Djúpivogur
A A

Fréttir

Kínverskt hlaðborð Við Voginn

Hið árlega kínverska hlaðborð verður í versluninni Við Voginn, föstudaginn 1. maí kl. 18:00.

Fjölbreyttir réttir, mikið grín.

Við Voginn

30.04.2009

Handverksmarkaður á Djúpavogi

Eins og áður hefur komið fram er von á þremur skemmtiferðaskipum til Djúpavogs nú í sumar og það fyrsta er væntanlegt 1. júní.  Hugmyndin er að hér verði markaður með handverk, hönnun og listmuni frá handverksfólki frá Djúpavogi og Höfn en einnig af öðrum stöðum á Austurlandi. Einnig gæti verið gaman að vera með ýmiskonar mat t.d. sultur, brauð eða annað þess háttar.

Til þess að hægt sé að fá hugmynd um stærð og umfang þessa handverksmarkaðar bið ég alla þá sem áhuga hafa á að selja vörur sínar að hafa samband við undirritaða með því að senda tölvupóst á netfangið bryndis@djupivogur.is eða hringja í síma 478-8228 fyrir 8. maí nk.

Ferða-og menningarmálafulltrúi Djúpavogs
Bryndís Reynisdóttir

30.04.2009

1. maí 2009 - Dagskrá á Djúpavogi

Afl býður félagsmönnum og fjölskyldum þeirra í léttan morgunverð á Hótel Framtíð frá kl.10:00-12:00. Ræðumaður verður Reynir Arnórsson en auk þess flytja nemendur úr tónskóla Djúpavogs tónlistaratriði.

Afl Starfsgreinafélag sendir félagsmönnum sínum og öðru launafólki baráttukveðjur í tilefni dagsins.

 

 

 

30.04.2009

DJÚPAVOGSHREPPUR AUGLÝSIR / SUMARVINNA 2009

Djúpavogshreppur auglýsir vinnu fyrir sumarið 2009:

 

1.    UNGLINGAR

Nemendum í 8., 9. og 10. bekk í Grunnskóla Djúpavogs stendur til boða vinna á vegum sveitarfélagsins sumarið 2009 sem hér greinir:

  8. bekkur: Frá 8. júní til og með 31. júlí:  4 klst. á dag.    Laun skv. kjs. AFLs.
  9. bekkur: Frá 8. júní til og með 31. júlí:  4 klst. á dag.    Laun skv. kjs. AFLs.
10. bekkur: Frá 8. júní til og með 14. ág.:  8 klst. á dag.    Laun skv. kjs. AFLs.

Umsóknarfrestur til 15. maí (umsóknir berist á skrifstofu sveitarfél.)

Einnig verður í boði vinna í hefðbundinni hreinsunarviku fyrir 4. – 7. bekk og mun hún verða auglýst í skólanum.


2.    “STÁLPAÐIR OG STÆÐILEGIR”:            

Djúpavogshreppur auglýsir eftirt. tímabundin sumarstörf til umsóknar:
Auglýst eru allt að 4 störf fyrir 17 ára og eldri við slátt lóða og opinna svæða, hreinsun, snyrtingu o.m.fl. Hluti af störfunum verður við “flokks-stjórn” og skulu áhugasamir taka slíkt fram í umsókn. (Fjöldi flokksstjóra verður ákveðinn, þegar fyrir liggur fjöldi umsækjenda úr Grunnskólanum og úr hópi “stálpaðra og stæðilegra”).  Launakjör skv. kjarasamn. AFLs.

Næstu yfirmenn eru “blómadrottning” og verkstjóri í Þjónustumiðstöð.   

Umsóknarfrestur til 15. maí (umsóknir berist á skrifstofu sveitarfél.)

Æskilegt er að umsækjendur geti hafið störf eigi síðar en í byrjun júní.

Nánari upplýsingar, m. a. um launakjör í síma 478-8288.


Sveitarstjóri

30.04.2009

Öxi laus úr vetrarfjötrum

Nú er tilefni fyrir marga til þess að gleðjast þar sem vegurinn yfir Öxi hefur verið opnaður. Við viljum þó taka það fram að þar er nokkuð hált og vegurinn ber þess merki að snjóa er að leysa. Sem merki um það hversu fær vegurinn er orðinn þá tókst sveitarstjóranum á Djúpavogi að komast yfir á rauða drekanum sínum, DA 704, og var fljótur að því.

Það er góður siður þegar farið er um fjallvegi að fara inn á www.vegagerdin.is og skoða umferðatölur, færð og fleira en við hvetjum fólk til þess að kynna sér aðstæður áður en lagt er af stað.

Við óskum Austfirðingum sem og öðrum vegfarendum til hamingju með þennan ánægjulega atburð.

29.04.2009

Kvenfélagsbingó

Þá er loksins komið að því!

Kvenfélagið Vaka verður með bingó á Hótel Framtíð sunnudaginn 3 maí.

Barnabingó hefst kl 15.00,  spjaldið kostar 400 kr.

Fullorðinsbingó hefst kl 20.30 og spjaldið kostar 600 kr. (miðað við fermingarárið)

Sjáumst hress og kát
Kvenfélagskonur

29.04.2009

Orðsending frá guðföður Hammondhátíðar

Halldór Bragason, oft titlaður guðfaðir Hammondhátíðar Djúpavogs, sendi sveitarstjóranum meðfylgjandi orðsendingu:

Sæll

Þakka innilega fyrir okkur það er heiður og gaman að koma á Hammondhátíð. Skilaðu bestu kveðju til allra velunnara og sjálfboðaliða frá okkur.

Mér þykir mjög vænt um að hátíðin er að festast í sessi og að sjá fólk koma langt að og fara ánægt með góða upplifun gefur okkur byr í seglin næstu ár.

Vona að ég fái að koma næst þetta er orðið svo fastur liður hjá mér. Ef ég get eitthvað aðstoðað ekki hika við að hafa samband.

Með kveðju

 

28.04.2009

Þættinum hefur borizt bréf

Heimasíðunni hefur borist bréf frá Stefáni Bragasyni, hollvini Hammondhátíðar.

Hefst nú lesturinn:

Sælir "Síðuhallar" báðir og bestu þakkir fyrir skemmtilega samverustund.
 
Ég var mér til ánægju að kíkja inn á heimasíðu Djúpavogshrepps og skoða umfjöllun og myndir frá 1. og 2. í Hammond.  Því miður voru myndirnar frá föstudagskvöldinu ekki textaðar, svo utanbæjarmaður eins og ég þekki ekki nærri alla sem þar hafa sogast inn í linsu ljósmyndarans. Svo gera þessi heimatilbúnu „komment“ sitt til að lífga upp á þær og lýsa stemmningunni (aths. ÓB: Að sjálfsögðu tókum við tillit til þess og er nú búið að texta kvöld 2).

Eins bíð ég spenntur eftir að lesa um laugardagskvöldið, þó ég þykist vita að það hafi ekki slegið föstudaginn út. Það voru magnaðir tónleikar með krafti, næmni, spilagleði og gæðum allt í réttum hlutföllum. Þó hrynsveitin væri góð og héldi þessu vel saman, hafði ég enn meira gaman af því að hlusta á og fylgjast með Gumma P. og ekki síður Davíð Þór, sem mér fannst stjarna kvöldsins.  Hann er ótrúlegur drengurinn.  Frú Gröndal stendur líka vel fyrir sínu og gaman að sjá hana taka í Hammondinn. Dóri sjálfur var, eins og snilldarlega var orðað í pistli dagsins, " góður fyrir sinn hatt" og söng og spilaði blúsinn eins og hann er þekktur fyrir, ýmist með eða án höfuðfatsins, en hélt sig að öðru leyti nokkuð til hlés.

Mér þóttu líka góðar fréttir að heyra að þið væruð farnir að huga að kaupum á Hammond og styð ykkur heilshugar í því.  Það væri frábært að eignast slíkt hljóðfæri, amk. ef það er góð græja, með leslie og öllu saman. Ég væri alveg til í að fá að prófa það með ykkur félögum í góðu tómi.

Enn og aftur, bestu þakkir fyrir góða skemmtun. Þið eigið heiður skilið fyrir þetta framtak og vonandi er góð aðsókn nú vísbending um vaxandi gengi hátíðarinnar.  Ég get amk. hælt henni  í hástert eftir þessi tvö ár sem ég hef náð að kíkja á hana. Þarna hafa verið flottir tónlistarmenn á ferð og spilað skemmtilega og á köflum krefjandi tónlist.
 
Góðar kveðjur á Djúpavog
Stefán Bragason

28.04.2009

Kjördagur 2009

Eins og aðrir Íslendingar gengu Djúpavogsbúar til kosninga 25. apríl sl. Mikið líf var í bænum á kosningadaginn, enda viðraði vel til kosninga og kosningaskrifstofur við hvert fótmál. Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn og Vinstri hreyfingin grænt framboð voru með sínar skrifstofur opnar og var mikið rennirí á þeim öllum. Meðfylgjandi myndir tók undirritaður á kosningarölti sínu.

Smellið hér til að sjá þær.

27.04.2009

Hammond 2009 - KK (kosningakvöldið)

Lokakvöld Hammondhátíðar 2009 fór fram á laugardagskvöldið og hófst skömmu áður en fyrstu kosningartölur fóru að berast frá talningarstöðum.

Þeir hörðustu sátu heima og biðu eftir risi eða falli sinna pólitísku stjarna en hinar eiginlegu stjörnur kvöldsins risu á sviðinu á Hótel Framtíð. Mættur var KK með einvala lið; gamlan þjáningabróður sinn, Þorleif Guðjónsson á bassa, stuðboltann Ásgeir Óskarsson á trommur og Jón „óvenjugóða“ Ólafsson á Hammond. Sándið hjá KK er nokkuð auðþekkt en á bakvið það þetta kvöld voru pottþéttir náungar sem gerðu það jafnvel enn betra. KK náði fljótt góðum tökum á salnum og menn voru farnir að panta óskalög löngu fyrir hlé.

Stöðfirska hjartað í nokkrum viðstaddra tók aukakippi þegar leynigestur kvöldsins, Garðar  Harðarson steig á svið. Eins og komið hefur fram í umfjöllun okkar undanfarin ár er Garðar ókrýndur konungur austfirska blúsins og ekki var að sjá annað en að KK kinkaði kolli í viðurkenningarskyni sem og aðrir viðstaddir enda framgangur Garðars honum til mikils sóma.

Óhætt er að segja að tónleikarnir hafi verið vel upp byggðir hjá KK og greinilegt er að hann  er laginn við að byggja upp stemmingu. Eftir hæfilegt hlé og sötrað te mættu þeir félaga tvíefldir til leiks og brátt kom að því að hótelstjórinn fór að sjá eftir því að hafa ekki látið hnykkja alla naglana í þakklæðningunni því þeir vegbúar voru m.a. klappaðir tvisvar upp og sá KK ekki annað í stöðunni í seinna skiptið en að reyna að róa mannskapinn niður með angurværum tónum og um leið sínu allra besta lagi, When I think of angels.

KK og félagar: Hafið heila þökk fyrir komuna og vonandi sjáum við ykkur sem fyrst aftur.

Að öðru leyti vísum við til „væmins“ texta okkar sem tengist kvöldi númer tvö á Hammondhátíð og segjum:

Sjáumst að ári!

Myndir frá laugardagskvöldinu má sjá með því að smella hér.

Texti: BHG / ÓB
Myndir: BHG

27.04.2009

Hammondhátíð 2009 - Barnsskónum slitið

Menn skyldu leggja dagsetninguna 24. apríl 2009 á minnið, því sé tekið mið af aðsókninni, undirtektum gesta og frábærum flytjendum, má sannarlega halda því fram að Hammondhátíðin á Djúpavogi hafi endanlega fest sig í sessi í gær.

Sterk vísbending um þetta kom strax fram á fyrsta kvöldinu hjá Tónlistarfélagi Djúpavogs, sem við sögðum ítarlega frá á heimasíðunni í gær.

Í gærkvöldi urðu fjölmargir heimamenn og álitlegur fjöldi aðkomumanna vitni að einu af best spilandi böndum sem á Hammondhátíð hafa komið. Vissulega hafa margir afburða tónlistarmenn, þau fjögur skipti sem hátíðin hefur verið haldin, heiðrað hana með nærveru sinni. Samstillingin, krafturinn og gleðin sem sem skein út úr leik Landsliðsins var þvílík að salurinn varð strax með á nótunum frá fyrsta lagi og í loftinu lá að þarna væri stór viðburður að gerast.

Landsliðið var mætt. Innanborðs var afskaplega lifandi trommari, Birgir „von Slaghammer“ Baldursson sem hélt mönnum við hrunadansinn. Um takfestu auk hans, sá hinn afskaplega geðþekki bassaleikari, Róbert Þórhallsson. Hammondið þandi hinn óviðjafnanlegi Davíð Þór Jónsson og féll þar hver tónn sem flís við rass. Gítarleikarann Guðmund Pétursson þurfa menn helst að sjá á sviði til að skynja hversu brjálæðislegagóður hann er og er það mat undirritaðra að hann sé á pari við þá allra bestu í heimi hér. Dóri Braga bregst aldrei; pottþéttur söngvari og gerir flókna hluti einfalda og er fyllilega maður fyrir sinn hatt.

Biðin eftir hinni frábæru Ragnheiði Gröndal, sem steig á svið eftir hlé, var fullkomlega hennar virði en hún sannaði sig virkilega sem ein af bestu blússöngkonum landsins og líkamstjáningin var svo sannarlega í lagi. Þar að auki sýndi hún góða takta á Hammondorgelið, enda er hún, eins og flestir vita, afburða píanóleikari.

Aðstandendur heimasíðunnar gætu vissulega haft langt mál uppi til að dásama framgöngu hljómsveitarinnar þetta kvöld, en við teljum að myndirnar og ofangreint eigi að sýna og segja meira heldur en mörg orð.

Þegar menn koma á tónleika sem þessa þá er ekki allt sýnilegt sem að baki þeim stendur. Þörf er á góðum flytjendum og þeir þurfa að hafa brúkleg tæki í höndunum til að koma list sinni á framfæri. Flestir koma með afburðatæki í eigin eigu en önnur eru leigð eða lánuð á staðnum. Má þar nefna trommusett, hluta af magnarakerfi, söngkerfi og síðast en ekki síst Hammondorgelið sjálft, sem í þetta skipti er í eigu Kidda í Hjálmum, en hann hefur reyndar lofað að mæta með bandið sitt á næstu hátíð.

Nú liggur fyrir að falt er hljóðfæri af þessari gerð og hefur vaknað áhugi hér á Djúpavogi að standa að kaupum á því. Miðað við hve rætur Hammondorgelsins eru orðnar sterkar hér á Djúpavogi væri vel við hæfi að tryggja staðnum slíkan grip, þar sem ekkert bendir til annars en að Hammondhátíðin sé komin til að vera.

Heimasíðan minnir á þátt Svavars Sigurðssonar, Herra Hammonds, sem fékk Dóra Braga í lið með sér á sínum tíma og þeir tveir hafa í gegnum góð sambönd tryggt hátíðinni háan gæðastuðul frá upphafi. Upplýsingar um þá sem styrkja hátíðina er að finna á heimasíðu hennar en aðal styrkurinn og stuðningurinn kemur þegar upp er staðið frá fólkinu sem ákveður að gera sér glaðan dag og mætir ár eftir ár.

Í kvöld stígur á stokk sjálfur KK með hljómsveit sína. Nánar um það á heimasíðu Hammondhátíðar, www.djupivogur.is/hammond.

Myndir frá gærkvöldinu má sjá með því að smella hér.

Texti: BHG/ÓB
Myndir: BHG

25.04.2009

Hammondhátíð 2009 - Ekki byrjar það amalega

Hammondhátíð 2009, sú hin fjórða í röðinni, hófst í gær, á sumardaginn fyrsta.

Herra Hammond sjálfur, Svavar Sigurðsson, steig fyrstur á svið og setti hátíðina.

Fyrstu flytjendur þetta kvöld áttu að vera Hjálparsveit organista á Austurlandi; Kári Þormar, Daníel Arason og Einar Bragi Bragason. Þeirra hlutverk var að hita upp fyrir hina mögnuðu stórsveit Tónleikafélags Djúpavogs. Þegar á reyndi forfallaðist Einar Bragi, en það kom ekki að sök, því Kári og Daníel stóðu undir nafni og fluttu fjölmörgum áheyrendum ýmis kirkjuleg og/eða klassísk orgelverk. Kári kvaðst vera að spila á Hammond í fyrsta sinn á ævinni og Daníel steig báruna við virðulegt  Roland apparat. Þeir félagar fóru hægt af stað, en náðu vel til áheyrenda, enda fengu þeir uppklapp að lokum en það er mjög sjaldgæft hjá organistum í  þeirra aðalstarfi. Um kunnáttu þeirra á þessu sviði þarf sannarlega ekki að orðlengja og skiluðu þeir orgelverkunum glæsilega frá sér. 

Eftir á að hyggja hefði þessi hluti tónleikanna einnig átt vel heima í Djúpavogskirkju, en þar sem kreppan olli því að skera þurfti niður um 1 dag, bitnaði það á hefðbundnum lokatónleikum í kirkjunni.

Að loknu stuttu hléi fóru drengirnir í Tónleikafélaginu að stilla upp og eftir örlitla tæknilega örðugleika sem tengdist magnaravandræðum lagði bandið úr vör. Eingöngu karlpeningur var á sviðinu í fyrsta laginu, en strax að því loknu birtust tvær blómarósir frá Djúpavogi og hækkaði þá fegurðarvísitalan á sviðinu um helming.

Aðalsöngvarinn, Kristján Ingimarsson, þreytti einnig frumraun sína á Hammondorgelið og gerði áhorfendum á skemmtilegan og áheyrilegan hátt grein fyrir efni dagskrárinnar með stuttum brotum úr sögu Pink Floyd, en tónlistin var eingöngu ættuð frá þeim félögum. Fór Kristján vel yfir þátt Syd Barrett sem hætti snemma í hljómsveitinni sökum veikrar geðheilsu, og hversu mikið textasmíðar Pink Floyd á tímabili tengdust brotthvarfi Syd. T.a.m. kom fram að lagið Shine on you crazy diamond fjallar um Syd og er skírskotun í nafnið hans í titli lagsins, Shine you diamond = SYD.

Fram kom í upphafskynningu að tónlist Pink Floyd væri ekki fyrir byrjendur og vissulega er ekki „sveifla“ í öllum lögum þeirra. hljómagangurinn er oft flókinn en tónlist Pink Floyd hefur heillað gífurlega marga og meðal annars hafa verið settir upp heilu tónleikarnir hér á Íslandi með efni þeirra félaga, samanber Dúndurfréttir sem er talin ein bezta ábreiðuhljómsveit (cover band)  í heimi. Til þess að gera langa sögu stutta vakti dagskráin mikla hrifningu viðstaddra og stóðu flytjendur sig mjög vel í heild. Hrynsveitin (Óli trommari og Guðmundur Hjálmar á bassa) voru pottþéttir og eru báðir afburða hljóðfæraleikarar. Um gítarleik sáu Jón Ægir (nýrakaður), Ýmir Már (Sonny Seagull) og Jón Einar (Johnny Lonesome). Jón Ægir hefur áður tekið mörg góð gítarsólóin og bætti rósum í hnappagat sitt í gær. Ýmir virkar mjög „kúl“ á sviðinu, yfirvegaður og afslappaður en kann svo sannarlega að teygja strengina.  Jón Einar var meira í hljómaganginum en gerði það af stakri prýði.

Kristján kom á óvart sem Hammondleikari og hefur auk þess náð góðum tökum sem söngvari á efni úr smiðju Pink Floyd. Síðast en ekki síst skal nefna söngdívurnar Írisi og Önnu Margréti sem sungu aðallega bakraddir og gerðu það vel en hvor um sig leiddi söng í einu lagi. Að margra mati hefðu þær mátt þenja raddböndin meira sem slíkar.  Svo heppilega vildi  til að hljómsveitin hafði í pokahorninu tvö uppklappslög og ætlaði þá allt um koll að keyra í salnum.

Margir hafa talið upphafskvöld undanfarinna Hammondhátíða eitt af því sem setið hefur eftir, en þá hefur verið lögð áhersla á að nýta heimamenn til flutnings. Aðsóknin hefur jafnan verið góð á þessi kvöld en í gær sló hún öll fyrri met. Áætlað er að í salnum hafi verið um 100 manns og voru það að lang stærstum hluta heimamenn.

Í kvöld mætir Halldór Bragason með Landsliðið og fara þar fremst í flokki hjónakornin Ragnheiður Gröndal og Guðmundur Pétursson. Allt um það á heimasíðu Hammondhátíðar, www.djupivogur.is/hammond.

Vitað er að þónokkuð af aðkomufólki mun sækja Djúpavog heim á föstudags- og laugardagskvöld og erum við sannfærð um að heimamenn muni ekki láta sitt eftir liggja.

Heimasíða Djúpavogshrepps hefur verið iðin við að birta myndir af Hammondhátíðinni undanfarin ár. Í ár verður engin breyting þar á. Sumum finnst ljósmyndarinn ef til vill of nærgöngull en á móti kemur að „fílingurinn“ á að koma betur í ljós en ella. Í kvöld mun reyna á það hvort ástæða verði talin til umfjöllunar í DV um samskipti hirðljósmyndarans og Dóra Braga, en víst er að þeir skildu að fullu sáttir í fyrra.

Myndir frá gærkvöldinu má sjá með því að smella hér.


Texti BHG/BR
Myndir: BHG

24.04.2009

Hreindýr á flæðiskeri

Síðastliðinn fimmtudag mátti sjá allt að 20 hreindýrum á flæðiskeri við svokallaða Búlandshöfn í Hamarsfirði sem er steinsnar innan við þéttbýlið á Djúpavogi.  Dýrin voru innlyksa á skerinu meðan flóðið gekk yfir en fremur stórstreymt var þennan dag, en þegar fjara tók út, sættu dýrn lagi og runnu í land.  AS

 

 

 

 

 

 

 

 

Áfram Hrafna Hanna Elísa !

Nú eru aðeins fimm keppendur eftir í Idol-Stjörnuleit en keppnin verður sífellt harðari með hverri vikunni. Í kvöld verður þema með lögum sem Björgvin Halldórsson hefur gert vinsæl og ætlar Hrafna að syngja lagið "Hvað vita þeir".

Nú er það skylda okkar Djúpavogsbúa, brottfluttra sem íbúa á staðnum, að taka höndum saman og kjósa Hröfnu áfram og tryggja henni þannig sæti í næsta þætti. Framkoma hennar og flutningur hefur hingað til verið alveg frábær og við viljum að sjálfsögðu sjá þessa efnilegu tónlistarkonu komast áfram í keppninni.  

Eins og fram kom á Hammondhátíðinni í gærkvöldi er búið að setja upp styrktarkassa á Hótel Framtíð þar sem hægt er að gefa framlög til styrktar Hröfnu. Kassinn verður aðgengilegur á komandi viðburðum Hammondhátíðar og hvetjum við alla til að láta eitthvað af hendi rakna til Hröfnu, þar sem þátttaka í keppni sem þessari er sannarlega ekki ókeypis.

Kosningarnúmer Hröfnu í kvöld er 900 9002

Áfram Hrafna Hanna Elísa !!!

 BR

 


Styrktarkassinn góði

24.04.2009

Sendibréf frá 1942

Heimasíðan hefur fengið gamalt og mjög áhugavert bréf í hendur og fékk undirritaður góðfúslegt leyfi hjá Ásdísi Þórðardóttur íbúa á Djúpavogi að birta efni þess hér á síðunni.  Innihald bréfsins er um margt merkilegt og þykir undirrituðum efni þess hæfa sérstaklega vel nú um stundir þegar íbúar þessa lands eru að upplifa mikinn samdrátt í efnahagslífi þjóðarinnar.  Það var afi Ásdísar,  Snjólfur Stefánsson frá Veturhúsum í Hamarsdal sem var viðtakandi þessa bréfs á því herrans ári 1942.   Það er ljóst af lestri bréfsins að umræðan er um margt ótrúlega lík í dag og hefur verið í þá daga þegar bréfið er ritað og vandamálin í raun af svipuðum toga.  
Það hefur sannarlega ekki alltaf dropið smjör af hverju strái í þessu landi,eins og sjá má af lestri bréfsins. 
Í bréfinu eru líka hollar áminningar um hvernig pólitískir flokkadrættir hafa leikið fólkið grátt og aukið á sundurlyndi um sveitir landsins.  Bréfsefnið á því sannarlega við nú um stundir þegar einn dagur er til þess að við göngum til alþingiskosninga.  

Um leið og heimasíðan vill þakka hér Ásdísi fyrir leyfi til að birta þetta bréf, vill síðan hvetja aðra sem kunna að hafa slíkar gersemar undir höndum að koma þeim endilega á framfæri og deila með okkur hér á síðunni. 


Andrés Skúlason

24.04.2009

ÍÞMD / Sundlaugin lokuð sumardaginn fyrsta

Sundlaugin verður lokuð fimmtudaginn 23. apríl (sumardaginn fyrsta).

Gleðilegt sumar
Starfsfólk ÍÞMD

22.04.2009

Við Voginn - Kaffihlaðborð sumardaginn fyrsta

Kaffihlaðborð sumardaginn fyrsta

Rammíslenskt kaffihlaðborð verður haldið sumardaginn fyrsta kl. 15:00.

Í boði verður:

•    rjómapönnukökur
•    vínarterta – randalína
•    ástarpungar
•    rjómaterta
•    smurt flatbrauð
•    brúnterta                                      
•    brauðterta

Verð fyrir fullorðna:   kr 1.150.-
Verð fyrir börn:         kr 500.-

22.04.2009

Hammondhátíð nálgast - Minnum á Hammondvefinn

Hammondhátíð fer fram á Djúpavogi dagana 23. - 25. apríl nk.

Allt um það á Hammondvefnum, www.djupivogur.is/hammond. Hammondvefinn má einnig nálgast hér vinstra megin á síðunni fyrir neðan veftréð.

Auglýsingu fyrir Hammondsíðu má einnig sjá með því að smella hér.

21.04.2009

Bæjarlífið

Meðfylgjandi myndir voru teknar í apríl.

Smellið hér til að skoða þær.

ÓB

21.04.2009

UTANKJÖRFUNDAKOSNING

Til þeirra sem ekki verða heima á kjördag, þann 25. apríl nk. þegar kosið verður til alþingis, geta kosið utankjörfundar á Lögreglustöðinni hér á Djúpavogi, Markarlandi 2, eftir nánara samkomulagi.

Þeir sem ætla að kjósa á þann hátt eru beðnir um að hafa sambandi í síma 893-1559.

Einnig vil ég koma því á framfæri að undirritaður verður að heima föstudaginn 24. apríl nk.

Því hvet ég alla sem verða að heima á kjördag, en ætla að kjósa, að gera það í tíma.


Virðingarfyllst,
Magnús Hreinsson
Lögreglumaður, 9520

20.04.2009

AUGLÝSING UM OPNUN KJÖRSTAÐAR Í DJÚPAVOGSHREPPI

 

AUGLÝSING UM OPNUNARTÍMA KJÖRSTAÐAR Í DJÚPAVOGSHREPPI VEGNA ALÞINGISKOSNINGA, 25. MAÍ 2009

Ágætu íbúar í Djúpavogshreppi !

Athygli er vakin á því að kosið verður þann 25. apríl 2009 til Alþingis í Grunnskólanum á Djúpavogi og hefst kjörfundur kl. 10:00 og lýkur kl. 20:00.

 

Kjörstjórn

20.04.2009

Nýtt fyrirtæki á Djúpavogi

Nú á dögunum var stofnað nýtt fyrirtæki hér á Djúpavogi. Fyrirtækið heitir Rafstöð Djúpavogs ehf. og er í eigu Guðjóns Viðarssonar og Kára Valtingojer. Höfðu þeir félagarnir áður starfað hjá Raflögnum Austurlands með aðsetur hér á Djúpavogi en ákváðu fyrir nokkru að stofna eigið fyrirtæki.

Fyrirtækið veitir víðtæka þjónustu á sviði rafmagnsmála auk þess sem það selur helstu hluti tengda rafmagninu. Þar að auki bíður Rafstöð Djúpavogs upp á tölvuþjónustu.

Rafstöð Djúpavogs er enn til húsa í Hammersminni 4b en Guðjón og Kári keyptu þá eign af Raflögnum Austurlands.

Undirritaður er lengi búinn að ætla að heimsækja þá á verkstæðið, en það er einfaldlega búið að vera svo mikið að gera hjá þeim að nánast ógjörningur hefur reynst að ná þeim þar saman þar til í dag.

Oddviti Djúpavogshrepps, Andrés Skúlason, kíkti við hjá þeim í dag til að óska þeim til hamingju og eins að biðja þá um að kíkja á símann hjá sér, sem er búinn að vera í einhverju ólagi.

Fréttasíðan óskar þeim Kára og Guðjóni innilega til hamingju með fyrirtækið og velfarnaðar í starfi.

Myndirnar fyrir neðan voru teknar í heimsókn til Rafstöðvar Djúpavogs í dag.

 


F.v. Guðjón Viðarsson, Andrés Skúlason og Kári Valtingojer. Hvað skyldi annars vera að símanum?Verkstæði Rafstöðvar Djúpavogs


Kári glaðbeittur


Hluti lagersins


Kári dittar að þakinu

17.04.2009

Leikskólabörn á labbi

Í dag, sem og síðustu daga hefur verið dandalablíða hér á Djúpavogi. Í morgun mátti sjá leikskólabörn í labbitúr í góða veðrinu og var ekki annað að sjá en að blessuð börnin kynnu vel að meta vorið, sem Djúpavogsbúar vilja meina að sé komið - í bili allavega.

Myndir má sjá með því að smella hér.

ÓB

Fræðakistillinn

Í dag fengum við í grunnskólanum góða gesti í heimsókn.  Það voru þau Þórunn Eymundardóttir, framkvæmdastjóri Skaftfells, miðstöðvar myndlistar á Austurlandi og Helgi Örn Pétursson, myndlistarmaður og forvörður.  Tilgangur heimsóknarinnar var að vígja svokallaðan Fræðakistil sem er samstarfsverkefni Skaftfells og Tækniminjasafns Austurlands.  Reyndar hafði kistillinn fengið prufukeyrslu í Seyðisfjarðarskóla í gær en formleg vígsla fór fram hér hjá okkur.  Með þeim Þórunni og Helga í för voru fréttamenn frá RÚV, sem tóku herlegheitin upp og er stefnt að því að sýna frá vígslunni í Kastljósi annað kvöld.
Nemendur 7. og 8. bekkjar voru svo heppnir að verða fyrir valinu og var mjög gaman að fylgjast með krökkunum.  Ýmsar tilraunir voru gerðar, m.a. kveikt á díóðuljósi með því að nota kopar og zinkplötur, ásamt sítrónu.  Einnig framleiddu þau rafmagn, könnuðu segulsvið, bjuggu til einfaldan mótor úr rafhlöðu. skrúfu og segli og margt fleira.  Eftir hádegið fengu nemendur 9. og 10. bekkjar að spreyta sig.
Kistillinn verður hjá okkur fram á mánudag og fá nemendur 1.-6. bekkjar að kíkja á hann á morgun og á mánudag.  Frá okkur fer kistillinn yfir í Grunnskóla Breiðdalshrepps og síðan heldur hann áfram í alla skóla á Austurlandi.
Myndir eru hér og hér fyrir neðan má sjá nánari skýringu á tilurð fræðakistilsins.  HDH

Fræðakistillinn - Fræðsluverkefni veturinn '08 - '09 
Fræðakistillinn er samstarfsverkefni Skaftfells og Tækniminjasafns Austurlands og er jafnt liður í safnakennslu Tækniminjasafnsins og fræðslustarfi Skaftfells. Um er að ræða farandverkefni fyrir eldri bekki grunnskóla en verkefnið mun einnig nýtast öðrum aldurshópum. Fræðakistillinn er ferðakistill sem inniheldur safn verkefna sem nemendur að leysa af hendi með aðstoð kennara þar sem unnið er með undur og dásemdir tækni, myndlistar og mannshugans.
Tengslin á milli lista og vísinda eru megin þema verkefnisins. Fjallað verður lauslega um helstu uppgötvanir og uppfinningar sem nútíma rafeindatækni byggist á og hlut skapandi hugsunar og uppgötvana í myndlist og vísindum. Efnið byggist á nokkrum litlum verkefnum þar sem unnið verður með raunverulegan búnað og einnig verður notast við myndir og texta til skýringar. Gert er ráð fyrir að kistillinn muni skýra sig sjálfur og þarfnist ekki mikilla leiðbeininga. Kistillinn er ekki stærra en svo að vel rúmist í skottinu á venjulegum fólksbíl.  Kistillinn er ekki þyngri en svo að einn fullorðinn maður eða tvö hálfstálpuð börn geta borið hann. Þegar kistillinn er opnaður kemst hann komast fyrir á gólffleti sem er hið minnsta 3 sinnum 1.5 metrar með venjulega lofthæð ( getur vel notað stærra pláss einnig). Ekki er þörf á neinum aukahlutum né sérþekkingu til þess að vinna með kistilinn en gert er ráð fyrir því að notendur hafi aðgang að 240 volta riðstraum.
Kistillinn er hannaður í smiðju Tækniminjasafni Austurlands. Skaftfell tekur þátt í hönnun kistilsins og hefur umsjón með myndlistarþætti hans. Pétur Kristjánsson, safnstjóri Tækniminjasafns Austurlands og myndlistarmaður, Helgi Örn Pétursson, myndlistarmaður og forvörður, Kristín Dýrfjörð, emilio regio sérfræðingur, Hildigunnur Birgisdóttir, myndlistarmaður og kennari við Myndlistaskólann í Reykjavík, Bjarni Sigurbjörnsson, myndlistarmaður og smiður og Pétur Magnússon, myndlistarmaður og smiður komu öll að hönnun, þróun og smíði kistilsins.

 

 

 

 

 

Djúpavogshreppur - Kjörskrá

Kjörskrá fyrir Djúpavogshrepp vegna Alþingis-kosninga 25. apríl 2009 mun liggja frammi á skrifstofu sveitarfélagsins að Bakka 1 frá 17. apríl til 24. apríl 2009 á opnunartímum alla virka daga frá kl. 08:00 til kl 16:00.

Sveitarstjóri

16.04.2009

Sveitarstjórn - Fundargerð 15. apríl 2009

Fundargerðina má nálgast með því að smella hér.

16.04.2009

Ferðafélag Djúpavogs - Melrakkaneshellar

Ferðafélag Djúpavogs fór í Melrakkaneshellana á Páskadag, 12.apríl. 33 fóru í ferðina, sem er alveg frábært, en hópurinn dreyfðist dálítið þannig að sumir gengu framhjá hellunum. Stærsti hellirinn er um 30 metra langur og alveg manngengur eftir að komið er inn.

Myndir má sjá með því að smella hér.


Sunnudaginn 19. apríl förum við Ósnes – Stekká og verður það síðasta sunnudagsgangan á þessu vori, því nú fer Ferðanefndin 2009 að auglýsa sínar ferðir.

16.04.2009