hjá Sorpu til upplýsingar sem koma að góðu gagni, en þar  er hægt að lesa sig til um hvernig skal athafna sig við flokkunina.  Smellið hér á tenglana http://sorpa.is/Endurvinnsla/Flokkun-urgangs/ og http://sorpa.dev20.dacoda.is/resources/Files/Myndbond/Fernur_512K_ADSL_00141.wmv

Undirritaður telur mjög mikilvægt að kynna mál þetta vel fyrir íbúum svo sett markmið náist með flokkuninni þ.e. að dregið verði allt að 80% úr urðun á úrgangi frá sveitarfélaginu og það er sannarlega til mikils að vinna.
Forsenda þess að góður árangur náist er að íbúar taki breytingunum með jákvæðum huga og að allir taki virkan þátt frá fyrsta degi og flokki samviskusamlega.
Reynslan hefur sýnt að flokkun verður fljótt jafn sjálfsagður hluti af heimilisverkunum og önnur verk.

Hér á heimasíðunni verður reglulega sett inn efni til áréttingar og frekari upplýsingar allan maímánuð og mun málið því verða kynnt eins vel og framast er kostur.
Þá verður sent út upplýsandi kynningarefni þegar líður á maí mánuð á hvert heimili í sveitarfélaginu vegna flokkunarinnar.  Þar sem tæplega mánuður er nú í formlega opnun á Safnstöðinni er ekkert að vanbúnaði fyrir íbúa sveitarfélagins og fyrirtæki að byrja að flokka strax þau skilgreindu efni sem hér er getið að ofan. Það velur hver sitt ílát til að flokka í heimafyrir og gildir þá einu hvort menn nota gamla góða svarta ruslapokann eða önnur varanlegri ílát undir þessa fimm flokka sem getið er hér að ofan.
Minnt skal á að heimilistunnan verður áfram notuð en þar eiga aðeins að fara hin óflokkanlegu efni frá og með 1.júní næstk. Hin óflokkanlegu efni verða skilgreind nánar í kynningarefni þegar nær dregur opnun Safnstöðvarinnar.

Þá er rétt að benda hér íbúum á frábæra lausn sem er  jafnframt mjög einföld varðandi heimamoltugerð, sjá hér nánar. http://www.landvernd.is/myndir/safnhaugur_letingjans.pdf 
Með lausn sem þessari má segja að íbúar stuðli að hinni fullkomnu endurnýtingu, þar sem matarafgangar verða á tveimur árum að fullkominni gróðurmold.

Fyrstu viðbrögð íbúa vegna fyrirhugaðar flokkunar hafa verið mjög jákvæð og er undirritaður þess fullviss að íbúar Djúpavogshrepps vilji sýna fram á góðan árangur í þessum málum og standa allir sem einn að baki slagorðinu:
"Djúpivogur vistvænn og vinalegur" 
Tökum því höndum saman og sláum öllum öðrum sveitarfélögum við í þessum efnum.

 

Formaður umhverfisnefndar Djúpavogshrepps
Andrés Skúlason

P.S. Sjá hér að neðan myndir þegar tekið var forskot á sæluna í dag og einn tilraunabaggi var pressaður.

 

 

 

 

Myndir teknar í dag þegar pressan var prófuð með góðum árangri í fyrsta sinn, sjá pappahauginn áður en 
pressan fór í gang.  


Það fer lítið fyrir pappahaugnum þegar búið er að pressa hann. Gunnar Garðarsson frá Sagaplast efh sýnir
hvernig græjan virkar.


Magnús K og Gunnar G með fyrsta pressaða baggann.  Svo menn átti sig á hve umfangið er minnkað mikið með
pressunni þá er hæfilegt að taka bylgjupappa úr 4 - 5 fullum stórum mjölpokum og pressa í einn bagga eins og sjá má hér á mynd.  Flutningskostnaður verður því eðli málsins samkvæmt aðeins brot af því sem 
var þegar allt var sett í urðun.   Hér má sjá staðsetningu Safnstöðvar Djúpavogs sem tekur formlega til starfa frá og með 1.júní næstk.
Á þak hússins með rauða punktinum verða settar 5 lúgur til að flokka inn um.

10.05.2009

Ferðafélag Djúpavogs - Fjöruferð

Ferðafélag Djúpavogs efnir til fjöruferðar sunnudaginn 10. maí.

Farið verður frá "Við Voginn" kl. 9:30. Ætlunin er að ganga frá Stapavík að Þangbrandsbryggju. Allir velkomnir

Vonumst til að sem flestir komi með.

Nánari upplýsingar veitir Þórunnborg í síma 868-9925

09.05.2009

Hrafna Hanna í undanúrslitum Idol í kvöld

Í kvöld fara fram undanúrslit í Idol stjörnleit á Stöð 2. Þar keppir Hrafna Hanna Elísa Herbertsdóttir, Djúpavogsbúi, um að komast í sjálfan úrslitaþáttinn í þessari ágætu keppni. Tvær aðrar stúlkur, þær Anna Hlín Sekulic og Guðrún Elísa Einarsdóttir taka þátt í undanúrslitunum og mun ein þessara þriggja detta út í kvöld eftir símakosningu.

Í kvöld er Eurovision-þema og ætlar Hrafna að spreyta sig á lögunum All kinds of everything sem írska söngkonan Dana söng árið 1970 og Þér við hlið sem Regína Ósk söng í íslensku undankeppni Evróvisjón árið 2006.

Hrafna verður önnur á svið í kvöld og er kosninganúmer hennar 900-9002.

Síðustu vikur hefur staðið yfir söfnun fyrir Hröfnu sem Tónleikafélag Djúpavogs stendur fyrir og var m.a. stofnaður söfnunarreikningur í Sparisjóðnum. Tónleikafélag Djúpavogs styrkti Hröfnu um 20.000 og skoraði á fyrirtæki og félagasamtök í Djúpavogshreppi að jafna þá upphæð. Nú þegar hafa nokkrir ákveðið að taka þessari áskorun og er það vel. Áskorun Tónleikafélagsins stendur enn og er þeim fyrirtækjum og félagasamtökum sem taka vilja áskoruninni bent á að hægt er að leggja inn frjáls framlög á reikning 1147-05-546 á kennitölu 120987-3059.

Áfram Hrafna Hanna!

 


Guðrún, Anna og Hrafna / mynd visir.is

08.05.2009

Föstudagsgátan

Fá svör hafa borist við vísnagátu Ingimars Sveinssonar, sem við birtum sl. föstudag. Við birtum hana því aftur nú.

Lausnarorðið er nafnorð sem lesa má úr fyrstu tveimur línunum saman og svo 3. og 4. línu.

Stranga gekk ég yfir á,
undarlega við mér brá.
Hún var eins og hvassast sverð,
hverfa því á brott ég verð.

IS

Lausnarorðið má senda á netfangið djupivogur@djupivogur.is fyrir föstudaginn 15. maí.

ÓB

08.05.2009

Námshestar í apríl

Námshestaverðlaun fyrir aprílmánuð voru veitt í gær.  Það er gaman að segja frá því að frá því verkefnið fór af stað í febrúar hefur bæting ástundunar og hegðunar verið mikil.  Í febrúar voru 53% nemenda Námshestar, í mars 58% og nú í apríl voru það 79% nemenda sem unnu sér inn verðlaun.
Unnur og Halldóra voru búnar að undirbúa leik og nesti og fóru með 19 nemendur 5. - 9. bekkjar inn í Hálsaskóg.  Þar skiptu þær krökkunum í fjögur lið.  Leikurinn fólst í því að finna fjársjóð sem var falinn á milli trjánna og klettanna.  En það var ekki það eina, því á meðan leitin að fjársjóðnum stóð yfir máttu nemendur "fella" meðlimi hinna liðanna, með því að rífa af þeim einkennismerki liðsins.  Þegar búið var að útskýra leikinn fyrir krökkunum (og fela fjársjóðinn) þá fengu liðin fyrirmæli um að fela sig á ákveðnum stöðum í skóginum.  Svo var byrjað.  Ekki leið á löngu þar til græna liðinu tókst fyrirhafnarlítið að skila fjársjóðnum á tiltekinn stað.  Hinum liðunum fannst þetta nú ekki nógu gott og báðu um annan leik.  Það var auðsótt.  Halldóra dreif sig aftur af stað með fjársjóðinn, á meðan Unnur tók liðamyndir.  Síðan var aftur öskrað "byrja" og heldur var þessi leikur fjörugri en sá fyrri.  Eins og sjá má af myndunum hér á eftir endaði seinni leikurinn á æsispennandi keppni, þar sem bláa liðið fann fjársjóðinn en með harðfylgi tókst græna liðinu að fella nokkra liðsmenn bláa liðsins, ná fjársjóðnum og standa aftur uppi sem sigurvegarar.
Að keppninni lokinni fengum við okkur kex og Svala og röltum síðan til baka.  Skemmtilegur dagur og skemmtilegar myndir eru hér.  HDH og UMJ